Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 00090058


Ráðuneytinu hafa borist fjórar kærur vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 9. ágúst 2000 um að ekki skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum á fyrirhuguðu þauleldi á laxi í sjókvíum í Mjóafirði. Um er að ræða kæru Norður-Atlantshafssjóðins, NASF, kæru Veiðifélags Hofsár og Sunndalsár, Selár og Vesturdalsár í Vopnafirði, kæru Helgu M. Óttarsdóttur hdl., f.h. eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi og kæru Landsambands veiðifélaga.



I. Kæruefni.


AGVA ehf. tilkynnti þann 30. júní 2000 til Skipulagsstofnunar fyrirhugað þauleldi á laxi í sjókvíum í Mjóafirði á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að á grundvelli gagna framkvæmdaraðila, að fegnu áliti hreppsnefndar Mjóafjarðarhrepps, Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og veiðimálastjóra sé það mat stofnunarinnar að í ljósi eðlis, staðsetningar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar skuli ekki fara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar enda verði við leyfisveitingar farið eftir þeim lögum og reglugerðum sem starfsemin er háð.


Í kæru NASF, er sú krafa gerð að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Kærandi bendir á að fyrirhugað sjókvíaeldi sé umtalsvert sem hafi óafturkræf áhrif og ekki séu mögulegar mótvægisaðgerðir. Þá sé lögum og reglugerðum er varða sleppingar laxafiska af erlendum uppruna ábótavant og íslensk stjórnvöld séu ekki í stakk búin til að takast á við vandamál sem fylgir slíkum rekstri.


Landsamband veiðifélaga gerir þá kröfu aðallega að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar, sbr. 1.gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er gerð sú krafa að fram fari mat á umhverfisáhrifum með vísan til 2. og 3. mgr. í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið lítur svo á að í varakröfu kæranda sé sama krafa gerð og í aðalkröfu þar sem krafist er mat á umhverfisáhrifum í báðum tilvikum. Kærandi bendir á að norskar rannsóknir sýni að 2-5% eldislaxa sleppi úr eldiskvíum og eigi sama við um í öðrum löndum t.d. Skotlandi. Hafi þar strokulax úr kvíum borið sýkingu í villta stofna laxfiska í fersku vatni. Kærandi telur að ætla megi að hærra hlutfall sleppi úr kvíum hér við land en gerist í Noregi og Skotlandi vegna álags á kvíar með tilliti til veðurfars og sjólags og fullyrðingar um annað séu marklausar. Þá telur kærandi að í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé eingöngu litið til umhverfisáhrifa á eldisstað. Skipulagsstofnun geti ekki vísað til annara aðila með vísan til laga og reglugerða þar sem þeim sé ábótavant. Kærandi telur að ekki hafi verið litið til þeirra umtalsverðu og óafturkræfu umhverfisáhrifa, sem verða þegar eldisfiskur sleppur úr kvíum og blandar erfðum við náttúrulega stofna í íslenskum ám. Rannsóknir sýni að eldisfiskur blandi sér í hóp villtra laxa. Íslenskum laxastofnum muni stafa hætta af erfðamengun og veirusýkingum vegna sjókvíaeldis á norskum laxi í Mjóafirði. Þá telur kærandi að ekki hafi verið leitað upplýsinga um áhrif kvíaeldisins á villta laxastofna, eins og laxalúsar og áhrif á silungaár. Kærandi telur að fyrirhugað eldi á norskum laxi muni leiða til umtalsverðra umhverfisáhrifa og því beri að fara fram mat á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000.


Í kæru eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi er þess krafist að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs sjókvíaeldis á laxi í Mjóafirði. Kröfur sína byggir kærandi á því að framkvæmdin hafi umtalsverð umhverfisáhrif annars vegar vegna þeirra varanlegu áhrifa sem lax af erlendum uppruna sem sleppur úr kvíum hefur á villta laxastofna hérlendis með erfðamengun og smitsjúkdómahættu. Hins vegar vegna þeirrar skerðingar á eignarréttindum sem slíkt laxeldi hefur í för með sér.


Kærandi vísar til greinar sérfræðinga Veiðimálastofnunar í tímaritinu Veiðimanninum nr. 162, júní 2000, þar sem fram komi að eldisfiskur spilli villtum fiskistofnunum með erfðamengun og sjúkdómum og valdi með því tjóni sem ekki verði bætt síðar. Sýnt hafi verið fram á að eldislax blandist hæglega náttúrulegum stofnum sem geti leitt til breytinga á erfðasamsetningu villtra stofna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Almennt sé viðurkennt að 2-5% fiska sleppi úr kvíum án þess að sérstök óhöpp komi til. Kærandi bendir á að stærð og umfang fiskeldisins sem sé 6.000-8.000 tonn á ári sé margföld sú ársframleiðsla sem tilkynningarskyldan sé miðuð við skv. g. lið 2. viðauka. Slysahætta sé veruleg þar sem víst sé að eldisfiskur sleppi auk þess sem sjúkdómahætta sé veruleg og vísar kærandi til framangreindrar greinar Veiðimálastofnunar máli sínu til stuðnings. Kærandi telur að með vísan til þeirra margháttuðu áhrifa sem laxeldi í Mjóafirði komi til með að hafa á umhverfið og þess gríðarlega magns sem ráðgert sé að framleiða á ári, verði að telja laxeldisstöð með laxaseiðum af erlendum uppruna hafi umtalsverð umhverfisáhrif og sé því háð mati á umhverfisáhrifum.


Þá telur kærandi að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér brot á grendarrétti og nágrannarétti. Eldi á laxi af erlendum stofni í Mjóafirði komi til með að hafa áhrif á villta laxastofna um allt land. Þau áhrif og skaði sem framkvæmdin ylli yrðu varanleg, óvenjuleg og veruleg og þar sem í húfi séu hagsmunir eigenda allt að 2000 lögbýla, sem eigi aðild að 77 laxveiðiám.


Í kæru Veiðifélags Hofsár og Sunndalsár, Selár og Vesturdalsár í Vopnafirði er ákvörðun Skipulagsstofnunar kærð og lítur ráðuneytið svo á að sú krafa sé gerð að fram fari mat á umhverfisáhrifum á fyrirhuguðum framkvæmdum í Mjóafirði. Kærandi bendir á það að ekki sé í ákvörðun Skipulagsstofnunar litið til þeirra umtalsverðu og óafturkræfu umhverfisáhrifa sem verði þegar eldisfiskur af norskum uppruna sleppur úr kvíum og blandar erfðum við náttúrulega stofna í íslenskum ám. Rannsóknir sýni að eldisfiskur blandi sér í hóp villtra laxa og ljóst sé að íslenskum laxastofnum muni stafa hætta af erfðamengun og veirusýkingum vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis. Reynslan sýni að umtalsvert magn eldislaxa sleppi úr eldiskvíum og sé sérstök hætta hér við land vegna mikilla veðra og sjógangs.



II. Umsagnir.


Ráðuneytið óskaði með bréfum dagsettum 15. september 2000 og 27. september 2000 eftir umsögnum frá AGVA ehf., hreppsnefnd Mjóafjarðar, Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Veiðimálastofnun, Skipulagsstofnun og Veiðimálastjóra um framangreindar kærur.


Umsögn AGVA barst með bréfi dagsettu 29. september, umsögn hreppsnefndar Mjóafjarðar barst með bréfi dagsettu 27. september 2000, umsögn Hollustuverndar ríkisins barst með bréfi dagsettu 25. september 2000, umsögn Náttúruverndar ríkisins barst með bréfi dagsettu 25. september 2000, umsögn Veiðimálastofnunar barst með bréfi dagsettu 18. september 2000, umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi dagsettu 2. október 2000 og umsögn


Veiðimálastjóra barst með bréfi dagsettu 4. október 2000.


Í umsögn framkvæmdaraðila, AGVA ehf. segir m.a. að rannsóknir á hugsanlegum áhrifum eldislax á náttúrulega laxastofna hafi staðið yfir í u.þ.b. 20 ár. Það eina sem hægt sé að fullyrða að þeim loknum er að ekki hafi tekist að sýna fram á að eldislax hafi skaðleg áhrif á náttúrulega villta stofna af sama stofni og vísar framkvæmdaraðili til tveggja nýrra skýrslna í því sambandi, "NAC(98)6 Potential Genetic Interaction Between Wild and Farm Salmonthe of the Same Species" og "Interactions Between Feral and Wild Atlantic Salmon". Þá telur framkvæmdaraðili að mat á umhverfisáhrifum skili ekki annarri og meiri vitneskju en koma muni fram í tengslum við leyfisveitingarferlið og hún sé kostnaðarsöm sem ekki verði réttlætt með efnislegum rökum. Ef hægt verði að leiða í ljós hættu á erfðablöndun gagnvart villtum laxastofnum og sjúkdómahættu sé leyfisveitingaferlið eina leiðin til þess. Vísað er til skýrslu frá Noregi, "Statitik for fiskeoppdrett" en af henni má sjá að heildarhlutfall stroks sé minna en 0.5% árið 1998. Þá kemur fram að búist megi við að raunverulegt strok miðað við árganginn 2000 sé minna en 0.1%.


Hollustuvernd ríkisins telur að ekki beri að gera kröfu um mat á umhverfisáhrifum enda sé svæðið síður viðkvæmt með tilliti til losunar skólps, sbr. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Stofnunin bendir á að það sé landbúnaðarráðherra sem fari með yfirstjórn fiskisjúkdómamála og mála sem varða flutning fiska á grundvelli laga nr. 76/1970 um lax og silungsveiði, sbr. reglugerð nr. 105/2000. Þá bendir stofnunin jafnframt á að hún hafi aðkomu að málinu þegar starfsleyfi verði veitt fyrir starfseminni en Hollustuvernd ríkisins veitir slíkt starfsleyfi. Aðkoma þessi tengist m.a. ákvæðum laga og alþjóðlegra samninga um að krafist skuli bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir þar sem slíkt hefur verið skilgreint og ákvæða um losun efna út í umhverfið.


Í umsögn hreppsnefndar Mjóafjarðar segir að fyrirhuguð framkvæmd sé háð umsóknar- og leyfisveitingarferli skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sem getur haft í för með sér mengun, lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði og reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingu laxafiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna, að viðbættum ýmsum reglugerðum er snerta fiskisjúkdóma og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum. Hreppsnefnd Mjóafjarðar telur að ekkert hafi komið fram um það af hálfu kærenda hvaða upplýsingar eigi að koma fram í mati á umhverfisáhrifum um þessa þætti, sem ekki muni koma fram í því lögformlega umsóknar- og leyfisveitingaferli sem framkvæmdaraðilar þurfa að ganga í gegnum. Telur hreppsnefndin að leyfisveitingarferlið muni leiða í ljós mögulega smithættu eða erfðamengunarhættu gagnvart villtum laxastofnum. Þá telur hreppsnefndin að staðhæfingar sérfræðinga Veiðimálastofnunar séu í engu samræmi við önnur tiltæk gögn og litið sé fram hjá því að framkvæmdaraðilar byggi á reynslu frá Norður-Noregi þar sem aðstæður séu líkar því sem hér gerist. Ekki séu heldur fullyrðingar sérfræðinganna um aðstæður í Skotlandi í samræmi við niðurstöður nýlegrar skýrslu byggðamálaráðuneytis skosku heimastjórnarinnar um fiskeldi.


Náttúruvernd ríkisins telur að sá möguleiki að villtum íslenskum laxastofnum verði breytt fyrir tilstilli manna sé umtalsverð umhverfisáhrif. Mat á umhverfisáhrifum muni gefa möguleika á að vega og meta þá kosti sem eru í stöðunni og afleiðingar þeirra. Telur stofnunin því að setja eigi sjókvíaeldi í Mjóafirði í mat á umhverfisáhrifum.


Skipulagsstofnun bendir á 1. mgr. 62. gr. laga nr. 76/1970 og telur að í lagaákvæðinu felist að löggjafinn hafi með setningu þessa ákvæðis tekið þá afstöðu að veiðimálastjóri sé það stjórnvald sem hæfast sé til að veita leyfi fyrir þeim rekstri sem hér um ræðir. Telur stofnunin að lögum og reglugerðum sé ekki ábótavant hvað varðar fiskeldi og vísar stofnunin til framangreindra laga og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir auk reglugerða nr. 785/2000 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxafiska og varnir gegn fiskisjúkdómum og blöndun laxastofna. Varðandi álit kærenda um að hætta sé á erfðamengun telur stofnunin að eðlilegra sé að það verði skoðað þegar sett verða skilyrði fyrir starfsleyfi fiskeldisstöðvar með vísan til laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999. Telur stofnunin að athugasemdir kæranda varðandi erfðamengun og smithættu eigi ekki ein og sér að leiða til matskyldu fyrirhugaðrar framkvæmdar þar sem taka beri á slíku í leyfisveitingum.


Veiðimálastjóri telur að ekki sé nauðsynlegt að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í Mjóafirði og varðandi rökstuðning er vísað til bréfs veiðimálastjóra til Skipulagsstofnunar, dags. 18. júlí 2000. Veiðimálastjóri bendir á að gera þurfi heildstætt umhverfismat fyrir staðsetningu allra fiskeldisstöðva sem sótt hafa um leyfi til starfsemi hér á landi.


Í umsögn Veiðimálastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ítrekað varað við hættum sem af fiskeldi geti stafað fyrir villta laxastofna landsins. Það er mat stofnunarinnar að fyrirhugað sjókvíaeldi í Mjóafirði þurfi að fara í umhverfismat og vísar stofnunin í því sambandi til fyrri röksemda Veiðimálastofnunar.


Framangreindar umsagnir voru sendar til kærenda til athugasemda með bréfi ráðuneytisins dagsettu 2. október 2000 og 5. október 2000. Athugasemdir bárust frá Veiðifélagi Hofsár og Sunndalsár, Selár og Vesturdalsár í Vopnafirði, Helgu M. Óttarsdóttur hdl., f.h. eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi og Landsambandi veiðifélaga með bréfum dagsettum 3. október 2000, 5. október 2000 og 7. október 2000.


Í athugasemdum Helgu M. Óttarsdóttur hdl. fyrir hönd eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi segir eftirfarandi varðandi það sem fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að stjórnvöld sem fjalla um leyfisveitingar vegna þeirrar starfsemi sem hin kærða ákvörðun beinist að hafi bæði valdheimildir og séu hæf til að koma í veg fyrir eða takmarka verulega sjúkdóma- eða erfðamengunarhættu vegna kvíaeldis og að gildandi lagarammi á þessu sviði sé fullnægjandi til að þeim sé kleift að sinna því hlutverki sínu:



"Ofangreind ummæli fela í sér beina mótsögn við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt lögunum skal mat á umhverfisáhrifum fara fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sbr. m.a. 1. gr. og mat á því hvort gerð skuli krafa um mat á umhverfisáhrifum skal í engu háð því hverja efnislega meðferð beiðni um framkvæmd fær að öðru leyti, né hvaða stjórnvald tekur endanlega ákvörðun um framkvæmd. "


Í athugasemdum Veiðifélags Hofsár og Sunndalsár, Selár og Vesturdalsár í Vopnafirði kemur fram að með því að láta sjókvíaeldi á lax fari í mat á umhverfisáhrifum sé tryggð mun betri fagleg umfjöllun þar sem fleiri aðilar komi að málinu.


Í athugasemdum Landssambands Veiðifélaga segir eftirfarandi varðandi tilvísun Skipulagsstofnunar í umsögn sinni til reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxafiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna.



"Það er fráleit lögskýring Skipulagsstofnunar að yfirfæra ákvæði reglugerða og laga um hafbeit yfir á sjókvíaeldi eins og gert er í umsögn dags. 2. október sl. LV ítrekar að lagaumgjörð varðandi sjókvíaeldi er mjög ófullkomin. Fyrirmæli eru í lögum að Veiðimálastjóri skuli leita umsagnar Veiðimálanefndar við leyfisveitingar til sjókvíaeldis en ljóst er af fordæmum að hann er ekki bundinn af umsögn hennar. Önnur fyrirmæli í lögum og reglugerðum sem varða leyfisveitingar til sjókvíaeldis er ekki að finna að heitið getur utan þess er greinir í reglugerð nr. 105/2000 í 4. gr. 4.2. mgr. um lágmarksfjarlægðir sjókvíaeldisstöðva frá laxveiðiám. LV mótmælir skv. framansögðu þeirri fullyrðingu Skipulagsstofnunar að í ákvæðum þessara laga og reglugerða sé tekið á fullnægjandi máta á þeim atriðum sem kærendur vísa til í kærum sínum. "



III. Almenn umfjöllun um lagaumhverfi.


Í 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 segir að framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í lögunum eru umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum, sbr. l. liður 1. mgr. 3. gr. laganna. Við ákvörðun um matskyldu skal fara eftir þeim viðmiðunum sem talin eru upp í 3. viðauka við lögin. Þær viðmiðanir sem settar eru fram í 3. viðauka taka til eðlis, staðsetningar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, sbr. 1.-3. töluliðir 3. viðauka. Þegar eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar eru metnir ber að skoða áhrif framkvæmdanna í ljósi eðlis og staðsetningar framkvæmdarinnar. Hin kærða framkvæmd fellur undir g. lið 1. gr. 2. viðauka en þar segir: "Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita í ferskvatn."


Í starfsleyfi fyrir þauleldi fiska skulu vera ákvæði sem tryggja að atvinnureksturinn sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar, og að til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni, sbr. 12.2 gr. og 13. gr. reglugerðar nr. 785/1999 og 1. töluliður 5.gr. laga nr. 7/1998. Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með því að kröfur og skilyrði í starfsleyfum séu í samræmi við ákvæði viðeigandi laga og reglugerða, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Í þeim kröfum og skilyrðum sem gerð eru á grundvelli starfsleyfis fyrir atvinnurekstur sem hér um ræðir og eftirliti með honum, felst m.a. að fyrirtæki geri grein fyrir því að hvaða leyti búnaður uppfylli kröfur um bestu fáanlegu tækni til að koma í veg fyrir umhverfisáhrif. Þannig mun starfsleyfi fyrir fyrirhugaðri framkvæmd m.a. kveða á um það hvernig fyrirbyggja eigi áhrif starfseminnar á umhverfið og þau áhrif verða lágmörkuð þannig að þau séu ásættanleg.


Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laga nr. 76/1970 um lax og silungsveiði þarf leyfi veiðimálastjóra til fiskeldis að fenginni umsögn veiðimálanefndar og í reglugerð nr. 105/2000 er að finna ýmsar kröfur sem gerðar eru til kvíaeldis. Í reglugerð nr. 403/1986 með síðari breytingum er kveðið á um heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum og um sjúkdómavarnir með þeim. Það er því í höndum veiðimálastjóra að gefa út endanlegt leyfi fyrir sjókvíaeldi í Mjóafirði.



IV. Niðurstaða.


Kærendur gera þá kröfu að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs þauleldis á laxi í sjókvíum í Mjóafirði og eru kröfur kærenda byggðar á svipuðum rökum. Telja kærendur að slíkt mat skuli fara fram vegna þeirra umtalsverðu og óafturkræfu umhverfisáhrifa sem þeir telja að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa á villta laxastofna í íslenskum ám. Þau umhverfisáhrif séu nánar tiltekið þau áhrif sem eldisfiskur getur haft á villta laxastofna vegna hugsanlegrar erfðablöndunar og útbreiðslu smitsjúkdóma.


Í athugasemdum Veiðifélags Hofsár, Sunndalsár, Selár og Vesturdalsár í Vopnafirði segir að mat á umhverfisáhrifum muni tryggja betur faglega umfjöllun þar sem fleiri aðilar komi að málinu. Að mati ráðuneytisins eru þau rök að fleiri aðilar komi að málinu ekki nægjanleg ein og sér til að kveða á um að framkvæmdin skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Þá liggur fyrir að þegar Skipulagsstofnun tók ákvörðun í máli þessu hafði stofnunin leitað umsagnar ýmissa fagaðila og voru þær hafðar til hliðsjónar þegar niðurstaða var fengin. Einnig skal á það bent að við meðferð starfsleyfisumsóknar er tryggður réttur allra til að gera athugasemdir við starfsleyfistillögur og jafnframt eru ákvarðanir um útgáfu starfsleyfis kæranlegar til ráðherra, sbr. 24. gr. og 25. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þá eru ákvarðanir veiðimálastjóra auk þess kæranlegar til landbúnaðarráðherra á grundvelli stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þessi ferli kalla einnig á aðkomu fjölmargra sérfræðinga við úrlausn málsins.


Eins og fram kemur hjá umsagnaraðilum og kærendum eru skiptar skoðanir um þau umhverfisáhrif sem fyrirhugað sjókvíaeldi í Mjóafirði muni hafa á villta laxastofna, hvað varðar erfðablöndun og smitsjúkdómhættu. Eins og greint var frá í III. kafla skal við mat á því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif , sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, fara eftir þeim viðmiðunum sem fram koma í 3. viðauka við lögin. Að mati ráðuneytisins eru það töluliðir 1.i, 1.iii, 1.iv, 1.vi. og 2.iv. (b) í 3. viðauka sem koma til álita við mat á því hvort sú framkvæmd sem hér eru til umfjöllunar sé matskyld eða ekki. Aðrir töluliðir sem tilgreindir eru í 3. viðauka eiga ekki við um framkvæmdina. Hér á eftir verður gerð grein fyrir einstökum viðmiðunum eftir því sem þau eiga við.


Stærð og umfang fyrirhugað kvíaeldisins í Mjóafirði er yfir þeim mörkum sem tilkynningarskyldan miðast við skv. g. lið 2. viðauka eins og einn kærandi bendir á. Þegar tekin er ákvörðun um matskyldu framkvæmdar er um heildstætt mat að ræða sem byggist á 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og framkomnum umsögnum og athugasemdum. Stærð framkvæmdarinnar er því eitt atriði af mörgum sem taka ber tillit til við ákvörðun um matskyldu. Ráðuneytið telur að líta verði á umfang framkvæmdarinnar í ljósi þeirrar staðsetningar sem henni hefur verið valin og vegur hún mjög þungt þegar metin eru umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Hollustuvernd ríkisins telur svæðið síður viðkvæmt, sbr. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, og er það mat stofnunarinnar að ekki þurfi að fara fram mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins í Mjóafirði. Samkvæmt framangreindri reglugerð er síður viðkæmur viðtaki skilgreindur sem ármynni og strandsjór þar sem endurnýjun vatns er mikil og losun tiltekinnar mengunar er ekki talin hafa skaðleg áhrif á umhverfið, sbr. gr. 3.29. Kærendur hafa ekki gert athugasemdir við sjálfa staðsetningu framkvæmdarinnar heldur beinast athugasemdir þeirra að hugsanlegum áhrifum framkvæmdarinnar út fyrir svæði hennar vegna hættu á erfðablöndun og smitsjúkdómum. Ráðuneytið telur að framkvæmdin muni ekki hafa áhrif á strandsvæði enda er endurnýjun vatns mikil vegna strauma. Skiptar skoðanir eru meðal sérfræðinga um það hversu mikið af eldisfiski sleppi úr kvíum. Kærendur telja það vera 2 -5% árlega en framkvæmdaraðili vísar til norskra skýrslna þar sem fram kemur að heildarhlutfall stroks í Noregi hafi þar verið minna en 0.5% á árinu 1998 og telur hann strok eldisfiska fara minnkandi ár frá ári. Ráðuneytið telur því að ekki sé dregið í efa að eitthvað strok sé frá kvíaeldi en hins vegar er ágreiningur meðal sérfræðinga um hver áhrif stroks sé á villta laxastofna. Eins og fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila hafa niðurstöðu rannsókna sem staðið hafa yfir í 20 ár í nágrannalöndum ekki sýnt fram á að eldislax hafi skaðleg áhrif á náttúrulega villta stofna af sama stofni.


Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að ekki skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Mjóafirði í ljósi eðlis, staðsetningar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar.


Með vísan til þessarar niðurstöðu fellst ráðuneytið ekki á að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér brot á grendarrétti og nágrannarétti þegar af þeirri ástæðu að fyrirhuguð framkvæmd geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.


Veiðimálastjóri telur ekki tilefni til þess að einstakar framkvæmdir eins og fyrirhugað þauleldi á laxi í Mjóafirði fari í mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar telur hann mikilvægt að fram fari heildstætt umhverfismat fyrir staðsetningu allra fiskeldisstöðva sem sótt hafa um leyfi til starfsemi hér á landi. Ráðuneytið vill að þessu tilefni taka fram að slíkt mat sem veiðimálastjóri vísar til fellur ekki undir lög nr. 106/2000 heldur taka þau lög eingöngu til þess þegar metin eru umhverfisáhrif einstakra framkvæmda. Skipulagsstofnun hefur því enga lagaheimild til að krefjast slíks heildstæðs mats á staðsetningu allra fiskeldisstöðva óháð framkvæmdunum og rekstri hverrar stöðvar fyrir sig.


Í kæru Landsambands Veiðifélaga kemur fram að leyfisveitingarferlið á grundvelli laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ásamt þeim reglugerðum sem þessi starfsemi sé byggð á sé ófullkomið og ekki sé þar tekið á þeim atriðum sem fjallað sé um í kærum. Kærandi telur að Skipulagsstofnun geti ekki vísað til annara aðila laga og reglugerða þar sem þeim sé ábótavant. Ráðuneytið vill taka fram í þessu tilefni að þau ákvæði laga og reglugerða sem rakin voru í kafla III. og varða þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi sjókvíaeldis koma ekki í stað ákvæða um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar skv. lögum nr. 106/2000. Ákvörðun ráðuneytisins um hvort sú framkvæmd sem hér er til skoðunar sé matskyld eða ekki byggist á lögum um mat á umhverfisáhrifum eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir. Krafa um að framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum getur því ekki byggst á þeim sjónarmiðum að önnur lagaákvæði sem kveða á um þær kröfur séu gerðar til starfseminnar séu ófullkomin. Að mati ráðuneytisins eiga þau ákvæði hins vegar að tryggja að fyrirhugað sjókvíaeldi í Mjóafirði verði háð þeim skilyrðum og eftirliti sem muni koma í veg fyrir eða takmarka hættu á hugsanlegri erfðablöndun og smitsjúkdómum vegna kvíaeldisins.


Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að taka kröfu kærenda til greina um að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í Mjóafirði og skal ákvörðun skipulagsstjóra frá 9. ágúst 2000 óbreytt standa.



Úrskurðarorð:


Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. ágúst 2000 skal óbreytt standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta