Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 02050125

Með bréfi sem barst ráðuneytinu þann 1. júlí 2002, kærði Eyvindur G. Gunnarsson hdl. f.h. eigenda jarðarinnar Selskarðs á Álftanesi Axels Kristjáns Axelssonar, Björns Erlendssonar, Jóns Lárussonar, Jóhönnu Jónsdóttur og Katrínar Jónsdóttur úrskurð Skipulagsstofnunar frá 22. maí 2002 um mat á umhverfisáhrifum lagningar nýs Álftanesvegar og lengingar Vífilsstaðavegar í Garðabæ.

I. Hinn kærði úrskurður og málsatvik

Með úrskurði Skipulagsstofnunar var fallist á fyrirhugaða lengingu Vífilsstaðavegar og lagningu Álftanesvegar samkvæmt leiðum B, D og A eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila. Framkvæmdaraðilar eru Garðabær og Vegagerðin.

Mat á umhverfisáhrifum var áður til frumathugunar hjá Skipulagsstofnun vorið 2000 samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993. Kynntar voru þrjár leiðir: A, B og C þar sem leið A var valkostur framkvæmdaraðila. Frumathugun lauk með úrskurði Skipulagsstofnunar, dags. 7. júní 2000 þar sem fallist var á leiðir B og C með skilyrðum en farið fram á ?frekara mat á umhverfisáhrifum Álftanesvegar samkvæmt leið A?. Úrskurður Skipulagsstofnunar var staðfestur óbreyttur af umhverfisráðherra þann 26. september 2000.

Lenging Vífilsstaðavegar var ekki til athugunar í frummati á umhverfisáhrifum Álftanesvegar. Að því leyti er um nýja framkvæmd að ræða. Matsskýrsla framkvæmdaraðila gerir ráð fyrir að um eina framkvæmd sé að ræða. Telur ráðuneytið því rétt að um málið fari samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Með bréfum, dags. 5. júlí 2002, var framangreind kæra sent til umsagnar Skipulagsstofnunar, Náttúruverndar ríkisins, Vegagerðarinnar, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðarbæjar. Með bréfi, dags. 23. júlí 2002, sendi Vegagerðin umsögn um kæruna. Með bréfi, dags. 24. júlí 2002, sendi Garðabær umsögn um kæruna. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2002, sendi Náttúruvernd ríkisins umsögn um kæruna. Með bréfi, dags. 10. september 2002, sendi Hafnarfjarðarbær umsögn um kæruna. Með bréfi, dags. 25. september 2002, sendi Skipulagsstofnun umsögn um kæruna. Með bréfi, dags. 9. október 2002, sendi Bessastaðahreppur umsögn um kæruna. Með bréfum, dags. 21. ágúst, 20. september, 2. október, 11. október 2002, voru fram komnar umsagnir sendar kærendum til athugasemda. Með bréfum, dags. 20. september og 25. október 2002, gerðu kærendur athugasemdir við framkomnar umsagnir. Með bréfum, dags. 18. desember 2002, var framkvæmdaraðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Náttúruverndar ríkisins. Með bréfum, dags. 19. og 23. desember 2002 gerðu framkvæmdaraðilar athugasemdir við umsögn Náttúruverndar ríkisins.

Þann 2. janúar 2002 gengu fulltrúar ráðuneytisins á vettvang þar sem fulltrúar Vegagerðarinnar gerðu grein fyrir veglagningarkostum samkvæmt matsskýrslu. Óskað var eftir nánari umsögn Garðabæjar um forsendum lengingar Vífilsstaðavegar og barst ráðuneytinu minnisblað frá bæjarverkfræðingi Garðabæjar, dags. 10. janúar 2003.

II. Kæruatriði og umsagnir um þau

1. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar

Kærendur krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrirhugaðri framkvæmd verði hafnað. Kærendur telja að úrskurður Skipulagsstofnunar sé ekki rökstuddur á fullnægjandi hátt þar sem nánast ekkert sé fjallað um þá veglagningarkosti sem kærendur hafa áður bent á. Vísa kærendur í þessu sambandi til 1. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Einnig telja kærendur að mjög skorti á að umsagnir séu nægilega rökstuddar en þær hafi verið ráðandi um niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Er í því sambandi vísað til 22. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 671/2000. Skipulagsstofnun hafi því ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að stofnunin telji að rökstuðningur hins kærða úrskurðar og umsagna hafi verið fullnægjandi og í fullu samræmi við þá afmörkun sem fram komi í matsáætlun og fyrri úrskurðum um frummat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Varðandi málsástæðu kærenda um brot á rannsóknarreglu og tilvísunar til greinargerðar um Selskarð sem byggingarland segir í umsögninni að í hinum kærða úrskurði hafi almenn skipulagsmál eða uppbygging einstakra svæða í Garðabæ ekki verið til umfjöllunar.

Kærendur telja að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt. Kærendur hafi ítrekað gert þá athugasemd til Skipulagsstofnunar að unnt væri að leggja veginn í fjöru. Þannig væru aðrir kostir mögulegir sem ekki væru eins íþyngjandi og þær tillögur sem Skipulagsstofnun síðan féllst á. Óviðunandi sé að ekki sé fjallað um tillögu þeirra um lagningu vegarins en með þeirri staðsetningu vegarins hefði mátt ná sama markmiði og stefnt er að með fyrirhugaðri veglagningu. Meðalhófsreglan eigi sérstaklega við um matskenndar ákvarðanir og varla sé hægt að hugsa sér matskenndari ákvörðun en úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Velja beri það úrræði sem vægast er og að gagni geti komið. Þeim mun tilfinnanlegri sem skerðingin sé þeim mun strangari kröfur verði að gera til sönnunar á nauðsyn skerðingar. Þetta eigi sérstaklega við um hagsmuni sem njóti verndar mannréttindaákvæða, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. I. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög um friðhelgi eignaréttarins nr. 62/1994. Kærendur hafi bent á aðra kosti við veglagningu en ekki hafi verið tekið tillit til þeirrar tillögu þrátt fyrir að gera mætti strangar kröfur til sönnunar á nauðsyn þess að skerða réttindi kærenda með þeim hætti sem fyrirhuguð framkvæmd mun leiða til. Ekkert bendi til annars en að veglína í fjörunni uppfylli allar kröfur Vegagerðarinnar um bætt vegasamband, greiðar samgöngur og umferðaröryggi. Einnig megi ljóst vera að heildarkostnaður vegna veglagningarinnar verði margfalt lægri ef vegur verður lagður í fjörunni þegar horft er til þess fórnarkostnaðar sem felst í því að framtíðar byggingarland verður eyðilagt. Kærendur telja að fyrst og fremst hafi verið tekið tillit til hagsmuna bæjaryfirvalda í Garðabæ með vísun til þeirrar stefnu bæjaryfirvalda að land sem ætlað sé fyrir byggingarsvæði sé í eigu bæjarins, en ekki hagsmuna eigenda Selskarðs. Telja kærendur að ekki hafi verið sýnt fram á að almenningsþörf krefjist þess að koma í veg fyrir nýtingaráform þeirra. Kærendur líta svo á að ráðuneytinu sé heimilt að fallast á tillögu þeirra í úrskurði sínum sbr. úrskurð um mat á umhverfisáhrifum Djúpvegar frá 6. mars 2000.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að í mati á umhverfisáhrifum sé eingöngu fjallað um framkvæmdakosti sem framkvæmdaraðili telji mögulega og sé tilbúin að ráðast í og þeir bornir saman við núll-kost þ.e. að aðhafast ekki. Framkvæmdaraðili meti umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar og leggi fyrir Skipulagsstofnun til athugunar. Mat á umhverfisáhrifum sé ekki ákvörðun um framkvæmdir eða leyfisveiting heldur sé þar fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdar. Framkvæmaraðila sé í sjálfsvald sett hvort og hvaða framkvæmdakosti hann sækir um framkvæmdaleyfi fyrir. Varðandi svigrúm ráðuneytisins til að fallast á tillögur kærenda og tilvísunar til úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum Djúpvegar segir að Skipulagsstofnun telji ráðuneytinu aðeins heimilt skv. 13. gr. sbr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, að fallast á þá framkvæmd sem sé til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði eða leggjast gegn framkvæmdinni. Ráðherra sé ekki heimilt að fallast á framkvæmdakosti sem ekki hafi verið til athugunar Skipulagsstofnunar og úrskurðað hefur verið um.

Kærendur telja að ekki hafi verið gætt jafnræðis í hinum kærða úrskurði sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, 65. gr. stjskr. og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Vísað er til þess að ekki hafi verið lagst gegn því að nýtt strandhverfi rísi í Arnarnesvogi. Umrætt hverfi verði í fjöru sem er á náttúruminjaskrá. Allt bendi til þess að vegur í fjöru á Selskarði sbr. tillögu kærenda hafi minni umhverfisáhrif en nefnds strandhverfis. Það geti því ekki ráðið úrslitum við mat á umhverfisáhrifum að svæði hafi verði sett á náttúruminjaskrá. Selskarð sé ekki friðlýst svæði. Kærendur telja að leysa beri úr því máli sem hér er til úrlausnar á sambærilegan hátt og gert var í mati á umhverfisáhrifum bryggjuhverfis, forvera strandhverfis.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er bent á að veglagning um fjöru á Selskarði hafi ekki verið til umfjöllunar í athugun Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun hafi því ekki lagst gegn leið samkvæmt tillögum kærenda í hinum kærða úrskurði. Jafnframt er bent á að fyrirhuguð landfylling í Arnarnesvogi sé vegna stærðar sinnar ekki talin matsskyld og að úrskurður um mat á umhverfisáhrifum fyrri framkvæmdaráforma hafi verið afturkallaður. Þessi mál séu því ekki sambærileg.

Í umsögn Garðabæjar segir að bæjarráð telji að í ítarlegum úrskurði Skipulagsstofnunar hafi þess verið gætt að uppfylla skilyrði stjórnsýslulaga um form úrskurða. Unnið hafi verið að mikilli gagnaöflun í málinu og lagt mat á mismunandi kosti varðandi lagningu vegarins.

2. Efnisleg niðurstaða hins kærða úrskurðar

Kærendur telja að efnisleg skilyrði skorti fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Í fyrsta lagi sé umfjöllun um efnisleg verðmæti, samfélag, atvinnu o.fl. ekki fullnægjandi. Vísað er til markmiðs laganna, skilgreiningar á hugtakinu umhverfi og umtalsverð umhverfisáhrif. Sérstök ástæða hafi verið til að taka þessa þætti til efnislegrar umfjöllunar í ljósi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Fallist hafi verið á veglagningu sem fyrirsjáanlega komi til með að ónýta og skemma eigur og atvinnumöguleika kærenda þegar annar kostur býðst. Ekkert tillit hafi verði tekið til þeirra fjárhagslegu verðmæta sem felast í því að hafa landareignina ekki sundurskorna. Heildarmarkaðsverð byggingarlóða á Selskarði fyrir utan gatnagerðargjöld hafi verði áætlað 1.450.000.000 kr. miðað við staðgreiðslu. Fyrirhugaður vegur myndi enn frekar og varanlega kljúfa Selskarð í tvennt. Vegur í fjöru myndi hins vegar skapa möguleika á myndun tjarna innan við veginn, sem gætu orðið aðdráttarafl og ákjósanlegur staður fyrir æðarfugl og annað fuglalíf. Í öðru lagi telja kærendur að umfjöllun um mismunandi kosti á veglagningu séu ófullnægjandi. Samanburður mismunandi kosta sé án efa mikilvægasti hluti mats á umhverfisáhrifum. Það sé ekki undir framkvæmdaraðila komið að ákveða hvaða kostir verði skoðaðir sérstaklega heldur ber honum að skoða alla raunhæfa kosti og bera þá saman. Kærendur hafna því að þegar hafi verið tekin afstaða til tillagna þeirra og telja að það hljóti að hafa mikla þýðingu að þeir hafi margoft bent á aðra kosti um veglagningu. Framkvæmdaraðila hafi því mátt vera ljós nauðsyn þess að leggja ítarlegt og hlutlægt mat á kosti sem kærendur bentu á. Í þriðja lagi telja kærendur að það fáist ekki staðist að taka út fuglalíf við fjöru Selskarðs og gera að sérstakri röksemd gegn lagningu vegar meðfram fjörunni. Í mati á umhverfisáhrifum verði að leggja mat á fjölmarga ólíka þætti þ.m.t. efnahagslega og samfélagslega sem skoða verði sjálfstætt. Í fjórða lagi telja kærendur að fyrirhuguð framkvæmd hafi umtalsverð umhverfisáhrif þar sem umfjöllun um efnisleg verðmæti, samfélag og atvinnu hafi ekki farið fram og umfjöllun um mismunandi vegkosti sé ófullnægjandi. Ennfremur rekja kærendur hugmyndir sínar um nýtingu jarðarinnar. Þeir hafi lagt til að veglínan liggi meðfram ströndinni norðanverðri um fjöru Lambhúsatjarnar. Kærendur hafi bent á leið fyrir þjóðveg milli Garðahrauns og Hraunsholts og yfir á Bessastaðanes. Þannig gæti vegurinn legið eingöngu á landi í eigu ríkisins og Garðabæjar. Loks hafi kærendur bent á að þann möguleika að vegurinn verði settur í undirgöng á Selskarði. Kærendur telja að ekkert sé því til fyrirstöðu að breyta skipulagi bæjarins. Staðfest skipulag geti því ekki haft úrslitaáhrif í þessum efnum.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar sé um að ræða óbyggt svæði sem njóti bæjarverndar. Stofnunin telji ekki unnt að fjalla um verðmæti svæðisins sem byggingarlands þegar slík landnotkun er ekki fyrirhuguð samkvæmt aðalskipulagi. Vísar stofnunin til umfjöllunar um forræði sveitarstjórna á landnotkunarákvörðunum og skipulagi í úrskurði umhverfisráðherra um vegna mats á umhverfisáhrifum Álftanesvegar frá Engidal að Suðurnesvegi frá 26. september 2000. Bent er á að við undirbúning mats á umhverfisáhrifum Álftanesvegar hafi legið fyrir úrskurður um mat á umhverfisáhrifum vegarins frá 7. júní 2000 þar sem fallist var á fyrirhugaða lagningu Álftanesvegar samkvæmt leiðum B eða C með skilyrðum en vegarlagning samkvæmt leið A úrskurðuð í frekara mat, þar sem gera skyldi nánari grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á tilgreinda þætti. Sá úrskurður hafi verið staðfestur af umhverfisráðherra með úrskurði, dags. 26. september 2000. Vísað er til umfjöllunar í úrskurðinum um tillögur kærenda, þeirrar afstöðu ráðuneytisins gagnvart þeim að þær komi ekki til greina á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða og sjónarmiðs framkvæmdaraðila um að þær feli jafnframt í sér meiri kostnað og séu verri kostur tæknilega séð. Skipulagsstofnun fellst ekki á sjónarmið kærenda um að umfjöllun um mismunandi kosti sé ófullnægjandi. Vísar stofnunin til 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum um að framkvæmdaraðila beri að leggja fram tillögu að matsáætlun þar sem m.a. skal lýsa framkvæmd, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma og gefa upplýsingar um skipulag á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum. Svo segir:

?Við umfjöllun Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun Álftanesvegar og Vífilsstaðavegar komu fram athugasemdir frá Jóni Lárussyni og Birni Erlendssyni, Selskarði, þar sem mótmælt var þeirri veglínu sem sett var fram í tillögu að matsáætlun og farið fram á að aðrar veglínur yrðu teknar til skoðunar. Í svari framkvæmdaraðila við umsögnum og athugasemdum til Skipulagsstofnunar, dags. 29. ágúst 2001, er vísað til Aðalskipulags Garðabæjar 1995-2015 og svara við athugasemdum eigenda Selskarðs við umfjöllun um endurskoðun þess. Fram kemur að megin hluti vegarins sem liggi yfir Selskarð, vestan við punkt X eða leið B hafi Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra þegar samþykkt. Þá er bent á leið D milli punktanna X og Y, sem fjallað verði um í matsskýrslu liggi aðeins að óverulegum hluta innan lands Selskarðs [sic] og sé í raun aðeins hliðrun á leið B um 25-30 m í norðurátt. Fram kemur að tillaga landeigenda að öðrum veglínum snerti einkum land Selskarðs, sem sé að mestum hluta utan þess svæðis sem fjallað verði um í matsskýrslunni og bent á að áður hafi verið fjallað um þær veglínum [sic] í frummatsskýrslu fyrir Álftanesveg.?

Í umsögninni segir einnig að Skipulagsstofnun hafi samþykkt að valkostir á milli punktana X og Y yrðu teknir til umfjöllunar í matsskýrslu. Þeim tilmælum hafi hins vegar verið beint til framkvæmdaraðila að gerð yrði grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á þeim köflum sem þegar hefur verið fallist á í mati á umhverfisáhrifum og samhengi þess kafla sem nú sé til umfjöllunar við áður samþykktan hluta komi greinilega fram. Skipulagsstofnun telji umfjöllun um kosti sem til greina komu í frekara mati á umhverfisáhrifum Álftanesvegar og Vífilsstaðavegar eðlilega og í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Um vægi einstakra umhverfisþátta í hinum kærða úrskurða segir:

?Skipulagsstofnun bendir á að það fer eftir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa hennar hvaða þætti ber að leggja mesta áherslu í mati á umhverfisáhrifum. Ef framkvæmd er t.d. fyrirhuguð á svæði sem nýtur verndar ber að skoða sérstaklega áhrif framkvæmdarinnar á þá þætti sem verndar njóta og eru einkennandi fyrir viðkomandi svæði. Matsáætlun er ætlað að afmarka hvaða þætti ber að fjalla um í fyrirhuguðu mati á umhverfisáhrifum og hvernig skuli að matinu staðið. Eins og áður hefur verið bent á hafði í hinu kærða tilviki einnig verið úrskurðað um frummat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar og þar afmarkað hvaða þættir skyldu skoðaðir nánar.?

Varðandi málsástæðu kærenda um að fyrirhuguð framkvæmd hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif segir í umsögn Skipulagsstofnunar að stofnunin telji að í hinum kærða úrskurði hafi verið fullnægjandi umfjöllun um þá þætti sem máli skipta við mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar eins og þeir þættir séu skilgreindir í matsáætlun og fyrri úrskurðum. Um skipulagshugmyndir kærenda sérstaklega segir í umsögninni að viðkomandi sveitarstjórnir hafi markað stefnu, m.a. um veglínur og fyrirhugaða uppbyggingu íbúðarsvæða í Garðaholti og víðar. Ef fram komi tillögur sveitarstjórna um breytingar á gildandi aðalskipulagi fari um málsmeðferð vegna slíkra tillagna skv. skipulags- og byggingarlögum. Feli þær í sér breytingar á matsskyldum framkvæmdum beri að taka afstöðu til þeirra breytinga skv. 6. gr. sbr. 13. tl. a. í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Skipulagsstofnun telji það engum tilgangi þjóna að skylda framkvæmdaraðila til að fjalla um og meta umhverfisáhrif valkosta sem ljóst er að hann muni ekki sækja um framkvæmdarleyfi fyrir. Loks segir að stofnunin telji að í kæru komi ekkert það fram sem breyta eigi niðurstöðu hins kærða úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum nýs Álftanesvegar í Garðabæ.

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Álftanesvegar sem fjallað er um í hinum kærða úrskurði séu metin umhverfisáhrif valkosta A og B sem áður hafði verið fjallað um og þeir bornir saman við nýja leið, valkost D, sem liggi milli valkosta A og B. Fyrirhuguð veglína samkvæmt þessum valkostum sé á kafla sú sama og þegar hafi verið fjallað um og því hafi í síðara matinu sjónum verið beint að ákveðnum hluta leiðarinnar, nánar tiltekið frá stað skammt vestan við merki Selskarðs og Hausastaðakots, til staðar skammt austan merkja Króks og Garða. Lítill munur sé á veglínu í landi Selskarðs eftir því hver af ofangreindum kostum verði valin og því hafi ekki verið þörf á umfjöllun um þann kafla vegarins í seinna matinu þar sem áður hafði verið um hann fjallað á fyrri stigum málsins. Framkvæmdaraðili telur að ráðuneytið hafi þegar fjallað um tillögur kærenda í málinu hvað snertir fyrirhugaða vegagerð í landi Selskarðs. Með því að fallast á valkosti B og C í úrskurði ráðuneytisins frá 26. september 2000 hafi verið fallist í meginatriðum á þá veglínu sem framkvæmdaraðili hafi kynnt um land Selskarðs. Framkvæmdaraðili hafi ákveðið að gera grein fyrir þremur valkostum í seinna matinu, valkostum A, B, og C en áður hafi verið fjallað um og fallist á valkost C. Af náttúruverndarástæðum hafi tillögur kærenda um aðrar veglínur ekki verið taldar koma til greina auk þess sem þær samræmist ekki gildandi skipulagi. Lagning vegar um stokk í landi Selskarðs hafi heldur ekki verið talinn vænlegur kostur, hvorki tæknilega né fjárhagslega. Í áðurnefndum úrskurði umhverfisráðherra hafi verið byggt á þessum sjónarmiðum og ekki verði séð að kæran gefi tilefni til annarar niðurstöðu í þessu máli. Varðandi málsástæðu kærenda um skerðingu eignarréttinda segir í umsögninni að veglína Álftanesvegar um land Selskarðs verði að stórum hluta á sama stað og núverandi vegur og því ekki um verulega breytingu á núverandi notkun landsins að ræða. Skipulagshugmyndir kærendar eigi sér ekki stoð í gildandi skipulagi sem fyrirhuguð vegarlagning hins vegar hafi. Ákvörðun um legu vega sé að lokum á hendi skipulagsyfirvalda og framkvæmdaraðili hljóti að verða að taka mið af því sbr. 29. gr. vegalaga nr. 45/1994. Jafnframt er vísað til IX. kafla laganna um bótarétt vegna tjóns af völdum vegarlagningar. Fer Vegagerðin fram á það að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í umsögn Garðabæjar er vísað til 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga um hlutverk bæjarstjórnar Garðabæjar til að annast gerð skipulagsáætlana. Í slíkum áætlunum sé mörkuð stefna um landnotkun sem geti haft í för með sér skerta nýtingarmöguleika eigenda, sem þá geti eftir atvikum eignast rétt til bóta sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar segir um Selskarð að svæði þetta virðist vera gott byggingarland. Bærinn telji æskilegt að kannað verði nánar hvort ekki geti verið skynsamlegt að leggja veginn í fjöru Lambhúsatjarnar, þannig að unnt verði að nýta Selskarð sem byggingarland.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins segir

?Verndarsvæði

Í lögum og samþykktum er að finna mörg ákvæði sem segja að Lambhúsatjörn, Skógtjörn og Gálgahraun (Búrfellshraun) ættu að njóta verndunar. Í því sambandi má m.a. nefna að umrædd svæði eru öll hluti af stærra svæði sem er á náttúruminjaskrá, en skráning svæða á hana skoðast sem stefnuyfirlýsing stjórnvalda um það hvaða svæði ber að vernda vegna náttúrufars. Svæðinu er lýst á eftirfarandi hátt í skránni:

117. Bessastaðanes, Gálgahraun og fjörur frá Bala að Kársnesi, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Bessastaðahreppi, Gullbringusýslu. (1) Fjaran frá Bala í Hafnarfirði að Kársnesi í Kópavogi, Bessastaðanes allt og Lambhúsatjörn, Bessastaðatjörn, Skógtjörn og Kasthúsatjörn. Gálgahraun sem afmarkast af Álftanesvegi að sunnan, en hraunjöðrum að austan og vestan. (2) Fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með lífauðugum sjávarfitjum. Hraunið er nyrsta tunga af rúmlega 10 km löngu hrauni sem komið er úr Búrfelli. Kjörið útivistarsvæði.

Jafnframt eru Lambhúsatjörn og Skógtjörn, ásamt fjörum svæðisins, votlendi samkvæmt skilgreiningu Ramsar-sáttmálans og þær eru á votlendisskrá ráðherranefndar Norðurlanda. Einnig njóta votlendi og leirur sérstakrar verndar, sbr. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Það sama á við um eldhraun, sbr. Gálgahraun. Ennfremur eru fjörur og grunnsævi við Gálgahraun hluti af stærra svæði sem er á skrá alþjóða fuglaverndarsamtakanna (Bird Life International) yfir mikilvæg fuglasvæði (Important Bird Areas). Að auki eru Gálgahraun (norðan Álftanesvegar), Lambhúsatjörn og Skógtjörn bæjarvernduð svæði, sbr. aðalskipulag Garðabæjar 1995-2015.

Að ofangreindu má vera ljóst að það svæði þar sem fyrirhugað er að leggja nýjan Álftanesveg og Vífilsstaðaveg hefur hátt verndargildi frá mörgum sjónarhornum séð, bæði hvað varðar fuglalíf og jarðfræði. Náttúruvernd ríkisins vill í þessu sambandi benda á sérstöðu Gálgahrauns: Búrfellshraun rann fyrir um 7200 árum og Gálgahraun er nyrsta tungan af því. Hraunið í heild sinni er mjög raskað og að stórum hluta komið undir byggð og segja má að Gálgahraun sé sá hluti hraunsins sem hingað til hefur verið hlíft við raski. Hraunið er úfið og skartar tilkomumiklum hraunmyndunum, gróður er alfjölbreyttur og fuglalíf mikið í hrauninu og nágrenni þess. Við hraunið eru lífauðugar sjávarfitjar sem mikilvægar eru dýralífi. Að auki eru í hrauninu sögu- og búsetuminjar frá ýmsum tímum. Hraun- og gosstöðvar hér á landi hafa mikið og alþjóðlegt verndargildi. Sé litið til landa í norðanverðu Atlantshafi eru nútímahraun eins og hér um ræðir séríslenskt fyrirbæri og sjaldgæf á heimsvísu.?

Ennfremur segir:

?Náttúruvernd ríkisins leggur áherslu á að verndargildi Gálgahrauns er mikið og stofnunin telur mikilvægt að tillit sé tekið til þess við val á vegstæði yfir hraunið. Að mati stofnunarinnar er óásættanlegt að fallist sé á lagningu Álftanesvegar samkvæmt leiðum A og D og lengingu Vífilsstaðavegar um 700 m út í hraunið. Náttúruvernd ríkisins telur að hnekkja beri úrskurði Skipulagsstofnunar frá 22. maí sl. og einungis fallast á lagningu Álftanesvegar samkvæmt leið B eða C.?

Í minnisblaði Garðabæjar, dags. 10. janúar 2003 er vísað til þess að Vífilsstaðavegur eða ígildi hans hefur verið í aðalskipulagi Garðabæjar allt frá 1985 er fyrst var gert aðalskipulag fyrir bæinn og 4.16.1. gr. skipulagsreglugerðar, nr. 440/1998 um hlutverk tengibrauta. Tengibrautir tengja samkvæmt ákvæðinu einstaka bæjarhluta við stofnbrautakerfið og nálæga bæjarhluta saman innbyrðis og eru helstu umferðargötur í hverjum bæjarhluta. Vísað er til sams konar texta í aðalskipulagi Garðabæjar. Þá segir að á Garðaholti sé gert ráð fyrir um 7000 manna byggð á næstu árum.

III. Niðurstaða

1.

Kærendur telja að rökstuðningur hins kærða úrskurðar sé ekki fullnægjandi, málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt auk þess sem ekki hafi verið gætt jafnræðis né meðalhófs í úrskurði Skipulagsstofnunar þar sem ekki hafi verið fjallað um tillögur kærenda að nýjum vegleiðum.

Samkvæmt matsskýrslu er markmið hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar að bæta vegsamband, auka umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Álftanes frá Hafnarfjarðarvegi að Suðurnesvegi í Bessastaðahreppi. Markmið með lengingu Vífilsstaðavegar er samkvæmt matsskýrslu að greiða samgöngur um Álftanes og tengja fyrirhugaða íbúðabyggð á Garðaholti og núverandi íbúðabyggð á Hraunsholti við Álftanesveg. Fyrirhugaður Álftanesvegur liggur frá suðaustri til norðvesturs að Bessastaðahreppi. Í matsskýrslu er gerð grein fyrir fjórum veglagningarkostum A, B, C og D varðandi lagningu Álftanesvegar. Lengd fyrirhugaðs Álftanesvegar er 1700-2150 metrar. Lenging Vífilsstaðavegar liggur þvert á fyrirhugaðan Álftanesveg í stefnunni norðaustur til suðvesturs og er um 2000 metrar.

Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Framkvæmdaraðila sem hyggur á framkvæmd sem háð er mati á umhverfisáhrifum ber að gera skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar skv. 9. gr. laganna. Framkvæmdaraðili ber kostnað af matinu sbr. 14. gr. laganna og hinni fyrirhuguðu framkvæmd. Í úrskurði ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum jarðgangna og vegagerðar á norðanverðum Tröllaskaga, frá 13. maí 2002, segir:

?Hins vegar ber að taka afstöðu til umhverfisáhrifa þeirrar framkvæmdar sem framkvæmdaraðili leggur til og þjóna því markmiði sem hann stefnir að með framkvæmdinni.?

Fram kemur í matsskýrslu að framkvæmdaraðili hyggst ekki fara að tillögum kærenda að nýjum vegleiðum. Meginefni fyrirliggjandi matsskýrslu fjallar um nýjan Álftanesveg samkvæmt leið D, milli punktana X og Y, auk lengingu Vífilsstaðavegar, sbr. mynd 1 í matsskýrslu. Jörð kærenda, Selskarð liggur að mestu leyti vestan við vestari viðmiðunarpunkt matsskýrslu, svokallaðan X punkt sem afmarkar umfjöllun um framkvæmdina til vesturs samkvæmt mynd 12 í matsskýrslu sbr. fylgiskjal 6 með stjórnsýslukæru. Það svæði sem tillaga kærenda fjallar um skv. fylgiskjali 5 með kæru er því að mestu leyti utan þess svæðis sem fjallað er um í matsskýrslunni. Að mati ráðuneytisins hafa tillögur kærenda annað meginmarkmið en fyrirhuguð framkvæmd framkvæmdaraðila þ.e. að tillögur þeirra að deiliskipulagi í landi Selskarðs nái fram að ganga. Ráðuneytið lítur svo á að sjónarmið um hvort nýta eigi tiltekið land til íbúabyggðar varði fyrst og fremst ákvörðun um landnotkun í skipulagsáætlun skv. skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Auk þess var fjallað um tillögu kærenda um lagningu Álftanesvegar um fjöru Lambhúsatjarnar í úrskurði ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum Álftanesvegar frá Engidal að Suðurnesvegi frá 26. september 2000 og er þar vísað til 2. mgr. 3. gr. og 16. gr. skipulags- og byggingarlaga um ábyrgð sveitarstjórna á gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags. Kærendur telja heildarkostnað vegna veglagningarinnar verði margfalt lægri ef vegur verður lagður í fjörunni. Í úrskurði ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, dags. 20. desember 2001, segir að með hliðsjón af 75. gr. stjórnarskrárinnar, bæri í mati á umhverfisáhrifum ekki að fjalla um arðsemi framkvæmdar. Það sé hlutverk framkvæmdaraðila. Ráðuneytið telur því að ekki hafi komið fram sjónarmið sem breyta eigi niðurstöðu ráðuneytisins frá 26. september 2000 um tillögur kærenda. Ráðuneytið fellst því ekki á málsástæðu kærenda um að tilefni hafi verið til að fjalla um tillögur kærenda að öðrum vegleiðum í hinum kærða úrskurði.

Kærendur telja umsagnir í máli þessu ekki nægilega rökstuddar. Ráðuneytið lítur svo á að ákvæði stjórnsýslulaga um rökstuðning eigi ekki við um umsagnir sem fram hafa komið í málinu en skv. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 gilda ákvæði laganna þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Slík ákvörðun felst ekki í umsögn eins stjórnvalds til annars um fyrirhugaða ákvörðun. Ráðuneytið telur jafnframt að fullnægjandi gögn hafi komið fram í máli þessu til þess að kveða upp úrskurð um framkomna kæru.

Kærendur telja að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt við málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Ráðuneytið telur að varðandi umfjöllun um meðalhófsreglu stjórnsýslulaga verði að hafa í huga að í mati á umhverfisáhrifum er fjallað um margs konar sjónarmið þ.e. annars vegar sjónarmið framkvæmdaraðila um fyrirhugaðar framkvæmdir s.s. um markmið framkvæmdarinnar, kostnað við framkvæmd matsins, kostnað við framkvæmdina þ.m.t. mótvægisaðgerðir og hins vegar sjónarmið um verndun náttúrunnar og annarra umhverfisþátta þ.m.t. landnotkun landeiganda eftir því sem tilefni er til. Ráðuneytið lítur svo á að framkvæmdaraðilar, Vegagerðin og Garðabær, hafi metið samfélagslega þörf fyrir framkvæmdina og að markmið hennar sé lögmætt. Í skipulagslögum og vegalögum eru ákvæði um bótarétt landeiganda. Að virtum gögnum málsins fær ráðuneytið ekki séð að meðalhófsregla hafi verið brotin við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun.

Ráðuneytið telur að áform um landfyllingu í Arnarnesvogi verði ekki borin saman við þá framkvæmd sem hér er til umfjöllunar þegar af þeirri ástæðu að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fór ekki fram vegna þeirrar framkvæmdar.

Með vísan til þess sem að framan segir fellst ráðuneytið ekki á málsástæður kærenda um að Skipulagsstofnun hafi ekki farið að formreglum í hinum kærða úrskurði.

2.

Kærendur telja að umfjöllun um efnisleg verðmæti ekki fullnægjandi vegna takmörkunar á landnotkunarmöguleikum Selskarðs.

Jörðin Selskarð liggur að mestu leyti vestan við vestari viðmiðunarpunkt framkvæmdarinnar. Ráðuneytið telur einnig að lítill munur sé á veglínu í landi Selskarðs eftir því hver af valkostum framkvæmdaraðila verði valinn. Tilgreint verðmætamat vegna Selskarðs er háð því að sveitarstjórn samþykki tillögu að deiliskipulagi en eins og fram hefur komið liggur það samþykki ekki fyrir. Ráðuneytið hefur áður fjallað um veglagningu á þessum stað í úrskurði dags. 20. september 2000. Telur ráðuneytið ekki hafa komið fram sjónarmið í máli þessu sem breyta eigi þeirri niðurstöðu. Fellst ráðuneytið því ekki á málsástæðu kærenda um skort á umfjöllun um efnisleg verðmæti í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt framansögðu fellst ráðuneytið ekki á kröfur kærenda.

3.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins er fjallað um mismunandi veglagningarkosti Álftanesvegar og lengingu Vífilsstaðavegar. Náttúruvernd ríkisins lagðist í umsögn sinni gegn lagningu Álftanesvegar samkvæmt leiðum A og D og lengingu Vífilsstaðavegar vegna verndargildis Gálgahrauns. Samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga er eldhraun meðal þeirra landslagsgerða sem njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þess eins og kostur er. Að teknu tilliti til þessa telur ráðuneytið tilefni til að fjalla einnig í máli þessu um mismunandi veglagningarkosti framkvæmdaraðila varðandi lagningu Álftanesvegar og þá vegleið sem gerð er grein fyrir í matsskýrslu varðandi lengingu Vífilsstaðavegar, einkum að því er varðar verndargildi Gálgahrauns.

Samkvæmt matsskýrslu er markmið hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar að bæta vegsamband, auka umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Álftanes frá Hafnarfjarðarvegi að Suðurnesvegi í Bessastaðahreppi. Í matsskýrslu segir að umferð um núverandi Álftanesveg hafi aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Umferð um veginn sé nú á bilinu 3.600-4.800 bílar á sólarhring frá Hafnarfjarðarvegi að Suðurnesvegi í Bessastaðahreppi. Í matsskýrslu segir að samkvæmt umferðarspá verði umferð um Álftanesveg á bilinu 18.000-20.000 bílar á sólarhring þegar Garðaholt og Bessastaðahreppur verði fullbyggð. Nýr vegur mun samkvæmt matsskýrslu standast allar vegtæknilegar kröfur þar sem engar krappar beygjur og blindhæðir verða á honum eins og eru á núverandi vegi, auk þess sem hann verði nægilega breiður til að anna fyrirsjáanlegri umferðaraukningu. Þá muni nýr Álftanesvegur ekki þjóna hlutverki safngötu fyrir íbúðarhús eins og núverandi vegur gerir.

Tilgangur með lengingu Vífilsstaðavegar er samkvæmt matsskýrslu að greiða samgöngur um Álftanes og tengja fyrirhugaða íbúðabyggð á Garðaholti og núverandi íbúðabyggð á Hraunsholti við Álftanesveg. Slík tenging sé ein af forsendum uppbyggingar íbúðasvæðanna. Samkvæmt matsskýrslu er talið að lenging Vífilsstaðavegar muni hafa jákvæð áhrif á dreifingu umferðar á Álftanesi og auðvelda samgöngur fólks milli íbúðasvæða í Garðabæ. Gert hefur verið ráð fyrir lengingu Vífilsstaðavegar eða ígildis hans í skipulagi Garðabæjar frá árinu 1985. Samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af umhverfisráðuneytinu 16. nóvember 1997, er gert ráð fyrir byggð á Garðaholti þar sem fjöldi íbúa getur orðið 4.500-5.000 í 1.500-1.700 íbúðum. Í matsskýrslu segir að íbúafjöldi geti orðið 5.000-7.000 í 1.700-1.900 íbúðum. Í minnisblaði Garðabæjar frá 10. janúar 2003 segir að gert sé ráð fyrir um 7.000 manna byggð á Garðaholti á næstu árum sem gæti verið um þriðjungur íbúa fullbyggðs Garðabæjar. Ljóst er því að aukin áhersla er af hálfu bæjarfélagsins um uppbyggingu þessa hverfis.

Í matsskýrslu er gerð grein fyrir fjórum veglagningarkostum A, B, C og D varðandi lagningu Álftanesvegar. Gálgahraun nær til sjávar í norðri. Þær vegleiðir sem framkvæmdaraðili hefur gert grein fyrir liggja frá suðri til norðurs í röðinni C-B-D-A. Í frummati á umhverfisáhrifum Álftanesvegar var gerð grein fyrir þremur þessara kosta þ.e. A, B og C. Úrskurðað var að frekara mat skyldi fara fram á leið A. Kveðið var á um að tryggt yrði að ?Garðastekk? yrði ekki raskað við endanlega hönnun vegarins og framkvæmdir við hann en í matsskýrslu kemur fram að leið B liggur yfir Garðastekk. Lega leiðar B er með sama hætti í þeirri matsskýrslu sem nú liggur fyrir og frummatsskýrslu. Framkvæmdaraðili gerir ráð fyrir að veginum yrði hliðrað til norðurs til að mæta þessu skilyrði, í átt að leið D sem er nýr veglagningarkostur og valkostur framkvæmdaraðila. Í þeirri matsskýrslu sem nú er til umfjöllunar er ekki fjallað sérstaklega um vegleið C sem kynnt var í frummatsskýrslu um Álftanesveg þar sem hún skerðir verulega fyrirhugað íbúðasvæði á Garðaholti og Garðabær telur hana þess vegna óæskilega. Framkvæmdaraðili lítur svo á að leið D sé málamiðlunarleið milli leiða A og B.

Í matsskýrslu er aðeins metinn einn kostur við lengingu Vífilsstaðavegar sem liggur að hluta til í gengum hraunið. Í matsskýrslu segir að ekki komi margir kostir til greina fyrir vegstæði Vífilsstaðavegar yfir Garðahraun þar sem vegurinn er bundinn við hringtorg vestan við Hraunsholt og sé ætlað að tengjast nýjum Álftanesvegi og ná að fyrirhugaðri byggð á Garðaholti.

Samkvæmt matsskýrslu er flatarmál lands sem fer undir vegstæði samkvæmt vegleið A 9,7 ha. Lengd leiðarinnar í hrauninu samkvæmt þeirri vegleið verður 2.150 metrar. Landslagsheild hraunsins skerðist um 74 ha. eða 49% að viðbættum Vífilsstaðavegi. Vegleið A þverar svokallaðan Fógetastíg á tveimur stöðum sem er talinn meðal merkustu fornleifa á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt matsskýrslu er flatarmál lands sem fer undir vegstæði samkvæmt vegleið B, 9,6 ha. Lengd leiðarinnar í hrauninu samkvæmt þeirri vegleið verður 1.700 metrar og landslagsheild hraunsins skerðist um 57 ha eða 38% að viðbættum Vífilsstaðavegi. Vegleið B er einnig stysta leiðin og landslagsheild hraunsins skerðist minnst miðað við vegkosti A og D. Hins vegar leggst Garðabær eindregið gegn leiðinni af skipulagsástæðum en leiðin liggur nærri fyrirhugaðri byggð á Garðaholti. Vegleið þessi liggur samkvæmt núverandi teikningu hjá Garðastekk, rústum gamallar fjárréttar og fer yfir svokallað Kjarvalssvæði auk þess sem gróður er fjölbreyttari á þessari vegleið en samkvæmt vegleiðum A og D. Breytingar samkvæmt skilyrði í úrskurði um frummat Álftanesvegar hafa ekki verið útfærðar í þeirri matsskýrslu sem nú liggur fyrir. Samkvæmt framansögðu er ljóst að færa þyrfti til veglínuna á einum stað til samræmis við fyrri úrskurð ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum Álftanesvegar og æskilegt væri að færa hana einnig til, austan við fyrirhugað hringtorg, vegna menningarsögulegra minja.

Flatarmál lands sem fer undir vegstæði Álftanesvegar samkvæmt vegleið D er 9,1 ha. Lengd leiðarinnar í hrauninu verður 1.900 metrar og landslagsheild hraunsins skerðist um 67 ha. eða 44% að viðbættum Vífilsstaðavegi. Kostir leiðarinnar eru að mati ráðuneytisins einkum þeir að hún liggur ekki yfir þekktar fornleifar, gróðurfélög eru þar einsleitari en víða annarsstaðar í hrauninu og engar sjaldgæfar tegundir hafa fundist þar. Hraunið er á þessari vegleið að jafnaði minna úfið en víða annars staðar.

Ráðuneytið lítur svo á að umhverfisáhrif vegleiðar A séu töluvert meiri en vegleiðar D, sem er valkostur framkvæmdaraðila, þar sem hlutfallslega meiri skerðing verður á landslagsheild hraunsins og leiðin liggur yfir Fógetastíg. Fjallað var um umhverfisáhrif vegleiða B og C í úrskurði ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum Álftanesvegar, dags. 26. september 2000. Ráðuneytið telur að ekki hafi komið fram upplýsingar sem breyta niðurstöðu þess úrskurðar um umhverfisáhrif þeirra vegleiða. Ráðuneytið telur ekki verulegan mun á vegleið D og vegleið B.

Að mati ráðuneytisins hefur lenging Vífilsstaðavegar töluverð áhrif á landslagsheild hraunsins umfram lagningu Álftanesvegar. Að mati ráðuneytisins hefur við val á þeirri vegleið þó verið leitast við að sneiða hjá helstu hraunmyndunum.

4.

Ráðuneytið telur að helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu áhrif á landslagsheild Gálgahrauns. Samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, nýtur eldhraun sérstakrar verndar og skal forðast röskun þess eins og kostur er. Markmið fyrirhugaðrar framkvæmdar er að bæta vegsamband, auka umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Álftanes frá Hafnarfjarðarvegi að Suðurnesvegi í Bessastaðahreppi annars vegar og hins vegar að greiða samgöngur um Álftanes og tengja fyrirhugaða íbúðabyggð á Garðaholti og núverandi íbúðabyggð á Hraunsholti við Álftanesveg. Fram hefur komið að áform eru uppi um töluverða byggð á Garðaholti í Garðabæ.

Sveitarstjórnir annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga. Gert er ráð fyrir lagningu Álftanesvegar og lengingu Vífilsstaðavegar í aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015. Gert hefur verið ráð fyrir lengingu Vífilsstaðavegar í skipulagi Garðabæjar síðan 1985 þó með nokkuð öðrum hætti en nú er gert ráð fyrir. Ráðuneytið lítur svo á að leitast hafi verið við að sneiða hjá helstu hraunmyndunum við val á veglagningarkosti D, valkosti framkvæmdaraðila við lagningu Álftanesvegar og lengingu Vífilsstaðavegar. Með vísun til þess sem að framan segir fellst ráðuneytið á fyrirhugaða framkvæmd og er úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Álftanesvegar og lengingu Vífilsstaðavegar, frá 22. maí 2002 staðfestur.

Úrskurðarorð:

Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Álftanesvegar og lengingu Vífilsstaðavegar, frá 22. maí 2002, er staðfestur.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta