04010059
Hinn 14. júní 2004, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:
ÚRSKURÐUR
Með bréfi sem barst ráðuneytinu þann 8. janúar 2004 kærði Vilmundur Þorgrímsson, eigandi jarðarinnar Skálanes í Seyðisfirði úthlutun á hreindýraarði í Seyðisfirði fyrir árin 2001, 2002 og 2003.
I. Málsatvik og hin kærða ákvörðun
Ofangreind kæra var send til umsagnar Hreindýraráðs, Náttúrustofu Austurlands og Umhverfisstofnunar. Umsögn Náttúrustofu Austurlands barst 4. febrúar 2004 og umsögn Umhverfisstofnunar barst 5. febrúar 2004. Kæranda var, með bréfi frá 15. mars 2004, gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komnar umsagnir. Athugasemdir kæranda bárust 25. mars 2004. Með bréfi, dags. 31. mars 2004, var kæranda gefinn frekari kostur á að koma að athugasemdum.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. mars 2004 var kæru vegna úthlutunar hreindýraarðs í Seyðisfirði vegna áranna 2001 og 2002 vísað frá.
Hreindýraarði vegna ársins 2003 var úthlutað þann 17. desember 2003. Samkvæmt ljósriti af greiðslukvittun til handa kæranda fékk hann úthlutað 182.286 kr. arði fyrir það ár.
II. Kæruatriði og umsagnir um þau
Í kæru segir að á jörðinni Skálanesi sé starfsemi sem sé mjög viðkvæm en þar séu eigendur með svokallaðan Villifuglagarð og hafi margfalt það tjón af hreindýrunum en þann arð sem greiddur hafi verið til eigenda undanfarin þrjú ár. Unnt sé að leggja fram reikninga fyrir öllum kostnaði svo og tjóni sem starfsemin í garðinum hafi orðið fyrir af völdum hreindýranna síðustu árin en sá kostnaður nemi rúmlega 1.000.000 millj. kr.
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að arður á jarðir í Seyðisfirði sé með því mesta sem gerist á Austurlandi. Náttúrustofa Austurlands meti ágang á hverju ári og takið þar mið af ágangi og hagagöngu hreindýra síðustu tíu árin eins og gert sé ráð fyrir í reglugerð. Árið 2003 hafi ágangur á jörðina Skálanes verið metin 25%. Það sé í fullu samræmi við ágang á nærliggjandi jarðir í Seyðisfirði. Drög að úthlutun fyrir árið 2003 hafi verið send til sveitarfélaga á Austurlandi til skoðunar í byrjun desember. Jafnframt hafi verið auglýst í vikublaðinu Dagskránni að arðskráin hafi legið frammi hjá sveitarfélögunum. Engin athugasemd hafi borist Umhverfisstofnun frá kæranda. Varðandi staðsetningu felldra dýra hafi verið farin ný leið 2003. Fyrirtækið Nytjaland hafi unnið við það á vordögum 2003 að setja landamerki jarða á Austurlandi inn í kortagrunn. Ágætt samkomulag hafi náðst við starfsmenn þess og GPS-hnitum af felldum dýrum hafi verið varpað inn í kortagrunninn. Einnig hafi verið gerður listi yfir felld dýr á hverri jörð á Austurlandi. Þær upplýsingar hafi síðan verið yfirfarnar áður en arður hafi verið greiddur út.
Í umsögn Náttúrustofu Austurlands er vísað til bréfs til kæranda frá 24. maí 2002 þar sem fram kemur m.a. hvatning til landeigenda um að senda stofunni allar þær upplýsingar um fjölda dýra og hagagöngu sem og tilkynningar um skakkaföll vegna hreindýraágangs. Ekki finnist gögn um að eigendur Villifuglagarðsins í Skálanesi hafi haft samband við stofuna um ágang eða fjölda hreindýra en allar slíkar ábendingar séu skráðar hvort sem þær berast skriflega eða á annan hátt. Náttúrustofan hafi hins vegar fylgst með málinu í gegnum bréf kæranda til Hreindýraráðs.
Í athugasemdum kæranda segir að fjöldi hreindýra í Skálanesi hafi alltaf verið vantalin. Eigendur Villifuglagarðsins hafi ekki talið sér skylt að telja fyrir hreindýraráð en á þeirra vegum hafi komið maður til að telja einu sinni til tvisvar á ári. Næg vitni og myndir séu af þeim fjölda hreindýra sem eigendur garðsins hafi sagt að hafi verið á svæðinu. Sumarið 2003 hafi um 150 dýra hjörð verið á svæðinu. Hjörðin hafi haldið sig í svokallaðri afrétt. Engin hreindýraveiðimaður né eftirlitsmaður hafi séð eða tilkynnt um dýr þar. Björn Ingvarsson, leiðsögumaður og Áki Ármann Jónsson, forstöðumaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar hafi hins vegar verið þar við veiðar og ætti hreindýraráði því að vera kunnugt um þessa hjörð. Auk þessa hafi 70 dýra hjörð farið milli Austdals og Skálaness, kýr með kálfa. Einnig hafi 20 tarfar verið gangandi á þessu svæði árið 2003. Þegar líði á vorið komi svo flest þau hreindýr sem séu í Seyðisfirði. Dýrin hafi því verið mjög nálægt 300 samtals vorið 2003. Kærandi sé átta mánuði ársins í Skálanesi og komi þar flesta daga þegar hægt er á vetrum. Talning einu sinni á ári sé ekki fullnægjandi í samanburði við upplýsingar heimamanna. Ekkert sauðfé, hestar né kýr séu í Skálanesi. Villifuglagarðurinn sé einstakur staður í Seyðifirði og vegna grængresisins sem komi undan fuglavarpinu á hverju vori sem sé einstaklega sterkt og safaríkt sæki dýrin gríðarlega inn á þetta svæði. Í garðinum sé villt dýralíf sem liggi undir miklum ágangi og skemmdum af völdum hreindýra eins og raun beri vitni og því sé afar sérstakt að hreindýr sem er innflutt dýrategund skuli eiga meiri rétt heldur en þau dýr sem búa á svæðinu svo sem fuglar. Bent sé á að eyðijarðir vestan við Skálanes fái sömu úthlutun eða meiri í hreindýraarð þó svo að þar séu engin mannvirki né starfsemi og að þar gangi búsmali allt árið um kring. Eðlilegt sé að spyrja til hvers hreindýraarður sé ef hann er ekki til að greiða fyrir skemmdir sem hreindýr valda á viðkomandi svæðum. Í athugasemdum kæranda kemur einnig fram að athugasemdir hans til hreindýraráðs virðist hafa skilað ákveðnum árangri þar sem arðurinn hafi hækkað með hverju árinu sem líður.
III. Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um skiptingu arðs af hreindýrum, nr. 487/2003, skiptir Umhverfisstofnun arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra að fenginni umsögn hreindýraráðs. Skulu eingöngu þeir sem fyrir ágangi hreindýra verða á lönd sín njóta arðsins. Skv. 2. mgr. sömu greinar skal úthluta arði á einstök ágangssvæði í samræmi við úthlutuð veiðileyfi á svæðinu. Umhverfisstofnun gerir ár hvert tillögu til umhverfisráðuneytisins um fjölda og mörk ágangssvæða að fengnum tillögum hreindýraráðs og Náttúrustofu Austurlands. Skal þar tekið mið af dreifingu hreindýra á síðustu 10 árum, en tillit skal taka til breytinga á ágangi og dreifingu hreindýra á undangengnu ári séu umtalsverð frávik milli ára.
Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar fara kr. 5.000 til ábúenda eða umráðenda, eftir atvikum, þeirrar jarðar sem dýr er fellt á. Ennfremur segir:
„Eftirstöðvar skiptast sem hér segir:
1. |
Á allar jarðir innan hvers ágangssvæðis sem verða fyrir ágangi (40%): | |
a. |
Samkvæmt fasteignamati lands, fjórðungur. | |
b. |
Samkvæmt landstærð (mæld eða flokkuð), þrír fjórðu hlutar. | |
2. |
Samkvæmt mati á ágangi (60%): | |
a. |
Lítill ágangur, 5%. | |
b. |
Nokkur ágangur, 10%. | |
c. |
Töluverður ágangur 25%. | |
d. |
Mikill ágangur 60%. |
Heimilt er að hnika frá ágangi um allt að 5% ef veigamiklar ástæður mæla með."
Umhverfisstofnun metur ágang á einstakar jarðir með hliðsjón af ofangreindu að fenginni umsögn Náttúrustofu Austurlands. Eftirlit með hagagöngu og ágangi hreindýra er þannig háttað að Náttúrustofa Austurlands sér um að talið sé einu sinni til tvisvar á ári að meðalatali auk þess sem stofan tekur við fjölda ábendinga frá heimamönnum á ári hverju, metur áreiðanleika þeirra og skráir til viðbótar upplýsingum úr talningum. Ráðuneytið telur þessa aðferðarfræði fullnægjandi grundvöll fyrir stofuna til að veita ráðgjöf um úthlutun hreindýraarðs og í samræmi við reglugerð um úthlutun arðs af hreindýrum, nr. 487/2003.
2.
Eins og fram kemur í kafla 1 hér að framan ræðst úthlutun hreindýraarðs af tilteknum hlutlægum atriðum skv. reglugerð um skiptingu arðs af hreindýrum, nr. 487/2003. Undanfarin ár hafa reglur um úthlutun arðs verið í þróun með það að markmiði að úthlutun gangi greiðlega fyrir sig en sé jafnframt eins sanngjörn og unnt er. Möguleikar til að taka mið af skemmdum á hverri jörð fyrir sig takmarkast í fyrsta lagi við ágangsmatið eða 60% arðsins. Í öðru lagi skal við mat á þeim hluta taka mið af hagagöngu hreindýra næstliðin tíu ár á undan en tillit skal taka til breytinga á ágangi og dreifingu hreindýra á undangengnu ári séu umtalsverð frávik milli ára. Ágangur og eða skemmdir hreindýra á viðkomandi jörð það ár sem úthlutað er fyrir hafa því takmarkað vægi við úthlutun arðsins. Miðað við forsendur reglugerðarinnar getur úthlutun hreindýraarðs ekki orðið nákvæmar skaðabætur vegna álags og eftir atvikum skemmdum á hverja jörð fyrir sig.
Samkvæmt 8. mgr. 14. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum annast Náttúrustofa Austurlands vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum. Ráðuneytið lítur svo á að Náttúrustofa Austurlands hafi sérhæfða þekkingu á sviði hreindýramála. Samkvæmt upplýsingum Náttúrustofu Austurlands voru að hámarki 200 hreindýr í Seyðisfirði veturna 2002-2003 og 2003-2004. Tölur kæranda um fjölda hreindýra í Seyðisfirði árið 2003, allt að 300 dýr, eru ekki í samræmi við upplýsingar Náttúrustofu Austurlands og Umhverfisstofnunar. Þær hafa ekki fengist staðfestar og eru ekki studdar sérstökum gögnum af hálfu kæranda. Athugasemdir kæranda um umfang skemmda eru heldur ekki studdar sérstökum gögnum þrátt fyrir að tekið hafi verið fram af hálfu kæranda að gögn lægju fyrir um kostnað vegna skemmda og að honum hafi verið í tvígang gefinn kostur koma að athugasemdum í máli þessu eftir að kæra lá fyrir.
Ágangur á jörðina Skálanes var metin töluverður eða 25% árið 2003. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar var arður sem úthlutað var fyrir Skálanes árið 2003, 182.286 kr. en 100.322 kr. fyrir árið 2002 og 33.185 kr. fyrir árið 2001. Arður sem úthlutað var á jörðina fyrir árið 2003 var því talsvert hærri en árið áður þrátt fyrir að hlutfall úthlutaðs arðs vegna ágangs hafi lækkað milli ára með nýrri reglugerð um skiptingu arðs af hreindýrum en skv. reglugerð um skiptingu arðs af hreindýraveiðum, nr. 485/2002, var vægi ágangsmats 70% af úthlutuðum arði. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar er afar fátítt að ágangur sé metinn hærri en 25%.
3.
Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu að við úthlutun hreindýraarðs fyrir jörðina Skálanes í Seyðisfirði vegna ársins 2003 hafi verið tekið mið af gildandi reglum og þeim upplýsingum sem fyrir lágu þ.m.t. um frávik milli ára. Ráðuneytið telur að ekki hafi komið fram gögn eða upplýsingar sem styðja kröfu kæranda um hækkun hreindýraarðs fyrir Skálanes árið 2003 og er kröfu hans því hafnað.