Mál 06030148
Þann 15. nóvember 2006 var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Hin kærða ákvörðun og málsmeðferð.
Umhverfisráðuneytinu hefur borist kæra framkvæmdaraðila, Björgunar ehf., vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 20. mars 2006, um að efnistaka af hafsbotni í Kollafirði, Faxaflóa, árin 2006-2016, skuli sæta mati á umhverfisáhrifum.
Fram komin kæra var send til umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Siglingastofnunar, Hafrannsóknarstofnunarinnar, Reykjavíkurborgar, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Orkustofnunar, og Landbúnaðarstofnunar með bréfum dags. 9. maí 2006.
Umsögn Skipulagsstofnunar barst þann 23. maí 2006, umsögn Umhverfisstofnunar þann 29. maí 2006, umsögn Siglingastofnunar þann 16. maí 2006, umsögn Hafrannsóknarstofnunar þann 22. maí 2006, umsögn Reykjavíkurborgar þann 23. maí 2006, umsögn Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins þann 4. júlí 2006, umsögn Orkustofnunar þann 9. júní 2006 og umsögn Landbúnaðarstofnunar þann 16. maí 2006. Kæranda voru sendar framangreindar umsagnir til athugasemda með bréfum, dags. 26. júní og 10. júlí 2006. Athugasemdir kæranda bárust þann 4. ágúst 2006.
II. Málsatvik.
Kærandi tilkynnti Skipulagsstofnun þann 26. nóvember 2004 um fyrirætlanir um að óska eftir endurnýjun á leyfi til efnistöku í Kollafirði í Faxaflóa. Vísað var til 2. tl. og 13. tl. í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, um breytingar á efnistökuframkvæmdum. Einnig vísaði kærandi til þess að 28. ágúst 1990 fékk hann leyfi iðnaðarráðherra til töku malar og sands af sjávarbotni á tilteknum svæðum í Kollafirði, Hvalfirði og umhverfis Syðra-Hraun í Faxaflóa. Leyfið var veitt til 30 ára á grundvelli laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Með breytingu á þeim lögum var sá tími styttur til 6. júní 2005. Þann 20. mars 2006 tók Skipulagsstofnun þá ákvörðun að fyrirhuguð efnistaka framkvæmdaraðila skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.
III. Krafa kæranda.
Framkvæmdaraðili krefst þess að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að efnistaka af hafsbotni í Kollafirði, Faxaflóa, árin 2006-2016, skuli sæta mati á umhverfisáhrifum, verði felld úr gildi.
IV. Málsástæður og umsagnir um þær.
1. Lagaskil o.fl.
Kærandi telur að ákvæði I. til bráðabirgða með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2006, eigi við um fyrirhugaða framkvæmd. Þar segi að þrátt fyrir ákvæði III. kafla laganna séu framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum, séu þær hafnar fyrir árslok 2002. Kærandi hafi haft leyfi frá iðnaðarráðherra frá 28. ágúst 1990 til töku malar og sands af sjávarbotni á tilteknum svæðum í Kollafirði, Hvalfirði og umhverfis Syðra-Hraun í Faxaflóa. Leyfið hafi verið veitt til 30 ára á grundvelli laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Fyrirtækið hafi gert ráð fyrir að það hefði leyfi til efnistöku á þessum tilteknu svæðum til ársins 2020. Með breytingu á þeim lögum var sá tími styttur til 6. júní 2005. Fyrirtækið hafi tilkynnt Skipulagsstofnun þann 26. nóvember 2004 um fyrirætlanir um að óska eftir endurnýjun á leyfi til efnistöku í Kollafirði í Faxaflóa. Sérstaklega hafi verið byggt á því að um endurnýjun á leyfi væri að ræða og vísað til 2. tl. og 13. tl. í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
Í beiðni ráðuneytisins til Skipulagsstofnunar var sérstaklega óskað eftir umsögn stofnunarinnar um málsástæður kæranda um lagaskil. Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telur að ákvæði II til bráðabirgða með lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, eins og þeim var breytt með lögum nr. 101/2000 hafi haft það í för með sér að leyfi Björgunar ehf. til töku malar og sands af sjávarbotni á tilteknum svæðum í Kollafirði, Hvalfirði og umhverfis Syðra-Hraun í Faxaflóa frá árinu 1990 hafi runnið út 6. júní 2005. Leyfi sem gefin séu út til efnisvinnslu eftir þennan tíma séu háð 4. gr. laganna þar sem m.a. kemur fram að við veitingu leyfa samkvæmt lögunum skuli gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum. Þessi afstaða komi skýrt fram í svari stofnunarinnar, dags. 18. desember 2004 við erindi kæranda, dags. 26. nóvember 2004. Stofnunin telji að leyfi sem gefin séu út til efnisvinnslu eftir þennan tíma séu háð 4. gr. ofangreindra laga, nr. 73/1990 með síðari breytingum og þar með 5. eða 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Stofnunin telji því ákvæði I til bráðabirgða með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 ekki eiga við um þessa framkvæmd.
Í umsögn iðnaðarráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi þann 23. september 2004 vakið athygli kæranda á þeim breytingum sem höfðu orðið á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990 og tilkynnt kæranda að leyfi hans rynni úr gildi í maí 2005. Jafnframt kemur fram að í kjölfar tilkynningar kæranda til Skipulagsstofnunar um áætlun um þá efnistöku sem hin kærða ákvörðun lítur að, hafi ráðuneytið gefið út takmarkaða heimild til hagnýtingar jarðefna á afmörkuðum svæðum á hafsbotni með ákveðnum skilyrðum. Sú heimild gilti til 6. júní 2006. Erindi hafi borist um framlengingu þeirrar heimildar en afstaða hafi ekki verði tekin til þeirrar umsóknar. Í umsögninni segir ennfremur að fyrirhuguð efnistaka kæranda sé svipuð því magni sem kærandi hefur unnið árlega úr námum í Kollafirði eða að meðaltali um 600.000 m3 á ári. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu framhald þeirrar efnistöku sem fyrirtækið hefur haft leyfi fyrir síðastliðna áratugi. Í framkvæmdunum felist ekki nýjar framkvæmdir þar sem ekki sé um að ræða efnistöku úr nýjum námum á nýjum stöðum. Mat ráðuneytisins sé það að um umfangsmikla framkvæmd sé að ræða sem almennt beri að telja tilkynningarskylda, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum. Einnig segir að kærandi sé orðinn mikilvægur birgir malar og sands til framkvæmda í Reykjavík og nálægum sveitarfélögum. Kærandi anni stórum hluta eftirspurnar eftir möl og sandi í ýmsar byggingarframkvæmdir og gatnagerð. Um lagaskil er í umsögninni vísað til ákvæðis til bráðabirgða I með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2006 og greinargerðar að baki ákvæðinu. Telur iðnaðarráðuneytið að framkvæmdir kæranda falli undir ákvæðið þar sem leyfi til efnistöku í Kollafirði hafi verið gefið út fyrir 1. maí 1994 og framkvæmdir hafi verið hafnar fyrir árslok 2002. Hins vegar vakni sú spurning hvort niðurfelling á leyfinu hafi þau áhrif að framhald framkvæmda skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Tilgangur frumvarps iðnaðarráðherra um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990 hafi fyrst og fremst verið að taka af öll tvímæli um að iðnaðarráðherra væri heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald fyrir töku eða nýtingu ólífrænna eða lífrænna auðlinda hafsbotnsins. Þá hafi og verði ætlunin að lagfæra ýmsa annmarka og samræma ákvæði eldri leyfa. Í frumvarpi iðnaðarráðherra komi ekki fram að ætlunin hafi verið að krefjast þess að framkvæmdir samkvæmt eldri leyfum skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Með vísan til þess geti ráðuneytið út af fyrir sig fallist á að fyrirhugaðar framkvæmdir séu áframhald þeirra framkvæmda sem kærandi hefi staðið fyrir á grundvelli leyfis dags. 28. ágúst 1990 og skuli því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, sbr. ákvæði I til bráðabirgða með þeim lögum.
Í umsögn Orkustofnunar kemur fram að stofnunin telji að um nýtt nýtingarleyfi verði að ræða sem verði frábrugðið eldra leitar og nýtingarleyfi kæranda frá 28. ágúst 1990. Vísar stofnunin í því sambandi til orðalags 6. gr. laga nr. 101/2000 um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990 þar sem segi að þeir sem hafi leyfi til leitar og hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skuli halda þeim í fimm ár frá gildistöku laganna. Einnig er vísað til greinargerðar með þeirri breytingu þar sem fjallað er um nýja skipan mála og að ýmsir annmarkar séu á eldri leyfum sem mikilvægt sé að leiðrétta og einnig þurfi að samræma ákvæði leyfa. Athygli veki að aðlögunartími leyfishafa hafi verið rýmkaður úr tveimur árum í fimm í meðförum Alþingis. Af þessum athugasemdum sé ljóst að boðuð sé ný skipan mála í leyfisveitingum iðnaðarráðherra sem þýði að leyfishafar þurfi að sækja um ný leitar- og/eða nýtingarleyfi innan fimm ára frá setningu laganna enda falli eldri leyfi úr gildi að þeim tíma liðnum. Ný leyfi þurfi nú að samræmast nýrri skipan mála, þ.e. löggjöf sem er í gildi um undirbúning framkvæmda eins og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Auk þessa segir í umsögninni að Orkustofnun hafi engin gögn í fórum sínum um staðsetningu efnistökusvæða kæranda árið 1990 er fyrirtækið fékk leyfi til efnistöku í öllum Kollafirði. Orkustofnun telji því ekki unnt að sannreyna þær fullyrðingar kæranda að fyrirhuguð efnistaka næstu 10 árin muni fara fram í sömu námum og undanfarna áratugi.
Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að borgin telur að um nýframkvæmd sé að ræða þar sem um verulega stækkun námasvæðis sé að ræða á hafsbotni umhverfis gömlu námasvæðin sem kærandi hafi nýtt fram til þessa. M.a. megi benda á að efnistökusvæði milli Engeyjar og Örfiriseyjar stækki verulega. Því sé um opnun nýrrar námu á hafsbotni að ræða.
2. Umhverfisáhrif framkvæmdar.
Kærandi leggur áherslu á að ekki sé um að ræða efnistöku úr nýjum námum og þannig ekki um að ræða nýjar framkvæmdir. Efnistökusvæði muni stækka en ekki sé búist við að tekið verði efni úr öllu svæðinu sem sótt sé um vinnslu á. Vísað er til þess að lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, sbr. breytingar á þeim lögum með lögum, nr. 101/2000 geri ráð fyrir því að í vinnsluleyfum séu m.a. ákvæði um öryggis og umhverfisráðstafanir. Björgun ehf. hafi stundað sína námuvinnslu í Kollafirðinum í marga áratugi. Ekkert hafi komið fram á þeim tíma sem sýni fram á neikvæð umhverfisáhrif vegna þessarar vinnslu sem einhverju máli skipti. Miklu fremur megi segja að vinnsla þessara efna á hafsbotni hafi komið í veg fyrir stórfelld umhverfisáhrif á landi. Ef allt það efni sem tekið hafi verið af hafsbotni hefði verið tekið á landi í nágrenni Reykjavíkur sé alveg ljóst að þess sæjust greinileg merki. Eftir 40 ára áfallalausa sögu malarvinnslu af hafsbotni í Kollafirði þurfi ekkert meira að koma til. Hins vegar sé sjálfsagt að efla rannsóknir á lífríki Kollafjarðar og því öðru sem Skipulagsstofnun nefni í ákvörðun sinni en þar virðist fremur vera um að ræða almennar rannsóknir til að auka þekkingu manna.
Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að ekki sé ágreiningur um að um breytingar á eldri framkvæmd sé að ræða.
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir m.a. að engar upplýsingar liggi fyrir um náttúrufar, þ.e. dýralíf, gróðurfar eða búsvæði lífvera á fyrirhuguðum efnistökusvæðum. Stofnunin telji að vegna stærðar fyrirhugaðra efnistökusvæða, magns þess efnis sem taka á, hugsanlegra áhrifa á umhverfið vegna gruggs og sammögnunaráhrifa vegna langvarandi efnistöku sem og aukinnar ásóknar í efnistöku á og við þau svæði sem hér um ræðir sé líklegt að fyrirhuguð efnistaka muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar segir að það sé rétt að ekki liggi fyrir nein gögn eða athuganir sem sýni hvort eða hversu mikil áhrif efnistakan hafi haft og verði það að teljast bagaleg staða. Hafrannsóknarstofnuninni sé ekki kunnugt um að gerðar hafi verið rannsóknir á þeim svæðum sem verið sé að raska eða ætlunin sé að raska með efnisnámi. Fullyrða megi þó að dýralíf botnsins verði fyrir verulegu raski við efnistökuna þegar yfirborðsefni botnsins er fjarlægt á stórum svæðum. Stofnunin vekur athygli á umfangi framkvæmdarinnar og ítrekar það álit sitt að framkvæmdin eigi að sæta mati á umhverfisáhrifum. Efnistakan fari fram á setlögum frá lokum síðustu ísaldar og ekki sé líklegt að þau endurnýist við núverandi aðstæður.
Í umsögn Orkustofnunar er vísað til þess að fram hafi komið hjá framkvæmdaraðila að talsverður breytileiki efnis sé í hverri námu og að hann hafi látið greina fjölmörg sýni úr námum í Kollafirði. Framkvæmdaraðili virðist því eiga mikið af gögnum um efnisgerð og efnisgæði sem nýst gæti við mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar og ekki þurfi að leggja í kostnað við að afla. Það að talsverður breytileiki sé í efni hverrar námu styðji enn frekar við þá skoðun Orkustofnunar að ekki sé þörf á nema örfáum efnistökusvæðum til að fullnægja þörf fyrir mismunandi efnisgerð og efnisgæði, í stað þeirra 17 efnistökusvæða sem fyrirhugað sé að sækja um leyfi fyrir. Það veki athygli stofnunarinnar að þó að framkvæmdaraðili hafi minnkað það efnismagn sem fyrirhugað var að sækja um leyfi fyrir, um allt að helming úr 10,7 millj. m3 í all að 6 millj. m3 hafi ekki orðið til þess að efnistökusvæðum hafi verið fækkað. Það verði að teljast óeðlilegt miðað við mikla minnkun í efnismagni. Fyrirhuguðum 17 efnistökusvæðum sem ná munu yfir samtals 728 ha sé breytt í athafnasvæði, án þess að skilgreina mun á athafnasvæðum og efnistökusvæðum sem nú munu ná yfir samtals 60-120 ha. Ekki sé heldur gerð grein fyrir því hvernig þessar 6 millj. m3 muni skiptast á milli efnistökusvæðanna 17, né heldur hvar efnistökusvæði verði innan hvers athafnasvæðis. Því virðist vera margt óljóst í áformum Björgunar ehf. eftir þessar breytingar. Orkustofnun vekur athygli á því að ekki er um endurnýjanlega auðlind að ræða. Stofnunin telur að fyrirhuguð efnistaka kæranda á hafsbotni Kollafjarðar í Faxaflóa árin 2006-2010 sé svo umfangsmikil að hún sé matsskyld skv. 1. mgr. 5. gr. sbr. 1. viðauka með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Takmarkaðar upplýsingar liggi einnig fyrir um útbreiðslu, gerð og gæði jarðefna í Kollafirði.
Í umsögn Landbúnaðarstofnunar er vísað til umsagnar Veiðimálastjóra frá 6. desember 2005. Landbúnaðarstofnun tók þann 1. janúar 2006 við verkefnum Veiðimálastjóra. Í þeirri umsögn sagði að miðað við þær upplýsingar sem fram komi í tilkynningu kæranda til Skipulagsstofnunar og reynslu af starfsemi fyrri tíma, verði ekki séð að nauðsynlegt sé að efnistaka kæranda úr sjó sé háð mati á umhverfisáhrifum. Hins vegar sé mjög mikilvægt að dregið verði eftir föngum úr gruggmyndun við þá efnistöku sem unnin er á Kollafjarðarsvæðinu á göngutíma laxfiska.
V. Niðurstaða.
1. Lagaskil o.fl.
Kærandi telur að ákvæði I. til bráðabirgða með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2006, eigi við um fyrirhugaða framkvæmd.
Í ákvæði I. til bráðabirgða með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 segir: „Þrátt fyrir ákvæði III. kafla laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum séu þær hafnar fyrir árslok 2002". Ágreiningslaust er í máli þessu að kærandi fékk leyfi iðnaðarráðuneytisins, m.a. til töku malar og sands af sjávarbotni utan netlaga í Kollafirði, ásamt sundum, í Hvalfirði og umhverfis syðra Hraun í Faxaflóa þann 28. ágúst 1990. Leyfið var gefið út til 30 ára. Ekki er heldur deilt um í máli þessu að framkvæmdir kæranda á svæðinu voru hafnar fyrir árslok 2002.
Með lögum, nr. 101/2000, um breytingu á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990 var hins vegar gerð breyting á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um leyfi til efnistöku á hafsbotni. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 segir nú: „Við veitingu leyfa samkvæmt lögum þessum skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum". Með bráðabirgðaákvæði með sömu lögum var kveðið skýrt á um hvernig færi um leyfi sem aðilar hefðu þegar hlotið á grundvelli laganna en þar segir: „Þeir sem hafa leyfi til leitar og hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skulu halda þeim í fimm ár frá gildistöku laga þessara". Með lögum nr. 101/2000 var gildandi leyfi kæranda þannig markaður nýr gildistími. Leyfi sem gilt hefði til ársins 2020 gilti í kjölfar lagabreytingarinnar aðeins til 2005. Samkvæmt umsögn iðnaðarráðuneytisins var kæranda tilkynnt í samræmi við það að leyfi hans myndi falla niður árið 2005. Lög nr. 101/2000 tóku gildi 6. júní 2000 og telur ráðuneytið því að líta verði svo á að leyfi kæranda hafi fallið úr gildi 6. júní 2005.
Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu ljóst að leyfi iðnaðarráðuneytisins til handa kæranda um efnistöku í Kollafirði og víðar sé útrunnið og honum beri að sækja um nýtt leyfi skv. lögum eignarétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, með síðari breytingum, varðandi áform hans um frekari efnistöku. Ákvæði I. til bráðabirgða með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 tilgreinir sérstaklega framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994. Ráðuneytið telur kæranda samkvæmt framansögðu ekki hafa leyfi til framkvæmda í skilningi þess ákvæðis. Ráðuneytið fellst því ekki á málsástæðu kæranda um að ákvæði I. til bráðabirgða með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 eigi við um þær fyrirhuguðu framkvæmdir kæranda sem hin kærða ákvörðun lítur að. Telur ráðuneytið því að um fyrirhugaða framkvæmd beri að fara skv. almennum ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
Ráðuneytið fellst því ekki á málsástæður kæranda um að fyrirhuguð framkvæmd falli undir ákvæði til bráðabirgða I. í lögum um mat á umhverfisáhrifum.
2. Möguleg umhverfisáhrif framkvæmdar.
Kærandi telur að eftir 40 ára áfallalausa sögu malarvinnslu af hafsbotni í Kollafirði þurfi ekkert meira að koma til. Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, sbr. breytingar á þeim lögum með lögum, nr. 101/2000 geri ráð fyrir því að í vinnsluleyfum séu m.a. ákvæði um öryggis- og umhverfisráðstafanir. Björgun ehf. hafi stundað sína námuvinnslu í Kollafirðinum í marga áratugi. Ekkert hafi komið fram á þeim tíma sem sýni fram á neikvæð umhverfisáhrif vegna þessarar vinnslu sem einhverju máli skipti. Miklu fremur megi segja að vinnsla þessara efna á hafsbotni hafi komið í veg fyrir stórfelld umhverfisáhrif á landi. Ef allt það efni sem tekið hafi verið af hafsbotni hefði verið tekið á landi í nágrenni Reykjavíkur sé alveg ljóst að þess sæjust greinileg merki. Hins vegar sé sjálfsagt að efla rannsóknir á lífríki Kollafjarðar og því öðru sem Skipulagsstofnun nefni í ákvörðun sinni en þar virðist fremur vera um að ræða almennar rannsóknir til að auka þekkingu manna.
Fyrirhuguð framkvæmd miðar að því að vinna allt að 6.000.000 m3 af efni á hafsbotni í Kollafirði í Faxaflóa og að flatarmál náma á svæðinu mundi stækka um 600.000-1.200.000 m2. Fyrirhugað er að framkvæmdir muni standa yfir í 10 ár frá árinu 2006-2016.
Efnistaka nýrra framkvæmda sem nemur 150.000 m3 eða meira eða ef áætluð efnistaka raskar 50.000 m 2 svæði eða stærra er ávallt háð mati á umhverfisáhrifum, skv. 21. tl. 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Sú efnistaka sem um ræðir í máli þessu, er því veruleg að umfangi og magn efnis margfalt því magni sem miðað er við í viðauka 1 með lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem listaðar eru upp framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum.
Mati á umhverfisáhrifum er ætlað að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar, að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Því er ennfremur ætlað að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laga þessara, að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda sem falla undir ákvæði laga þessara og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir.
Umhverfisstofnun telur að vegna stærðar fyrirhugaðra efnistökusvæða, magns þess efnis sem taka á, hugsanlegra áhrifa á umhverfið vegna gruggs og sammögnunaráhrifa vegna langvarandi efnistöku sem og aukinnar ásóknar í efnistöku á og við þau svæði sem hér um ræðir sé líklegt að fyrirhuguð efnistaka muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
Orkustofnun bendir í umsögn sinni á að ekki er um endurnýjanlega auðlind að ræða. Það að talsverður breytileiki sé í efni hverrar námu styðji við þá skoðun Orkustofnunar að ekki sé þörf á nema örfáum efnistökusvæðum til að fullnægja þörf fyrir mismunandi efnisgerð og efnisgæði, í stað þeirra 17 efnistökusvæða sem fyrirhugað sé að sækja um leyfi fyrir. Framkvæmdaraðili hafi minnkað það efnismagn sem fyrirhugað var að sækja um leyfi fyrir, um allt að helming úr 10,7 millj. m3 í allt að 6 millj. m3 en það hafi ekki orðið til þess að efnistökusvæðum hafi verið fækkað. Það verði að teljast óeðlilegt miðað við mikla minnkun í efnismagni. Fyrirhuguðum 17 efnistökusvæðum sem ná munu yfir samtals 728 ha sé breytt í athafnasvæði, án þess að skilgreina mun á athafnasvæðum og efnistökusvæðum, sem nú munu ná yfir samtals 60-120 ha. Ekki sé heldur gerð grein fyrir því hvernig þessar 6 millj. m3 muni skiptast á milli efnistökusvæðanna 17, né heldur hvar efnistökusvæði verði innan hvers athafnasvæðis.
Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að stofnunin telur að dýralíf botnsins verði fyrir verulegu raski við efnistökuna þegar yfirborðsefni botnsins er fjarlægt á stórum svæðum. Stofnunin vekur athygli á umfangi framkvæmdarinnar og ítrekar það álit sitt að framkvæmdin eigi að sæta mati á umhverfisáhrifum. Efnistakan fari fram á setlögum frá lokum síðustu ísaldar og ekki sé líklegt að þau endurnýist við núverandi aðstæður.
Að mati ráðuneytisins er fyrirhuguð efnistaka af hafsbotni í Kollafirði, Faxaflóa umfangsmikil framkvæmd sem getur haft veruleg áhrif á jarðfræði, lífríki, landslag og gerð botnsins á og umhverfis námasvæðin. Ráðuneytið telur að svo umfangsmikil framkvæmd kunni að hafa áhrif á landbrot á nálægum strandsvæðum og flutning efnis á sjávarbotninum. Ráðuneytið telur að mikill skortur sé á upplýsingum um lífríki í og á sand- og malarbotni á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og hugsanleg áhrif efnistöku á lífríkið. Upplýsingar vantar um tegundasamsetningu flóru og fánu svæðisins sem og líffræðilega fjölbreytni. Mikilvægt er að aflað verði gagna um botngerð og vistgerðir hafsbotnsins, einkum m.t.t. samfélaga lífvera sem þar finnast og meta hver áhrif dælingar og gryfjumyndunar á hafsbotninum verða á lífríki hafsbotnsins, flutning setlaga og landbrot.
Með vísan til umfangs fyrirhugaðrar framkvæmdar, mögulegra umhverfisáhrifa og að mat á umhverfisáhrifum kann að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar telur ráðuneytið rétt að efnistaka af hafsbotni í Kollafirði, Faxaflóa, árin 2006-2016, sæti mati á umhverfisáhrifum og er kröfu kæranda því hafnað.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Skipulagsstofnunar, frá 20. mars 2006, um að efnistaka af hafsbotni í Kollafirði, Faxaflóa, árin 2006-2016, skuli sæta mati á umhverfisáhrifum er staðfest.