Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

04020102

Grein

Hinn 26 maí 2004, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2004, framsendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið með vísun til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 73/1997 umhverfisráðuneytinu kæru Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hdl., f.h. Rafns Haraldssonar, dags. 6. febrúar 2004, vegna ákvörðunar sýslumannsins á Selfossi, dags. 27. janúar 2004, um að afturkalla leyfisskírteini Rafns nr. 270 til að mega kaupa og nota eiturefni í hættuflokkum X og A til eyðingar meindýra.

I. Málavextir og hin kærða ákvörðun.

Með ákvörðun sýslumannsins á Selfossi, dags. 27. janúar 2004, var afturkallað leyfisskírteini nr. 270 til handa Rafni Haraldssyni til að mega kaupa og nota eiturefni í X og A hættuflokkum til eyðingar meindýra, útgefið 5. maí 2003 af sýslumanninum á Selfossi.

Hið afturkallaða leyfi var endurnýjun skírteinis. Í ákvörðun sýslumanns var vísað um afturköllunarheimild vísað til 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 sbr. 4. mgr. 1. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988. Ennfremur var vísað til 1. mgr. 8. gr. laganna, einkum þess sem segir um fákunnáttu í lok málsgreinarinnar og 5. og 26. gr. sömu laga varðandi refsiákvæði. Í umsókn kæranda um leyfið tiltók hann framsóknarmenn umfram meindýr sem hann hyggðist eyða. Áður en umsókn kæranda var send til umsagnar var strikað yfir þá athugasemd.

Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni segir í bréfi sýslumanns að samkvæmt pistli í sunnudagsútgáfu Fréttablaðsins 25. janúar 2004, bls. 46, hafi kærandi lýst því yfir að skírteinið nái til annars en að útrýma meindýrum. Svo sé alls ekki, en ekki þyki óhætt að leyfishafi standi í slíkum misskilningi og virðist ekki vita betur en þar kemur fram. Lagt sé fyrir kæranda að afhenda skírteini sitt þegar og gera um leið skriflega grein fyrir kaupum eiturefna á gildistíma skírteinisins frá 5. maí 2003. Vísað er til ummæla kæranda í framangreindu tölublaði Fréttablaðsins þar sem haft er eftir kæranda að hann hafi í umsókn sinni um framangreint leyfi tilgreint framsóknarmenn umfram þau meindýr sem hann hyggðist eyða. Honum hafi borist skírteinið skömmu síðar svo umsóknin virðist hafa verið samþykkt. Í ákvörðun sýslumanns segir ennfremur að rakalausri fullyrðingu kæranda um að hann hafi opinbert leyfi til að útrýma framsóknarmönnum sé alfarið mótmælt. Ekkert virðist gefa til kynna að hann hafi leyfi til að eyða mönnum, hvorki framsóknarmönnum né öðrum. Slík afstaða kæranda sýni að hann hafi ekki til að bera nægan skilning á alvöru þess að hafa leyfi til að meðhöndla hættuleg eiturefni. Hún gefi fullkomlega til kynna að hann hafi ekki til að bera þá ábyrgð sem þurfi til að nota og meðhöndla eiturefni. Kærandi sýni af sér fáheyrt skeitingarleysi og virðingarleysi fyrir lögum og því trausti sem honum sé sýnt með leyfisveitingunni. Rétt hefði verið að endursenda umsóknina strax í upphafi en til þess hafi ekki komið þar sem sá starfsmaður sem annaðist leyfisveitinguna hafi viljað sýna lipurð og sanngirni og hafi strikað yfir hina smekklausu athugasemd um framsóknarmenn. Þar af leiðandi hafi Umhverfisstofnun mælt með leyfisveitingu við sýslumann. Kærandi hafi lýst því yfir að hann sæi ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á ummælum sínum í Fréttablaðinu eða draga þau til baka. Þar sem ætlun kæranda sé að láta ummælin standa óleiðrétt sé ekki annar kostur eftir en að afturkalla leyfið. Kærandi telji sér sæmandi að láta standa óleiðrétt að hann hafi leyfi eða a.m.k. ekki ástæðu til að ætla annað en að hann hafi leyfi til að útrýma framsóknarmönnum. Um sé að ræða fullkomin viðsnúning staðreynda og ósmekklega athugsemd þess efnis að sýslumaðurinn á Selfossi gefi út leyfi til þess að útrýma einstökum hópum, sem aðhyllast eina stjórnmálaskoðun. Þetta sé þvílík fjarstæða, sem verði ekki komist hjá að taka alvarlega eftir yfirlýsingu kæranda um að ekki komi til greina að leiðrétta ummælin.

Ofangreind frétt í Fréttablaðinu þann 25. janúar 2004 sem vitnað er til í ákvörðun sýslumanns var svohljóðandi:

„„Það var nú þannig að ég var að endurnýja skírteinið mitt, en ég er meindýraeyðir", segir Rafn Haraldsson á Bræðrabóli í Ölfusi, sem veit ekki betur en að hann hafi opinbert leyfi til að eyða framsóknarmönnum.

„Þetta er í það minnsta góð saga en síðast þegar ég endurnýjaði fyllti ég út þar til gert eyðublað og gaf upp hvaða meindýrum ég ætlaði að eyða en það eru fyrst og fremst mýs og skordýr. Svo var þarna auð lína þar sem maður gat bætt við fleiri tegundum og ég skráði framsóknarmenn þar. Þegar ég var að labba út var gargað á eftir mér að þetta mætti ekki en ég sagði þeim að láta þetta fara svona. Skírteinið skilaði sér skömmu síðar, þannig að umsóknin virðist hafa verið samþykkt athugasemdalaust".

Rafn segist helst þurfa að kljást við mýs en neitar því ekki að sér hafi borist nokkrar fyrirspurnir vegna framsóknarmanna. „Þetta hefur spurst út enda hef ég gaman að því að segja frá þessu og krydda söguna með þessu. Það er auðvitað mikið af framsóknarmönnum hérna á svæðinu, meira að segja einn aðalhöfuðpaurinn," segir meindýraeyðirinn sem má uppræta framsóknarmenn, rétt eins og James Bond má eyða hverjum sem er. Framsóknarmenn í Ölfusinu geta þó andað rólega þar sem Rafn hyggst ekki taka að sér verkefni tengd þeim.""

Þann 26. janúar 2004 mætti kærandi á fund sem sýslumaðurinn á Selfossi boðaði hann til. Á þeim fundi fór sýslumaður fram á það við kæranda að hann afturkallaði tilgreind ummæli sín og bæðist afsökunar. Féllist hann á að það yrði horfið frá þeim áformum að afturkalla leyfið. Kærandi féllst ekki á kröfu sýslumanns um afturköllun ummælana.

II. Kæruatriði og umsagnir um þau

Kærandi krefst þess að ofangreind ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað nú þegar.

Í kæru segir að kærandi hafi frá árinu 1985 haft leyfi til að kaupa og nota eiturefni í hættuflokkum X og A. Kærandi hafi jafnframt leyfi til meindýraeyðingar skv. leyfisskírteini útgefnu af Umhverfisstofnun þann 28. apríl 2003. Kærandi hafi fyrst fengið slíkt leyfi útgefið 13. júlí 1995. Þann 25. janúar sl. hafi birst í Fréttablaðinu stutt grein í gamansömum tón þar sem fjallað var um umrædda leyfisveitingu til kæranda og því slegið fram að hann hefði leyfi til að eyða framsóknarmönnum. Í kjölfar birtingar greinarinnar hafi sýslumaðurinn á Selfossi haft samband við kæranda símleiðis og óskað eftir að hann kæmi til fundar við hann á skrifstofu embættisins. Kærandi hafi mætt til fundarins þar sem hann hafi verið krafinn um afhendingu skírteinisins, auk þess sem lagt hafi verið fyrir hann að sækja um á ný. Kærandi hafi hafnað þessari kröfu sýslumanns og ekki talið hana styðjast við lagaheimild. Einnig hafi komið fram að sýslumaður myndi leggjast gegn því að kærandi fengi umbeðið leyfi við nýja umsókn. Kærandi hafi því talið að hann myndi glata lögvörðum réttindum sínum til að kaupa og nota eiturefni. Í framhaldi af þessum fundi hafi kæranda borist bréf um afturköllun leyfis nr. 270 til að mega kaupa og nota eiturefni í X og A hættuflokkum til eyðingar meindýra samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 50/1984. Þann 4. febrúar 2004 hafi framangreint bréf verið ítrekað, auk þess sem lagt hafi verið fyrir kæranda að leggja fram upplýsingar um meðferð eiturefna sem keypt höfðu verið og notuð í krafti framangreinds leyfis. Kærandi telji málsmeðferð og ákvarðanatöku sýslumannsins á Selfossi ólögmæta og ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Ekki hafi verið gætt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 né andmælaréttar skv. 13. gr. sömu laga. Ólögmæt og ómálefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðuninni þar sem ákvörðun sýslumanns virðist öðrum þræði grundvallast á 1 mgr. 8. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988. Hverjum manni megi vera ljóst að það sem fram komi í ofangreindri grein í Fréttablaðinu þann 25. janúar 2004 sé aðeins grín og kalli á engan hátt á viðbrögð af því tagi sem felist í ákvarðanatöku sýslumannsins á Selfossi. Um hafi verið að ræða frásögn af gamansögu sem gengið hafi manna á milli og hent hafi verið gaman af. Kæranda sé kunnugt um að frásögnin sé kunn ýmsum aðilum, m.a. aðilum sem tengjast Framsóknarflokkunum og hafi menn almennt gaman af og ekki ástæða til að taka hana alvarlega. Kærandi líti svo á að frásögn hans sé hluti af tjáningarfrelsi hans sem varið sé af ákvæðum stjórnarskrárinnar. Umrædd grein sé birt og framsett af Fréttablaðinu sem beri ábyrgð á umfjölluninni. Efni greinarinnar beri þó skýrlega með sér að um gamansögu sé að ræða. Ákvörðun um leyfissviptingu geti ekki byggt á slíkri frásögn.

Í umsögn sýslumannsins á Selfossi um ofangreinda kæru er vísað til fundar kæranda og sýslumanns þann 26. janúar 2004. Þar hafi kærandi lýst því yfir sérstaklega aðspurður að hann sæi enga ástæðu til að biðjast afsökunar á tilvitnuðum ummælum sínum í Fréttblaðinu, hvað þá draga þau til baka. Honum hafi verið gerð grein fyrir því að með því að taka ummælin aftur og lýsa því yfir að hann gerði sér grein fyrir því að þau væru engan veginn viðeigandi manni er hafði hlotið þann sérstaka trúnað sem þeim er sýndur er hlýtur leyfi samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, myndi sýslumaður hverfa frá þeirri ákvörðun að afturkalla leyfið. Í bréfi sýslumanns frá 27. janúar 2004 komi fram að þar sem það væri ætlun hans að láta þau standa óleiðrétt væri sýslumanni sem útgefanda skírteinis ekki annars kostur en að afturkalla leyfið. Öllum ummælum í framangreindri kæru um gamansemi og málfrelsi til réttlætingar því að halda skírteininu er vísað á bug í umsögn sýslumanns. Kærandi verði að bera ábyrgð á orðum sínum og í þessu tilviki sé farið langt út fyrir mörk gamansemi þegar talað er um að útrýma einstökum mönnum eða hópum manna vegna pólitískra skoðana þeirra á grundvelli opinbers leyfis sem sérstaklega þurfi að sækja um og uppfylla ákveðin skilyrði til að koma til greina að fá leyfið. Ennfremur er vísað til 233. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940, um hótun um að fremja refsiverðan verknað og 233 gr. a sömu laga um að það varði refsingu að ráðast opinberlega á hóp manna.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin hafi fengið umsókn Rafns Haraldssonar, dags. 2. apríl 2003, um skírteini til kaupa á efnum í hættuflokkum X og A. Engar athugsemdir hafi borist stofnuninni vegna starfa hans sem meindýraeyðis eða vegna meðferðar eiturefna. Ekkert hafi heldur reynst athugavert við þau gögn sem stofnuninni hafi borist vegna endurnýjunar skírteinisins. Eftir að gögn höfðu verið yfirfarin og að fengnu áliti Vinnueftirlitsins varðandi aðstöðu og aðbúnað umsækjanda hafi stofnunin mælt með veitingu leyfisins. Í framhaldi af því hafi sýslumaður gefið út leyfið. Síðar hafi komið í ljós að umsækjandi hafi skráð inn á umsóknareyðublaðið upplýsingar sem ekki hafi þótt viðeigandi eða marktækar og þær hafi því verið þurrkaðar út. Þrátt fyrir það hafi leyfishafi samkvæmt því sem fram komi í blaðagreinum haft í flimtingum að hann hafi fengið leyfi til þess að eyða framsóknarmönnum í samræmi við þann texta sem þurrkaður var út af umsóknareyðublaðinu. Bendir stofnunin á að samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, skuli fara með slík efni að gát þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum eða dýrum. Umræða af því tagi um meðferð eiturefna sem hér virðist hafa átt sér stað stangist á við ákvæði laganna og sýni dómgreindarleysi í umfjöllun um notkun þeirra efna sem viðkomandi hafi verið treyst fyrir að nota. Slík umfjöllun geti einnig haft þau áhrif að sú ábyrgð sem fylgi því að hafa lögbundin leyfi til að nota eiturefni verði ekki metin sem skyldi. Þar sem kærandi hafi kosið að standa við þau orð sem eftir honum séu höfð varðandi leyfi til óábyrgrar notkunar eiturefna sé það mat Umhverfisstofnunar að það hafi verið eðlileg aðgerð af hálfu sýslumanns að afturkalla leyfisskírteini kæranda til notkunar varnarefna í hættuflokkum X og A.

Í athugasemdum kæranda við framkomnar umsagnir segir m.a. að því sé sérstaklega mótmælt að skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga til afturköllunar ákvörðunarinnar hafi verið fyrir hendi. Afturköllun leyfisins geti valdið honum tjóni þar sem leyfisveitingin sé forsenda fyrir nýtingu tiltekinna atvinnuréttinda hans. Þá verði ekki séð að ákvörðun um að veita leyfið sé ógildanleg. Einnig er því mótmælt að 1. mgr. 8. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni geti átt við. Sýslumaðurinn á Selfossi sé ekki til þess bær að leggja mat á greind eða andlegt ástand kæranda út frá því sem fram kemur í tilgreindri blaðagrein. Þá sé ákvörðun sýslumanns tekin án þess að kæranda hafi gefist ráðrúm til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og nýta sér andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga. Á fundi þann 26. janúar sl. hafi sýslumaður krafið kæranda um afhendingu skírteinis án þess að honum væri gefinn kostur á að tjá sig um þá ákvörðun sem þá þegar hafði verið tekin. Kærandi hafi sérstaklega komið því á framfæri við sýslumann að honum væri fullkunnugt um að honum sé beiting eiturefna óheimil gegn mönnum eða í öðrum tilgangi en greindur er í leyfisskírteininu og fram komi í umræddri blaðagrein að kærandi hyggist ekki taka að sér verkefni tengd eyðingu framsóknarmanna. Með því að fallast á kröfu sýslumanns um afturköllun ummælana væri kærandi í raun að viðurkenna að hann hafi haft í hyggju að beita efnunum með ólögmætum hætti eða a.m.k. haft þann skilning að honum væri slíkt heimilt. Slíkt væri auðvitað fráleitt. Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Þegar litið sé til þess með hvaða hætti umrædd frásögn sé sett fram af hálfu Fréttablaðsins sé ljóst að um gamansama frásögn sé að ræða sem ekki styðjist við raunverulega afstöðu kæranda til meðferðar og nýtingar eiturefna. Því hafi sýslumanni borið að ganga mun skemur í ákvarðanatöku sinni. Með því að gera það að skilyrði fyrir því að afturköllun yrði ekki beitt að kærandi gæfi út yfirlýsingu í Fréttablaðinu þar sem hann hin umdeildu ummæli yrðu afturkölluð sé verið að vega að tjáningafrelsi kæranda. Ákvörðunin sé íþyngjandi og ekki í neinu samræmi við háttsemi kæranda. Loks mótmælir kærandi tilvísun til refsiákvæða í umsögn sýslumanns. Úr refsimálum beri að leysa á þeim vettvangi sem þau ákvæði áskilja en ekki með stjórnvaldsákvörðun þeirri sem er til meðferðar í máli þessu.

III. Niðurstaða.

1. Um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Markmið laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988 er að eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni séu notuð með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum eða dýrum né matvæli eða umhverfi mengist af efnunum.

Ákvæðum laga um eiturefni og hættuleg efni er ætlað að vernda mikilvæga heilsu- og umhverfishagsmuni. Taldi ráðuneytið kæranda ekki hafa svo brýna hagsmuni af því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað að rétt þætti að fallast á þá beiðni.

2. Um niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu telur ráðuneytið að líta beri til hinnar kærðu ákvörðunar og þeirra heimilda sem eru í lögum til afturköllunar ákvarðana sem þessara.

Í gögnum málsins liggur fyrir ljósrit af hinu afturkallaða leyfi. Þar kemur fram að kærandi fékk endurútgefið leyfi til að kaupa og nota eiturefni í hættuflokkum X og A, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 132/1971 um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra þann 5. maí 2003. Gildistími leyfisins var til 1. júní 2006. Í leyfinu kom ekki fram heimild til að nota efnin gegn mönnum enda verður ekki á lögmætan hátt gefið út opinbert leyfi til refsiverðrar háttsemi.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, er heimilt að veita iðnaðarmönnum eða öðrum einstaklingum sem nota tiltekin eiturefni að staðaldri við störf sín eða í þágu þeirra fyrirtækja er þeir starfa við leyfi til kaupa á tilteknum eiturefnum. Með reglugerð um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, nr. 50/1984, var reglugerð um sama efni, nr. 132/1971 felld úr gildi. Um kaup á eiturefnum í flokkum X og A fer nú skv. 4. gr. fyrrgreindrar reglugerðar með síðari breytingum.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að afturköllun leyfisins byggir fyrst og fremst á 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 25. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Stjórnvald getur afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar:

1. það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða

2. ákvörðun er ógildanleg."

Ákvörðun um útgáfu leyfis skv. 3. mgr. 7. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni er ívilnandi ákvörðun gagnvart leyfishafa. Ekki er um að ræða aðra beina aðila þess máls. Með hliðsjón af því og gögnum málsins telur ráðuneytið ekki unnt að líta öðruvísi á en að afturköllun leyfisins sé kæranda til tjóns eða til þess fallin að valda honum tjóni, þ.e. missi atvinnutekna.

Almennt þarf mun meira til að koma svo að ívilnandi ákvörðun verði talin ógildanleg heldur en íþyngjandi ákvörðun. Veiti aðili máls rangar eða villandi upplýsingar af ásetningi eða gáleysi er ívilnandi ákvörðun þó oftast talin ógildanleg. Í máli þessu telur ráðuneytið fram komið að kærandi hafi í umsókn sinni um hið afturkallaða leyfi gefið villandi upplýsingar af ásetningi. Telur ráðuneytið að ekki hafi verið hjá því komist að gera athugasemdir við það, eftir atvikum með formlegum hætti.

Í hinni kærðu ákvörðun segir að rétt hefði verið að endursenda umsóknina strax í upphafi en til þess hafi ekki komið þar sem sá starfsmaður sem annaðist leyfisveitinguna hafi viljað sýna lipurð og sanngirni og hafi strikað yfir hina smekklausu athugasemd um framsóknarmenn. Almennt mælir það á móti ógildingu ákvörðunar ef eingöngu er um að kenna mistökum stjórnvalds.

Í hinni kærðu ákvörðun er einnig vísað til 1. mgr. 8. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni. Samkvæmt því ákvæði má aðeins selja eða afhenda eiturefni þeim sem eru 18 ára eða eldri. Eigi má afhenda eiturefni ef ástæða er til þess að ætla að viðkomandi kynnu að fara sjálfum sér að voða eða gætu unnið öðrum tjón með efnunum sökum geðveiki, neyslu vímugjafa, vanþroska, vanstillingar, fákunnáttu o.s.frv. Ákvæði þetta á að mati ráðuneytisins fyrst og fremst við um einstaka sölu eða afhendingu eiturefna. Telur ráðuneytið þó eðlilegt að líta til þessa ákvæðis við mat á því hvort veita beri leyfi skv. 3. mgr. 7. gr. laganna. Ákvæðið hefur hins vegar að mati ráðuneytisins ekki að geyma sjálfstæða afturköllunarheimild.

Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. reglugerðar um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, nr. 50/1984, getur Umhverfisstofnun, lagt fyrir hlutaðeigandi yfirvald, að numið verði úr gildi leyfi til þess að kaupa og nota efni í hættuflokkum X og A, ef gildar ástæður eru til þess að ætla, að leyfishafar brjóti svo af sér við störf sín, að hætta geti stafað af. Hlutaðeigandi yfirvald getur og hvenær sem er numið slíkt leyfi úr gildi, ef fyrrgreindar ástæður mæla með því.

Ekki verður séð að ákvörðun um útgáfu leyfisins hafi verið haldin formlegum né efnislegum annmarka. Í vafatilvikum ber stjórnvöldum að beita heimildum til afturköllunar af varfærni einkum þegar um ívilnandi ákvarðanir er að ræða fyrir aðila máls. Ráðuneytið lítur svo að skýra beri slíkar heimildir fremur þröngt. Ráðuneytið telur jafnframt að ekki beri að beita slíkum reglum nema ekki komi til greina að beita öðrum úrræðum, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Óumdeilt er í máli þessu að tilefni afturköllunar leyfisins var frétt í Fréttablaðinu þann 25. janúar 2004 sem gerð er grein fyrir í I. kafla úrskurðar þessa. Ráðuneytið lítur svo á að umrædd frétt hafi verið frásögn af munnmælasögu sem kærandi staðfesti með ummælum sínum. Ráðuneytið telur fréttina ekki nægilegt tilefni til að ætla að mönnum eða tilteknum hópi þeirra hafi verið raunveruleg hætta búin af handhöfn kæranda af leyfi til að kaupa eiturefni. Ráðuneytið telur að til greina hefði komið m.a. að árétta formlega við kæranda inntak leyfisins og vekja athygli á viðurlagaákvæðum og því hafi ekki borið nauðsyn til að afturkalla ákvörðun um útgáfu leyfisins.

Ofangreind frétt birtist í Fréttablaðinu þann 25. janúar 2004. Kæranda var ekki gefinn kostur formlega á því að gera athugasemdir við fyrirhugaða ákvörðun sýslumanns um að afturkalla leyfið. Ákvörðun um afturköllun leyfisins var tekin þann 27. janúar 2004. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í ljósi þess að umrætt leyfi varðar atvinnuhagsmuni kæranda þykir sá fundur sem sýslumaður boðaði kæranda til ekki hafa gefið kæranda tækifæri með eðlilegum hætti til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Jafnframt telur ráðuneytið að ekki hafa verið slík hætta á ferðum að nauðsynlegt hafi verið að taka ákvörðun í málinu svo skjótt eftir að umrædd frétt birtist og raun ber vitni.

Ráðuneytið telur tilvitnuð refsiákvæði laga um eiturefni og hættuleg efni og almennra hegningarlaga ekki styðja hina kærðu ákvörðun. Í þeim ákvæðum er mælt fyrir um sérstök úrræði, viðurlög vegna refsiverðs verknaðar en ekki heimildir til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar.

Með vísun til þess sem að framan segir er ákvörðun sýslumannsins á Selfossi, frá 27. janúar 2004, um afturköllun leyfisskýrteinis nr. 270 til að kaupa og nota eiturefni í X og A til handa Rafni Haraldssyni er felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun sýslumannsins á Selfossi, frá 27. janúar 2004, um afturköllun leyfisskírteinis nr. 270 til að kaupa og nota eiturefni í X og A til handa Rafni Haraldssyni felld úr gildi.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta