Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 02070135

Ráðuneytinu hafa borist kærur frá sex aðilum vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 19. júlí 2002 um mat á umhverfisáhrifum 400 kV háspennulínu, Sultartangalínu 3, frá tengivirki við Sultartangastöð að aðveitustöð Landsvirkjunar á Brennimel á Hvalfjarðarströnd. Um er að ræða kærur Böðvars Jónssonar frá 18. ágúst 2002, Guðmundar Guðmundssonar frá 23. ágúst 2002 og kærur Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., f.h. Bjargar Rósu Thomassen og Reynis Ásgeirssonar, Brynju Þorbjörnsdóttur og Þorvalds Inga Magnússonar, Svarfhólsskógar félags eigenda eignarlóða undir sumarbústaði í Svarfhólsskógi og HH samtakanna samtaka gegn háspennuloftlínum í Hvalfirði, allar frá 22. ágúst 2002.

I. Hinn kærði úrskurður og málsatvik

Í matsskýrslu er kynnt fyrirhuguð lagning 400 kV háspennulínu, Sultartangalínu 3, frá tengivirki við Sultartangastöð að aðveitustöð Landsvirkjunar á Brennimel á Hvalfjarðarströnd.

Skipulagsstofnun kvað þann 19. júlí 2002, upp úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar var að fallist er á fyrirhugaða byggingu 400 kV Sultartangalínu 3 frá Sultartanga að Brennimel samkvæmt öllum framlögðum kostum eins og þeim er lýst í matsskýrslu, með eftirtöldum skilyrðum:

1. Fyrirhuguð vöktun á uppgræðsluaðgerðum á landgræðslusvæðum og við frágang slóða, mastrastæða og náma standi í a.m.k. 10 ár. Vöktun miðist við að uppgræðsluaðgerðir skili tilætluðum árangri og að gripið verði til viðeigandi ráðstafana verði vart við rof á gróðurlendi.

2. Framkvæmdaraðili afmarki námusvæði nr. 24, 25 og 39 áður en til framkvæmda kemur í samráði við Náttúruvernd ríkisins þannig að gróðurraski á svæðunum verði haldið í lágmarki.

3. Framkvæmdaraðili meti í samráði við Náttúruvernd ríkisins hvernig efnistöku á eftirfarandi námusvæðum, sem talin eru upp í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar, verði best háttað: Námusvæðum nr. 3.1, 8, 9, 9.1a, 9.1b, 9.1c, 11.1, 27, 28, 41, 42A og 42B. Áætlun um efnistöku, sem framkvæmdaraðili leggi fram samkvæmt lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd áður en til framkvæmda komi, taki mið af niðurstöðu samráðs um efnistöku úr framangreindum námum.

4. Fuglafræðingur verði fenginn til að skoða hvernig efnistöku á efnistökusvæðum sem fyrirhugað er að nota verði best háttað m.t.t. áhrifa á fugla. Áætlun um efnistöku, sem framkvæmdaraðili leggi fram samkvæmt lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd taki mið af niðurstöðu fuglafræðings.

5. Slóðagerð vegna línulagnar verði samræmd landnotkunaráformum sveitarfélaga og landeigenda.

Leið fyrirhugaðrar háspennulínu er alls um 120 km löng. Í matsskýrslu eru lagðir fram ýmsir kostir á legu línunnar. Framsetningu valkosta er þannig háttað að leiðinni milli Sultartangastöðvar og Brennimels er skipt í fimm hluta, þ.e. A, B, C, D og E en að auki er austasta hlutanum, leið A, skipt upp í tvo undirhluta við Hvítá sem gefin eru nöfnin Aa og Ab. Hluti Aa nær frá Sultartanga að Hvítá, hluti Ab frá Hvítá að Uxahryggjum, hluti B frá Uxahryggjum að botni Grafardals, hluti C frá botni Grafardals að Ferstikluhálsi, hluti D frá Ferstikluhálsi að Móadal og hluti E frá Móadal að Brennimel.

Á hverjum og einum þessara hluta leiðarinnar eru kynntir fleiri en einn kostur á legu línunnar. Kostirnir eru svo skilgreindir eftir því hvaða hluta leiðarinnar þeir tilheyra, þ.e. Aa1, Aa2, Ab1, B1, B2, C1, C2, C3, D1, E1, E2, E4, E5 og D2-E3. Kostur D2- E3 felst í lagningu jarðstrengs á vestasta hluta leiðarinnar. Aðalvalkostur framkvæmdaraðila er Aa2-Ab1-B2-C2-D1-E4/E5 ásamt færslu Brennimelslínu 1 frá Ferstiklu að aðveitustöðinni á Brennimel.

II. Kröfur og málsástæður kærenda

1. Kæra Böðvars Jónssonar

Kærandi, Böðvar Jónsson gerir þær kröfur að valin verði leið C3 við lagningu Sultartangalínu 3, frá botni Grafardals að Ferstikluhálsi.

2. Kæra Guðmundar Guðmundssonar

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi.

Til vara gerir hann eftirfarandi kröfur:

a. að leið leið C3 verði valin vegna fyrirhugaðs línustæðis í Grafardal

b. að jarðstrengur verði lagður innan hreppsins frá Kúhallará að Brennimel

c. að skilyrt verði, ef línulögnin verður leyfð, á möstrum eða jarðstrengur, að Sultartangalína 1 verði fjarlægð úr hreppnum, þar sem hún liggur um Svarfhólsskóg og Eyrarskóg, upp með Eyrarvatni, Glammastaðavatni, Geitabergsvatni og upp Grafardalinn.

3. Kærur Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., f.h. Bjargar Rósu Thomassen og Reynis Ásgeirssonar, Brynju Þorbjörnsdóttur og Þorvalds Inga Magnússonar, Svarfhólsskógar félags eigenda eignarlóða undir sumarbústaði í Svarfhólsskógi og HH samtakanna samtaka gegn háspennuloftlínum í Hvalfirði.

Kröfugerð og málsástæður í framangreindum fjórum kærum eru í meginatriðum þær sömu og verður því gerð grein fyrir þeim í einu lagi.

Aðallega gera kærendur þær kröfur að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi og að lagst verði gegn fyrirhugaðri framkvæmd.

Til vara er gerð sú krafa að lagst verði gegn öðrum kostum en D2-E3 (lagningu jarðstrengs) á D og E hlutum fyrirhugaðs línustæðis frá Kúhallará að Brennimel í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Að auki er í kæru HH-samtakanna gerð sú krafa að lagst verði gegn öðrum kostum en C3 á C hluta fyrirhugaðs línustæðis frá botni Grafardals að Ferstikluhálsi.

Til þrautavara er gerð sú krafa að fyrirhuguð framkvæmd samkvæmt kostum D1, E1, E2, E4 og E5 á D og E hlutum fyrirhugaðs línustæðis verði til viðbótar skilyrðum í hinum kærða úrskurði bundin því skilyrði að Sultartangalína 1 verði fjarlægð úr Hvalfjarðarstrandarhreppi. Í kæru HH-samtakanna er gerð sú krafa að fyrirhuguð framkvæmd samkvæmt kostum C1, C2, C3, D1, E1, E2, E4 og E5 á D og E hlutum fyrirhugaðs línustæðis verði bundin ofangreindu skilyrði.

III. Einstök kæruatriði og umsagnir um þau

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum voru framangreindar kærur sendar þann 5. september 2002 til umsagnar Landsvirkjunar, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Hollustuverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Skipulagsstofnunar, Veðurstofunnar, Bláskógabyggðar, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Hvalfjarðarstrandarhrepps, Skorradalshrepps og Borgarfjarðarsveitar. Frestur til að veita umsagnir var til 20. september 2002. Umsagnir bárust frá Hvalfjarðarstrandarhreppi þann 16. september 2002, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Hollustuvernd ríkisins og Veðurstofunni þann 19. september 2002, Landsvirkjun og Skorradalshreppi þann 20. september 2002, Hrunamannahreppi þann 27. september 2002, Skeiða- og Gnúpverjahreppi þann 4. október 2002, Grímsnes- og Grafningshreppi þann 8. október 2002, Skipulagsstofnun þann 25. október 2002 og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Bláskógabyggð þann 29. október 2002.

Kærendum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreindar umsagnir með bréfum þann 1. nóvember 2002. Athugasemdir bárust frá Guðjóni Ólafi Jónssyni hdl., f.h. Bjargar Rósu Thomassen og Reynis Ásgeirssonar, Brynju Þorbjörnsdóttur og Þorvalds Inga Magnússonar, Svarfhólsskógar og HH samtakanna þann 25. nóvember 2002 og frá Guðmundi Guðmundssyni þann 22. nóvember 2002. Kærendum var þann 6. mars 2003 gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð verkfræðinganna Egils Skúla Ingibergssonar og Helga Þórs Helgasonar sem gerð var fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið þann 4. apríl 2001. Athugasemdir bárust frá Guðmundi Guðmundssyni þann 11. mars 2003 og frá Guðjóni Ólafi Jónssyni hdl. þann 13. mars 2003.

1. Leið C í Grafardal

Kærandi, Böðvar Jónsson, er eigandi jarðarinnar Grafardals og gerir hann athugasemdir við að samkvæmt aðalvalkosti framkvæmdaraðila (C2) sé gert ráð fyrir að Sultartangalína 3 liggi niður Grafardal í um 400 m fjarlægð frá bæ hans. Gerir kærandi þær kröfur að valin verði leið C3 við lagningu línunnar. Telur kærandi að leið C3 hafi minnst umhverfisáhrif í för með sér og ekki sé sá munur varðandi kostnað við byggingu og rekstur línunnar um þennan landshluta eða varðandi öryggi hennar að réttlætt geti að valinn verði leið C2. Sömu kröfur eru gerðar í kæru Guðmundar Guðmundssonar og Guðjóns Ólafs Jónssonar f.h. HH-samtakanna.

Í umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið mælir með því að reynt verði að koma til móts við sjónarmið kæranda með því að kannað verði hvort Landsvirkjun telji unnt vegna öryggissjónarmiða að farin verði leið C3.

Í umsögn Landsvirkjunar kemur fram að í úrskurði Skipulagsstofnunar hafi allar línuleiðir á leið C verið samþykktar en komið hafi fram að stofnunin teldi að leið C3 hefði í för með sér minni umhverfisáhrif en leiðir C1 og C2. Sveitarstjórnir Skorradalshrepps og Hvalfjarðarstrandarhrepps hafi mælt með því að leið C3 yrði valin. Veðurstofan hafi hins vegar mælt gegn þeirri línuleið vegna ísingarhættu á svæðinu. Náttúruvernd ríkisins hafi talið að það hefði töluverð sjónræn áhrif að leggja línuna um land þar sem hvorki eru línur né vegslóðar.

Síðan segir í umsögn Landsvirkjunar: ?Að teknu tilliti til úrskurðar Skipulagsstofnunar, afstöðu sveitarstjórna, framkominna athugasemda landeiganda og þrátt fyrir áðurgreindar umsagnir Veðurstofu Íslands og Náttúruverndar ríkisins, getur Landsvirkjun hins vegar fyrir sitt leyti fallist á að leið C3 verði farin, og mun þá taka tillit til aukinnar rekstraráhættu við hönnun línunnar. Í ljósi þessa lítur Landsvirkjun svo á að ágreiningsefnið, sem kæra Böðvars Jónssonar snýst um, sé ekki lengur fyrir hendi.?

2. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar

Guðmundur Guðmundsson telur í kæru sinni að Skipulagsstofnun hafi ekki gætt réttra formsskilyrða við meðferð málsins. Athugun vegna kostnaðar við lagingu jarðstrengs hafi verið ófullnægjandi og aðrar leiðir rafstrengs, t.d. yfir Hvalfjörð hafi ekki verið skoðaðar og vísar kærandi til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi verið gætt jafnræðis eða meðalhófs þar sem ekki hafi verið tekið mið af mótmælum við legu línunnar og kröfum frá fjölmörgum aðilum. Vísar kærandi til 11.-13. gr. stjórnsýslulaga, 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og b. liðar 1. gr., 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Í kærum Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl. kemur fram að kærendur telja að formleg skilyrði fyrir hinum kærða úrskurði skorti. Að mati kærenda hefur lagning loftlínu í för með sér margvísleg umhverfisáhrif en lagning jarðstrengs hafi til langs tíma nánast engin áhrif á umhverfið. Benda kærendur á að á Skipulagsstofnun hvíli sú skylda að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telja kærendur að Skipulagsstofnun hafi brugðist rannsóknarskyldu sinni þar sem kostnaður við lagningu jarðstrengs á móti beinum og óbeinum kostnaði við lagningu loftlínu hafi ekki verið tekinn til skoðunnar með fullnægjandi hætti. Í kæru Svarfhólsskógar er bent á að ekki hafi verið gerð nokkur tilraun til að kanna þann kost sem felst í lagningu sæstrengs til Grundartanga um Hvalfjörð. Kærendur telja að rökstuðningur í úrskurði Skipulagsstofnunar sé ófullnægjandi, sérstaklega með hliðsjón af því að nánast ekkert sé fjallað um afleiðingar loftlínu á fasteignir í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Að auki telja kærendur að ekki hafi verið gætt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Í tilvitnaðri reglu sé svo fyrir mælt að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærendur benda á að með lagningu jarðstrengs frá Kúhallará að Brennimel megi ná sama markmiði og að er stefnt með fyrirhugaðri lagningu loftlínu, en sá kostur muni hafa nánast engin umhverfisáhrif. Þá verði og að teljast með öllu óviðunandi að Skipulagsstofnun skuli ekki með afgerandi hætti hafa gert upp á milli kosta.

Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að í tillögu að matsáætlun Sultartangalínu 3 hafi verið gerð tillaga um ákveðið svæði eða ?belti? sem metið yrði m.t.t. legu Sultartangalínu 3, m.a. eftir samráð við Skipulagsstofnun þar um á upphafsstigum málsins. Eftir að umhverfisáhrif innan ?beltisins? höfðu verið metin voru kynntir í matsskýrslu og lagðir fram til athugunar fjölmargir kostir á legu línunnar. Skipulagsstofnun telur því ljóst að ekki hafi skort upplýsingar um kosti í matsskýrslu og að stofnunin hafi í engu brugðist rannsóknarskyldu sinni hvað það varðar. Varðandi umfjöllun um kostnað við lagningu jarðstrengs gagnstætt beinum og óbeinum kostnaði við lagningu loftlínu, vísar Skipulagsstofnun til umfjöllunar í kafla 5.2.2 um landnotkun í hinum kærða úrskurði. Í þeim kafla kemur m.a. fram að Skipulagsstofnun telur ljóst að lagning jarðstrengs samkvæmt kostum D2+E3 muni hafa minnst áhrif á landnotkun. Skipulagsstofnun telur engar upplýsingar um áhrif framlagðra kosta á samfélag og landnotkun skorta til þess að unnt sé að skera úr um umhverfisáhrif hvers kosts fyrir sig. Frekari upplýsingar um beinan og óbeinan kostnað við lagningu jarðstrengs og loftlínu hefðu þannig ekki áhrif á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Varðandi rökstuðning vísar Skipulagsstofnun í umsögn sinni til kafla 5.2 í úrskurði stofnunarinnar þar sem fjallað er ítarlega um áhrif einstakra kosta á menn og samfélag, þ.á m. áhrif á landnotkun. Í kaflanum eru m.a. færð rök fyrir þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að á vestari hlutum línuleiðarinnar (D+E) hafi allir framlagðir loftlínukostir töluverð áhrif á landnotkun en mismikil eftir kostum og að ljóst sé að lagning jarðstrengs muni hafa minnst áhrif á landnotkun.

Skipulagsstofnun bendir ennfremur á að mikilvægt sé að greina á milli annars vegar umhverfisáhrifa framkvæmdar samkvæmt lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum og hins vegar skaða vegna fjárhagslegs tjóns einstaklinga eða lögaðila, svo sem vegna hlunninda eða réttindamissis. Þannig skuli umfjöllun um skaðabætur í formi greiðslu fyrir fjárhagslegt tjón eða umsaminna aðgerða til handa þeim sem verða fyrir tjóni af völdum framkvæmdar almennt ekki falla undir málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Varðandi meðalhófsregluna segir í umsögn Skipulagsstofnunar: ?Skipulagsstofnun bendir á að í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum er skorið úr um það hvort framlagðir kostir framkvæmdar hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eða ekki. Framkvæmdaraðili velur hins vegar fyrir hverjum framlagðra kosta hann sækir um framkvæmdaleyfi. Það er svo í höndum sveitarstjórna sem skipulagsyfirvalda og leyfisveitenda að marka stefnu um landnotkun og framkvæmdir, þ. á m. línuleiðir innan sveitarfélagsins og veita framkvæmdaleyfi. Skipulagsstofnun telur því niðurstöðu hins kærða úrskurðar vera í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fallist var á alla framkvæmdakosti þ.s. enginn þeirra var talinn hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Að velja einn framkvæmdakost öðrum fremur þegar enginn þeirra var talinn hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér hefði að mati stofnunarinnar verið ólögmætt og ekki í samræmi við hlutverk stofnunarinnar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum. ?

Í umsögn Landsvirkjunar er því mótmælt að matsskýrslan og önnur framlögð gögn hafi verið ófullnægjandi. Við matið hafi framkvæmdaraðili fylgt náið matsáætlun sem Skipulagsstofnun hafi samþykkt. Í matsskýrslu hafi verið lagt mat á áhrif allra kosta á þá landnotkun sem er til staðar skv. skipulagsáætlunum. Það falli hins vegar ekki undir mat á umhverfisáhrifum að meta hugsanleg áhrif á verðmæti eigna einstakra aðila. Landsvirkjun mótmælir jafnframt að Skipulagsstofnun hafi brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með úrskurði sínum. Bendir Landsvirkjun á að meðalhófsreglan gildir einnig gagnvart framkvæmdaraðila, að því leyti að stjórnvaldi er ekki heimilt að leggja á hann kvaðir sem eru óhæfilega íþyngjandi, t.d. vegna kostnaðar og styttri endingartíma mannvirkja.

Hvað varðar kæru Guðmundar Guðmundssonar þá bendir Landsvirkjun í umsögn sinni á að lagaákvæði um samráð og tillögurétt almennings þýða ekki að skylt sé að ganga að öllum kröfum einstakra aðila enda vandséð hvernig það verði gert þegar kröfurnar verði ekki samrýmdar.

Í athugasemdum HH-samtakanna og Svarfhólsskógar er því sérstaklega mótmælt að með mati á umhverfisáhrifum eigi ekki að leggja mat á áhrif framkvæmdar á verðmæti eigna einstakra aðila. Er í því sambandi vísað til þess að skv. j-lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eru bæði menn og efnisleg verðmæti sérstaklega tilgreind sem hluti samheitisins umhverfi, en meta eigi áhrif framkvæmda á þá þætti sem þar eru tilgreindir. Verði því ekki hjá því komist að meta áhrif framkvæmdar á eignir fólks.

3. Samanburður kosta - jarðstrengur/sæstrengur

Kærandi Guðmundur Guðmundsson telur að athugun í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði um kostnað vegna jarðstrengs sé ekki fullnægjandi og aðrar leiðir rafstrengs, t.d. yfir Hvalfjörð hafi ekki verið skoðaðar.

Í kærum Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl. kemur fram að kærendur telja samanburð kosta ófullnægjandi og vísa til 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem beinlínis sé lögð sú skylda á framkvæmdaraðila að gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Það sé ekki undir framkvæmdaraðila komið að ákveða hvaða kostir verði skoðaðir sérstaklega heldur beri honum að skoða alla raunhæfa kosti og bera þá saman. Af matskýrslu verði ráðið að framkvæmdaraðili hafi gert lauslega athugun á kostnaði við lagningu jarðstrengs frá Kúhallará að Brennimel. Virðist þar miðað við 10,5 km langan streng sem leiða myndi til 3,1 milljarðs króna kostnaðarauka. Benda kærendur á að umrædd vegalengd sé a.m.k. 2 km styttri en haldið er fram í matsskýrslu og lækki kostnaðurinn þá þegar um 600 milljónir. Kærendur vekja athygli á því að ekki hefur farið fram nein hlutlaus úttekt eða umfjöllun óháðs aðila á kostnaði við lagningu jarðstrengs. Hvergi sé reynt að leggja fjárhagslegt mat á það tjón á óspilltri náttúru sem hljótist af lagningu loftlínu með tilheyrandi slóðagerð, efnistöku og öðru jarðraski. Kærendur vekja athygli á að í úrskurði Skipulagsstofnunar sé staðfest að lagning jarðstrengs samkvæmt kosti D2+E3 muni hafa verulega minni umhverfisáhrif í för með sér en lagning loftlínu samkvæmt öðrum kostum. Muni lagning jarðstrengs lítil sem engin sjónræn áhrif hafa eða áhrif á landnotkun, ferðamennsku og útivist og einnig lítil áhrif á náttúrufar. Kærendurnir Svarfhólsskógur, Brynja Þorbjörnsdóttir og Þorvaldur Ingi Magnússon benda á að í öllu matsferlinu virðist aldrei hafa verið hugað að því hvort unnt væri að útvega raforku til stóriðju á Grundartanga með lagningu lína sunnan Hvalfjarðar og/eða með sæstreng yfir Hvalfjörð. Það sé þó tæknilega vel framkvæmanlegt þó að beinn og óbeinn kostnaður slíku samfara sé óljós.

Skipulagsstofnun telur í umsögn sinni að framkvæmdaraðili hafi í matskýrslu sinni afmarkað skýrt þá kosti sem hann lagði fram til athugunar og úrskurðar. Bendir stofnunin á að umfjöllun um matsáætlun er vettvangur ákvarðana um framkvæmdakosti sem skoða beri í mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur sig geta, með athugasemdum sínum í ákvörðun um tillögu að matsáætlun, lagt til breytingar á matsáætlun, m.a. breytingar sem fela í sér aukna umfjöllun um tiltekna þætti. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdraðili hafi í matsskýrslu uppfyllt matsáætlun og að ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem kalli á frekari umfjöllun um samanburð kosta.

Skipulagsstofnun bendir jafnframt á að í úrskurði stofnunarinnar hafi verið fallist á lagningu jarðstrengs og vísar til niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar, þar sem segir m.a.: ?Þá telur stofnunin að á hluta D-E hafi lagning jarðstengs samkvæmt leið D2-E3 verulega minni umhverfisáhrif í för með sér en lagning loftlínu samkvæmt framlögðum kostum.? Varðandi kostnað af lagningu jarðstrengs bendir Skipulagsstofnun á að mat á umhverfisáhrifum sé í höndum framkvæmdaraðila skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Við meðferð málsins hjá stofnuninni hafi engin gögn komið fram sem gáfu tilefni til að draga í efa upplýsingar í matsskýrslu um kostnað við lagningu jarðstrengs. Sjá einnig umsögn Skipulagsstofnunar í kafla 2. hér að framan.

Í umsögn Landsvirkjunar um þetta atriði segir:

?Landsvirkjun bendir á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er það skilgreint í tillögu að matsáætlun hvaða kostir verði teknir til umfjöllunar í matsskýrslu. Vegna fjölmargra tilmæla. m.a. frá HH-samtökunum, var jarðstrengslögn frá Kúhallará að Brennimel, sem er um 10,5 km vegalengd, meðal þeirra kosta sem lagðir voru fram í tillögu að matsáætlun. Skipulagsstofnun staðfesti það í niðurstöðu sinni um matsáætlun, 23. ágúst 2001. Sú hugmynd að skoða jarðstrengslögn frá vegþverun á Ferstikluhálsi að Brennimel, sem er um 2 km styttri leið en gert var ráð fyrir í matsáætlun, var fyrst kynnt í athugasemdum HH-samtakanna um matsskýrslu Landsvirkjunar, 12. júní 2002. Af eðlilegum ástæðum var því ekki unnt að fjalla um þann kost í matsskýrslu, og ekkert tortryggilegt við það, öndvert við það sem gefið er í skyn í kærunni. Í svarbréfi Landsvirkjunar til Skipulagsstofnunar, 28. júní 2002, var minnst á þessa hugmynd HH-samtakanna um styttingu jarðstrengsins, en ekki fjallað um hana að öðru leyti, enda breytir hún ekki því að kostnaðarauki við jarðstrengslögn verður eftir sem áður óheyrilegur, og þessi kostur því óásættanlegur.

Í drögum að tillögu að matsáætlun, frá 30. maí 2001, sem send voru inn á hvert heimili í Hvalfjarðarstrandarhreppi, var getið um nokkra aðra kosti sem í ljós kom að þóttu ekki raunhæfir, og voru þeir því felldir út í tillögu að matsáætlun. Ljóst er að í þessari framkvæmd voru óvenju margir kostir skoðaðir og kynntir í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Hagsmunaaðilum þar gafst því mjög gott færi á að nýta sér lögbundinn rétt sinn til þess að hafa áhrif á matsáætlun.

Mati á umhverfisáhrifum er markaður rammi með matsáætlun þar sem m.a. kemur fram um hvaða kosti verður fjallað. Skipulagsstofnun samþykkir matsáætlun. Matsskýrsla Landsvirkjunar er unnin innan þessa ramma og þar er öllum skilyrðum laga og reglugerða um mat á umhverfisáhrifum fullnægt. Umfjöllun um valkosti er því á allan hátt gerð með lögmætum hætti. Landsvirkjun ítrekar að fylgt var öllum skilyrðum laga hvað varðar samanburð á mismunandi kostum og því er fullyrðingum í kærum um að þar skorti á, vísað á bug. Kærendur hafa uppi kröfur um enn umfangsmeira og kostnaðarsamara mat. Landsvirkjun bendir á að umfang mats á umhverfisáhrifum Sultartangalínu 3 stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð, og varar við því að umfang mats á umhverfisáhrifum hér á landi verði úr takt við það sem tíðkast erlendis.?

Fram kemur einnig í umsögn Landsvirkjunar að kostnaður við jarðstrengi sé fyrst og fremst háður spennunni. Þannig séu 11 kV jarðstrengir ódýrari en loftlína og 66 kV strengir álíka dýrir og loftlína, sbr. töflu 3.4-1 á bls 43 í matsskýrslu. Þegar spennan sé komin í 220 kV, enn frekar ef hún er 400 kV, þá séu jarðstrengir ekki lengur raunhæfir vegna kostnaðar, nema við sérstakar aðstæður á stórborgum, þar sem loftlínum verður ekki komið vegna þéttleika byggðar. Landsvirkjun segir það rétt að kostnaður við jarðstrengi hafi lækkað nokkuð á undanförnum áratugum. Hins vegar sé óvíst hver þróunin verður í þeim efnum, og óraunhæft að ræða um jarðstrengslögn hér og nú út frá ímyndaðri kostnaðarþróun eftir nokkra áratugi.

Hvað snertir ábendingu kærenda um hlutlausa úttekt á kostnaði við lagningu jarðstrengs, vill Landsvirkjun taka fram að byggt er á bestu fáanlegu upplýsingum erlendis frá, og að niðurstöður Landsvirkjunar séu mjög sambærilegar við niðurstöður sem aðrir óháðir aðilar hafa komist að um sambærileg verk, eins og fram komi í matsskýrslu. Kærendur hafi enga ástæðu til að rengja upplýsingar Landsvirkjunar um þetta efni. Hvað varðar þá fullyrðingu í kærum að jarðstrengur hafi nánast engin umhverfisáhrif, bendir Landsvirkjun í umsögn sinni á að 400 kV jarðstreng fylgi áberandi endavirki við Kúhallará eða á Ferstikluhálsi, og stórt og mjög áberandi mannvirki til launaflsjöfnunar, sem yrði í miðri Saurbæjarhlíð. Einnig vanmeti kærendur það jarðrask sem fylgir strenglögninni.

Að auki kemur fram í umsögn Landsvirkjunar að ending jarðstrengs er mun skemmri en loftlínu, og þarf þá að leggja nýjan jarðstreng samhliða hinum eldri, með tilheyrandi raski. Skemmri ending magni upp kostnaðaráhrif jarðstrengs þegar upp er staðið og ekki sé tekið mið af því í matsskýrslu. Því megi segja að kostnaður við lagningu jarðstrengs sé vanmetinn þar. Landsvirkjun varar við því fordæmi sem það myndi gefa gagnvart loftlínukerfinu almennt, sem sé hin venjulega flutningskerfi fyrir raforku hérlendis, ef það yrði skilyrt að leggja jarðstreng á þessum kafla.

Hvað varðar hugsanlega lagningu línu sunnan Hvalfjarðar og/eða sæstrengs yfir Hvalfjörð bendir Landsvirkjun í umsögn sinni á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skuli koma slíkum hugmyndum á framfæri þegar tillaga að matsáætlun er kynnt. Ekki sé ljóst hvernig Svarfhólsskógur (félagið) hugsar sér línulögn sunnan Hvalfjarðar, né hvort eða að hve miklu leyti hún fylgi núverandi mannvirkjabeltum, sem leitast er við að gera með aðalkosti Landsvirkjunar. Bent er á að kostnaður við 400 kV sæstreng er af svipaðri stærðargráðu og við jarðstreng.

Í umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telur óraunæft vegna kostnaðar og af tæknilegum ástæðum að leggja svo langan jarðstreng eins og krafist er með svo hárri spennu eins og hér um ræðir.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram að stofnunin telur ekkert hafa komið fram í kærum varðandi upplýsingar um áhrif rafsegulsviðs eða hljóðmengun af háspennulínum, sem breyti fyrri umsögn stofnunarinnar eða gefi ástæðu til að breyta úrskurði Skipulagsstofnunar.

Grímsnes og Grafningshreppur tekur í umsögn sinni undir að lagning línunnar verði í jörðu og í byggð. Bendir sveitarstjórnin á að samþykki hennar nær eingöngu til umráðasvæðis sveitarfélagsins á afrétti.

Fram kemur í umsögn Hvalfjarðarstrandarhrepps að hreppsnefndin hefur frá fyrstu tíð verið því fylgjandi að Sultartangalína 3 verði lögð í jarðstreng í byggð en ella verði valin sú leið fyrir línuna að hún valdi sem minnstum spjöllum.

Í athugasemdum Svarfhólsskógar (félagsins) kemur fram að það sé ekki hlutverk sumarbústaðaeigenda í Borgarfirði að koma fram með hugmyndir í matsferlinu um sæstreng. Það sé hlutverk framkvæmdaraðila að kynna í mati á umhverfisáhrifum alla þá kosti sem til greina geta komið. Í engu hafi verið lagt mat á umhverfisáhrif sæstrengs sem þó sé fyllilega raunhæfur kostur. Fullnægi því matið ekki ákvæðum IV. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum.

4. Umhverfisáhrif

Í kærum Guðjóns Ólafs Jónssonar kemur fram að kærendur telja að í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar skorti verulega á umfjöllun um áhrif lagningar loftlínu á menn, samfélag, atvinnu og efnisleg verðmæti. Hafi afleiðingin orðið sú að fallist hafi verið á kosti við lagningu Sultartangalínu 3, sem fyrirsjáanlega komi til með að ónýta og skemma eigur og atvinnumöguleika kærenda og fjölda annarra, þrátt fyrir að aðrir kostir sem minni áhrif hafi bjóðist.

Guðmundur Guðmundsson heldur því fram í kæru sinni að hljóð- og sjónmengun af háspennulínumöstrum sé mikil og því séu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar mikil fyrir þá sem búa í nágrenninu.

Að mati sömu kærenda mun fyrirhuguð framkvæmd hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Sérstaklega er mótmælt því mati Skipulagsstofnunar sem fram kemur í hinum kærða úrskurði að stór hluti af lagningu háspennulína séu sjónræn áhrif sem teljist að verulegu leyti afturkræf þótt líklegt megi teljast að mannvirkið standi til langs tíma. Benda kærendur á að umræddri háspennulínu sé ætlaður langur lífaldur eða vel ríflega mannsaldur og séu því varanleg frá sjónarhóli kærenda. Áhrifin séu í þessum skilningi óafturkræf og í öllu tilliti umtalsverð hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Telja kærendur að hinn þröngi skilningur Skipulagsstofnunar sé rangur og í andstöðu við tilgang og eðli laga um mat á umhverfisáhrifum og tilskipana Evrópuráðsins nr. 85/377/EBE og 97/11/EB sem lögin byggja á.

Skipulagsstofnun vísar í umsögn sinni til umsagnar Hollustuverndar ríkisins um matsskýrslu Sultartangalínu 3 þar sem fram komi að skaðleg áhrif raf- og segulsviðs séu ekki fullvís og engar reglur eða reglugerðir séu í gildi hérlendis sem fjalli um þennan þátt. Þá bendir stofnunin á að í framlögðum gögnum hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að áhrif af raf- og segulsviði háspennulína séu minni af loftlínum en jarðstrengjum.

Í umsögn Landsvirkjunar er bent á að við vinsun valkosta og mat á umhverfisáhrifum Sultartangalínu 3 hafi verið litið sérstaklega til hagsmuna íbúa og landeigenda í Hvalfjarðarstrandarhreppi og leitast við að finna þær lausnir sem hefðu minnst áhrif í för með sér í alla staði. Því er og vísað á bug í umsögninni að umfjöllun um ofangreinda þætti hafi verið ófullnægjandi. Óvenju mikið samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila á svæðinu, og því sé ekki rétt að ekki hafi verið tekið tillit til fjárhagslegra verðmæta fjölmargra íbúa og sumarbústaðareigenda í hreppnum.

Að auki kemur fram í umsögn Landsvirkjunar að fyrirtækið sé ósammála framangreindum lagatúlkunum kærenda. Áhrif á einstaklingshagsmuni séu hvergi hluti af mati á umhverfisáhrifum framkvæmda og að slík túlkun eigi ekki stoð í þeim tilskipunum ESB sem vitnað er til.

Hollustuvernd ríkisins segir í umsögn sinni að ekkert í kæru Guðmundar Guðmundssonar um áhrif rafsviðs eða hljóðmengun af völdum háspennulína gefi tilefni til að stofnunin breyti fyrri umsögn sinni eða gefi ástæðu til að breyta úrskurði Skipulagsstofnunar.

5. Kröfur vegna Sultartangalínu 1

Guðmundur Guðmundsson telur í kæru sinni að Skipulagsstofnun hefði átt að setja það skilyrði í úrskurði sínum að Sultartangalína 1 verði tekin niður. Telur kærandi að um mótvægisaðgerð sé að ræða vegna neikvæðra áhrifa háspennulínumastra og að hans mati verður Sultartangalína 1 óþörf eftir nokkur ár.

Í kærum Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl. er bent á að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir fyrirhugaðri færslu Brennimelslínu 1 frá Ferstiklu að Brennimel sem sögð er mótvægisaðgerð við fyrirhugaða loftlínu. Að mati kærenda er rangnefni að tala um færslu línunnar sem mótvægisaðgerð þar sem hún er liður í uppbyggingu línunnar með margfaldri flutningsgetu miðað við það sem nú er. Kærendur benda á að Sultartangalína 1 liggur nú um Hvalfjarðarstrandarhrepp í Svínadal sunnan Dragháls en norðan Geitabergsvatns, Glammastaðavatns og Kambshóls, og þaðan í suður þvert í gegnum Svarfhólsskóg og um land Kalastaða og Kalastaðakots að Brennimel. Kærendur benda á að með tilfærslu Brennimelslínu 1 og lagningu Sultartangalínu 3 sem loftlínu samsíða henni munu að óbreyttu liggja þrjár háspennulínur um Hvalfjarðarstrandahrepp í næsta nágrenni við kærendur. Hver og ein þessara lína ein og sér og ekki síður allar saman hafi umtalsverð áhrif á umhverfi kærenda. Telja kærendur að engin þörf verði fyrir Sultartangalínu 1 þegar uppbyggingunni er lokið. Myndi niðurrif þeirrar línu vega mjög upp á móti fyrirhuguðum loftlínum, þ.e. Sultartangalínu 3 og Brennimelslínu 1 að lokinni færslu. Mótmæla kærendur þeim skilningi Skipulagsstofnunar að stofnuninni sé óheimilt að skilyrða framkvæmdir við Sultartangalínu 3 því að gerðar yrðu breytingar á Sultartangalínu 1 þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir slíkum breytingum í matsáætlun og umhverfisáhrif þeirra hafi því ekki verið metin.

Skipulagsstofnun vitnar í umsögn sinni til kafla 5.2.6. í úrskurði stofnunarinnar, þar sem m.a. kemur fram að umhverfisáhrif af tilfærslu Sultartangalínu 1 hafi ekki verið metin. Jafnframt segir í umsögninni og úrskurðinum að ekki hafi komið fram við málsmeðferð stofnunarinnar rök sem sýni fram á að bygging Sultartangalínu 3, með færslu Brennimelslínu 1 og öðrum mótvægisaðgerðum, hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sem óhjákvæmilega krefjist slíkra breytinga. Í athugasemdum við tillögu að matsáætlun hafi verið bent á að gera ætti framkvæmdaraðila að fjarlægja Sultartangalínu 1 áður en leyfi yrði veitt fyrir framkvæmdum vegna Sultartangalínu 3. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun hafi stofnunin bent á nauðsyn þess að í matskýrslu yrði skýrt frekar við hvaða aðstæður framkvæmdaraðili hyggðist færa Sultartangalínu 1 og Brennimelslínu 1, sem mótvægisaðgerðir eða af öðrum ástæðum. Það hafi hins vegar verið ljóst frá upphafi að Landsvirkjun ætlaði ekki að leggja færslu Sultartangalínu 1 fram sem kost. Hins vegar hafi framkvæmdaraðili afmarkað skýrt í matsskýrslunni þá kosti sem hann lagði fram til athugunar og úrskurðar og telur Skipulagsstofnun því að framkvæmdaraðili hafi farið eftir fyrirmælum stofnunarinnar í ákvörðun um tillögu að matsáætlun.

Varðandi fordæmi fyrir slíkri tilfærslu segir í umsögninni: ?Skipulagsstofnun bendir á að í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum 132 kV Nesjavallalínu frá 23. júlí 1997 var það ekki gert að skilyrði að Sogslína yrði tekin niður. Hins vegar lá þá fyrir skrifleg yfirlýsing Landsvirkjunar, undirrituð af forstjóra fyrirtækisins, aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra verkfræði- og framkvæmdasviðs, um að Sogslína 1 frá Korpu að spennistöð við Jórukleif yrði fjarlægð þegar Nesjavallalína yrði tekin í rekstur.?

Í umsögn Landsvirkjunar segir: ?Landsvirkjun ákvað að útfæra Sultartangalínu 3 og breytinguna á Brennimelslínu 1 sem 400 kV línur til þess að geta haldið fjölgun háspennulína í lágmarki, þrátt fyrir aukna orkunotkun á Suðvesturlandi í náinni framtíð. Áður en til spennuhækkunar getur komið þarf að endurbyggja Brennimelslínu 1 sem 400 kV línu frá Ferstikluhálsi til höfuðborgarsvæðisins. Verulegur kostnaður er því samfara að spennuhækka kerfið í 400 kV, og verður því reynt að reka kerfið á 220 kV eins lengi og unnt er. Vegna þessa, og óvissu um þróun orkumarkaðar, er ekkert hægt að fullyrða um hvenær 400 kV kerfið tekur við sem aðalorkukerfi á suðvesturhorni landsins. Þá fyrst, þegar hafinn er 400 kV rekstur, þarf að meta sjálfstætt þörfina fyrir Sultartangalínu 1, en fram til þess tíma verður línan í fullu gildi.?

Síðan segir í umsögninni: ?Ítrekað er að krafa kærenda um að úrskurður verði bundinn því skilyrði að Sultartangalína 1 verði fjarlægð í Hvalfjarðarstrandarhreppi stendur í engu sambandi við meginmarkmiðið með framkvæmdinni, þ.e.a.s. að koma meiri orku en unnt er með Sultartangalínu 1 einni, frá virkjunum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu að aðveitustöðinni á Brennimel. Hér er verið að fara fram á nýja og óskylda framkvæmd. Skilyrði um niðurrif Sultartangalínu 1 á einhverjum óljósum tímapunkti í framtíðinni er einfaldlega ólögmætt þar sem ekki verður sýnt fram á að framkvæmdaraðili hafi það á valdi sínu að standa við skilyrðið. Skilyrði fyrir framkvæmdum verða að vera skýr svo unnt sé að meta áhrif þeirra á endanlega ákvörðun um hvort ráðist verði í þá framkvæmd sem hér var lögð fram til mats.?

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið bendir á að Sultartangalína 1 muni um alllangt árabil enn sinna mikilvægu hlutverki við raforkuflutning til stóriðjufyrirtækjanna í Hvalfirði og til höfuðborgarsvæðisins í heild.

Í athugasemdum HH-samtakanna og Svarfhólsskógar segir: ?Varðandi umsögn Landsvirkjunar um þrautavarakröfu stefnda verður ekki hjá því komist að benda á að starfsmenn Landsvirkjunar hafa marglýst því yfir að framkvæmdaraðili gæti hæglega tekið niður eina 220 kV línu fengi hann að leggja eina 400 kV um sveitina. Eins og málið horfir nú við mun framkvæmdaraðili leggja tvær 400 kV línur hlið við hlið um sveitina og hafa að auki eina 220 kV. Verður flutningsgetan um tvær 400 kV og eina 220 kV línu því margföld miðað við það sem áður var um tvær 220 kV línur og langt umfram það sem þörf er fyrir í nútíð og framtíð.? Að mati kæranda er það fyrirsláttur hjá framkvæmdaraðila að halda því fram að ekki sé unnt að skilyrða framkvæmdina við það að Sultartangalína 1 verði fjarlægð úr hreppnum og er bent á að framkvæmdaraðili telji sjálfur að færsla Brennimelslínu 1 sé mótvægisaðgerð við Sultartangalínu 3.

IV. Niðurstaða

1.

Í umsögn Landsvirkjunar kemur fram að fyrirtækið fellst á að farin verði leið C3 frá botni Grafardals að Ferstikluhálsi. Ráðuneytið lítur því svo á að fallist hafi verið á þær kröfur sem gerðar voru í kæru Böðvars Jónssonar og verður því ekki fjallað um þær frekar í úrskurði þessum.

2.

Kærendur telja að Skipulagsstofnun hafi í úrskurði sínum brugðist rannsóknarskyldu sinni þar sem samanburður á kostnaði við lagningu jarðstrengs og loftlínu hafi ekki verið tekinn til skoðunar með fullnægjandi hætti. Einnig hafi aðrar leiðir, s.s. lagning sæstrengs yfir Hvalfjörð ekki verið skoðaðar. Jafnframt telja kærendur að rökstuðningur hins kærða úrskurðar sé ófullnægjandi hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á menn og samfélag, auk þess sem ekki hafi verið farið eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Eins og fram kemur í lið 3 hér á eftir telur ráðuneytið að ekki hafi verið efni til að draga í efa þær upplýsingar sem fram koma í matsskýrslu og byggja á sérfræðiskýrslu Verkfræðistofnunnar AFL um kostnað af lagningu jarðstrengs. Jafnframt kemur þar fram að ráðuneytið telur að fullnægjandi grein hafi verið gerð í matsskýrslu fyrir helstu kostum við lagningu Sultartangalínu 3. Ráðuneytið fellst því ekki á að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum Sultartangalínu 3.

Í kafla 5.2. í úrskurði Skipulagsstofnunar er fjallað ítarlega um áhrif Sultartangalínu 3 á menn og samfélag. Eins og fram kemur í lið 4 hér á eftir telur ráðuneytið að í úrskurði Skipulagsstofnunar sé fjallað á fullnægjandi hátt um þau áhrif framkvæmdarinnar. Jafnframt kemur þar fram að ráðuneytið telur að það falli utan sviðs laga um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um hugsanlegan bótarétt vegna fjárhagstjóns einstaklinga eða lögaðila af völdum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Ráðuneytið fellst því ekki á þá fullyrðingu kærenda að rökstuðningi sé áfátt í úrskurði Skipulagsstofnunar.

Kærendur telja að meðalhófsregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi ekki verið virt við málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Ráðuneytið telur að varðandi umfjöllun um meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verði að hafa í huga að í mati á umhverfisáhrifum er fjallað um margs konar sjónarmið þ.e. annars vegar sjónarmið framkvæmdaraðila um fyrirhugaðar framkvæmdir svo sem. um markmið framkvæmdarinnar, kostnað við framkvæmd matsins, kostnað við framkvæmdina þ.m.t. mótvægisaðgerðir og hins vegar sjónarmið um verndun náttúrunnar og annarra umhverfisþátta þ.m.t. landnotkun landeiganda eftir því sem tilefni er til. Ráðuneytið lítur svo á að framkvæmdaraðili hafi metið samfélagslega þörf fyrir framkvæmdina og að markmið hennar sé lögmætt. Ráðuneytið bendir á að stjórnvald er bundið af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga gagnvart aðila máls við töku stjórnsýsluákvörðunar, en framkvæmdaraðili nýtur stöðu slíks aðila við meðferð mats á umhverfisáhrifum hjá Skipulagsstofnun og við kærumeðferð ráðherra. Fram hefur komið að aukakostnaður við lagningu jarðstrengs í stað loftlínu nemur milljörðum króna og væri því afar íþyngjandi fyrir framkvæmdaraðila að binda lagningu línunnar við kost D2+E3. Eins og fram kemur í lið 4 hér á eftir telur ráðuneytið að lagning Sultartangalínu 3 með loftlínu á D og E hluta leiðarinnar hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Ráðuneytið telur því ekki forsendur til að leggjast gegn þeim kostum þrátt fyrir að lagning jarðstrengs hafi í för með sér minni sjónræn áhrif og minni áhrif á landnotkun. Að mati ráðuneytisins er úrskurður Skipulagsstofnunar því í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

3.

Kærendur telja samanburð kosta í matsskýrslu ófullnægjandi.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, skal í tillögu að matsáætlun m.a. lýsa fyrirhugaðri framkvæmd, framkvæmdarsvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma. Framkvæmdaraðili skal kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun. Síðan er í 9. gr. laganna fjallað um efni matsskýrslu. Þar segir m.a. í 2. mgr. að ávallt skuli gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Það er í höndum framkvæmdaraðila í upphafi að gera grein fyrir þeim möguleikum sem hann telur til greina koma og þjóna þeim markmiðum sem stefnt er að með framkvæmdinni. Telji Skipulagsstofnun eða aðrir aðilar sem kunna að gera athugasemdir eða veita umsögn um matskýrslu, að fleiri kostir séu mögulegir en þeir sem framkvæmdaraðili bendir á, getur Skipulagsstofnun beint því til framkvæmdaraðila í ákvörðun um tillögu að matsáætlun, að gerð sé grein fyrir þeim kostum í matsskýrslu. Að mati ráðuneytisins bera gögn málsins það með sér að framkvæmdaraðili hefur kannað fjölmarga möguleika á legu Sultartangalínu 3 í Hvalfjarðarstrandarhreppi og kynnt hagsmunaaðilum í matsferlinu. Niðurstaða þeirra athugana var síðan kynnt í matsskýrslu þar sem gerð var grein fyrir tveimur kostum á D hluta leiðarinnar og fimm á E hluta. Telur ráðuneytið að í matsskýrslu sé gerð ítarleg grein fyrir helstu kostum fyrir lagningu Sultartangalínu 3. Fram kemur í umsögn Landsvirkjunar að kostnaður við lagningu sæstrengs sé sambærilegur við kostnað af lagningu jarðstrengs. Ráðuneytið telur því að ekki sé um ágalla að ræða á matsskýrslu þó ekki sé gerð grein fyrir þeim kosti þar.

Í kafla 3.4.3. í matsskýrslu er gerð grein fyrir þeim kosti að leggja jarðstreng á 10-11 km kafla, frá Kúhallará að Brennimel (kostur D2+E3). Þar kemur fram að heildarkostnaður af lagningu slíks jarðstrengs er rúmlega 3,5 milljarðar króna. Jafnframt kemur þar fram að ef valinn yrði kostur D2+E3 myndi heildarkostnaður af lagningu Sultartangalínu 3 aukast úr 4,4 milljörðum í 7,5 milljarða, að teknu tilliti til þess sem sparast vegna styttingar loftlínunnar. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eykst kostnaður við lagningu jarðstrengs eftir því sem spennan er hærri. Áætlar Landsvirkjun að kostnaður við lagningu jarðstrengs með 400 kV spennu, sé 8-11 sinnum meiri en kostnaður við lagningu loftlínu. Til samanburðar kemur fram í matsskýrslu að kostnaðurinn er 2,5-4,0 sinnum meiri ef spenna jarðstrengs er 220 kV. Í kæru Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl. er bent á mögulega styttingu jarðstrengsleiðarinnar um 2 km og þar með 600 milljón kr. minni kostnað, reiknað skv. forsendum Landsvirkjunar.

Áætlun Landsvirkjunar um kostnað af lagningu jarðstrengs byggir á athugun Verkfræðistofnunnar AFL frá janúar 2002 sem fylgir matsskýrslunni í viðauka B8 og er kostnaður áætlaður út frá upplýsingum um kostnað af fyrirhugaðri lögn jarðstrengs í Lundúnum. Vegna þessa mikla kostnaðarauka kemur kostur D2+E3 ekki til álita sem valkostur fyrir Sultartangalínu 3 að mati Landsvirkjunar.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 23. nóvember 2000 um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalslína 3 og 4 kemur fram að kostnaður við lagningu jarð- og sæstrengja er margfaldur á við kostnað af lagningu loftlínu. Í greinargerð sem verkfræðingarnir Egill Skúli Ingibergsson og Helgi Þór Helgason gerðu fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið þann 4. apríl 2001 kemur fram að þrátt fyrir stöðuga þróun í gerð og framleiðslu jarðstrengja og samsetningaraðferðum sem geri notkun þeirra hagkvæmari, megi ekki búast við neinni byltingu á því sviði á næstu árum. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafa ekki orðið miklar breytingar hvað þetta varðar síðustu missiri. Í nýlegu norsku umhverfismati vegna 320 kV (420 kV) háspennulínu milli Klæbu og Viklandet er gerð grein fyrir möguleikum á að leggja hluta leiðarinnar í jarð- eða sæstreng og kemur þar fram að um margfaldan kostnað er að ræða miðað við loftlínu. Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu því ekki ástæðu til að draga í efa þær upplýsingar sem fram koma í matsskýrslu og sérfræðiskýrslu Verkfræðistofnunnar AFL um kostnað af lagningu jarðstrengs. Í matsskýrslu er gerð grein fyrir umhverfisáhrifum jarðstrengslagnar (kost D2+E3). Skipulagsstofnun fjallaði um og féllst í úrskurði sínum á alla framlagða kosti framkvæmdaraðila, þar á meðal kost D2+E3 um jarðstreng, þar sem enginn þeirra hefði að mati stofnunarinnar í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Ráðuneytið fellst því ekki á þá fullyrðingu kærenda að umfjöllun í matsskýrslu um samanburð kosta sé ófullnægjandi.

Ráðuneytið telur að ekki séu fyrir hendi forsendur til að gera kröfu um að framkvæmdaraðili meti sérstaklega til fjár þau náttúrugæði sem verða fyrir áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd, sbr. úrskurður ráðuneytisins frá 20. desember 2001, um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.

4.

Kærendur telja að í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar skorti verulega á umfjöllun um áhrif lagningar loftlínu á menn, samfélag, atvinnu og efnisleg verðmæti. Guðmundur Guðmundsson telur í kæru sinni að hljóð- og sjónmengun af háspennulínumöstrum sé mikil og því séu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar mikil fyrir þá sem búa í nágrenninu. Að mati kærenda mun lagning Sultartangalínu 3 skv. kostum D1, E1, E2, E4 og E5 (loftlína) á D og E hlutum fyrirhugaðs línustæðis, hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér vegna áhrifa á menn, samfélag, atvinnu og efnisleg verðmæti.

Í kafla 5.2. í úrskurði Skipulagsstofnunar er gerð grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á menn og samfélag. Þar er sérstaklega fjallað um sjónræn áhrif framkvæmdarinnar, áhrif á landnotkun, áhrif á útivist og ferðamennsku, hljóðmengun, rafsvið og seglulsvið. Fram kemur að Sultartangalína 3 hafi einkum áhrif á landnotkun í Skorradals- og Hvalfjarðarstrandarhreppum vegna byggingarbannsbeltis í námunda við línurnar og sjónrænna áhrifa. Skipulagsstofnun telur að á vestari hlutum línuleiðarinnar (D+E) hafi allir framlagðir loftlínukostir töluverð áhrif á landnotkun en þó mismikið eftir kostum. Á tveimur stöðum fari línan skv. valkosti framkvæmdaraðila yfir skilgreind en óbyggð frístundahúsasvæði, annað í Lambadal en hitt í Seldal í landi Kalastaðakots. Á hefðbundnum landbúnaðarsvæðum í byggð megi gera ráð fyrir litlum áhrifum. Færsla á Brennimelslínu 1 úr Saurbæjarhlíð losi um takmarkanir á landnotkun sem sú lína hafi haft í för með sér á Hvalfjarðarströnd. Skipulagsstofnun telur ljóst að lagning jarðstrengs skv. kostum D2+E3 muni hafa minnst áhrif á landnotkun. Í kærum Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl. kemur fram að kærendur telja að Sultartangalína 3 muni hafa veruleg áhrif á nýtingu og verðmæti eigna þeirra. Ráðuneytið telur að í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar sé fjallað á fullnægjandi hátt um þau áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd mun hafa á menn, samfélag, atvinnu og efnisleg verðmæti.

Ekki eru í gildi hér á landi lög eða reglugerðir um viðmiðunargildi raf- og segulsviðs en fram kemur í matskýslu að Landsvirkjun mun taka mið af og uppfylla ákvæði evrópsks Cenelec staðals við hönnun línunnar. Fram kemur í matskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar að hljóðstig af völdum framkvæmdarinnar verði undir viðmiðunarmörkum sem sett eru fram í reglugerð, nr. 933/1999, um hávaða. Ráðuneytið telur að fullnægjandi grein sé gerð fyrir framangreindum umhverfisáhrifum í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar.

Að mati ráðuneytisins fellur það utan sviðs laga um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um hugsanlegan bótarétt vegna fjárhagstjóns einstaklinga eða lögaðila af völdum fyrirhugaðrar framkvæmdar, sbr. úrskurður ráðuneytisins frá 5. júlí 2002, um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar. Ráðuneytið telur að umhverfisáhrif Sultartangalínu 3 séu ekki umtalsverð í skilningi l. liðar 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og því séu ekki forsendur til að leggjast gegn framkvæmdinni á grundvelli umtalsverðra umhverfisáhrifa, sbr. 11. gr. laganna.

5.

Kærendur krefjast þess að Sultartangalína 1 verði fjarlægð úr Hvalfjarðarstrandarhreppi.

Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að markmið framkvæmdarinnar sé að koma meiri orku en unnt er með Sultartangalínu 1 einni, frá virkjunum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu að aðveitustöðinni á Brennimel. Ákveðið hafi verið að útfæra Sultartangalínu 3 og breytinguna á Brennimelslínu 1 sem 400 kV línur til þess að geta haldið fjölgun háspennulína í lágmarki, þrátt fyrir aukna orkunotkun á Suðvesturlandi í náinni framtíð. Áður en til spennuhækkunar komi þurfi að endurbyggja Brennimelslínu 1 sem 400 kV línu frá Ferstikluhálsi til höfuðborgarsvæðisins. Vegna kostnaðar við spennuhækkun kerfisins verði reynt að reka það á 220 kV spennu eins lengi og unnt er. Vegna þessa og óvissu um þróun orkumarkaðar sé ekki hægt að fullyrða hvenær 400 kV kerfið tekur við sem aðalorkukerfi á suðvesturhorni landsins. Þá fyrst verði að meta sjálfstætt þörfina fyrir Sultartangalínu 1, en þangað til verði línan í fullu gildi. Landsvirkjun telur því ekki mögulegt að fallast á frekari færslu eða niðurrif á Sultartangalínu 1 en kynnt er í matsskýrslu.

Skipulagsstofnun telur í úrskurði sínum að sjónræn áhrif og áhrif á landnotkun, ferðamennsku og útivist verði veigamest umhverfiáhrifa við lagningu Sultartangalínu 3. Eins og fram kemur í lið 5 hér að framan telur ráðuneytið að þau áhrif séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Af svörum framkvæmdaraðila er ljóst að full þörf er fyrir Sultartangalínu 1 næstu árin. Áður en til niðurrifs hennar getur komið þarf að endurbyggja Brennimelslínu 1 og meta umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar. Með uppbyggingu 400 kV flutningskerfis Landsvirkjunar margfaldast flutningsgeta þess og því gæti í framtíðinni skapast svigrúm til þess að fjarlægja eldri línur á borð við Sultartangalínu 1. Með hliðsjón af umhverfisáhrifum Sultartangalínu 3, óvissu um þróun orkumarkaðar og framtíðarhlutverk Sultartangalínu 1, telur ráðuneytið ekki forsendur til að setja framkvæmdinni skilyrði um niðurrif Sultartangalínu 1.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að taka til greina kröfur kærenda og er úrskurður Skipulagsstofnunar frá 19. júlí 2002 staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 19. júlí 2002 um mat á umhverfisáhrifum 400 kV háspennulínu, Sultartangalínu 3, frá tengivirki við Sultartangastöð að aðveitustöð Landsvirkjunar á Brennimel á Hvalfjarðarströnd er staðfestur.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta