Mál 08110145
Þann 9. júlí 2009 var í umhverfisráðuneytinu uppkveðinn svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
Ráðuneytinu barst þann 27. desember s.l. stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 27. október s.l., um að framkvæmd vegna vegalagningar um Djúpafjörð austanverðan, frá væntanlegum Vestfjarðarvegi á Hallsteinsnesi að núverandi Vestfjarðarvegi undir Mýrlendisfjalli í Reykhólahreppi, skyldi ekki háð mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Kærandi er Olga Pálsdóttir eigandi jarðarinnar Hallsteinsness. Grundvallast kæruaðild einkum á því að fyrirhugaður vegur muni að hluta liggja um jörðina Hallssteinsnes, sbr. ákvæði um kæruaðild og kæruheimild í 1. mgr. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Umboðsmenn kæranda og landeigenda í máli þessu eru Pálmi Larsen, Guðrún Ólöf Þorbergsdóttir og Brynja Þ. Þorbergsdóttir.
I. Málsatvik og forsendur hinnar kærðu ákvörðunar.
Þann 28. ágúst 2008 tilkynnti Vegagerðin um fyrirhugaða lagningu Djúpadalsvegar, - Vestfjarðarvegur á Hallsteinsnesi/Djúpidalur, til Skipulagsstofnunar samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. lið 13. a. í 2. viðauka laganna. Í framhaldi af því tók Skipulagsstofnun sem fyrr greinir ákvörðun um að umrædd framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt nefndum lögum. Skipulagsstofnun vísaði í hinni kærðu ákvörðun meðal annars til umsagna sem stofnunin hafði aflað frá Reykhólahreppi, Fornleifavernd ríkisins, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógrækt ríkisins og Umhverfisstofnun. Þá óskaði ráðuneytið eftir umsögnum frá Skipulagsstofnun með bréfi dags. 17. ferbrúar s.l. og Vegagerð ríkisins með bréfi dags. 17. febrúar s.l. Barst umsögn Skipulagsstofnunar með bréfi dags. 2. mars. s.l og umsögn Vegagerðar ríkisins með bréfi dags. 3. mars s.l. Í framhaldi af því sendi ráðuneytið umboðsmönnum kæranda framangreindar umsagnir til athugasemda með bréfi dags. 27. mars s.l. og bárust athugasemdir þeirra með bréfi til ráðuneytisins dags. 14. maí s.l. Af hálfu ráðuneytisins var og farin vettvangsganga um framkvæmdasvæðið þann 21. júní s.l. ásamt jarðfræðingi frá Veðurstofu Íslands. Þá sendi ráðuneytið Skipulagsstofnun fyrirspurn vegna málsins með bréfi dags. 25. júní s.l. og barst svar Skipulagsstofnunar með bréfi dags. 7. júlí s.l.
Í fyrirliggjandi málsgögnum og forsendum hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að í fyrstu hafi verið gerð veglína inn Djúpafjörð að vestanverðu. Í þeirri áætlun hafi verið lagt til að gerður yrði nýr malarvegur frá Grónesi að Hálsá undir Ódrjúgshálsi. Við frekari verkkönnun hafi hins vegar komið í ljós að hentugra væri að leggja veg í austanverðum Djúpafirði, m.a. vegna þess að vegur væri þar fyrir og svæðið þannig raskað að því leyti nú þegar, en áður áformaður vegur að vestanverðu hefði að mestu legið um óraskað land og verið miklum mun nærri arnarvarpi sem væri þeim megin fjarðarins. Mat á umhverfisáhrifum hafi og farið fram á þeim vegaframkvæmdarkafla sem teljist til Vestfjarðarvegar, en Djúpadalsvegi væri samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum ætlað að tengjast þeim vegarkafla. Í málsgögnum er þá tekið fram að hin fyrirhugaða vegaframkvæmd, sem hin kærða ákvörðun varðar, verði inn austanverðan Djúpafjörð (ekki vestanverðan eins og áður hafði verið ráðgert) og til norðurs frá fyrirhuguðum nýjum Vestfjarðarvegi á Hallsteinsnesi. Um sé að ræða 5,7 km langan og um 4 metra breiðan vegakafla. Er rakið að vegurinn komi til með að liggja að nokkru leyti um gróið land, ýmist mólendi eða kjarrlendi og nokkuð víða á veglínusvæðinu standi klappir upp úr landi. Vegurinn muni því að hluta liggja um land þar sem gróðri hafi þegar verið raskað með vegagerð þótt á einhverjum köflum muni framkvæmdin mögulega skerða óraskað gróðurlendi. Gróðurfar teljist þá ekki sérstætt á framkvæmdasvæðinu þar sem rannsóknir hafa verið gerðar í tengslum við Vestfjarðarveg 60. Í greinargerð framkvæmdaðila er m.a. fjallað um áhrif á landslag, jarðmyndanir, gróðurfar og fugla og tekið fram graslendi og mólendi muni verða fyrir litlum skerðingum og áhrif á fugla verði mun minni en veglagning hefði orðið vestan megin fjarðar. Hinn fyrirhugaður vegur verði hannaður fyrir hámarkshraðann 70 km/klst en ráðgert sé að umferð um hann verði mjög lítil, eða undir 10 bifreiðum á dag. Sé framkvæmdin liður í uppbyggingu vegakerfisins í Gufudalssveit og komi veglínan til með að fylgja núverandi slóða að miklu leyti en þó ekki alls staðar. Einhverjir ískorningar séu á leiðinni og Krossagil þar sem Krossá renni sé hvað stærst í því sambandi og verði því sett þar stálræsi um 2,4 metrar að þvermáli. Annars staðar verði minni stálræsi sett. Áætluð efnisþörf í verkið sé um 90 þúsund rúmmetrar. Verktaki muni hvorki né megi taka efni til vegagerðar nema úr vegskeringum, skriðum við núverandi vegslóð og úr núverandi Vestfjarðarvegi undir Mýrlendisfjalli. Áður en efnistaka úr vegskeringum hefjist verði öllum lífrænum jarðvegi sem finnist á svæðinu ýtt í haug og hann geymdur til nýtingar við frágang þegar efnistöku ljúki. Heildarmagn skeringa reiknist um 230 þúsund rúmmetrar, en nokkur hluti þeirra sé í lítt grónum sethjalla í austanverðum Djúpafirði við Hallsteinsnes eða um 110 þúsund rúmmetrar og verði það magn ásamt hugsanlegu öðru umframefni úr skeringum nýtt í gerð Vestfjarðavegar. Frágangur efnisnáma og vegskeringa verði þannig að ekki myndist vindálag á lausamöl og sléttað verði til samræmis við landslag og halla þess. Sáning í vegkanta og vegfláa verði framkvæmd með tilhæfandi gróðurtegundum og við uppgræðslu verði farið eftir leiðbeiningum Vegagerðar ríkisins um gróðurhönnun vegsvæða í dreifbýli. Þá verði haft samráð við Skógrækt ríkisins vegna kjarrlendis er kunni að skerðast vegna framkvæmdarinnar. Allur frágangur verði í samráði við landeigendur og vegtengingar aðlagaðar nýjum vegi. Áhrif á samfélag taki einkum til þess að í Djúpadal sé stundaður búskapur og þar séu þrjú frístundahús. Verði það helst ryk og hávaði á framkvæmdartíma sem komi til með að hafa áhrif á útivist næst veginum, en umferð muni þó vart raskast. Landslagsáhrif birtist aðallega í breyttri ásýnd lands þar sem náma verði í vegsvæði, en þó verði gengið þannig frá vegsvæði og efnistökusvæði að þau falli vel að landi að framkvæmd lokinni. Jarðmyndanir verði ekki fyrir teljandi áhrifum, enda liggi hinn fyrirhugaði vegur hvergi um votlendi. Lítil áhrif verði þá á annað undirlendi er svæðið þekur sem einkum telst vera gras - og mólendi. Varðandi áhrif á lífríki þá er tekið fram í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar að áhrif á arnarvarp muni verða mun minni en ef vegur yrði lagður vestan megin fjarðarins. Fyrir liggi að hinn áformaði vegur muni hvorki liggja um friðlýst svæði né svæði á náttúruminjaskrá og að vegurinn muni fylgja núverandi vegstæði að miklu leyti.
Niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar var sú að framangreind framkvæmd skyldi ekki sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í framlagðri kæru er þess krafist að framkvæmdin verði látin sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt nefndum lögum og að ráðherra beiti sér gegn framkvæmdinni.
II. Málsástæður kæranda og athugasemdir umsagnaraðila.
1. Um landrask og vöntun gagna varðandi jarðfræði og lífríki.
Í kæru er vísað til þess að fyrirhugaður vegur komi til með að liggja yfir ósnortið land á einkaeignarlandinu Hallsteinsnesi utanverðu, sem að meirihluta sé þakið skógi og kjarri. Muni vegagerðin raska ásýnd landsins sem sjáist langt að. Þá er dregið í efa að einungis 0,5 ha skóglendis fari undir vegstæði og að vegurinn liggi að hluta til á vegslóða er ruddur hafi verið við austanverðan Djúpafjörð.
Þá er því einnig haldið fram í kæru að Vegagerðin hafi einungis kannað hluta væntanlegs vegstæðis með tilliti til dýralífs og gróðurfars og vísað til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um skort á gögnum. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að stofnunin telji upplýsingar skorta um jarðfræði og gróðurfar á hluta framkvæmdasvæðis, svo og nákvæma legu fyrirhugaðs vegar með tilliti til þessara þátta. Áhrif á arnarvarp muni verða mun minni en ef vegurinn yrði lagður að vestanverðu líkt og fyrr hafði verið ráðgert.
Í umsögn Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins er tekið fram að gerðar hafi verið rannsóknir á lífríki á hluta þess svæðis sem Djúpadalsvegur mun liggja um, en samkvæmt þeim sé gróðufar þarna ekki sérstætt. Í ljósi fyrirliggjandi gagna hafi Skipulagsstofnun talið að áhrif á jarðmyndanir yrðu lítil og þá muni Vegagerðin auk þess gera nánari athuganir á jarðsvæði og gróðurfari í austanverðum Djúpafirði við upphaf framkvæmda. Þá er og tekið fram að í gögnum þeim sem hafi borist með tilkynningu Vegagerðarinnar hafi komið fram þær staðháttalýsingar og upplýsingar, þar með talið lýsingar á gróðurfari jarðlagi ofl. umhverfisþáttum á framkvæmdasvæðinu. Með hliðsjón af því sé engan veginn unnt að telja að gögn eða upplýsingar um framkvæmdasvæðið hafi skort við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þá er tekið fram að um sé að tefla 5,7 km langan vegslóða er fylgi að miklu leyti núverandi slóðum og vegum og liggi einkum um ýmist mó - eða kjarrlendi. Veglega verði þar sem gróðri hafi nú þegar verið raskað þótt skerðingar verði á köflum, eins og á kjarrlendi á Hallsteinsnesi og í botni Djúpafjarðar. Áhrif á fitjar verði engin og af loftmyndum af svæðinu greinist ummerki vegslóðar á stórum hluta þeirrar leiðar þar sem fyrirhuguð framkvæmd sé áformuð. Aflað hafi verið staðfestingar Vegagerðar ríkisins og Skógræktar ríkisins á því að ruðningur skógs nemi ekki meira en 0,5 hektara lands, en það sé viðmið sem litið hafi verið til vegna tilkynningarskyldu skógruðnings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Sá skógruðningur sem fyrirhugaður sé vegna umræddrar framkvæmdar sé því ekki tilkynningarskyldur og þá þurfi sérstakt leyfi Skógræktar ríkisins til að rjóðurfella megi skóg, sbr. lög nr. 3/1955 um skógrækt. Þá er tekið fram í svari Skipulagsstofnunar við fyrirspurn ráðuneytisins að ekkert í gögnum málsins hafi gefið tilefni til frekari rannsókna á náttúrufarsþáttum þrátt fyrir framangreinda athugasemd náttúrufræðistofnunar þar sem fjallað hafi verið um umrædda þætti í greinargerð þeirri er fylgdi tilkynningu framkvæmdaraðila.
Í umsögn Skógræktar ríkisins til Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telji framkvæmdina ekki til þess fallna að hafa umtalsverð áhrif á skóglendi á svæðinu.
Í umsögn Reykhólahrepps til Skipulagsstofnunar er vitnað í bókun hreppsnefndarfundar vegna framkvæmdarinnar þar sem tekið er fram að framkvæmdin þurfi ekki að fara í umhverfismat.
Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar er tekið fram að vegurinn muni hvorki liggja um friðlýst svæði né svæði á náttúruminjaskrá. Áhrif á gróðurfar komi til með að verða lítil umfram það gróðurlendi sem vegstæðið verði á. Á því svæði sem kannað hafi verið sé heldur ekki um að ræða sérstætt gróðurfar, vegurinn liggi að mestu um gróna mela og gömul tún. Innan Krossgils (sem er við norðurenda veglínu) sé vegstæði á mörkum ræktaðs lands og gisins birkikjarrs. Telur Umhverfistofnunin ekki líkur á að framkvæmdin muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000. Einnig kemur fram að fyrstu tveir kílómetrar vegarins (miðað við syðri enda hans) séu námuvegur og skering sem fjallað hafi verið um við mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðarvegar og verði því ekki fjallað frekar um þann hluta vegarins í umsögn stofnunarinnar. Næstu 1600 metra fylgi vegurinn núverandi slóð og liggi svo síðasta spölinn að hluta um gróna mela og gisið kjarr. Áhrif á gróðurlendi verði væntanlega lítil umfram það sem undir vegstæði fer og unnt sé að draga verulega úr áhrifum vegna skeringa með vönduðum frágangi. Telur Umhverfisstofnun ekki líkur á því að umrædd framkvæmd kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Í athugasemdum þeim sem tilgreindar eru í umsögn Vegagerðar ríkisins til ráðuneytisins er tekið fram að vegstæðið verði einungis 5,7 km að lengd og að svæði það þar sem ekki hafi verið gerð sérstök könnun á gróðurfari og dýralífi sé fremur lítið.
2. Um Djúpadalsveg sem hluta af Vestfjarðavegi 60 og veglagningu um Teigskóg.
Kærandi telur að Djúpadalsvegur hefði átt að sæta mati á umhverfisáhrifum sem hluti af Vestfjarðarvegi 60 og nú hafi hluti hans verið felldur úr gildi með dómi héraðsdómi Reykjavíkur og þar með sé umræddur Djúpadalsvegur óþarftur. Fer kærandi fram á að ráðherra beiti sér fyrir að öllum undirbúningi við veglagningu inn Djúpafjörð verði hætt í samræmi við héraðsdóm þennan.
Í umsögn Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins er tekið fram að það sé ekki á á valdsviði stofnunarinnar að kveða á um nauðsyn framkvæmda eða leggja mat á hvort þörf sé fyrir þær. Í tilvitnuðum dómi héraðsdóms, sem nú hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar, sé heldur ekki fjallað um Djúpadalsveg. Þá er til þess vísað að skipulags - og leyfisveitingarvald sé í höndum sveitarfélaga og ráðist þetta atriði einnig af því.
Í umsögn Vegagerðar ríkisins er rakið að framkvæmdin sé breyting á matsskyldri framkvæmd og því tilkynningarskyld í ljósi 13. tl. 2.viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Sé veginum ætlað að tengja bæinn Djúpadal og frístundahús í Djúpafirði við Vestfjarðaveg. Hafi vegagerðin því tilkynnt umrædda framkvæmd til Skipulagsstofnunar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sbr. 13. tl. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Vegagerðin hafi því í einu og öllu farið eftir gildandi lögum og reglum og hafni því alfarið að fyrirhuguð framkvæmd eigi að teljast matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, enda birtist samdóma afstaða í álitum allra umsagnaraðila um að framkvæmdin þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum.
III. Forsendur og niðurstaða ráðuneytisins.
Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er meðal annars rakið að markmið laganna sé að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er tekið fram að framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Við mat á því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif ber að fara eftir þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 3. viðauka laganna, sbr. 2. mgr. 6. gr laganna. Er hugtakið umhverfi skilgreint í k. - lið 3. gr. laganna sem samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti. Í o. - lið 3. gr. laganna er svo orðasambandið umtalsverð umhverfisáhrif skilgreint sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif, eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. . Verður úrlausnarefnið fyrst og fremst virt í ljósi þessara lagaákvæða og þeirra sjónarmiða er þau byggja á.
1. Um landrask og vöntun gagna varðandi jarðfræði og lífríki
Sem fyrr greinir vísar kærandi til þess að umrædd framkvæmd muni raska ásýnd landsins og dregur í efa aðeins 0,5 ha af skógi verði ruddur. Þá er vísað til þess að einhver vegarkafli muni verða innan marka eignarlands Hallsteinsness. Einnig er á því byggt sem fyrr segir að einungis hluti vegstæðis hafi verið kannaður með tilliti til gróðurfars og dýralífs.
Eins og fram kemur í málsgögnum mun fyrirhugaður vegur að mestu liggja í eldra vegstæði. Að mati ráðuneytisins má taka undir sjónarmið Skipulagsstofnunar og Skógræktar ríkisins varðandi fyrirsjáanlegan skógruðning, að ekki sé fram komið að hinn fyrirhugaði 0,5 ha ruðningur skógs geti falið í sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum, meðal annars í ljósi þess að stuðst er við 0,5 ha viðmið varðandi tilkynningarskyldu eftir 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum vegna skógruðnings. Hafa að mati ráðuneytisins engin haldbær rök eða gögn fundist eða komið fram til að unnt sé að taka undir efasemdir kæranda í þessu sambandi. Breytir það engu í þessu sambandi þótt fyrirhugaður vegur muni að einhverju leyti liggja um landssvæði innan landamarka Hallssteinsness, en í því sambandi þykir og rétt að benda á að lög um mat á umhverfisáhrifum hafa ekki að geyma reglur um eignarnámsbætur og um leyfi til framkvæmda af þessum toga fer samkvæmt 27. gr. skipulags - og byggingarlaga nr. 73/1997.
Í framkomnum gögnum og upplýsingum, þ.m.t. staðháttalýsingum og umsögnum, er að mati ráðuneytisins hvergi að finna vísbendingu um að fyrirhuguð framkvæmd komi til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, sbr. einkum hugtaksskilgreiningu þá er birtist í k . - lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdasvæðið er hvorki á náttúruminjaskrá né náttúruverndaáætlun og nýtur ekki sérstakrar verndar að lögum og jarðlög og gróðurfar teljast samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hvorki með sérstæðum né fjölbreytilegum hætti. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kemur fram að áhrif á arnarvarp verði minni en ef veglagning hefði farið fram á vesturströnd fjarðarins. Að mati ráðuneytisins má taka undir álit umsagnaraðila um að framkvæmdin sé ekki líkleg til með að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. til að mynda umsögn Umhverfisstofnunar þar sem fram kemur skýr afstaða um að stofnunin telji að framkvæmdin þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum og í því sambandi vitnað til þess að vegurinn komi hvorki til með að liggja um friðlýst svæði né svæði á Náttúruminjaskrá og lítil áhrif verði á gróðurfar.
Vegna athugasemdar í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um að gögn um jarðfræði og gróðurfar hafi skort um hluta framkvæmdasvæðis og skírskotunar kæranda til þess, þá ræðst úrlausn þess atriðis að mati ráðuneytisins einkum af því hvort kröfur þær sem fólgnar eru í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið uppfylltar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sem fram fór á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sem fyrr greinir. Þegar um er að ræða matskennda ákvörðun líkt og hér háttar til ber hlutaðeigandi stjórnvaldi í ljósi 10. gr. stjórnsýslulaga fyrst og fremst að hafa þær upplýsingar undir höndum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlunin er að byggja ákvörðun á. Að mati ráðuneytisins þykja fyrirliggjandi gögn og upplýsingar þær er aflað hefur verið um framkvæmdasvæðið, þar með talið þær upplýsingar sem greinir í framanröktum umsögnum og gögnum framkvæmdaraðila m.a. um landslag, gróðurfar og jarðmyndanir sbr. og rakningu hér í kafla I, hafa að geyma nægilegar upplýsingar um umhverfi framkvæmdasvæðins til þess að Skipulagsstofnun hafi verið unnt við töku hinnar kærðu ákvörðunar að beita þeim lagasjónarmiðum sem birtast í lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. einkum o. - lið 3. gr. sbr. 6. gr. og sjónarmið þau er birtast í ákvæðum 3. viðauka laganna.
Með hliðsjón af framangreindu þykir að mati ráðuneytisins hvorki unnt að fallast á það sjónarmið kæranda að Skipulagsstofnun hafi byggt hina kærðu ákvörðun á ófullnægjandi gögnum eða upplýsingum í skilningi laga, né heldur að fyrirhuguð framkvæmd sé líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. o. - lið 3. gr. sbr. 6. gr. umgetinna laga.
2. Um Djúpadalsveg sem hluta af Vestfjarðavegi og veglagningu um Teigskóg.
Kærendur telja sem fyrr greinir að fyrirhuguð framkvæmd hefði átt að sæta mati á umhverfisáhrifum sem hluti af Vestfjarðarvegi 60 og að með dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um Veglagningu um Teigskóg hafi forsendur brostið fyrir vegframkvæmd um Djúpafjörð.
Fram er komið að fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. sbr. 13. tl. a. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum sem breyting á framkvæmd, þar sem áður var ráðgert að leggja veg inn Djúpafjörð að vestanverðu en umhverfisverndarsjónarmið urðu m.a. til þess að ákveðið var að leggja veglínuna inn Djúpafjörð að austanverðu. Var það gert með vísan til þess að þannig yrðu enn minni umhverfisáhrif miðað við lagningu vegarkafla vestan megin í firðinum eins og áður hafði verið áformað. Að mati ráðuneytisins eru framangreind lagaákvæði 2. mgr. 6. gr. sbr. 13. tl. a. 2. viðauka skýr í þessu sambandi og taka þau ótvírætt til þeirra framkvæmdar sem hér er til umfjöllunar, en í ákvæðum ofangreinds 13. tl. a. kemur fram að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir samkvæmt 1. eða 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif skuli tilkynntar til Skipulagsstofnunar. Var hin fyrirhugaða framkvæmd þannig að mati ráðuneytisins réttilega tilkynnt og tekin til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun á þeim grundvelli sem lög bjóða.
Þeim héraðsdómi er kærendur skírskota til og varðaði réttmæti veglagningar um Teigskóg, var áfrýjað til Hæstarréttar. Það mál breytir þó engu gagnvart úrskurði þessum þar sem með honum er einvörðungu skorið úr því hvort áðurgreind fyrirhuguð framkvæmd um Djúpafjörð austanverðan skuli sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.
Hvað varðar kröfur kærenda um að ráðherra beiti sér fyrir því að öllum undirbúningi varðandi hina fyrirhuguðu framkvæmd verði hætt, þá skal hér tekið að fram að lög um mat á umhverfisáhrifum hafa að mati ráðuneytisins ekki að geyma heimildir til handa ráðherra til þess að stöðva framkvæmdir, sbr. einkum 1. gr. og 6. gr. umræddra laga í því sambandi. Um veglagningu sem slíka og rétt til vegalagningar fer fyrst og fremst eftir ákvæðum vegalaga nr. 80/2007 sbr. lög nr. 33/2008 um samgönguáætlanir, svo og því skipulagi sem í gildi er í sérhverju sveitarfélagi sbr. skipulags - og byggingarlög nr. 73/1997. Um þessi atriði m.a. var umboðsmönnum kæranda leiðbeint eftir að kæra þeirra hafði borist ráðuneytinu. Þykir samkvæmt framansögðu ekki unnt að taka framangreinda kröfu kæranda til greina.
3. Niðurstaða.
Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið telur ráðuneytið að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. einkum o. - lið 3. gr. sbr. 6. gr. sbr. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Þá þykja hvorki rök kæranda né málsgögn að öðru leyti veita tilefni til að bera brigður á þá forsendu Skipulagsstofnunar að ekki verði ruddur meira en hálfur hektari af skógi vegna framkvæmdarinnar. Gögn þau og upplýsingar sem fyrir liggja vegna málsins og grein hefur verið gerð fyrir hér að framan þykja þá heldur ekki veita vísbendingu um að hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum um framkvæmdasvæðið í ljósi laga um mat á umhverfisáhrifum. Í ljósi alls framangreinds er það því niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að fallast á framangreindar kröfur kæranda og staðfesta skuli því hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 27. október 2008 um að framkvæmd vegna vegalagningar í austanverðum Djúpafirði (Djúpadalsvegur) frá Hallsteinsnesi að núverandi Vestfjarðarvegi undir Mýrlendisfjalli, Reykhólahreppi, sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 27. nóvember 2008 er staðfest.