Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 08060022

 

Þann 3. júní 2009 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

 

ÚRSKURÐUR:

 

Ráðuneytinu bárust stjórnsýslukærur þann 14. júní og 16. júní 2008, vegna starfsleyfisskilyrða fyrir Granir ehf. vegna starfsleyfis til að starfrækja hreinsivirki og svínabú að Brautarholti, Kjalarnesi. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftirtaldir aðilar sendu inn kærur: Þórarinn V. Þórarinsson hdl. f.h. Grana ehf. og Kristinn Bjarnason hrl. f.h. Bjarna Pálssonar, Kjalarnesi.

I. Málavextir og hin kærða ákvörðun.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 30. apríl 2008 starfsleyfi til handa Grönum ehf. til að starfrækja hreinsivirki og svínabú að Brautarholti.

Forsaga málsins er sú að Brautarholt I var upphaflega hluti jarðarinnar Brautarholts, sem hefur nú verið skipt milli sameigenda í Brautarholt I og II. Svínabú það sem um ræðir er í landi sem upphaflega tilheyrði Brautarholti II. Hefur svínabú verið rekið í því landi um langt skeið. Árið 1998 fékk þáverandi rekstraraðili leyfi til að stækka við búið með vísan til undanþágureglu í 3. mgr. 137. gr. þáverandi heilbrigðisreglugerðar nr. 147/1990, en íbúðarhús annars kæranda er í 325 m fjarlægð frá Svínabúinu, þ.e. innan þeirra 500 m sem krafist var sem fjarlægðar skv. framangreindu ákvæði. Íbúar Brautarholts I voru andvígir þessari undanþágu. Tillaga að starfsleyfisskilyrðum fyrir Svínabúið í Brautarholti var í framhaldi samþykkt af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og kærðu þáverandi íbúar Brautarholts I útgáfu starfsleyfisins til umhverfisráðherra. Umhverfisráðherra staðfesti útgáfu starfsleyfisins með úrskurði sínum. Starfsleyfið var endurskoðað árið 2002 og þá framlengt til 19. nóvember 2007. Eins og fram hefur komið samþykkti heilbrigðisnefnd Reykjavíkur á fundi sínum þann 30. apríl 2008 starfsleyfi til handa Grönum ehf. til að starfrækja hreinsivirki og svínabú að Brautarholti.

II. Kærufrestur og nýr rekstraraðili.

Kærur bárust ráðuneytinu ekki innan lögboðins kærufrests en hann rann út 14. maí 2008, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir en skv. lögunum er kærufrestur tvær vikur frá ákvörðun. Í máli þessu liggur fyrir að kæranda, Bjarna Pálssyni, var ekki tilkynnt formlega um útgáfu starfsleyfisins en skv. gögnum málsins barst honum tölvupóstur með upplýsingum um útgáfu þess þ. 3. júní 2008. Kærandi, Granir ehf., kveðst ekki hafa fengið tilkynningu um ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrr en 28. maí 2008. Starfsleyfishafa var ekki tilkynnt formlega um útgáfu starfsleyfisins en skv. 26. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, ber að tilkynna umsækjenda um starfsleyfi sem og þeim sem gert hafa athugasemdir bréflega um ákvörðun um starfsleyfi. Í því bréfi ber að upplýsa um rétt til rökstuðnings sem og um heimild til að skjóta ákvörðuninni til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Ráðuneytið lítur svo á að kærufrestur hafi liðið 2 vikum eftir að kærendum barst tilkynning um útgáfu starfsleyfis. Í þessu tilviki telur ráðuneytið að miða beri við að  kærendum hafi borist tilkynning um starfsleyfið þann 3. júní 2008 og að kærufrestur hafi því runnið út 2 vikum síðar eða 18. júní 2009. Í ljósi þessa telur ráðuneytið rétt að líta svo á að báðar kærur hafi verið fram komnar innan lögbundins kærufrests.

 

Annar kæranda, Bjarni Pálsson, gerir athugasemd við það að rekstraraðili hins kærða starfsleyfis, Granir ehf., hafi nú selt eignir og rekstur svínabúsins í Brautarholti til annars rekstraraðila, Svínabúsins Brautarholti ehf. Telur kærandi að  þar sem hinn nýi rekstraraðili, Svínabúið Brautarholti, hafi ekki sótt um að hið umdeilda starfsleyfi sé fært yfir á hann beri að fella hið umdeilda starfsleyfi úr gildi. Í athugasemdum Svínabúsins Brautarholti ehf. við umsögnum við kærur kemur fram að hinn nýji rekstraraðili hafi tekið við forsvari kærumálsins og að hin kærðu efnisákvæði starfsleyfisins muni eiga við um hinn nýja rekstraraðila. Ráðuneytið lítur skv. framansögðu svo á að Svínabúið Brautarholti eigi lögvarða hagsmuni í kærumálinu og hafi tekið yfir málarekstur Grana ehf. að öllu leyti. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur starfsleyfið ekki verið fært yfir á hinn nýja rekstraraðila, sbr. 2. mgr. 27. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999 þó svo að fyrir liggi umsókn rekstraraðila þar um. Bíður það frekar úrvinnslu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.  Hér á eftir verður vísað til Grana ehf. og þeirra sem tóku við rekstri svínabúsins sem rekstraraðila.

 

III. Kæruatriði og umsagnir um þau.

Annar kæranda, Bjarni Pálsson, ábúandi Brautarholts I, gerir athugasemdir við mengunarvarnir svínabúsins, skort á gögnum, dreifingu svínamykju sem og of mikinn fjölda dýra.

Rekstraraðili svínabúsins í Brautarholti gerir athugasemdir sem lúta að skilgreiningu fullorðinna dýra í svínabúinu, mörkum lyktarónæðis, útreikningum á lyktarmengun og mælingum á lykt sem og því að kæranda sé gert að fylgja kröfum sem gerðar eru til nýbyggðra svínabúa í Danmörku.

 
1. Skilgreining á fullorðnum dýrum.

 

Kærandi sem er rekstraraðili svínabúsins, krefst þess að  skilyrði 1.1 í starfsleyfisskilyrðum hins útgefna starfsleyfis verði breytt svo að miðað verði við að fullorðin dýr teljist 30 vikur eða eldri. Telur kærandi að sú viðmiðun hafi verið í eldra starfsleyfi frá 2002 en skv. umræddu skilyrði í hinu nýja starfsleyfi teljast fullorðin dýr þau sem eru 6 mánaða eða eldri. Þessi nýja skilgreining á því hvað teljast vera fullorðin dýr muni hafa í för með sér að rekstraraðili verði að skerða framleiðslugetu svínabúsins ef halda eigi uppi þeim sóttvörnum, sem felast í því að hafa allt uppeldi undaneldisgripa á efra búinu eins og nú sé.

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda er svínabúið nú starfrækt í tveimur byggingum. Fram kemur að önnur þeirra sé yfir 20 ára gömul og hafi í upphafi hýst bæði gotdeildir og eldi á svínum til slátrunar. Neðri byggingin, og sú nýrri hýsi nú eldi sláturdýra. Úr þessu eldi sláturdýra hafi verið valin dýr til undaneldis sem flutt séu á efra búið þegar þau hafi náð kynþroskaaldri. Kærandi kveðst hafa á árinu 2007 ákveðið að hætta flutningi undaneldisgripa frá neðra búi yfir á það efra. Hafi gripir þess í stað verið valdir í gotdeildum og þeir síðan aldir upp áfram á efra búinu uns þeir hafi komið inn í framleiðslu og flust í fangdeild og síðar gotdeildir búsins. Telur kærandi að með þessu sé verið að klippa á smitleiðir frá neðra búi yfir á það efra. heilbrigðisnefnd Reykjavíkur gerði með bréfi dags. 14. desember 2007 kröfu um að fullorðnum dýrum yrðu fækkað til þess að fjöldi þeirra yrði innan marka starfsleyfis, á þeim tíma hafi verið heimild fyrir 680 fullorðnum dýrum í húsunum en við talningu hafi komið í ljós að þau hafi verið 687. Kærandi mótmælti þessum kröfum í bréfi dags. 31. desember 2007, m.a. í ljósi þess að fulltrúi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hafi talið sem fullorðin dýr 27 unggyltur sem samkvæmt kæranda hafi ekki verið orðnar kynþroska. Kærandi telur að það að skilgreina kynþroskaaldur fullorðinna dýra við 26 vikur, þ.e. 6 mánuði, fari bæði gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og lögmætisreglunni. Kærandi telur að stjórnvaldi sé aðeins heimilt að grípa til ráðstafana sem þessara séu fyrir því knýjandi ástæður.

Kærandi telur að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi ekki haldið því fram að ástæðan fyrir því að miðað hafi verið við lægri kynþroskaaldur sé að þörf sé á því að takmarka framleiðslugetu búsins frá því sem hafi verið þegar fyrra starfsleyfi hafi verið gefið út. Kærandi bendir ennfremur á að núverandi fyrirkomulag uppeldis undaneldisgripa miði ekki að aukinni framleiðslu, heldur eingöngu að því takmarki að auka heilbrigði bústofns og framleiðslu. Ennfremur rökstyður kærandi kröfu sína þannig að hann hafi gripið til áðurnefndra smitvarna í gildistíma eldra starfsleyfis, en í því starfsleyfi hafi engin ákvæði verið um hvað teldust fullorðin dýr. Að auki sé það staðreynd að í fyrstu drögum að starfsleyfinu hafi verið miðað við að öll dýr eldri en fjögurra vikna teldust til fullorðinna dýra en í síðari drögum að starfsleyfinu séu öll dýr eldri en 26 vikna skilgreind sem fullorðin og sé þetta til vitnis um það að eldra starfsleyfi hafi ekki falið í sér slíka takmörkun.

Kærandi kveðst ekki þekkja til eldri umsókna um starfsleyfi og það hafi því enga þýðingu fyrir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur að tefla fram þeim rökum nú að upphaflega hafi verið stefnt að því að hafa „550 virkar ársgyltur“ á svínabúinu enda liggi fyrir í málinu að fjöldi virkra gyltna hafi árum saman verið u.þ.b. 630. Hafi kærandi, sem keypti búið árið 2007, átt að geta treyst því að þau mörk sem voru í eldra starfsleyfi væru gild. Enn fremur verði rammi starfsleyfa ekki þrengdur með vísan til gagna sem ekki hafa verið birt sem hluti leyfisins.

Kærandi vísar til þess að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi í bréfi í janúar 2008 staðfest að svínabúið starfaði á einu starfsleyfi og að ekki yrði fallist á að mismunandi reglur giltu um stök hús í svínabúinu. Þannig gæti heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ekki haldið því fram að uppeldi ásetningsdýra á efra búi leiði til þess að lyktarmengun aukist í neðra húsi. Þá bendir kærandi einnig á að þegar neðra húsið var byggt þá hafi það uppfyllt allar reglur um mengun og hafi fjöldi dýra verið mun meiri þá en nú sé. Ekki sé hægt að halda því fram að bygging efra hússins árið 1999 skerði nýtingarrétt eldra búsins og að uppeldi ásetningsgripa takmarkist við það að nýja húsið hafi verið byggt.

Kærandi telur ennfremur að hin nýju viðmið fyrir því hvenær grís telst fullorðinn takmarki fjölda unggyltna um einungis 4% eða um 20 – 30 gripi. Séu áhrif á lyktarútstreymi frá efra húsi óveruleg og áhrif takmörkunarinnar á rekstarhæfi búsins í engu samræmi við ávinning í mengunarvörnum.

Kærandi gerir að lokum athugasemd við það að heilbrigðisnefnd skilgreini 6 mánuði sem 24 vikur sbr. erindi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur til Grana ehf. dags. 2. júní 2008. Í  skilyrði 1.1 í hinu kærða starfsleyfi sé miðað við 6 mánaða dýr og telur kærandi að almennt sé miðað við að í hverjum mánuði séu 4.33 vikur og að 6 mánaða dýr séu þ.a.l. 25.98 vikna gömul.

Í umsögn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur segir að ekki sé unnt að fallast á þau sjónarmið að kærandi verði annað hvort að draga úr framleiðslu búsins eða falla frá smitvörnum í búinu verði skilgreiningu fullorðinna dýra ekki breytt. Hljóti kærandi að þurfa að viðhafa fullnægjandi smitvarnir við rekstur svínabúsins, hvort sem búið sé stórt eða smátt og að auki sé það ekki í verkahring heilbrigðisnefndar að hafa gát á smitvörnum gagnvart húsdýrum. Sé þannig eina lögmæta sjónarmið heilbrigðisnefndar við ákvörðun á því hvenær dýr teljist fullorðin vera út frá mengunarvörnum. Þannig miðist matið við það hvenær dýr séu farin að valda mengun á við fullorðin dýr en ekki við það hvenær þau séu kynþroska eða ekki. Heilbrigðisnefnd bendir einnig á að í kjölfar þvingunaraðgerða gagnvart búinu árin 2002 og 2003 hafi náðst samkomulag við rekstraraðila um skilgreiningu heilbrigðisnefndar. Skipti þannig engu máli varðandi mengun einstakra dýra hvort farið sé að nota það til framleiðslu eða ekki.

Í umsögn Matvælastofnunnar segir að talning fullorðinna gripa í starfsleyfi geti ekki tekið mið af fyrirfram ákveðnum aldri gyltna og galta. Verði að taka mið af öðrum þáttum í þessu samhengi. Kynþroskaaldur gyltna sé mismunandi og taki m.a. mið af kyni svína, umhverfisaðstæðum og fóðrun. Sé eðlilegt að miða við fjölda ársgyltna þegar fjallað sé um fjölda gyltna á hverju búi fyrir sig. Sé með þessu verið að tala um gyltu sem hafa gotið á 12 mánaða tímabili og þá meðtaldar þær gyltur sem hafa verið sæddar eða þeim verið haldið. Þannig megi því skilgreina fullorðnar gyltur sem gyltur + unggyltur. Unggyltu hafi verið haldið og hún sædd en hún hefur ekki gotið en gylta hefur gotið a.m.k. einu sinni. Teljist þessar gyltur því með þegar hópstærð sé ákvörðuð en síðar sé gyltum skipt upp í hópa eftir því hvar í gothringnum þær séu staddar. Fjöldi hópa sé 21 á hverju svínabúi sem styðst við að got séu í hverri viku. Ef hópstærð gotgyltna sé 30 og sú tala margfölduð með 21 viku til að finna út heildarfjölda virkra gyltna á búinu, sé útkoman 630. Fari endurnýjun gyltna fram með innkomu ásetningsgyltna í hópinn, þ.e. þegar þær hafi verið sæddar og kallist þá unggyltur. Sé stærð hópsins viðhaldið við tilhleypingu, eftir fráfærur og sé þá eldri gyltum slátrað um leið. Matvælastofnun telur í ljósi þessa að eðlilegt sé að miða við að gylta sé fullorðin þegar hún telst hluti af þeim gyltuhóp sem ákvarðar fjölda gyltnanna á búinu hverju sinni. Þannig þarf gyltan að vera kynþroska og henni haldið svo hún teljist fullorðin. Telur Matvælastofnun þ.a.l. að ekki sé rökrétt að skilgreina fullorðin dýr og þ.a.l. hámarksfjölda við dýr sem eru 6 mánaða og eldri. Matvælastofnun gerir að auki alvarlegar athugasemdir við þá kröfu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að flytja skuli eldi ásetningsgyltna aftur niður á neðra bú. Það að skilja rekstur svínabúsins í efra bú og neðra bú hafi verið fallið til þess að bæta heilbrigði dýranna sem og gæði afurða búsins. Hafi náðst afar góður árangur með þessari aðferð m.t.t. lungnaheilbrigði dýra þar sem smitleið frá grísum yfir í gyltur sé rofin með aðskildu uppeldi ásetningssgyltna. Matvælastofnun leggst því alfarið gegn því að flytja eldi ásetningsgyltna aftur niður á neðra búið. Vísar stofnunin í því samhengi til markmiða laga um búfjárhald nr. 103/2002 og reglugerðar nr. 219/1991 um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit á svínabúum. Matvælastofnun telur því að endurskoða beri skilgreiningu á fullorðnum dýrum, sbr.  skilyrði 1.1 í starfsleyfisskilyrðum Svínabúsins Brautarholti ehf. á þá leið að gylta teljist fullorðin þegar hún verður hluti af gyltuhópnum sem ákvarðar fjölda gyltna á búinu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að skilgreining á fullorðnum dýrum sé sett til að undirstrika þá breytingu sem gerð hafi verið á heildarfjölda dýra á búinu. Sé tilgangurinn sá að veita rekstraraðila svigrúm til að viðhalda að jafnaði 550 gyltum á búinu með því að leyfa heildarfjölda 680 dýra auk þess sem rekstraraðili hafi ekki sótt um aukningu á hámarksfjölda gyltna við endurnýjun starfsleyfis. Umhverfisstofnun telur því ekki efni til að fallast á kröfu kæranda.

Kærandi kveðst gera athugasemdir við þær fullyrðingar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að í tilgreindri takmörkun við fjölda fullorðinna dýra felist önnur þrengri regla, þ.e. að ákvæði um hámarksfjölda fullorðinna dýra á efra búi þýði raunverulega að fjöldi gyltna megi eingöngu vera 550. Eigi þessi fullyrðing sér ekki stoð í útgefnu starfsleyfi. Að auki gerir kærandi athugasemd við að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur telji sig ekki hafa í verkahring sínum smitvarnir gegn húsdýrum enda hljóti kröfur aðila um ástand heilbrigðis- og umhverfismála að vera samþættar þannig að ein eftirlitsstofnun geti ekki gert kröfur sem stefni að rýrari árangri á verksviði annarra eftirlitsstofnana. Kærandi telur að auki að Umhverfisstofnun hafi fengið rangar upplýsingar um starfrækslu búsins, þ.e. að skilgreiningu á umfangi starfsemi efra bús hafi verið breytt árið 2002 þannig að miðað væri við 680 fullorðin dýr. Hér hafi verið farið rangt með þar sem það hafi verið árið 2007 sem þessi breyting var gerð. Telur kærandi að Umhverfisstofnun sé þannig ranglega upplýst um málavexti þegar hún segir að 680 dýra ramminn hafi verið tilgreindur til að bregðast við breytingum í rekstri árið 2002 til að auka heilbrigði, en þessar aðgerðir hafi sætt andstöðu heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar. Ítrekar kærandi að stærð búsins sæti öðrum takmörkunum auk takmarkana um fjölda fullorðinna dýra, þ.e. grísaframleiðsla sé takmörkuð sem og heildarfjöldi í eldishúsi. Séu engar óskir um breytingar á þessum viðmiðum. Kærandi kveðst hins vegar vel geta fellt sig við athugasemdir Matvælastofnunar sem séu settar fram af þekkingu.

 

2. Áskilnaður um að svínabúið fullnægi dönskum kröfum.

 

Kærandi, Svínabúið Brautarholti, gerir athugasemdir við  skilyrði 7.2 í starfsleyfi svínabúsins en skv. því skilyrði er gerð krafa um að kærandi láti meta styrk og dreifingu lyktar skv. aðferðum og viðmiðum sem lýst er í danskri skýrslu: „Faglig rapport vedrørende en ny lugtvejledning for husdyrbrug“ sem gefin er út af danska umhverfisráðuneytinu í desember 2006. Kærandi gerir athugasemdir við það að miða skuli mörk lyktarónæðis svínabúsins að Brautarholti við mörk sem tilgreind séu í kafla 4.3 í hinni dönsku skýrslu og vísar kærandi hvað þetta varðar til þess að þau mörk sem sett séu í skýrslunni eigi við um ný svínabú og verði ekki gagnrýnislaust tekin upp í starfsleyfi fyrir starfandi svínabú eins og fram komi í umræddri skýrslu. Kærandi telur það brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að hann sé látinn fylgja reglum hinnar dönsku skýrslum sem enginn samkeppnisaðili hans þurfi að sæta. 

 

Kærandi rökstyður kröfur sína enn fremur svo að hann verði bráðlega í beinni samkeppni við danska framleiðendur svínakjöts vegna innflutnings á fersku svínakjöti. Það sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að gera honum að fylgja harðari reglum um lyktarónæði en samkeppnisaðilar hans í Danmörku og á Íslandi þurfa að búa við. Mikið fé sé bundið í svínabúinu og sé sú fjárfesting grundvölluð á væntingum um að búið verði rekið áfram á þann hátt sem nú sé. Að auki sé búið á svæði sem sé skipulagt sem landbúnaðarsvæði og langt frá þéttbýli. Kærandi kveðst líta svo á að hann njóti verndar 75. grein stjórnarskrárinnar sem verndi atvinnufrelsi manna sem og fjölda annarra lögfestra og ólögfestra meginreglna. Því sé eðlilegt að endurskrifa grein 7.2 í hinu nýja starfsleyfi svo að um svínabúið í Brautarholti verði látin gilda sömu viðmið og starfandi svínabú í Danmörku.

 

Í umsögn heilbrigðsnefndar Reykjavíkur segir að rekstur svínabús í Brautarholti eigi að lúta strangari reglum um mengunarvarnir en venjulegt sé, enda hafi búið fengið undanþágu frá fjarlægðarmörkum frá íbúðarhúsnæði eins og fram hafi komið í úrskurði bæði Hollustuverndar ríkisins og umhverfisráðuneytis. Hafi rekstraraðilar fallist á slík skilyrði og þau aldrei fallið niður heldur hafi þau ítrekað verið staðfest af stjórnvöldum. Heilbrigðisnefndin tekur að auki fram að starfsleyfisskilyrðin gildi fyrir allt búið, en ekki hluta þess og að krafa nefndarinnar hafi frá upphafi verið að fullnægjandi mengunarvarnabúnaður væri á öllu búinu. Hafi rekstraraðili búsins staðfest þennan skilning þegar hann hafi kynnt fyrirætlanir sínar um mengunarvarnarbúnað við nefndina. Að auki hafi heilbrigðisnefndin ekki samþykkt þann mengunarvarnarbúnað sem rekstraraðili hafi sett upp, heldur hafi verið fallist á að rekstaraðili gæti farið þær leiðir sem hann teldi bestar, svo lengi sem sýnt yrði fram á að virkni búnaðarins væri fullnægjandi. Endurspegli ákvæði 7.2 í starfsleyfisskilyrðunum þetta sjónarmið nefndarinnar. Hvað varðar kvörtun kæranda undan því að skilyrði þau sem séu sett séu miðuð við nýbyggð svínabú í Danmörku en ekki eldri bú bendir heilbrigðisnefnd á að áður en svínabúið að Brautarholti hafi verið stækkað og ný hús byggð hafi rekstraraðilum verið ljóst, og þeir fallist á að gerðar yrðu til þeirra ríkari kröfur en ella varðandi mengunarvarnir vegna mikillar nálægðar við íbúabyggð. Hafi rekstraraðila átt að vera ljóst að hann yrði að haga byggingum svo að hægt yrði að koma fyrir fullnægjandi mengunarvarnarbúnaði. Heilbrigðisnefndin telji þannig að þær kröfur sem settar séu fram í starfsleyfisskilyrðum séu ekki íþyngjandi fyrir búið umfram það sem eðlilegt geti talist. Hvað varðar stjórnarskrárvarin réttindi ákærða, þ.á m. 75. og 72. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og eignarrétt bendir heilbrigðisnefnd á að margoft hafi verið fjallað um málið af þar til bærum stjórnvöldum og fallist á að gera bæri meiri kröfur um mengunarvarnir fyrir búið en gangi um sambærileg bú, hvort heldur sem slík svínabú kunni að vera í Danmörku eða á Íslandi.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að markmið 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé að tryggja landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Í 5. gr. a laganna segi að atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun skuli hafa gilt starfsleyfi. Skuli skv. 2. mgr. 12. gr. sömu laga vera í starfsleyfum ákvæði sem tryggi að atvinnurekstur sé þannig úr garði gerður að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar og að beitt séu bestu fáanlegu tækni. Telur Umhverfisstofnun að af þessu leiði að skylda hvíli á stjórnvöldum að sjá til þess að ríkar kröfur séu gerðar í starfsleyfi til að koma í veg fyrir mengun. Megi gagnálykta svo frá 12. gr. stjórnsýslulaga að íþyngjandi ákvörðun þurfi að vera fallin til þess að ná því lögmælta markmið sem stefnt sé að. Sé í  skilyrði 7.1 í hinu kærða starfsleyfi gerð krafa um að rekstraraðili geri allt sem í hans valdi standi til að draga úr ónæði af völdum lyktar frá starfseminni sbr. kröfur um strangar mótvægisaðgerðir sem hafi verið staðfestar í úrskurði umhverfisráðherra árið 2000. Í þeim kröfum hafi falist að gerðar voru kröfur á hendur rekstraraðila að halda lyktarmengun í skefjum. Umhverfisstofnun telur að þessi skilyrði séu ekki svo íþyngjandi að þau brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar sem þau stuðli að því að ná því lögmæta markmiði sem að sé stefnt með lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og þeim reglugerðum sem settar séu á grundvelli þeirra laga. Ennfremur telur Umhverfisstofnun að ekki sé óeðlilegt að gera meiri kröfur hvað varðar lyktarmengun vegna fjarlægðarundanþágu svínabúsins frá nærliggjandi íbúðarhúsum og því ekkert því til fyrirstöðu að miða útreikninga mengunar við viðmið sem gilda um nýbyggð svínabú í Danmörku. Umhverfisstofnun tekur sérstaklega fram að að stofnunin telur rétt að skilja  skilyrði 7.2 svo að notast eigi við þau viðmið sem þar koma fram en að skilyrðið áskilji ekki að kærandi fullnægi skilyrðum sem gerðar séu til nýbyggðra svínabúa í Danmörku. Þegar niðurstöður útreikninga skv.  skilyrði 7.2 liggi fyrir verði það metið hvort kærandi þurfi að grípa til einhverra aðgerða.

 

Í athugasemdum kæranda segir að í kröfum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur felist að þeir sem hafi byggt neðra svínabúið fyrir 10 árum síðan hafi átt að gera sér grein fyrir því hvaða kröfur yrðu gerðar til slíkra bygginga á sérhverjum tíma í framtíðinni og skyldi búið jafnan fullnægja því sem nýjast væri á hverjum tíma. Slíkar kröfur séu fjarstæða og ekki hægt að gera meiri kröfur en að byggingar uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til þeirra á byggingartíma, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Að auki bendir kærandi á að ágreiningur virðist vera uppi milli heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar hvað varðar túlkun á  skilyrði 7.2 í hinu kærða starfsleyfi, þ.e. hvort viðmið þau sem fram komi í skilyrðinu eigi að gilda án fyrirvara um það hvort kostnaður við að draga úr lykt svo fullnægi kröfum til nýrra danskra búa sé úr hófi fram. Kærandi bendir á að hann ber sig ekki undan því að mæla dreifingu skv. gildum hinnar dönsku skýrslu heldur geri hann athugasemdir við að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur áskilji sér rétt til þess að beita ekki meðalhófsreglu við mat á því hvaða aðgerða skuli grípa til, til að sporna gegn lyktarmengun. Kveðst rekstraraðili því vilja að afstaða Umhverfisstofnunar verði fest í sessi í starfsleyfisskilyrðunum, þ.e. að danska skýrslan í heild sinni verði viðmiðið fyrir útreikningnum og kröfum og þá hvað sé raunverulega mögulegt að ganga langt í mengunarvörnum sbr. formála hinnar dönsku skýrslu. Sé fullyrðing Umhverfisstofnunar um að  skilyrði 7.2 sé einungis til að að hafa til hliðsjónar þegar metið sé hvaða kröfur verði gerðar misskilningur sem þó endurspegli eðlileg stjórnsýsluleg viðmið. Sé því eðlilegt að miðað verði við tilgreinda skýrslu í heild án þess að kröfur á hendur búinu verði fyrirfram bundan við viðmið fyrir ný bú í Danmörku.

 

3. Frestur vegna niðurstaðna mælinga.

 

Kærandi gerir athugasemdir við  skilyrði 7.2 í starfsleyfinu þar sem gerð er krafa um að kærandi leggi fram útreikninga fyrir 1. júní 2008 skv. tilteknum matsreglum sem fram koma í skilyrðinu. Telur kærandi þetta óeðlilegt, þar sem hið nýja starfsleyfi hafi fyrst borist sér 4. júní 2008. Gerir kærandi því kröfu um að eindagi útreikninga miðist við 1. nóvember 2008 enda taki útreikningar sem þessir talsverðan tíma bæði í undirbúningi og jafnvel framkvæmd.

 

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur kveðst fallast á þessa kröfu kæranda.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin fallist á þessa kröfu.

 

4. Úttekt á lyktarónæði.

 

Kærandi, rekstraraðili, gerir athugasemdir við  skilyrði 7.3 í starfsleyfinu en hann telur að skv. því sé hann skyldaður til að láta reikna út lyktardreifingu skv. viðurkenndum reglum í Danmörku en á sama tíma skyldaður til að efna til sérstakrar úttektar alveg án tillits til niðurstaðna af útreikningnum lyktardreifingar. Sé með þessu brotin bæði rannsóknarregla og meðalhófsregla stjórnsýslulaga.

 

Kærandi telur einnig að  skilyrði 7.3 um raunmælingar á dreifingu og styrk lyktar sé efnislega óljós þar sem um aðferð mælinga sé vísað til 5. kafla í áðurnefndri danskri skýrslu, „Faglig rapport vedrørende en ny lugtvejledning for husdyrbrug“ en í umræddum kafla skýrslunnar sé um matið vísað til sérþjálfaðs lyktarteymis. Sé ekkert slíkt teymi starfandi hér á landi. Í  skilyrði 7.4 í starfsleyfinu sé áskilnaður um að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur geti kallað til slíkt sérþjálfað lyktarteymi. Kærandi telur óljóst hvort  skilyrði 7.3 feli einnig í sér áskilnað um að kalla til sérþjálfað lyktarteymi og sé svo, hverjum beri að kalla það til. Kærandi telur að ekki sé grundvöllur til að skylda rekstraðila til að standa að slíkum mælingum nema þeir útreikningar sem fara eigi fram skv.  skilyrði 7.2 sýni fram að að slíks sé þörf. Kærandi vísar einnig til þess að skv. hinni dönsku skýrslu sé ekki skylt að láta fara fram athugun skv. 5. kafla skýrslunnar nema önnur mæligildi gefi til kynna að þess sé þörf. Kærandi krefst þess því annars vegar að felld verði út fyrirvaralaus skilyrði um mælingar sem fram komi í  skilyrði 7.3 enda sett inn ákvæði sem láti dönsku viðmiðunarreglurnar gilda í heild sinni fyrir svínabúið í Brautarholti. Til vara krefst kærandi þess að úrskurðað verði um að ekki verði heimilað að krefjast úttektar af sérþjálfuðu lyktarteymi skv. ákvæði í  skilyrði 7.3 og að eindaga niðurstaðna verði frestað, þannig að mælingar megi gera þegar niðurstöður af útreikningum skv.  skilyrði 7.2 verða ljósar.

 

Í umsögn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur er bent á að útreikningar á lyktardreifingu gefi til kynna með hvaða hætti ólykt berist frá búinu. Sérstök rannsókn á lyktarálagi gefi aðra niðurstöðu, þ.e. hversu mikið lyktarálagið sé með tillit til dreyfingar ólyktar. Heilbrigðisnefndin telur því nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með það að markmiði að sýna fram á virkni loftræstibúnaðar. Hér sé því um tvær ólíkar aðferðir að ræða til að meta mengun frá búinu. Hvað varðar kostnað við sérstakt lyktarteymi metur heilbrigðisnefndin það svo að það sé rekstraraðila svínabúsins að standa straum af slíkum kostnaði, jafnvel þó svo að heilbrigðisnefndin stýri rannsókninni. Sé þetta í samræmi við meðferð rannsóknarkostnaðar vegna heilbrigðiseftirlits með mengandi starfssemi, t.d. sýnatöku og rannsóknir á sýnum en slíkar rannsóknir greiðist af rekstraraðila.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur að eðlilegt sé að láta framkvæma raunmælingar gefi niðurstöður útreikninga skv. skilyrði 7.2 tilefni til þess. Aftur á móti telur Umhverfisstofnun að efnislega feli  skilyrði 7.3 í starfsleyfinu í sér vanda þar sem sérþjálfað lyktarteymi sé ekki til staðar í landinu. Verði raunmæling skv. skilyrðinu framkvæmd með því að kalla til sérþjálfað teymi erlendis frá og hafi slíkt í för með sér kostnað. Einnig hafi það í för með sér kostnað að koma upp lyktarteymi hér á landi. Að mati Umhverfisstofnunar er ekki hægt að leggja þennan kostnað á rekstraraðila. Ef til kæmi yrði það að mati stofnunarinnar einungis kostnaður af matinu sjálfu og sýnatöku sem rekstraraðilanum yrði gert að greiða. Segir að Umhverfisstofnun fái ekki séð á grundvelli hvaða laga og reglugerða heilbrigðisnefnd Reykjavíkur setji slík skilyrði í starfsleyfi rekstraraðila.

 

Í athugasemdum kæranda við umsagnir segir að fullyrðingar heilbrigðisnefnd Reykjavíkur um að rekstraraðili skuli kosta sérþjálfað lyktarteymi sé í andstöðu við það sem forstöðumaður og starfsmaður sviðsins hafi áður sagt, þ.e. að hið opinbera þyrfti að kosta uppbyggingu mælitækja og lyktarteymis. Tekur kærandi því undir með Umhverfisstofnun hvað varðar það mat stofnunarinnar að krafa um að rekstraraðili kosti uppbyggingu lyktarteymis sé án lagastoðar. Segir rekstraraðili að það sé auk þess eðlilegt að bíða með kröfur um frekari aðgerðir og mat á árangri þeirra þar til niðurstöður mælinga liggi fyrir.

 

5. Ófullnægjandi mengunarvarnir.

 

Að mati kæranda, Bjarna Pálssonar, hefur hann, sem og aðrir nágrannar svínabúsins, þurft að búa við mikla lyktarmengun sem gögn Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur staðfesti. Verði ekki séð að rekstraraðilar svínabúsins hafi brugðist við lyktarmenguninni þrátt fyrir skyldur þar að lútandi né að þeir hafi framkvæmt þær mælingar sem þeim hafi borið skv. fyrra starfsleyfi. Eigi rekstraraðili að bera hallan af þessu sem og því að ekki hafi verið brugðist við endurteknum kröfum um mótvægisaðgerðir meðan á rekstri búsins hafi staðið. Til stuðnings þessu bendir kærandi á að krafa um að rekstraraðili búsins afli sér starfsleyfis grundvallist á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hafi á grundvelli þeirra laga verið sett bæði hollustuháttaeglugerð og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Í  skilyrði 7.1 í starfsleyfisskilyrðinum sé fjallað um lyktarmengun frá svínabúinu. Sé í skilyrðinu gerð krafa um að rekstraraðili geri allt sem í hans valdi standi til að draga úr ónæði af völdum lyktarmengunar og vísað til þeirra ströngu krafna sem staðfestar hafi verið í úrskurði umhverfisráðherra frá 26. september 2000. Í lið 7.2 í starfsleyfisskilyrðinum sé rekstraðili skyldaður til að gera tilteknar mælingar og útreikninga sem eigi að skila fyrir 1. júní 2008. Sömuleiðis sé þess krafist í  skilyrði 7.3 að fram fari raunmælingar á dreifingu og styrk lyktar frá öllum húsum svínabúsins í Brautarholti. Í  skilyrði 7.4 áskilji heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sér rétt til þess að framkvæma mælingar á lykt frá búinu með því að kalla til sérþjálfað lyktarteymi.

 

Kærandi telur að þessi skilyrði starfsleyfisins séu ófullnægjandi og ekki í samræmi við þær skyldur sem hafi verið lagðar á restraðila svínabúsins þegar hann hafi fengið undanþágu til þess að stækka svínabúið. Krefst hann þess að synjað verði um útgáfu starfsleyfisins. Hafi fyrri rekstraraðili svínabúsins lagt fram greinargerð og gögn vegna greinar 7 í eldra starfsleyfi um það hvernig hann hygðist uppfylla ákvæði um bestu fáanlegu tækni. Hafi í þeim gögnum komið fram að til væri búnaður sem talinn væri draga úr lyktarmengun um allt að 70 – 80%. Þeim búnaði hafi hins vegar verið hafnað vegna kostnaðar af hálfu rekstraraðila. Þannig séu ekki lengur til staðar þær forsendur sem úrskurður umhverfisráðherra frá 26. september 2000 byggði á þar sem nú sé til fullnægjandi hreinsibúnaður. Í stað þess hafi rekstraraðili fengið búnað sem stýri útblæstri þannig að rekstraðili taldi leiða til 20% minnkunar á ólykt og loftmengun. Segir kærandi að það liggi fyrir að búnaðurinn sé ekki hreinsibúnaður á útblásturlofti sbr. bréf heilbrigðisnefnd Reykjavíkur dags. 14. mars 2007 þar sem fram hafi komið að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur teldi að loftræstibúnaðurinn myndi ekki gagnast einn og sér sem framtíðarlausn við að leysa lyktarvanda. Minnkun lyktar um 10 – 20% fullnægði ekki þeim skyldum sem hvíldu á rekstrarðilum svínabúsins um mengunarvarnir.

 

Kærandi telur einnig að rekstraraðili hafi ekki lagt fram þau gögn sem honum beri skylda til lögum samkvæmt.. Vísar kærandi einnig til þess að það vanti lýsingu á þeim mengunarvörnum sem valdar séu til að hindra eða draga úr losun eins og skylt sé skv. þeim lögum og reglugerðum sem um starfsemina gilda.

 

Kærandi gerir sömuleiðis athugasemdir við að rekstraraðili beri saman skattmat gyltu og áætlaðan kostnað við mengunarvarnir til þess að meta kostnað við mengunarvarnir enda hvíli á rekstraraðila sérstaklega rík skylda til mengunarvarna. Að mati kæranda virðist ekki hafa farið fram málefnalegt mat á því hvort mengunarbúnaður, sem dragi úr lyktarmengun um allt að 70 – 80%, sé rekstrinum ofviða. Standi rekstur svínabús ekki undir sér fjárhagslega með viðunandi mengunarvörnum hljóti slíkur rekstur að þurfa að víkja.

 

Kærandi vísar einnig til þess að þó svo að starfsemi svínabúsins að Brautarholti fari fram á landssvæði sem skipulagt sé sem landbúnaðarsvæði þá sé slík starfssemi á Kjalarnesi að víkja fyrir annars konar landnotum og sjái þess stað m.a. í skipulagi svæðisins og í raunverulegri notkun þess. Muni svæðið í framtíðinni líklega byggjast upp til íbúabyggðar og þéttbýlistengdrar starfsemi. Starfsemi svínabúsins án fullnægjandi mengunarvarna muni koma í veg fyrir að kærandi geti nýtt land sitt meðan uppbygging svæðisins fari fram eins og ábúendur jarðarinnar hafi hug á, m.a. til frekari íbúabyggðar og upbyggingar útivistarsvæða, s.s. golfvallar.

 

Með vísan til framangreinds telur kærandi að ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að veita rekstraraðila svínabúsins í Brautarholti starfsleyfi enda hafi hann ekki sýnt fram á að besta fáanlega tækni til mengunarvarna sé til staðar. Verði ekki fallist á að hafna útgáfu starfsleyfis gerir kærandi kröfu til vara um að það verði gert að skilyrði að rekstraraðilum verði gert að setja upp mengunarbúnað sem minnki lyktarmengun um allt að 80% innan hæfilegs tíma en ella falli starfsleyfið úr gildi. Verði ekki fallist á framangreint krefst kærandi þess að óheimilt verði að veita starfsleyfi fyrir rekstri í eldri húsum.

 

Í umsögn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur segir að nefndin hafi ekki fallist á það að loftræstibúnaður sá sem rekstraðili noti sé fullnægjandi. Á hinn bóginn hafi heilbrigðisnefnd metið það svo að rekstraraðila hafi verið heimilt að setja upp tilgreindan búnað en að rekstraraðili verði þó að sýna fram á það með mælingum og útreikningnum að búnaðurinn sé fullnægjandi til að varna því að lyktarmengun fari yfir viðunandi mörk. Heilbrigðisnefndin tekur jafnframt fram að svínabúið að Brautarholti sé eina svínabú landsins sem búi við jafn ríkar kröfur um varnir gegn lyktarmengun. Nefndin telji að það sé í samræmi við þau skilyrði sem svínabúinu hafi upphaflega verið sett um að gera skyldi ríkari kröfur til búsins um mengunarvarnir vegna þeirrar undanþágu sem svínabúið hafi fengið frá fjarlægðarmörkum frá íbúabyggð, sbr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 sem um starfsemina gildi og að þetta sé jafnframt í samræmi við fyrri ákvarðanir heilbrigðisnefndar, úrskurða Hollustuverndar ríkisins (nú Umhverfisstofnun) og umhverfisráðuneytisins. Bendir heilbrigðisnefnd þó á að hún verði að gæta meðalhófs þegar hún hafi uppi kröfur um mengunarvarnir og gæta þess að íþyngja ekki rekstaraðila úr hófi fram þannig að honum verði ómögulegt að uppfylla kröfurnar. Hvað varðar skort á gögnum bendir heilbrigðisnefnd á að rekstraraðili hafi sótt um endurnýjun á gildandi starfsleyfi og hafi heilbrigðisnefndin verið í nánu sambandi við fyrri og síðari rekstraraðila vegna þessa. Að mati heilbrigðisnefndarinnar hafi þau gögn sem hafi fylgt með umsókn um starfsleyfið verið fullnægjandi auk þess sem heilbrigðisnefnd hafi haft undir höndum öll nauðsynleg gögn sem hafi varðað rekstur búsins svo unnt væri að endurskoða starfsleyfið og vinna að útgáfu nýs leyfis fyrir nýjan rekstraraðila. Nefnir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur til sögunnar öll gögn um fyrirhugaðar mengunarvarnir umsækjanda, fjölda eldis- og alidýra o.s.frv. Hafi að auki legið fyrir miklar upplýsingar frá eftirlitsferðum heilbrigðisfulltrúa í búið, auk annarra samskipta við rekstraraðila.

 

Umhverfisstofnun telur að þær kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila séu hæfilegar til að varna lyktarmengun, sbr. ákvæði 7. kafla í starfsleyfi. Umhverfisstofnun vísar jafnframt til þess markmiðs laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sem fram kemur í 1. grein laganna um að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Verði að taka mið af þessu markmiði laganna og ákveða skilyrði starfsleyfis á grundvelli þeirra. Sé synjun á útgáfu starfsleyfis íþyngjandi ákvörðun í garð rekstraraðila og verði stjórnvald að taka mið af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Umhverfisstofnun kveðst meta það svo að hægt sé að ná markmiðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir með vægari leiðum heldur en að synja um útgáfu starfsleyfis. Sé það gert með ákvæðum um mengunarvarnir í starfleyfi.

 

Í umsögn rekstraraðila, kemur fram að hann telji að ekki hafi verið ákvæði í eldra starfsleyfi sem útgefið hafi verið árið 2000 sem skyldaði rekstraraðila til að beita „bestu fáanlegu tækni“, jafnvel þó svo að eitt af skilyrðum starfsleyfisins hafi verið að starfsleyfishafi skyldi skila áætlun um það hvernig fyrirtækið uppfyllti skilyrði um „bestu fáanlegu tækni“. Samskipti rekstraraðila og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hafi leitt af sér mat sem hafi verið birt heilbrigðisnefnd Reykjavíkur í janúar 2007 en í matinu komi fram að ekki séu fjárhagslegar forsendur til þess að fjárfesta í lofthreinsibúnaði sökum kostnaðar og tæknilegrar getu. Aftur á móti hafi tölvustýrður útloftunarbúnaður reynst vel í nágrannalöndum og kostnaður sé vel viðráðanlegur. Hafi heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fallist á þessa tilhögun. Í samræmi við þetta hafi allt loftræstikerfi eldishluta búsins verið endurnýjað, en þar sé mestur fjölda dýra í svínabúinu. Miði þessi nýja tækni að því að draga úr útloftun þegar vindur standi á nágranna svínabúsins. Rekstraraðili telur það hafa verið til bóta þegar heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi byrjað að vísa til danskra reglna hvað varðar kröfur og viðmið mælinga á efnainnihald lofts og mati á dreifingu lyktar frá búinu. Telur hann að skilyrðin sem slík séu hins vegar ólögmæt enda sé verið að byggja á kröfum til óbyggðra svínahúsa í Danmörku en vill þó taka fram að hann hyggist láta fara fram úttekt skv. nefndum reglum svo meta megi þörfina fyrir mótvægisaðgerðir. Tekur rekstraraðili fram að misskilningur hafi verið uppi með fyrri rekstraraðila og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur um hvort koma ætti upp tölvustýrðum útflotunarbúnaði á eldri byggingu svínabús. Hafi rekstraraðili sent inn teikningar um hvernig kerfið yrði uppbyggt og hafi það aðeins náð til eldishúss en fyrr í ferlinu hafði rekstrarfélagið fengið tilboð í aðra lausn og hafi það tekið til beggja húsa. Rekstraraðili telur að ákvörðun um að koma upp hliðstæðri útloftunartækni að kröfu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur verði að ráðast af niðustöðum af úttekt skv. hinum dönsku reglum. Leiði úttektin í ljós að slíks búnaðar sé þörf verði gengið í að koma honum upp. Rekstraraðili telur ennfremur að ekki séu forsendur til að krefjast uppsetningar á hreinsibúnaði enda sé ráðherra bundinn af fyrri ákvörðun í eldri úrskurði og miðar kærandi við að hann þurfi ekki að setja upp aðra lausn fyrr en fyrri fjárfesting hefur verið gjaldfærð með eðlilegum hætti. Sé stjórnvald þannig bundið af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

 

Einnig telur rekstraraðili að ekkert liggi fyrir um að kærandi og aðrir nágrannar svínabúsins búi við mjög mikla lyktarmengun af völdum svínabúsins að Brautarholti umfram önnur svínabú á svæðinu. Hafi rekstraraðili ekki verið gert viðvart um umkvartanir kæranda og hann hafi því ekki getað staðreynt þær sjálfur. Rekstraraðili bendir á að dreifing á húsdýraáburði sé í samræmi við ákvæði starfsleyfis. Uppruni lyktar sé því frá heimilli dreifingu og telur rekstraraðili að hreinsbúnaður hefði engu breytt um lyktarmengun. Ennfremur gerir rekstraraðili athugasemdir við tilvísun kæranda til könnunar á umfangi svínalyktar frá árinu 2006 og gagnrýnir þær aðferðir sem viðhafðar hafi verið við gerð hennar og telur ekki ljóst hvort umkvartanir vegna lyktar í könnuninni geti verið frá öðrum búum á svæðinu. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi hins vegar ekki orðið við tilmælum um að taka upp formlegt ferli til að greina tilefni kvartana. Rekstraraðili telur að markmið kæranda með kröfum sínum sé að knýja fram stöðvun á atvinnustarfsemi svínabúsins. Styðji hvorki grenndarreglur né grunnreglur eignarréttarins kröfur kæranda um það að rekstraraðili eigi einn að bera kostnað af því að slíkar ráðstafanir verði gerðar. Krafan lúti einnig að því að breyta nýtingu lands í Brautarholti sem skipulagt sé sem landbúnaðarsvæði, í aðra starfsemi en landbúnað. Rekstraraðili bendi hins vegar á að skipulag landsins takmarki nýtingu þess m.a. þannig að landbúnaði fylgi lykt sem kærandi verði að þola.

 

Í athugasemdum kæranda um umsagnir segir að skilyrði og kröfur í eldra starfsleyfi útiloki ekki að settar séu nýrri og strangari reglur við útgáfu starfsleyfis enda sé þá metið hvort þær aðgerðir sem áður hafi verið fyrirskipaðar til að draga úr mengun hafi reynst fullnægjandi. Kærandi mótmælir þeim sjónarmiðum að rekstraraðili verði ekki skyldaður til að setja upp hreinsibúnað fyrr en hann hafi gjaldfært loftræstibúnað enda hafi loftræstibúnaður aðallega þann tilgang að bæta framleiðslu rekstraraðila en ekki sem mengunarvörn. Kærandi mótmælir því einnig að lyktarmengun sé ekki nægilega í ljós leidd. Telur kærandi að rekstraraðili hafi ekki skilað inn áætlun til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur eins og gerð hafi verið krafa um í eldra starfsleyfi varðandi mótvægisaðgerðir vegna ólyktar sem og áætlun um hvernig ætti að uppfylla ákvæði um bestu fáanlegu tækni. Kærandi segir fullyrðingar um að ólykt stafi helst af dreifingu svínamykju rangar og bendir á að mengunarvarnir vegna dreifingar á svínamykju og mengunarvarnir vegna útblástur lofts úr svínahúsum sé sitthvort. Kærandi kveðst hafa gefist upp á að senda inn kvartanir um lyktarmengun enda hafi ekkert verið gert með þær. Breyti það ekki því að mengun hafi verið mjög mikil og því óeðlilegt að rekstraraðili komist upp með að neita að viðurkenna verulega loftmengun á þeim grundvelli að ekki sé veruleg mengun frá útblæstri frá svínabúi hans. Einnig megi benda á að fyrir liggi bæði vísbendingar og gögn um umrædda mengun, m.a. kvartanir, íbúakönnun og athuganir leyfisgjafa. Að auki sé lyktarmengun þekkt afleiðing af rekstri svínabúa.

 

Kærandi bendir einnig á að hvergi sé því haldið fram að skylt sé að nota bestu fáanlegu tækni án tillits til kostnaðar heldur beri að hafa hliðsjón af þeirri undanþágu frá fjarlægðarreglu sem rekstraraðili starfar á þegar skylda til að nota bestu fáanlegu tækni sé metin. Forsvarsmönnum svínabúsins hafi mátt vera þetta ljóst, sbr. úrskurð nr. 2/1998  frá úrskurðarnefnd sem starfaði skv. lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988  þar sem fram hafi komið að rekstraraðilar væru að taka á sig skyldur til ríkra mótvægisaðgerða. Að auki bendir kærandi á að rekstrarðili hljóti að hafa mikinn fjárhagslegan ávinning af staðsetningu búsins fyrst hann hafi ráðist í stækkun þess þrátt fyrir kröfur um miklar mótvægisaðgerðir og telur að sparnaður rekstraraðila af staðsetningu, af ýmsum ástæðum, hlaupi á milljónum króna árlega. Telur kærandi óeðlilegt að ákvarða hæfilegar mengunarvarnir út frá því sjónarhorni hvaða mengunarvarnir rekstraraðili telur sig ráða við. Ráði rekstraraðili ekki við eðlilegar mengunarvarni sé einsýnt að hann þurfi að hætta rekstri.

 

Hvað varðar skipulag lands sem landbúnaðarsvæðis bendir kærandi á að landnot breytast eftir aðstæðum í samfélaginu. Að auki sé ekki stundaður hefðbundinn landbúnaður af hálfu kæranda og hyggi hann á önnur landnot á næstunni enda skilgreini gildandi aðalskipulag land kæranda sem „opin svæði til sérstakra nota“. Með hliðsjón af þessu sé eðlilegt að gera þær kröfur til rekstraraðila að hann setji upp mengunarvarnarbúnað sem nægi til þess að hægt verði að hafa þau not af landinu sem aðalskipulag Reykjavíkur hljóði upp á.

 

Kærandi bendir einnig á að heilbrigðisnefnd hafi skv. sinni umsögn ekki metið loftræstibúnað rekstraraðila fullnægjandi. Hins vegar væri heimilt að láta reyna á það. Bendir kærandi á að umræddur búnaður dragi að hámarki úr lyktarmengun um 10 – 15%. Að auki hafi ekkert málefnalegt mat farið fram á því af hálfu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hvort þessi búnaður sé í raun ásættanlegur.

 

6. Mengun til næstu 12 ára.

 

Kærandi, Bjarni Pálsson, telur sig þurfa að búa við sömu mengun til næstu 12 ára þar sem starfsleyfið gildir til 6. maí 2020, fari svo að starfsleyfið verði samþykkt

 

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur bendir á að hægt sé að endurskoða ákvæði starfsleyfisins hvenær sem er á gildistíma þess og raunar sé skylt að gera það á a.m.k. 4 ára fresti. Verði frekar kröfur settar fram um varnir gegn lyktarmengun gefist tilefni til þess.

 

7. Dreifing svínamykju.

 

Kærandi fer fram á að skilyrði varðandi dreifingu svínamykju sbr.  skilyrði 6 í starfsleyfi verði breytt svo að dreifingin fari einungis fram í eina viku á ári og þá samfleytt. Verði fyrirkomulagið þannig að rekstrarðili sæki um heimild til heilbrigðiseftirlits um tímasetningu og að heilbrigðiseftirlitið leiti í framhaldi af því umsagnar kæranda áður en slík heimild sé veitt. Að auki telur kærandi nauðsynlegt að fjarlægð dreifingar frá húsum verði aukin þannig að hún fari ekki fram nær íbúðarhúsi hans en 500 m nema með samþykki hans.

 

Í umsögn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur segir að í sé starfsleyfinu gert ráð fyrir dreifingu svínamykju í samræmi við reglugerðir og sé þannig heimilt að dreifa mykjunni á tilteknu tímabili en við Brautarholt skuli dreifing bundin við 14 daga samfellt tímabil. Geti þó veður og vindar valdið því að ómögulegt sé að dreifa mykjunni þannig að ekki hljótist mengun af. Heilbrigðisnefndin bendir ennfremur á að settar séu strangar fjarlægðartakmarkanir um dreifingu mykjunnar sbr. 6. kafla starfsleyfsisins. Telur heilbrigðisnefndin að ákvæði starfsleyfisins um dreifingu svínamykju séu í samræmi við lög og reglur og þannig fullnægjandi.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin meti það svo að í 6. kafla starfsleyfinu séu hæfileg ströng skilyrði hvað varðar dreifingu svínamykju. Þar komi fram að aðeins skuli dreifa mykju á land við Brautarholt á 15 daga tímabili ár hvert. Skuli að auki stefna að því að dreifa mykjunni í viku í senn, samfellt, tvisvar sinnum á tímabilinu. Umhverfisstofnun telur að tekið sé tillit til sjónarmiða kæranda í starfsleyfinu og ekki sé rétt að takmarka dreifingu svínamykju meira en gert er í starfsleyfinu.

 

Í umsögn rekstraraðila  kemur fram að eigendur lands í Brautarholti hafi sóst eftir því að fá svínamykjuna sem áburð á tún á vorin. Sé því fremur að vænta að bændur leiti eftir aðgangi að mykjunni fremur en að svínabú verði skylduð til að leigja land til förgunar eins og verið hafi. Sé ekkert nýtt komið fram sem knýji á um breytingu á þeim reglum sem settar hafi verið með eldra starfsleyfi árið 2000 og andmælir rekstraraðili því kröfum kæranda um frekari takmarkanir um nýtingu svínamykju.

 

Í athugasemdum kæranda um umsagnir segir að kærandi kannist ekki við að hafa haft áhuga á nýta sér svínamykju til áburðar. Hefur kærandi aðeins þær óskir að dreifingartími sé afmarkaður og takmarkaður og að haft verði fyrirfram samráð við hann þar sem hann geti vart hafst við í íbúðarhúsi þegar dreifing standi yfir.

 

8. Fjöldi dýra.

Kærandi gerir kröfu um að ekki verði veitt leyfi fyrir fleiri gyltum í eldri húsum en 550 en það hafi verið sá fjöldi sem leyfi hafi verið veitt fyrir á sínum tíma hvað varðar byggingu og starfsemi svínabúsins. Sér kærandi ekki með hvaða heimildum hámarksfjöldi dýra hafi verið hækkaður í 680 dýr.

 

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur segir að nefndin hafi að fengnu áliti sérfræðinga metið það svo að 680 eldisgyltur séu nauðsynlegar til þess að búið nái þeirri stærð í framleiðslu sem upphaflega hafi verið sótt um.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að þær breytingar sem gerðar hafi verið á framkvæmd reksturs svínabúsins til að koma í veg fyrir smit hafi verið gerðar að ráði dýralækna. Sé það mat Umhverfisstofnunar að aðgerðirnar séu ákjósanlegar og því hafi verið rétt að veita rekstraraðila svínabúsins ákveðið svigrúm til að ná þessum markmiðum. Hafi í þessu ljósi verið ákveðið, þegar starfsleyfi svínabúsins hafi verið endurnýjað árið 2002, að heildafjöldi dýra í húsum ætti að vera 680 dýr. Hafi það verið metið svo að heildarfjöldi dýra ætti að vera 680 þar sem sá heildarfjöldi ætti að nægja til að viðhalda 550 gyltum á búinu að jafnaði. Að mati Umhverfisstofnbunar hefur því fjöldi gyltna ekki verið aukinn heldur hafi rekstrarðila búsins verið veitt ákveðið svigrúm til þess að viðhalda að jafnaði 550 gyltum auki þess sem hann hafi þurft að gera breytingar á rekstri búsins með tilliti til smitvarna.

 

Í umsögn rekstraraðila kemur fram að hann mótmæli þeim kröfum kæranda sem miða að skerðingu framleiðslugetu búsins, enda hafi framleiðslugetan miðast við 680 fullorðin dýr allt frá útgáfu eldra starfsleyfis árið 2000. Staðfesti skýrslur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að rekstrinum hafi verið hagað innan þeirra marka sem starfsleyfið hafi sett síðastliðin 10 ár. Jafnvel þó að upphaflega hafi áform miðast við að hafa að jafnaði 550 virkar gyltur hafi þær fyrirætlanir breyst strax og gylturnar verið allt að 650. Mótmælir rekstraraðili því að lækkaður verði fjöldi gyltna sem verið hafi síðustu 10 ár, enda standi engin rök til þessa og myndi slíkt fela í sér grófa mismunun miðað við önnur svínabú á starfssvæði heilbrigðisnefndar. Bendir rekstraraðili ennfremur á að það sé starfsleyfið sjálft sem sé ákvarðandi um efni þess.

 

Í athugasemdum kæranda segir að sú undanþága sem veitt hafi verið fyrir byggingu svínabús vegna nálægðar við hús þáverandi rekstraraðila hafi miðast við 550 gyltur. Að mati kæranda hljóta heilbrigðisyfirvöld að vera bundin við þetta þannig að að hámarki geti komið til álita að veita starfsleyfi fyrir 550 gyltum. Eftir því sem fleiri dýr séu í svínahúsi hljóti það að leiða til aukinnar mengunar sem kalli þá á auknar mengunarvarnir. Kærandi bendir að auki á að ekki sé um mismunun að ræða heldur verði að taka með í reikninginn undanþágu þá sem veitt hafi verið.

 

 

 

IV. Niðurstaða.

 

1. Skilgreining á fullorðnum dýrum.

 

Eins og fram hefur komið vill kærandi, rekstraraðili, að skilgreininingu þeirri sem fram kemur í  skilyrði 1.1 í starfsleyfi Svínabúsins í Brautarholti, verði breytt þannig að miðað verði við dýr 30 vikna og eldri en ekki 6 mánaða og eldri, hvað varðar hámarksfjölda dýra. Að öðrum kosti verði kærandi að hverfa frá þeim sóttvörnum sem hann hafi nú uppi þar sem þær valdi því að skv. hinni nýju skilgreiningu á fullorðnum dýrum séu þau of mörg í efra húsi svínabúsins. Fari þetta bæði gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og lögmætisreglunni enda hafi þessa skilgreiningu ekki verið að finna í eldra starfsleyfi sem hafi verið gefið út árið 2002 og hafi rekstraraðili miðað rekstur sinn við það starfsleyfi. Að auki gerir kærandi athugasemdir við að 6 mánuðir sé skilgreindir af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sem 24 vikur en ekki 26.

 

Af fram komnum gögnum málsins má ráða að hámarksfjöldi fullorðinna dýra hafi verið ákveðinn af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 680 dýr til þess að veita rekstraraðilum nægilegt svigrúm til þess að halda mætti að jafnaði 550 gyltum á búinu sbr. umsögn Umhverfisstofnunar um kæruna. Hafi ákveðnar breytingar verið gerðar á rekstri búsins til þess að koma í veg fyrir smit og þannig hafi verið hætt að flytja undaneldisgripi frá neðra búi yfir á það efra eins og fram hefur komið og því hafi verið ákveðið að heildarfjöldi dýra í húsunum ætti að vera 680 dýr, jafnvel þó svo að í fyrra starfsleyfi hafi einungis verið veitt heimild fyrir 550 dýrum. Í þessum heildarfjölda dýra, þ.e. 680 dýrum hafi átt að rúmast bæði unggyltur, gyltur og geltir. Þannig hafi heildarfjöldi gyltna ekki aukist heldur aðeins verið veitt svigrúm til að viðhalda 550 gyltum að jafnaði og hafi með því einnig verið tekið tillit til hinna auknu smitvarna. Að mati ráðuneytisins er þannig óumdeilt að heildarfjöldi fullorðinna dýra skuli ekki fara upp fyrir 680 dýr skv. hinu kærða starfsleyfi.

 

Kærandi, rekstraraðili, vill að miðað verði við að heildarfjöldi dýra á efra búi fari ekki yfir 680 kynþroska dýr. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur áréttar hins vegar í sinni umsögn að í skilgreiningu sinni á fullorðnum dýrum sé verið að vísa til þess hvenær dýr fara að menga sem fullorðin dýr enda sé það eina lögmæta sjónarmið nefndarinnar við ákvörðun á því hvenær dýr teljist fullorðin út frá mengunarvörnum.

 

Í 1. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 kemur fram að markmið þeirra sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði. Í 2. gr. laganna segir að lögin taki til bæði starfsemi og framkvæmda hér á landi. Í 1. og 2. mgr. 3. gr. segir að lögin taki til hollustverndar og mengunarvarnaeftirlits og ennfremur að hollustuvernd taki m.a. til sóttvarna. Í reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999 sem sett er með stoð í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram í 1. mgr. 1. gr. að markmið reglugerðarinnar sé að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur einnig fram það markmið að tryggja að kröfur sem gerðar eru í starfsleyfum til þess að draga úr tiltekinni mengun valdi ekki aukinni mengun annars staðar í umhverfinu. Í 2. mgr. 12. gr sömu reglugerðar kemur svo fram að ákvæðum starfsleyfa beri að tryggja að atvinnurekstur sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafar.

 

Í bréfi sínu dags. 17. janúar 2008 til rekstraraðila kveðst heilbrigðisnefnd Reykjavíkur miða við að dýr sem komin væru í sláturstærð (6 mánaða og eldri) væru fullorðin enda sú mengun (úrgangur) sem frá þeim kæmi á þeim aldri orðinn umtalsverð. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur var sú ákvörðun að miða við sex mánaða aldur svína m.a. tekin með hliðsjón af því að þá hafi svínin náð sláturstærð og hafi auk þess náð kynþroska sem gerist við 24 – 26 vikna aldur. Hafi þær upplýsingar fengist bæði frá rekstraraðila búsins og frá dýralækni. Séu dýr á þessum aldri farin að láta frá sér það magn af úrgangi sem það kemur til með að láta frá sér daglega á fullorðinsævi sinni. Skv. upplýsingum sem ráðuneytið aflaði sér frá Umhverfisstofnun, tekur Umhverfisstofnun undir þessi sjónarmið og er áréttað að eðlilegt sé í þessu samhengi að miða við að 26 vikna gömul dýr séu farin að menga á við fullorðin dýr.

 

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið eðlilegt að miðað sé við að leyfilegur hámarksfjöldi dýra í efri húsum svínabúsins að Brautarholti taki mið af dýrum sem eru 26 vikna og eldri sbr. ákvæði 1.1 í hinu kærða starfsleyfi. Hvað varðar þær smitvarnir sem kærandi viðhefur á svínabúinu að Brautarholti bendir ráðuneytið á að búið starfar skv. starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun sbr. 5. gr. a laga um hollusthætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í 3. mgr. 5. gr. a laganna er fjallað um þá þætti sem tilgreina skal í slíku starfsleyfi. Smitvarnir falla utan þess sem tilgreina á við setningu starfsleyfisskilyrða. Rekstraraðila ber hins vegar að fylgja ákvæðum annarra laga og reglugerða sem um starfssemina kunna að gilda, hvort sem þau taka til smitvarna eða annarra þátta starfseminnar. Þannig geta m.a. smitvarnir mögulega takmarkað það svigrúm sem starfsleyfið veitir rekstraraðila.

 

Í ljósi þess að framan er rakið er það því mat ráðuneytisins að settur skuli nýr málsliður í stað 3. málsliðar í skilyrði 1.1, þar sem segir að fullorðin dýr teljist 26 vikna og eldri, sbr. 1. töluliður í úrskurðarorði.

 

2. Áskilnaður um að svínabúið fullnægi dönskum kröfum.

 

Kærandi sem er rekstraraðili svínabúsins gerir eins og áður segir athugasemd við það að um mælingar skv.  skilyrði 7.2 í starfsleyfinu verði látin gilda dönsk viðmið, bæði hvað varðar aðferð og niðurstöður. Vísar kærandi til þess að mörkin sem koma fram í skýrslunni eigi við um ný svínabú og verði því ekki gagnrýnilaust tekin upp í starfsleyfi fyrir starfandi svínabú. Sé þetta brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

 

Í 5. gr. a laga um hollusthætti og mengunarvarnir segir að allur atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun skuli hafa gilt starfsleyfi sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. a laganna skal í starfsleyfi m.a. tilgreina mengunarvarnir og er gerð krafa um bestu fáanlega tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því. Af þessum greinum má ráða að rík skylda hvílir á stjórnvöldum um að gera miklar kröfur til mengunarvarna þegar starfsleyfi eru gefin út. Að mati ráðuneytisins verður hér einnig að hafa í huga að rekstraraðili starfar á undanþágu frá fjarlægðartakmörkunum og að í úrskurði umhverfisráðherra frá 26. september 2000 var staðfest að gerðar yrðu strangar kröfur um mótvægisaðgerðir. Í umræddum úrskurði sagði eftirfarandi um þetta atriði: „Ráðuneytið telur ótvírætt að heimilt sé og jafnframt skylt að gera strangari kröfur um mótvægisaðgerðir vegna mengunar frá svínabúinu í Brautarholti þar sem veitt var undanþága frá þeirri reglu að svínahús væri í 500 metra fjarlægð frá íbúðarhúsi.“ Tekur  skilyrði 7.1 í starfsleyfinu enda mið af þessu þar sem fram kemur að: „Rekstraraðila ber að gera allt sem í hans valdi stendur til að draga úr ónæði af völdum lyktar frá starfseminni sbr. kröfur um strangar mótvægisaðgerðir sem staðfestar eru í úrskurði umhverfisráðherra frá árinu 2000.“ Ráðuneytið tekur þannig undir þau sjónarmið starfsleyfisútgefanda, heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, að eðlilegt sé að gera ríkari kröfur um mengunarvarnir til rekstraraðila en annarra svínabúa á Íslandi.

 

 Í hinu umdeilda ákvæði 7.2 í starfsleyfinu segir að reikna skuli út dreifingu og styrk lyktar frá svínahúsum miðað við staðaltölur gefnar í töflu 2.2 hinnar dönsku skýrslu. Dreifing lyktar skal skv. skilyrðinu hins vegar reiknuð skv. aðferð í kafla 3 í sömu skýrslu. Að lokum segir að „miðað skal við mörk fyrir lyktarónæði sem gefin eru upp í kafla 4.3 í fyrrnefndri skýrslu“. Í umsögn Umhverfisstofnunar segir m.a.: „?Umhverfisstofnun telur rétt að skilja grein 7.2 með þeim hætti að notast eigi við þau ? viðmið sem þar koma fram en ekki sé áskilið að kærandi fullnægi skilyrðum sem gerðar séu til nýbyggðra svínabúa í Danmörku. Það verði síðan metið í ljósi niðurstaðna útreikninga samkvæmt grein 7.2 hvort kærandi þurfi að grípa til einhverra aðgerða“.

 

Að mati ráðuneytisins er hins vegar ekki ljóst af skilyrði 7.2 hvort verið sé að gera aðrar kröfur á rekstraraðila en þær sem lúta að útreikningum á dreifingu og styrk lyktar. Ráðuneytið lítur því svo á að ákvæði skilyrðis 7.2 í starfsleyfinu séu efnislega óljós. Ráðuneytið bendir einnig á þá staðreynd að hin danska skýrsla sem vísað er til í skilyrði 7.2 er ekki aðgengileg fyrir rekstraraðila. Skýrslan er á erlendu tungumáli, er ekki birt á Íslandi og er ekki birt sem viðauki á íslensku með hinu útgefna starfsleyfi. Þó svo að gera megi strangari kröfur til rekstraraðila verða þær kröfur að vera honum ljósar og aðgengilegar.

 

Með hliðsjón af framangreindu er það því mat ráðuneytisins að starfsleyfisskilyrði 7.2 skuli falla brott og nýtt koma í þess stað, þar sem töflur þær sem vísað er til í núverandi skilyrði 7.2 eru þýddar og staðfærðar úr hinni dönsku skýrslu:  „Faglig rapport vedrørende en ny lugtvejledning for husdyrbrug“, sem gefin er út Miljøminieriet, Skov- og Naturstyrelsen í desember 2008 sbr. 2. töluliður í úrskurðarorði. Jafnframt er í hinu nýja skilyrði vísað til nýs viðauka við starfsleyfið þar sem m.a. kemur fram ný viðmiðunartafla fyrir óþægindamörk vegna lyktar frá húsdýrum, einnig þýdd og staðfærð úr áðurnefndri skýrslu, sbr. 2. töluliður. í úrskurðarorði.

 

3. Frestur vegna niðurstaðna mælinga.

 

Kærandi gerir athugasemdir við þá kröfu að leggja eigi fram niðurstöður útreikninga þeirra mælinga sem sem mælt er fyrir um í skilyrði 7.2 í starfsleyfinu, fyrir 1. júní 2008. Ráða má af fram komnum athugasemdum í máli þessu að samkomulag sé um þetta atriði.

 

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að frestur til að skila niðurstöðum mælinga skuli framlengdur til 1. nóvember 2009, sbr. síðasti málsliður í  2. tölulið. í úrskurðarorði.

4. Úttekt á lyktarónæði.

 

Eins og fram hefur komið gerir kærandi, rekstraraðili, athugasemdir við að hann sé skv.  skilyrði 7.3 í starfsleyfinu skyldaður til að reikna út lyktardreifingu skv. viðurkenndum reglum í Danmörku á sama tíma og hann skuli efna til sérstakrar úttektar án tillits til niðurstaðna af útreikningum lyktardreifingar. Að auki telur kærandi að  skilyrði 7.3 sé efnislega óljóst þar sem um aðferð mælinga sé vísað til áðurnefndrar danskrar skýrslu en í skýrslunni er vísað til þess að úttektina skuli annast sérþjálfað lyktarteymi (danska: lugtpanel). Í umsögn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur kemur fram að mælingar á lyktardreifingu annars vegar og hins vegar rannsókn á lyktarálagi séu tvær ólíkar leiðir til að meta mengun frá búinu. Umhverfisstofnun metur það aftur á móti svo að eðlilegt sé að raunmælingar verði einungis framkvæmdar ef niðurstöður útreikninga skv. skilyrði 7.2 gefi tilefni þess að þær fari fram. Ráðuneytið tekur undir þetta álit Umhverfisstofnunar í ljósi þess hve íþyngjandi það er að láta framkvæma raunmælingar á lyktarónæði sé þess ekki þörf með hliðsjón af niðurstöðum módel-reikninga.

 

Hvað varðar  skilyrði 7.3 í starfsleyfinu þá liggur fyrir að til þess að framkvæma þá raunmælingu á lykt sem krafa er gerð um í skilyrðinu þarf að fá sérþjálfað lyktarteymi sbr. m.a. umsögn Umhverfisstofnunar. Slíkt teymi er ekki til á landinu og fylgir því augljós kostnaður ef kalla á á slíkt teymi erlendis frá eða að koma slíku teymi á fót hér á landi. Er hér um afar íþyngjandi skilyrði að ræða. Samkvæmt meðalhófsreglunni sem kveðið er á um í 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Hér ber einnig að líta til þess að skv. lögmætisreglunni verða ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér viðhlítandi stoð í lögum og verða íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir að eiga sér mjög skýra lagastoð.

 

Hvað varðar lagastoð fyrir þeirri kostnaðarskyldu sem lögð er á rekstraraðila í starfsleyfi því sem hér um ræðir liggur fyrir að í 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er einungis almenn gjaldtökuheimild þar sem segir: „Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfssemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga.“ Með hliðsjón af framangreindu tekur ráðuneytið þannig undir með Umhverfisstofnun, að sá kostnaður sem hlýst af því að kalla sérþjálfað lyktarteymi til landsins eða að koma því á fót, verði ekki lagður á rekstraraðila skv. þeim lagaheimildum sem um er að ræða. Ráðuneytið fellst ekki á að gera kröfu um lyktarteymi og kostnaðarskyldu rekstraraðila á grundvelli hinnar dönsku skýrslu. Slík krafa verður að eiga sér viðhlítandi stoð í lögum eða reglugerð. Með hliðsjón af því að slíkri lagastoð eða reglugerðarheimild er ekki til að dreifa telur ráðuneytið að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur verði að bera þann kostnað sem hlýst af því að kalla til lyktarteymi. Komi til þess að slíkt sérþjálfað lyktarteymi verði kallað til, yrði það einungis kostnaður af sjálfu matinu og hugsanlega sýnatökum sem rekstraraðila yrði gert að greiða.

 

Í ljósi þess sem að framan er rakið er það því mat ráðuneytisins að koma skuli nýtt skilyrði í starfsleyfið í stað skilyrðis 7.3, þar sem kveðið er á um að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skuli láta framkvæma mælingar þær sem um ræðir  gefi niðurstöður útreikninga skv. skilyrði 7.2 tilefni til og að rekstraraðili skuli einungis bera þann kostnað sem hlýst af sjálfu matinu og hugsanlegum sýnatökum sbr. 3. tölulið. í úrskurðarorði.

 

5. Ófullnægjandi mengunarvarnir.

 

Líkt og áður hefur komið fram telur kærandi, Bjarni Pálsson, að mengunarvarnir svínabúsins í Brautarholti séu ófullnægjandi og telur að rekstraraðilar hafi ekki brugðist við lyktarmengun eins og þeim hafi þó borið að gera. Að auki hafi ákvæðum um bestu fáanlegu tækni ekki verið fylgt eftir þó svo að búnaður sem dragi úr mengun um 70 – 80% sé til staðar en honum hafi verið hafnað af rekstraraðila sökum kostnaðar. Á skorti að málefnalegt mat á kostnaði hafi farið fram. Búnaður sá sem til staðar sé í dag sé ófullnægjandi og þar að auki sé ekki um hreinsibúnað á útblásturslofti að ræða. Kærandi telur einnig að vegna skorts á gögnum séu ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að gefa út starfsleyfi. Telur kærandi að kafli 7 í starfsleyfinu sem fjallar um varnir gegn lyktarmengun frá búinu séu með öllu ófullnægjandi, m.a. með hliðsjón af þeim lögum og reglugerðum sem um starfsemina gilda sem kveða m.a. á um hvaða gögn skuli fylgja umsókn um starfsleyfi. Að endingu vísar kærandi til þess að þó svo að starfsemin fari fram á landssvæði sem sé skipulagt sem landbúnaðarsvæði þá sé slík landnotkun að víkja fyrir annars konar landnotum og komi starfsemi búsins í veg fyrir að kærandi geti nýtt land sitt í samræmi við hin nýju not. Eigi því með hliðsjón af öllu framangreindu að fella starfsleyfið úr gildi. Að öðrum kosti krefst kærandi þess að svínabúinu verði sett strangari starfsleyfisskilyrði en nú sé.

 

Hvað varðar þann mengunarvarnarbúnað sem deilt er um er ljóst af framlögðum gögnum að rekstraraðili skilaði inn greinargerð til Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar í janúar 2007 þar sem fram kom að það væri mat rekstraraðila að það væri rekstri búsins ofviða að setja upp tiltekinn lofthreinisbúnað. Þar af leiðandi hafi þáverandi rekstraraðili ákveðið að setja upp búnað sem stýrði útblæstri en með því móti hafi mátt ætla um 20% minnkun ólyktar að sögn hans. Í umsögn rekstraraðila er því haldið fram að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi fallist á þessa tilhögun. Hins vegar segir í bréfi frá Umhverfissviði Reykjavíkur til rekstraraðila, dags. 1. mars. 2007 að: „um eiginlegan hreinsibúnað sé ekki að ræða. Umhverfissvið telur ennfremur nauðsynlegt að staðfesta virkni búnaðar með því að mæla útblástursloft fyrir og eftir upppsetningu búnaðar. ? Í ljósi þess að engin hreinsun á útblásturslofti mun eiga sér stað telur Umhverfissvið að loftræsibúnaðurinn einn og sér muni ekki gagnast sem framtíðarlausn til að leysa lyktarvanda í nánd við búið. ? Nauðsynlegt er að beita öðrum aðgerðum samhliða, s.s. nota nýjustu gerð af íbætiefnium í flóra og reyna að tæma flóra oftar.“ Það er því ljóst að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur ekki fallist á það að loftræsibúnaður rekstraraðila sé fullnægjandi. Í umsögninni kemur jafnframt fram að „heilbrigðisnefnd [metur] það svo, að rekstraraðila sé heimilt að setja upp tilgreindan búnað, en hann verði að sýna fram á það með mælingum og útreikningum, að búnaðurinn sé fullnægjandi til að koma í veg fyrir að lyktarmengun fari yfir viðunandi mörk “ Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að skilyrði þau sem fram koma í starfsleyfinu varðandi mengunarmörk séu fullnægjandi. Hér má m.a. nefna að rekstraraðila er skv. skilyrði 7.2 gert að reikna út dreifingu og styrk lyktar frá öllum svínahúsum og miðað við að lyktarónæði fari ekki yfir tiltekin mörk sem gefin eru upp í starfsleyfinu. Samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga skal ekki fara strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Að skylda rekstraraðila til þess að setja upp dýran lofthreinsibúnað án þess að taka hæfilegt tilllit til þess hvernig núverandi mengunarbúnaður virkar er afar íþyngjandi og því ekki hægt að fallast á slíka kröfu að mati ráðuneytisins. Ráðuneytið telur að með ákvæðum um mengunarvarnir sem fram koma í starfsleyfinu, m.a. með mælingum á þeim árangri í mengunarvörnum sem núverandi loftræsibúnaður færir, séu uppfylltar kröfur um fullnægjandi mengunarvarnir í starfsleyfi sem og þær auknu kröfur til mengunarvarna sem gerðar voru í úrskurði umhverfisráðherra frá 26. september 2000. Verði árangur af þeim mengunarvörnum sem rekstraraðili hefur nú uppi á búinu ekki ásættanlegur getur heilbrigðseftirlit Reykjavíkur gripið til ýmissa úrræða, m.a. þess að taka starfsleyfið til endurskoðunar eins og gert er ráð fyrir í 2. mgr. 4. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem og  21. gr. reglugerðar nr. 785/1999.

 

Hvað varðar þann þátt kærunnar sem lýtur að skorti á gögnum kemur líkt og áður greinir fram í umsögn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að nefndin hafi verið í nánum samskiptum við bæði nýjan og eldri rekstraraðila. Hafi þau gögn sem fylgdu með umsókninni verið talin fullnægjandi en auk þess hafi nefndin haft öll nauðsynleg gögn undir höndum sem varðaði rekstur búsins. Þar að auki hafi legið fyrir mikið af upplýsingum eftir eftirlitsferðir heilbrigðisfulltrúa í svínabúið í Brautarholti. Ráðuneytið fellst því ekki á að fella beri starfsleyfi svínabúsins í Brautarholti úr gildi vegna skorts á gögnum með hliðsjón af upplýsingum heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík.

 

Hvað varðar tilvísun til þess að nota skuli  bestu fáanlega tækni við mengunarvarnir vill ráðuneytið benda á að í 6. mgr. 3. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim lögum er  í skilgreiningu á hugtakinu „besta fáanleg tækni“ vísað til framleiðsluaðferða og tækjakosts sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal besta fáanlega tækni bæði taka mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Samkvæmt þessu er tekið  tillit til efnahagslegra þátta þegar  besta fáanlega tækni er skilgreind fyrir tiltekna atvinnugrein eða aðferð sem beitt er við mengunarvarnir.   Þegar  túlkuð eru ákvæði í starfsleyfi sem gera kröfu um notkun bestu fáanlegu tækni líkt og gert hefur verið hvað varðar kröfur til mengunarvarna í starfsleyfi Svínabúsins í Brautarholti er því tekið tillit til efnahagslega þátta.

 

Varðandi athugasemdir kæranda sem lúta að skipulagi svæðisins og því að landbúnaðarsstarfsemi sé að víkja fyrir annars konar landnotkum á svæðinu vill ráðuneytið koma á framfæri að skv. gildandi aðalskipulagi er landsvæði það sem um ræðir skipulagt sem landbúnaðarsvæði. Samkvæmt gr. 4.14 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er landbúnaðarsvæði skilgreint á eftirfarandi hátt: „Á landbúnaðarsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni.“ Rekstur svínabúsins í Brautarholti fellur undir þau landnot sem lögð er til grundvallar skipulagi svæðisins og því ekki hægt að gera kröfu um að land það sem um ræðir verði nýtt til annars en gert er í dag að mati ráðuneytisins. 

 

Að öllu framangreindur virtu tekur ráðuneytið undir með því sem fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að hægt sé að ná markmiðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir með vægari leiðum en synjun á útgáfu starfsleyfi, þ.e. með því að að setja viðeigandi ákvæði um mengunarvarnir í starfsleyfi sbr. úrskurðarorð. Vill ráðuneytið jafnframt benda á að svínabúinu í Brautarholti hafa verið sett strangari starfsleyfisskilyrði en gildir um önnur svínabú á landinu, sbr. m.a. tilvísun í  skilyrði 7.1 í starfsleyfinu í úrskurð ráðherra frá 26. september 2000. Að auki eru gerðar strangar kröfur um mengunarvarnir og mótvægisaðgerðir gegn mengun í kafla 7 í hinu kærða starfsleyfi. Ráðuneytið fellst því ekki á að setja þurfi strangari kröfur í 7. kafla starfsleyfisins en nú er né að fella beri umrædd ákvæði úr gildi. Ráðuneytið leggur þó áherslu á að gefi niðurstöður útreikninga skv. skilyrði 7.2 tilefni til nánari skoðunar, sbr. skilyrði 7.3 í úrskurðarorði, skuli heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur framkvæma þær mælingar sem allra fyrst.

 


6. Mengun til næstu 12 ára.

 

Fari svo að starfsleyfið verði samþykkt telur kærandi, Bjarni Pálsson, sig þurfa að búa við sömu mengun og nú er til næstu 12 ára þar sem starfsleyfið gildir til 6. maí 2020.

 

Hvað þetta kæruatriði varðar bendir ráðuneytið á að skv.. 2. mgr. 4. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal gefa út starfsleyfi til tiltekins tíma. Í 2. ml. sömu greinar kemur fram að heilbrigðisnefnd sé heimilt að endurskoða starfsleyfi vegna breyttra forsendna. Í 20. gr. reglugerðar nr. 758/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun segir jafnframt að endurskoða skuli starfsleyfi að jafnaði á fjögurra ára fresti. Með hliðsjón af framangreindu gerir ráðuneytið ekki athugasemd við gildistíma starfsleyfisins og telur að með hliðsjón af ákvæðum um endurskoðun starfsleyfisins á 4 ára fresti sem og ákvæði 21. gr. reglugerðar nr. 785/1999 sem kveður á um að endurskoða skuli starfsleyfi verði mengun meiri en búast mætti við, séu þeir hagsmunir sem í húfi eru fyrir kæranda tryggðir.

 

8. Dreifing svínamykju.

 

Líkt og áður greinir krefst kærandi, Bjarni Pálsson, þess að skilyrðum starfsleyfisins hvað varðar dreifingu svínamykju verði breytt svo að dreifingin fari aðeins fram í eina viku á ári og þá samfleytt. Að auki verði rekstraraðila gert að sækja um heimild til heilbrigðiseftirlits um tímasetningu og að umsagnar kæranda verði leitað áður en heimild til dreifingar svínamykju verði veitt. Kærandi krefst þess einnig að dreifing fari ekki fram nær húsum sínum en 500 m. nema með hans samþykki.

 

Í 6. kafla starfsleyfisins er að finna þau ákvæði sem lúta að dreifingu svínamykju. Í  skilyrði 6.5 segir m.a.: „Dreifing á land við Brautarholt skal ekki fara fram oftar en í 14 daga á tímabilinu og reynt skal að hafa dreifingu í viku í senn samfellt, tvisvar sinnum á tímabilinu.“ Í  skilyrði 6.8 segir svo: „Taka skal tillit til nálægrar starfsemi og íbúða-og orlofshúsa við dreifingu og er einungis leyfilegt að dreifa á virkum dögum. Taka skal tillit til nálægra útivistarsvæða. Dreifing er óheimil 3 dögum fyrir stórhátíðir. Leitast skal við að dreifa þegar vindátt stendur af nærliggjandi húsum.“ Að auki er í gr. 6.9 í starfsleyfinu að finna fjarlægðarmörk sem gilda við dreifingu svínamykju. Þannig er rammi um meðferð og dreifingu svínamykju settur í starfsleyfinu sjálfu og fer skv. ákvæðum reglugerðar nr. 804/19999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri sem og starfsreglum um góða búskaparhætti. Í reglugerð þessari og starfsreglum er ítarlegar kröfur um hvar, hvenær og við hvaða aðstæður megi dreifa svínamykju. Ráðuneytið tekur undir með þeim sjónarmiðum Umhverfisstofnunar að í starfsleyfinu sé tekið hæfilegt tillit til sjónarmiða kæranda í starfsleyfinu, að ekki sé rétt að takmarka dreifingu svínamykju frekar  og sú krafa starfsleyfisins að svínamykju skuli ekki dreift oftar en 14 daga á ári sé sanngjörn í ljósi þess sem að framan er rakið.

 

Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið að ákvæði starfsleyfisins um losun svínamykju séu til þess fallin að takmarka loftmengun þá sem getur borist við mykjudreifingu og að með ákvæðum 6. kafla starfsleyfisins sé tekið tillit til sjónarmiða kæranda hvað varðar samfleytta dreifingu sem og nálægðartakmarkanna. Ráðuneytið fellst því ekki á þá kröfu kæranda að breyta þurfi ákvæðum starfsleyfisins sem varða dreifingu svínamykju.

 

9. Fjöldi dýra.

 

Kærandi, Bjarni Pálsson, krefst, eins og áður hefur verið greint frá, þess að ekki verði veitt leyfi fyrir fleiri gyltum í eldri húsum en 550 þar sem það hafi verið sá fjöldi sem veitt hafi verið leyfi fyrir upphaflega.

 

Í  skilyrði 1.1 í starfsleyfinu kemur fram eins og áður segir að leyfilegur hámarksfjöldi dýra í efri húsum hverju sinni sé 680 dýr. Hvað þetta kæruatriði varðar kemur fram í umsögn Umhverfisstofnunar að: “...til að viðhalda fjölda gyltna í 550, eins og starfsleyfi veitti heimild fyrir, þyrfti að ala ásetningsgyltur (unggyltur) til að skipta út eldri gyltum. Einnig þyrftu að vera til staðar 15 geltir. Það var metið svo að heildarfjöldi dýra í húsunum ætti að vera 680 þar sem sá heildarfjöldi (unggyltur, gyltur og geltir) ætti að nægja til að viðhalda 550 gyltum á búin að jafnaði”. Þannig telur Umhverfisstofnun að fjöldi gyltna hafi ekki verið aukinn heldur hafi rekstraraðila verið veitt svigrúm til þess að viðhalda 550 gyltum að jafnaði á búinu. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tekur í sama streng í umsögn sinni og segir m.a.: „Heilbrigðisnefnd hefur, að fengnu áliti sérfræðinga metið það sem svo, að 680 eldisgyltur þurfi til að búið nái þeirri stærð í framleiðslu, sem sótt var um í upphafi”.

 

 Skv. framangreindu svo og af gögnum málsins má að mati ráðuneytisins ráða að fjöldi dýra í hinu kærða starfsleyfi hafi, eins og Umhverfisstofnun bendir á, ekki verið aukinn eins og Umhverfisstofnun bendir á, heldur hafi rekstraraðilum verið veitt ákveðið svigrúm til þess að viðhalda að jafnaði 550 gyltum á svínabúinu. Í ljósi þessa telur ráðuneytið því að ekki sé unnt að takmarka fjölda dýra meira en nú er á svínabúinu í Brautarholti skv. gildandi starfsleyfi.

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl um útgáfu starfsleyfis til að starfrækja hreinsivirki og svínabú að Brautarholti, Kjalarnesi er staðfest með eftirfarandi breytingum:

 

1. Eftirfarandi málsliður kemur í stað 3. málsliðar í skilyrði 1.1 í hinu kærða starfsleyfi, svohljóðandi:

    Fullorðin dýr teljast 26 vikna og eldri.

 

2. Skilyrði 7.2 í hinu kærða starfsleyfi verður svohljóðandi:

    Rekstraraðili skal reikna út dreifingu og styrk lyktar frá öllum svínahúsunum miðað við staðaltöflur í eftirfarandi töflu:

 

Tafla: Stöðluð gildi fyrir lykt frá svínum                                     

Gyltur – í stíum á fengi/meðgöngutíma

16 OUE/sek/dýr

Gyltur í gotstíum með heilt (fast) gólf

72 OUE/sek/dýr

Gyltur í öðrum gerðum gotstía

100 OUE/sek/dýr

Smágrísir 7- 30 kg

380 OUE/sek/1000kg

Sláturgrísir yfir 30 kg á heilu (föstu) gólfi að hluta

300 OUE/sek/1000kg

Sláturgrísir yfir 30 kg á öðrum gólfgerðum

450 OUE/sek/1000kg


Notast skal við evrópsku eininguna OU
E (Odour Unit) sbr. staðal ÍST EN 13725:2003 – Air quality – Determination of odour concentration by dynamic olfactometry. Dreifing skal reiknuð með aðferð sem starfsleyfisgjafi samþykkir, t.d. OML-módeli dönsku umhverfistofnunarinnar. Miða skal við að lyktardreifing og styrkur fari ekki yfir þau mörk sem fram koma í viðauka við starfsleyfið. Niðurstöðum útreikninga skal skilað eigi síðar en 1. nóvember 2009.


3. Skilyrði 7.3 í hinu kærða starfsleyfi verður svohljóðandi:

    Gefi niðurstöður útreikninga skv. skilyrði 7.2 tilefni til frekari skoðunar, að mati heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, skal heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur láta framkvæma raunmælingar á dreifingu og styrk lyktar frá öllum svínahúsum. Mat á lykt skal fara fram á viðurkenndi rannsóknarstofu og framkvæmt skv. staðli ÍST EN 13725:2003 – Air quality – Determination of odour concentration by dynamic olfactometry. Rekstraraðili skal bera kostnað af sjálfu matinu og hugsanlegum sýnatökum.

 

4. Eftirfarandi viðauki bætist við starfsleyfið:

Viðauki

Óþægindi vegna lyktar – viðmiðunargildi.

 

Tafla: Viðmiðanir um óþægindamörk vegna lyktar frá húsdýrum

Aðstæður/svæði

Viðmið

Núverandi byggð eða framtíðar íbúðar-og sumarhúsabyggð samkvæmt aðalskipulagi.

5 OUE/m3

Byggðakjarni á landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi eða svæði þar sem í aðalskipulagi er kveðið á um íbúðabyggð og blandaða atvinnustarfsemi eða til opinberra nota þar sem tekið er tillit til íbúðarbyggðar, stofnana á svæðinu, útivistar og þess háttar.

7 OUE/m3

Nýbygging, stækkun eða breyting í nánd við einstök íbúðarhús.

15 OUE/m3

 

Fyrir svæði eins og skipulögð íbúðasvæði skulu óþægindamörk gilda fyrir allt svæðið, ekki einungis þann hluta sem er í byggð sé svæðið ekki fullbyggt.

 

Við þétta byggð skal miða við 7OUE/m3 mörkin og sé farið yfir þau má gera kröfu um sérstakt leyfi fyrir staðsetningu starfseminnar. Þétt byggð er skilgreind á eftirfarandi hátt: íbúðarhús sem hafa fleiri en 6 önnur íbúðarhús, sjálfstæðar eignir, í innan við 200 metra fjarlægð. Það getur verið að sum þeirra 6 íbúðarhúsa sem eru hluti af hinni þéttu byggð myndi hluta af annarri þéttri byggð, þó svo að þau séu ekki í miðju hinnar þéttu byggðar. Viðmiðin 7OUE/m3 gilda þá ekki fyrir þann kjarna.

 

Með tilliti til einstakra íbúðahúsa skulu óþægindamörkin gilda við húsvegg nágrannahússins en ekki í garði þess. Undanskilin óþægindamörkunum eru einnig íbúðahús á landbúnaðarsvæði og þau íbúðahús sem rekstraraðili á.

 

Ef fjarlægðin frá dýrahúsi að íverustað er meiri en helmingur af þeirri fjarlægð sem fengist hefur með útreiknuðum óþægindamörkum fyrir lykt frá dýrahúsi í rekstri má auka starfsemina og breyta henni að því tilskyldu að lykt haldist óbreytt eða minnki. Þetta þýðir í raun óbreytt eða minni lyktaróþægindi fyrir alla sem búa í grendinni. Sé fjarlægðin minni en helmingur af þeirri fjarlægð sem hin útreiknuðu óþægindamörk gefa til kynna er meginreglan sú að engar breytingar eða aukning á starfseminni eru leyfilegar. Þetta módel gefur þannig möguleika að á svæðum með þolanlegt lyktarónæði geti rekstraaðili lagað sig að aðstæðum með breyttum framleiðsluaðferðum, haldist lyktarónæði óbreytt. Nágrannar verða þannig ekki varir við meiri óþægindi.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta