Mál 199900401
Ráðuneytinu hefur borist fjögur kærubréf vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum vegna Djúpvegar, nr. 61 um austanverðan Ísafjörð. Um er að ræða kærur Ástþórs Ágústssonar, Guðjóns Jónssonar, Hákonar Arnar Halldórssonar og Jóns Guðjónssonar.
I. Hinn kærði úrskurður.
Með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 3. desember 1999 vegna mats á umhverfisáhrifum á lagningu Djúpvegar nr. 61 um austanverðan Ísafjörð, samkvæmt lögum nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum var fallist á endurbygginu ofangreinds vegar samkvæmt leið 4 sem er lagning 14,3 km langs vegar frá Landamerkjalæk og fyrir botn Ísafjarðar ásamt nýjum tvíbreiðum brúm á Múlaá og Ísafjarðará og stálhólkum í stað hefðbundinna brúa í Álftagrófará og Gervidalsá með eftirfarandi skilyrðum:
1. Samráð verði haft við Þjóðminjasafn Íslands vegna fornminja.
2. Samráð verði haft við Náttúruvernd ríkisins um afmörkun efnistökusvæða og frágang
þeirra.
II. Kröfur og málsástæður kærenda.
1.
Jón Guðjónsson gerir þá kröfu að fyrirhugaðri veglínu innan Skyrgils verði breytt og næstu 1300 metrar þar innar verði færðir ofar, því sem næst núverandi vegi. Í athugsemdum kæranda til ráðuneytisins gerir kærandi tillögu um að vegurinn fari yfir Skyrgil um 10 metrum ofar en útsett lína á móts við hæl nr. 10.400 og þaðan skáhallt upp á við og yfir Laufskálagil um 34 metrum ofar en útsett veglína og um 34 metrum neðan núverandi vegstæðis. Þaðan liggi vegurinn um efnistökustað E1 á móts við hæl 11.200 en fylgi eftir þaðan núverandi vegi, þó hugsanlega vegbreidd neðar og framar á klettahjallanum. Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð Skipulagsstofnunar, þar sem aðilum málsins hafi ekki verið veitt jafnræði. Þannig hafi landeiganda ekki verið gefinn kostur á að skýra sjónarmið sín á vettvangi, líkt og framkvæmdaraðila, þrátt fyrir tilmæli um slíkt. Einnig hafi verið litið framhjá greinargerð Bændasamtaka Íslands unnin af Jónasi Jónssyni.
Greinargerð barst frá lögmanni kæranda, Guðjóni Ólafi Jónssyni hdl., eftir að kærufrestur var liðinn þar sem settar voru fram kröfur og frekari rökstuðningur fyrir kærunni. Gerð er sú krafa aðallega að ráðist skuli í frekara mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum. Til vara er þess krafist að verði fallist á fyrirhugaða framkvæmd verði hún bundin eftirtöldum viðbótarskilyrðum:
1. Að áður en til framkvæmda komi hafi farið fram heildarúttekt á áhrifum framkvæmdarinnar á búskap á Laugabóli.
2. Að sett verði í samráði við landeiganda fjárgöng undir veginn í landi Laugabóls.
3. Að haft verði samráð við landeigendur um afmörkun og frágang efnistökusvæða og við veiðiréttarhafa og veiðimálastjóra um efnistöku úr árfarvegum.
Kærandi telur að ekki sé hægt að fallast á fyrirhugað vegstæði á 1.200 metra kafla innan Skyrgils þar sem á þessum kafla liggi fyrirhugaður vegur umtalsvert neðar og nær sjó en núverandi vegur og verði nýtanlegt land neðan vegar því mun minna en nú sé. Telur kærandi að nýtt vegstæði hafi veruleg áhrif á búrekstur á jörð hans auk þess sem áhrif á umhverfið yrðu neikvæð. Kærandi telur að ekki hafi verið metin með fullnægjandi hætti áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á búskap á jörð kæranda að Laugabóli. Fari valið vegstæði framkvæmdaraðila um beitarland sem er uppgróið og auðveldar og rýmkar beitarafnot af fjörunni neðan við Bása. Kærandi vísar til gróðurfarsskýrslu Arnlínar Óladóttur, vistfræðings, og greinargerðar Bændasamtaka Íslands unnin af Jónasi Jónssyni um vegagerð í landi Laugabóls, dags. 28. júní1998 máli sínu til stuðnings.
Þá telur kærandi að sjónmengun af nýju vegstæði sé mun meiri en ef vegurinn yrði látinn fylgja núverandi vegi eins og hægt væri. Séu meiri lýti af fyrirhugaðri framkvæmd því nær ströndinni sem veginum er ætlað að liggja. Kærandi vísar til 35. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, þar sem m.a. sé mælt fyrir um að við hönnun vega skuli þess gætt að þeir falli sem best að svipmóti lands.
Kærandi telur að ekki hafi verð gerð nægjanleg grein fyrir áhrifum nýs vegstæðis á vatnabúskap neðan þess og þar með lífríki fjörunnar en ástæða sé til þess þar sem í fjörunni sé mikið fuglalíf og því ástæða til að fara varlega með röskun lands.
Það er álit kæranda að fyrirhuguð framkvæmd hafi í för með sér óþarfa röskun á ósnortnu landi, sem hægt væri að komast hjá með því að leggja veginn að mestu um núverandi vegstæði. Telur kærandi það órökstutt að fyrirhugað vegstæði hafi í för með sér minni spjöll en það vegstæði sem kærandi bendir á. Fullyrðingar framkvæmdaraðila um minni snjóalög séu ennfremur órökstuddar svo og fullyrðingar um ósléttara land ofar í landi Laugabóls.
Kærandi telur að með lagningu vegar með bundnu slitlagi muni umferð að öllum líkindum bæði verða meiri en nú er og auk þess hraðari. Ekki hafi verð gerð grein fyrir hugsanlegri aukinni slysahættu, bæði fyrir menn og dýr, sem fylgt gætu hraðari umferð. Kærandi heldur því fram að fullyrðingar framkvæmdaraðila um aukna vegsýn séu órökstuddar.
Kærandi færir fram þau rök fyrir varakröfu sinni að nauðsyn sé að fyrir liggi áhrif framkvæmdarinnar á búskap á jörð hans. Þá telur kærandi eðlilegt að sett verði göng fyrir féð undir fyrirhugaðan veg til að draga úr hættu á slysum á fólki og fénaði. Þá kemur fram af hálfu kæranda að framkvæmdina verði að skilyrða þannig að samráð verði við landeigendur, veiðiréttarhafa og veiðimálastjóra eins og gert sé ráð fyrir í niðurstöðu í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins.
2.
Guðjón Jónsson vísar til kafla 5 í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins þar sem segir um færslu vegar beggja vegna Laufskálagils: "...og hefði færsla vegarins í för með sér meira jarðrask og eykur líkur á vandamálum vegna snjóa." og síðan í kafla 4.2.1 þar sem segir: "Í svörum Vegagerðarinnar kemur fram að gróðurfar bendi til þess að fyrirhugað svæði sé snjóléttara sem sé einnig álit snjómokstursmanna Vegagerðarinnar." Um álit snjómokstursmanna Vegagerðarinnar telur kærandi að gera verði þá kröfu að við ákvarðanir sem hér um ræðir séu lögð fram gögn málinu til stuðnings. Í ljósi þess að ekki sé stuðst við neinar mælingar á snjóalögum málinu til stuðnings, hefði verið nauðsynlegra en ella að leita álits ábúenda á Laugabóli og í Múla.
Kærandi vísar til kafla 5 í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins þar sem fjallað er um vegstæði í nágrenni Laufskálagils. "Auk þess er land ósléttara ..." Kærandi telur að svo sé ekki, þar sem núverandi vegur liggi eftir hjalla í landslaginu og sé það tiltölulega slétt vegstæði, enda hjallinn nokkuð láréttur og skurðir eða lautir í veglínu engir eða óverulegir. Síðan vísar kærandi í sama kafla varðandi jarðrask þar sem segir "...og hefði færsla vegarins í för með sér meira jarðrask og ..." Kærandi telur að erfitt sé út frá fyrirliggjandi gögnum að leggja mat á jarðrask samfara byggingu nýs vegar í nýju vegarstæði neðan núverandi vegar. Hins vegar hafi færsla vegarins frá núverandi vegstæði í för með sér meira jarðrask en ef vegurinn yrði lagður í núverandi vegarstæði.
Kærandi telur að fram þurfi að fara úttekt á breytingum sem kunni að verða á búrekstrargildi Laugabóls vegna fyrirhugaðrar vegalagningar. Að lokum heldur kærandi því fram að ekki hafi verið gætt jafnræðis hvað varðar upplýsingaöflun frá landeigenda annars vegar og Vegagerðinni hins vegar.
Í athugasemdum kæranda vegna framkominna umsagna við kærurnar gerir kærandi sömu tillögu að lagningu vegar innan Skyrgils eins og lýst var í kafla II.1. hér að framan vegna kæru Jóns Guðjónssonar.
3.
Ástþór Ágústsson telur að leið 4 sem fallist var á í hinum kærða úrskurði vera óheppilega. Gerir hann þá kröfu að brúin yfir Múlaá verði valin samkvæmt leið 5. Kærandi telur að með leið 4 myndi grjótvörn koma beggja vegna brúarinnar yfir Múlaá til rofvarnar en dæmin sýni að slíkar grjótvarnir verði alltaf griðastaður fyrir mink og myndi fuglalíf á staðnum líða fyrir nábýli við minkinn. Ef leið 5 yrði valin væri rofvörn óþörf.
Vegalagning samkvæmt leið 4 myndi spilla gróðurlendi óþarflega, bæði klyfi sú veglagning heillegustu gróðursvæðin og hluti þeirra myndi lenda ofan við veginn sem væri óheppilegt þar sem gera verði ráð fyrir að vegurinn verði í 2-2.5 metra hæð yfir landi. Myndi vegalagning þannig loka lænum sem Múlaá hafi nýtt sér í vatnavöxtum. Þá telur kærandi leið 5 mun heppilegri fyrir samspil landslags og vegar, hún hafi minni sjónmengun í för með sér en betri nýtingu nytjalands í Múla.
Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við staðsetningu hins fyrirhugaðar vegar milli mælistöðva 10400 og 11360 um Laufskálagil. Telur kærandi að þar verði grónu landi spillt, nytjahagar næst býlinu Laugabóli yrðu rýrðir til muna, land meðfram sjó sem nýtist búpeningi verði minna og slysahætta vegfarenda og búpenings ykist þar sem rými minnkar fyrir búpening til að komast undan umferðinni.
Í athugasemdum kæranda bendir kærandi á að þótt Vegagerðin hafi mælt gegn því að leið 5 yrði valin vegna vegtæknilegra atriða, þar sem beygjuradíus yrði 500 metrar á leið 4, í stað 400 á leið 5, þá sé hægt að leiðrétta slíkt með öðrum veghalla á beygjuvegalengdinni. Þannig þurfi 400 metra beygjuradíus ekki að hafa í för með sér minna vegöryggi eða minni umferðarhraða en 500 metra radíus. Kærandi bendir jafnframt á að það sé vandkvæðum bundið að græða upp hjalla milli mælistöðva 10400 og 11360 þar sem núverandi vegur liggur þar sem um er að ræða svæði sem er allt vaxið birki og muni því sáning grass ekki falla vel að umhverfinu. Telur kærandi best að vegurinn um svæðið liggi sem mest á sama svæði og núverandi vegur.
4.
Hákon Örn Halldórsson gerir þá kröfu að fyrirhugaður vegur verði lagður um svokallaða "fremstu línu" í botni Ísafjarðar sem lýst sé í frummatsskýrslu. Kærandi telur lagningu vegar um "fremstu línu" muni raska náttúrufari minnst þegar bornir eru saman mismunandi þættir, eins og rask við Ísafjarðará. Brúarstæði á þessum stað hafi enga færslu árinnar í för með sér og ósasvæði hennar þar fyrir neðan standi óhaggað. Gróðureyðing yrði minnst ef þessi leið yrði farin þar sem vegurinn færi yfir gróið land á jaðri gróðursvæðisins.
Kærandi er ekki sammála framkvæmdaraðila um að styttri vegur sé dýrari sem nemur 10 milljónum króna. Þá telur kærandi að öryggi vegarins muni aukast við að fara fremstu línu. Kærandi heldur því fram að eingöngu sé þörf á lágmarks rofvörn á þeim hluta vegarins sem liggur um Ísafjarðarleirurnar að vestanverðu og telur kærandi að fullyrðingar framkvæmdaraðila séu ekki réttar, um að við verstu aðstæður, sem er á flóði og í hvössum vindi inn fjörðinn þurfi rofvörn.
Í athugasemdum kæranda til ráðuneytisins segir að framkvæmdaraðili hafi ekki mælt gegn því að fara fjær Fjarðarhornsgjánni eins og krafa kæranda geri ráð fyrir, enda sé vandséð hvernig hægt sé að ganga gegn þeim öryggissjónarmiðum að færa veg fjær hugsanlegum snjóflóðasvæðum, eins og við Fjarðarhornsgjá.
III. Umsagnir og athugasemdir.
Með vísun til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 63/1993 voru framkomnar kærur sendar til umsagnar Vegagerðarinnar, Skipulagsstofnunar, Hólmavíkurhrepps og Súðavíkurhrepps með bréfum 11. janúar 2000. Með bréfi 15. febrúar sendi ráðuneytið framangreindum umsagnaraðilum greinargerð Guðjóns Ólafar Jónssonar fyrir hönd Jóns Guðjónsonar, dags. 31. janúar 2000 sem barst ráðuneytinu eftir að lögbundinn kærufrestur var liðinn og var umsagnaraðilum boðið að veita umsögn um þá greinargerð.
Umsagnir Vegagerðarinnar barst með bréfum 27. janúar 2000 og 22. febrúar 2000. Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi 6. febrúar 2000. Umsögn Hólmavíkurhrepps barst með bréfi 2. febrúar 2000 og umsögn Súðavíkurhrepps með bréfi 11. febrúar 2000.
Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæru Jóns Guðjónssonar er vísað til niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins á bls. 9 í úrskurði hans þar sem segir:
"Skipulagsstjóri telur ljóst að útilokað er að fara eftir núverandi vegi á um 500 m kafla beggja vegna Laufskálagils vegna hæðarlegu og stuttra sjónlengda og telur tillögu Vegagerðarinnar besta hvað þetta varðar. Auk þess er land ósléttara ofar og hefði færsla vegarins í för með sér meira jarðrask og eykur líkur á vandamálum vegna snjóa."
Síðan segir í umsögn Skipulagsstofnunar:
"Starfsmaður Skipulagsstofnunar fór í vettvangsferð þann 3. september 1998 með fulltrúum Vegagerðarinnar, Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Þjóðminjasafns. Í þeirri ferð var ekki rætt við neina landeigendur, enda lá þá ekki fyrir að ágreiningur væri við þá um fyrirhugaðar framkvæmdir.
Kærandi gerir athugasemdir við að litið hafi verið framhjá greinargerð Jónasar Jónssonar, sem fylgdi í ljósriti með athugasemd kæranda, dags. 2. nóvember 1999. Greinargerðin var höfð til hliðsjónar við úrskurð skipulagsstjóra ríkisins en ekki var talin ástæða til að vísa beint í hana."
Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæru Guðjóns Jónssonar segir m.a.:
"Í kærunni kemur fram að kærandi telur að ekki beri að færa veginn frá núverandi vegstæði við Laufskálagil. Sambærileg athugasemd barst frá kæranda með bréfi, dags. 11. nóvember 1999. Svör framkvæmdaraðila við athugasemdinni koma fram á bls. 7-8 í úrskurðinum..." Skipulagsstjóri ríkisins vísar síðan til bls. 9 í úrskurðinum þar sem fjallað er um staðsetningu vegar við Laufskálagil og rakin var hér að framan.
Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæru Ástþórs Ástþórssonar segir m.a.:
"Kærandi telur leið 4, sem fallist var á í hinum kærða úrskurði, óheppilega. Telur hann brýnt út frá hagsmunum svæðisins að brúin á Múlaá verði staðsett skv. leið 5. Þá mótmælir kærandi einnig staðsetningu vegarins milli mælistöðva 10400 og 11360 um Laufskálagil.
Eins og fram kemur á blaðsíðu 6 í hinum kærða úrskurði skiptir það miklu fyrir umferð að beygjan yfir Múlaáreyrar verði með 500 m radíus í stað 400 m ef farin væri leið 5. Þá skipti, að mati Vegagerðarinnar, tilfærsla vegarins um 40 m ofar vart máli fyrir gróðurlendi, landslag og flóð í ánni en rými sé augljóslega meira fyrir flóðvatn eftir því sem vegurinn sé neðar. Í niðurstöðu skipulagsstjóra á bls. 9 segir:
"Að mati skipulagsstjóra telst ásættanlegt að leggja veginn eftir leið 4 og er fallist á vegtæknileg rök Vegagerðarinnar gegn því að fara ofar auk þess sem það kallaði á meiri breytingu á farvegi Múlaár og rask vegna varnargarðs. Efnistaka á eyrum Múlaár verði ofan núverandi vegar og vegna nauðsynlegrar mótunar farvegar að nýrri brú.""
Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæru Hákonar Arnar Halldórssonar segir m.a.:
"Kærandi krefst þess að vegurinn verði lagður um svokallaða "fremstu línu" sbr. umfjöllun framkvæmdaraðila í frummatsskýrslu. Í niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins á bls. 9-10 í hinum kærða úrskurði segir:
"Í botni Ísafjarðar víkur veglína nokkuð frá núverandi vegi og fer ofarlega yfir leirur við ósa Ísafjarðarár. Vegurinn verður uppbyggður og áberandi en að mati skipulagsstjóra ríkisins telst hann ásættanlegur. Lagning vegarins eftir efstu leið er einnig ásættanleg. Vegur fremst á leirunum hefur mun meiri áhrif á vistkerfi leiranna en framlögð tillaga og efsta leið. Þó þar skapist meira rými fyrir hugsanleg snjóflóð úr Fjarðarhornsgjá mælir Vegagerðin gegn þeirri leið""
Í umsögn Vegagerðarinnar er vísað til greinagerða Vegagerðarinnar frá 14. júlí 1999 og 16. ágúst 1999 sem bárust ráðuneytinu vegna meðferðar ráðuneytisins við fyrri úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá 25. maí 1999 um mat á umhverfisáhrifum vegna Djúpvegar, nr. 61 um austanverðan Ísafjörð. Kærendur í því máli eru þeir sömu og nú hafa kært úrskurð skipulagsstjóra ríkisins sem hér er til meðferðar. Í umsögn Vegagerðarinnar frá 14. júlí 1999 segir um kæru Jóns Guðjónssonar:
"Vegagerðin sér ekki aðra röskun á búrekstargildi en þá, að nokkurt land fer undir veg umfram það sem er undir núverandi vegi, en skipti ekki sköpum á nokkurn hátt. Ekið verður hraðar um nýja veginn en ekki er víst að búfé sé hættara fyrir það, vegna betri vegsýnar ökumanna." Þá segir í sömu umsögn: "Á þessu svæði um og innan við Laufskálagilið liggur veglínan eftir afgerandi stalli í landinu og er bæði láréttur og lóðréttur ferill veglínunnar mjög góður, vegurinn hækkar jafnt inn eftir frá ca 15 m h.y.s. í ca 22 m hæð við 10500, þetta þýðir m.a. mjög góða vegsýn. Vegsýn til framúraksturs á þessum kafla vegarins (10500 til 12000) er mjög mikilvæg þar sem hún verður ekki fyrir hendi fyrir neðan Laugaból og um Múlaáreyrar (12500-14500), þar eru hindranir til hliðar við veginn sem munu skyggja á."
Vegagerðin vísar síðan til skýrslu Arnlínar Óladóttur um gróðurfar sem fylgdi frummatsskýrslunni. Þar segir:
"Stöðvar 10400-10460 opið holt á þéttu klapparundirlagi. Hefur orðið til af mannavöldum líklega við lagningu núverandi vegar. Bleytupollar og leifar af fleiri slíkum. Gróðurþekja <5%, rofkantar.
Stöðvar (10460-11000) Þursaskeggsmói með lyngþúfum, mosaþemba á þurrustu blettunum en grasbollar á rakari stöðum. Stöku birkirunnar. Gróðurþekja 60-90% þó niður í 40% við 11500 til 11800. Rofdílar bera merki norðanblástursins og eru mestir fremst á hjallanum þar sem snjórinn hlífir ekki. Hlutfall birkis eykst eftir því sem ofar dregur og ofan núverandi vegar er birki víðast ríkjandi á hjallabrúnum og aðalbláberjalyng undir hjöllunum."
Vegagerðin segir um framangreinda skýrslu:
"Samkvæmt þessari lýsingu Arnlínar eru ekki ástæða gróðurfarsins vegna að færa veginn ofar. Það er þó ein aðalröksemd landeiganda. Einnig má sjá af lýsingunni að líklegt er að mun snjóléttara sé þarna á bökkunum en ofar, aðalbláberjalyng er gjarnan í snjólautum. Þetta kemur heim og saman við að snjómokstursmenn Vegagerðarinnar segja að skaflar séu oft á núverandi vegi í nágrenni Laufskálagils. Ekki er heldur að sjá að þetta sé mjög mikilsvert beitarland og vegur (miðlína) í ca 70 til 100 m fjarlægð frá fjöru getur ekki hindrað fjörubeit.
Vegur á slóðum núverandi vegar yrði óviðunandi sérstaklega yrði hæðarlegan vond þar sem hann þyrfti að hækka úr 15 m h.y.s. upp í 25 m h. mjög fljótt sem leiðir til slæmrar vegsýnar. Á þessu svæði er snjóþyngra og ósléttara land sem þýðir í raun meira rask þótt gamli vegurinn sé á því svæði. Gamla ræsið yfir Laufskálagilið sem má teljast til fornminja myndi líklega hverfa ..."
Í umsögn Vegagerðarinnar frá 25. janúar 2000 segir um kæru Guðjóns Jónssonar:
"Um þekkingu á snjólögum skal þetta sagt: Snjór á vegum brennur mjög á snjómokstursmönnum og þekkja þeir málið því mjög vel. Undirritaður hefur sem umdæmisverkfræðingur haft yfirumsjón með snjómokstri á þessu svæði í 10 ár og hefur margoft rætt við ýmsa snjómokstursmenn og verkstjóra um snjóavandamál á ýmsum stöðum á leiðinni og hefur sjálfur skoðað snjóalög við ýmsa verstu staðina á ferðum sínum og veit því að snjóastaður er á núverandi vegi við Laufskálagil."
Í umsögnum Vegagerðarinnar frá 25. janúar 2000 um kæru Ástþórs Ágústssonar segir:
"Kæran fjallar um staðsetningu vegar um Múlaá. Margoft hefur komið fram að Vegagerðin getur ekki séð að frá náttúrufarssjónarmiði skipti 40 til 50 m færsla neinu máli á flötum eyrum ... Munurinn er sá að í línu 4 næst beygja með 500 m radíus en 400 m radíus í línu 5, það skiptir verulegu máli fyrir umferðina. Brúarstæðið sjálft fellur einnig skár að ánni." Síðan segir í umsögn Vegagerðarinnar frá 14. júlí 1999: "Það þarf enga grjótvörn vegna sjávarágangs við brúna í hinni endanlegu línu. Oftast þarf hins vegar grjótvörn við brýr á flötu landi eins og í þessu tilviki. Þess hefði örugglega þurft við brúna í hugsaðri línu "200 m ofar", sennilega meiri, þar sem áin er þar meira á ská á veglínuna. Til fróðleiks má geta þess að líka þyrfti grjótvörn við núverandi brú, skarð kom í veginn við brúna fyrir nokkrum árum vegna þess að grjót skorti.
Vegurinn liggur á mörkum gróðursvæða 8 og 9 sem hlykkjast yfir eyrarnar og 40 m til eða frá skipta vart máli í því sambandi. ... Því er haldið fram að þessi færsla geri veginn meira áberandi í landslaginu það er alveg órökstutt og mjög ótrúlegt. Það er löng reynsla fyrir því að vegfarendum þyki beygjur sem ekki er augljós ástæða fyrir ljótar og ankannalegar. Hætt er við að mörgum gangi erfiðlega að skilja þennan krók upp á eyrarnar við Múlaá, færsla niður á við þótt lítil sé, er öll til bóta."
Að lokum segir um kæru Hákonar Arnar Halldórssonar í umsögn Vegagerðarinnar frá 14. júlí 1999:
"Aðalhugmyndin um veglínuna í Ísafjarðarbotni er að fara stystu leið án þess að spilla leirum og ósasvæðum nema sem allra minnst. Náttúruverndaraðilar telja mikilvægt að verja ósa og leirusvæði og kostnaður hefði aukist umtalsvert við að fara utar, en stytting vegarins tiltölulega lítil og beygjan þyrfti að vera álíka kröpp." og síðar segir í sömu umsögn: "Kynning á hugmyndum um veglínu fór fram við landeiganda ... Tekið var tillit til óska um færslu brúar á Ísafjarðará nær núverandi farvegi. Það var þó ekki hægt að verða við óskum landeiganda um færslu vegarins sökum kostnaðar og álits Náttúruverndar ríkisins. Eins og fram hefur komið er kostnaðurinn við fremstu línu talinn um 10 m. kr. meiri en framlagða línu."
Með bréfi 8. febrúar 2000 voru þær umsagnir sem borist höfðu ráðuneytinu sendar til kærenda og þeim boðið að gera athugasemdir við þær. Athugasemdir Jóns Guðjónssonar og Guðjóns Jónssonar bárust ráðuneytinu með bréfi 14. febrúar 2000. Athugasemdir Ástþórs Ágústssonar bárust ráðuneytinu með bréfi 13. febrúar 2000 og athugasemdir Hákonar Arnar Halldórssonar bárust með bréfi 13. febrúar 2000.
Þann 1. mars 2000 fóru starfsmenn ráðuneytisins á vettvang til að skoða aðstæður að beiðni Jóns Guðjónssonar. Fulltrúum Vegagerðarinnar var þá jafnframt boðið að koma á vettvang og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum og mættu þeir Kristján Kristjánsson verkfræðingur og Gísli Eiríksson umdæmisverkfræðingur á svæðið.
IV. Niðurstaða.
1.
Jón Guðjónsson gerir þá kröfu að fyrirhuguð veglína á um 1.300 metra vegkafla innan Skyrgils verði breytt, milli mælistöðva 10.400 og 11.600 þannig að veglínan á þeim vegkafla færist ofar en ráð er fyrir gert á fyrirhugðum vegi. Um nánari lýsingu á tillögu kæranda um færslu veglínu er vísað til kafla II. 1. hér að framan. Að beiðni kæranda fóru fulltrúar ráðuneytisins á vettvang og gerði kærandi þar nánari grein fyrir útfærslu sinni á framangreindri veglínu. Fulltrúar framkvæmdaaðila gerðu þar jafnframt grein fyrir sjónarmiðum sínum.
Meginrök kæranda fyrir kröfu sinni eru þau að nýtt vegstæði hafi veruleg áhrif á búrekstur á jörð hans að Laugabóli auk þess sem áhrif á umhverfið vegna vegalagningarinnar verða neikvæð. Fyrirhugaður vegur liggi umtalsvert neðar og nær sjó en núverandi vegur og verði nýtanlegt land neðan vegar því mun minna en nú er. Kærandi telur að fyrirhuguð framkvæmd hafi í för með sér óþarfa röskun á ósnortu landi, sem hægt væri að komast hjá með því að leggja veginn að mestu um núverandi vegstæði. Kærandi telur það órökstutt að fyrirhugað vegstæði hafi í för með sér minni spjöll en það vegstæði sem kærandi bendir á. Ennfremur séu fullyrðingar framkvæmdaraðila um snjóalög og ósléttara land órökstuddar. Varðandi áhrif fyrirhugaðrar vegalagningar á búrekstur á jörð kæranda vísar kærandi til greinargerðar Bændasamtaka Íslands frá 28. júní 1999 sem unnin var af Jónasi Jónssyni. Í niðurstöðukafla þeirrar greinargerðar segir: "Niðurstaða þessara athugana er sú að fyrirhuguð endurbygging þjóðvegar nr. 61 í landi Laugabóls við Ísafjörð með því vegarstæði sem Vegagerð ríkisins hefur valið á kaflanum frá Skyrgil og inn undir Hvalnes (efnistökustað E1) mundi raska búrekstrarstöðu á Laugabóli all verulega..."
Í umsögn framkvæmdaraðila segir um vegalagningu innan Skyrgils: "Á þessu svæði um og innan við Laufskálagilið liggur veglínan eftir afgerandi stalli í landinu og er bæði láréttur og lóðréttur ferill veglínunnar mjög góður, vegurinn hækkar jafnt inn eftir frá ca 15 m h.y.s. í ca 22 m hæð við 10500, [11.500] þetta þýðir m.a. mjög góða vegsýn. Vegsýn til framúraksturs á þessum kafla vegarins (10500 til 12000) er mjög mikilvæg þar sem hún verður ekki fyrir hendi fyrir neðan Laugaból og um Múlaáreyrar (12500-14500), þar eru hindranir til hliðar við veginn sem munu skyggja á." Framkvæmdaraðili telur að samkvæmt skýrslu Arnlínar Óladóttur um gróðurfar sé ekki ástæða gróðurfarsins vegna að færa veginn ofar eins og kærandi gerir kröfu til og einnig telur framkvæmdaraðili að fyrirhuguð veglína sé snjóléttari en veglína sem kæmi ofar. Framkvæmdaraðili sér ekki aðra röskun á búrekstrargildi en þá að nokkurt land fari undir veg umfram það sem er undir núverandi vegi, en það skipti ekki sköpum.
Helstu röksemdir framkvæmdaraðila fyrir því að ekki skuli gerðar breytingar á fyrirhugaðri veglínu innan Skyrgils eins og kærandi gerir kröfu um, eru á grundvelli vegtæknilegra sjónarmiða. Að mati framkvæmdaraðila mun færsla veglínunnar leiða til þess að vegurinn uppfylli ekki kröfur um vegsýn til framúrsaksturs sem sé mjög mikilvæg þar sem hún verður ekki fyrir hendi fyrir neðan Laugaból og á Múlaáreyrum.
Með því að lengja brekkuna frá Skyrgili upp á núverandi veg sunnan við Laufskálagil til suðurs og fara aðeins lítillega upp fyrir 20 metra hæðarlínuna, en ekki upp á núverandi veg sem liggur í rúmlega 25 metra hæð, má ná nauðsynlegri sjónlengd til framúraksturs á þessum hluta vegarins. Á sama hátt má ná nauðsynlegum sjónlegri sjónlengd fyrir klapparnef gegnt stöð 11.500 með því að láta veginn fylgja hjallabrún í um 22 m hæð milli stöðva 11.000 og 11.500. Með þessu fæst jafn vegur sem fylgir malarhjalla og framhaldi hans í rúmlega 20 m hæð og fellur vel að landslagi. Vandi vegna snjómokstur sem verið hefur við Laufskálagil yrði ekki fyrir hendi enda er gamla vegstæðinu ekki fylgt á þeim hluta.
Að mati ráðuneytisins er samkvæmt framangreindu unnt að leggja veginn nokkurn veginn samkvæmt tillögu kæranda þannig að það leiði ekki til skertrar vegsýnar til framúraksturs. Ráðuneytið telur að að ekki hafi verið sýnt fram á að sú vegalagning sé verri kostur vegtæknilega en fyrirhuguð veglína og því jafngóður kostur með tilliti til umferðaröryggissjónarmiða. Ráðuneytið telur einnig að framangreind breyting á veglínu hafi minna jarðrask í för með sér þar sem vegurinn liggur mjög nærri núverandi vegi á um 600 metra kafla. Með breytingu á veglínu verða aðstæður svipaðar og á fyrirhugaðri veglínu og er það því mat ráðuneytisins að snjósöfnun verði svipuð á fyrirhugaðri veglínu og breytti veglínu.
Ráðuneytið tekur undir það með kæranda að með lagningu fyrirhugaðs vegar verði töluverð röskun á búrekstrarstöðu á Laugabóli þar sem vegurinn fer um beitiland kæranda. Fyrirhugaður vegur liggur umtalsvert neðar og nær sjó en núverandi vegur og verður nýtanlegt land neðan vegar því mun minna en nú er. Þetta land hefur verulegt gildi fyrir sauðfjárbúskap þar sem það liggur næst Laugabóli af því landi vel sem hentar til vetrar- og vorbeitar. Einnig er þar mikill hluti af þeirri fjörurbeit sem nýtanleg er á jörðinni.
Með vísun til framangreinds telur ráðuneytið að taka beri kröfu kæranda til greina um færslu vegalínu innan Skyrgils þannig að lega hennar verði breytt á þann hátt að á móts við stöð 10.400 færist hún allt að 10 metrum ofar og liggi þaðan skáhallt upp á við og yfir Laufskálagil allt að 35 metrum ofar en fyrirhuguð veglína. Þaðan liggi vegurinn upp að 20 metra hæðarlínu og liggi um hana eða ofar, sem næst núverandi vegi, og mæti fyrirhugaðri veglínu u.þ.b. við stöð 11.500. Gert er ráð fyrir að laga þurfi fyrirhugaða veglínu til beggja enda við framangreindan vegkafla, svo sem varðandi sjónlengdir.
Þar sem ráðuneytið fellst á kröfu kæranda um færslu veglínunnar verða kröfur kæranda að öðru leyti ekki teknar til umfjöllunar.
2.
Guðjón Jónsson gerir sömu tillögu um færslu vegarins innan Skyrgils eins og Jón Guðjónsson gerir og vísast til kafla IV. 1. hér að framan varðandi tillögu kæranda. Ráðuneytið lítur svo á með kæru Guðjóns Jónssonar sé tekið undir kröfugerð og rökstuðning Jóns Guðjónssonar. Varðandi rökstuðnings ráðuneytisins fyrir kæru Guðjóns Jónssonar vísast því til kafla IV. 1.
3.
Ástþór Ágústsson gerir kröfu um að vegur yfir Múlaáreyrar verði valinn samkvæmt leið 5 en ekki leið 4. Vísar kærandi til þess að með fyrirhugaðri vegalagningu samkvæmt leið 4 myndi gróður á eyrunum spillast. Kærandi telur minni sjónmengun af leið 5 og að hún leiði til betri nýtingar nytjalands í Múla. Þá telur kærandi að með leið 4 þyrfti að koma til grjótvörn á veginn við Múlaá en grjótvarnir séu griðastaðir fyrir mink.
Í umsögnum Skipulagsstofnunar og Vegagerðarinnar kemur fram að munurinn á leið 4, fyrirhugaðri veglínu og leið 5 sé sá að með leið 4 næst beygja með 500 metra radíus en á leið 5 sé radíus beygjunnar 400 metrar en það skiptir verulegu máli fyrir umferðaröryggi. Þá kemur fram í umsögn Vegagerðarinnar að enga grjótvörn þurfi vegna sjávarágangs við brúna í hinni fyrirhuguðu veglínu. Í frummatsskýrslu kemur auk þess fram að gera þyrfti 50 metra langan varnargarð yrði leið 5 farin vegna færslu á farvegi Múlaár. Slík framkævmd kallar á mun meiri rofvörn en fyrirhuguð er við brúarsporða samkvæmt leið 4. Í umsögn Náttúruverndar ríkisins til Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin geri ekki athugasemdir við leið 4 eins og henni er lýst í frummatskýrslu enda sé breytingin í samræmi við fyrri athugasemdir stofnunarinnar.
Ráðuneytið tekur undir framangreind sjónarmið og telur með vísun til umferðaröryggissjónarmiða að leið 4 sé betri kostur en leið 5. Auk þess telur ráðuneytið að leið 5 sé lakari kostur en leið 4 vegna færslu farvegarins. Eins og kærandi bendir á geta grjótvarnir verið griðastaður fyrir mink en úr þeirri hættu verður ekki dregið með að fara leið 5. Ráðuneytið fellst ekki á þau rök kæranda að leið 4 sé slæm með tilliti til gróðurfarssjónarmiða þar sem Náttúruvernd ríkisins gerir ekki athugasemdir við þá leið. Með vísun til framangreinds telur ráðuneytið ekki sé hægt að fallast á kröfu Ástþórs Ágústssonar.
Varðandi athugasemdir kæranda um staðsetningu fyrirhugaðs vegar um Laugaból vísast til umfjöllunar ráðuneytisins við kæru Jóns Guðjónssonar, sbr. kafli IV. 1.
4.
Hákon Örn Halldórsson telur að lagning vegar samkvæmt fremstu línu, í botni Ísafjarðar raski náttúrufari minnst. Þetta álit kæranda gengur þvert á álit Náttúruverndar ríkisins, sbr. umsögn stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar með bréfi dags. 5. nóv. 1999 og á álit Arnlínar Óladóttur sem kemur fram í skýrslu hennar "Könnun á gróðurfari í austanverðum Ísafirði". Það er álit framangreindra aðila að heppilegast sé að leggja veginn sem næst núverandi vegi. Að mati ráðuneytisins er fremsta lína lakasti kosturinn af þeim veglínum sem skoðaðar voru, bæði sjónrænt og með tilliti til náttúrufars, þar sem sú leið liggur þvert um ósasvæði Ísafjarðarár.
Ráðuneytið telur að ekki séu forsendur til að draga í efa rök Vegagerðarinnar fyrir þörf á rofvörn á vegi um fremstu leið en engin haldbær gögn liggja fyrir um öldugang við ós Ísafjarðarár.
Kærandi telur að með því að fara fremstu línu verði vegurinn öruggari þar sem með því móti myndist betra rúm fyrir snjósöfnun frá hugsanlegum snjóflóðum úr Fjarðarhornsgili. Ráðuneytið tekur undir þetta atriði með kæranda, en það hefur Skipulagsstofnun einnig gert. Með efnistöku úr skeringu, námu E7 undir Fjarðarhornsgili er ætlun Vegagerðarinnar að mynda öryggissvæði við fyrirhugaða veglínu. Þannig verði gert rúm fyrir sjósöfnun og öryggi vegarins verður aukið.
Með vísun til þess sem hér hefur verið rakið telur ráðuneytið að ekki sé hægt að fallast á kröfu Hákonar Arnar Halldórssonar.
Úrskurðarorð:
Staðfestur er úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 3. desember 1999 um mat á umhverfisáhrifum á lagningu Djúpvegar nr. 61 um austanverðan Ísafjörð með þeirri breytingu að veglína innan við Skyrgil verði breytt á þann hátt að á móts við stöð 10.400 færist hún allt að 10 metrum ofar og liggi þaðan skáhallt upp á við og yfir Laufskálagil allt að 35 metrum ofar en fyrirhuguð veglína. Þaðan liggi vegurinn upp að 20 metra hæðarlínu og liggi um hana eða ofar, sem næst núverandi vegi, og mæti fyrirhugaðri veglínu u.þ.b. við stöð 11.500. Gert er ráð fyrir að laga þurfi fyrirhugaða veglínu til beggja enda við framangreindan vegkafla, svo sem varðandi sjónlengdir.