Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 00050116

Ráðuneytinu hefur borist kæra Hitaveitu Suðurnesja vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar á Reykjanesi.

I. Hinn kærði úrskurður.

Skipulagsstjóri ríkisins felldi úrskurð sinn þann 17. maí 2000 vegna mats á umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar á Reykjanesi samkvæmt lögum nr. 63/1993 og eru úrskurðarorð hans eftirfarandi:

6.1 Er fallist á nýtingu orku og förgun affallsvatns úr borholum 9 og 10 og borun innan núverandi iðnaðarsvæðis með því skilyrði að Gráa lónið stækki ekki frá því sem nú er.

6.2 Skal ráðast í frekara mat á jarðhitanýtingu á Reykjanesi, umfram það sem fram kemur í lið 6.1 hér að framan. Framkvæmdasvæðið skal takmarkað við núverandi iðnaðarsvæði að öðru leyti en því er varðar leiðir til förgunar affallsvatns með niðurdælingu eða í sjó. Í frekara mati komi fram:

1. Tillaga að stærð þynningarsvæðis affallsvatnsins í strandsjó þar sem tillit er tekið til flokkunar strandsjávar með tilliti til umhverfismarka fyrir málma í yfirborðsvatni til verndar lífríki og umhverfismarka fyrir málma í sjávarseti hér við land. Bera skal tillöguna undir Hollustuvernd ríkisins áður en hún er kynnt til annarrar athugunar.

2. Upplýsingar um lífríki innan þynningarsvæðisins.

3. Upplýsingar um styrk og magn ýmissa efna í affallsvatninu og áhrif þeirra á lífríki sjávar svo sem kísils, áls, járns og mangans einnig þungmálma svo sem kadmíums, kopars og sinks auk arsens og blýs.

4. Upplýsingar um náttúrufar á fyrirhuguðu niðurdælingarsvæði, utan skilgreinds iðnaðarsvæðis og áhrif mannvirkjagerðar á það, svo sem vega, affallslagna og borplana.

II. Málsatvik.

Með kæru Hitaveitu Suðurnesja dagsett 23. júní 2000 er úrskurður skipulagsstjóra ríkisins kærður í heild sinni. Með bréfum dagsettum 27. júní 2000 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum Grindavíkurbæjar, Hollustuverndar ríkisins, Iðnaðarráðuneytisins, Náttúruverndar ríkisins, Reykjanesbæjar og Skipulagsstofnunar um kæruna. Umsögn Grindavíkurbæjar barst með bréfi dagsettu 19. júlí 2000, umsögn Hollustuverndar ríkisins barst með bréfi dagsettu 18. júlí 2000, umsögn Náttúruverndar ríkisins barst með bréfi dagsettu 21. júlí 2000, umsögn Reykjanesbæjar barst með bréfi dagsettu 13. júlí 2000 og umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi dagsettu 19. júlí 2000.

Í umsögn Skipulagsstofnunar frá 19. júlí 2000 varðandi umfjöllun kæranda um að skilyrði skipulagsstjóra ríkisins sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga segir:

" Í niðurstöðu skipulagsstjóra í kærðum úrskurði kemur fram að margt sé óljóst um umfang og áhrif framkvæmdarinnar s.s. staðsetning borplana, vega og annarra mannvirkja og eigi það einkum við um svæðið utan skilgreinds iðnaðarsvæðis. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á að förgun affallsvatns og framkvæmdin í heild komi ekki til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila eru efnahagsleg sjónarmið ekki metin og engar tölulegar upplýsingar eru þar settar fram, en það gerir það að verkum að í úrskurði skipulagsstjóra eru ekki forsendur til að taka á þessum sjónarmiðum.

Skipulagsstofnun er ljóst að nauðsynlegt er að afla frekari upplýsinga um jarðhitasvæðið og hvaða orka þar kann að vera til ráðstöfunar og að það verður ekki gert nema með borunum. Eðlilegt er að viðbótarupplýsinga sé aflað í áföngum svo sem framkvæmdaraðili bendir á.

Til að gæta meðalhófs var það niðurstaða skipulagsstjóra að fallast á nýtingu orku og förgun affallsvatns úr borholum 9 og 10 og ótakmarkaða borun innan núverandi iðnaðarsvæðis með því skilyrði að Gráa lónið stækki ekki frá því sem nú er."

Varðandi rökstuðning kæranda um ekki beri að takmarka framkvæmdasvæðið við núverandi iðnaðarsvæði segir í umsögn Skipulagsstofnunar:

"...Í kæru kemur nú fram að rannsóknar-, eftirlits- og mæliholur þurfi að vera utan vinnslusvæðisins og í enn meiri fjarlægð frá því en niðurdælingarholur, er þurfi að vera í a.m.k. 3 km fjarlægð. Þetta undirstrikar það álit Náttúruverndar ríkisins að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði mun umfangsmeiri en lýst er í frummatsskýrslu ef niðurstöður borana verði eins og vonast sé til og byggður verði upp iðnaður á svæðinu. Ekki sé hægt að leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þar sem upplýsingar vanti um staðsetningu, magn, tímaáætlanir ofl. Of mikil náttúruverðmæti séu í húfi til að hægt sé að leyfa ótakmarkaðar framkvæmdir á öllu svæðinu. Því telur stofnunin ekki ásættanlegt að framkvæmdin verði heimiluð utan þess svæðis sem nú er afmarkað sem iðnaðarsvæði í svæðisskipulagi. Þá bendir Náttúruvernd ríkisins á að svæðið hafi sérstöðu sem hluti af gosbelti Atlantshafshryggjarins og að á fáum stöðum á landinu sé að finna jafn fjölbreyttar gosmyndanir. Fyrirbærið sé einstakt á heimsvísu og því beri að stefna að friðun þess skv. lögum nr., 44/1999 um náttúruvernd. Vísindalegt gildi svæðisins sé mjög mikið þar sem fá svæði á landinu hafi verið jafn mikið rannsökuð. Svæðið ber að vernda sem landslagsheild en ekki aðeins einstök fyrirbæri eins og gerð sé tillaga um í frummatsskýrslu. Fullyrt er að í væntanlegri náttúruverndaráætlun verði gerð tillaga um friðlýsingu svæðisins.

Náttúruvernd ríkisins bendir einnig á að gróðurfar háhitasvæða sé sérstakt, samanlagt flatarmál þess á öllu landinu sé lítið og svæði um allt land séu í hættu vegna áforma um orkuvinnslu. Kríuvarpið á Reykjanesi sé líklega það stærsta á landinu, einstakt og ómetanlegt vegna samspils hvera og fugla og teljist hafa alþjóðlegt verndargildi. Kríuvarpið beri að vernda. Bent er á að búsvæði hitakærra tegunda séu lítil að flatarmáli á landsvísu og um þau þurfi að fara með gát. Hagnýting hitakærra örvera sé ný tilkomin, hún fari fram án mikilla umhverfisáhrifa en sé ábatasöm. Því beri að fara hægt í sakirnar áður en hverasvæðum er stefnt í hættu eða þeim fórnað.

Á bls. 3, í 4. kafla í hinum kærða úrskurði, er vísað í frummatsskýrslu þar sem fram kemur að ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar til þess að staðsetja borholur nákvæmlega og önnur mannvirki er nýtingu þeirra mun fylgja. Beðið sé eftir niðurstöðum mælinga og rekstrar holu 9 og holu 10 sem eru staðsettar á iðnaðarsvæðinu.

Niðurstöður þessar liggja ekki fyrir og er því ekki hægt að byggja staðsetningu borhola eða annarra mannvirkja á þeim.

Að mati Skipulagsstofnunar þarf því að takmarka framkvæmdasvæðið til þess að stuðla að verndun náttúruminja.

Á bls. 10, í 4. kafla í hinum kærða úrskurði, kemur fram það álit Hollustuverndar ríkisins að takmarka beri fyrirhugaða vinnslu við það svæði sem nú er skilgreint sem iðnaðarsvæði m.a. með tilliti til mengandi áhrifa og margvíslegrar óvissu varðandi framkvæmdir og vinnslu.

Skipulagsstofnun benti framkvæmdaaðila ítrekað á nauðsyn þess að afmarka framkvæmdina frekar en fram kemur í frummatsskýrslu (sbr.bréf Skipulagsstofnunar til VSÓ Ráðgjafar dags. 26. júní 1998, 22. október 1998, 17. mars 1999 og 22. febrúar 2000). Hollustuvernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins benda á iðnaðarsvæðið sem heppilega takmörkun.

Í frummatsskýrslu kemur fram að skiljustöð er nú þegar til staðar, innan iðnaðarsvæðisins, við saltverksmiðjuna og að hún verði nýtt fyrir næstu borholur. Fyrirhugað er að reisa síðan nýja skiljustöð á sama svæði norðan við Gráa lónið þegar þörf verður á stækkun. Þá kemur fram að skiljustöð þarf að vera innan við 500 m frá borholum sem henni tengjast. Við skoðun á korti 1 í frummatsskýrslu kemur í ljós að nær allt svæði innan 500 m radíus frá skiljustöð við saltverksmiðjuna er innan iðnaðarsvæðisins og sama gildir um mestallt svæðið innan 500 m frá fyrirhugaðri nýrri skiljustöð.

Skipulagsstofnun telur ljóst af framansögðu að Hitaveita Suðurnesja hefur gert ráð fyrir að næstu vinnsluholur verði innan núverandi iðnaðarsvæðis eða við mörk þess. Framkvæmdaraðili undirstrikar einnig að svæðið verði unnið í áföngum og í lok hvers áfanga verði rekstrarreynsla, staða þekkingar og færni metin áður en ráðist er í næsta áfanga.

Skipulagsstofnun fellst á það sjónarmið kæranda að ekki þurfi að vera beint samband á milli svæða sem skipulögð hafa verið fyrir iðnað og annarra svæða sem matskyldar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á. Það breytir ekki því að þær framkvæmdir sem fallist er á samkvæmt lið 6.1 í úrskurði þarf að afmarka og hentar skilgreint iðnaðarsvæði vel til þess í ljósi þess sem að framan segir. Í kæru kemur ekkert það fram sem bendir til annars og nýjar upplýsingar þar, m.a. um fjarlægð niðurdælingar- og rannsóknarhola frá vinnslusvæði, undirstrika mikilvægi þess að framkvæmdin sé skýrar afmörkuð."

Um þá kröfu kæranda að ekki þurfi að fara fram frekara mat á náttúrufari á fyrirhuguðu niðurdælingarsvæði segir Skipulagsstofnun:

"Samkvæmt frummatsskýrslu liggur fyrirhugað niðurdælingarsvæði að jaðri vinnslusvæðisins. Í kæru kemur nú fram að niðurdælingarholur þurfi að vera í a.m.k. 3 km fjarlægð frá vinnslusvæðinu.

Skipulagsstofnun telur að miðað við það sem áður er komið fram um staðsetningu skiljustöðva og þar með vinnsluhola, sé ljóst að niðurdælingarsvæðið þarf að ná töluvert lengra til norðurs og austurs en kynnt er í frummatsskýrslu. Það eru því viðbótar rök fyrir því að fram fari frekari öflun upplýsinga um náttúrufar á fyrirhuguðu niðurdælingarsvæði í frekara mati."

Varðandi skýrslu verkfræðistofunnar Vatnaskila um útreikninga á þynningu affallsvatns í sjó segir Skipulagsstofnun:

"Skýrsla verkfræðistofunnar Vatnaskila um útreikninga á þynningu affallsvatns í sjó frá fyrirhugaðri jarðhitavirkjun lá ekki fyrir þegar skipulagsstjóri kvað upp sinn úrskurð. Skipulagsstofnun er ekki kunnugt um að skýrslan hafi verið kynnt Hafrannsóknarstofnun og Hollustuvernd ríkisins og telur að þessir útreikningar, án álita framangreindra stofnana, breyti í engu þeim skilyrðum sem sett eru í úrskurði varðandi förgun affallsvatns."

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins frá 21. júlí 2000 segir:

"Í umsögn Náttúruverndar ríkisins um frummatsskýrslu vegna jarðhitanýtingar á Reykjanesi er bent á að Atlantshafshryggurinn gengur á land yst á Reykjanesskaganum. Fyrirbærið er einstakt og hefur mikið verndargildi á landsvísu sem og heimsvísu. Svæðið er allt á náttúruminjaskrá og telst náttúruverndarsvæði samkvæmt lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd. Bent er á að Reykjanes ætti að vernda sem eina landslagsheild. Að mati Náttúruverndar ríkisins gerði frummatsskýrslan ekki nægjanlega grein fyrir áhrifum framkvæmdanna á náttúru og landslag enda liggur ekki fyrir vitneskja um hvaða stefnu framkvæmdir munu taka. Reykjanes er vinsælt svæði til útivistar og náttúruskoðunar, fuglagriðland og þar er að finna fornminjar. Það var mat Náttúruverndar ríkisins að framkvæmdum þeim er sótt væri leyfi fyrir fylgdi óafturkræf áhrif á landslag og náttúruspjöll. Stofnunin lagðist því gegn því að farið yrði með verklegar framkvæmdir vegna orkuvinnslu út fyrir það svæði er nú þegar hefur verið markað sem iðnaðarsvæði í svæðis- og aðalskipulagi."

Varðandi það álit kæranda að ekki sé með framkvæmdunum verið að raska náttúruminjum á Náttúruminjaskrá segir í umsögn Náttúruverndar ríkisins:

"Náttúruvernd ríkisins telur rétt að ítreka að svæðið er allt á náttúruminjaskrá en ekki eingöngu einstaka náttúruminjar innan þess. Í skránni kemur fram að svæðið hefur m.a. verndargildi vegna stórbrotinnar jarðfræði og eru nefnd dæmi um jarðmyndanir sem þar er að finna. Ekki er um að ræða tæmandi lista yfir merkar jarðmyndanir. Því er ekki rétt að segja að helstu minjarnar samkvæmt náttúruminjaskrá raskist ekki við fyrirhugaðar framkvæmdir eins og segir í kærunni. Ljóst er að með framkvæmdunum verður svæði á náttúruminjaskrá raskað.

Í frummatsskýrslu er lagt til að ákveðin svæði verði undanskilin nýtingaráformum, sbr. kort 1 í frummatsskýrslu. Náttúruvernd ríkisins benti á það í umsögn sinni um skýrsluna að svæðið væri einstakt þar sem Reykjaneshryggurinn gengur þar á land og væri á fáum stöðum á landinu að finna jafn fjölbreyttar gosmyndanir eins og á Reykjanesskaga. Það væri svæðið í heild miklu fremur en einstakar jarðmyndanir sem bæri þeim ógnaröflum vitni. Náttúruvernd ríkisins telur að vernda beri fyrirbærið sem eina landslagsheild og getur ekki fallist á að aðeins séu vernduð einstök fyrirbæri og jarðmyndanir innan framkvæmdasvæðisins, sbr. tillögu framkvæmdaaðila."

Náttúruvernd ríkisins fellst ekki á þau rök kæranda að með fyrirhuguðum framkvæmdum sé ekki brotið gegn 37. gr. laga nr. 44/1999 en í umsögn stofnunarinnar segir um þetta atriði:

"...Náttúruvernd ríkisins bendir á að innan afmarkaðs framkvæmdasvæðis eru landslagsgerðir sem falla undir fyrrgreinda lagagrein. [37. gr. laga nr. 44/1993] Mikilvægt er að þær landslagsgerðir séu verndaðar sem heild, s.s. heilar gígaraðir, gígar og það hraun sem frá þeim rann. Náttúruvernd ríkisins bendir einnig á að Reykjanes uppfyllir þau skilyrði er þarf svo um það sé fjallað í náttúruverndaráætlun, sbr. 66. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Til dæmis er um að ræða eina staðinn í heiminum þar sem sjá má Atlantshafshrygginn ganga á land með þessum hætti. Náttúruvernd ríkisins fullyrðir að í náttúruverndaráætlun verði lagt til að umrætt svæði verði friðlýst."

Náttúruvernd ríkisins segir eftirfarandi um áhrif framkvæmda á gróðurfar:

"Í umsögn Náttúruverndar ríkisins um frummatsskýrslu er bent á að gróðurkortið í skýrslunni er frá því 1968 og hefur því takmarkað upplýsingagildi. Ekki er í skýrslunni fjallað um framvindu gróðurs. Umskipti hafa líklega orðið á gróðurfari á undanförnum árum vegna borana og saltverksmiðju en um það eru ekki til rannsóknargögn. Í skýrsluna vantar enn fremur umfjöllun um það hvernig framkvæmdirnar samræmist skuldbindingum Íslendinga varðandi samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika.

Náttúruvernd ríkisins telur eðlilegast að frekari gögn um náttúrufar svæðisins verði lögð fram í frekara mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Þannig er tryggt að öll gögn sem varða áhrif förgunar á affallsvatni verði lögð fram með þeim hætti að hægt verði að meta heildaráhrifin og að bæði umsagnaraðilum og almenningi gefist kostur á að skoða þau gögn og koma að athugasemdum."

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins frá 18. júlí 2000 segir um þann þátt kærunnar sem fjallar um takmörkun framkvæmdasvæðis við núverandi iðnaðarsvæði.

"Hollustuvernd ríkisins telur að gögn þau sem lögð voru fram í frummatsferlinu nægi ekki til þess að hægt sé að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er verðmætt náttúruminjasvæði og mikilvægt fyrir vísindi, fræðslu, ferðamennsku og almenna útivist. Af fyrirhuguðum framkvæmdum og rekstri verður margháttuð mengun á loft, láð og lög auk sjónrænna áhrifa. Vegna þessa þurfa upplýsingar að liggja fyrir og hljóta almenna umfjöllun. Margir náttúrufarslegir þættir innan áhrifasvæðis eru ókannaðir en þeir hljóta að liggja sem grundvöllur undir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins frá 27/4 er bent á þetta og taldi stofnunin að til þess að borun og vinnsla utan þess svæðis sem þegar hefur verið fallist á að leggja undir slíka starfsemi (skipulagt iðnaðarsvæði) geti orðið ásættanleg þurfi að liggja fyrir upplýsingar um framangreind atriði og áhrif þeirra á margskonar umhverfisþætti. Hollustuvernd ríkisins telur að fyrirliggjandi upplýsingar séu ekki nægilegar til þess að hægt sé að meta áhrif framkvæmdarinnar fyrir utan skilgreint iðnaðarsvæði. Stofnunin telur því að staðfesta beri úrskurð skipulagsstjóra ríkisins hvað þetta varðar."

Varðandi umfjöllun um förgun affallsvatns og skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila segir stofnunin:

"Framkvæmdaraðili kærir úrskurð skipulagsstjóra sem er byggður á framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, innsendum umsögnum og athugasemdum og svörum framkvæmdaraðila þar um. Hluti af rökstuðningi með kæru felst í skýrslu sem ekki var hluti af frummatinu. Skýrslan getur því varla verið gagn í málinu."

og einnig segir:

"Framkvæmdaraðili leggur fram viðbótargögn í kæruferli sem ekki lágu fyrir í frummati og hafa því ekki hlotið lögbundna umfjöllun. Framkvæmdaraðili telur að þessi nýja skýrsla Vatnaskila svari þeirri spurningu hvort meta þurfi áhrif losunar affallsvatns í sjó á lífríki og umhverfi almennt. Hollustuvernd ríkisins er þeirrar skoðunar að það orki verulega tvímælis að lögð eru fram viðabótargögn eftir að formlegu matsferli lýkur. Þegar það er gert er nánast útilokað fyrir þá sem áhuga hafa á að nýta andmælarétt sinn."

Með bréfi dagsettu 3. ágúst 2000 voru þær umsagnir sem borist höfðu ráðuneytinu sendar til kæranda og honum boðið að gera athugasemdir við þær. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 18. ágúst 2000.

Starfsmenn ráðuneytisins fóru í vettvangskönnun þann 15. ágúst 2000 þar sem fyrirhugað vinnslusvæði Hitaveitu Suðurnesja var skoðað auk þess sem rætt var við Albert Albertsson hjá Hitaveitu Suðurnesja og Stefán Thors hjá VSÓ Ráðgjöf.

III. Kröfur og málsástæður kæranda.

1.

Í kæru Hitaveitu Suðurnesja dags. 23. júní 2000 og athugasemdum kæranda er úrskurður skipulagsstjóra ríkisins kærður í heild sinni og sú krafa gerð að fallist verði á fyrirhugaða jarðhitanýtingu eins og henni er lýst í frummatsskýrslu. Í samantekt kæranda á kæru sinni, sem barst þann 21. júlí 2000 setur kærandi fram kæruatriði og röksemdir sínar í þremur liðum.

Kærandi telur afmörkun framkvæmdasvæðis í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins ganga gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hægt sé að hlífa þeim náttúruverðmætum sem til staðar eru á svæðinu án þess að afmarka framkvæmdasvæðið svo þröngt eins og gert er með skilyrði skipulagsstjóra ríkisins. Kærandi bendir á að í leiðbeiningum við mat á umhverfisáhrifum komi fram að mat á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé bæði félagslegt og efnahagslegt. Þannig séu hin efnahagslegu sjónarmið hluti af því sem meta beri og gefa þurfi gaum við matið sjálft. Kærandi bendir á að það sé sjónarmið sem skoða þurfi hvort ákvörðun skipulagsstjóra sé verulega íþyngjandi fjárhagslega fyrir framkvæmdaraðila og samfélagið í heild samanborið við þá umhverfisþætti sem stendur ógn af framkvæmdinni. Kærandi telur að ekki sé vikið að þessum sjónarmiðum í úrskurði skipulagsstjóra þótt ljóst sé að verulegir fjárhagslegir hagsmunir séu í húfi fyrir kæranda til að fá rýmra vinnslusvæði. Kærandi telur samkvæmt framangreindu að skilyrðið í úrskurði sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum kæranda kemur fram á síðu 2 að óraunhæft sé að ætla að kærandi geti nýtt meira en 1/10 hluta iðnaðarsvæðisins til þeirra framkvæmda sem tilgreindar eru í frummatsskýrslu þar sem helmingur svæðisins er ætlaður undir annað iðnað en jarðhitavinnslu. Í frummatsskýrslu sé tilgreint 9 ferkílómetra svæði, þar sem fyrirhuguð jarðhitanýting átti að fara fram. Með takmörkun svæðisins við núverandi iðnaðarsvæði, er gengið mun lengra en efni standa til. Það sé ljóst að markmiði um vernd náttúruminja verði náð með öðru og vægara móti en sú ákvörðun að takmarka svæðið við núverandi iðnaðarsvæði. Ákvörðunin sé sérlega íþyngjandi og geri allar hugmyndir um nýtingu jarðhita á Reykjanesi nánast að engu. Í frummatsskýrslu sé gert ráð fyrir að tilteknum svæðum á fyrirhuguðu athafnasvæði verði með öllu hlíft við framkvæmdum. Kærandi bendir á 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem áhersla er lögð á að þess sé gætt við íþyngjandi ákvörðun, eins og ákvörðun sem tekin hafi verið af hálfu skipulagsstjóra ríkisins, að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þá telur kærandi að ákvörðun skipulagsstjóra ríkisins um takmörkun athafnasvæðisins sé sérlega íþyngjandi í garð kæranda og varði hann miklu fjárhagslega. Hætt sé við að lítið verði úr frekari framkvæmdum verði athafnasvæðið hinnar fyrirhuguðu jarðhitanýtingar bundið við núverandi iðnaðarsvæði skv. aðalskipulagi Reykjanesbæjar. Þá telur kærandi að ákvörðun um framkvæmdir miðað við afmörkun við iðnaðarsvæði yrðu mun dýrari en ella. Jafnframt telur kærandi að hann þurfi þegar við upphaf framkvæmda að fá frekari svæði til borunar, samtals fjóra ferkílómetra.

2.

Kærandi telur að ekki séu færð fyrir því skýr rök í úrskurði skipulagsstóra ríkisins að framkvæmdasvæðið verði takmarkað við iðnaðarsvæði skv. aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015 og svæðisskipulagi Suðurnesja 1987-2007. Hvergi sé í lögum eða reglugerð tekið fram að taka skuli mið af staðfestu skipulagi þegar umhverfisáhrif eru metin eða að beint samband sé milli svæða sem skipulögð hafi verið undir iðnað og annarra svæða sem matskyldar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á. Takmörkun á framkvæmdasvæði við iðnaðarsvæði dragi hvorki úr né auki áhrif vinnslu á jarðhitakerfi og auk þess muni áhrif á virkni hvera ekki breytast við takmörkunina. Helstu náttúruminjar samkvæmt Náttúruminjaskrá raskast ekki við fyrirhugaðar framkvæmdir samkvæmt áliti eftirlitsfulltrúa Náttúruverndar ríkisins og eftir því sem fram kemur í frummatsskýrslu. Kærandi telur að hægt sé að samtvinna nýtingu jarðhitans og verndun jarðsögulegra minja bæði með þeirri verndun sem framkvæmdaraðili hafi lagt til og einnig að höfðu samráði við hagsmunaaðila um staðsetningar borhola hverju sinni. Þá bendir kærandi á að svæðið sé á Náttúruminjaskrá en það sé ekki friðlýst og ekki sé brotið gegn 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Með því að takmarka svæðið við iðnaðarsvæði verði e.t.v. minna rask á gróðri en ella. Sýnt hafi verð fram á að gróðri með mesta verndargildi verði ekki raskað né hafi annar gróður það mikil verndargildi að það beri að takmarka framkvæmdasvæðið við iðnaðarsvæði.

Kærandi bendir á að framkvæmdir vegna borana séu staðbundnar og tímabundnar og því sé ekki um varanlega röskun að ræða. Stærra framkvæmdasvæði mun líklega leiða til fleiri borplana, slóða og safnæða en staðsetning þeirra verður þannig að ekki verði raskað náttúruminjum með verndargildi, tekið verður tillit til kríuvarps, náttúruminjum verður ekki raskað og raski á gróðri verður haldið í lágmarki. Þótt stærra vinnslusvæði valdi meiri röskun hafi ekki verið sett fram rök fyrir því að umfang þess sé slíkt að nauðsyn beri til að takmarka framkvæmdasvæðið við iðnaðarsvæði. Telur kærandi að ekki sé því um að ræða röskun á umhverfisþáttum með hátt verndargildi.

Kærandi telur að til þess að unnt sé að nýta jarðhitasvæðið á Reykjanesi á sem hagkvæmastan hátt byggt á staðgóðri þekkingu og reynslu sé mikilvægt að borsvæðið sé sem stærst. Ekki sé hægt að vinna að hagkvæmri nýtingu svæðisins vegna þess skilyrðis sem sett er í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um afmörkun framkvæmdasvæðisins og áhættan verði of mikil. Þá telur kærandi að ekkert vinnist með stefnuborun en gera megi ráð fyrir að slíkar boranir séu 25%-35% dýrari en hefðbundnar beinar holur. Rekstur þeirra sé mun dýrari og áhættusamari en í beinni holu. Með því að einskorða jarðhitavinnslu við iðnaðarsvæðið útheimtir það nánast stefnuborun og samþjöppun borhola og safnæða, sem hefur í för með sér aukinn kostnað í borun og hreinsiborun, stóraukna áhættu á skemmdum borholum og safnæðum í jarðskjálftum og umbrotum og aukna viðskiptaáhættu. Kærandi telur því að óásættanlegt sé að takmarka jarðhitavinnsluna við iðnaðarsvæðið.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að vinnslusvæðið sé afmarkað í frummatsskýrslu við níu ferkílómetra svæði. Innan þess svæðis séu síðan afmörkuð þau svæði sem vænleg þykja til vinnslu og þau svæði sem ekki verður unnið á, með hliðsjón af náttúruminjum. Kærandi telur því að vinnslusvæðið sé nægilega afmarkað í frummatsskýrslu og að ekki hafi verið rökstudd hvers vegna afmörkun vinnslusvæðis sem fram kemur í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins hafi verið ákveðin. Kærandi bendir á að áður en framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar verður veitt fyrir framkvæmdinni skuli leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999.

Þá bendir kærandi á í athugasemdum sínum að þau svæði þar sem eigi að hrófla við, séu ekki friðlýst og gildi því ekki um svæðið ákvæði náttúruverndarlaga um friðlýstar náttúruminjar. Við mat á gildi svæðisins út frá náttúrverndarlegum sjónarmiði sé ekki hægt að hafa til hliðsjónar hugmyndir Náttúrverndar ríkisins um friðlýsingu svæðisins þar sem það svæðið sé ekki friðlýst. Ekki sé heldur hægt að réttlæta afmörkun svæðisins við hugleiðingar Náttúrverndar ríkisins að í náttúrverndaráætlun sem umhverfisráðherra muni leggja fyrir Alþingi, verði lagt til að svæðið verði friðlýst.

3.

Kærandi telur að ekki þurfi að ráðast í frekara mat á náttúrufari á fyrirhuguðu niðurdælingarsvæði og áhrifum framkvæmda á það og leggur til að í stað þess verði ákveðin skilyrði sett fyrir framkvæmdum á svæðinu og styður kærandi kröfu sína m.a. við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hitaveita Suðurnesja muni kanna frekar náttúrufar á fyrirhugðu niðurdælingarsvæði og staðsetja nauðsynleg mannvirki í samvinnu og samráði við hagsmunaaðila. Niðurstöður rannsókna verði lagðar fram í umsókn um framkvæmdaleyfi en þar komi að máli m.a. Náttúruvernd ríkisins og náttúruverndarnefndir.

Í kæru kemur fram að í kjölfar úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins hafi Verkfræðistofan Vatnaskil skilgreint þynningarsvæði miðað við 100MWe nýtingu. Niðurstöður reikninga Vatnaskila sýni að þynning sé mjög hröð enda séu straumar miklir undan strönd Reykjaness. Leyfilegt þynningarsvæði geti takmarkast við næsta nágrenni útrásar. Af þessum sökum séu áhrif affalls á nytjastofna sjávar því hverfandi ef nokkur. Kærandi bendir á að jarðhitavinnsla eigi sér stað í áföngum á löngum tíma og losun í sjó muni því eiga sér stað í þrepum. Áætluð losun jarðhitavökva niður í jarðhitageyminn dragi verulega úr losun í sjó. Forsendur séu því ekki til staðar til að ráðast í frekara mat á umhverfisáhrifum. Kærandi sé tilbúin til að skoða nánar lífríki strandarinnar en telur að slíkt eigi heima í skilyrðum og ekki þurfi að koma til frekara mats.

IV. Niðurstaða.

1.

Í kæru Hitaveitu Suðurnesja er úrskurður skipulagsstjóra ríkisins kærður í heild sinni og gerð er sú krafa að fallist verði á fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Reykjanesi eins og henni er lýst í frummatsskýrslu. Kærandi telur að afmörkun framkvæmdasvæðisins í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins gangi gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir: "...Í kæru kemur nú fram að rannsóknar-. eftirlits- og mæliholur þurfti að vera utan vinnslusvæðisins og í enn meiri fjarlægð frá því en niðurdælingarholur, er þurfi að vera í a.m.k. 3 km fjarlægð. Þetta undirstrikar það álit Náttúruverndar ríkisins að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði mun umfangsmeiri en lýst er í frummatsskýrslu ef niðurstöður borana verði eins og vonast er til og byggður verði upp iðnaður á svæðinu. Ekki sé hægt að leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þar sem upplýsingar vanti um staðsetningu, magn, tímaáætlanir ofl..." Þá vísar Skipulagsstofnun til bls. 3 í 4. kafla í hinum kærða úrskurði, þar sem fram komi að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar til þess að staðsetja borholur nákvæmlega og önnur mannvirki er nýtingu þeirra muni fylgja. Beðið sé eftir niðurstöðum mælinga og rekstrar holu 9 og 10 sem séu staðsettar á iðnaðarsvæðinu. Þar sem niðurstöður þessar liggi ekki fyrir sé ekki hægt byggja staðsetningu borhola og annara mannvirkja á þeim. Telur Skipulagsstofnun því að takmarka verði framkvæmdasvæðið til þess að stuðla að verndun náttúruminja.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins kemur eftirfarandi fram varðandi afmörkun framkvæmasvæðisins við iðnaðarsvæðið: "Að mati Náttúruverndar ríkisins gerði frummatsskýrslan ekki nægjanlega grein fyrir áhrifum framkvæmdanna á náttúru og landslag enda liggur ekki fyrir vitneskja um hvaða stefnu framkvæmdir munu taka. ... "Það er mat Náttúruverndar ríkisins að framkvæmdum þeim er sótt væri leyfi fyrir fylgir óafturkræf áhrif á landslag og náttúruspjöll. Stofnunin lagðist því gegn því að farið yrði með verklegar framkvæmdir vegna orkuvinnslu út fyrir það svæði er nú þegar hefur verið markað sem iðnaðarsvæði í svæðis- og aðalskipulagi..." Þá kemur jafnframt fram í umsögn stofnunarinnar að innan afmarkaðs framkvæmdasvæðis séu landslagsgerðir sem falli undir 37. gr. laga nr. 44/1999 og sé mikilvægt að þær landslagsgerðir séu verndaðar sem ein heild, svo sem heilar gígaraðir, gígar og það hraun sem frá þeim rann.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir varðandi afmörkun svæðisins við iðnaðarsvæði að stofnunin telji að fyrirliggjandi upplýsingar séu ekki nægilegar til þess að hægt sé að meta áhrif framkvæmdarinnar fyrir utan skilgreint iðnaðarsvæði.

Kærandi telur að fyrirhugað vinnslusvæði sé nægilega afmarkað í frummatsskýrslu en það sé samkvæmt frummatskýrslu níu ferkílómetra svæði. Innan þess svæðis séu síðan afmörkuð þau svæði sem vænleg þykja til vinnslu og þau svæði sem ekki verður unnið á, með hliðsjón af náttúruminjum.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin hafi ítrekað bent framkvæmdaraðila á nauðsyn þess að afmarka framkvæmdirnar frekar en fram kemur í frummatsskýrslu og vísar stofnunin til bréfa sinna til VSÓ ráðgjöf, þann 26. júní 1998. 22. október 1998, 17. mars 1999 og 22. febrúar 2000. Í síðastgreindu bréfi segir: "Skipulagsstofnun telur mjög æskilegt að framkvæmdasvæðinu verði skipt í minni vinnslureiti til orkuvinnslu innan þeirra svæða sem skv. korti 1 eru talin vænleg svæði til jarðhitaborunar. Innan hvers vinnslureits geta verið ýmsir möguleikar á staðsetningu borplana sem ákveðnir verða eftir því sem reynsla af borunum leiðir til í samráði við viðeigandi yfirvöld. Mikilvægt er þó að grein verði gerð fyrir líklegum staðsetningum borplana, hámarksfjölda þeirra, legu vega að þeim og lagna að skiljustöð..."

Í máli þessu liggur því fyrir að Skipulagsstofnun hafi óskað eftir því við framkvæmdaraðila að hann legði fram nánari afmörkun á svæðinu en fram kemur í frummatsskýrslu. Ráðuneytið tekur undir þau rök sem fram koma að hálfu Skipulagsstofnunar og Náttúruverndar ríkisins að upplýsingar skorti um áhrif framkvæmda á umhverfið. Þar sem ekki er hægt staðsetja borholur og önnur mannvirki sem þeim fylgja nákvæmlega er ekki hægt að meta áhrif framkvæmda á umhverfið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Kærandi bendir á fyrirhuguð vinnslusvæði utan iðnaðarsvæðisins án þess að gera grein fyrir hvar innan þeirra eigi að hefja framkvæmdir. Ráðuneytið tekur undir það sem fram kemur í bréfi Skipulagsstofnunar frá 22. febrúar 2000 að æskilegt sé framkvæmdasvæðinu verði skipt í minni vinnslureiti til orkuvinnslu innan þeirra svæða sem talin eru vænleg svæði til jarðhitaborunar. Ráðuneytið vísar jafnframt til þess sem fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar og Náttúruverndar ríkisins að takmarka verður vinnslusvæðið til að stuðla að vernd náttúruminja á svæðinu en svæðið er á náttúrminjaskrá og þar er að finna landslagsgerðir sem ótvírætt njóta verndar skv. a. lið 1. mgr. 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Með vísan til framangreinds fellst ráðuneytið ekki á þá kröfu kæranda að fallist verði á fyrirhugaða jarðhitanýtingu á því svæði sem lýst er í frummatsskýrslu.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir varðandi þá ákvörðun skipulagsstjóra ríkisins að afmarka svæðið við núverandi iðnaðarsvæði að það hefði þurft að afmarka svæðið og skilgreint iðnaðarsvæði hafi hentað vel til þess. Skipulagsstofnun fellst hins vegar á það sjónarmið kæranda að ekki þurfi að vera beint samband á milli svæða sem skipulögð hafa verið fyrir iðnað og annara svæða sem matskyldar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á.

Ráðuneytið telur ljóst samkvæmt framangreindu að sú niðurstaða skipulagsstjóra ríkisins að afmarka fyrirhugað framkvæmdasvæði við iðnaðarsvæði byggist á því að sú afmörkun var hentug, enda er svæðið þegar skilgreint sem iðnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015 og svæðisskipulagi Suðurnesja 16987-2007.

Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins eru ekki færð fyrir því rök að þessi afmörkun sé betri en önnur með tilliti til áhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfið. Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu ekkert því til fyrirstöðu að afmarka svæðið með öðrum hætti en gert var samkvæmt úrskurði skipulagsstjóra ríkisins.

Kærandi telur að sú ákvörðun að takmarka svæðið við núverandi iðnaðarsvæði sé verulega íþyngjandi fyrir hann og hætt sé við að ekki verði úr framkvæmdum ef vinnslusvæðið verður bundið við núverandi iðnaðarsvæði. Framkvæmdin yrði of kostnaðarsöm, nýting svæðisins yrði óhagkvæm og ekki væri hægt að nýta til jarðhitavinnslu nema óverulegan hluta iðnaðarsvæðisins. Kærandi telur að takmörkun svæðisins geri fyrirhugaða nýtingu jarðhita á Reykjanesi nánast að engu. Ráðuneytið lítur því svo á að í kæru kom fram að verulegar líkur séu til þess að brostnar forsendur séu fyrir þeirri framkvæmd sem kynnt var í frummatsskýrslu verði kæranda aðeins heimilt að nýta svæðið innan núverandi iðnaðarsvæðis. Þetta viðhorf kæranda kom jafnframt fram í vettvangsferð ráðuneytisins.

Þau rök sem kærandi heldur fram varðandi möguleika á skáborun og kostnað henni tengdri, lágu ekki fyrir er úrskurður skipulagsstjóra var kveðinn upp en í úrskurði á síðu 15 segir: "Skipulagsstjóri telur að sýnt hafi verið fram á að með skáborunum sé unnt að ná til jarðvarma á svæðum sem óæskilegt er að valda raski á yfirborði vegna náttúruverndar- vísindagildis og gildis fyrir útivist og ferðamennsku..." Í umsögn Skipulagsstofnunar segir: "Í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila eru efnahagsleg sjónarmið ekki metin og engar tölulegar upplýsingar eru þar settar fram, en það gerir að verkum að í úrskurði skipulagsstjóra eru ekki forsendur til að taka á þessum sjónarmiðum."

Framkvæmdaraðili hefur eðli máls samkvæmt frumkvæði að því að fram fari mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar sem hann hyggst ráðast í, sbr. 7. gr. laga nr. 63/1993 sbr. og 5. og 6. gr. tilskipunar 85/337/EBE. Af þessum ákvæðum verður sú ályktun dregin að framkvæmdaraðili hafi visst forræði í málinu. Kærandi heldur því fram að líklega verði ekki af framkvæmdum ef úrskurður skipulagsstjóra stendur hvað varðar leyfilegt framkvæmdasvæði, sbr. liður 6.1 í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins. Með hliðsjón af því að kærandi hafi visst forræði á málinu telur ráðuneytið að ekki beri að staðfesta úrskurð skipulagsstjóra ríkisins að óbreyttu enda hefði það í för með sér að líkur séu til þess að frekari áform um framkvæmdina verði að engu.

Kærandi telur að efnahagslegar forsendur fyrir framkvæmdinni miðað við að vinnsla verði bundin við iðnaðarsvæðið sé ekki fyrir hendi. Skipulagsstofnun hefur bent á að þegar úrskurður skipulagsstjóra var kveðinn upp hafi efnahagsleg sjónarmið ekki verið metin og engar tölulegar upplýsingar hafi legið fyrir. Það liggur því fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram upplýsingar um kostnað og hagkvæmni framkvæmdarinnar. Þar sem kærandi hefur bent á að afmörkun við núverandi iðnaðarsvæði sé verulega íþyngjandi fyrir hann og geri áform hans um framkvæmdina nánast að engu er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi skuli í frekara mati framkvæmdarinnar leggja fram nánari afmörkun á framkvæmdarsvæðinu fyrir utan iðnaðarsvæðið en þá sem fram kemur í frummatsskýrslu.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann telji heimilt að leyfa fyrirhugaða framkvæmd, eftir atvikum með skilyrðum um framkvæmdasvæðið, án þess að til frekara mats komi. Það er álit ráðuneytisins að ekki sé hægt að kveða á um framangreinda afmörkun með skilyrði um framkvæmdasvæðið, sbr. 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 179/1994 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að skilyrða framkvæmd þegar upplýsingar í tilkynningu um framkvæmd og fylgigögnum teljast fullnægjandi og ljóst sé að framkvæmd hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif, óæskileg umhverfisáhrif megi fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum eða þau séu ásættanleg vegna þess ávinnings sem af framkvæmd hlýst. Eins og framan er greint telur ráðuneytið að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar um framkvæmdina þannig að heimilt sé að fallast á kröfu kæranda með skilyrði. Það er því niðurstaða ráðuneytisins að framkvæmdaraðili beri að leggja fram nánari afmörkun á framkvæmdasvæðinu utan núverandi iðnaðarsvæðis í frekara mati.

Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu er ekki þörf á að taka afstöðu til annara athugasemda kæranda varðandi þá ákvörðun skipulagsstjóra ríkisins að afmarka framkvæmdasvæði við núverandi iðnaðarsvæði.

2.

Kærandi telur að ekki þurfi að ráðast í frekara mat á náttúrufari á fyrirhuguðu niðurdælingarsvæði og áhrifum framkvæmda á það. Nægilegt sé að sett verð fram í úrskurði ákveðin skilyrði fyrir framkvæmdinni. Þá segir kærandi að ráðist muni verða í frekari rannsóknir á svæðinu og munu þær niðurstöður verða lagðar fram í umsókn um framkvæmdaleyfi.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins kemur fram að eðlilegast sé að frekari gögn um náttúrufar svæðisins verði lögð fram í frekara mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Þannig sé tryggt að öll gögn sem varða áhrif förgunar á affallsvatni verði lögð fram með þeim hætti að hægt verði að meta heildaráhrifin og að bæði umsagnaraðilum og almenningi gefist kostur á að skoða þau gögn og koma að athugasemdum.

Ráðuneytið tekur undir þá niðurstöðu skipulagsstjóra og það sem fram kemur hjá Náttúruvernd ríkisins að upplýsingar beri að leggja fram um náttúrufar á fyrirhuguðu niðurdælingarsvæði og áhrif framkvæmda á það í frekara mati enda hefur kærandi fallist á að gera frekari rannsóknir á svæðinu. Kærandi hefur auk þess ekki fært fram rök fyrir því að ekki sé þörf á framangreindum upplýsingum til að unnt sé leggja mat á áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið. Með vísan til framanritaðs er ekki fallist á kröfu kæranda um að ekki skuli fara fram frekara mat á náttúrufari á fyrirhuguðu niðurdælingarsvæði, sbr. liður 6.2.4 í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins.

3.

Í kæru er vísað til skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila um útreikninga á þynningu affallsvatns í sjó frá fyrirhugaðri jarðhitavirkjun á Reykjanesi, en hún var lögð fram eftir að úrskurður skipulagsstjóra ríkisins lá fyrir. Í kæru kemur fram að Hitaveita Suðurnesja sé tilbúin til að skoða nánar lífríki strandarinnar en telur að slíkt megi setja í skilyrði úrskurðar og ekki þurfi að koma til frekara mats.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að skýrsla Verkfræðistofunnar Vatnaskila hafi ekki legið fyrir þegar skipulagsstjóri kvað upp úrskurð sinn og stofnunin viti ekki til þess að skýrslan hafi verið kynnt Hafrannsóknarstofnun og Hollustuvernd ríkisins. Skipulagsstofnunin telur að þeir útreikningar sem fram koma í skýrslunni, án þess að álit framangreindra stofnana liggi fyrir breyti ekki þeim skilyrðum sem sett voru í úrskurði varðandi förgun affallsvatns.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins varðandi framlagningu skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila segir: "Framkvæmdaraðili leggur fram viðbótargögn í kæruferli sem ekki lágu fyrir í frummati og hafa því ekki hlotið lögbundna umfjöllun. Framkvæmdaraðili telur að þessi nýja skýrsla Vatnaskila svari þeirri spurningu hvort meta þurfi áhrif losunar affallsvatns í sjó á lífríki og umhverfi almennt. Hollustuvernd ríkisins er þeirrar skoðunar að það orki verulega tvímælis að lögð eru fram viðabótargögn eftir að formlegu matsferli lýkur. Þegar það er gert er nánast útilokað fyrir þá sem áhuga hafa á að nýta andmælarétt sinn."

Ráðuneytið tekur undir það sem fram kemur hjá framangreindum umsagnaraðilum. Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins byggist m.a. á þeim gögnum og upplýsingum sem framkvæmdaraðili leggur fram. Sú skýrsla sem hér er til umfjöllunar var ekki hluti af framlögðum gögnum og hafði því stofnunin ekki tækifæri til að leggja faglegt mat á hana þegar hún kvað upp úrskurð sinn, svo sem með því að fá óháða aðila eins og Hafrannsóknarstofnun og Hollustuvernd ríkisins til að veita umsögn um skýrsluna. Það er álit ráðuneytisins að það hafi ekki heimild til að taka afstöðu til skýrslunnar fyrr en hún fengið lögbundna umfjöllun Skipulagsstofnunar á grundvelli laga nr. 63/1993. Ráðuneytið telur auk framangreinds að kærandi hafi ekki sýnt fram að ekki þurfi að koma til frekara mats vegna áhrifa á affallsvatns í sjó. Með vísan til framangreinds er ekki fallist á kröfu kæranda hvað þennan þátt kærunnar varðar.

Úrskurðarorð:

Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 17. maí 2000 um mat á umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar á Reykjanesi er staðfestur með eftirfarandi breytingu á 1. mgr. í lið 6.2. Einnig bætist við nýr töluliður, 5. töluliður í grein 6.2. Töluliðir 1.-4. skulu standa óbreyttir.

6.2 Skal ráðast í frekara mat á jarðhitanýtingu á Reykjanesi, umfram það sem sem fram kemur í lið 6.1 hér að framan. Leiðir til förgunar affallsvatns með niðurdælingu eða í sjó eru ekki takmarkaðar við núverandi iðnaðarsvæði. Í frekari mati komi fram:

6.2.5. Tillaga að nánari afmörkun framkvæmdasvæðis utan núverandi iðnaðarsvæðis en fram kemur í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta