Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 07070150

Þann 4. janúar 2008 var í ráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu hefur borist stjórnsýslukæra, dagsett 23. júlí 2007, frá AM Praxis lögfræðiþjónustu f.h. Péturs Haraldssonar vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2007 þar sem synjað er um leyfi til að byggja hús í Skáley á Breiðafirði. Í kærunni er vísað til kæruheimildar 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

I. Málavextir og hin kærða ákvörðun.

Með bréfi dagsettu 5. júlí 2007, synjaði Umhverfisstofnun beiðni um leyfi til að byggja hús í Skáley á Breiðafirði, með vísun til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 54/1995 um verndun Breiðafjarðar. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að ekki liggi fyrir skipulag sem sýnir frístundahús í Skáley né heldur taki gildandi verndaráætlun fyrir svæðið til frístundabyggðar í eynni. Þá er vísað til þess að Náttúrufræðistofnun Íslands telji að eitt besta arnarsetur Íslands sé í Skáley. Ennfremur er vísað til skuldbindinga Íslands sem aðila að samningnum um líffræðilega fjölbreytni og að hafernir séu á válista 2, sem gefinn er út af Náttúrufræðistofnun auk þess sem þeir njóti sérstakrar verndar skv. lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Kærandi, Pétur Haraldsson, er eigandi jarðarinnar Skáleyjar fnr. 137784, Dalabyggð, og hefur hann hug á að reisa heilsárshús á norðanverðri eynni, við hlið þess staðar sem gamla bæjarhúsið í Skáley stóð fram á síðustu öld.

Ráðuneytið sendi Umhverfisstofnun, Breiðafjarðarnefnd og sveitarstjórn Dalabyggðar fram komna kæru til umsagnar með bréfi dagsettu 11. ágúst 2007. Umsögn Umhverfisstofnunar barst þann 4. október 2007, umsókn Breiðafjarðarnefndar þann 7. september 2007 og umsögn sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 28. ágúst 2007. Kæranda var gefinn kostur á koma að athugasemdum við fram komnar umsagnir. Athugasemdir kæranda bárust þann 26. október 2007.

II. Niðurstaða

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar segir að þar sem ekki séu fyrir hendi samþykktar skipulagsáætlanir, á því landssvæði sem um getur í 2. gr. laganna, sé hvers konar mannvirkjagerð óheimil nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Eftirfarandi skilgreiningu er að finna í 2. gr. skipulags- og byggingarlaga nr 73/1997:

„Skipulagsáætlun: Áætlun sem gerir grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og lýsir forsendum þeirra ákvarðana. Skipulagsáætlanir skiptast í þrjá flokka: Svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Skipulagsáætlun er sett fram í greinargerð og á uppdrætti".

Hin kærða ákvörðun varðar synjun leyfis til byggingar heilsárshúss í Skáley á Breiðafirði, fnr. 137784, Dalabyggð. Í gildi er svæðisskipulag Dala- og A-Barðastrandarsýslu 1992-2012, sbr. auglýsing nr. 31 frá 4. janúar 1996 um staðfestingu á svæðisskipulagi Dala og Austur-Barðastrandasýslu, og nær það skipulag m.a. til Skáleyjar. Eins og að framan segir, takmarkast ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 54/1995 við svæði þar sem ekki eru fyrir hendi skipulagsáætlanir. Af þessu leiðir að veiting leyfis til mannvirkjagerðar þeirrar sem hér um ræðir á ekki að lögum undir valdsvið Umhverfisstofnunar.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2007, um synjun leyfis til húsbyggingar í Skáley, fnr. 137784, Dalabyggð er felld úr gildi.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta