Mál 02120125
Ráðuneytinu hefur borist kæra Kristbjargar Eyvindsdóttur Grænhóli, Ölfusi, dags. 17. desember 2002, vegna útgáfu Hollustuverndar ríkisins á starfsleyfi fyrir urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands í Kirkjuferjuhjáleigu, Ölfusi þann 4. desember 2002.
I. Hin kærða ákvörðun, málsatvik og kröfur kæranda
Þann 4. desember 2002 gaf Hollustuvernd ríkisins nú Umhverfisstofnun, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun, út starfsleyfi til sex ára fyrir urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands, Ölfusi. Um er að ræða endurnýjun á eldra starfsleyfi sem Hollustuvernd ríkisins gaf út þann 22. september 1998.
Kærandi gerir athugasemdir við nokkur atriði varðandi áður gildandi starfsleyfi sem gefið var út af Hollustuvernd ríkisins þann 22. september 1998. Eitt þeirra atriða varðar það að ekki hafi verið farið eftir deiliskipulagi frá 1993 varðandi svæðið og er tekið fram að málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Vísast um þessi umfjöllunaratriði kæranda til kafla III. 1.
Í kæru eru einnig gerðar athugasemdir við endurnýjað starfsleyfi fyrir urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands.
Í 1. málsl. 1.1 gr. í hinu kærða starfsleyfi segir: ?Starfsleyfi þetta gildir fyrir urðun úrgangsefna, allt að 30.000 tonnum á ári, á urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands í Kirkjuferjuhjáleigu, Sveitarfélagi Ölfusi hér eftir nefnd rekstraraðili eins og nánar er kveðið á um í starfsleyfi þessu?.
Í gr. 3.1 í hinu kærða starfsleyfi segir: ?Starfsleyfi þetta veitir heimild til að urða allan úrgang sem er meðhöndlaður, t.d. flokkaður og/eða rúmmálsminnkaður og sem ekki flokkast undir spilliefni samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 806/1999 um spilliefni og nr. 810/1999 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, á sérstaklega útbúnum stað í Kirkjuferjuhjáleigu, Ölfushreppi?.
Kærandi telur að þrátt fyrir fjölda athugasemda og kvartana sé starfsleyfi veitt og heimilað sé að auka urðunarmagn upp í 30.000 tonn á ári. Leyfilegt urðunarmagn hafi í fyrri starfsleyfum verið undir 5.000 tonnum á ári. Komið sé langt umfram þá þörf sem urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands kallar á. Þá sé ekki heimilt að taka við ómeðhöndluðum úrgangi en skilningur kæranda sé sá samkvæmt starfsleyfinu að aðeins sé heimilt að taka við úrgangi sem hafi verið meðhöndlaður, flokkaður og/eða rúmmálsminnkaður og sé það í samræmi við tilskipun 1991/31/EB um urðun úrgangs. Telur kærandi að urðunarmagn sé ekki í samræmi við stefnu Evrópusambandsins um markmið til að draga úr magni urðaðs úrgangs og auka endurvinnslu.
Í gr. 3.11 í hinu kærða starfsleyfi segir: ?Heimilt er, í samráði við eftirlitsaðila að gera tilraunir á urðunarsvæðinu með frekari meðhöndlun á flokkuðum lífrænum úrgangi til jarðvegs- og hauggasmyndunar, t.d. lífrænum heimilis- og eldhúsúrgangi, seyru, salernisúrgangi, sláturúrgangi og húsdýrataði, sem og tilraunir á urðunarsvæðinu með úrvinnslu, meðhöndlun og endurvinnslu á öðrum úrgangi s.s. rafeindabúnaði, plasti, timbri og fleira þess háttar. Rekstaraðili skal gera grein fyrir tilgangi og markmiðum tilraunastarfsemi áður en til framkvæmdar hennar kemur sem og þeirra aðgerða sem hann telur nauðsynleg til að fyrirbyggja mengun, óþægindi, eða óþrif sem kunnu að fylgja. Hollustuvernd ríkisins er heimilt að hafna eða stöðva tilraunastarfsemi hvenær sem er ef ekki verði staðið við þetta ákvæði eða ef stofnunin telur mengun, óþægindi eða óþrif af tilraunastarfseminni vera óásættanleg?.
Kærandi telur að þar sem Sorpstöð Suðurlands sé á bökkum stórfljóts geti hún haft áhrif á fiskgengd í fjölmargar ár. Þá telur kærandi að aukið frelsi sé veitt til tilraunastarfsemi með illa lyktandi úrgang og ekkert tillit sé tekið til aukinnar mengunar sem berst frá staðnum samkvæmt mælingum. Þrátt fyrir að tilskipun Evrópusambandsins um urðun úrgangs, eigi að veita leyfi til tilrauna með seyru, inn í miðri byggð. Staðsetning stöðvarinnar bjóði ekki upp á að leyfðar séu tilraunir með illa lyktandi úrgang. Í tilskipuninni segi að ekki megi taka við eftirfarandi úrgangi inn á urðunarstað: Fljótandi, eld- eða sprengifiman, sóttmengaðan, heila hjólbarða eftir 26. apríl 2003 og kurlaða hjólbarða eftir 26. apríl 2006, útþynntan úrgang sem óþynntur hefði ekki verið tekið við. Telur kærandi að verið sé að brjóta gegn tilskipun um urðun úrgangs. Þá telur kærandi að í drögum að starfsleyfi hafi losunarmörk ekki verið tiltekin.
Kærandi telur óeðlilegt að Hollustuvernd ríkisins veiti starfsleyfi, sé eftirlitsaðili og sá aðili sem hafi eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt.
Kærandi óskar eftir að gripið verði til ráðstafan og að rannsakað verði hvaða áhrif starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands hefur haft á vistkerfið og nánasta umhverfi. Einnig að gripið verði til lokunar stöðvarinnar, þar til starfsemin hafi verið sniðin að skipulagi og kröfum um urðun og meðhöndlun sorps.
II. Umsagnir um kæru
Þann 7. janúar 2003 sendi ráðuneytið framangreinda kæru til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Sorpstöðvar Suðurlands, Umhverfisstofnunar og Ölfushrepps. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands með bréfi 20. janúar 2003, frá Sorpstöð Suðurlands með bréfi 21. janúar 2003, frá Sveitarfélaginu Ölfus með bréfi 7. febrúar 2003 og frá Umhverfisstofnun með bréfi 22. janúar 2003. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreindar umsagnir með bréfi 4. febrúar 2003 og bárust athugasemdir kæranda með bréfi 3. mars 2003.
1.
Kærandi gerir athugasemdir við urðunarmagn starfsleyfisins og telur það komið langt umfram þá þörf sem urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands kallar á. Þá sé ekki heimilt að taka við ómeðhöndluðum úrgangi og sé það í samræmi við tilskipun um urðun úrgangs 1999/31/EB.
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að í hinu kærða starfsleyfi komi fram að urðunarstaður Sorpstöðvar Suðurlands sé nú í fyrsta eftirlitsflokki í stað annars áður sbr. reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. Flokkun urðunarstaðarins í 2. flokk í fyrra starfsleyfi hafi byggst á viðauka 9 með mengunarvarnarreglugerð nr. 48/1994 en þá hafi urðunarstarfsemi afmarkast af fjölda einstaklinga sem þjónað var, án tillits til magns úrgangs sem féll til á þjónustusvæðinu. Með reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi þar sem flokkun á urðunarstarfsemi er auk fjölda einstaklinga miðað við úrgangsmagn sem fargað er á svæðinu. Síðan segir: ?Í nýju starfsleyfi er því í raun ekki um að ræða aukningu á magni sem leyfilegt er að urða heldur breytta skilgreiningu á starfseminni á grundvelli nýrrar reglugerðar. Segja má að nýja starfsleyfið sé í meira samræmi við eðli og umfang starfseminnar en áður var. Þar sem starfsemin er nú í fyrsta eftirlitsflokki mun reglulegt eftirlit verða tíðara, þ.e.a.s. tvisvar á ári í stað einu sinni. Enn fremur eru kröfur um mengunarmælingar meiri nú en áður?.
Í umsögn Sorpstöðvar Suðurlands segir að rangt sé að halda því fram að ekki hafi verið leyfilegt að urða nema 5 þúsund tonn á ári í Kirkjuferjuhjáleigu. Í áætlunum fyrirtækisins áður en fyrsta starfsleyfi var gefið út var gert ráð fyrir úrgangi á bilinu 10-15 þúsund tonn á ári. Í starfsleyfi fyrir fyrirtækið frá 29. apríl 1994 var ekkert hámarks sorpmagn tilgreint og ekki heldur í starfsleyfi sem hafi verið gefið út 22. september 1998. Fyrirtækið hafi hins vegar búnað og mannafla til að afkasta 30-40 þúsund tonnum á ári með góðu móti.
2.
Kærandi telur að Sorpstöð Suðurlands geti haft áhrif á fiskgengd í fjölmargar ár og ekki sé tekið tillit til aukinnar mengunar frá staðnum samkvæmt mælingum, þá séu losunarmörk ekki tilgreind í starfsleyfisdrögum.
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir: ?Mengunarmælingar sem hafa verið framkvæmdar frá upphafi urðunarstarfseminnar í Kirkjuferjuhjáleigu sýna að áhrif mengunar frá urðunarstaðnum á vatnsgæði í Ölfusá eru óveruleg, þó nokkur aukning hafi átt sér stað undanfarin 3 ár. Í nýju starfsleyfi er krafist tíðari mengunarmælinga á fráveituvatni urðunarstaðarins en áður...Losunarmörk fyrir þungmálma eru tilgreind í starfsleyfinu og einnig eru tilgreind í leyfinu gæðamarkmið um önnur atriði, auk þess sem ákvæði reglugerða eiga við?.
Í umsögn Sorpstöðvar Suðurlands segir að ekkert óeðlilegt hafi komið fram í niðurstöðum greininga og hafi eftirlitsaðili ekki gert athugasemdir við mælingar. Þá segir að Ölfusá sé stór viðtaki miðað við meðalrennsli er þynning 1:800.000. Sýni hafi verði tekin á Ölfusá ofan útrásar og neðan útrásar og ekki hafi verið mælanlegur munur á sýnunum.
3.
Kærandi gerir athugasemdir við að aukið sé frelsi til tilraunastarfsemi með illa lyktandi úrgang.
Sveitarfélagið Ölfus vísar í umsögn sinni til athugasemda sinna til Hollustuverndar ríkisins við drög að starfsleyfi fyrir fyrirtækið en þar kemur fram að ofangreind heimild í hinu kærða starfsleyfi sé of rúm og ekki rökstudd með áætlunum eða markmiðssetningu.
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir: ?Hollustuvernd ríkisins tók við útgáfu starfsleyfisins tillit til athugasemdanna og bætti eftirfarandi við greinina. ?Rekstraraðili skal gera grein fyrir tilgangi og markmiðum tilraunastarsemi áður en til framkvæmda hennar kemur sem og þeirra aðgerða sem hann telur nauðsynleg til að fyrirbyggja mengun, óþægindi eða óþrif sem kunnu að fylgja. Hollustuvernd ríkisins er heimilt að hafna eða stöðva tilraunastarfsemi hvenær sem er ef ekki verði staðið við þetta ákvæði eða ef stofnunin telur að mengun, óþægindi eða óþrif af tilraunastarfseminni sé óásættanleg?.?
4.
Kærandi telur óeðlilegt að Hollustuvernd ríkisins veiti starfsleyfi, sé eftirlitsaðili og sá aðili sem hafi eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt.
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að hvað stjórnsýslu viðkomi þá sé hún í samræmi við það sem lög nr. 7/1998 og reglugerðir nr. 785/1999 og 786/1999 mæla fyrir um.
III. Niðurstaða
1.
Í kæru eru gerðar athugasemdir við áður gildandi starfsleyfi fyrir urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands sem gefið var út af Hollustuvernd ríkisins þann 22. september 1998.
Ráðuneytið vill af þeim sökum geta þess að þann 24. júlí 2001 barst því erindi Kristbjargar Eyvindsdóttur vegna starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands í Kirkjuferjuhjáleigu og var óskað eftir því að litið yrði á það erindi sem kæru. Með bréfi frá 9. október 2001 sendi ráðuneytið kæruna til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin endursendi erindið til ráðuneytisins með bréfi mótteknu 12. desember 2001 þar sem fram kom það álit nefndarinnar að erindið ætti ekki undir hana þar sem krafa Kristbjargar snéri að útgáfu starfsleyfisins, (lokun Sorpstöðvar Suðurlands). Í bréfi ráðuneytisins frá 4. janúar 2002 kom fram sú skoðun ráðuneytisins að kæran ætti undir úrskurðarnefndina þar sem hún varðaði framkvæmd starfsleyfis en ekki ágreining vegna ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í framhaldi af því tók úrskurðarnefndin erindi Kristbjargar til meðferðar, en samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið frá úrskurðarnefndinni er ekki búið að ljúka málinu hjá nefndinni.
Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er heimilt að vísa ágreiningi um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda til sérstakrar úrskurðarnefndar. Ekki verða í úrskurði þessum teknar til skoðunar athugasemdir kæranda sem varða eldra starfsleyfi fyrir Sorpstöð Suðurlands enda varða þær framkvæmd eldra starfsleyfis og heyra því ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt framangreindu ákvæði. Samkvæmt framangreindu verður hér einungis fjallað um þau kæruatriði sem snúa að starfsleyfi Sorpstöðvar Suðurlands sem gefið var út af Hollustuvernd ríkisins þann 4. desember 2002.
Í kæru koma fram atriði er varðar deiliskipulag fyrir svæðið vegna áður gildandi starfsleyfis fyrir starfsemina og tekið er fram að mál vegna þessa sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.
Ráðuneytið telur af þessum sökum rétt að það komi fram að samkvæmt gögnum sem ráðuneytinu bárust við kærumeðferð þessa, er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, kæra Sorpstöðvar Suðurlands vegna ákvörðunar bæjarráðs Ölfuss um að beita Sorpstöð Suðurlands dagsektum skv. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga, en bæjarráðið taldi framkvæmdir á sorpurðunarsvæði stöðvarinnar brjóta gegn staðfestu deiliskipulagi. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið fékk hjá úrskurðarnefndinni er því máli ekki lokið hjá nefndinni. Þá fengust jafnframt þær upplýsingar að kærandi og Gunnar Arnarson hafi þann 30. október 2001 kært til úrskurðarnefndarinnar að Sorpstöð Suðurlands hafi ekki farið að gildandi skipulagi en kæra þessi hafi hins vegar verið dregin til baka af kæranda þann 8. október 2002.
Ráðuneytið vill taka fram að framangreint kæruatriði vegna deiliskipulags fyrir svæðið heyrir undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og fellur því ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins. Kæruatriði þetta verður því ekki tekið til efnisumfjöllunar í úrskurði þessum.
2.
Kærandi gerir athugasemdir við urðunarmagn starfsleyfisins og telur það komið langt umfram þá þörf sem urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands kallar á. Kærandi vísar til þess að leyfilegt urðunarmagn í fyrri starfsleyfum hafi verið undir 5000 tonnum á ári.
Í gr. 1.1 í hinu kærða starfsleyfi Sorpstöðvar Suðurlands segir að starfsleyfið gildi fyrir urðun úrgangsefna, allt að 30.000 tonnum á ári á urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands. Í eldri starfsleyfum fyrir fyrirtækið, sem gefin voru út af Hollustuvernd ríkisins þann 29. apríl 1994 og 22. september 1998 var ekki tiltekið ákveðið magn úrgangsefna sem heimilt væri að urða.
Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og talinn er upp í fylgiskjali með lögunum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Urðunarstaðir falla undir 12. tölul. fylgiskjalsins og eru því starfsleyfisskyldir.
Í fylgiskjali 1 reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er síðan nánar tilgreindur sá atvinnurekstur sem Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir en þar segir í a. lið 12. tölul. umrædds fylgiskjals:
? Meðferð úrgangs - móttökustöðvar sveitarfélaga: Eftirlitsflokkur 1
Flokkunarmiðstöðvar, urðunarstaðir og sorpbrennslustöðvar þar sem tekið er á móti meira en 5000 tonnum af úrgangi eða fleiri en 20 þús. einstaklingum er þjónað...?
Urðunarstaður Sorpstöðvar Suðurlands fellur undir framgreint ákvæði og heyrir því undir fyrsta eftirlitsflokk. Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit, nr. 786/1999 segir að reglubundið mengunarvarnaeftirlit og eftirlitsmælingar ef við á skulu vera í samræmi við töflu A í umræddu ákvæði nema annað segi í reglugerðinni eða starfsleyfum. Samkvæmt töflu A eru eftirlitsflokkarnir fimm og í 1. eftirlitsflokki er meðalfjöldi skoðana tvisvar á ári og eftirlitsmælingar þriðja hvert ár, en í þessum eftirlitsflokki eru þau fyrirtæki sem sæta mesta eftirlitinu. Fyrirtækið heyrði samkvæmt áðurgildandi starfsleyfi undir eftirlitsflokk 2, sbr. 9. viðauki mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 og var þá reglulegt eftirlit einu sinni á ári.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun skal í umsókn um starfsleyfi fylgja upplýsingar um atvinnureksturinn og skulu þar m.a. fylgja upplýsingar um umfang hans. Það er síðan viðkomandi starfsleyfisveitandi sem vinnur tillögur að starfsleyfi á grundvelli umsóknar og gefur það síðan út. Umhverfisstofnun ber að tryggja að kröfur og skilyrði í starfsleyfum sem stofnunin gefur út og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerð nr. 805/1999 um úrgang er síðan nánar kveðið á um starfsleyfi vegna meðhöndlunar úrgangs. Í 18. gr. þeirrar reglugerðar segir að í starfsleyfi vegna meðhöndlunar úrgangs skuli vera ákvæði sem miða að því að vernda umhverfi og heilsu manna. Þá skulu í slíku starfsleyfi vera ákvæði um skrásetningu, magn, eðli, uppruna og þar sem við á áfangastað, söfnunartíðni, flutningsaðferð og aðra þætti meðhöndlunar úrgangs. Að mati ráðuneytisins ber því umsækjanda starfsleyfis urðunarstaðar að óska eftir ákveðnu magni úrgangsefna sem heimilt sé að urða. Starfsleyfisveitanda ber í starfsleyfi að meta hvort heimila skuli starfsemina og setja henni þá þau skilyrði sem hann telur nauðsynleg til að hún sé í samræmi við þær kröfur sem settar eru fram í ákvæðum laga og reglugerða sem að þeim lúta. Starfsleyfisveitandi hefur síðan eftirlit með starfseminni og ber því að fylgjast með því að skilyrði starfsleyfisins séu haldin. Ráðuneytið telur að ekkert hafi komið fram um að gr. 1.1 í hinu kærða starfsleyfi sé ekki í samræmi við ákvæði laga og reglugerða er um starfsemina gilda og telur því að ákvæðið eigi að standa óbreytt.
Kærandi telur að aðeins sé heimilt að taka við úrgangi sem hafi verið meðhöndlaður, flokkaður og rúmmálsminnkaður og sé það í samræmi við tilskipun 1991/31/EB um urðun úrgangs.
Vegna þessarar athugasemdar vill ráðuneytið taka fram að kveðið er á um það í 3.1 gr. í hinu kærða starfsleyfi að starfsleyfið veiti heimild til að urða allan úrgang sem sé meðhöndlaður, t.d. flokkaður og/eða rúmmálsminnkaður og sem flokkast ekki undir spilliefni og er það í samræmi við skilning kæranda á ákvæðinu.
Ráðuneytið vill benda á að aðeins flokkaður eða meðhöndlaður úrgangur kemur til urðunarstaðarins en engin flokkun fer fram á sjálfum urðunarstaðnum. Viðkomandi sveitarstjórn getur að höfðu samráði við heilbrigðisnefnd ákveðið flokkun á úrgangi og skil á flokkuðum úrgangi til söfnunar- og móttökustöðvar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar um úrgang. Flokkun úrgangs er þannig á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga. Sorpstöð Suðurlands hefur hins vegar ýmsar skyldur í þessu sambandi og skal hún stuðla að því að úrgangsefni fari í viðeigandi endurvinnslu- og endurnýtingarfarveg ef kostur er, sbr. 2.1 gr. í hinu kærða starfsleyfi. Þá ber henni að upplýsa almenning, fyrirtæki og stofnanir á þjónustusvæði stöðvarinnar um möguleika á endurnýtingu og endurvinnslu úrgangsefna sem stöðin getur tekið á móti í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög, sbr. 2.2 gr. í hinu kærða starfsleyfi.
3.
Kærandi telur að Sorpstöð Suðurlands geti haft áhrif á fiskgengd í margar ár og ekki sé tekið tillit til aukinnar mengunar frá staðnum samkvæmt mælingum. Þá telur kærandi að losunarmörk séu ekki tilgreind í starfsleyfisdrögum.
Eins og fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar sýna mengunarmælingar sem framkvæmdar hafa verið frá upphafi urðunarstarfsemi í Kirkjuferjuhjáleigu að áhrif mengunar frá urðunarstaðnum á vatnsgæði í Ölfusá séu óveruleg þó að nokkur aukning hafi átt sér stað undanfarin þrjú ár. Eins og lýst var hér að framan fellur starfsemin undir 1. eftirlitsflokk og því háð meira eftirliti en áður og er nú krafist tíðari mengunarmælinga á fráveituvatni fyrirtækisins. Í 4.4 gr. í hinu kærða starfsleyfi eru sett fram losunarmörk fyrir þungmála og í 3.8 gr. er vísað í reglugerð nr. 796/1999 um mengun vatns og reglugerð nr. 797/1999 um mengun grunnvatns fyrir frárennsli urðunarstaðarins en í fyrrnefndri reglugerð eru í fylgiskjali tilgreind ýmis umhverfismörk og losunarmörk. Í 4.3 gr. - 4.5 gr. í hinu kærða starfsleyfi er kveðið á um mælingar á mengunarefnum í frárennsli urðunarstaðarins og í viðtaka frárennslis. Í hinu kærða starfsleyfi er að finna nokkur nýmæli um mælingar svo sem um mælingar á styrk þungmálma í seti eða jarðvegi Ölfusár fyrir ofan og neðan innrennsli fráveituvatns og um mælingar í mælibrunnum fyrir grunnvatn. Eins og fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar er krafist tíðari mengunarmælinga á fráveituvatni urðunarstaðarins en áður. Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að losunarmörk og umhverfismörk séu nægilega tilgreind í hinu kærða starfsleyfi m.a. með tilvísun til viðkomandi reglugerða.
4.
Kærandi gerir athugasemdir við 3.11 gr. í hinu kærða starfsleyfi um að verið sé að auka frelsi til tilraunastarfsemi með illa lyktandi úrgang og telur hann þetta brot gegn tilskipun um urðun úrgangs.
Á grundvelli athugasemda kæranda til starfsleyfisveitenda við drög að hinu kærða starfsleyfi var bætt eftirfarandi málsgreinum við 3.11 gr. í hinu kærða starfsleyfi: ?Rekstraraðili skal gera grein fyrir tilgangi og markmiðum tilraunastarsemi áður en til framkvæmda hennar kemur sem og þeirra aðgerða sem hann telur nauðsynleg til að fyrirbyggja mengun, óþægindi eða óþrif sem kunnu að fylgja. Hollustuvernd ríkisins er heimilt að hafna eða stöðva tilraunastarfsemi hvenær sem er ef ekki verði staðið við þetta ákvæði eða ef stofnunin telur að mengun, óþægindi eða óþrif af tilraunastarfseminni sé óásættanleg?.
Að mati ráðuneytisins er 3.11 gr. sett fram í þeim tilgangi að kanna leiðir með frekari meðhöndlun á flokkuðum lífrænum úrgangi og endurvinnslu á öðrum úrgangi svo sem rafeindabúnaði, plasti og timbri. Eins og fram kemur í 2.1 gr. í hinu kærða starfsleyfi skal rekstraraðili stuðla að því að úrgangsefni fari í viðeigandi endurvinnslu- eða endurnýtingarfarveg ef kostur er og er 3.11 gr. hins kærða starfsleyfis í samræmi við það markmið að mati ráðuneytisins. Ráðuneytið telur að með framangreindum breytingum sem starfsleyfisveitandi gerði á geininni hafi verið tryggt nauðsynlegt aðhald með tilraunastarfseminni og jafnframt veitt heimild fyrir starfsleyfisveitanda til að grípa inn í tilraunastarfsemina valdi hún að hans mati óþægindum og óþrifum sem ekki eru ásættanleg. Ráðuneytið telur ákvæðið uppfylla þau lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda.
Ráðuneytið tekur ekki afstöðu í úrskurði þessum til tilskipunar um urðun úrgangs 1999/31/EB enda ber því að meta lögmæti hins kærða starfsleyfis á grundvelli þeirra laga og reglna sem í gildi voru þegar starfsleyfið var gefið út. Ráðuneytið telur þó rétt að upplýsa að tilskipun um urðun úrgangs var lögtekin hér á landi að hluta til með gildistöku laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs en lögin voru samþykkt á Alþingi þann 20. mars 2003 og öðluðust gildi við birtingu eða 7. apríl 2003. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgðaákvæði I í lögunum ber rekstraraðili þeirra urðunarstaða sem eru í rekstri við gildistöku laganna að senda Umhverfisstofnun áætlun fyrir 31. desember 2003, um hvernig unnt sé að laga rekstur urðunarstaðarins að ákvæðum laganna. Framangreindir urðunarstaðir skulu síðn uppfylla kröfur laganna fyrir 16. júlí 2009. Urðunarstaður Sorpstöðvar Suðurlands fellur undir framangreint ákvæði þar sem hann var í rekstri þegar lög um meðhöndlun úrgangs tóku gildi.
5.
Kærandi telur óeðlilegt að Hollustuvernd ríkisins veiti starfsleyfi, sé eftirlitsaðili og sá aðili sem hafi eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt.
Eins og áður hefur komið fram veitir Umhverfisstofnun starfsleyfi fyrir þeirri starfsemi sem hér um ræðir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 8. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir fer Umhverfisstofnun því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina þegar um landið allt er að ræða. Umhverfisstofnun fer með beint mengunareftirlit með urðunarstöðum, sbr. 1. mgr. 13. gr., sbr. a. liður 12. tölul. fylgiskjals 1 reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit. Í mengunarvarnaeftirliti felst eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar eftir, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál, sbr. skilgreiningu í 10. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Veiting hins kærða starfsleyfis og eftirlit Umhverfisstofnunar með því er samkvæmt framangreindu í samræmi við lög og reglugerðir þar að lútandi.
Kærandi óskar eftir að gripið verði til ráðstafana og að rannsakað verði hvaða áhrif starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands hefur haft á vistkerfið og nánasta umhverfi. Einnig geri kærandi kröfu um að Sorpstöð Suðurlands verði lokað, þar til starfsemin hafi verið sniðin að skipulagi og kröfum um urðun og meðhöndlun sorps.
Ráðuneytið telur að það sé hlutverk starfsleyfisveitanda við útgáfu starfsleyfis að kanna hvaða áhrif starfsemin hafi á umhverfið. Í 4. kafla hins kærða starfsleyfi er kveðið á um sýnatökur og mælingar á mengunarefnum í frárennsli og viðtaka urðunarstaðarins. Þannig er fylgst með starfseminni og gripið til ráðstafana ef þörf krefur. Starfsleyfisveitanda ber að setja starfseminni þau skilyrði sem hann telur nauðsynleg, sé hún heimiluð á annað borð, til að hún samræmist kröfum sem settar eru fram í lögum og reglugerðum sem um starfsemina gilda. Eins og rakið er hér í köfum III 2-4 hér að framan er það álit ráðuneytisins að hið kærða starfsleyfi sé í samræmi við lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda og eigi því hið kærða starfsleyfi að standa óbreytt. Ekki er því fallist á kröfu kæranda um lokun sorpstöðvarinnar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Hollustuverndar ríkisins um útgáfu starfsleyfis fyrir urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands, Ölfusi frá 4. desember 2002 skal óbreytt standa.
F. h. r.