Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 03060014

Reykjavík, 24. nóvember 2003

Hinn 24. nóvember 2003, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

Úrskurður

Ráðuneytinu hafa borist kærur frá Óttari Yngvasyni hrl. fyrir hönd eigenda Haffjarðarár í Hnappadal frá 2. júní sl. og frá Bryndísi Hlöðversdóttur, Jóni H. Hlöðverssyni og Orra V. Hlöðverssyni, dags. 3. júní 2003, vegna útgáfu heilbrigðisnefndar Vesturlands á starfsleyfi frá 20. maí 2003 fyrir bleikjueldisstöðina Æsi ehf. að Syðri-Rauðamel í Kolbeinsstaðahreppi, Hnappadal.

I Hin kærða ákvörðun og málsatvik

Með bréfi, dags. 20. maí 2003, gaf Heilbrigðisnefnd Vesturlands út starfsleyfi til handa Æsi ehf. að Syðri-Rauðamel í Kolbeinsstaðahreppi, Hnappadal, fyrir eldi á 19,9 tonnum af bleikju.

Æsir ehf. sótti upphaflega um starfsleyfi fyrir framangreint eldi þann 13. nóvember 2000 og voru drög að starfsleyfi auglýst þann 13. júní 2002 og komu fjórir aðilar að athugasemdum vegna fyrirhugaðrar starfsleyfisútgáfu. Voru það Jón Hrafn Hlöðversson fyrir eigin hönd og systkina sinna Bryndísar Hlöðversdóttur og Orra V. Hlöðverssyni með bréfi dagsettu 12 júlí 2002, Óttar Yngvarsson f.h. eigenda Haffjarðarár með bréfi dagsettu 12. júlí 2002, Jón Kristjánsson fiskifræðingur með bréfi dagsettu 5. júlí 2002 og Orri Vigfússon formaður NASF með bréfi dagsettu 2. júlí 2002. Einnig óskaði Heilbrigðiseftirlit Vesturlands eftir umsögnum frá eftirtöldum aðilum sem voru mótteknar með bréfi dagsettu 25. júní 2002 frá Skipulagsstofnun, með bréfi dagsettu 27. júní 2002 frá embætti yfirdýralæknis, með bréfi dagsettu 8. júlí 2002 frá Náttúruvernd ríkisins, með bréfi dagsettu 3. júlí 2002 frá Veiðimálastjóra og með bréfi dagsettu 12. júlí 2002 frá Hollustuvernd ríkisins.

Þann 29. október 2002 synjaði Heilbrigðisnefnd Vesturlands um útgáfu starfsleyfis fyrir starfsemina og var sú niðurstaða kynnt umsækjanda um starfsleyfi auk þeirra sem gert höfðu athugasemd við hin auglýstu drög að starfsleyfi. Einnig var þeim gert grein fyrir kæruheimild til umhverfisráðherra. Umsækjandi um starfsleyfi, Æsir ehf. kærði niðurstöðu Heilbrigðisnefndar Vesturlands til umhverfisráðherra með bréfi dagsettu 11. nóvember 2002.

Í samræmi við 2. og 3. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir tók umhverfisráðherra kæru umsækjanda til meðferðar. Með bréfum frá 19. nóvember 2002, var framangreind kæra send til umsagnar: Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Kolbeinstaðahrepps, Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Veiðimálastjóra, Veiðimálastofnunar og embættis yfirdýralæknis.

Umsagnir bárust frá yfirdýralækni, með bréfi frá 27. nóvember 2002, frá Veiðimálastjóra með bréfi frá 28. nóvember 2002, frá Kolbeinstaðahreppi með bréfi frá 1. desember 2002, frá heilbrigðiseftirliti Vesturlands með bréfi frá 2. desember 2002, frá Veiðimálastofnun með bréfi dags. sama dag, frá Náttúruvernd ríkisins með bréfi frá 3. desember 2002 og frá Hollustuvernd ríkisins með bréfi frá 16. desember 2002.

Með bréfi, dags. 19. desember 2002, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komnar umsagnir og voru þær mótteknar með bréfi, frá 15. janúar 2003. Í úrskurði Umhverfisráðherra frá 25. mars 2003 var felld úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 29. október 2002 um að synja Æsi ehf. um starfsleyfi til að setja á fót allt að 19,9 tonna bleikjueldi í landi Syðri-Rauðamels í Kolbeinsstaðahreppi. Heilbrigðisnefnd Vesturlands var falið að taka umsókn Æsi ehf. um starfsleyfi til meðferðar að nýju í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í úrskurðinum.

Heilbrigðisnefnd Vesturlands tók umsókn Æsis ehf. fyrir að nýju á grundvelli fyrirliggjandi gagna og gaf út starfsleyfi til handa bleikjueldisstöðinni Æsi ehf. dagsett. 20 maí 2003 sem nú hefur verið kært.

II Kæruatriði og umsagnir um þau.

Óttar Yngvason hrl. f.h. eigenda Haffjarðarár krefst þess að hið kærða starfsleyfi verði fellt út gildi. Kærandi telur að verulegir ágallar séu á meðferð málsins. Aðalhagsmunaaðilum hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns hvorki hjá umhverfisráðuneytinu þegar málið var til meðferðar þar né hjá heilbrigðisnefnd Vesturlands. Kærandi gerir einnig athugasemdir við vatnsflokkun Haffjarðarár og mengunarhættu vegna frárennslis í ána, bannákvæðum vatnalaga og skerðingu stjórnarskrárvarinna eignarréttinda og grenndaréttar.

Kærendur Bryndís Hlöðversdóttir, Jón H. Hlöðversson og Orri V. Hlöðversson, gera kröfu um að hið kærða starfsleyfi verði lýst ógilt þar sem kæranda hafi ekki verið gert kleift að koma að andmælum sínum vegna málsins bæði hjá umhverfisráðuneytinu og heilbrigðisnefnd Vesturlands.

Framangreindar kærur voru sendar með bréfum dagsettum 10 júní 2003 til eftirtaldra aðila og óskað eftir umsögnum um þær fyrir 25. júní 2003: Kolbeinstaðarhreppi, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, Æsis ehf., Veiðimálastofnunar, Veiðimálastjóra, embættis yfirdýralæknis og Umhverfisstofnunar. Umsögn Kolbeinsstaðahrepps barst ráðuneytinu með bréfi dagsettu 9. júlí 2003, umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands með bréfi dagsettu 27. júní 2003, umsögn Umhverfisstofnunar barst í bréfi dagsettu 25. júní 2003, umsögn yfirdýralæknis barst með bréfi dagsettu 24. júní 2003, umsögn Veiðimálastjóra með bréfi dagsettu 24. júní 2003 og frá Veiðimálastofnum með bréfi dagsettu 28. júní 2003. Framangreindar umsagnir voru sendar kærendum og starfsleyfishafa með bréfum dagsettum 30. júlí 2003 og þeim gefin kostur á að koma að athugasemdum sínum við þær fyrir 15. ágúst 2003. Kærandi Óttar Yngvason hrl. fh. eigenda Haffjarðarár sendi inn athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 14. ágúst 2003. Starfsleyfishafi sendi inn athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 18. ágúst 2003 sem barst ráðuneytinu bréflega 5. nóvember 2003. Engar athugasemdir bárust frá kærendum Bryndísi Hlöðversdóttur, Jóni H. Hlöðverssyni og Orra V. Hlöðverssyni.

1.

Kærendur, Óttar Yngvason hrl. f.h. eigenda Haffjarðarár í Hnappadal og Bryndís Hlöðversdóttir, Jón H. Hlöðversson og Orri V. Hlöðversson, telja að verulegir ágallar hafi verið á stjórnsýslumeðferð í umhverfisráðuneytinu þegar kæra Æsis ehf. var tekin fyrir. Úrskurður ráðuneytisins var kveðin upp þann 25. mars 2003 þar sem fyrri ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands var felld úr gildi. Telja kærendur ámælisvert að þeir hafi ekki haft tækifæri á að gæta andmælaréttar síns né að fylgjast með meðferð málsins að öðru leyti.

Í umsögn Æsis ehf. segir að hið kærða starfsleyfi hafi verið gefið út af Heilbrigðiseftirliti Vesturlands í kjölfar og í samræmi við úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 25. mars 2003 þar sem felld var úr gildi synjun nefndarinnar frá 29. október 2002 og lagt fyrir nefndina að taka umsókn Æsis ehf. til meðferðar að nýju í samræmi við þau sjónarmið sem greind séu í úrskurðinum. Telja verði ljóst að starfsleyfið uppfylli þessi skilyrði. Úrskurður ráðuneytisins hafi verið kveðinn upp að afloknu vönduðu kæruferli þar sem umsagnaraðilar hafi komið að athugasemdum sínum. Þegar af þeirri ástæðu séu takmarkaðar efnislegar forsendur til að fá starfsleyfinu hnekkt. Ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 gildi samkvæmt orðanna hljóðan aðeins um starfsleyfi útgefin af Umhverfisstofnun en ekki um starfsleyfi útgefnum af heilbrigðisnefndum. Ákvæði 24. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, nr. 785/1999 gildi hins vegar um útgefanda starfsleyfis hvort sem hann er Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd. Auglýsing starfsleyfisdraga sé til þess fallin að gefa almenningi færi á að tjá sig um drögin. Andmælaréttur í skilningi 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 felist ekki í slíkum rétti til að gera athugasemdir enda snúi andmælaréttur aðeins að þeim er ákvörðunin beinist að þ.e. umsækjanda um starfsleyfi í þessu tilviki og í undantekningartilvikum öðrum þeim sem ámóta ríkra hagsmuna eiga að gæta. Þótt um andmælarétt aðila væri að ræða gilti hann einungis þegar ekki liggur fyrir í gögnum málsins afstaða hans. Hann gildi heldur ekki þegar augljóslega er óþarft að aðili tjái sig. Kærendur hafi báðir komið að athugasemdum sínum eftir að heilbrigðisnefnd auglýsti fyrri drög sín að starfleyfi fyrir bleikjueldisstöðina. Afstaða þeirra hafi því legið fyrir. Með úrskurði umhverfisráðuneytisins hafi ekki hafist nýtt útgáfuferli. Fráleitt sé að ætla útgefanda starfsleyfis að þurfa að leggja endanlegt starfsleyfi fyrir alla umsagnaraðila áður en það er gefið út enda sé starfsleyfið kæranlegt. Þessu til víðbótar megi benda á að fyrrnefndar athugasemdir kærenda fylgdu sem fylgigögn með umsögn heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 2. desember 2002 um fyrri kæru vegna starfsleyfis bleikjueldisstöðvarinnar. Afstaða kærenda hafi því einnig legið fyrir í fyrra kæruferli málsins.

2.

Kærendur, Óttar Yngvason hrl. f.h. eigenda Haffjarðarár í Hnappadal og Bryndís Hlöðversdóttir, Jón H. Hlöðversson og Orri V. Hlöðversson, telja að verulegir ágallar hafi verið á stjórnsýslumeðferð hjá Heilbrigðisnefnd Vesturlands þar sem þeim hafi hvorki verið gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns, hagsmuna sinn né að fylgjast með meðferð málsins að öðru leyti allt frá því að Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafnaði stafsleyfisumsókn Æsis ehf. þann 29. október 2002. Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi þannig ekki gefið eigendum Haffjarðarár kost á að tjá sig um fyrirhugað starfsleyfi og breyttar forsendur þess áður en starfsleyfið var gefið út þann 20 maí sl. Eigendur Haffjarðarár telja sig ótvírætt aðilar máls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því hafi Heilbrigðisnefnd Vesturlands borið að gefa þeim kost á að tjá sig áður en starfsleyfið var gefið út þann 20. maí 2003.

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Vesturlands er bent á að drög að starfsleyfi fyrir bleikjueldistöð Æsis ehf. hafi verið auglýst í svæðisfréttablaðinu Skessuhorni 13. júní 2002. Jafnframt hafi starfsleyfisdrög verið send til umsagnar umsækjanda, sveitarstjórnar Kolbeinsstaðahrepps, Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Skipulagsstofnunar, Veiðimálastjóra, embættis yfirdýralæknis og Vesturlandsdeildar Veiðimálastofnunar. Vettvangsskoðun hafi verið farin þann 25. október 2002. Heilbrigðisnefnd hafi synjað umsækjanda um starfsleyfi þann 29. október 2002. Sú ákvörðun hafi verið kærð til umhverfisráðherra sem kvað upp úrskurð í málinu. Lagt hafi verið fyrir heilbrigðisnefnd að gefa út starfsleyfi með hliðsjón af efnisatriðum úrskurðarins. Heilbrigðisnefnd hafi síðan ákveðið þann 30. apríl 2003 að gefa út starfsleyfi með hliðsjón af úrskurði ráðuneytisins og öðrum athugasemdum sem borist höfðu. Stærstu breytingar frá áður auglýstum drögum hafi verið að sett voru skilyrði um tromlusíu á frárennsli stöðvarinnar og um viðmiðunarmörk í viðtaka sem ákveðinn var Sléttilækur. Starfsleyfið hafi verið sent þeim aðilum sem gert höfðu athugasemdir við auglýst starfsleyfisdrög. Heilbrigðisnefnd telji að farið hafi verið að lögum vegna útgáfu starfsleyfis.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að starfsleyfi Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 20. maí 2003 hafi ekki komið til umsagnar stofnunarinnar.

Í umsögn starfsleyfishafa er tekið fram hvað varðar þá málsástæðu kæranda, Óttars Yngvasonar hrl., að starfsleyfisdrög hafi breyst verulega frá upphaflegum drögum að endanlegri gerð, að Æsir ehf. hafi breytt áætlunum sínum til að koma til móts við athugasemdir umsagnaraðila og hafi því dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með betri búnaði og rekstraráformum. Athugasemdaferlið hafi því náð tilgangi sínum að því leyti að breytingar urðu til batnaðar á fyrirhuguðum rekstri, í fullri sátt milli framkvæmdaraðila og eftirlitsaðila. Breytingar á starfsleyfisdrögum, sem hafi í för með sér minni áhrif á umhverfi geti ekki kallað á sérstaka auglýsingu.

Í athugasemdum kæranda Óttars Yngvarssonar hrl. segir að Heilbrigðiseftirlitið staðfesti að hvorki hagsmunaaðilum né umsagnaraðilum hafi verið gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns né koma sjónarmiðum sínum á framfæmri áður en starfsleyfið sem dagsett er 20. maí 2003 var gefið út. Kærandi telur að með útgáfu starfsleyfisins hafi verið hafið nýtt ferli málsins á breyttum forsendum.

Í athugasemdum starfsleyfishafa segir að um misskilning sé að ræða þegar Umhverfisstofnun bendi á að starfsleyfið hafi ekki komið til umsagnar stofnunarinnar. Starfsleyfishafi bendir á að umsagnarferlið hafi hafist með auglýsingu draga að starfsleyfi fyrir um ári síðan sem síðan fóru til umsagnar hjá umsagnaraðilum. Umsagnaraðilar komu síðan aftur að sjónarmiðum sínum við meðferð fyrra kærumálsins hjá ráðuneytinu. Endanleg útgáfa starfsleyfis byggðist því á athugasemdum umsagnaraðila við upphafleg starfsleyfisdrög, að teknu tilliti til þeirra forsagnar um efnisþætti sem komu fram í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 25. mars 2003, umsagnaraðilar hafi því fengið þau tækifæri sem þeim eru áskilin samkvæmt lögum og reglum til athugasemda í starfsleyfisferlinu.

3.

Kærandi Óttar Yngvason hrl. f.h. eigenda Haffjarðarár bendir á þá skyldu sveitarstjórna í samræmi við 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns að flokka vatn í samræmi við 9. og 10. gr. sömu reglugerðar. Deiluskipulag fyrir umrætt svæði sem staðfest var af hreppsnefnd hinn 7. febrúar 2001 og birt er í B-deild Stjórnartíðinda, hafi ekki að geyma skýringaruppdrátt af ástandi vatns. Telur kærandi því að deiluskipulag eldissvæðissins sé stórgallað og gildi þess ekki ljóst. Einnig mótmælir kærandi ályktunum sem fram koma í úrskurði ráðuneytisins frá 25. mars 2003 um takmarkaða verndarstöðu Haffjarðarár. Telur kærandi að sú staðreynd að sveitarstjórn láti hjá líða að flokka vatn geti ekki svipt eigendur Haffjarðarár vernd vatnsins skv. reglugerð nr. 796/1999 og að sú staðreynd ein að það vanti skýringarúrdrátt sem sýnir ástand vatns ætti að útiloka útgáfu starfsleyfisins. Telur kærandi jafnframt að það sé ljóst af þeim umsögnum sem borist hafa ráðuneytinu vegna kærunnar að veruleg hætta sé á tjóni fyrir eigendur Haffjarðarár verði fyrirhugað bleikjueldi heimilað í landi Syðri-Rauðamels.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur Haffjarðará viðkvæman viðtaka sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns, nr. 796/1996 og að ekki beri að heimila losun frárennslis frá fiskeldi þ.m.t. laxfiska í viðkvæman viðtaka, síst af öllu þegar um er að ræða viðtaka, með laxfiskum og svæði sem nýtt er á sjálfbæran hátt til veiða. Það sé rangt sem framkvæmdaraðili heldur fram að algengt sé að frárennsli lax– og eldisstöðvar sé losað í laxveiðiár. Í þeim tilvikum sem slíkt sé gert sé um að ræða vatnsmiklar ár blandaðar jökulvatni en ekki bergvatnsár af blönduðum uppruna. Stofnunin telji að sú staðreynd að sveitarstjórn hafi ekki flokkað Haffjarðará skv. framangreindri reglugerð geti ekki verið forsenda fyrir mati á verndargildi árinnar. Skortur á upplýsingum um viðtakann eigi því fyrst og fremst að gefa tilefni til þess að varúðarreglunni sé beitt.

Í umsögn Veiðimálastofnunar segir:

„ Veiðimálastofnun ítrekar fyrri umsögn stofnunarinnar vegna bleikjueldis Æsis ehf. frá 2. desember 2002, en þar kemur fram það mat Veiðimálastofnunar, að verði frárennsli frá eldisstöðinni síað með hreinsitromlu af fullkomnustu gerð og að skolvatn úr tromluhreinsi verði leitt í rotþró sem tæmd yrði reglulega og úrgangi komið fyrir á viðurkenndum urðunarstað, ætti slíkur búnaður bæði að koma í veg að fiskur frá stöðinni næði að sleppa út í náttúrulegt umhverfi og að mengun frá stöðinni yrði væntanlega óveruleg.

Í kæru Óttars Yngvasonar er sett fram sú skoðun að Veiðimálastofnun sé vanhæf til að fjalla um málið vegna undirbúningsvinnu er unnin var á vegum stofnunarinnar fyrir framkvæmdaaðila. Í þessu sambandi er bent á að í frumskýrslu sem unnin var af Veiðimálastofnun vegna eldisstöðvarinnar (Sigurður Már Einarsson og Björn Theódórsson 1999) er orðrétt tekið fram " ...Afrennsli lindalækja frá hugsanlegu bleikjueldi er í Haffjarðará rétt vestan við svæðið...Haffjarðará er frjósöm laxveiðiá og er ljóst að starfsleyfi vegna hugsanlegs bleikjueldis þarf að taka mið af því að stöðin mengi ekki lífríki árinnar.." Síðar í sömu skýrslu var bent á að "...hreinsun á afrennsli var miðuð við ódýra útfærslu með því að kaupa hólfaðan 20 feta gám með yfir/undir búnaði og greftri í setþró þar fyrir neðan. Slíkur búnaður er háður samþykki Hollustuverndar ríkisins."

Veiðimálastofnun bendir á að aðkoma stofnunarinnar að málefnum fiskeldisstöðvarinnar Æsis ehf. séu í fullu samræmi við hlutverk Veiðimálastofnunar en "... stofnuninni er m.a. ætlað samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði nr. 76/1979 með síðari breytingum að "... annast rannsóknir á ám og vötnum og á vatnafiskum í fiskrækt, fiskeldi og hafbeit", auk þess sem síðari umsagnir Veiðimálastofnunar vegna sama máls hafa tekið mið af þeim lagaramma sem gildir um stofnunina og hafi umsagnir vegna hugsanlegra áhrifa fiskeldisstöðvarinnar því verið einskorðar við hugsanleg vistfræðileg áhrif og erfðamengun náttúrulegra fiskistofna sem slík starfsemi gæti valdið."

Í umsögn Veiðimálastjóra er vísað til bréfs embættisins frá 28. nóvember 2002 vegna meðferðar fyrra kærumáls um starfsleyfi fyrir bleikjueldisstöð Æsis ehf. Telja megi víst að tromlusigti í frárennsli og binding starfsleyfis við bleikjueldi, komi í veg fyrir erfðablöndun á umræddu vatnasviði. Því sé lykilatriði að fylgja því eftir að ekki verði fluttar í eldisstöðina framandi tegundir laxfiska eða kynbættir eldislaxar.

Í umsögn Æsis ehf. segir að miðað við umsagnir Veiðimálastjóra, Veiðimálastofnunar og embættis yfirdýralæknis í málinu sé ljóst að ekki séu efnisleg rök fyrir því að telja sérstaka hættu vera af fiskeldi á Syðra-Rauðamel. Sú staðreynd að Haffjarðará hafi ekki verið færð til flokkar skv. reglugerð um varnir gegn mengun vatns, nr. 796/1999, leiði til þess að almenn losunarmörk gildi í Haffjarðará. Skylda til flokkunar vatns hvíli á heilbrigðisnefnd, skv. 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Því verði að telja að útgáfa heilbrigðisnefndar á starfsleyfi til handa Æsi ehf. þar sem gengið er út frá því að vatnasvæðið falli í flokk B samkvæmt reglugerðinni feli í sér ígildi slíkrar flokkunar af hendi heilbrigðisnefndar. Æsir ehf. mótmæli ekki þeirri flokkun. Þá beri að hafa í huga að heilbrigðisnefnd skilgreinir Sléttilæk sem viðtaka en ekki Haffjarðará.

Í athugasemdum kæranda Óttars Yngvarssonar hrl. er mótmælt þeirri staðhæfingu framkvæmdaraðila að "þar sem ekki hafi farið fram flokkun vatns Haffjarðarár skv. 1. mgr. 8. gr. reglug. nr 796/1999, "verður að telja að útgáfa heilbrigðisnefndar á starfsleyfi til handa umbjóðanda mínum (framkvæmdaraðila), þar sem gengið er út frá því að vatnsverndarsvæðið falli í flokk B, feli í sér ígildi slíkrar flokkunar af hendi heilbrigðisnefndar."

4.

Kærandi Óttar Yngvarsson f.h. eigenda Haffjarðarár vísar til ákvæða 83. gr. vatnalaga nr. 15/1923 þar sem segir: "Bannað er að láta í vötn frá iðjuverum, eða sleppa um vötn í skurði eða aðrar veitur, nokkra þá hluti, fasta, fljótandi eða loftkennda, sem spilla mundu botni vatns eða bakka eða vatninu sjálfu, svo að hættulegt sé mönnum eða búpeningi eða spilli veiði í vatninu. Bannað er að láta slík efni á ís eða svo nærri vatni, að hætt sé við að þau berist í það." Einnig vísar hann til 84. gr. sömu laga og dregur þá ályktun að ekki sé lagagrundvöllur til útgáfu starfsleyfis fyrir greindri eldisstöð.

Í umsögn Æsis ehf. segir að ekkert hafi komið fram í starfsleyfisferlinu sem bendi til að nokkrir þeir hlutir, fastir, fljótandi eða loftkenndir sem spilla myndu vatni í skilningi 83. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, fari í viðtakann í þessu tilviki eins og skýrt megi ráða af umfjöllun umsagnaraðila og umhverfisráðuneytisins.

Í athugasemdur kæranda Óttars Yngvarssonar hrl. er framangreindri staðhæfingu framkvæmdaraðila mótmælt og bent á að í frárennsli hinnar væntanlegu eldisstöðvar muni fara m.a. uppleystar saur- og fóðurleifar, leifar fljótandi og uppleystra lyfja og sótthreinsiefna sem og blóðvatn frá í umræddri tromlusíu og einnig bakteríur og veirur.

5.

Kærandi Óttar Yngvason f.h. eigenda Haffjarðarár telur að væntanleg bleikjueldisstöð muni ótvírætt skerða eignarrétt eigenda Haffjarðarár sem er friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár Íslands. Skerðing þessi yrði vegna beinnar mengunar, sjónmengunar, almennar spillingar vistkerfis svæðisins og hinnar hreinu náttúruímyndar þess og að síðustu vegna verðrýrnunar veiði í ánni. Að auki telur kærandi að útgáfa hins kærða starfsleyfis og sú starfsemi sem hún heimilar samrýmist ekki ólögfestum reglum grenndarréttar og áskilur kærandi sér rétt til að gera skaðabótakröfur á hendur framkvæmdaraðila og eftir atvikum leyfisveitendum.

Í umsögn Æsis ehf segir að fráleitt sé að halda því fram að eldisstöð með þeim takmörkunum sem gert er ráð fyrir í starfsleyfi skerði með einhverjum hætti eignarrétt eigenda Haffjarðarár. Yfirvöldum sem með málaflokkinn fara beri saman um það að ekki sé um að ræða að umtalsverð hætta verði af rekstri eldisstöðvarinnar fyrir hagsmuni eigenda Haffjarðarár. Komi til þess að Æsir ehf. valdi tjóni gagnvart eigendum Haffjarðarár muni hann að sjálfsögðu verða skaðabótaskyldur eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

6.

Kærendur Bryndís Hlöðversdóttir, Jón H. Hlöðversson og Orri V. Hlöðversson benda á að á árinu 1994 hafi þau gert samning við hreppsnefnd Kolbeinsstaðahrepps um lóðarleigu á ca 3ja hektara landi í kringum íbúðarhúsið á Syðri Rauðamel ásamt sérstökum samning um leigu á húsinu sjálfu. Samkvæmt kærendum lá þá fyrir að landið yrði nýtt "eftir því sem kostur er undir sumbarhúsabyggð." Þegar tillaga að deiliskipulagi var auglýst síðar var samkvæmt því gert ráð fyrir að land norðan heimreiðar að bænum yrði nýtt undir fiskeldisstöð og komu kærendur athugasemdum sínum á framfæri við skipulags- og byggingarfulltrúa en ekki var tekið tillit til þeirra.

Í umsögn Kolbeinsstaðahrepps segir að það land sem skipulagt sé undir fyrirhugaða fiskeldisstöð hafi aldrei komið til greina sem land undir sumarbústaði.

Að lokum krefst Æsi ehf. þess að ráðuneytið synji kröfugerð kærenda og staðfesti ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 20. maí sl. um útgáfu starfsleyfis fyrir bleikjueldi í landi Syðri-Rauðamels til handa Æsi ehf.

III Niðurstaða

1.

Ráðuneytið lítur svo á hvað varðar málsástæður kærenda um að ekki hafi verið gætt að rétti aðila til andmæla, gæta hagsmuna sinna og til að fylgjast með meðferð málsins þegar kæra Æsis á synjun á starfsleyfi var tekið fyrir í ráðuneytinu sé beiðni um endurupptöku á úrskurði ráðuneytisins frá 25. mars 2003 skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ný ákvörðun hefur þegar verið tekin af lægra settu stjórnvaldi vegna framangreinds úrskurðar sem er nú kærður telur ráðuneytið að ekki séu skilyrði til endurupptöku á úrskurðinum. Ráðuneytið vill þó benda á að bréf allra þeirra sem gerðu athugasemdir við auglýst drög að starfsleyfi lágu fyrir í fyrra kærumálinu sbr. úrskurð ráðuneytisins frá 25. mars 2003.

2.

Varðandi málsástæður kærenda um málsmeðferð Heilbrigðisnefndar Vestfjarða bendir ráðuneytið á að Heilbrigðisnefnd Vesturlands tilkynnti þeim sem athugasemdir höfðu gert við drög að starfsleyfi sem auglýst var þann 13. júní 2002 um útgáfu hins nýja starfsleyfis til handa Æsi ehf. að Syðri-Rauðamel í Kolbeinsstaðahrepp fyrir eldi á 19,9 tonnum af bleikju. Kærendur höfðu komið að athugasemdum sínum áður við meðferð málsins hjá Heilbrigðisnefnd Vesturlands sbr. ákvörðun þess frá 29 október 2002.

Í 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, segir að útgefandi starfsleyfis skuli tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að starfsleyfisumsókn og skuli hún liggja fyrir á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar ásamt starfsleyfisstillögu. Kveðið er á um skyldu útgefanda starfsleyfis í 2. mgr. sömu greinar til að auglýsa á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði ef við á, ennfremur að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis hún sé og hvar hún liggi frammi. Almenningi er síðan heimilt að koma að athugasemdum sínum við fram komin drög að starfsleyfi. Óumdeilt er að drög að starfsleyfi fyrir Æsi ehf. voru auglýst með framangreindum hætti og að kærendur komu að athugasemdum sínum. Kærendur telja að ógilding ráðuneytisins á synjun Heilbrigðisnefndar Vesturlands á útgáfu starfsleyfis feli í sér að nýtt starfsleyfisferli skuli hefjast, sem m.a. felur í sér að ný drög að starfsleyfi skuli auglýst og send til umsagnar.

Ráðuneytið tekur undir það mat Heilbrigðisnefndar Vesturlands að þau gögn hafi legið fyrir sem nauðsynleg voru til að hægt væri að taka ákvörðun í málinu, með vísun til rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna. Ráðuneytið fellst því ekki á að ógilding ráðuneytisins í máli þessu feli í sér að starfsleyfisferillin skuli hafinn að nýju. Ráðuneytið benda á að ákvæði reglugerðar nr. 785/1999 gera ráð fyrir að útgefið starfsleyfi geti breyst frá þeim drögum sem auglýst voru, enda til lítils að gefa almenningi tækifæri til að koma að athugasemdum við drög að starfsleyfi ef ekki væri heimild til að breyta þeim til samræmis við þær athugasemdir sem berast. Í því tilviki sem hér um ræðir var við útgáfu starfsleyfa tekið tillit til athugasemda kæranda hvað snertir auknar mengunarvarnir.

Með vísun til ofangreinds telur ráðuneytið að engir þeir ágallar hafi verið við meðferð málsins hjá Heilbrigðisnefnd Vesturlands, að ógilda eigi hið kærða starfsleyfi á þeim sökum.

3.

Kærandi Óttar Yngvason hrl. fh. eigenda Haffjarðarár mótmælir þeirri ályktun sem fram kemur í úrskurði Umhverfisráðuneytisins frá 25. mars 2003 um takmarkaða verndarstöðu Haffjarðarár. Í úrskurði ráðuneytisins dagsettum 25. mars 2003 segir um þetta:

"Ráðuneytið telur að við mat á því hvaða kröfur beri að gera varðandi mengunarvarnir beri að taka mið af eðli, eiginleikum og vernd viðkomandi svæðis. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun vatns, nr. 796/1999, skulu heilbrigðisnefndir flokka vatn til þess að viðhalda náttúrulegu ástandi þess og til þess að vernda það gegn mengun frá mannlegri starfsemi. Flokka skal vatn eftir því hvort áhrifa frá mannlegri starfsemi gætir þegar á lífríki eða á efna- og eðlisfræðilegt umhverfi þess og hvort lífríki og efna- og eðlisfræðilegar breytur eru í samræmi við náttúrulegt ástand eða skilgreind bakgrunnssgildi. Haffjarðará hefur, enn sem komið er, ekki verið færð til flokkar samkvæmt reglugerðinni. Áin nýtur því ekki þeirrar verndar sem flokkun, samkvæmt reglugerðinni, hefur í för með sér, heldur gilda almenn losunarmörk. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar eru þær laxveiðiár, sem vitað er til að hleypt sé frárennsli í, almennt vatnsmiklar ár blandaðar jökulvatni. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hefur ekki áður verið hleypt frárennsli frá atvinnustarfsemi í Haffjarðará og er talið að vistkerfi í hennar sé í jafnvægi. Í umsögn Náttúruverndar ríkisins segir að Haffjarðará hafi mikið náttúruverndargildi. Áin er skv. upplýsingum Umhverfisstofnunar af blönduðum uppruna að hluta úr lindum við hraun. Slík náttúrufyrirbrigði eru sjaldgæf og dýralíf í vistkerfum slíkra svæða yfirleitt sérstakt vegna fjölbreytilegra búsvæða og dýralífs. Ísland er aðili að samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem gerður var 5. júní 1992 en eitt meginviðfangsefni verndunar líffræðilegrar fjölbreytni er að vernda fjölbreytileika vistkerfa m.a. í ám. Ráðuneytið telur, samkvæmt því sem að framan segir, að Haffjarðará hafi ákveðna sérstöðu. Ráðuneytið telur því sé ástæða til að gæta fyllstu varkárni við að hleypa frárennsli í ánna og að gæta verði m.a. að magni fosfórs í frárennslinu."

Ráðuneytið leggur þannig í úrskurði sínum áherslu á að gætt sé fyllstu varkárni við að hleypa frárennsli í ánna.

Kæranda efast einnig um að heimilt sé að gefa út starfsleyfi þar sem enn vantar skýringaruppdrátt sem sýnir ástand vatns. Ráðuneytið vill benda á að ákvæði til bráðabirgða í reglugerð 796/1999 segir að flokkun vatns í samræmi við 8. gr., sbr. 9. og 10. gr. reglugerðarinnar, skuli vera lokið innan 4 ára frá gildistöku reglugerðarinnar. Reglugerð nr. 796/1999 tók gildi 2 desember 1999 og skal flokkun vatns samkvæmt þessu ákvæði vera lokið fyrir 2. desember 2003. Ráðuneytið hefur í úrskurði sínum frá 25. mars 2003 fjallað um verndarstöðu Haffjarðarár og telur ráðuneytið að ekki hafi komið fram ný gögn sem breyta ættu fyrri niðurstöðu ráðuneytisins varðandi þetta efni. Ráðuneytið fellst því ekki á framangreinda málsástæðu kæranda.

4.

Kærandi Óttar Yngvarsson vísar til 83. og 84. vatnalaga nr. 15/1923 sem leggja almennt bann við að láta í vötn nokkra þá hluti, fasta, fljótandi eða loftkennda frá iðjuverum sem spillt gætu botni vatns, bakka eða vatninu sjálfu, svo hættulegt sé mönnum eða búpeningi eða spilli veiði í vatninu.

Starfsleyfishafi Æsir ehf. bendir á að ekkert hafi komið fram í starfsleyfi sem bendi til að nokkrir þeir hlutir fastir, fljótandi eða loftkenndir sem spilla myndu vatni í skilningi 83. gr. vatnalaga nr. 15/1923, fari í viðtakann. Ráðuneytið bendir á að Vatnalög eru frá árinu 1923 en síðar hafi gengið í gildi ný lög svo sem lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, lög um eiturefni og hættuleg efni nr. 52/1998, lög um náttúruvernd nr. 44/1999 og fjöldi reglugerða sem fjalla um þá þætti sem áðurnefndar greinar vatnalaga taka til en með mun ítarlegri hætti. Í hinu kærða starfsleyfi eru að auki ákvæði um mengunarvarnir sem eiga að tryggja að mengun frá strafseminni verði innan þeirra marka sem lög og reglugerðir kveða á um. Með vísun til þessa fellst ráðuneytið ekki á framangreinda röksemd kæranda.

5.

Kærandi Óttar Yngvson telur að væntanleg bleikjueldisstöð muni ótvírætt skerða eignarrétt eigenda Haffjarðarár sem sé friðhelgur samkvæmt 72. gr Stjórnarskrár Íslands. Áskilur kærandi sér rétt til að gera skaðabótakröfu á hendur framkvæmdaraðila og eftir atvikum leyfisveitanda.

Starfsleyfishafi bendir á að komi til þess að hin starfsleyfisskylda starfsemi valdi tjóni gagnvart eigendum Haffjarðarár muni hann að verða skaðabótaskyldur eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 33. gr. reglugerðar nr. 785/1999 er heimilt að kæra ákvörðun um útgáfu starfsleyfis til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Umhverfisráðherra er í sínu úrskurðarvaldi bundin af almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Ráðuneytið metur það svo að það sé ekki á valdsviði þess á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 að úrskurða um hvort væntanleg bleikjueldisstöð muni skerða eignarrétt eigenda Haffjarðarár þannig að bótaskylt sé.

6.

Kærendur Bryndís Hlöðversdóttir, Jón H. Hlöðversson og Orri V. Hlöðversson telja að fyrir hafi legið að landið í kringum íbúðarhúsið á Syðri-Rauðamel yrði nýtt "eftir því sem kostur er undir sumarhúsabyggð". Kolbeinsstaðahreppur tekur hins vegar fram í umsögn sinni að það land sem sé nú skipulagt undir fyrirhugaða fiskeldisstöð hafi aldrei komið til greina sem land undir sumarbústaði. Ráðuneytið bendir á að starfsemi sú sem áætluð sé samkvæmt útgefnu starfsleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag sem auglýst var í Stjórnartíðindum þann 7. febrúar 2001, og fellst ekki á röksemd kæranda.

Með hliðsjón af því sem framan er rakið telur ráðuneytið ekki efni til að verða við kröfum kærenda um að fella hið kærða starfsleyfi Æsis ehf. úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands um útgáfu á starfsleyfi dagsett þann 20. maí 2003 fyrir bleikjueldisstöðina Æsi ehf. að Syðri-Rauðamel í Kolbeinsstaðahreppi, Hnappadal er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta