Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 03010041

22. maí 2003

Ráðuneytinu hefur borist kæra Ólafs Jóns Guðjónssonar f.h. Móa hf. dags. 27. desember 2002, vegna útgáfu heilbrigðisnefndar Vesturlands á starfsleyfi fyrir alifuglabú Móa hf. þann 30. nóvember 2002.

I. Hin kærða ákvörðun, málsatvik og kröfur kæranda

Þann 30. nóvember 2002 gaf heilbrigðisnefnd Vesturlands út starfsleyfi til handa alifuglabúinu Móum hf. að Hurðarbaki í Svínadal og var það tilkynnt fyrirtækinu með bréfi dags. 30. nóvember 2002. Óskuðu Móar hf. þá eftir afriti af athugasemdum sem borist höfðu við auglýst drög að starfsleyfi og rökstuðningi heilbrigðisnefndarinnar vegna ákvæðis 2.8. í starfsleyfinu. Með bréfi heilbrigðisnefndar dags. 12. desember 2002 var orðið við þeirri beiðni kæranda. Þann 27. desember 2002 barst ráðuneytinu kæra Móa hf. vegna ákvæða 2.8. og 2.9. í starfsleyfi fyrirtækisins.

Í ákvæði 2.8. í hinu kærða starfsleyfi segir: ?Haughús fyrir hænsnaskít skulu rúma a.m.k. 6 mánaða birgðir vera vökvaheldar, yfirbyggðar og vel við haldið.?

Kærandi gerir athugasemd við orðið ?yfirbyggðar? í framangreindu ákvæði. Vill fyrirtækið hafa möguleika á annarri útfærslu á hauggeymslu fyrir alifuglabúið en hefðbundinni byggingu. Kemur fram í kæru að ráðgjafi Móa hf. í umhverfismálum, Línuhönnun ehf., hafi gert tillögu að hauggeymslu utandyra sem er vökvaheld, botn og veggir lagðir jarðvegsdúk til að sigvatn komist ekki í grunnvatn og net strengt yfir til að verjast ágangi vargfugla. Með þessu móti yrðu ákvæði mengunarvarnareglugerðar uppfyllt að mati kæranda. Telur kærandi að framangreint orðalag ákvæðis 2.8. í starfsleyfinu útiloki þessa útfærslu á hauggeymslu fyrir alifuglabúið.

Í ákvæði 2.9. starfsleyfisins segir: ?Aðeins má dreifa skít á tímabilinu 15. mars ? 15. júní og 15. september ? 1. nóvember. Aldrei má dreifa á frosna jörð eða gegnblauta. Sé um að ræða dreifingu á öðrum tímum skal það háð sérstöku leyfi heilbrigðisnefndar Vesturlands.?

Fram kemur í kæru að tímabilið sem heimilt er að dreifa skít hafi verið stytt frá því sem var í eldra starfsleyfi og auglýstum drögum að nýju starfsleyfi. Ekki sé lengur heimilt að dreifa skít á tímabilinu 15. júní ? 15. september ár hvert, sem þó sé æskilegur tími til dreifingar. Með ákvæðinu sé starfsemi búsins verulega skert og óviðunandi að settar skuli vera slíkar kvaðir á fyrirtækið á meðan önnur bú á sama svæði mega óáreitt dreifa skít á þessum tíma.

Kærandi telur að með framangreindum ákvæðum starfsleyfisins sé jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 brotin og óskar hann eftir því við umhverfisráðuneytið að það felli ákvæðin úr gildi og samræmi þau ákvæðum viðeigandi reglugerða.

II. Umsagnir um kæru

Þann 7. janúar 2003 sendi ráðuneytið framangreinda kæru til umsagnar heilbrigðisnefndar Vesturlands, Hvalfjarðarstrandarhrepps og Umhverfisstofnunar. Frestur til að veita umsagnir var til 21. janúar 2003. Umsagnir bárust frá Hvalfjarðarstrandarhreppi þann 20. janúar 2003, heilbrigðisnefnd Vesturlands þann 13. janúar 2003 og Umhverfisstofnun þann 21. janúar 2003. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreindar umsagnir með bréfi dags. 27. janúar 2003. Athugasemdir kæranda bárust þann 13. febrúar 2003.

1. Grein 2.8. í starfsleyfi Móa hf.

Í umsögn heilbrigðisnefndar Vesturlands kemur fram að hugsanleg lyktarmengun og hætta af foki úr hauggeymslu ráði mestu um þá kröfu nefndarinnar að geymslan skuli vera yfirbyggð. Einnig er bent á að vegna athugasemda sem bárust vegna skipulags alifuglabúsins að Hurðarbaki m.a. vegna hugsanlegrar lyktarmengunar, hafi skipulagsnefnd sveitarfélagsins vísað mjög til útgáfu starfsleyfis alifuglabúsins og þeirra krafna sem þar kæmu fram.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að yfirbygging hauggeymslu sé ekki eingöngu til að koma í veg fyrir að vargfugl komist í skítinn, heldur einnig til að koma í veg fyrir að vatn berist inn í hauginn, leysi upp lyktmengandi efni s.s. ammoníak sem valdi aukinni lyktarmengun þegar þau hitna og gufa upp. Hins vegar sé ekkert sem geri það nauðsynlegt að hús sé nýtt undir skítinn. Hauggeymsla eins og gerð sé grein fyrir í kærunni komi fyllilega til greina. Eina skilyrðið sé að geymslan sé yfirbyggð á einhvern hátt þannig að regnvatn eða yfirborðsvatn komist ekki í skítinn.

Hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps vísar í umsögn sinni til fyrri umsagna og athugasemda vegna starfsleyfis Móa hf. að Hurðarbaki. Þar kemur m.a. fram að hreppsnefnd hafi sett skilyrði að hauggeymsla verði byggð eins og fram komi í útgefnu starfsleyfi fyrir fyrsta alifuglahúsið. Þessu ákvæði hafi ekki verið fylgt þrátt fyrir ábendingar.

Í athugasemdum kæranda segir: ?Ef skítahaugur er yfirbyggður má vænta þess að meira hitni í honum en ef vindar blása um með hæfilegri kælingu. Frá skítahaug sem stendur óhreyfður kemur mjög lítil lykt en um leið og hreyft er við honum losnar um gufur s.s. ammoníak. Lykt frá skít að Hurðarbaki ætti fyrst og fremst að koma þegar verið er að dreifa á tún og í flög og þegar mokað er út úr húsunum, en ekki af óhreyfðum safnhaug. Til að fyrirbyggja ágang vargfugla og fok ætti að vera nóg að strengja þéttriðið net (nót) yfir hauggeymsluna.?

Jafnframt vísar kærandi til þess í athugasemdum sínum að bygging yfirbyggðrar hauggeymslu er mun dýrari en hauggeymsla eins og lýst er í kærunni. Því sé það ósk fyrirtækisins að stjórnvöld loki ekki möguleika á hagkvæmari framkvæmd með ákvæði í starfsleyfi. Vísar kærandi til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga máli sínu til stuðnings.

2. Grein 2.9. í starfsleyfi Móa hf.

Fram kemur í umsögn heilbrigðisnefndar Vesturlands að tekið hafi verið tillit til athugasemda Veiðimálastofnunar sem borist hafi við auglýst starfsleyfisdrög og varðað hafi þann tíma sem heimilt væri að dreifa skít frá alifuglabúinu. Á þessum tíma séu veiðar stundaðar í Laxá í Leirársveit. Auk þess megi gera ráð fyrir að á sama tíma dvelji flestir á frístundasvæðinu í Svarfhólsskógi.

Heilbrigðisnefnd bendir á að takmarkanir hafi einnig verið gerðar á heimild til áburðardreifingar á svínabúi að Melum í Leirár- og Melahreppi og alifuglabúi að Eskiholti II, Borgarbyggð. Það sé því ekki rétt að brotin hafi verið jafnræðisregla stjórnsýslulaga gagnvart kæranda. Jafnframt bendir heilbrigðisnefnd á að samkvæmt ákvæði 2.9. sé heimilt að veita leyfi til áburðardreifingar utan hefðbundins tíma. Það hafi verið gert bæði að Hurðarbaki og að Melum. Miðað við þær kröfur sem settar eru í starfsleyfi um stærð hauggeymslu sem rúmi minnst 6 mánaða áburð, telur heilbrigðisnefnd að ákvæði 2.9. í starfsleyfinu sé ekki mjög íþyngjandi fyrir starfsemi alifuglabúsins miðað við þann tæknibúnað sem notaður sé til dreifingar áburðar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að takmörkun á dreifingu skíts á tímabilinu 15. júní til 15. september sé til að draga úr lyktarmengun á þeim tímum þegar útivist almennings í nágrenni búsins sé í hámarki. Jafnframt sé þetta heitasti tími ársins og lyktaruppgufun mest. Augljóst sé að oft sé heppilegt að dreifa áburðarefnum á þessum tímum vegna þess að vöxtur er mikill og næringarefnin nýtast vel. Slík dreifing þurfi þá að fara þannig fram að lyktarmengandi efni séu plægð ofan í jarðveginn jafnóðum. Þá vill Umhverfisstofnun benda á að dreifing skíts yfir hásumartíman sé einnig takmörkuð frá öðrum búum á Vesturlandi, s.s. svínabúinu á Melum og alifuglabúinu á Eskiholti II.

Í athugasemdum kæranda segir að þeir sem leiti í útivist til sveita verði að gera sér grein fyrir að búskap fylgi lykt af skít sem dreift sé á tún og í flög á þeim tíma sem jarðvegurinn hefur hvað mesta þörf fyrir áburð. Bendir hann á að samkvæmt ákvæðum starfsleyfisins skuli miða dreifingu við hagstæðar vindáttir og þannig lágmarka óþægindi útivistarfólks. Kæranda sé ekki kunnugt um að nágrönnum hans sé bannað að bera skít á tún sem liggja að Laxá í Leirársveit eða slík takmörkun sé á dreifingu skíts hjá bæjum í nágrenni útivistarsvæða eða sumarhúsabyggða yfirleitt. Móar hf. og innleggjendur hjá fyrirtækinu reki auk búsins að Hurðarbaki, alifuglabú á heilbrigðiseftirlitssvæði Reykjavíkur, Suðurlands og Norðurlands vestra. Í engu þeirra starfsleyfa sé takmörkun á dreifingu skíts yfir sumartímann. Vísar kærandi til jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga máli sínu til stuðnings.

III. Niðurstaða

1.

Í reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri nr. 804/1999, sbr. reglugerð nr. 592/2001, eru í 6. gr. ákvæði um söfnun, geymslu og notkun búfjáráburðar. Í 1. ml. 2. mgr. þeirrar greinar segir að við gripahús þ.m.t. loðdýra-, svína- og alifuglabú, skuli vera vandaðar og þéttar hauggeymslur. Í 3. mgr. sömu greinar segir að við staðsetningu og frágang á hauggeymslum skuli taka mið af vatnsverndarsvæðum, fjarlægðarmörkum fyrir vatnsból og starfsreglum Hollustuverndar ríkisins, nú Umhverfisstofnunar, um góða búskaparhætti. Að öðru leyti skal farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar um gerð og staðsetningu hauggeymslna og áburðargeymslna. Hætta á lyktmengun er ástæða áskilnaðar í starfsleyfisákvæði 2.8. um yfirbyggða hauggeymslu. Í starfsreglum um góða búskaparhætti er ekki áskilið að hauggeymsla skuli vera yfirbyggð en þar segir að þess skuli gætt við val á staðsetningu að ekki skapist óþægindi af völdum lyktar. Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að ekki sé nauðsynlegt að um hús sé að ræða heldur dugi að geymslan sé yfirbyggð á þann hátt að regnvatn eða yfirborðsvatn komist ekki í fuglaskítinn, en vatn veldur því að lyktmengandi efni s.s. ammoníak, leysast upp og valda aukinni lyktmengun þegar þau hitna og gufa upp. Ráðuneytið telur með vísan til framanritaðs að heilbrigðisnefnd hafi verið heimilt að setja í grein 2.8. í starfsleyfinu ákvæði um gerð hauggeymslu alifuglabúsins. Við setningu slíks ákvæðis verður þó að taka mið af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Ráðuneytið telur að ekki sé nauðsynlegt að um hús sé að ræða undir fuglaskítinn, heldur dugi að gengið sé þannig frá málum að regnvatn eða yfirborðsvatn komist ekki í hann. Með hliðsjón af framangreindu skal skilyrði 2.8. í starfsleyfinu orðast svo: ?Hauggeymslur fyrir hænsnaskít skulu rúma a.m.k. 6 mánaða birgðir, vera vökvaheldar, vel við haldið og þannig frá þeim gengið að regnvatn eða yfirborðsvatn komist ekki í skítinn.?

2.

Laxá í Leirársveit er í næsta nágrenni þeirra túna þar sem dreifing hænsnaskíts frá Móum fer fram. Veiðimálastofnun óskaði eftir því við heilbrigðisnefnd Vesturlands að dreifing færi ekki fram á tímabilinu 15. júní - 15. september vegna óþæginda sem af því stafaði fyrir veiðimenn. Samkvæmt ákvæðum starfsleyfisins getur starfsleyfishafi sótt um sérstakt leyfi til dreifingar fuglaskíts á öðrum tímum en þar greinir. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, skal við það miðað að dreifing búfjáráburðar fari að jafnaði fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert og að jafnaði sé ekki dreift á frosna jörð. Orðalag ákvæðisins er rúmt og bendir til að heimilt sé að ákveða með hliðsjón af aðstæðum aðra tímasetningu á dreifingu búfjáráburðar. Í 5. mgr. 6. gr. sömu reglugerðar segir að taka skuli tillit til nálægrar starfsemi, íbúðarhúsa og orlofshverfa við dreifingu búfjáráburðar m.a. með því að virða hæfileg fjarlægðarmörk og miða við hagstæðar vindáttir við dreifingu. Í 5. gr. reglugerðar um loftgæði nr. 787/1999, er kveðið á um að loftmengun skuli haldið í lágmarki og í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur skuli viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun. Jafnframt segir í 9. gr. reglugerðarinnar að forráðamenn fyrirtækja og stofnana skuli sjá um að reykur, ryk og lofttegundir, sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi. Ráðuneytið telur að skýra beri ákvæði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri með hliðsjón af ákvæðum 5. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar og framangreindum ákvæðum reglugerðar um loftgæði. Heilbrigðisnefnd er því að mati ráðuneytisins heimilt að stytta það tímabil sem dreifing fuglaskíts á tún er heimil umfram það tímabil sem nefnt er í 1. mgr. 7. gr. með hliðsjón af hagsmunum þeirra sem dvelja í nágrenninu og verða fyrir óþægindum af völdum ólyktar. Er það jafnframt í samræmi við úrskurð setts umhverfisráðherra frá 10. desember 2001, í máli vegna starfsleyfis svínabús Stjörnugríss hf. Við ákvörðun á því hve mikið dreifing er takmörkuð yfir sumartíman verður að hafa hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hafa ber í huga að þeir veiðimenn sem verða fyrir óþægindum af völdum ólyktar dvelja einungis hluta úr degi á svæðinu en íbúðar- og orlofshús eru nokkru fjær. Fari frost seint úr jörðu kann svo að fara að tímabilið 15. mars - 15. júní nýtist illa til dreifingar á þeim fuglaskít sem safnast hefur upp eftir veturinn. Fram kemur í starfsreglum um góða búskaparhætti sem áður er vitnað til, að æskilegt sé að búfjáráburði sé dreift á vaxtartíma plantna þegar þær þurfa mest á áburði að halda, þ.e. á vorin og snemmsumars. Ráðuneytið telur með hliðsjón af framangreindu rétt að leyfa dreifingu fuglaskíts til 15. júlí. Eins og tekið er fram í grein 2.14. í starfsleyfinu skal við dreifingu taka tillit til vindátta þannig að hún valdi nágrönnum sem minnstum óþægindum. Með hliðsjón af framangreindu skal skilyrði 2.9. í starfsleyfinu orðast svo: ?Aðeins má dreifa skít á tímabilinu 15. mars ? 15. júlí og 15. september ? 1. nóvember. Aldrei má dreifa á frosna jörð eða gegnblauta. Sé um að ræða dreifingu á öðrum tímum skal það háð sérstöku leyfi heilbrigðisnefndar Vesturlands.?

Úrskurðarorð

Ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands um útgáfu starfsleyfis til handa alifuglabúinu Móum hf. frá 30. nóvember 2002, er staðfest með eftirfarandi breytingum:

Skilyrði 2.8. í starfsleyfinu orðast svo:

?Hauggeymslur fyrir hænsnaskít skulu rúma a.m.k. 6 mánaða birgðir, vera vökvaheldar, vel við haldið og þannig frá þeim gengið að regnvatn eða yfirborðsvatn komist ekki í skítinn.?

Skilyrði 2.9. í starfsleyfinu orðast svo:

?Aðeins má dreifa skít á tímabilinu 15. mars ? 15. júlí og 15. september ? 1. nóvember. Aldrei má dreifa á frosna jörð eða gegnblauta. Sé um að ræða dreifingu á öðrum tímum skal það háð sérstöku leyfi heilbrigðisnefndar Vesturlands.?


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta