Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 11060032

Þann 6. desember 2011 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

Úrskurður:

Ráðuneytinu barst þann 6. júní 2011 stjórnsýslukæra frá Guðríði Birnu Jónsdóttur og Hannesi Bjarnasyni, landeigendum að jörðinni Sveinseyri við Tálknafjörð, þar sem óskað er eftir því að umhverfisráðherra felli úr gildi starfsleyfi Þórodds ehf. fyrir kvíaeldisstöð á svæði merkt tA að Sveinseyrarhlíð, Tálknafirði. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

I. Málavextir

Þann 24. maí 2011 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Þórodds ehf., Eyrargötu 1, Patreksfirði til framleiðslu á allt að 3000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Patreksfirði og í Tálknafirði þannig að framleidd verði allt að 1500 tonn í hvorum firði. Kemur staðsetning kvía fram í viðaukum starfsleyfisins og er svæði tA skráð með hnitin 1. 65°37'51,0 N-23°52'49,0 W, 2. 65°38'07,0 N-23°52'49,0 W, 3. 65°38'07,0 N-23°52'26,0 W og 4. 65°37'51,0 N-23°52'26,0 W. Starfsleyfið var gefið út í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfið gildir til 31. maí 2027 en samkvæmt 1.6 gr. starfsleyfisins skal það endurskoðað á fjögurra ára fresti sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Þann 9. desember 2009 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að framangreind kvíaeldisstöð væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Varðar kæra einungis svæði tA.

Af hálfu ráðuneytisins var óskað eftir umsögnum Umhverfisstofnunar, Þórodds ehf., Vesturbyggðar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Hreppsnefndar Tálknafjarðar og Siglingarstofnunar Íslands með bréfum dags. 16. júní sl. vegna kærunnar. Umsögn barst frá Umhverfisstofnun þann 29. júlí sl., frá Þóroddi ehf. þann 1. júlí sl., Siglingastofnun þann 21. júlí sl. og frá Hreppsnefnd Tálknafjarðar þann 8. júlí sl. Voru kærendum sendar umræddar umsagnir til athugasemda með bréfi dags. 2. ágúst sl. og bárust athugasemdir þeirra þann 12. ágúst sl.

Með tölvupósti þann 26. september sl. óskaði ráðuneytið eftir við Umhverfistofnun að fá sent afrit af athugasemdum kæranda á auglýsingartíma starfsleyfistillögu fyrir Þórodd ehf. og afrit af greinagerð Umhverfisstofnunar með útgáfu starfsleyfis fyrir kvíeldisstöð Þórodds ehf. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu með tölvupósti þann 27. september sl. Þann 17. október sl. óskaði ráðuneytið eftir við Umhverfisstofnun að fá sent afrit af umsókn Þórodds ehf. um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar ásamt greinagerð dags. 15. apríl 2010. Umbeðin gögn bárust ráðuneytinu með tölvupósti þann 18. október sl.

II. Einstakar málsástæður kærenda og umsagnir um þær

Í kærunni kemur fram að með því að veita starfsleyfi fyrir kvíaeldi á svæði tA muni kvíarnar verða fyrir siglingaleið stórskips þegar það lestar fram að Sveinseyrarhlíð. Allt frá því í september 2010 hafi kærendur kynnt Umhverfisstofnun og fleiri aðilum sem að málinu komi áform kærenda um vatnsútflutning. Hafi kærendur þá gert athugasemdir við starfsleyfið á auglýsingartíma starfsleyfistillögunnar. Í greinagerð Umhverfisstofnunar með starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Þórodds ehf. komi fram að stofnunin hafi kannað lauslega sjónarmið Siglingastofnunar Íslands vegna málsins. Siglingastofnun hafi svarað því til þannig að svæðin virtust ekki skarast en ekki væri hægt að taka afstöðu til spurningarinnar nema að fyrir lægi hnit á vatnslögn og legusvæði/áhrifasvæði vatnsflutningsskips. Að mati kærenda séu svör Umhverfisstofnunar við athugasemdum kæranda ekki fullnægjandi þar sem fram komi í greinargerð að aðeins hafi verið um lauslega athugun að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun sé ekki hægt að fullyrða að kvíaeldi á tA svæði og lestun á vatni um borð í 50-100 þúsund tonna skip fram að Sveinseyrarhlíð geti gengið saman. Sé það því mat kærenda að ef hið kærða starfsleyfi verði ekki fellt úr gildi á svæði tA sé komið í veg fyrir að slíkt skip geti athafnað sig á sjónum fram að Sveinseyrarhlíð.

Í athugasemdum kærenda við drög að umræddu starfsleyfi á auglýsingatíma starfsleyfistillögunnar gerðu kærendur athugasemdir við að fyrirhuguð starfsemi yrði á svæði merktu sem tA á uppdrætti. Töldu kærendur sig hafa ríka hagsmuna að gæta þar sem fyrirhuguð staðsetning eldiskvía lægi mjög svo nærri landi kærenda sem næði allt frá og með Sveinseyrarodda út með Sveinseyrarhlíð og þaðan 115 metra út stórstreymisfjöru. Töldu þeir að eldiskvíar gætu raskað þeirri starfssemi sem nú væri fyrir á Sveinseyrarodda auk fyrirhugaðs vatnsútflutnings með tankskipun sem lestað yrði um borð fyrir utan Sveinseyrarhlíð. Undirbúningur vatnsútflutnings með stórum tankskipun sem lestað yrði fram af Sveinseyrarhlíð í Tálknafirði hafi staðið yfir síðan í maí 2009. Frá því í september 2010 hafi kærendur verið í sambandi við Umhverfisstofnun og kynnt áform um vatnsútflutninginn auk þess sem ýmsir aðrir opinberir aðilar hefðu verið upplýstir um áform kærenda og hjálpað til við undirbúninginn. Áætlað væri að tankskipið sem myndi flytja vatnið á erlenda markaði yrði mjög stórt u.þ.b. 50-100 þúsund tonn að stærð, þannig að rúmt athafnasvæði þyrfti að vera til staðar svo hægt væri að lesta vatnið um borð í skipið sem verði staðsett við sérstakt leguból sem ráðgert væri að útbúa út af Sveinseyrarhlíðinni. Gerðu kærendur athugasemd við það sem fram kæmi í niðurstöðu Skipulagsstofnunar með vísun í kafla um „samfélag“ þar sem stæði orðrétt: „Eldissvæði eru staðsett með tilliti til þess að siglingaleiðum verði ekki raskað á nokkurn hátt.“ Töldu kærendur að í þeirri ályktun hafi ekki verið tekið tillit til siglinga stórra skipa vegna fyrirhugaðs vatnsútflutnings. Fóru kærendur fram á að fyrirhugaðar eldiskvíar yrðu staðsettar með þeim hætti að þær trufluðu ekki lestun stórskipa úti fyrir Sveinseyrarhlíðinni.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað í greinargerð þá sem stofnunin sendi umsagnaraðilum við útgáfu starfsleyfis til handa Þóroddi ehf. þar sem fram kemur afstaða stofnunarinnar til þeirra umsagna sem borist höfðu þ.á.m. athugasemda kærenda. Fram kemur að Umhverfisstofnun hafi kannað lauslega sjónarmið Siglingastofnunar vegna málsins. Siglingastofnun hafi talið svæðin ekki skarast en ekki væri þó hægt að taka frekari afstöðu til málsins fyrr en hnit á vatnslögn og legusvæði sem og áhrifasvæði vatnsútflutningaskips lægju fyrir. Siglingastofnun benti einnig á að leguból fyrir skip væri hugsanlega háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Umhverfisstofnun bendir á að utan netlaga sé ekki um að ræða skilgreint skipulagsvald og slíkt vald sé ekki fyrir hendi hjá stofnuninni. Umhverfisstofnun úthluti ekki svæðum með útgáfu starfsleyfis en þess sé gætt eins og kostur sé að svæðin fari ekki í bága við viðtekna nýtingu, s.s. siglingaleiðir. Umhverfistofnun kveðst telja að henni sé ekki stætt fyrir sitt leyti að hafna hnitsetningu svæðisins eins og hún hafi verið tilgreind í umsókninni.

Þá telur Umhverfisstofnun sig ekki hafa heimild til að gera kröfu um aðra staðsetningu en sótt sé um. Í þessu sambandi vísar stofnunin í úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 16. júlí 2007, máls nr. UMH05120158, um kæru Haliotis á Íslandi ehf. vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 7. desember 2005 um útgáfu starfsleyfis fyrir 2000 tonna þorskeldi AGVA-Norðurland ehf. í Eyjafirði. Í úrskurði ráðuneytisins hafi meðal annars eftirfarandi komið fram um staðsetningu þorskeldiskvía: ,,Engar heimildir eru í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til að gera kröfu um aðra staðsetningu en sótt er um, t.d. vegna annarrar starfsemi sem fyrir er á svæðinu, enda uppfylli umsækjandi öll skilyrði laga og reglna sem um starfsemina gilda.? Bendir Umhverfisstofnun á að áform kærenda hafa ekki verið ítarlega útfærð og því ekki hægt að fara yfir þau nema lauslega. Ekkert liggi fyrir í málinu um að fiskeldi á svæði tA trufli áformaðan vatnsútflutning enda liggi ekki fyrir ítarleg útfærsla á verkefninu. Að lokum bendir Umhverfisstofnun á að starfsleyfið sé ekki hin endanlega heimild til fiskeldis innan svæðisins. Starfsleyfið fjalli aðeins um það hvernig standa skuli að rekstrinum með tilliti til mengunarvarna. Útgáfa starfsleyfisins útiloki því ekki að önnur þar til bær stjórnvöld geti ákveðið að fiskeldi sé óheimilt innan svæðis tA vegna annarra hagsmuna en þeirra sem snúa að mengunarvörnum.

Í umsögn Þórodds ehf. segir að fiskeldi hafi farið fram á svæði tA samfellt frá árinu 2002 á hnitum 65°37'32"N-23°48'85"V. Það sé því ekkert nýtt að þarna sé stundað fiskeldi og landeigendum á Sveinseyri væri kunnugt um það. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við starfsemi eða útgáfu starfsleyfa til fiskeldis á þessu svæði og verði það áfram notað til fiskeldis. Umrætt svæði sem Þóroddur ehf. hafi fengið starfsleyfi fyrir sé 24 hektarar að stærð og 300*500 m á hvora vegu. Það séu meira en 1000 metrar í næsta afmarkaða eldissvæði Þórodds og því ætti að vera nægt rými fyrir flutningaskip til að athafna sig í firðinum. Í nágrenni við eldissvæði tA sé dýpi og rými tæplega heppilegt fyrir 50-100 þúsund tonna tankskip og líklegt sé að slíkt risaskip geti fremur kastað akkerum utan við eldissvæði tA í miðjum firðinum utan við siglingaleiðir. Vatn sé væntanlega flutt í skipið í gegnum rör frá landi og því ekki þörf á neinum hagsmunaárekstrum við fiskeldisstarfssemi á svæði tA.

Í umsögn Tálknafjarðarhrepps kemur fram að á síðustu árum hafi borist beiðnir til hreppsnefndarinnar um umsagnir vegna rekstrar- og starfsleyfis til handa Þóroddi ehf. Einnig hafi borist beiðni frá landeigendum Sveinseyrar þess efnis að aðalskipulagi Tálknafjarðarhrepps yrði breytt og skilgreint yrði vatnsverndarsvæði vegna fyrirhugaðrar atvinnustarfsemi á Sveinseyri sem felst í vatnsútflutningi. Hafi Tálknafjarðarhreppur tekið vel í málaumleitan þessara aðila og ekki lagst gegn veitingu rekstrarleyfis til handa Þóroddi ehf. Hafi sveitafélagið ekki sent inn umsögn vegna starfsleyfisins til handa Þóroddi ehf. þar sem öll gögn og rök hafi komið fram í tillögu að starfsleyfinu sem sveitarfélaginu hafi þótt skipta máli að fram kæmu. Farin sé af stað breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna vatnsverndarsvæðis samkvæmt beiðni landeigenda Sveinseyrar og sé skipulagslýsing tilbúin og farin í kynningu.

Í umsögn Siglingastofnunar Íslands segir að stofnunin hafi skilað inn umsögn um veitingu rekstrarleyfis til handa Þóroddi ehf. vegna fiskeldis í Tálkna- og Patreksfirði þann 5. júlí 2010. Á þeim tíma hafi ekki legið fyrir nein vitneskja um fyrirhugaðan útflutning á vatni í Tálknafirði. Siglingastofnun hafa ekki borist neinar haldbærar upplýsingar um fyrirkomulag vatnsútflutnings t.d. hnituð lega vatnslagnar og aftöppunar í skip, fyrirkomulag legufæra fyrir vatnsskip o.fl. Á meðan slíkar upplýsingar liggi ekki fyrir telji Siglingastofnun að ekki séu forsendur til að meta hvort kvíaeldi á svæði tA hafi áhrif á lestun vatnskipa. Vert sé að benda á að samkvæmt 1. og 2. tölul. 3. gr. hafnarlaga, nr. 61/2003 teljast skipalægi, eins og hugmyndir virðist vera um vegna vatnsútflutnings, vera hafnarmannvirki/höfn. Samkvæmt 11. tölul. 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum séu hafnir sem skip stærri en 1350 tonn nota umhverfismatsskyldar.

Í athugasemdum kærenda kemur fram að það sé mat þeirra að ekki sé ásættanlegt að sjónarmið Siglingastofnunar séu einungis könnuð lauslega þar sem verið sé að veita starfsleyfi til umfangsmikillar starfsemi sem geti haft mikil áhrif á framtíðarmöguleika á svæðinu. Hafi kærendur mótmælt þessum vinnubrögðum í tölvupósti til Umhverfisstofnunar þann 26. maí 2011 en engin svör hafi borist frá Umhverfisstofnun. Að mati kærenda sé mjög bagalegt að enginn skuli hafa skilgreint skipulagsvald utan netlaga þar sem heildarsýn fyrir skipulag á svæðinu sé algjörlega ábótavant og leiði til ringulreiðar. Benda kærendur á að vatnsútflutningur frá Sveinseyri sé nýsköpunarverkefni sem sé fjármagnað af þeim sjálfum og skipti miklu máli í slíkum verkefnum að forgangsraða fjárfestingum vel og vandlega. Telji þeir það ekki enn fýsilegt og tímabært að ráðast í stórfelldan kostnað við nákvæma hönnun og útfærslu á legubólinu sem slíku. Þrátt fyrir það hafi kærendur skilað uppdrætti til Siglingastofnunar þar sem merkt sé inn hvar slíkt leguból væri líklegast til að vera staðsett. Hafi forsvarsmenn Siglingastofnunar borið fyrir sig að ekki lægi fyrir nákvæm staðsetning (hnit) legubólsins og því væru ekki forsendur til þess að meta hvort kvíaeldi á svæði tA hafi áhrif á lestun vatnsskipa. Benda kærendur á að þeir hafi nú fengið nákvæma staðsetningu legubólsins frá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar (Sjómælingum Íslands) og sent Siglingastofnun. Hafi Siglingastofnun verið í lófa lagt að afla sér upplýsinga um hnit á legubólinu eða hafi a.m.k. getað bent kærendum á hvar hægt væri að afla slíkra gagna.

Kærendur segja í athugasemdum sínum að þeim sé vel kunnugt um að áður fyrr hafi farið fram fiskeldi á tA svæðinu. Síðastliðið vor hafi allur eldisfiskur verið tekinn af svæðinu, allur eldisbúnaður fjarlægður og fiskeldi hætt á svæðinu. Nú sé búið að hengja plasthringi á svæðið án eldisnótna og enginn fiskur [sé á svæðinu]. Vísa kærendur til loftmynda sem borist hafi kæranda frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða þar sem fram komi nákvæm staðsetning þeirra fyrirtækja sem hafi starfsleyfi í firðinum og þar sé ekki að sjá að Þóroddur ehf. hafi haft starfsleyfi fyrir fiskeldi á svæði tA, en 200 tonna leyfi Þórodds ehf. sé ysta leyfið í firðinum, fjarri svæði tA. Telja kærendur að fullyrðingar Þórodds ehf. um að fiskeldi hafi farið fram samfellt síðan árið 2002 séu rangar og að rekstrarleyfi hafi aldrei verið úthlutað á umræddu svæði. Halda kærendur því fram að samkvæmt sjókorti Sjómælinga Íslands sé dýpi á svæði tA vel yfir 30 metra sem sé yfirdrifið nóg fyrir 50-100 þús. tonna skip.

Í afriti af tölvupóstsamskiptum við Umhverfisstofnun frá 10. maí og 26. maí 2011 sem fylgdu athugasemdum kærenda segir að það sé mat kærenda að svör Umhverfisstofnunar við athugasemdum kærenda sem fram koma í greinagerð með útgáfu starfsleyfis fyrir kvíeldisstöð Þórodds ehf. standist ekki. Siglingastofnun kannist ekki við að hafa verið beðin um álit á hvort að fyrirhugað starfsleyfi fyrir Þórodd ehf. muni hafa áhrif á lestun vatns frá Sveinseyri. Aðeins hafi verið um að ræða fyrirspurn um hvort að starfsleyfi fyrir Þórodd ehf. muni almennt hafa áhrif á siglingar inn og út úr firðinum. Samkvæmt Siglingamálastofnun sé ekki hægt að draga þá ályktun að það sé mat stofnunarinnar að fiskeldi geti gengið með fyrirhuguðum vatnsútflutningi frá Sveinseyri. Einnig sé það mat kærenda að Siglingastofnun hafi gefið til kynna að stofnunin álíti svo að legubólið kalli ekki á mat á umhverfisáhrifum sem sé í andstöðu við það sem fram kemur í áðurnefndri greinagerð Umhverfisstofnunar. Það sé mat kærenda að gera verði athugasemdir við að Umhverfisstofnun hafi kannað lauslega sjónarmið Siglingastofnunar Íslands vegna málsins. Spyrja kærendur hvers vegna Umhverfisstofnun hafi ekki óskað eftir formlegu áliti frá Siglingastofnun. Benda kærendur á að í áðurnefndri greinagerð hafi Umhverfisstofnun bent á að stofnunin gæti þess að svæðin fari ekki í bága við viðtekna nýtingu t.d. siglingaleiðir. Spyrja kærendur hvort að til séu verklagsreglur og/eða skilgreining hjá Umhverfisstofnun um hvernig stofnunin gæti að þeim þáttum og hvort að stofnuninni beri að gæta þess að komið sé í veg fyrir nýtingu náttúruauðlindar og komi þar með í veg fyrir atvinnutækifæri og verðmætasköpun. Með athugasemdum kærenda fylgdi einnig uppdráttur af staðsetningu vatnslagnar þar sem fram kemur að lengd hennar samkvæmt uppdrættinum sé 700 metrar og eru hnit uppgefin; a: 65°38,325'N, 023°53,560'V og b: 65°38,504'N, 023°52,753'V.

III. Forsendur og niðurstaða ráðuneytisins

Um útgáfu starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun gilda lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Er markmið laga nr. 7/1998 að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 gefur Umhverfisstofnun m.a. út starfsleyfi fyrir fiskeldi þar sem ársframleiðsla er meiri en 200 tonn og fráveita er til sjávar. Í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun segir í 1. mgr. 1. gr. að markmið reglugerðarinnar sé að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem geti haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Ljóst er því að í starfsleyfi sem gefið er út samkvæmt lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 er aðeins verið að fjalla um hvernig standa skuli að rekstri starfseminnar með tilliti til mengunarvarna. Í 16. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er starfandi atvinnurekstur skilgreindur sem rekstur sem hafi starfsleyfi við gildistöku reglugerðarinnar eða atvinnustarfsemi sem sótt hafi verið um starfsleyfi fyrir enda hefjist starfsemi eigi síðar en einu ári eftir gildistöku reglugerðarinnar. Í 15. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er starfsleyfi skilgreint sem ákvörðun í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfisins. Í 10. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um þær upplýsingar sem umsóknum um starfsleyfi ber að fylgja eins og við á hverju sinni. Í a-lið 10. gr. kemur fram að umsókn beri að fylgja lýsing á tegund atvinnurekstrar, umfangi hans og umfangi einstakra rekstrarþátta ef við á og uppdrættir af staðsetningu. Í b-lið 10. gr. kemur fram að afrit af staðfestu deiliskipulagi eigi að fylgja. Í 14. gr. reglugerðarinnar kemur fram að starfsleyfi skuli innihalda lýsingu á þeirri starfsemi sem heimiluð er, stærð hennar og staðsetningu.

Um neysluvatn gildir reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn. Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að afla skuli starfsleyfis heilbrigðisnefndar áður en eftirlitsskyld vatnsból eða vatnsveitur, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar og tilheyrandi búnaður er tekinn í notkun og við eigendaskipti. Skal það gert að undangenginni ákvörðun um vatnsvernd í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Í 12. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að eftirlit skuli haft með ástandi neysluvatns, þ.m.t. vatnsbólum og brunnsvæði þeirra, vatnsveitum, hreinsi- og dælustöðvum, dreifikerfum og öðru sem áhrif kunni að hafa á neysluvatn. Í 8 tölul. 3. gr. reglugerðarinnar er vatnsból skilgreint sem náttúruleg uppspretta eða mannvirki, þar sem vatn er tekið.

Í umsókn Þórodds ehf. til Umhverfisstofnunar frá 15. apríl 2010 kemur fram að sótt sé um starfsleyfi til framleiðslu á 3000 tonna laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Fyrirhugað sé að framleiða allt að 1500 tonn af laxi í hvorum firði og komi þessi framleiðsla til viðbótar framleiðslu á 398 tonnum af þorski. Fram kemur einnig að Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé ekki matskyld. Með umsókninni fylgdi greinagerð og er þar að finna uppdrátt af staðsetningu og afmörkun eldissvæðanna í Tálknafirði sem eru þrjú tA, tB og tC ásamt upplýsingum um hnit þeirra. Eru hnit svæðis tA uppgefin fyrir hvert horn og eru eftirfarandi: 1. 65°37'51,0 N-23°52'49,0 W. 2. 65°38'07,0 N-23°52'49,0 W. 3. 65°38'07,0 N-23°52'26,0 W. 4. 65°37'51,0 N-23°52'26,0 W. Fram kemur að öll eldisvæði nema eitt, svæði tB, séu lengra frá strandlínu en 115 metrar. Fylgdi því ekki afrit af staðfestu deiliskipulagi með umsókn. Einnig kemur fram að svæðið tA sé staðsett innan skilgreinds hafnarsvæðis Tálknafjarðarhrepps.

Þann 24. maí 2011 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Þórodds ehf. Í starfsleyfinu er kveðið á um að Þóroddi ehf. sé heimilt að framleiða allt að 3000 tonni af laxi á ári í sjókvíum í Patreksfirði og í Tálknafirði þannig að framleidd verði allt að 1500 tonn í hvorum firði. Er staðsetning kvía gefin upp í hnitum í viðaukum starfsleyfisins og eru uppgefin hnit fyrir svæði tA þau sömu og fram koma í umsókn Þórodds en það svæði nær út fyrir 115 metra frá stórstraumsfjöruborði.

Fram kemur í gögnum málsins að áform um vatnsútflutning frá Sveinseyri sé nýsköpunarverkefni sem sé fjármagnað af kærendum sjálfum. Það vatn sem til standi að flytja út sé sjálfrennandi drykkjarvatn sem renni upp um borholur sem þegar séu til staðar út með Sveinseyrarhlíðinni. Áætlað sé að tankskipin sem flytja muni vatnið á erlenda markaði verði um það bil 50-100 þúsund tonn að stærð og að vatnið verði lestað um borð í skipið sem yrði staðsett við sérstakt leguból sem ráðgert sé að útbúa út af Sveinseyrarhlíðinni. Samkvæmt reglugerð nr. 536/2001 þarf að afla starfsleyfis heilbrigðisnefndar áður en eftirlitsskyld vatnsból eða vatnsveitur og tilheyrandi búnaður er tekinn í notkun og við eigendaskipti og skal það gert að undangenginni ákvörðun um vatnsvernd í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Í umsögn Tálknafjarðarhrepps kemur fram að farin sé af stað vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna vatnsverndarsvæðis samkvæmt beiðni landeigenda Sveinseyrar og sé skipulagslýsing, sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tilbúin og farin í kynningu. Siglingastofnun bendir á í sinni umsögn að ekki hafi borist neinar haldbærar upplýsingar um fyrirkomulag vatnsútflutnings, t.d. hnituð lega vatnslagnar og aftöppunar í skip, fyrirkomulag legufæra fyrir vatnsskip o.fl. Telur stofnunin að á meðan slíkar upplýsingar liggi ekki fyrir séu ekki forsendur til að meta hvort kvíaeldi á svæði tA hafi áhrif á lestun vatnskipa. Bendir Siglingastofnun ennfremur á að samkvæmt 1. og 2. tölul. 3. gr. hafnarlaga, nr. 61/2003, teljast skipalægi, eins og hugmyndir virðist vera um vegna vatnsútflutnings, vera hafnarmannvirki/höfn. Samkvæmt 11. tölul. 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum séu hafnir sem skip stærri en 1350 tonn nota umhverfismatsskyldar. Kærendur benda á að þeir hafi nú fengið nákvæma staðsetningu legubólsins frá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar (Sjómælingum Íslands) og sent Siglingastofnun ásamt því að hnit vatnslagnar liggi fyrir.

Í áliti félagsmálaráðuneytisins frá 19. október 2000, FEL00100019, kemur fram að lögsagnarumdæmi sveitarfélaga nái á haf út innan netlaga, þ.e. 115 metra frá stórstraumsfjöruborði. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, nær skipulagsskylda sveitarfélaga til lands og hafs innan marka sveitarfélaga. Fyrirliggur að svæði tA er staðsett út fyrir 115 metra frá stórstraumsfjöruborði og þar með utan netlaga. Á svæði tA, en eins og fram hefur komið varðar kæran einungis það svæði, er því ekki til staðar skilgreint skipulagsvald og liggur því ekki fyrir staðfest deiliskipulag af svæðinu. Ekki liggur fyrir í málinu að sótt hafi verið um starfsleyfi heilbrigðisnefndar fyrir notkun vatnsbólsins enda hafa ekki verið staðfestar breytingar á aðalskipulagi Tálknafjarðarhrepps varðandi vatnsverndarsvæði sem er, samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 536/2001, nauðsynlegur undanfari útgáfu starfsleyfis fyrir notkun vatnsbóls. Umhverfisstofnun bendir á að stofnunin úthluti ekki svæðum með útgáfu starfsleyfis og að henni sé ekki heimilt að hafna hnitsetningu svæðisins eins og það hafi verið tilgreint í umsókn um starfsleyfi. Hafi stofnunin kannað lauslega sjónarmið Siglingarstofnunar vegna málsins. Telji Siglingastofnun ekki að svæðin skarist en fram hafi komið að ekki sé hægt að taka frekari afstöðu til málsins fyrr en hnit á vatnslögn og legusvæði sem og áhrifasvæði vatnsútflutningskipsins liggi fyrir. Í umsögn Siglingastofnunar segir að ekki séu forsendur til að meta hvort kvíaeldi á svæði tA hafi áhrif á lestun vatnskipa þar sem ekki hafi borist neinar haldbærar upplýsingar um fyrirkomulag vatnsútflutningsins t.d hnituð lega vatnslagnar og aftöppunar í skip. Samkvæmt athugasemdum kærenda liggur fyrir staðsetning fyrirhugaðs legubóls og vatnslagnar en ekki liggur fyrir í málinu hvort að kvíeldi á svæði tA muni trufla siglingu stórskipa vegna vatnsútflutnings. Kærendur hafa gert grein fyrir að hér sé um áform að ræða. Ráðuneytið bendir á að í hinu kærða starfsleyfi er aðeins verið að fjalla um hvernig standa skuli að rekstri starfseminnar með tilliti til mengunarvarna þannig að markmiði laga nr. 7/1998 um að vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi verði náð. Það er mat ráðuneytisins, með hliðsjón að framangreindu, að ekki hafi verið skilyrði til þess samkvæmt lögum og reglum að við útgáfu hins kærða starfsleyfis sé tekið tillit til umræddrar starfsemi sem er fyrirhuguð. Ráðuneytið telur því að ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu hins kærða starfsleyfis hafi verið í samræmi við lög og að hafna verði kröfu kæranda um að starfsleyfið verði fellt úr gildi á svæði tA að Sveinseyrarhlíð.

Ráðuneytið vill benda á að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 þarf rekstrarleyfi til starfrækslu fiskeldisstöðva sem Fiskistofa gefur út. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna er eitt af skilyrðum fyrir útgáfu rekstrarleyfis sú að fyrir liggi starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Með vísan til framanritaðs er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 24. maí 2011 um útgáfu starfsleyfis fyrir allt að 3000 tonnum af laxeldi í kvíaeldisstöð Þórodds ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 24. maí 2011 um útgáfu starfsleyfi fyrir 3000 tonna laxeldi í kvíaeldisstöð Þórodds ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði.

Svandís Svavarsdóttir

Íris Bjargmundsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta