Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 03080089

Grein

Reykjavík, 27. apríl 2004

Tilvísun: UMH03080089/10-02-0603

SA/--

Hinn 27. apríl 2004, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu bárust stjórnsýslukærur Félags sumarbústaðaeigenda Lónsholti, dags. 24. september 2003, Kjartans Ágústssonar, eiganda Löngumýrar á Skeiðum, dags. 23. september 2003, Jörundar Gaukssonar, f.h. eigenda jarðarinnar Herríðarhóls, dags. 23. september 2003, ferðamálafulltrúa Villingaholtshrepps, dags. 21. september 2003 og Valgarðs Briem, hrl. f.h. Marteins Winkler, Dvergabakka í Ásahreppi vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 19. september 2003 um mat á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar í Þjórsá allt að 150 MW og breyting á Búrfellslínu 2.

Í hinum kærða úrskurði var fallist á fyrirhugaða framkvæmd miðað við lónshæðir í 50 metra og 51 metra hæð yfir sjávarmáli ásamt breytingu á Búrfellslínu 2 með eftirtöldum skilyrðum:

„1. Framkvæmdaraðili endurheimti votlendi á Suðurlandi sem er a.m.k. til jafns að flatarmáli og það votlendi sem raskast eða verður fyrir áhrifum við fyrirhugaðar framkvæmdir í samráði við hlutaðeigandi landeigendur og sveitarstjórnir. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili bera áætlun um endurheimt votlendisins undir Umhverfisstofnun.

2. Framkvæmdaraðili græði upp öll haugsvæði vegna breytinga á farvegi ofan lóns og móti land á haugsvæðum í samráði við Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins. Ennfremur vakti framkvæmdaraðili fyrirhuguð haugsvæði árlegs uppdælingarefnis með tilliti til fokhættu og grípi til mótvægisaðgera til að hindra fok frá haugsetningarsvæðum. Bera þarf vöktunaráætlun undir Landgræðslu ríkisins.

3. Framkvæmdaraðili vakti öldurof og eyðingu gróðurs á ströndum lóns í 10 ár eftir að það verður tekið í notkun og hafi samráð við sveitarstjórnir, Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnun um mótvægisaðgerðir verði þeirra þörf. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili bera áætlun um vöktun undir Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins.

4. Áður en til framkvæmda kemur þarf framkvæmdaraðili að standa fyrir þeim viðbótarrannsóknum um grunnástand lífríkis í Þjórsá sem lagðar eru til í sérfræðiskýrslu Veiðimálastofnunar og raktar eru í kafla 4.3.3 í þessum úrskurði. Í ljósi niðurstaðna þessara rannsókna þarf framkvæmdaraðili að útfæra nánar og grípa til þeirra mótvægisaðgerða sem lagðar eru til í fyrrnefndri sérfræðiskýrslu Veiðimálastofnunar. Að loknum framkvæmdum þarf framkvæmdaraðili að fara að þeim tillögum að vöktun sem fram koma í sérfræðiskýrslunni og koma fram í kafla 4.3.3 þessa úrskurðar. Vöktun þarf að standa yfir í a.m.k. 10 ár frá því að starfsemi virkjunar hefst. Viðbótarrannsóknir, mótvægisaðgerðir og vöktun verði unnin í samráði við og borin undir veiðimálastjóra.

5. Framkvæmdaraðili fari að tillögum Fornleifaverndar ríkisins að mótvægisaðgerðum vegna áhrifa á hvern og einn fundarstað fornleifa sem raktar eru í kafla 4.2 í þessum úrskurði."

I. Málsmeðferð

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Ásahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Villingaholtshrepps, Rangárþings ytra, Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Landsvirkjunar sem er framkvæmdaraðili, Skipulagsstofnunar, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis vegna stjórnsýslukæra Félags sumarbústaðaeigenda Lónsholti, Kjartans Ágústssonar, eigenda jarðarinnar Herríðarhóls, Ferðamálafulltrúa Villingaholtshrepps og Marteins Winkler ábúanda á Dvergabakka í Ásahreppi. Ennfremur var óskað eftir umsögn Veðurstofu Íslands og Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftafræði vegna kæru Kjartans Ágústssonar, umsögn Ferðamálaráðs Íslands vegna kæru Ferðamálafulltrúa Villingaholtshrepps, umsögn Landgræðslu ríkisins vegna kæru Félags sumarbústaðaeigenda í Lónsholti og umsögn Umhverfisstofnunar vegna kæru Villingaholtshrepps.

Umsögn Ásahrepps barst þann 27. október 2003. Umsögn Skeiða- og Gnúpverjahrepps barst þann 13. október 2003. Umsögn Villingaholtshrepps barst þann 17. október 2003. Umsögn Rangárþings ytra barst þann 20. nóvember 2003. Umsögn Umhverfisstofnunar barst þann 17. nóvember 2003. Umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands barst þann 21. október 2003. Umsögn Landsvirkjunar barst þann 29. október 2003. Umsögn Skipulagsstofnunar barst þann 28. október 2003. Umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis barst þann 21. október 2003. Umsögn Ferðamálaráðs Íslands barst þann 30. október 2003. Umsögn Veðurstofu Íslands barst þann 28. október 2003. Umsögn Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftafræði barst þann 29. október 2003 og umsögn Landgræðslu ríkisins barst þann 16. október 2003.

Kærendum og framkvæmdaraðila var, þann 20. nóvember 2003, gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komnar umsagnir. Athugasemdir Kjartans Ágústssónar bárust þann 28. nóvember 2003. Athugasemdir Jörundar Gaukssonar, f.h. eigenda jarðarinnar Herríðarhóls bárust þann 5. desember 2003. Athugasemdir Landsvirkjunar bárust þann 2. desember 2003.

Með bréfi, dags. 25. febrúar 2004, óskaði ráðuneytið eftir áliti landbúnaðarráðuneytisins varðandi 17. gr. landgræðslulaga, nr. 17/1965. Framkvæmdaraðila var með bréfi, dags. 27. febrúar 2004, gefinn kostur á að gera athugasemdir við álit landbúnaðarráðuneytisins. Þann 10. mars 2004 bárust athugasemdir framkvæmdaraðila.

II. Kæruatriði og umsagnir um þau

1. Kæra Ferðamálafulltrúa Villingaholtshrepps

Ferðamálafulltrúi Villingaholtshrepps gerir þá kröfu að úrskurður Skipulagsstofnunar verði ógiltur og málinu verði vísað til Skipulagsstofnunar á ný þar sem tekið verði frekara tillit til fram kominna viðhorfa ferðaþjónustuaðila og að framkvæmdar verði nauðsynlegar viðbótarrannsóknir vegna áhrifa virkjunarinnar á framtíð ferðaþjónustu og útivistar. Í kærunni segir að í úrskurði Skipulagsstofnunar komi fram rökstuðningur varðandi ferðaþjónustu sem fallast megi á en honum sé ekki fylgt eftir í niðurstöðu stofnunarinnar. Að óbreyttu muni þessi virkjun valda ferðaþjónustu á svæðinu óbærilegu tjóni og hindra eðlilega þróun atvinnuhátta. Virkjunin muni hafa það í för með sér að Urriðafoss, sem sé nú vatnsmesti foss landsins, hverfi að mestu eða öllu leyti. Það muni hafa verulega skaðleg áhrif á ferðaþjónustu, sérstaklega í sveitunum vestan árinnar sem nú séu að skipuleggja og byggja upp þessa atvinnugrein og treysta á hana til byggðaþróunar. Virkjunin muni einnig skaða fallegt útivistarsvæði sem hafi mikla möguleika vegna nálægðar sinnar við alfaraleið og þéttbýl svæði. Virkjunaráformunum hafi verið mótmælt af hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu á þessu svæði: Ferðamálasamtökum Suðurlands, ferðamálanefnd Austur-Flóa og kæranda. Kærandi telur að illa hafi verið staðið að mati á umhverfisáhrifum, hvað varðar áhrif á ferðaþjónustu og ferðamennsku. Sá aðili sem framkvæmdaraðili hafi fengið til skýrslugerðar um þau mál hafi aldrei gert nauðsynlegar og raunhæfar rannsóknir, heldur byggt skýrslu sína á ófullnægjandi viðhorfskönnun. Framkvæmdaraðili snúi jafnframt út úr niðurstöðu rannsóknaraðilans í niðurstöðu sinni um mat á umhverfisáhrifum í þeim tilgangi að fegra niðurstöðu matsins. Framkvæmdaraðili hafi á öllum stigum reynt að sniðganga álit þeirra sem bent hafa á þann skaða sem ferðaþjónusta og ferðamenn verði fyrir vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðili hafi því alls ekki staðið hlutlaust að umhverfismatinu eins og lög geri ráð fyrir. Í kærunni er aðkoma Ferðamálaráðs Íslands að umhverfismatinu gagnrýnd. Í kærunni segir að Ferðamálaráð hafi ekki kynnt sér álit hagsmunaaðila heimamanna, ferðaþjónustuaðila eða starfandi ferðamálafulltrúa, heldur fallist á rök framkvæmdaraðila skilyrðislaust. Vísað er til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um framtíðarmöguleika á svæði fyrirhugaðrar framkvæmdar hvað varðar ferðaþjónustu. Tekur kærandi undir það sem þar kemur fram í meginatriðum en telur óeðlilegt að í hinum kærða úrskurði hafi verið fallist á fyrirhugaða framkvæmd án nokkurra skilyrða að því er varðar ferðaþjónustu.

Í umsögn Landsvirkjunar er því hafnað að rannsóknir hafi verið ófullnægjandi. Vísað er til umfjöllunar í matsskýrslu, sérfræðiskýrslu um ferðaþjónustu og útivist sem fylgdi matsskýrslunni, svara við athugasemdum ferðamálafulltrúa Austur-Flóa, kæranda og félagsheimilisins Þjórsárvera við matsskýrslu og umsagnar Ferðamálaráðs um hana. Telur Landsvirkjun engar vísbendingar hafa komið fram um að fyrirhuguð framkvæmd muni hindra eðlilega þróun atvinnuhátta á svæðinu.

Í umsögn Ferðamálaráðs Íslands segir:

„Þegar meta þarf umhverfisáhrif framkvæmda fær Ferðamálaráð til umsagnar þau verkefni sem að einhverju leiti gætu haft áhrif á viðkomu- og dvalarstaði ferðafólks. Hjá Ferðamálaráði er reynt að leggja mat á þau áhrif sem fyrirhugaðar framkvæmdir kunna að hafa á ferðaþjónustu og samfélagið á áhrifasvæði þeirra og að gefnum ákveðnum forsendum er síðan niðurstaðan fengin. Til grundvallar mats er stuðst við áþreifanleg viðmið s.s. umfang ferðaþjónustu á svæðinu, kannanir á stöðu mála og stefnu sveitarfélaga viðkomandi svæðis. Huglægt mat getur varla talist nothæft sem mælistika við mat á umhverfisáhrifum. Í umræddu tilfelli var tiltölulega lítið til af efni til að vinna úr, t.d. fannst ekkert um hvert aðdráttarafl Urriðafoss er inn á svæðið, engin samantekt virðist vera til um efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu á svæðið og ekki er til markviss stefna um uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Reyndar er vitað, af afspurn, að áhugi er fyrir hendi að fara í slíka vinnu á vegum sveitarfélagsins í Villingaholtshreppi.

Eftir skoðun á þeim gögnum sem til voru varð niðurstaðan "...að fyrirhugaðar framkvæmdir hafi ekki afgerandi áhrif á ferðaþjónustu á áhrifasvæði virkjunar".

Eins og fram kemur í bréfi Ferðamálaráðs þá er talað um að virkjun komi ekki til með að hafa afgerandi áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu. Það var niðurstaðan, jafnvel þótt Urriðafoss sem að sönnu er mikilfenglegur og að sjálfsögðu sjónarsviftir af að hann hverfi nær algerlega þá eigi það ekki að draga úr möguleikum á að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu."

2. Kæra Kjartans Ágústssonar

Kjartan Ágústsson gerir þá kröfu að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi. Kærandi telur að umfjöllun Skipulagsstofnunar um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdir á Urriðafoss, ásýnd framkvæmdasvæðisins og lífríki Þjórsár, sýni að um sé að ræða umtalsverð umhverfisáhrif. Vísað er til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði þar sem segir að Skipulagsstofnun telji ótvírætt að tilkoma lóns muni haf veruleg sjónræn áhrif vegna þeirra ásýndarbreytinga sem verði á margra kílómetra kafla á Þjórsá ofan stíflu. Einnig er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði þar sem segir að ljóst sé að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa veruleg áhrif á lífríki Þjórsár og gerbreyta aðstæðum fyrir vatnalíf á áhrifasvæði hennar. Einnig segir í kæru að þar sem fyrirhuguð virkjun við Urriðafoss sé á virku jarðskjálftasvæði sé nokkur hætta á skemmdum og hættu fyrir vegfarendur. Kærandi telur óásættanlegt að auka við þá hættu sem stafi af jarðskjálftum í dag. Einnig sé talið að við venjulegan rekstur virkjunar geti þurft að hleypa skyndilega á hálftóman farveginn og mönnum og skepnum sem þar séu nærri muni stafa hætta af og þetta geti gerst einu sinni til tvisvar á ári. Kærandi telur óvíst að mótvægisaðgerðir, til að koma í veg fyrir hækkun á grunnvatnsstöðu, nægi á Skeiðum þar sem víða sé mikið um gamlar og nýjar jarðskjálftasprungur. Kærandi telur ekki rétt að vinna slík náttúruspjöll sem fyrirhuguð séu með Urriðafossvirkjun með því að vísa til þess að svæðið sé í byggð. Sú spurning hljóti að vakna hjá ráðherra hvort hreinleiki orkunnar minnki ekki við að koma með henni á fót mengandi stóriðju. Óverjandi sé einnig að bíða ekki eftir rammaáætlun um virkjanakosti sem von sé á hverri stundu. Ljóst sé að ýmsir aðrir virkjunarkostir séu mun vænlegri s.s. gufuaflsvirkjanir. Áhrif fyrirhugaðrar virkjunar muni hafa lítil áhrif á atvinnu á svæðinu til frambúðar en skapi þenslu á meðan framkvæmdum stendur.

Í umsögn Landsvirkjunar segir:

„Við mat á umhverfisáhrifum skal meta áhrif framkvæmda á einstaka umhverfisþætti og skal taka til greina þau áhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein sem fyrirhuguð framkvæmd kann að hafa á umhverfið, skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 671/2000 ber að lýsa í matsskýrslu þeim þáttum umhverfisins sem taldir eru geta orðið fyrir áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, sbr. b-lið og niðurstöðum mats á áhrifum á þessa þætti, sbr. d-lið 18. gr. Á grundvelli þessara og annarra upplýsinga matsskýrslu skal Skipulagsstofnun taka ákvörðun um hvort lagst er gegn viðkomandi framkvæmd vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa. Skipulagsstofnun leggst því gegn framkvæmd ef heildaráhrif framkvæmdar á umhverfið, sbr. 9. gr. laganna eru umtalsverð. Hvort heildaráhrif framkvæmdar teljist umtalsverð skv. lögum nr. 106/2000 fer eftir ýmsum þáttum, t.d. umfangi, fjölbreytileika, óafturkræfni og samvirkni áhrifa og eðli áhrifasvæðis auk viðmiða í lögum, reglum og alþjóðlegum samningum. Við heildarmatið er því meðal annars horft til niðurstaðna um einstaka umhverfisþætti, samspil þeirra og samvirkni og mótvægisaðgerða. Ljóst er að hugtakið umtalsverð umhverfisáhrif eiga eingöngu við heildaráhrif framkvæmda, þegar tekið hefur verið tillit til allra þátta, þ.m.t. uppsafnaðra og samvirkra áhrifa, beinna og óbeinna, skammtíma og langtíma áhrifa og mótvægisaðgerða til þess að draga úr eða fyrirbyggja neikvæð umhverfisáhrif. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er að heildarumhverfisáhrif Urriðafossvirkjunar í Þjórsá séu ekki veruleg, að teknu tilliti til þeirra mótvægisaðgerða sem beitt verður."

Ennfremur segir að dregið verði úr sjónrænum áhrifum svo sem kostur sé t.d. með því að græða stíflu upp loftmeginn og með því að móta haugsvæði og græða upp í samráði við sérfróða aðila á þeim sviðum. Framkvæmdaraðili telji mótvægisaðgerðir fullnægjandi og enn sé unnið að því að auka vitneskjuna með viðbótarrannsóknum sem þegar hefur verið hrundið í framkvæmd. Vísað er m.a. í svar við umsögn Landverndar við matsskýrslu, en þar var áætlun Veiðimálastofnunar um fiskirannsóknir í Þjórsá vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá neðan Búrfells, lögð hjá sem fylgiskjal. Framkvæmdaraðili telji að með góðri viðbragðsáætlun sé hægt að draga verulega úr hættu sem gæti skapast af völdum hugsanlegs stíflubrots. Viðbragðsáætlun verði útfærð í samráði við almannavarnarnefnd svæðisins og eftir atvikum aðra aðila og hún verði kynnt heimamönnum. Í matsskýrslu sé gert ráð fyrir að saman fari flestar verstu hugsanlegar aðstæður, þ.e. mikið rennsli í Þjórsá, stíflubrot við jarðskjálfta og að lokubúnaður verði óstarfhæfur. Framkvæmdaraðili telji að með fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum sem felast í þéttingu hrauns og sprungna, auk vatnsrásar meðfram allri stíflunni muni tryggja að grunnvatnsstaða raskist lítið sem ekkert á Skeiðum. Með því að þétta hraunið verði leki úr lóni takmarkaður eins og kostur er. Vatnsrás muni taka við afrennslisvatni á Skeiðum og einnig við hugsanlegum leka úr lóninu og halda þannig grunnvatnsstöðu svipaðri því sem nú er, svo sem fram komi í matsskýrslu. Hvað varði rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma segir í umsögninni að engin lög standi til þess að heimilt sé að binda mat á umhverfisáhrifum eða leyfi vegna einstakra framkvæmda skilyrðum er varða niðurstöður rammaáætlunar. Framkvæmdaraðili hafnar athugasemd kæranda og bendir á að gerð rammaáætlunar hefur ekki með neinum hætti áhrif á mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir. Þess misskilnings virðist hjá kæranda að niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma feli í sér endanlegar útfærslur þeirra virkjunarkosta sem þar eru til skoðunar og jafnframt að niðurstöður verkefnisstjórnarinnar séu á einhvern hátt bindandi. Ljóst er að svo er ekki. Framkvæmdaraðili bendir ennfremur á að í bréfi iðnaðarráðuneytisins til verkefnisstjórnarinnar frá 27. maí 2000 kemur skýrt fram að það sé ekki á valdi stjórnvalda að fresta eða synja um afgreiðslu erinda er lúta að virkjunum á grundvelli þess að viðkomandi virkjunarkostur sé til skoðunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar. Framkvæmdaraðili hafnar athugasemd kæranda varðandi aðra vænlega virkjunarkosti s.s. gufuaflsvirkjanir þar sem framkvæmdaraðili telur að hún tengist ekki mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Varðandi athugasemd kæranda um að áhrif á atvinnu á svæðinu til frambúðar verði lítil en skapi þenslu á meðan á framkvæmdum stendur segir í umsögninni að framkvæmdaraðili geri ráð fyrir því að til frambúðar skapi virkjunin allt að 10 ársverk (sbr. kafli 19 í matsskýrslu) og að gera megi ráð fyrir því að orkan nýtist samfélaginu til góðs á landsvísu. Varðandi athugasemd kæranda um að náttúra á svæðinu muni verða fyrir verulegum spjöllum sem ekki verði bætt fyrir nema að örlitlu leyti með mótvægisaðgerðum segir í umsögninni að það sé mat framkvæmdaraðila að náttúra á svæðinu verði ekki fyrir verulegum spjöllum vegna fyrirhugaðrar virkjunar.

Í umsögn Veðurstofu Íslands er bent á að fyrirhuguð framkvæmd sé sérstök fyrir þá sök að síðan farið var að meta umhverfisáhrif hafi ekki verið reist uppstöðulón á byggðu jarðskjálftasvæði. Í matsskýrslunni sé rætt um mögulegt stíflubort í jarðskjálfa og tekin dæmi um stíflubrot miðað við tvenns konar rennsli. Í úrskurði Skipulagsstofnunar sé ekki lagt mat á hversu raunhæf þessi dæmi séu. Vísað er til úrskurðarins þar sem segir að Skipulagsstofnun telji að mönnum og skepnum í næsta nágrenni stíflu og lóns þar sem land er flatt sé töluverð hætta búin við stíflubrot af völdum jarðskjálfta. Eina aðgerðin sem Veðurstofan leggi til sé að gerð verði nákvæm viðbragðsáætlun í samráði við almannavarnir á svæðinu. Til þess að hægt sé að sjá hvaða hættu þessi framkvæmd hafi í för með sér fyrir íbúa og vegfarendur verði að gera heildstætt hættumat, þar sem metnar séu líkur á manntjóni og tjóni á eignum. Í slíku mati verði m.a. að taka tillit til jarðskjálftalíkinda, rennslissögu árinnar, sérstökum áhrifum jarðskjálfta á rennsli árinnar sem og dreifingu byggðar og staðsetningu samgönguleiða. Niðurstöðu úr slíku hættumati verði síðan að bera saman við það sem talin er ásættanleg áhætta. Mótvægisaðgerðir verði að miðast við það að áhætta vegna framkvæmdanna verði ekki meiri en talin sé ásættanleg. Engar viðmiðanir séu til um það hvað sé ásættanleg áhætta á slíkum svæðum en eðlilegt væri að notast við sömu viðmiðunarmörk og notuð eru á snjóflóðasvæðum. Það sé því mikilvægt að áður en fallist sé á Urriðafossvirkjun liggi fyrir heildstætt hættumat sem sýni að áhætta af virkjuninni vegna jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara sé ekki meiri en ásættanlegt er samkvæmt nánari skilgreiningu stjórnvalda.

Í umsögn Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði segir m.a.:

„Þær kærur sem fram hafa komið og nefndar eru hér að framan eru rökréttar í ljósi þeirrar umfjöllunar sem er að finna í skýrslum um mat á umhverfisáhrifum [1, 2, 3, 4]. Þetta á einkum við um jarðskjálfta og hugsanleg áhrif þeirra á fyrirhugaðar stíflur.

Jarðstíflur af því tagi sem hér um ræðir hafa almennt reynst örugg mannvirki ef vel er staðið að hönnun og byggingu þeirra. Í því ljósi er, á þessu stigi, talið að hægt sé að tryggja öryggi fyrirhugaðra mannvirkja og nærliggjandi byggðar með ásættanlegum hætti.

Hins vegar er nauðsynlegt að vanda rannsóknir á jarðskjálftavá við frekari undirbúning framkvæmda (potential failure mode analysis) og taka fullt tillit til hennar við hönnun mannvirkja. Einnig er nauðsynlegt að setja upp eftirlitskerfi í stíflum og lokumannvirkjum (sbr. FERC Federal Energy Regulation Comission, Dam safety performance monitoring program).

Til að auka öryggi fyrirhugaðra mannvirkja er því eftirfarandi lagt til:

a) Jarðskjálftavá verði könnuð og áhættumat framkvæmt

b) Hönnunarforsendur taki fullt tillit til niðurstöðu áhættumats

c) Komið verði upp viðeigandi öryggis- og gaumkerfi í mannvirkjunum

d) Rekstraraðili virkjanna komi upp tilheyrandi viðbragðsáætlunum

Þessi atriði eru til viðbótar þeim viðbragðsáætlunum Almannavarna sem lagt er til að komið verði á fót í [3, 4].

Einnig er bent á, að allar breytingar á rennsli ofar á Þjórsársvæðinu, svo sem við Sultartangastíflu, geta haft afleiðingar fyrir mannvirki við Núp og Urriðafoss. Þetta ber að hafa í huga við rekstur og nýtingu orkumannvirkjanna sem og við gerð heildaráhættumats fyrir Þjórsársvæðið."

...

„Í matskýrslum vegna umræddra virkjunarframkvæmda [1, 2] er í raun frekar lítið fjallað um jarðskjálftavá og hugsanlegar afleiðingar hennar. Sérstaklega þegar haft er í huga að jarðskjálftavá er ráðandi náttúruvá á svæðinu. Æskilegt hefði verið að gera áhrifum jarðskjálftavár betri skil í umhverfismatinu."

...

„Deila má um hvort það sé rétt túlkun að megináhættan sem fylgi byggingu vatnsaflsvirkjana á upptakasvæði jarðskjálfta sé fólgin í hættu á stíflubroti. Hins vegar geta afleiðingar af slíku tjóni óumdeilanlega verið mjög alvarlegar fyrir íbúa í nágrenni stíflumannvirkja.

Í [2] eru áhrif hugsanlegs stíflubrots á versta stað vegna jarðskjálfta metin miðað við annars vegar 400 m3/s rennsli og hins vega 800 m3/s rennsli (sem gefur þá væntanlega mynd af venjulegu rennsli árinnar). Auk þess er gert ráð fyrir að árlokur festist þannig að ekki sé unnt að opna þær.

Þetta verður að teljast frekar ólíkleg atburðarrás. Í fyrsta lagi eru stíflur tiltölulega örugg mannvirki, eins og fram kemur hér á eftir. Þegar þær skemmast þá er tjónið sjaldnast algjört (sjá Mynd 1), þannig að vatn flæði stjórnlaust út. Algengast er að jafnvel þó stífla sé illa skemmd þá haldi hún vatni í einhvern tíma eftir jarðskjálftann, síðan er það yfirleitt vatnságangur og tiltölulega lítið streymi (e. piping) í gegnum sprungur í stíflunni sem smá saman eykur við tjónið og framkallar brot eftir einhvern tíma (oft u.þ.b. sólarhring).

Til að draga úr áhættunni er mikilvægt að árlokur festist ekki við jarðskjálftann. En slíkt á að vera hægt að tryggja allvel við val á útfærslu og hönnun lokuvirkja. Með því að opna lokur er hægt að létta á stífluvirkjum þar til tjón hefur verið kannað og/eða lagfæringar farið fram, en fram kemur í matsskýrslu að núverandi árfarvegur rúmi allt að 2500 m3/s rennsli. Lýsing á fyrirhuguðu lokuvirki Urriðafossvirkjunar gefur allgóð fyrirheit um að ólíklegt sé að lokurnar muni festast."

...

„Stíflur eru almennt örugg mannvirki. Það eru tiltölulega fá þekkt tilvik um alvarlegar skemmdir eða brot á vel hönnuðum stíflum vegna jarðskjálfta [7], jafnvel mjög stórra jarðskjálfta. Tani, [6], telur t.d. að stíflur hannaðar og byggðar samkvæmt nútíma aðferðum muni ekki verða fyrir umtalsverðum skemmdum í jarðskjálftum sem gefi yfirborðshröðun allt að 0,7% g við stíflufót. "

...

„Stíflurnar við Þjórsá verða, að því best verður séð af matsskýrslum, allar byggðar á einhvers konar klöpp sem eykur jarðskjálftaþol þeirra ef litið er til reynslunnar sbr. hér að ofan. "

...

„Í ljósi þess sem segir hér að ofan, verður að telja ólíklegt að stíflubrot sem leiði til stórflóða verði af völdum jarðskjálfta. Sú atburðarrás sem er líklegast að leiði til stíflubrots og snöggrar tæmingar lóns tengist skemmdarverkum. Í því sambandi ber að hafa í huga að allar breytingar á rennsli ofar á Þjórsársvæðinu geta haft afleiðingar fyrir mannvirki við Núp og Urriðafoss. "

Í umsögn Skeiða- og Gnúpverjahrepps er einkum tekin afstaða til framangreindrar kæru Kjartans Ágústssonar. Tekið er undir efasemdir kæranda um mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir hækkun á grunnvatnsstöðu á Skeiðum. Jafnframt er vísað til athugasemdar hreppsnefndar gerði á fyrri stigum málsins varðandi það að vöktun á gróðri og lífríki væri aðeins hugsuð til 10 ára. Talið sé nauðsynlegt að vöktunin standi meðan virkjunin er starfrækt og tímatakmörk á vöktun falli þar með út.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir:

„Við framkvæmdirnar mun vatnsmagn í Urriðafossi minnka verulega. Ákveðnu lágmarksrennsli verður þó haldið um fossinn, 10-15 m3/s, til að fiskgengt verði áfram um hann. Í skýrslunni um mat á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar kemur fram að talsverð óvissa sé um hvernig rennsli verði í fossinum eftir framkvæmdir. Það þurfi því að meta það á síðari stigum hvort nauðsynlegt sé að ráðast í aðgerðir til að tryggja fiskgengd um fossinn, sérstaklega ef vatnið lendi allt í einum streng.

Fossar njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd og því er brýnt að forðast sé að raska Urriðafossi svo sem frekast er kostur. Í fjölriti Náttúruverndarráðs nr. 2 (Fossar á Íslandi) er fjallað um fossa á Íslandi og lagt mat á hvaða fossa beri helst að vernda. Þar er Urriðafossi lýst sem breiðum og lágum fossi, sem sé sumstaðar frekar flúðir en foss. Urriðafoss er ekki meðal þeirra fossa sem talið er að tvímælalaust eigi að friðlýsa (ásamt nánara umhverfi) né heldur þeirra sem talið er mjög æskilegt að friðlýsa. Þá eru fossarnir ekki heldur meðal þeirra fossa sem sérstök athygli er vakin á, án þess að tekin sé afstaða til þess hvort ástæða sé til að friða þá bráðlega eða ekki.

Ljóst er að minnkun á rennsli um fossinn mun rýra gildi hans t.d. til nýtingar tengt ferðamennsku. Þó réttilega komi fram í matsskýrslu að fossinn hefur ekki verið notaður með skipulegum hætti við ferðaþjónustu á svæðinu hingað til, kemur jafnframt fram að í könnun sem gerð var árið 2001 sögðust tæplega 7% landsmanna á aldrinum 18-75 hafa komið að fossinum síðasta árið. Því má telja að um talsverða hagsmuni sé hér að ræða fyrir aðila innan ferðaþjónustunnar.

Umhverfisstofnun leggur áherslu á að ef nauðsynlegt verði að ráðast í aðgerðir við Urriðafoss til að tryggja fiskgengd upp Þjórsá sé brýnt að slíkar aðgerðir verði afturkræfar: Að fossbrúninni verði ekki raskað né rennsli um Urriðafoss minnkað umfram það lágmarksrennsli sem talið er að verði í fossinum eftir framkvæmdir. Stofnunin telur þó, m.t.t. til umfjöllunar um verndargildi Urriðafoss hér að ofan, og í ljósi þess að ekki verði um beina, óafturkræfa röskun á fossinum að ræða, að framkvæmdirnar muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér."

...

„Eins og fram kemur í skýrslu Veiðimálastofnunar sem lögð var fram með matsskýrslu hefur Þjórsá verið í hópi aflasælustu veiðiáa landsins en um 4,9% veiddra laxa á landinu hafa komið úr Þjórsá. Með virkjunum ofar í Þjórsá hafa lífsskilyrði batnað í ánni og með tilkomu laxastiga við Búðafoss hefur útbreiðsla lax aukist verulega á svæðinu. Að öllu óbreyttu, og án tillits til mótvægisaðgerða, munu áhrif virkjana neðan Búrfells því hafa umtalsverð áhrif á laxastofna í Þjórsá. Þessu til mótvægis hefur framkvæmdaraðili gert tillögur að mótvægisaðgerðum auk þess sem kynntar eru áætlanir um frekari rannsóknir og vöktunaráætlanir.

Umhverfisstofnun tekur undir það með kæranda að óvissan sem ríkir um breytingar á straumum, um áhrif á laxfiska og skilvirkni mótvægisaðgerða er talsverð. Hins vegar má benda á að í úrskurði Skipulagsstofnunar eru sett víðtæk skilyrði um viðbótarrannsóknir á grunnástandi í Þjórsá auk mótvægisaðgerða og vöktunarrannsókna. Það er mat Umhverfisstofnunar að með þeim skilyrðum sem sett hafa verið fram í úrskurði Skipulagsstofnunar megi draga verulega úr þeim neikvæðu áhrifum sem verða á vatnalíf Þjórsár. Af ofangreindu telur Umhverfisstofnun að fyrirhuguð framkvæmd muni ekki valda umtalsverðum áhrifum á vatnalíf Þjórsár. "

Í athugasemdum kæranda við fram komnar umsagnir er tekið undir umsögn Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði um að gera þurfi hættumat og að fremur lítið sé fjallað um jarðskjálftavá í matsskýrslunni. Mótmælir hann skilningi Umhverfisstofnunar á umtalsverðum umhverfisáhrifum hvað varðar Urriðafoss. Einnig segir í athugasemdunum að enginn af þeim stofnunum sem leitað hafi verið til hafi svarað athugasemd hans um að við venjulegan rekstur virkjunar geti þurft að hleypa skyndilega á hálftóman farveginn og mönnum og skepnum sem þar séu nærri muni stafa hætta af og þetta geti gerst einu sinni til tvisvar á ári. Það teljist algjörlega óásættanlegt.

Í athugasemdum Landsvirkjunar við fram komnar umsagnir segir að framkvæmdaraðili telji tillögur Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði standa utan umhverfismatsins sem slíks og að nægjanleg grein hafi verið gerð fyrir hættum af völdum náttúruvár í matsskýrslu. Við frekari hönnun mannvirkja verði jarðskjálftavá hins vegar könnuð nánar og áhættumat framkvæmt og fullt tillit tekið til niðurstaðna þeirra athugana í hönnunarforsendum. Þá sé það venja að öryggis- og eftirlitskerfi sé til staðar við mannvirki eins og þau sem hér um ræðir. Framkvæmdaraðili muni svo útfæra viðbragðsáætlanir í samráði við Almannavarnir og eftir atvikum aðra sérfræðinga.

3. Kæra Villingaholtshrepps

Villingaholtshreppur gerir þær kröfur að kannað verði betur hvaða áhrif Urriðafossvirkjun hefur á ferðaþjónustu á svæðinu og þá uppbyggingu sem unnið er að í ferðamálum á vegum Villingaholtshrepps og að framkvæmdaraðili tryggi leið vatnsins í Þjórsá til sjávar á þann hátt að það skaði ekki hagsmuni landeigenda við ána. Sveitarstjórn telji að landbrot af völdum árinnar stafi hugsanlega af verulega auknu vetrarrennsli og leggi mikla áherslu á að varnargarðar við Þjórsá frá Egilsstöðum niður að Ferjunesi verði hluti af virkjunarframkvæmdinni. Hagkvæmt sé að nýta efni sem annars verði haugsett í þessa aðgerð. Sveitarstjórn óttast að verði það ekki gert strax sem hluti af virkjuninni verði það aldrei gert, þó að síðar komi upp vandamál vegna ágangs og landbrots árinnar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir:

„Í matsskýrslu kemur fram að með tilkomu Urriðafossvirkjunar í Þjórsá muni rennsli neðan stíflu minnka mikið. Samkvæmt þeim gögnum sem framkvæmdaraðili leggur fram mun einnig draga úr árstíðabundnum rennslistoppum. Byggt á þeim gögnum sem lögð eru fram í matsskýrslu telur stofnunin ekki ástæðu til að ætla að aukin hætta sé á landbroti neðan stíflu. Jafnframt bendir stofnunin á að landvarnir af þeirri stærðargráðu sem lagðar er til í kærunni munu mögulega hafa í för með sér neikvæð áhrif á náttúrufar þ.e. gróður og fuglalíf. Bendir stofnunin á að innan núverandi áhrifasvæðis virkjunarinnar fundust tvær tegundir mosa og fjórar tegundir fléttna sem teljast sjaldgæfar hér á landi. Í umfjöllun um þessar tegundir kom fram að þær fyndust líklega á fleiri stöðum við Þjórsá. Að mati stofnunarinnar væri því eðlilegt að kanna umhverfisáhrif mótvægisaðgerða af þessari stærðargráðu ef ástæða þykir til að ráðast í þær. Að lokum bendir stofnunin á að líklega muni það efni sem þarf að haugsetja vegna virkjanaframkvæmda ekki henta í varnargarða með þeim hætti sem sveitarstjórn Villingaholtshrepps bendir á í kærunni."

4. Kæra Landeigenda Herríðarhóli

4.1. Aðalkrafa

Landeigendur Herríðarhóli krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka málið fyrir á ný. Til vara er þess krafist að umhverfisráðherra taki nýja ákvörðun í málinu. Til stuðnings aðalkröfu segir í kæru að framkvæmdaraðili hafi ekki fylgt matsáætlun sem samþykkt var af Skipulagsstofnun við gerð matsskýrslu. Í matsáætlun sé gert ráð fyrir valkostum 2 og 3 við fyrirhugaða framkvæmd. Rétt sé að gera þá kröfu til framkvæmdaraðila að færð séu rök fyrir þeirri niðurstöðu að skoða þá ekki nánar en gert er í matsskýrslu. Skipulagsstofnun fjalli ekki um þetta atriði í úrskurði sínum þrátt fyrir að gerðar hafi verið athugasemdir við þessa framkvæmd í athugasemdum til stofnunarinnar. Fyrst það var ekki gert uppfylli úrskurður Skipulagsstofnunar ekki skilyrði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Hagsmunaaðilar eigi rétt á að fá ákvörðun lægra setts stjórnvalds endurskoðaða af æðra stjórnvaldi. Þar sem lægra sett stjórnvald hafi ekki fjallað um þennan þátt beri að vísa málinu á ný til Skipulagsstofnunar. Í kæru segir að fleiri atriðum sé áfátt í úrskurði Skipulagsstofnunar sem styðji þessa kröfu kærenda. Á skorti að tekin sé sjálfstæð afstaða til athugasemda. Texti athugsemda kærenda sé slitinn í sundur og myndi ekki þá rökrænu heild sem þeim var ætlað.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem segir að framkvæmdaraðili skuli gera tillögu að matsáætlun eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Þar skuli lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma. Einnig er vísað til 13. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum þar sem segir að leggja skuli tillögu að matsáætlun fram þegar megindrættir framkvæmdar eru orðnir það ljósir að hægt sé að fá yfirlit yfir fyrirhugaða framkvæmd, áhrifasvæði og helstu áhersluþætti matsvinnunnar. Ennfremur er vísað til 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem segir að gerð og efni matsskýrslu skuli vera í samræmi við matsáætlun. Skipulagsstofnun líti svo á að í tillögu að matsáætlun sem stofnuninni barst með bréfi, dags. 24. ágúst 2001, hafi framkvæmdaraðili á undirbúningsstigi gert grein fyrir öðrum möguleikum á fyrirkomulagi framkvæmda miðað við fyrirliggjandi rannsóknir og sem skoðaðir hafi verið á því stigi málsins. Í matsskýrslu sé gerð grein fyrir þeim kostum sem getið var um í tillögu að matsáætlun og ástæðum þess að framkvæmdaraðili hafi ekki kosið að leggja þá fram til athugunar og úrskurðar. Bent er á að í stað framangreindra kosta hafi framkvæmdaraðili lagt fram framkvæmdakost með lónshæð í 50 metra hæð yfir sjávarmáli til athugunar og úrskurðar auk aðalvalkosts með lónshæð í 51 metra hæð yfir sjávarmáli.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að í kærunni komi fram grundvallarmisskilningur um eðli mats á umhverfisáhrifum sem kippi stoðunum undan málatilbúnaði kæranda. Allir hafi rétt til athugasemda við matsskýrslu en öðlist ekki við það stöðu aðila í stjórnsýslumáli líkt og kærandi virðist halda. Hlutverk Skipulagsstofnunar eða umhverfisráðherra sé ekki að skera úr deilumáli milli tiltekinna aðila eða veita leyfi fyrir framkvæmd heldur að komast að niðurstöðu um umhverfisáhrif að undangegnu flóknu matsferli, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. maí 2003, bls. 23, í máli nr. E-13581/2002, Atli Gíslason ofl. gegn íslenska ríkinu og Landsvirkjun og til réttargæslu Fjarðarbyggð og Austur-Hérað. Þá sé hvorki í lögum nr. 106/2000, stjórnsýslulögum né í öðrum réttarheimildum að finna takmarkanir á endurskoðunarheimild umhverfisráðherra á úrskurði Skipulagsstofnunar eins og þá sem kærandi heldur fram. Málatilbúnaður kæranda byggi öðrum þræði á þáttum sem varða einstaklega hagsmuni kærenda, þ.e.a.s. þau atriði sem falla undir bótaþátt framkvæmdarinnar en ekki mat á umhverfisáhrifum. Varðandi málsástæðu kæranda um að matsskýrsla samræmist ekki matsáætlun er í umsögninni vísað til svars við athugasemdum kæranda, dags. 26. júní 2003 Einnig segir að gerð hafi verið grein fyrir breytingum frá matsáætlun líkt og lög gera ráð fyrir, sbr. lokamálslið 1. mgr. 20 gr. reglugerðar nr. 671/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Vísar framkvæmdaraðili á bug umfjöllun kæranda þess efnis að „grundvallaratriði" laganna hafi verið brotin og bendir á að öllum athugasemdum kæranda við matsskýrslu var svarað í tilvísuðu svari. Ennfremur segir:

„Framkvæmdaraðili vill minna á e-lið 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglug. nr. 671/2000, en þar er kveðið á um að í matsáætlun sé gerð grein fyrir þeim framkvæmdakostum sem til greina koma ásamt núllkosti. Í þessu samhengi verður einnig að líta til ákvæða 1. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, þ.e.a.s. framkvæmdaraðili er ábyrgur fyrir mati á umhverfisáhrifum og ber kostnað af því. Í því tilviki sem hér um ræðir varð ljóst snemma í matsferlinu að kostir 2-4 sem kynntir voru í matsáætlun komu ekki til greina sem raunhæfir framkvæmdakostir, fyrst og fremst vegna meiri umhverfisáhrifa almennt séð en aðalkostur hefur í för með sér. Fyrir þessu er gerð grein í matsskýrslu, sbr. kafla 1.5.4. Ljóst er að Skipulagsstofnun hefur fulla heimild til að samþykkja frávik af því tagi sem hér um ræðir, þ.e.a.s. að hugsanlegir kostir sem tilgreindir eru í matsáætlun séu ekki teknir til ítarlegrar og kostnaðarsamrar skoðunar í matsskýrslu þar sem ljóst þyki að þeir komi ekki til greina sem raunhæfir valkostir. Auk 20. gr. reglugerðar nr. 671/2000 er bent á 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 en samkvæmt henni metur Skipulagsstofnun hvort matsskýrsla er í samræmi við matsáætlun. Það hefur verið gert. Sú framkvæmd sem kynnt var í matsáætlun er í öllu sem máli skiptir sú sama og fjallað er um í matsskýrslu, sbr. og kafla 1.5 í matsskýrslu þar sem fjallað er um frávik frá matsáætlun. Þannig er engin ástæða til þess að efast um heimildir Skipulagsstofnunar til að samþykkja matsskýrsluna né um mat stofnunarinnar á þeim rökum sem framkvæmdaraðili setti fram fyrir framangreindum frávikum frá matsáætlun."

Í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið undir að rökstuðningur framkvæmdaraðila fyrir frávikum frá matsáætlun hefði mátt vera skýrari. Framkvæmdaraðili vísi í matsskýrslu m.a. til nýrra korta. Eðlilegt hefði verið að leggja þau gögn fram og skýra á ítarlegan máta í matsskýrslu. Stofnunin bendi hins vegar á að telji framkvæmdaraðili að ekki sú um raunhæfan valkost að ræða og styðji þá skoðun nægilegum rökum sjái stofnunin ekkert því til fyrirstöðu að þeir valkostir séu vinsaðir út í byrjun matsferilsins. Við slíkt mat beri að líta til áhrifa framkvæmdarinnar í heild sinni en ekki til áhrifa á einn hagsmunaaðila umfram annan.

Í athugasemdum kæranda við fram komnar umsagnir kemur fram að kærandi telur aðild sína að málinu tryggða með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins um meðferð máls. Svo virðist sem Landsvirkjun leggi annan skilningi í þessa aðild þannig að aðildin nái í raun aðeins til þess að gera athugasemdir án þess að nokkur skylda hvíli á viðkomandi stjórnvöldum til að taka þær til efnislegrar meðferðar og geri stjórnvald það ekki hafi aðili málsins engin úrræði til þess að knýja á um að þær fái efnislega meðferð og sú málsmeðferð sé rakin í úrskurði. Þessi skilningur Landsvirkjunar myndi leiða til þess að tilgangur laga um mat á umhverfisáhrifum um að tryggja að fólk, sérstaklega það sem beinna hagsmuna hefur að gæta, fái að koma að sjónarmiðum sínum og þau fái raunverulega efnismeðferð, náist ekki. Vísar kærandi í þessu sambandi til 10. mgr. 10. gr. laganna. Kærandi hafnar því að dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-13581/2002 styðji sjónarmið Landsvirkjunar þar sem í dóminum sé sérstaklega tekið fram á bls. 23 að lögð skuli áhersla á að leita eftir athugasemdum frá almenningi og nauðsynlegt tillit sé tekið til þeirra. Einnig segir að stjórnsýslulög, nr. 37/1993 veiti æðra stjórnvaldi rúma heimild til að fella ákvörðun lægra setts stjórnvalds úr gildi, m.a. vegna verulegra galla á undirbúningi þess. Þá þurfi lægra sett stjórnvald að taka nýja ákvörðun eftir að hafa bætt úr málsmeðferðinni.

4.2. Varakrafa landeigenda Herríðarhóli

Varðandi varakröfu landeigenda Herríðarhóli er í kæru vísað til athugsemda kærenda til Skipulagsstofnunar um lónshæð, þar sem fram kemur að kærendur telja 50 metra lón valda mun minna umhverfisraski en 51 metra lón. Skipulagsstofnun álykti hins vegar á þá leið að hvorki 50 né 51 metra lón hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Óska kærendur eftir því að umhverfisráðherra taki afstöðu til mismunandi lónshæðar með tilliti til umhverfisáhrifa. Lækkun lónsins í 50 metra hafi aðeins 2% áhrif á orkuframleiðslu en mun minni umhverfisáhrif. Í kæru er einnig vísað til athugsemda kærenda til Skipulagsstofnunar um áhrif fyrirhugaðrar virkjunar á Herríðarhól. Þar kemur fram að kærendur telja að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir þeim áhrifum í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Um 25% jarðarinnar fari undir vatn vegna virkjunarinnar og um 33% af ræktuðu landi hennar. Jafnframt blotni annað land meira, auk áhrifa reglubundinna sveiflna í lóni. Enginn vafi leiki á því að jafn mikilvægar upplýsingar og hér um ræðir eigi að koma fram í matsskýrslu. Ranglega sé farið með í matsskýrslu að mýrlendi sé ekki nýtt í dag. Það sé nýtt til beitar. Einnig sé ranglega farið með að mýrin sé svo illfær að krækja þurfi fyrir hana. Niðurstaða framkvæmdaraðila, um að áhrif virkjunar á ferðaþjónustu séu lítil og fyrst og fremst sjónræn, er gagnrýnd. Vaxandi ferðaþjónusta hafi verið við hestamenn og skipulagðar ferðir frá staðnum, ásamt gistingu sem einnig tengist hrossarækt og sölu. Í því sambandi verði að benda á að reiðleið með Þjórsárbökkum lokist vegna lónsins. Hér skipti sem áður miklu hvort lónið verði 50 eða 51 metri. T.d. sé líklegt að heit laug sem hafi verið aðdráttarafl ferðamanna fari ekki undir vatn ef lónið verður 50 metrar. Jafnframt bjargist þá fornminjar frá því fyrir 1550. Hér skipti mótvægisaðgerðir einnig miklu. Fram hafi komið hugmyndir hjá framkvæmdaraðila um að setja brú yfir lónstunguna við Þjórsárbakka og ræsi undir brúnna. Við það myndi reiðleiðin opnast, öldurof minnka, lónstungan verða tærari og land næst lónstungunni ekki jafn blautt. Þessar mótvægisaðgerðir ætti að gera að skilyrði fyrir framkvæmdinni auk skilyrðis um 50 metra lónshæð. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið ofangreind atriði til úrlausnar eins og henni bar að gera. Þess er krafist að umhverfisráðherra taki afstöðu til þess hvaða mótvægisaðgerðir eigi að gera að skilyrði fyrir framkvæmdinni. Mikilvægt sé að úrskurðir um mat á umhverfisáhrifum séu skýrir, geti staðið sjálfstætt og af þeim megi ráða nákvæmlega hvaða skilyrði séu sett fyrir framkvæmdinni en ekki vísað til óljósra væntinga um að aðilar nái samkomulagi í þessu efni. Kærandi telur að ekki liggi nægilegar upplýsingar til að meta umhverfisáhrif. Engar rannsóknir liggi fyrir um áhrif framkvæmdarinnar á ferðaþjónustu að Herríðarhóli. Þær skoðanakannanir sem fyrir liggi í matsskýrslu varpi ekki ljósi á áhrifin þar eða annars staðar á svæðinu. Ætla mætti að þegar að því kemur að rannsaka mikilvæga einkahagsmuni sem sé liður í umhverfismatinu slaki framkvæmdaraðili og Skipulagsstofnun verulega á öllum kröfum til rannsókna. Gerir kærandi þá kröfu að umhverfisráðherra fjalli sérstaklega um þetta verklag og geri grein fyrir hvort skilyrði laga séu uppfyllt að þessu leyti.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til umfjöllunar í niðurstöðu hins kærða úrskurðar um áhrif framkvæmdarinnar á útivist og ferðaþjónustu annars vegar og landnotkun hins vegar. Þar kemur fram að ljóst sé að fyrirhugaðar framkvæmdir við Urriðafossvirkjun muni hafa margvísleg áhrif á landnotkun og nytjaland. Framkvæmdaraðili geri ráð fyrir að almennt komi fébætur fyrir land sem tapast en gert sé ráð fyrir að þar sem aðstæður bjóði upp á ræktun nýrra túna, upphækkun þeirra eða uppgræðslu beitilands verði farið í slíkar framkvæmdir eða eftir atvikum aðrar aðgerðir sem miða að því að draga úr eða bæta fyrir áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á landnotkun. Fébætur vegna slíks tjóns falli ekki undir málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum. Stofnunin telji því ekki efni standa til þess að taka afstöðu til fjárhagslegra skaðabóta vegna tjóns af völdum fyrirhugaðrar framkvæmdar nema að því leyti að ljóst að tryggja þurfi að hagsmunaaðilar fái viðeigandi bætur í einhverju formi. Þannig verði í samráði við landeigendur gripið til þeirra mótvægisaðgerða sem hér hefur verið greint frá, og/eða annarra aðgerða sem bæta fyrir þann skaða sem kann að hljótast af framkvæmdum. Ekki verði tryggt að möguleikar til landbúnaðar á þeim jörðum sem verða fyrir raski skerðist ekki komi einungis fébætur í stað raskaðs lands þar sem í því tilfelli er ekki um að ræða endurheimt tapaðra landgæða. Stofnunin telji því að með tilliti til landnotkunar og landnytja verði áhrif fyrirhugaðra framkvæmda töluverð. Einsýnt sé að útfærsla mótvægisaðgerða verði að vera í nánu samráði við landeigendur eins og framkvæmdaraðili hefur lagt áherslu á í framlögðum gögnum. Skipulagsstofnun telji að áhrif lóns í 51 metra hæð yfir sjó hafi meiri áhrif á landnotkun en lónshæð í 50 metra. Einkum verði áhrif hærri lónshæðar meiri í landi Herríðarhóls þar sem mun meira landsvæði jarðarinnar, m.a. ræktað land muni fara undir vatn eða blotna. Einnig kemur fram að stofnunin telur að neikvæð áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á ferðaþjónustu verði svipuð hvort sem miðað er við lónshæð í 50 metrum eða 51 metrum h.y.s. Þó sé ljóst að staðbundin áhrif af lóni í 51 metra h.y.s muni verða meiri á Herriðarhóli m.a. vegna óvissu um áhrif lóns á áframhaldandi nýtingu heitrar laugar þar. Einnig er bent á að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að stofnunin telji að tryggja beri að laugin verði áfram nothæf til baða með þeim aðgerðum sem koma fram í gögnum framkvæmdaraðila. Á þessum forsendum m.a. byggi niðurstaða stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þó að ekki séu sett fram tiltekin skilyrði í úrskurðarorðum er lúta að samráði framkvæmdaraðila við landeigendur jarðarinnar Herríðarhóls um fullar bætur og/eða mótvægisaðgerðir vegna skaða sem hlýst af fyrirhugaðri framkvæmd skuli leyfisveitandi taka tillit til niðurstöðu stofnunarinnar sem sett er fram í 5. kafla úrskurðarins hvað þennan þátt varðar.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að ekki sé ljóst hvers vegna kærandi telji niðurstöðu Skipulagsstofnunar, þess efnis að hvorki 50 metra lón né 51 metra lón hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, ekki samræmast lögum. Í matsskýrslu hafi verið lagðir fram tveir kostir á lónhæð, þ.e.a.s. 50 m.y.s. og 51 m.y.s. sem var valkostur framkvæmdaraðila eftir að samanburður á öllum kostum lá fyrir. Lög um mat á umhverfisáhrifum feli Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um hvort fallist er á viðkomandi framkvæmd eða lagst er gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa. Lögin gera þannig ráð fyrir því að fallist verði á framkvæmd ef hún er ekki talin hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þetta gildi líka ef fleiri en einn framkvæmdakostur matsskýrslu uppfylli þetta skilyrði. Val framkvæmdaraðila á einum kosti umfram annan hafi ekki áhrif  á þá niðurstöðu. Þar sem það hafi verið niðurstaða Skipulagsstofnunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdakostanna að umhverfisáhrif yrðu ekki umtalsverð með skilyrðum hafi stofnuninni verið bæði heimilt og skylt að fallast á báða kostina. Mörg fordæmi séu fyrir slíkum úrskurðum. Í matsskýrslu komi fram með skýrum hætti til hvaða mótvægisaðgerða framkvæmdaraðili hyggst grípa til að koma í veg fyrir eða minnka neikvæð umhverfisáhrif. Ljóst sé að þær mótvægisaðgerðir sem fram koma í matskýrslu séu hluti af fyrirhugaðri framkvæmd og að þær sömu aðgerðir hljóta að vera skilyrði, enda liggi þær m.a. til grundvallar niðurstöðu um umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda. Þó vilji Landsvirkjun árétta að hvað varðar mótvægisaðgerðir vegna áhrifa á land í einkaeign, s.s. við Herríðarhól, hafi hún talið það þjóna hagsmunum landeigenda best að njörva ekki niður mótvægisaðgerðir á þessu stigi, heldur að halda þeim þætti málsins opnum. Það kunni vel að vera að afstaða landeigenda til tiltekinna mótvægisaðgerða gæti breyst á þeim tíma sem mun líða þar til fyrirhugaðar framkvæmdir geta hafist, t.d. gæti landeigandi fremur óskað fébóta en nýrra túna. Með áherslu á þetta atriði var talið eðlilegt að mótvægisaðgerðir yrðu ákvarðaðar í samráði við landeigendur. Hvað varðar tilvísun kæranda til réttinda er vísað til um kæru sumarhúsaeigenda í Lónsholti varðandi fébætur og samráð við landeigendur. Um þá málsástæðu kærenda að ætla mætti að þegar að því kemur að rannsaka mikilvæga einkahagsmuni sem sé liður í umhverfismatinu slaki framkvæmdaraðili og Skipulagsstofnun verulega á öllum kröfum til rannsókna er vísað til svara framkvæmdaraðila við athugasemdum kæranda til Skipulagsstofnunar sem og umfjöllunar í matsskýrslu þar sem m.a. er tafla yfir helstu umhverfisáhrif jarða á áhrifasvæði framkvæmdarinnar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir:

„Af umfjöllun um mismunandi valkosti hvað varðar lónshæð er ljóst að áhrif virkjunarinnar á ákveðna náttúrufarsþætti verður minni af völdum lóns í 50 metra hæð, þ.e. jarðmyndanir, gróðurfar, fugla- og vatnalíf og einnig á svæði sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, þ.e. mýrar og flóar stærri en 3 hektara eða stærri, eldhraun og heitar uppsprettur. Það var hins vegar niðurstaða Umhverfisstofnunar að framkvæmdin myndi ekki valda umtalsverðum áhrifum á þessa náttúrufarsþætti, burtséð frá því hvor kosturinn yrði fyrir valinu, að teknu tilliti þeirra mótvægisaðgerða sem lagðar voru til í matsskýrslu. Að öðru leyti tekur Umhverfisstofnun ekki afstöðu til ofangreinds kæruliðar enda ekki á verksviði stofnunarinnar að fjalla um lögmæti þess verklags Skipulagsstofnunar að fallast á báða valkosti."

...

„Hvað áhrif á heitar laugar varðar þá telur stofnunin umfjöllun framkvæmdaraðila um áhrif á laugina og mótvægisaðgerðir gegn þeim nægilega skýra til að hægt sé að átta sig á hugsanlegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Varðandi umfjöllun um þau umhverfisáhrif er vísað til meðfylgjandi umsagnar Umhverfisstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar.

Hvað lokun reiðleiðar meðfram bökkum Þjórsár varðar þá bendir stofnunin á að eðlilegt væri að framkvæmdaraðili ráðist í aðgerðir til mótvægis við þá skerðingu sem verður á aðgengi meðfram Þjórsá samfara framkvæmdum. Í matsskýrslu kemur m.a. fram að reiðleið verði opin eftir endilangri stíflunni vestan ár, frá Þjótanda upp að Blesastöðum á Skeiðum. Stofnunin bendir á að eðlilegt væri að framkvæmdaraðili réðist í aðgerðir til mótvægis við þá skerðingu sem verður á aðgengi meðfram Þjórsá austanverðri samfara framkvæmdum. Ef ráðist er í slíkar aðgerðir telur stofnunin að vart sé um umtalsverð áhrif á aðgengi almennings meðfram Þjórsá að ræða, hvort sem um 50 metra eða 51 metra lónshæð sé að ræða. "

Í umsögn Ásahrepps segir að hreppsnefnd telji mikilvægt að reiðleið á bökkum Þjórsár verði haldið opinni og að unnið verði áfram í góðri sátt við landeigendur. Jafnframt vísar sveitarfélagið til umsagnar sinnar til Skipulagsstofnunar þar sem segir ennfremur að hreppsnefnd óski eftir því að lónshæð verði haldið í lágmarki, að hámarki 50 metrum yfir sjávarmáli til að sem minnst af nytjalandi bænda og annarra landeigenda fari undir vatn eða blotni upp vegna lónsins.

Í athugasemdum kæranda við fram komnar umsagnir segir að kærandi telji sig ekki hafa farið út fyrir gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum í kæru sinni. Mörk milli þeirra og annarra laga sem kveða á um bætur til handa þeim sem verða fyrir tjóni vegna framkvæmda séu hins vegar ekki alltaf skýr. Svo kunni að vera að framkvæmdaraðili hafi ekki skilið hvað kærandi á við þegar því er haldið fram að hann beiti almennum mælikvarða við mat á umhverfisraski þegar ekki liggi fyrir nægjanlegar rannsóknir fyrir á einstökum jörðum, svæðum og einstökum umhverfisþáttum. Til að unnt sé að horfa til framkvæmdarinnar í heild verði að liggja fyrir rannsóknir á öllum þáttum. Um umsögn Skipulagsstofnunar segir að stofnunin taki efni kærunnar um mismunandi virkjunarkosti til meðferðar í umsögn sinni en hafi ekki gert það í úrskurði sínum.

5. Kæra Félags sumarhúsaeigenda Lónsholti

Félag sumarhúsaeigenda Lónsholti sem er félag eigenda sumarhúsa í landi Króks í Ásahreppi mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum. Í kæru segir að 21 eignarland félagsmanna félagsins verði í uppnámi verði af virkjuninni. Afleiðing virkjunarinnar verði sú að lóðir 1 - 5 fari með öllu undir vatn, lóðir 6 - 7 eyðileggist sem byggingarlönd og lóðir 15 - 21 skerðist um 20 - 35 %. Sameiginlegt land 1,5 hektari fari undir vatn og tapist. Lóðir 8 - 14 standi hærra en verði fyrir beinu tjóni hvað sameiginlegt land varðar. Við þá vatnsborðshækkun sem ráðgerð sé muni grunnvatnsstaða hækka og valda enn frekari skaða. Gera megi ráð fyrir skemmdum vegna rofs á bökkum um langa framtíð enda sé þarna um mjög þykkan jarðveg að ræða, bratti mikill að ánni að hluta og búast megi við ágangi öldu að landinu þar sem áin renni í aldagömlum farvegi sínum. Sjónmengun verði gífurleg og sú friðsæld sem þarna sé í dag með vinalegum árnið, fuglalífi í hólmum og fögru útsýni vestur og norður yfir fljótið verði fyrir bí ef að þessum framkvæmdum verði. Virkjunaráformin hafi nú þegar gert það ókleift að koma þessum eignum í verð. Þess utan muni framkvæmdin hafa þau áhrif að kostnaður vegna vega, vatns- og hitaveituframkvæmda falla á mun færri hendur þar sem byggilegum lóðum fækki um 30 - 50 %.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar á sumarhúsabyggð í Lónsholti sé skilmerkilega lýst í matsskýrslu. Áhrif á grunnvatn verði lítil. Land sé þarna fremur aðbratt og ekki sé búist við því að vatn stígi að marki upp í jarðveginn. Þá verði fylgst með rofi meðfram strönd lónsins og brugðist við því eins og lýst er í matsskýrslu. Framkvæmdaraðili hafni með öllu athugasemdum kæranda um sjónræn áhrif og líti svo á að fagurfræði sé afstæð. Framkvæmdaraðili telji jafnframt að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sem lýst sé í matsskýrslu, muni draga verulega úr sjónrænum áhrifum virkjunarinnar. Óhjákvæmilegt sé að á framkvæmdatíma virkjunarinnar verði nokkuð rask og ónæði vegna framkvæmda, eins og fram kemur í matsskýrslu. Að þeim tíma liðnum muni virkjunin ekki raska friðsæld umhverfisins. Eins og fram komi í matsskýrslu og svörum við athugasemdum nokkurra landeigenda sé gert ráð fyrir því að almennt komi fébætur fyrir land sem tapast lögum samkvæmt en gert sé ráð fyrir því að þar sem aðstæður bjóði upp á ræktun nýrra túna, upphækkun þeirra eða uppgræðslu beitilands verði farið í slíkar framkvæmdir eða eftir atvikum aðrar aðgerðir sem miða að því að draga úr eða bæta fyrir áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á landnotkun, allt í samráði við hlutaðeigandi landeigendur. Í svörum framkvæmdaraðila hafi einnig komið fram sú afstaða fyrirtækisins að umfjöllun um fébætur vegna slíks tjóns falli ekki undir málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun taki undir þessa afstöðu framkvæmdaraðila og telji ekki efni standa til þess að taka afstöðu til fjárhagslegra skaðabóta vegna tjóns af völdum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Kæra félags sumarbústaðaeigenda Lónsholti nái eingöngu, að mati framkvæmdaraðila, til þátta er þetta varðar.

Í umsögn Ásahrepps segir að hreppsnefnd telji mikilvægt að reiðleið á bökkum Þjórsár verði haldið opinni. Einnig eru ítrekuð þau sjónarmið hreppsnefndarinnar að unnið verði áfram í góðri sátt við landeigendur.

Umsögn Landgræðslu ríkisins tekur til hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar á gróður og gróðurlendi, jarðvegsrof og rennsli fallvatna með tilliti til landbrots sbr. lög um landgræðslu, nr. 17/1965 og lög um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002. Einnig tekur umsögnin til hugsanlegra bóta fyrir landspjöll sbr. 17. og 18. gr. laga um landgræðslu en stofnunin telur þær bætur ekki vera hluta af eða getað komið í staðinn fyrir hugsanlegar skaðabætur vegna verðmætarýrnunar eigna og/eða kostnaðarauka einstakra landeigenda vegna eigin eða sameiginlegra framkvæmda. Í umsögninni segir að land á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sé algróið. Ekki verði því unnt að koma við landbótum, í skilningi laga um landgræðslu, innan þess svæðis sem tiltekið er í kæru sumarhúsaeigenda Lónsholti. Landspjöll verði hins vegar í því landi þar sem land fer undir vatn og gróðurbreytingar þar sem land blotnar. Frekara rof sé einnig líklegt á bökkum fyrirhugaðs lóns þó svo það muni að líkindum takmarkast við næsta nágrenni lónsins. Það rof sé að mestu fyrirbyggjanlegt með því að koma fyrir bakkavörnum úr grófu grjóti við vatnsborð lónsins. Slíkar bakkavarnir breyti þó eitthvað ásýnd lónsins til að byrja með og geti í einhverjum tilvikum hindrað aðgengi að og meðfram bökkum þess. Stofnunin telji að það land sem fari undir vatn eða blotni upp verði ekki nýtt til annarra hluta nema ef vera skyldi að hluta til endurheimtar votlendis.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir:

„Umhverfisstofnun telur ljóst að fyrirhuguð virkjun við Urriðafoss muni hafi veruleg sjónræn áhrif í för með sér, bæði meðan á framkvæmdum stendur, sem og eftir að framkvæmdum lýkur. Þau mannvirki sem byggð verða í tengslum við virkjanirnar munu setja mark sitt á umhverfið, s.s. lón, stíflumannvirki, frárennslisskurðir, haugsvæði o.fl.

Umhverfisstofnun bendir á að búseta er á því svæði sem um ræðir og setja ummerki hennar sem og rask eftir mannvirkjagerð svip sinn á landslagið. Ekki er því um ósnortið svæði að ræða. Umhverfisstofnun telur eðlilegt að hönnun mannvirkja og verklag miði að því að draga sem mest úr sjónrænum áhrifum framkvæmda. Það er mat Umhverfisstofnunar að þrátt fyrir að áhrif Urriðafossvirkjunar verði töluverð geti þau ekki talist umtalsverð á þá þætti er varða umsagnarhlutverk stofnunarinnar."

5. Kæra Marteins Winkler

Martein Winkler gerir þá kröfu að ef til stíflugerðar komi verði hæð lónsins ekki meiri en 50 metrar yfir sjávarmáli. Telur hann eðlilegast að gerð verði stífla neðst í Krókslandi svo að vatn komist síður inn á hans land. Fyrirhugað lón myndi valda því að verulegur hluti lands hans myndi glatast. Á því landi sem lenda muni undir haugstæði, sem fyrirhugað er vegna lónsins sé nú eina neysluvatnið í landi hans sem muni verða eyðilagt. Telur hann einnig að fyrirhugaðar framkvæmdir muni spilla landslagi á bökkum árinnar og sérstaklega fallegri reiðleið upp með ánni sem fara muni undir vatn þegar virkjað verður.

Í umsögn Landsvirkjunar er vísað til svars við athugasemdum kæranda við matsskýrslu og umsagnar um kæru ferðamálafulltrúa Villingaholtshrepps.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað til umsagnar stofnunarinnar um varakröfu landeigenda Herríðarhóli að því er varðar lónshæð. Stofnunin telji eðlilegt að framkvæmdaraðili ráðist í aðgerðir til mótvægis við þá skerðingu sem verður á aðgengi meðfram Þjórsá samfara framkvæmdum. Ef ráðist verði í slíkar aðgerðir telji stofnunin að vart sé um umtalsverð áhrif á aðgengi almennings meðfram Þjórsá að ræða, hvort sem um 50 metra eða 51 metra lónshæð sé að ræða. Varðandi landslag er vísað til umsagnar stofnunarinnar um kæru landeigenda Lónsholti.

Í umsögn heilbrigðiseftirlits Suðurlands segir um áhrif á neysluvatn í landi hans að út frá þeim lögum og reglugerðum sem embættið starfi eftir sé fremur horft til þess að menn nýti neysluvatn frá vatnsveitu sveitarfélagsins eða öðrum vatnsveitum sem hafa starfsleyfi þar að lútandi.

III. Niðurstaða

1. Formhlið hins kærða úrskurðar

Landeigendur Herríðarhóli krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka málið fyrir á ný. Til vara er þess krafist að umhverfisráðherra taki nýja ákvörðun í málinu. Kærendur telja að framkvæmdaraðili hafi ekki fylgt matsáætlun sem samþykkt var af Skipulagsstofnun við gerð matsskýrslu. Í matsáætlun sé gert ráð fyrir valkostum 2 og 3 við fyrirhugaða framkvæmd. Rétt sé að gera þá kröfu til framkvæmdaraðila að færð séu rök fyrir þeirri niðurstöðu að skoða þá ekki nánar en gert er í matsskýrslu. Skipulagsstofnun fjalli ekki um þetta atriði í úrskurði sínum þrátt fyrir að gerðar hafi verið athugasemdir við þessa framkvæmd í athugasemdum til stofnunarinnar.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að stofnunin líti svo á að í tillögu að matsáætlun sem stofnuninni barst með bréfi, dags. 24. ágúst 2001, hafi framkvæmdaraðili á undirbúningsstigi gert grein fyrir öðrum möguleikum á fyrirkomulagi framkvæmda miðað við fyrirliggjandi rannsóknir og sem skoðaðir hafi verið á því stigi málsins. Í matsskýrslu sé gerð grein fyrir þeim kostum sem getið var um í tillögu að matsáætlun og ástæðum þess að framkvæmdaraðili hafi ekki kosið að leggja þá fram til athugunar og úrskurðar. Bent er á að í stað framangreindra kosta hafi framkvæmdaraðili lagt fram framkvæmdakost með lónshæð í 50 metra hæð yfir sjávarmáli til athugunar og úrskurðar auk aðalvalkosts með lónshæð í 51 metra hæð yfir sjávarmáli.

Samkvæmt 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Í tillögu að matsáætlun skal lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma o.s.frv. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skal gerð og efni matsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna skal Skipulagsstofnun innan tveggja vikna frá því að framkvæmdaraðili hefur sent matsskýrslu meta hvort skýrslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í 9. gr. laganna og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Af bréfi sem Skipulagsstofnun sendi framkvæmdaraðila þann 6. maí 2003 er ljóst að framangreint mat hefur farið fram. Jafnframt kemur fram að framkvæmdaraðili hafði sent stofnuninni drög að matsskýrslu skv. heimild í 17. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 671/2000 en í ákvæðinu segir að framkvæmdaraðila sé heimilt að kynna drög að matsskýrslu, gera grein fyrir hugsanlegum breytingum frá matsáætlun og óska eftir athugasemdum við hana. Í bréfinu kemur ennfremur fram að framkvæmdin hafði tekið breytingum frá matsáætlun. Þar sem skylt er að gera tillögu að matsáætlun snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar er ljóst að frávik geta orðið frá henni s.s. vegna ónógra upplýsinga eða þess að rannsóknir hefur skort. Í matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar er fjallað um ástæður þess að ákveðið var að falla frá þremur framkvæmdakostum sem getið var um í matsáætlun. Fram kemur að í ljós hafi komið að umhverfisáhrif þeirra kosta hafi verið umtalsvert meiri og hagkvæmni tveggja þeirra minni en þeirra sem lögð sé höfuðáhersla á í matsskýrslu. Þetta hafi leitt til þess að framkvæmdaraðili hafi ekki talið þá koma til greina. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er framkvæmdaraðili ábyrgur fyrir mati á umhverfisáhrifum og ber kostnað af því. Ráðuneytið lítur svo á að hlutverk stjórnvalda í mati á umhverfisáhrifum sé að tryggja að fullnægjandi mat á umhverfisáhrifum fari fram og leggja mat á hvort þeir framkvæmdakostir sem framkvæmdaraðili telur koma til greina hafi umtalsverð umhverfisáhrif. Með vísun til þess sem að framan segir telur ráðuneytið að umfjöllun um framkvæmdakosti í matsskýrslu sé í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og er því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar.

Í kæru landeigenda Herríðarhóli segir að á skorti að tekin sé sjálfstæð afstaða til athugasemda í hinum kærða úrskurði. Texti athugsemda kærenda sé slitinn í sundur og myndi ekki þá rökrænu heild sem þeim var ætlað.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar eru umhverfisáhrif framkvæmdarinnar flokkuð í efnisflokka og fjallað er um umsagnir og athugasemdir í hverjum efnisflokki fyrir sig. Að mati ráðuneytisins er ekki tilefni til að gera athugasemd við þau vinnubrögð enda kemur skýrt fram hvað er verið að fjalla um hverju sinni. Verður ekki séð að um annmarka sé að ræða á úrskurði Skipulagsstofnunar sem leitt geti til ógildingar úrskurðarins.

2. Umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar

2.1. Áhrif á ferðaþjónustu

Kærandi, ferðamálafulltrúi Villingaholtshrepps gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði ógiltur og málinu verði vísað til Skipulagsstofnunar á ný þar sem tekið verði frekara tillit til framkominna viðhorfa ferðaþjónustuaðila og framkvæmdar verði nauðsynlegar viðbótarrannsóknir vegna áhrifa virkjunarinnar á framtíð ferðaþjónustu og útivistar. Villingaholtshreppur gerir þær kröfur að kannað verði betur hvaða áhrif Urriðafossvirkjun hefur á ferðaþjónustu á svæðinu og þá uppbyggingu sem unnið er að í ferðamálum á vegum Villingaholtshrepps og að framkvæmdaraðili tryggi leið vatnsins í Þjórsá til sjávar á þann hátt að það skaði ekki hagsmuni landeigenda við ána. Í kæru Landeigenda Herríðarhóli segir að engar rannsóknir liggi fyrir um áhrif framkvæmdarinnar á ferðaþjónustu að Herríðarhóli. Telja þeir líklegt að heit laug sem hafi verið aðdráttarafl ferðamanna fari ekki undir vatn ef lónið verður 50 metrar. Landeigendur Herríðarhóli telja ennfremur að gera ætti hugmynd framkvæmdaraðila, um að setja brú yfir lónstunguna við Þjórsárbakka og ræsi undir brúnna, að skilyrði fyrir framkvæmdinni. Við það myndi reiðleiðin opnast, öldurof minnka, lónstungan verða tærari og land næst lónstungunni ekki jafn blautt. Kærandi, Martein Winkler telur að fyrirhugaðar framkvæmdir muni spilla fallegri reiðleið upp með ánni sem fara muni undir vatn þegar virkjað verður.

Í umsögn Ferðamálaráðs Íslands segir að það sé niðurstaða ráðsins að fyrirhuguð virkjun komi ekki til með að hafa afgerandi áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu þrátt fyrir að Urriðafoss sem, að sönnu sé mikilfenglegur og að sjálfsögðu sjónarsviftir af, hverfi nær algerlega þá eigi það ekki að draga úr möguleikum á að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu. Til grundvallar matsins sé stuðst við áþreifanleg viðmið s.s. umfang ferðaþjónustu á svæðinu, kannanir á stöðu mála og stefnu sveitarfélaga viðkomandi svæðis. Tiltölulega lítið af efni hafi verið til að vinna úr t.d. hafi ekkert fundist um hvert aðdráttarafl Urriðafoss er inn á svæðið, engin samantekt virðist vera til um efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu á svæðið og ekki sé til markviss stefna um uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Reyndar sé vitað, af afspurn, að áhugi sé fyrir hendi að fara í slíka vinnu á vegum sveitarfélagsins í Villingaholtshreppi.

Í hinum kærða úrskurði segir m.a. að ljóst sé að fyrirhugað framkvæmdasvæði bjóði upp á ýmsa möguleika til framtíðar hvað varðar ferðamennsku og útivist enda í nágrenni við fjölfarinn þjóðveg skammt frá höfuðborgarsvæðinu. Fæstir ferðamenn hafi viðdvöl á svæðinu en spáð sé töluverðri aukningu erlendra ferðamanna um svæðið. Skert rennsli neðan stíflu og um Urriðafoss muni hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna sem hafa viðdvöl á svæðinu auk þess sem sjónræn áhrif stíflumannvirkja, lóns og háspennlína hafi neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu á áhrifasvæði Urriðafossvirkjunar. Með matsskýrslu fylgdi ítarleg skýrsla þar sem m.a. er leitast við að meta áhrif Urriðafossvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist. Í skýrslunni segir að áætla megi að 50-65% Íslendinga hafi farið yfir Þjórsárbrú við þjóðveg 1 árið 2001, 38% innlendra ferðamanna hafi skoðað Urriðafoss og 12% erlendra ferðamanna. Flestir ferðamenn fari þó um nágrenni fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar án þess að hafa þar viðdvöl.

Samkvæmt matsskýrslu mun rennsli í fossinum minnka við virkjun niður í um 10-15 m3/sek meðalrennsli að vetri en um 120 m3/sek meðalrennsli að sumri. Líklegt er að megnið af vatninu, hugsanlega allt, muni falla í einum streng þar sem nú er meginfall fossins. Framkvæmdaraðili mun halda 10-15 m3/sek lágmarksrennsli í farveginum vegna fiskgengdar. Framkvæmdaraðili áformar að grafa framræsluskurð niður með stíflugarðinum sem mun lækka grunnvatnsborð og taka við leka úr lóninu. Umframvatn mun renna um þennan skurð og niður fossinn þannig að rennsli getur í slíkum tilfellum orðið meira en 120 m3/sek t.d. í leysingum.

Í framangreindri skýrslu um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á ferðaþjónustu, útivist og samfélag sem unnin var af fyrirtækinu Rannsóknir og ráðgjöf er leitast við að meta áhrif Urriðafossvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist. Ráðuneytið hefur kynnt sér umrædda skýrslu og telur hana gefa fullnægjandi mynd af gildi Urriðafoss fyrir ferðaþjónustu í dag. Ráðuneytið telur því ekki tilefni til að ógilda úrskurð Skipulagsstofnunar á grundvelli þess að upplýsingar hafi skort um áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu. Ráðuneytið telur ljóst að skert rennsli neðan fyrirhugaðrar stíflu mun hafa áhrif á aðdráttarafl fossins. Ráðuneytið telur að umframvatn úr framræsluskurði muni auka vatnsmagn í fossinum en ekki skila nægilegu rennsli til að halda þeirri mynd sem er af fossinum í dag. Telur ráðuneytið frekari mótvægisaðgerðir ekki raunhæfar í þeim tilgangi.

Varðandi áhrif framkvæmdarinnar á heita laug í landi Herríðarhóls segir í umsögn Umhverfisstofnunar að stofnunin telji umfjöllun framkvæmdaraðila um áhrif á heita laug í landi jarðarinnar og mótvægisaðgerðir gegn þeim nægilega skýra til að hægt sé að átta sig á hugsanlegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Varðandi umfjöllun um þau umhverfisáhrif er vísað til umsagnar Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd. Þar er vísað til tillagna framkvæmdaraðila til mótvægis við kólnun laugarinnar þ.e. að fylgst verði með hitastigi í lauginni og ef kólnunar gæti verði gripið til þeirra aðgerða sem lýst er í matsskýrslu. Stofnunin telji mikilvægt að þessu verði fylgt eftir sérstaklega í ljósi þess að laugarnar séu nýttar í tengslum við ferðaþjónustu á Herríðarhóli.

Í greinargerð með aðalskipulagi Ásahrepps 2002-2014 kemur fram að á Herríðarhóli er rekið ferðaþjónustubýli, veitingasala og gisting. Í úrskurði Skipulagsstofnunar segir að stofnunin telji að tryggja beri að laugin verði áfram nothæf til baða með þeim aðgerðum sem koma fram í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila. Hins vegar er það ekki gert að skilyrði fyrir framkvæmdinni skv. úrskurði stofnunarinnar. Samkvæmt d-lið 37. gr. náttúruverndarlaga, 44/1999 njóta fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Laug þessi er talin hafa þýðingu fyrir ferðaþjónustu á Herríðarhóli. Ráðuneytið telur með vísun til 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 rétt að gera það að skilyrði fyrirhugaðrar framkvæmdar að ef vart verður kólnunar verði laugin fóðruð niður á berg og jarðvegurinn umhverfis hana þéttur í samráði við Umhverfisstofnun og landeiganda.

Sveitarstjórnir annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Reið- og göngustígar falla undir samgöngur skv. skilgreiningu í lið 4.16.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Í lið 4.16.2 sömu reglugerðar segir ennfremur að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir göngu- og reiðstígum. Einnig að við deiliskipulag svæða skuli gerð grein fyrir fyrirkomulagi göngu- og reiðstíga. Í greinargerð með aðalskipulagi Ásahrepps 2002-2014 segir að til staðar sé reiðstígur með Suðurlandsvegi en aðrir reiðstígar séu að mestu leiti ólagðir. Ennfremur segir að stefnt sé að því að skilgreina nánar reiðleiðir í sveitarfélaginu í samvinnu við landeigendur og aðra hagsmunaaðila. Samkvæmt upplýsingum kæranda er sú reiðleið sem fjallað er um í kæru landeiganda Herríðarhóli í landi Herríðarhóls og er hún ekki tilgreind á skipulagi. Ekki eru í lögum ákvæði um sérstaka verndun reiðstíga. Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu að lög leiði ekki til þess að sett verði sérstakt skilyrði vegna áhrifa framkvæmdarinnar á reiðstíga.

2.2. Náttúruverndargildi Urriðafoss

Kjartan Ágústsson gerir þá kröfu að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi. Kærandi telur að umfjöllun Skipulagsstofnunar m.a. um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á Urriðafoss sýni að um sé að ræða umtalsverð umhverfisáhrif.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að við fyrirhugaðar framkvæmdir muni vatnsmagn í Urriðafossi minnka verulega. Ákveðnu lágmarksrennsli verði þó haldið um fossinn, 10-15 m3/s, til að fiskgengt verði áfram um hann. Talsverð óvissa sé um hvernig rennsli verði í fossinum eftir framkvæmdir. Það þurfi því að meta það á síðari stigum hvort nauðsynlegt sé að ráðast í aðgerðir til að tryggja fiskgengd um fossinn, sérstaklega ef vatnið lendi allt í einum streng. Vísað er til 37. gr. laga náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 þar sem fram kemur að fossar njóta ákveðinnar verndar. Brýnt sé því að forðast röskun á Urriðafossi svo sem frekast er kostur. Urriðafoss sé þó ekki meðal þeirra fossa sem talið er að tvímælalaust eigi að friðlýsa né heldur þeirra sem talið er mjög æskilegt að friðlýsa. Ljóst sé að minnkun á rennsli um fossinn muni rýra gildi hans t.d. til nýtingar tengt ferðamennsku. Umhverfisstofnun leggur áherslu á að ef nauðsynlegt verði að ráðast í aðgerðir við Urriðafoss til að tryggja fiskgengd upp Þjórsá sé brýnt að slíkar aðgerðir verði afturkræfar. Að fossbrúninni verði ekki raskað né rennsli um Urriðafoss minnkað umfram það lágmarksrennsli sem talið er að verði í fossinum eftir framkvæmdir. Stofnunin telji þó, m.t.t. til umfjöllunar um verndargildi Urriðafoss hér að ofan og í ljósi þess að ekki verði um beina, óafturkræfa röskun á fossinum að ræða, að framkvæmdirnar muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Ráðuneytið telur að í hinum kærða úrskurði komi fram fullnægjandi upplýsingar um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á Urriðafoss. Vísað er til umfjöllunar í kafla 2.1. hér að framan um mótvægisaðgerðir. Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar á Urriðafoss hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni.

2.3. Sjónræn áhrif og ónæði

Kjartan Ágústsson telur að umfjöllun Skipulagsstofnunar m.a. um ásýnd framkvæmdasvæðisins sýni að um sé að ræða umtalsverð umhverfisáhrif. Félag sumarhúseigenda Lónsholti telur að sjónmengun verði gífurleg vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og sú friðsæld sem þarna sé í dag með vinalegum árnið, fuglalífi í hólmum og fögru útsýni vestur og norður yfir fljótið verði fyrir bí ef að þessum framkvæmdum verði. Martein Winkler telur að fyrirhugaðar framkvæmdir muni spilla landslagi á bökkum árinnar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur ljóst að fyrirhuguð virkjun við Urriðafoss muni hafi veruleg sjónræn áhrif í för með sér, bæði meðan á framkvæmdum stendur, sem og eftir að framkvæmdum lýkur. Þau mannvirki sem byggð verði í tengslum við virkjanirnar muni setja mark sitt á umhverfið, s.s. lón, stíflumannvirki, frárennslisskurðir, haugsvæði o.fl. Stofnunin bendir þó á að búseta er á því svæði sem um ræðir og setja ummerki hennar sem og rask eftir mannvirkjagerð svip sinn á landslagið. Ekki sé því um ósnortið svæði að ræða. Umhverfisstofnun telur eðlilegt að hönnun mannvirkja og verklag miði að því að draga sem mest úr sjónrænum áhrifum framkvæmda. Það sé mat Umhverfisstofnunar að þrátt fyrir að áhrif Urriðafossvirkjunar verði töluverð geti þau ekki talist umtalsverð á þá þætti er varða umsagnarhlutverk stofnunarinnar.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að dregið verði úr sjónrænum áhrifum svo sem kostur er t.d. með því að græða stíflu upp loftmeginn og með því að móta haugsvæði og græða upp í samráði við sérfróða aðila á þeim sviðum.

Ljóst er að breytingar verða á ásýnd landslags fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis af völdum stíflu, lóns, skerts rennslis í Þjórsá og haugsetningar auk sjónrænna áhrifa af öðrum mannvirkjum tengdum fyrirhugaðri virkjum og nýjum vegum. Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila sem miða að því að draga úr sjónrænum áhrifum s.s. uppgræðsla og landmótun eru að mati ráðuneytisins trúverðug og líkleg til árangurs. Þau sjónrænu áhrif sem verða hvað mest áberandi eru áhrif framkvæmdarinnar á Urriðafoss.

Ráðuneytið telur óhjákvæmilegt að ónæði verði vegna framkvæmda af því tagi sem fyrirhugaðar eru og jafnframt að búast megi við ónæði eftir að framkvæmdum lýkur s.s. vegna rekstrar og viðhalds virkjunarinnar. Á framkvæmdartíma ber framkvæmdaraðila hins vegar að haga framkvæmdum þannig að sem minnst rask og ónæði verði fyrir hlutaðeigandi aðila sbr. ákvæði 21. gr. raforkulaga, nr. 65/2003 þar sem segir að við afnot og nýtingu lands beri að gæta þess að framkvæmdir stofni hvorki mönnum, munum né búpeningi í hættu eða valdi þeim skaða. Jafnframt skuli þess gætt að ekki sé valdið óþarfa mengun og spjöllum á lífríki. Eftir að framkvæmdum lýkur og rekstur virkjunarinnar hefst telur ráðuneytið fyrirsjáanlegt að nokkurt ónæði muni verða af starfsemi virkjunarinnar t.d. má gera ráð fyrir umferð vegna starfsmanna sem líta til með rekstri virkjunarinnar og vegna viðhalds og eftirlits með mannvirkjum. Ráðuneytið telur þó, með hliðsjón af ofansögðu og af reynslu sem fengist hefur af rekstri annarra vatnsaflsvirkjana í landinu, ekki ástæðu til að ætla að umtalsvert ónæði verði að ræða.

Við umfjöllun ráðuneytisins um sjónræn áhrif framkvæmdarinnar og áhrif vegna ónæðis hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni.

2.4. Lífríki Þjórsár

Kjartan Ágústsson telur að umfjöllun Skipulagsstofnunar m.a. um lífríki Þjórsár sýni að um sé að ræða umtalsverð umhverfisáhrif.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað til skýrslu Veiðimálastofnunar sem lögð var fram með matsskýrslu þar sem segir að Þjórsá hafi verið í hópi aflasælustu veiðiáa landsins en um 4,9% veiddra laxa á landinu hafi komið úr Þjórsá. Með virkjunum ofar í Þjórsá hafi lífsskilyrði batnað í ánni og með tilkomu laxastiga við Búðafoss hafi útbreiðsla lax aukist verulega á svæðinu. Að öllu óbreyttu, og án tillits til mótvægisaðgerða, muni áhrif virkjana neðan Búrfells því hafa umtalsverð áhrif á laxastofna í Þjórsá. Þessu til mótvægis hafi framkvæmdaraðili gert tillögur að mótvægisaðgerðum auk þess sem kynntar eru áætlanir um frekari rannsóknir og vöktunaráætlanir. Stofnunin tekur undir það með kæranda að óvissan sem ríkir um breytingar á straumum, um áhrif á laxfiska og skilvirkni mótvægisaðgerða er talsverð. Í úrskurði Skipulagsstofnunar séu hins vegar sett víðtæk skilyrði um viðbótarrannsóknir á grunnástandi í Þjórsá auk mótvægisaðgerða og vöktunarrannsókna. Umhverfisstofnun telji að með þeim skilyrðum sem sett hafa verið fram í úrskurði Skipulagsstofnunar megi draga verulega úr þeim neikvæðu áhrifum sem verða á vatnalíf Þjórsár. Fyrirhuguð framkvæmd muni samkvæmt því ekki valda umtalsverðum áhrifum á vatnalíf Þjórsár.

Í umsögn Skeiða- og Gnúpverjahrepps er vísað til athugasemdar sem hreppsnefnd gerði á fyrri stigum málsins varðandi það að vöktun á gróðri og lífríki væri aðeins hugsuð til 10 ára. Talið sé nauðsynlegt að vöktunin standi meðan virkjunin er starfrækt og tímatakmörk á vöktun falli þar með út.

Í hinum kærða úrskurði er skilyrði um að framkvæmdaraðili standi fyrir viðbótarrannsóknum um grunnástand lífríkis í Þjórsá í samræmi við sérfræðiskýrslu Veiðimálastofnunar áður en til framkvæmda kemur og útfæri nánar og grípi til mótvægisaðgerða í samræmi við niðurstöður þeirrar rannsóknar og tillögur Veiðimálastofnunar sem fram koma í sömu skýrslu. Jafnframt skal framkvæmdaraðili vakta lífríki árinnar í a.m.k. 10 ár frá því að starfsemi virkjunarinnar hefst.

Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni. Skilyrði um 10 ára vöktun á lífríki Þjórsár í hinum kærða úrskurði er í samræmi við tillögu Veiðimálastofnunar og umsögn Umhverfisstofnunar. Ráðuneytið telur að 10 ára vöktunarskilyrði muni duga til að meta hvort áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eru í samræmi við það sem fram kemur í matsskýrslu.

2.5. Áhrif á landkosti og landnotkun

Landeigendur Herríðarhóli telja að lón í 50 m.y.s. muni valda mun minna umhverfisraski en lón í 51 m.y.s. Telja kærendur að um 25% jarðarinnar fari undir vatn vegna virkjunarinnar og um 33% af ræktuðu landi hennar. Jafnframt blotni annað land meira auk áhrifa reglubundinna sveiflna í lóni. Enginn vafi leiki á því að jafn mikilvægar upplýsingar og hér um ræðir eigi að koma fram í matsskýrslu. Ranglega sé farið með í matsskýrslu að mýrlendi sé ekki nýtt í dag. Það sé nýtt til beitar. Einnig sé ranglega farið með að mýrin sé svo illfær að krækja þurfi fyrir hana.

Martein Winkler gerir þá kröfu að ef til stíflugerðar komi verði hæð lónsins ekki meiri en 50 m.y.s.. Telur hann að fyrirhugað lón myndi valda því að verulegur hluti lands hans myndi glatast og eðlilegast að gerð verði stífla neðst í Krókslandi svo að vatn komist síður inn á hans land.

Sumarhúsaeigendur Lónsholti telja að 21 eignarland félagsmanna félagsins verði í uppnámi verði af virkjuninni. Afleiðing virkjunarinnar verði sú að lóðir 1 - 5 fari með öllu undir vatn, lóðir 6 - 7 eyðileggist sem byggingarlönd og lóðir 15 - 21 skerðist um 20 - 35 %. Sameiginlegt land 1,5 hektari fari undir vatn og tapist. Lóðir 8 - 14 standi hærra en verði fyrir beinu tjóni hvað sameiginlegt land varðar.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar á sumarhúsabyggð í Lónsholti sé skilmerkilega lýst í matsskýrslu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir af umfjöllun um mismunandi valkosti hvað varðar lónshæð sé ljóst að áhrif virkjunarinnar á ákveðna náttúrufarsþætti verði minni af völdum lóns í 50 metra hæð, þ.e. á jarðmyndanir, gróðurfar, fugla- og vatnalíf og einnig á svæði sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, þ.e. mýra og flóa stærri en 3 hektara eða stærri, eldhraun og heitar uppsprettur. Það var hins vegar niðurstaða Umhverfisstofnunar að framkvæmdin myndi ekki valda umtalsverðum áhrifum á þessa náttúrufarsþætti, burtséð frá því hvor kosturinn yrði fyrir valinu, að teknu tilliti þeirra mótvægisaðgerða sem lagðar voru til í matsskýrslu.

Í umsögn Landgræðslu ríkisins er vísað til ákvæðis 17. gr. landgræðslulaga, nr. 17/1965, þar sem segir að land skuli nytja svo, að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Sá, sem landspjöllum valdi með mannvirkjagerð eða á annan hátt, sé skyldur að bæta þau. Einnig segir að land á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sé algróið. Ekki verði því unnt að koma við landbótum, í skilningi laga um landgræðslu, innan þess svæðis sem tiltekið er í kæru sumarhúsaeigenda Lónsholti. Landspjöll verði hins vegar í því landi þar sem land fer undir vatn og gróðurbreytingar þar sem land blotnar. Stofnunin telji að það land sem fari undir vatn eða blotni upp verði ekki nýtt til annarra hluta nema ef vera skyldi að hluta til endurheimtar votlendis.

Í áliti landbúnaðaráðuneytisins, dags. 25. febrúar 2004, kemur fram að ráðuneytið telur að framangreint ákvæði feli í sér landbætur en ekki skaðabætur til landeigenda. Er það rökstutt með hliðsjón af lagaumhverfi þess tíma er lög um landgræðslu voru sett, markmiðum laganna og umræðum um frumvarp til landgræðslulaga á Alþingi. Telur landbúnaðarráðuneytið að framkvæmdaraðila beri að sjá til þess, ef hann við framkvæmdir sínar eyðir gróðri eða jarðvegi að þá sé bætt fyrir það með uppgræðslu eða á annan sambærilegan hátt. Fram kemur að landbúnaðarráðuneytinu sé ekki kunnugt um hvernig ákvæðinu hafi verið beitt í framkvæmd en virðist sem fallist hafi verið á þessi sjónarmið í úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búðarhálsvirkjunar.

Í athugasemdum Landsvirkjunar segir að fyrirvaralausri niðurstöðu landbúnaðarráðuneytisins sé hafnað, hún eigi sér ekki stoð í lögum, hvorki landgræðslulögum né öðrum lögum. Rökstuðningur landbúnaðarráðuneytisins sé ófullnægjandi. Tekið sé undir túlkun Landgræðslu ríkisins á tæplega 40 ára gömlum lögum einungis með vísun í lögskýringargögn. Lögskýringargögn veiti enga haldbæra niðurstöðu. Við túlkun laganna verði að hafa að leiðarljósi að ný og fullkomnari lög: skipulags- og byggingarlög, um náttúruvernd og mat á umhverfisáhrifum gangi þeim framar og skarist að hluta. Landgræðsla ríkisins heyri undir landbúnaðarráðuneytið. Það samræmist ekki jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins að landbúnaðarráðuneytið hafi uppi framangreinda túlkun um að krefja eigi Landsvirkjun, sem framkvæmdaraðila, um landbætur á grundvelli 17. gr. landgræðslulaga, óháð eignaréttarlegri stöðu á því landsvæði sem um ræðir og óháð almennu gróðurfari á framkvæmdasvæði. Það álit sé látið í ljós þrátt fyrir að ekki verði annað séð af bréfi ráðuneytisins en að því sé kunnugt um að öðrum framkvæmdaraðilum hafi ekki verið gert slíkt hið sama. Í því tilviki sem hér um ræðir séu engar aðstæður sem réttlæta að lögð sé sú kvöð á framkvæmdaraðila að hann finni gróðurvana land í næsta nágrenni virkjunar til uppræktunar. Markmið laga um landgræðslu sé að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og að græða upp eytt og vangróin lönd. Landsvirkjun telur ekki í samræmi við markmið og tilgang laganna að hafa uppi kröfur á grundvelli 17. gr. laganna þegar um landsvæði er að ræða sem er sem næst algróið eins og í þessu tilfelli. Landsvirkjun hafnar því að fallist hafi verið á sjónarmið Landgræðslu ríkisins í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum Búðarhálsvirkjunar. Vísað er til umfjöllunar í úrskurði Skipulagsstofnunar þar sem segir m.a. að umhverfisáhrif vegna taps á gróðurlendi af völdum Sporðöldulóns við Búðarháls kalli á að bætt verði fyrir þau með mótvægisaðgerðum sem felast í endurreisn gróðurlendis. Lítur Landsvirkjun svo á að túlkun Skipulagsstofnunar í tilvitnuðu máli byggi á lögum um mat á umhverfisáhrifum sbr. reglugerð um sama efni. Skilyrðislausum kröfum um landbætur sé hafnað en sá fyrirvari sé gerður að sé þess nokkur kostur skuli koma til mótvægisaðgerða er dragi úr neikvæðum umhverfisþáttum framkvæmdar.

Ráðuneytið telur að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á landnotkun verði nokkuð meiri við 51 m. lónshæð en 50 m. lónshæð s.s. í landi Herríðarhóls þar sem töluvert meira land fer þannig undir lónstungu sem myndast í landinu. Ráðuneytið lítur hins vegar svo á að við mat á umhverfisáhrifum beri að leggja mat á heildaráhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar. Meginmarkmið laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, sbr. a-liður 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna skal í úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum „taka ákvörðun um hvort a. fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða b. lið lagst er gegn viðkomandi framkvæmd vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa." Í 3. mgr. segir að í úrskurðinum skuli m.a. gera grein fyrir því hvaða skilyrðum jákvæð niðurstaða stofnunarinnar er bundin og lýsa helstu mótvægisaðgerðum þegar það á við. Mótvægisaðgerðir eru í i-lið 3. gr. skilgreindar sem aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif. Í 4. mgr. 11. gr. er svo sérstaklega tekið fram að stofnuninni sé „heimilt í úrskurði sínum að setja skilyrði um að framkvæmdaraðili gangist fyrir frekari rannsóknum á tilteknum atriðum fyrir og eftir hina fyrirhuguðu framkvæmd í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og til að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar framkvæmdin hafi í för með sér." Í úrskurði ráðuneytisins frá 20. desember 2001 um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar kemur fram að skýra beri fyrrgreind ákvæði 2.-4. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum á þann hátt að heimilt sé að setja hvert það skilyrði fyrir því að fallist sé á fyrirhugaða framkvæmd, sem samrýmist markmiði laganna, enda sé gætt meðalhófs gagnvart framkvæmdaraðila, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lög um mat á umhverfisáhrifum innihalda formreglur en fjalla ekki um hinn efnislega umhverfisrétt. Þær reglur eru í annarri löggjöf, svo sem lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 og reglugerðum settum samkvæmt þeim, svo dæmi séu tekin. Samhliða því að fjalla um áhrif framkvæmdar á umhverfið þarf því Skipulagsstofnun og eftir atvikum ráðherra, að taka mið af því hvort og með hvaða hætti beinar lagareglur á sviði umhverfisréttarins setja framkvæmdum skorður og taka mið af því í niðurstöðu sinni. Er það í samræmi við svokallaða lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Í máli þessu er til umfjöllunar hvernig túlka beri 17. gr. laga um landgræðslu þar sem segir: „Land skal nytja svo, að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Sá sem landspjöllum veldur með mannvirkjagerð eða á annan hátt er skyldur að bæta þau." Ákvæði þetta er í III. kafla laganna sem ber yfirskriftina „Gróðurvernd". Í 1. gr. laganna kemur fram að tilgangur laga um landgræðslu sé annars vegar að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og hins vegar að græða upp eydd og vangróin lönd. Í 2. gr. laganna segir að Landgræðsla ríkisins fari með landgræðslumál samkvæmt lögunum og starfsemi hennar felist m.a. í gróðurvernd, sem stuðli að eflingu gróðurs til að auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu. Landgræðsla ríkisins skal, skv. 1. og 18. gr. laganna, hafa gát á meðferð á gróðri landsins og vinna gegn því, að hann eyðist fyrir ofnotkun eða aðra óskynsamlega meðferð. Í 2. mgr. sömu greinar segir að Landgræðsla ríkisins skuli einnig fylgjast með því, að landspjöll séu eigi unnin að óþörfu, og segja fyrir um, hvernig þau skuli bæta.

Eignarnáms- og bótaákvæði vegna virkjanaframkvæmda eru nú í VI. kafla raforkulaga nr. 65/2003 en voru áður í V. kafla vatnalaga nr. 15/1923. Er þar kveðið á um rétt landeiganda til bóta vegna skerðingar á eigna- og afnotaréttindum þeirra vegna slíkra framkvæmda. Sams konar ákvæði eru jafnframt í vegalögum. Að mati ráðuneytisins fjallar 17. gr. laga um landgræðslu ekki um bótarétt landeiganda, enda er þær reglur að finna í öðrum lögum. Ljóst er að mati ráðuneytisins að um sérstakt verndarákvæði er að ræða, þar sem settar eru skorður við nýtingu lands og lagðar kvaðir á þá sem valda spjöllum á landi með mannvirkjagerð. Ráðuneytið telur ekki skipta máli í því samhengi að lög um landgræðslu heyra undir landbúnaðarráðuneytið en ekki umhverfisráðuneytið. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um landgræðslu segir að gróðurvernd sé nýmæli í íslenskum lögum og að í 17. gr. komi fram hver stefnan eigi að vera í gróðurverndarmálum.

Hugtakið landkostir hefur verið skilgreint í 3. tölul. 2. gr. laga nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, sem „auðlindir sem felast í gróðri, jarðvegi og vistkerfum landsins." Hugtakið landspjöll er hins vegar hvergi skilgreint í lögum. Ráðuneytið telur ekki unnt að túlka 17. gr. laga um landgræðslu á þann veg að sú skylda hvíli á framkvæmdaraðila fortakslaust að græða upp jafnstórt gróðursvæði og tapast vegna framkvæmdarinnar óháð gróðurgerð. Að mati ráðuneytisins verður í lögum að kveða skýrt á um svo íþyngjandi skyldu og ljóst er að ákvæðinu hefur ekki verið beitt þannig í framkvæmd þau tæpu 40 ár sem það hefur verið í gildi s.s. við vegagerð og skipulagningu byggðar.

Samkvæmt matsskýrslu fara um 3,9 km2 gróins lands undir lón þar af um 35% votlendi. Af þurrlendisgróðri er graslendi, mosagróður og ræktað land ríkjandi.

Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 10 maí 1995 skulu samningsaðilar endurbyggja og lagfæra spillt vistkerfi og stuðla að því að tegundir sem í hættu eru nái sér aftur á strik, meðal annars með þróun og framkvæmd áætlana eða annarra stjórnunaraðferða sbr. f-lið 8. gr. samningsins. Jafnframt skulu samningsaðilar samlaga athugun á vernd og sjálfbærri notkun líffræðilegra auðlinda innlendri ákvarðanatöku sbr. alið 10. gr. samningsins.

Samkvæmt skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands sem fylgdi matsskýrslu um gróður og fugla á áhrifasvæði fyrirhugaðrar virkjunar í Þjórsá við Urriðafoss hefur mosategundin, greppmosi (Leskea polycarpa), nú fundist í fyrsta sinn á Íslandi, á áhrifasvæði virkjunarinnar. Verður hún líklega sett á válista finnist hún ekki víðar. Æskilegt væri að kanna útbreiðslu greppmosa annars staðar við ána og þá helst ofan og neðan við áhrifasvæði fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar. Telur ráðuneytið því rétt að áður en framkvæmdir hefjast standi framkvæmdaraðili fyrir rannsóknum á greppmosa ofan og neðan við áhrifasvæði Urriðafossvirkjunar til þess að leiða í ljós hvort tegundin finnist á svæðinu, útbreiðslu hennar og magn.

Ráðuneytið telur að með framangreindum rannsóknum og skilyrði um endurheimt votlendins í hinum kærða úrskurði dragi úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á landkosti. Ráðuneytið fellst á það með framkvæmdaraðila að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar við Urriðafossvirkjun eru ekki sambærileg né aðstaða til uppgræðslu ógróinna svæða og á framkvæmdasvæði Búðarhálsvirkjunar. Ráðuneytið telur að, að teknu tilliti til framangreindra skilyrða, samræmist fyrirhuguð framkvæmd gildandi lögum, reglum og alþjóðasamningum á sviði umhverfisréttar.

2.6. Landrof

Félag sumarhúseigenda Lónsholti telur að gera megi ráð fyrir skemmdum vegna rofs á bökkum um langa framtíð enda sé þarna um mjög þykkan jarðveg að ræða, bratti mikill að ánni að hluta og búast megi við ágangi öldu að landinu þar sem áin renni í aldagömlum farvegi sínum.

Í umsögn Landgræðslu ríkisins segir að land á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sé algróið. Ekki verði því unnt að koma við landbótum, í skilningi laga um landgræðslu, innan þess svæðis sem tiltekið er í kæru sumarhúsaeigenda Lónsholti. Landspjöll verði hins vegar í því landi þar sem land fer undir vatn og gróðurbreytingar þar sem land blotnar. Frekara rof sé einnig líklegt í bökkum fyrirhugaðs lóns þó svo það muni að líkindum takmarkast við næsta nágrenni lónsins. Það rof sé að mestu fyrirbyggjanlegt með því að koma fyrir bakkavörnum úr grófu grjóti við vatnsborð lónsins. Slíkar bakkavarnir breyti þó eitthvað ásýnd lónsins til að byrja með og geti í einhverjum tilvikum hindrað aðgengi að og meðfram bökkum þess. Stofnunin telji að það land sem fari undir vatn eða blotni upp verði ekki nýtt til annarra hluta nema ef vera skyldi að hluta til endurheimtar votlendis.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að fylgst með rofi meðfram strönd lónsins og brugðist við því eins og lýst er í matsskýrslu.

Í hinum kærða úrskurði er skilyrði um að framkvæmdaraðili vakti öldurof og eyðingu gróðurs á ströndum lóns í 10 ár eftir að það verður tekið í notkun og hafi samráð við sveitarstjórnir, Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnun um mótvægisaðgerðir verði þeirra þörf. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili bera áætlun um vöktun undir Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins. Í úrskurði ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum allt að 150 MW virkjunar Þjórsár við Núp auk breytingar á Búrfellslínu 1 sem einnig er kveðinn upp í dag er gerð breyting á sams konar skilyrði og kveðið á um að öldurof og eyðing gróðurs á ströndum lóna verði vöktuð á meðan virkjunin er starfrækt með vísan til 17. gr. landgræðslulaga. Sú skylda hvíli á framkvæmdaraðila svo lengi sem virkjun er í rekstri að inntakslón hennar valdi ekki eyðingu gróðurs sem unnt er að fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum. Það sé hluti af venjubundnu vinnulagi við rekstur virkjana Landsvirkjunar að fylgast með öldurofi við lón og áhrifum lóns á gróðurfar meðan virkjun er starfrækt. Framkvæmdaraðili hafi því fallist á að tímamörkum á vöktun gróðurfars og öldurofs við lón verði breytt. Ráðuneytið telur því rétt að skilyrði 3 í úrskurði Skipulagsstofnunar verði breytt á þann veg að öldurof og eyðing gróðurs á ströndum lóna verði vöktuð á meðan virkjunin er starfrækt. Ráðuneytið telur aðstæður í máli þessu sambærilegar að þessu leyti og því rétt að breyta einni framangreindu skilyrði í hinum kærða úrskurði

2.7. Áhrif á grunnvatn

Félag sumarhúseigenda Lónsholti telur að við þá vatnsborðshækkun sem ráðgerð sé muni grunnvatnsstaða hækka og valda enn frekari skaða. Kjartan Ágústsson telur óvíst að mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir hækkun á grunnvatnsstöðu nægi á Skeiðum þar sem víða sé mikið um gamlar og nýjar jarðskjálftasprungur.

Í umsögn Landsvirkjunar segir áhrif á grunnvatn verði lítil. Land sé þarna fremur aðbratt og ekki sé búist við því að vatn stígi að marki upp í jarðveginn. Þá verði fylgst með rofi meðfram strönd lónsins og brugðist við því eins og lýst er í matsskýrslu.

Í skýrslu Orkustofnunar 2001, „Vatnafar við Neðri-Þjórsá" sem fylgir matsskýrslu fyrirhugaðrar framkvæmdar kemur fram að grunnvatnsborð hefur svipaðan halla og yfirborð Þjórsár og Þjórsárhrauns. Mælingar á grunnvatnsborði á Skeiðum sýna að grunnvatnsskil liggja nálægt þjóðveginum upp Skeið, en þegar kemur upp í Gnúpverjahrepp og Landsveit er víðast dýpra á grunnvatnsflötinn. Mælingar sýna að vatn sígur frá ánni til grunnvatnsborðs efst á svæðinu, þ.e. frá Líknýjarhólma að Ölmóðsey en þar fyrir neðan snýst þetta við og grunnvatn leitar til árinnar. Mælingar hafa sýnt fram á glöggt samband úrkomu og grunnvatnsborðs og að grunnvatnsborð getur sveiflast um 2,0-2,5 metra. Í skýrslu sem Páll Einarsson o.fl. unnu fyrir Landsvirkjun árið 2002 sem einnig fylgir matsskýrslu, „Faults and fractures of the South Iceland Seismic Zone near Þjórsá" og í skýrslu Orkustofnunar 2001, „Vatnafar við Neðri-Þjórsá" kemur fram að jarðskjálftasprungur eru víða á rannsóknarsvæðinu. Þær tengjast skjálftabelti Suðurlands og þvergengi sem þar er talið vera. Sprungusvæðin einkennast af opnum sprungum í yfirborðinu sem mynda skástígar raðir. Grunnvatnsborð er nærri yfirborði á stórum hluta svæðisins og hægt er að sjá grunnvatnið renna um sprungurnar nærri yfirborðinu. Jarðskjálftasprungurnar hafa mikil áhrif á vatnafar, kaldar lindir, lindasvæði og jarðhitasvæði tengjast þeim. Í stórskjálftum geta lindir stækkað eða minnkað eftir atvikum og jarðhiti horfið eða birst. Í skýrslu Orkustofnunar 2001, „Vatnafar við Neðri-Þjórsá" kemur fram að lón með vatnsborð í 51 m.y.s. mun hafa þau áhrif á grunnvatnsstöðuna að hún hækkar um 9 metra við Þjótanda, 3 m við Kálfhól og 0,5-1,0 metra við Skeiðháholt, án mótvægisaðgerða.

Að mati ráðuneytisins er æskilegt að draga eins og kostur er úr grunnvatnsborðsbreytingum á áhrifasvæði fyrirhugaðs uppistöðulóns. Framkvæmdaraðili áformar að grafa framræsluskurð niður með stíflugarðinum sem mun lækka grunnvatnsborðið og taka við yfirborðsvatni og leka úr lóninu. Telur ráðuneytið að fyrirhuguð mótvægisaðgerð sé trúverðug og líklegt að hún muni draga úr áhrifum lónshæðar á grunnvatnsborð vestan stíflunnar. Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar og á grunnvatnsstöðu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni.

2.8. Hættur og náttúruvá

Kjartan Ágústsson telur að nokkur hætta sé á skemmdum þar sem um sé að ræða jarðskjálftasvæði sem og hætta fyrir vegfarendur. Óásættanlegt sé að auka við þá hættu sem stafi af jarðskjálftum í dag.

Í umsögn Veðurstofu Íslands er bent á að fyrirhuguð framkvæmd sé sérstök fyrir þá sök að síðan farið var að meta umhverfisáhrif framkvæmda hafi ekki verið reist uppstöðulón á byggðu jarðskjálftasvæði. Lagt sé til að gerð verði nákvæm viðbragðsáætlun í samráði við almannavarnir á svæðinu og heildstætt hættumat.

Í umsögn Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði segir að í matskýrslum vegna umræddra virkjunarframkvæmda sé í raun frekar lítið fjallað um jarðskjálftavá og hugsanlegar afleiðingar hennar. Sérstaklega þegar haft sé í huga að jarðskjálftavá sé ráðandi náttúruvá á svæðinu. Hins vegar segir í umsögninni að jarðstíflur af því tagi sem hér um ræðir hafi almennt reynst örugg mannvirki ef vel sé staðið að hönnun og byggingu þeirra. Í því ljósi sé talið að hægt sé að tryggja öryggi fyrirhugaðra mannvirkja og nærliggjandi byggðar með ásættanlegum hætti. Hins vegar sé nauðsynlegt að vanda rannsóknir á jarðskjálftavá við frekari undirbúning framkvæmda og taka fullt tillit til hennar við hönnun mannvirkja. Einnig sé nauðsynlegt að setja upp eftirlitskerfi í stíflum og lokumannvirkjum. Til að auka öryggi fyrirhugaðra mannvirkja sé því lagt til að jarðskjálftavá verði könnuð og áhættumat framkvæmt, hönnunarforsendur taki fullt tillit til niðurstöðu áhættumats, komið verði upp viðeigandi öryggis- og gaumkerfi í mannvirkjunum og rekstraraðili virkjanna komi upp tilheyrandi viðbragðsáætlun til viðbótar þeim viðbragðsáætlunum almannavarna sem lagt er til að komið verði á fót. Ennfremur segir að þau möguleg áhrif vegna stíflubrots verði að teljast ólíkleg atburðarrás. Unnt eigi að vera að tryggja allvel að árlokur festist ekki við jarðskjálfta við val á útfærslu og hönnun lokuvirkja. Loks segir að stíflurnar við Þjórsá verði, að því best verður séð af matsskýrslum, allar byggðar á einhvers konar klöpp sem auki jarðskjálftaþol þeirra ef litið er til reynslunnar.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að framkvæmdaraðili telji að með góðri viðbragðsáætlun sé hægt að draga verulega úr hættu sem gæti skapast af völdum hugsanlegs stíflubrots. Viðbragðsáætlun verði útfærð í samráði við almannavarnarnefnd svæðisins og eftir atvikum aðra aðila og hún verði kynnt heimamönnum. Í matsskýrslu sé gert ráð fyrir að saman fari flestar verstu hugsanlegar aðstæður, þ.e. mikið rennsli í Þjórsá, stíflubrot við jarðskjálfta og að lokubúnaður verði óstarfhæfur. Við frekari hönnun mannvirkja verði jarðskjálftavá hins vegar könnuð nánar og áhættumat framkvæmt og fullt tillit tekið til niðurstaðna þeirra athugana í hönnunarforsendum. Þá sé það venja að öryggis- og eftirlitskerfi sé til staðar við mannvirki eins og þau sem hér um ræðir. Framkvæmdaraðili muni svo útfæra viðbragðsáætlanir í samráði við almannavarnir og eftir atvikum aðra sérfræðinga.

Ljóst er að fyrirhuguð framkvæmd er á virku jarðskjálftasvæði þar sem vænta má sterkra jarðskorpuhreyfinga með lóðréttum og láréttum færslum og sprungumyndun í yfirborði eins og dæmin sanna. Almennt er talið að stíflur af þeirri tegund sem framkvæmdaraðili hyggst reisa standist jarðskorpuhreyfingar allvel og telur ráðuneytið ekki ástæðu til að ætla annað en að unnt sé að tryggja viðunandi öryggi fólks neðan mannvirkjanna með þeim aðgerðum og viðbúnaði sem framkvæmdaraðili fyrirhugar að grípa til svo sem með gerð áhættumats og viðbragðsáætlunar auk sérstakrar jarðskjálftahönnunar mannvirkjanna.

Með vísan til umsagna Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði og Veðurstofu Íslands telur ráðuneytið óumdeilt að fyrirhuguð framkvæmd muni auka áhættu fólks neðan virkjunarmannvirkja. Jafnframt telur ráðuneytið rétt vegna staðsetningar mannvirkjanna á svo virku jarðskjálftasvæði að mat sé lagt á þá hættu sem fólki sem búsett er á svæðinu eða á ferð um það kann að vera búin vegna stíflubrots eða annarra áfalla í rekstri virkjunarinnar sem stafa af jarðskorpuhreyfingum eða afleiðingum þeirra. Mörk um viðunandi áhættu vegna jarðskjálfta hafa ekki verið lögfest í íslenskum rétti, en ráðuneytið telur að taka megi mið af reglum sem settar hafa verið um ásættanlega áhættu vegna ofanflóða, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats, sbr. lög 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Telur ráðuneytið því rétt að við hönnun mannvirkjanna verði a.m.k. við það miðað að árleg staðaráhætta fólks á svæðinu eftir byggingu mannvirkjanna verði ekki meiri en talin er ásættanleg gagnvart ofanflóðum og jafnframt að viðbragðsáætlun sem slík hafi ekki áhrif á áhættumat sbr. verklagsreglur við mat á ofanflóðahættu. Ráðuneytið setur því sem skilyrði að samhliða hönnun mannvirkjanna, láti framkvæmdaraðili gera áhættumat þar sem sýnt sé fram á að áhætta fólks sé ekki meiri en talið er ásættanlegt m.t.t. ofanflóðahættu.

Kjartan Ágústsson telur einnig að við venjulegan rekstur virkjunar geti þurft að hleypa skyndilega á hálftóman farveginn og mönnum og skepnum sem þar séu nærri muni stafa hætta af og þetta geti gerst einu sinni til tvisvar á ári.

Samkvæmt matsskýrslu getur stöku sinnum þurft að hleypa skyndilega fullu rennsli á árfarveg sem að jafnaði er vatnslítill vegna óvæntra atburða í rekstri virkjunarinnar. Rennslisbreytingar af þessu tagi geti skapað mikla hættu fyrir menn og skepnur sem stödd eru í eða við hálfþurran farveginn þegar rennslið eykst skyndilega. Skyndilegar rennslisbreytingar af þessum toga geti orðið einu sinni til tvisvar á ári við venjulegan rekstur virkjunar. Framkvæmdaraðili áformar að girða farveg árinnar af á báðum bökkum eftir þörfum og setja upp aðvörunarskilti þar sem prílur eru yfir girðinguna til að draga úr framangreindri hættu. Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar munu einnig verða settar upp eins konar aðvörðunarflautur sem fara í gang við hreyfingu á loku stíflunnar. Með vísun til þess að fyrirhuguð framkvæmd er í byggð og vænta má nokkurrar umferðar í nágrenni árinnar telur ráðuneytið rétt að setja það sem skilyrði að framkvæmdaraðili girði af farveg árinnar á báðum bökkum hennar eftir þörfum og setji upp aðvörunarskilti á viðeigandi stöðum til að draga úr hættu vegna skyndilegrar rennslisaukningar. Jafnframt skal framkvæmdaraðili setja upp aðvörunarbúnað sem gefur til kynna með hljóðmerki slíka hreyfingu á loku stíflunnar.

2.9. Áhrif á samfélag, atvinnu og þjóðhagsleg áhrif

Kjartan Ágústsson telur að virkjunin muni hafa lítil áhrif á atvinnu á svæðinu til frambúðar en skapa þenslu á meðan framkvæmdum stendur.

Samkvæmt 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 er mati á umhverfisáhrifum ætlað að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum hennar. Í því skyni að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar á umhverfið er markmið laganna ennfremur að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmdar sem áhrif hefur á umhverfið og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp. Umhverfismat felur í sér eðli málsins samkvæmt að metin eru áhrif sem framkvæmd getur haft á umhverfið. Hugtakið „umhverfi" er skilgreint svo í j-lið 3. gr. laganna: „Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti." Þannig telst til umhverfis m.a. samfélag og atvinna. Í úrskurði ráðuneytisins frá 20. desember 2001 um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar segir að skýra beri umrædda tvo umhverfisþætti fremur þröngt en rúmt, þjóðhagsleg áhrif falli þar ekki undir. Matið taki því til áhrifa framkvæmdar á samfélag og atvinnu í þrengri merkingu. Með dómi Hæstaréttar frá 22. janúar 2004, mál nr. 280/2003 var sú niðurstaða staðfest.

Áætlað er að um 400 manns verði á hverjum tíma að störfum við byggingu fyrirhugaðrar virkjunar og að vinnuframleg nemi um 800 ársverkum. Þá er áætlað að verslun og þjónusta í nágrenni virkjunar muni njóta góðs af. Áætlaður framkvæmdatími er 3 til 4 ár. Að byggingu lokinni muni virkjunin hins vegar verða mannlaus að jafnaði en viðhaldi véla og tækja sinnt þegar þörf er á. Alls muni 10 ársverk skapast vegna viðhalds og reksturs virkjunarinnar.

Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar á samfélag og atvinnu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni.

2.10. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Kjartan Ágústsson telur að óverjandi sé að bíða ekki eftir niðurstöðu rammaáætlunar um virkjanakosti sem von sé á hverri stundu. Ljóst sé að ýmsir aðrir virkjunarkostir séu mun vænlegri s.s. gufuaflsvirkjanir.

Í umsögn Landsvirkjunar segir að engin lög standi til þess að heimilt sé að binda mat á umhverfisáhrifum eða leyfi vegna einstakra framkvæmda skilyrðum er varða niðurstöður rammaáætlunar. Þess misskilnings virðist gæta hjá kæranda að niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma feli í sér endanlegar útfærslur þeirra virkjunarkosta sem þar eru til skoðunar og jafnframt að niðurstöður verkefnisstjórnarinnar séu á einhvern hátt bindandi. Ljóst sé að svo er ekki. Vísað er til bréfs iðnaðarráðuneytisins til verkefnisstjórnarinnar frá 27. maí 2000 um að það sé ekki á valdi stjórnvalda að fresta eða synja um afgreiðslu erinda er lúta að virkjunum á grundvelli þess að viðkomandi virkjunarkostur sé til skoðunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar. Framkvæmdaraðili hafnar einnig athugasemd kæranda varðandi aðra vænlega virkjunarkosti s.s. gufuaflsvirkjanir þar sem framkvæmdaraðili telur að hún tengist ekki mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Ráðuneytið telur ljóst að vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem fram fór á árunum 1999 - 2003, var ekki ætlað að hafa áhrif á undirbúning virkjana á vegum orkufyrirtækja, enda er það ferli bundið í lögum, m.a. lögum um mat á umhverfisáhrifum. Mat rammaáætlunar felur í sér samanburð á virkjunarkostum og byggist á frumáætlunum, sem almennt eru mun skemmra á veg komnar en áætlanir um virkjanir sem komnar eru að verkhönnun þegar þær fara í mat samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Mat rammáætlunar hefur fyrst og fremst gildi sem samanburður milli virkjunarhugmynda og er í eðli sínu ekki jafn ítarlegt og mat á framkvæmdinni sjálfri sem byggir á fyllri gögnum um umhverfi og raunverulega tilhögun sem áformuð er. Með vísun til þess sem að framan segir fellst ráðuneytið ekki á framangreinda málsástæðu kæranda.

2.11 Áhrif á vatn í landi Dvergabakka

Marteinn Winkler telur að á því landi sem lenda muni undir haugstæði, sem fyrirhugað sé vegna lónsins sé nú eina neysluvatnið í landi hans sem muni verða eyðilagt.

Í umsögn heilbrigðiseftirlits Suðurlands segir um áhrif á neysluvatn í landi kæranda að út frá þeim lögum og reglugerðum sem embættið starfi eftir sé fremur horft til þess að menn nýti neysluvatn frá vatnsveitu sveitarfélagsins eða öðrum vatnsveitum sem hafa starfsleyfi þar að lútandi.

Ekki er um að ræða þekkta neysluvatnsuppsprettu í landi Dvergabakka og samkvæmt upplýsingum kæranda er bær hans tengdur vatnsveitu sveitarfélagsins. Hins vegar rennur lækur í gegnum landareignina sem nýttur er til að brynna hestum. Í matsskýrslu er gerð grein fyrir landmótun haugsetningar í landi Dvergabakka. Með landmótun mun samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar verða unnt að móta haugsetninguna þannig að aðstaða til brynningar verði ekki síðri en hún er í dag. Fram kemur að tryggt verður gott vatnsrennsli í nýjum skurðum, lækjum og vötnum vegna sóttvarna. Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar á vatn í landi Dvergabakka hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni.

3. Niðurstaða

Með vísun til þess sem að framan segir telur ráðuneytið að Urriðafossvirkjun í Þjórsá allt að 150 MW og breyting á Búrfellslínu 2 muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem fram koma í hinum kærða úrskurði og með eftirfarandi breytingum:

1. Skilyrði 3 í úrskurði Skipulagsstofnunar orðast svo:

Framkvæmdaraðili vakti öldurof og eyðingu gróðurs á ströndum lóna á meðan virkjunin er starfrækt og hafi samráð við sveitarstjórnir, Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins um mótvægisaðgerðir verði þeirra þörf. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili bera áætlun um vöktun undir Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins.

2. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili standa fyrir rannsóknum á greppmosa ofan og neðan við áhrifasvæði Urriðafossvirkjunar til þess að leiða í ljós hvort tegundin finnist á svæðinu, útbreiðslu hennar og magn.

3. Verði vart kólnunar í laug í landi Herríðarhóls í Ásahreppi skal hún fóðruð niður á berg og jarðvegurinn umhverfis hana þéttur í samráði við Umhverfisstofnun og landeiganda.

4. Samhliða hönnun mannvirkjanna, skal framkvæmdaraðili láta gera áhættumat fyrir virkjunina þar sem sýnt verði fram á að árleg staðaráhætta fólks á svæðinu eftir byggingu mannvirkjanna verði ekki meiri en talið er ásættanlegt vegna ofanflóðahættu.

5. Framkvæmdaraðili girði af farveg árinnar á báðum bökkum hennar eftir þörfum og setji upp aðvörunarskilti á viðeigandi stöðum til að draga úr hættu vegna skyndilegrar rennslisaukningar. Jafnframt skal framkvæmdaraðili setja upp aðvörunarbúnað sem gefur til kynna með hljóðmerki slíka hreyfingu á loku stíflunnar.

Úrskurðarorð:

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 19. september 2003 um mat á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar í Þjórsá allt að 150 MW og breyting á Búrfellslínu 2 er staðfestur með eftirfarandi breytingum:

1. Skilyrði 3 í úrskurði Skipulagsstofnunar orðast svo:

Framkvæmdaraðili vakti öldurof og eyðingu gróðurs á ströndum lóna á meðan virkjunin er starfrækt og hafi samráð við sveitarstjórnir, Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins um mótvægisaðgerðir verði þeirra þörf. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili bera áætlun um vöktun undir Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins.

Eftirfarandi skilyrði bætast við:

2. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili standa fyrir rannsóknum á greppmosa ofan og neðan við áhrifasvæði Urriðafossvirkjunar til þess að leiða í ljós hvort tegundin finnist á svæðinu, útbreiðslu hennar og magn.

3. Verði vart kólnunar í laug í landi Herríðarhóls í Ásahreppi skal hún fóðruð niður á berg og jarðvegurinn umhverfis hana þéttur í samráði við Umhverfisstofnun og landeiganda.

4. Samhliða hönnun mannvirkjanna, skal framkvæmdaraðili láta gera áhættumat fyrir virkjunina þar sem sýnt verði fram á að árleg staðaráhætta fólks á svæðinu eftir byggingu mannvirkjanna verði ekki meiri en talið er ásættanlegt vegna ofanflóðahættu.

5. Framkvæmdaraðili girði af farveg árinnar á báðum bökkum hennar eftir þörfum og setji upp aðvörunarskilti á viðeigandi stöðum til að draga úr hættu vegna skyndilegrar rennslisaukningar. Jafnframt skal framkvæmdaraðili setja upp aðvörunarbúnað sem gefur til kynna með hljóðmerki slíka hreyfingu á loku stíflunnar.

F. h. r.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta