Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 08060042

    Þann 26. ágúst var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

 

Með bréfi dags. 6. júní s.l. barst ráðuneytinu beiðni Ragnars Aðalsteinssonar hrl. fyrir hönd Icelandic Water Holding ehf. um endurupptöku úrskurðar á grundvelli 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveðinn var upp þann 9. maí s.l. og fól í sér ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar vegna vatnsátöppunarverksmiðju í Ölfusi á vegum áðurnefnds félags, sbr. ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Kærendur í máli þessu voru Björn Bogason og Ingibjörg Sigurðardóttir, en eignarland þeirra er aðliggjandi framkvæmdasvæðinu.

 

I. Málavextir og forsendur ákvörðunar um endurupptöku úrskurðar.

Í niðurstöðu framannefnds úrskurðar er fólgin ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar vegna vatnsátöppunarverksmiðju í Ölfusi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna. Í þeim úrskurði greinir að framkvæmdaraðili áætli vatnsvinnslu og átöppun sem nemur allt að 8 l/s. Um aðstæðulýsingar og málsatvik að öðru leyti vísast til úrskurðar þessa, en forsendur  niðurstöðu þar byggðust að verulegu leyti á afdráttarlausri umsögn og afstöðu Orkustofnunar varðandi vatnafar á svæðinu, sbr. bréf Orkustofnunar þar um frá 4. febrúar s.l. þar sem tekið er fram að stofnunin álíti framkvæmdina líklega til að hafa í för með sér veruleg áhrif á vatnafar á svæðinu. Nánar tiltekið þá var í þeirri umsögn stofnunarinnar afdráttarlaust tekið undir það með kærendum að við vinnslu grunnvatns úr lindum hlíðarinnar myndi rennsli minnka í læk sem allt vatn við Hlíðarenda fari í við núverandi aðstæður, svo og fallist á að óviðunandi hefði verið af hálfu Skipulagsstofnunar, þegar hún tók hina kærðu ákvörðun að framkvæmdin skyldi ekki sæta mati á umhverfisáhrifum, að minnast ekki á umhverfisáhrif þess að bora eftir vatni og veita í bæjarlækinn sem mótvægisaðgerð til að breyta ekki rennsli hans. Þá var sömuleiðis tekið undir það í úrskurðinum með kærendum af hálfu Orkustofnunar að óvíst væri um hvort efnissamsetning og hitastig fyrirhugaðs mótvægisvatns væri það sama og í þeirri sem fyrir er í læknum, en þessa þætti áleit Orkustofnun geta haft umtalsverð áhrif á lífríkið, en staðhæft var að það hefði ekki verið skoðað hjá Skipulagsstofnun. Auk þess tók Orkustofnun undir staðhæfingar kærenda um að engar athuganir hafi legið fyrir hvort og hvernig grunnvatnsstaða á svæðinu breyttist við fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Þá var í kærunni tilgreint að engar rannsóknir lægju fyrir á lífríki lækjarins og tilheyrandi umrennslissvæðis. Í ljósi alls þessa var svo rakið í kærunni að nauðsynlegt væri að fram færu athuganir og rannsóknir og vatnafari, og svo tekið fram í kæru að fullyrðing Skipulagsstofnunar um áhrif á vatnafar teldist verulega ámælisverð þar sem hún væri ekki studd neinum fagrökum.

 

Undir framangreint tók Orkustofnun sem fyrr greinir í umsögn sinni til ráðuneytisins frá 4. febrúar, sbr. ummæli og ívitnun stofnunarinnar á bls. 2 í nefndri skýrslu " Orkustofnun telur rökstuðning og sjónarmið kærenda í þessum tölulið kærunnar vera reistan á traustum faglegum grunni og getur því aðeins tekið undir þær ályktanir sem þar koma fram varðandi vatnafar og möguleg áhif vatnstökunnar á stöðu grunnvatns og rennsli í læknum. Í niðurlagi umsagnar Orkustofnunar er svo tekið fram að „það sé álit Orkustofnunar á grundvelli framangreindra sjónarmiða að starfsemi vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda i Ölfusi kunni að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á grunnvatn á svæðinu og því beri að meta umhverfisárhrif starfseminnar.“ Sem fyrr segir var þessi afdráttarlausa og sérfræðilega afstaða Orkustofnunar svo meginforsenda umrædds úrskurðar ráðuneytisins er upp var kveðinn þann 9 . maí s.l.

 

Endurupptökubeiðni vegna ofangreinds úrskurðar barst ráðuneytinu svo með bréfi dags. 6. júní s.l. frá Ragnari Aðalsteinssyni hrl. fyrir hönd framvkæmdaraðila, eins og áður greinir. Rökstuðningur endurupptökubeiðnarinnar er einkum sá að í umsögn Orkustofnunar frá 4. febrúar hefði Orkustofnun ekki byggt á eigin skýrslu frá árinu 1995 og nefnist Þorlákshöfn - grunnvatn og vatnsvernd. Þar með hefði stofnunin byggt umsögn sína á ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og það sama ætti því við um fyrrnefndan úrskurð ráðuneytisins. Ráðuneytið sendi Orkustofnun umrædda endurupptökubeiðni til umsagnar með bréfi dags. 9. júní s.l. og barst sú umsögn ráðuneytinu með bréfi dags. 12. júní s.l. Í því er tekið  fram að í ljósi nýrra upplýsinga telji stofnunin ekki ástæðu til að ætla að áhrif á vatnafar geti orðið umtalsverð og því þyrfti ofangreind framkvæmd ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum. Orkustofnun vísaði þar staðhæfingum um ófullnægjandi upplýsingar á bug. Í rökstuðning Orkustofnunar kemur fram að nýjar upplýsingar hefðu komið fram við leyfisveitingaferli orkumálayfirvalda til framkvæmdaraðila, eftir að umsögn stofnunarinnar frá 4. febrúar 2008 var unnin og einnig eftir að umræddur úrskurður ráðuneytisins frá 9. maí 2008 var kveðinn upp. Nánar greint þá er í umsögn stofnunarinnar frá 12 júní vísað til framannefndrar skýrslu frá 1995, og vikið að fyrirkomulagi frárennslismála og mengunarhættu með tilliti til þeirra þungaflutninga sem viðbúið er að þarna muni eiga sér á stað vatninu. Orkustofnun vísar einnig til mótvægisaðgerða og segir nánar að  „þar sem framangreindra aðgerðir, hafa ýmist verið ákveðnar eða binda mætti í nýtingarleyfi og önnur leyfi vegna framkvæmdarinnar gera það að verkum að ekki er ástæða til að ætla að þessir þættir, þ.e. mengunar - og frárennslisatriði, séu líklegir til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.“

 

Í umsögninni er einnig vikið að þeim þáttum sem vörðuðu meginefni umsagnar stofnunarinnar frá 4. febrúar. Í því sambandi rekur Orkustofnun að „varðandi þann þátt umsagnar stofnunarinnar  sem fjallar um áhrif á vinnslu grunnvatns úr lindum á rennsli lækjar vekur athygli að í úrskurði umhverfisráðherra segir að í athugasemdum framkvæmdaraðila komi fram að þegar gerðar mælingar sýni að sáralítill munur sé á hitastigi og efnasamsetningu vatnsins í lindum við Hlíðarenda og vatninu í Hraununum suður af Hlíðarenda. Þessar upplýsingar, auk upplýsinga um rennslismælingar, koma einnig fram í gögnum er fylgdu umsókn fyrirtækisins til iðnaðarráðherra um nýtingarleyfi en lágu ekki fyrir þegar Orkustofnun veitti umsögn sína. Út frá þessum upplýsingum virðist mega ráða að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif á vatnafar svæðisins.“ Ráðuneytið boðaði hlutaðeigandi starfsmenn Orkustofnunar til fundar í umhverfisráðuneytinu til þess að fara nánar yfir framangreinda umsögn stofnunarinnar, og var sá fundur haldinn þar 24. júní. Þá sendi ráðuneytið Orkustofnun bréf dags. 16. júní sem fól í sér sérstaklega afmarkaðar og nánar greindar spurningar með hliðsjón af umsögninni frá 12. júní. Spurningarnar voru eftirfarandi:

 

1. Hvaða nánar tilteknu gögn lágu ekki fyrir að mati Orkustofnunar þegar umsögn hennar frá 4. febrúar var unnin og hefðu orsakað aðra niðurstöðu en þar er greint frá? Í þessu sambandi ber að benda á að í umsögn stofnunarinnar frá 4. febrúar s.l. er meðal annars tekið fram að Orkustofnun hafi kynnt sér framsend gögn málsins frá umhverfisráðuneytinu og jafnframt aflað frekari gagna frá Skipulagsstofnun um nýlegar breytingar á aðalskipulagi Ölfuss. Einnig er þar rakið af hálfu Orkustofnunar að að tekið sé mið af fyrirliggjandi þekkingu um grunnvatnsstrauma á viðkomandi svæði og þeirri túlkun gagna sem fram kemur í skýrslum um niðurstöður grunnvatnslíkans af svæðinu og unnið hafi verið af verkfræðistofunni Vatnaskilum.

 

2. Hvaða fræðilega vatnafarforsenda býr nánar greint að baki þeirri nýju staðhæfingu stofnunarinnar, sem birtist í niðurlagi umsagnar hennar til ráðuneytisins frá 12. júní s.l., um að út frá þar greindum upplýsingum virðist nú mega ráða framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á vatnafar, og hvaða vatnafarslegu þýðingu hefur þessi staðhæfing nánar greint að mati Orkustofnunar?

 

Við framanröktu bárust svör Orkustofnunar til ráðuneytisins með bréfi dags. 19. júní s.l. Efni framangreindra fyrirspurnaliða svaraði Orkustofnun með svofelldum hætti:

 

„Ekki lá fyrir umsókn fyrirtækisins til iðnaðarráðuneytisins dags. 3. júní 2008, er barst ráðuneytinu með tölvupósti 5. júní s.l., um leyfi til að nýta lindir í landi Hlíðarenda Ölfusi, til vatnsvinnslu, ásamt meðfylgjandi greinargerð. Slíkri umsókn fylgja að sjálfsögðu skuldbindingar skv. lögum nr. 57/1998, m.a. að fara að leyfisskilmálum og hlíta eftirliti með það að markmiði að vatnsauðlindum sé ekki spillt.“

 

„Ekki lá fyrir, eins og fram kemur í greinargerðinni Vatnsvinnsla á Hlíðarenda - vatnafar og umhverfisþættirdags. 4. júní 2008, að frárennsli frá verksmiðjunni yrði fargað utan iðnaðarsvæðisins og jafnframt utan vatnsverndarsvæðis Þorlákshafnar eins og það var skilgreint fyrir 14. júní 2007. Greinargerð þessi fylgir umsókninni um nýtingarleyfi til iðnaðarráðuneytisins sem viðauki og inniheldur ummæli beinlínis í nafni Icelandic Water Holding ehf. auk ýmissa viðbótarupplýsinga. Hún fylgir einnig sem fylgiskjal með bréfi Ragnars Aðalsteinssonar hrl. dags. 6. júní til umhverfisráðuneytisins með beiðni um endurupptöku ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum. Ekki varð annað ráðið af þeim gögnum er áður lágu fyrir, en að frárennsli verksmiðjunnar yrði fargað innan iðnaðarsvæðisins og þar með innan grannsvæðis vatnsbóla Þorlákshafnar eins og það var skilgreint 14. júní 2007, en það var afmarkað samkvæmt tillögum í skýrslu Orkustofnunar frá 1995.“

 

„Ekki lá fyrir, eins og fram kemur í greinargerðinni frá 4. júní s.l., að forsvarsmenn verksmiðjunnar hafi ákveðið að umgangast iðnaðarsvæði verksmiðjunnar eins og það nyti vatnsverndar. Hér er um að ræða mikilvæga skuldbindingu gagnvart umgengni um umhverfið og jafnframt í samhengi við umsókn fyrirtækisins um nýtingarleyfi og það eftirlit er því fylgir.  Í raun liggur hér fyrir almenn skuldbinding um fullnægjandi mótvægisaðgerðir á iðnaðarsvæðinu, þannig að vatnsból Þorlákshafnar séu aldrei í hættu.“

 

„Ekki lágu fyrir, eins og fram kemur í greinargerðinni frá 4. júní s.l., nánari upplýsingar um rennsli í læk sem rennur í austur frá tjörn nálægt bæjarhúsum á Hlíðarenda, né heldur að vatn sem dælt yrðu úr hrauninu í lækinn til mótvægis við vatnstöku úr lindum hafi nánast sömu efnasamsetningu og hitastig og vatnið í lindunum.“

 

„Að auki hefur hér þýðingu, að samkvæmt framangreindum fráveituaðgerðum og skuldbindingum um umgengni verður ekki hætta á að vatn sem dælt yrði úr hrauninu og í lækinn sé mengað vegna frárennslis frá verksmiðjunni.“

 

„Það er heildarniðurstaða Orkustofnunar að með ákvörðunum, nýjum gögnum og skuldbindingum Icelandic Water Holding ehf. um mótvægisaðgerðir gegn umhverfisáhrifum af verksmiðjustarfsemi sinni að Hlíðarenda í Ölfusi, sem ekki komu fram gagnvart iðnaðar- og umhverfisráðuneytum eða Orkustofnun fyrr en dagana 5. - 6. júní 2008, liggi fyrir nýjar upplýsingar um málsatvik að því er snertir vatnafar, sem leitt geta til endurupptöku ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum.“

 

Í ljósi þessarar nýju og breyttu afstöðu Orkustofnunar sem sérfróðs stjórnvalds á sviði vatnafars, tók ráðuneytið áðurgreinda endurupptökubeiðni til greina í ljósi 2. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Orkustofnun taldi sig sem fyrr greinir ekki hafa byggt á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. efni 1. tl. 24. gr. sömu laga, við umsögn sína frá 4. febrúar. Í 1 tl. nefndrar lagagreinar er þannig vísað til ófullnægjandi upplýsinga um málsatvik sbr. rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga. Að mati ráðuneytisins átti 2 tl. sömu lagagreinar fremur við í málinu en þar er kveðið á um endurupptökurétt málsaðila ef atvik hafa breyst verulega frá töku ákvörðuna. Líkt og áður segir hafnaði Orkustofnun því alfarið að hafa ekki byggt á umræddri skýrslu frá 1995 og samkvæmt framkomnum upplýsingum hafði stofnunin umrædda skýrslu ótvírætt undir höndum og leit til efnis hennar við umsögn sína frá 4. febrúar. Að mati ráðuneytisins mátti hins vegar með réttu líta svo á að vegna hinna nýju viðbótarupplýsinga, sem Orkustofnun vísar til og byggir sína breyttu afstöðu á, hafi atvik eins og þau horfa við ráðuneytinu breyst verulega í skilningi 2. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga.

 

Kærendum málsins sem úrskurður var kveðinn upp í þann 9. maí s.l. var send hin breytta afstaða Orkustofnunar til athugasemda, sbr. umsagnir stofnunarinnar frá 12. og 19. júní s.l, og bárust þær athugasemdir með bréfi dags. 22. júní s.l. og tóku kærendur þar einnig afstöðu til mögulegrar breytingar á niðurstöðu úrskurðarins frá 9. maí s.l.

 

II. Sjónarmið og athugasemdir málsaðila og viðbrögð Orkustofnunar við þeim.

 

Af hálfu ráðuneytisins var endurupptökubeiðnin svo og hinar nýju umsagnir Orkustofnunar sendar kærendum málsins til athugasemda.

 

1. Um ófullnægjandi upplýsingar Orkustofnunar við gerð umsagna og afstaða til frárennslisþátta

Kærendur vísa til þess að í umsögnum Orkustofnunar frá 12. júní og 19. júní s.l. vísi Orkustofnun á bug ásökunum framkvæmdaraðila að hún hafi ekki byggt fyrri umsögn sína á skýrslu Orkustofnun frá 1995 og þannig vísi stofnunin því einnig á bug að hún hafi tekið afstöðu til á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga.

 

Orkustofnun telur þessa athugasemd kærenda ekki standast og vísar til þess að í umræddum bréfum sé vitnað til viðbótarupplýsinga sem Orkustofnun lagði sjálfstætt mat á, óháð túlkun og framsetningu framkvæmdaraðilans á málavöxtum, og hafi þær orðið til þess að breyta fyrri afstöðu Orkustofnunar varðandi nauðsyn umhverfismats. Hafi þær viðbótarupplýsingar ekki legið fyrir í gögnum málsins þegar sú afstaða var tekin í febrúar 2008.

 

Þá er skírskotað til þess af hálfu kærenda að tiltekinnar þversagnar gæti í afstöðu Orkustofnunar; á annan veginn haldi stofnunin því á lofti að fram séu komnar nýjar upplýsingar varðandi losun fráveitu utan vatnsverndarsvæða Þorlákshafnar en á hinn bóginn sé það sem þyngst vegi í breyttri afstöðu þeirra til umhverfisáhrifa, umsókn um nýtingarleyfi til iðnaðarráðuneytisins þar sem binda megi leyfisveitingu ýmsum skilyrðum.

 

Í umsögn Orkustofnunar er framangreindum athugasemdum vísað á bug og tekið fram að skuldbinding framkvæmdaraðilans, um að umgangast iðnaðarsvæðið eins og vatnsverndarsvæði, undir þar að lútandi eftirliti, telji stofnunin nægilega tryggingu. Einnig kemur fram af hálfu stofnunarinnar að ekkert verði ráðið um hvaða atriði vóg þyngst hjá stofnuninni við títtnefnda afstöðubreytingu til nauðsynjar á umhverfismati, það hafi verið grundvallað á heildarmati eftir framlagningu hinna nýju gagna, svo sem fyrr hefur verið rakið hér.

 

2. Hlutverk og valdbærni Orkustofnunar við umsagnargerð.

Einnig eru gerðar athugasemdir við afstöðu Orkustofnunar með tilliti til hlutverks hennar sem stjórnvalds. Telja kærendur stofnunina ekki til þess bæra að draga ályktanir um mótvægisaðgerðir, heldur hafi stofnunin fyrst og fremst átt að fjalla um hin nýframkomnu gögn frá Icelandic Water Holding með tilliti til þess hvort fram væru komin ný gögn sem sýndu fram á að umrædd framkvæmd væri ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

 

Orkustofnun fellst ekki á þessi sjónarmið kærenda og tiltekur að í fyrsta lagi hafi verið leitað til stofnunarinnar sem sérfræðistofnunar á sviði vatnafars og því geti stofnuninni ekki verið óheimilt að veita slíka faglega umsögn ef ósk um það berst. Í öðru lagi þá feli ábendingar Orkustofnunar í sér sem settar séu fram í dæmaskyni en séu ekki bindandi, og fagleg þekking Orkustofnunar sé ekki bundin við að meta eingöngu áhrif, heldur einnig ábendingar um mögulegar aðgerðir sem kunna að draga úr áhrifum. Í niðurlagi athugasemdabréfs Orkustofnunar er svo rakið að að öllu samanlögðu verði ekki fallist á réttmæti þeirra athugasemda kærenda er snúa að Orkustofnun og þær séu heldur ekki til þess fallnar að breyta fyrri ályktunum eða niðurstöðum Orkustofnunar varðandi málið.

 

3. Um ónákvæmni gagna og mælinga vegna vatnafars og önnur vatnafarsleg atriði.

Kærendur telja þau gögn sem fyrirliggjandi eru um vatnafar á svæðinu, sérstaklega skýrslu Orkustofnunar frá 1995, séu sérstaklega ónákvæm og út frá beinum mælingum á litlu svæði dregnar hæpnar ályktanir um vatnafar fyrir veruleg stórt svæði, og álíta að enn séu of margir óvissuþættir til staðar til þess að framkvæmdin þurfi ekki að fara í umhverfismat. Þannig álitu kærendur áformaðar mótvægisaðgerðir varðandi fráveitulosun í sjálfu sér líklegar til þess að geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þar sem fyrirhugað sé að reisa þar kjúklingabú í framtíðinni.

 

Í upphaflegri kæru sinni vísuðu kærendur til þess að við vinnslu grunnvatns úr lindum hlíðarinnar myndi rennsli minnka í læk senm allt lindarvatn rennur í við núverandi aðstæður. Einnig var þar byggt á óvissu um efnissamsetningu og hitastig fyrirhugaðs mótvægisvatns í lækinn og staðhæft að engar mælingar lægju fyrir á núverandi rennsli bæjarlækjarins og því ekki unnt að meta áhrif þess að nýta áætlað vatnsmagn. Þá var í kæru tekið fram að engar athuganir á því hvort og hvernig grunnvatnsstaða á svæðinu breyttust við fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir.

 

Í umsögn sinni frá 4. febrúar s.l. féllst Orkustofnun sem fyrr greinir á framangreind sjónarmið og rök kærenda. Í umsögnum stofnunarinnar frá 12. júní og 19. júní s.l. er hins vegar vísað til þeirra nýju upplýsinga um vatnafar á svæðinu og stofnuninni bárust eins og fyrr segir með umsókn framkvæmdaraðila um nýtingarleyfi. Í því sambandi, sbr. bréf Orkustofnunar til ráðuneytisins þann 19. júní s.l., er af hálfu stofnunarinnar einkum vísað til þeirra nýju upplýsinga að nú liggi fyrir skuldbindingar framkvæmdaraðila um að umgangast svæðið með það að markmiði að vatnsauðlindum verði ekki spillt, fyrirkomulagi frárennslismála verði þannig háttað frárennsli frá verksmiðjunni verði fargað utan iðnaðarsvæðis og jafnframt utan vatnsverndarsvæðis Þorlákshafnar eins og það var skilgreint fyrir 2007. Þá er og á því byggt af hálfu stofnunarinnar að forsvarsmenn verksmiðjunnar hafi ákveðið að umgangast iðnaðarsvæðið eins og það nyti vatnsverndar, og nú liggi fyrir nánari upplýsingar um rennsli í læk svo og að efnissamsetning og hitastig þess vatns sem áformað er að dæla í hann til mótvægis við vatnstöku sé nánast það sama og í læknum sjálfum.

 

4. Hljóðvistaráhrif og sjónræn áhrif.

Kærendur vísa til þess að úrskurðurinn frá 9. maí s.l. hafi ekki einvörðungu byggt á áhyggjum af vatnafari og mengunarhættu vatnsbóla heldur einnig hljóðvistaráhrifum. Gera kærendur þá kröfu til ráðuneytisins að verði úrskurðinum breytt að ráðherra setji skilyrði um að framkvæmdaraðili tryggi hljóðvist í kringum nálæga frístundalóð með háum hljóðmönum austan við verksmiðjuhúsið, ásamt því að tryggt verði með skilyrðum að rennsli Hlíðarendalækjarins fari aldrei niður fyrir 80 l/s innan frístundalóðar  sinnar.

 

Einnig byggja kærendur á sjónrænum áhrifum vegna framkvæmdarinnar, og telja að sjónræn áhrif vegna hennar verði nokkur á lítt snortið landslag. Svo og stór og mikil bygging sem verksmiðjuhúsið verði muni sjást víða að og verða mörgum til ama, og breyti hönnun og litaval engu þar um.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið fram það álit stofnunarinnar að sjónræn áhrif vegna framkvæmdarinnar verði ekki umtalsverð.

 

Orkustofnun tekur ekki sérstaka afstöðu til framangreindra sjónarmiða, en áréttar í umsagnarbréfi sínu að stofnunin fallist að öllu samanlögðu ekki á réttmæti athugasemda kærenda er snúa að Orkustofnun.

 

Kærendur telja og í samræmi við sjónarmið þeirra og kröfur að ekki sé ástæða til að breyta fyrri úrskurði ráðuneytisins frá 9. maí s.l.

 

III. Forsendur og niðurstaða ráðuneytisins.

 

1. Um ófullnægjandi upplýsingar Orkustofnunar við gerð umsagna og afstaða til frárennslismála.

Í ljósi þeirra forsendna og athugasemda er búa að baki og birtast í áðurnefndum bréfum Orkustofnunar frá 12. júní, 19. júní og 6. ágúst s.l. telur ráðuneytið að Orkustofnun hafi við umsögn sína frá 4. febrúar s.l. ekki látið undir höfuð leggjast að taka tillit til upplýsingar úr eigin skýrslu frá 1995 - Þorlákshöfn - grunnvatn og vatnsvernd. Af hálfu ráðuneytisins er því ekki unnt að taka undir staðhæfingar kærenda hvað þetta varðar.

 

Af lögum um Orkustofnun nr. 80/2003 verður ekki ráðið að stofnuninni sé í hlutverki sínu við gerð umsagna sinna óheimilt að líta til þátta sem að einhverju leyti byggja á yfirlýsingum eða skuldbindingum tiltekinna aðila í sérhverju máli, enda byggir úrskurður um mat á umhverfisáhrifum sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 á heildstæðu mati í máli hverju. Að mati ráðuneytisins er því ekki unnt að taka undir sjónarmið kærenda í þessum efnum.

 

2. Varðandi hlutverk og valdbærni Orkustofnunar við umsagnargerð.

Í lögum nr. 80/2003 er hlutverk og valdsvið Orkustofnunar tilgreint, sbr. einkum 1. og 2. gr. laganna. Samkvæmt efni þessara ákvæða er ljóst að ráðgjafar- og umsagnarhlutverk Orkustofnunar er ætlað að ná til ýmissa þeirra þátta er máli geta skipt vegna þeirra álitamála sem umsagnir stofnunarinnar kunna að varða. Með hliðsjón af því hversu víðtækt hlutverk Orkustofnunar er, svo og í ljósi sérfræðiþekkingar Orkustofnunar á vatnafari, þykir að mati ráðuneytisins ekki unnt að taka undir það með kærendum að Orkustofnun hafi eins og á stendur farið út fyrir valdsvið sitt í máli þessu.

 

3. Um ónákvæmni gagna og mælinga vegna vatnafars svo og önnur vatnafarsleg atriði.

Líkt og frá var greint hér að framan byggir hin breytta afstaða Orkustofnunar á nýjum upplýsingum um vatnafar á umræddu framkvæmdasvæði. Afstöðubreyting stofnunarinnar byggist einkum á skuldbindingum framkvæmdaraðila um að umgangast svæðið með það að markmiði að vatnsauðlindum verði ekki spillt, ákvörðun framkvæmdaraðila um að umgangast iðnaðarsvæðið eins og það nyti vatnsverndar og einnig að frárennsli frá verksmiðjunni verði fargað utan iðnaðarsvæðis og vatnsverndarsvæðis eins og það var skilgreint fyrir 14. júní 2007. Að auki hafði það þýðingu að mati stofnunarinnar að samkvæmt framangreindum fráveituaðgerðum og skuldbindingum um umgengni yrði ekki hætta á að vatns sem dælt yrði úr hrauninu og í lækinn væri mengað vegna frárennslis frá verksmiðjunni. Þá er byggt á nýjum upplýsingum um rennslismælingar á svæðinu sem gerðar voru og lagðar fram af framkvæmdaraðila eftir uppkvaðningu úrskurðarins frá 9. maí s.l. Framangreindar upplýsingar urðu þess svo valdandi að Orkustofnun breytti afstöðu sinni til nauðsynjar á mati á umhverfisáhrifum.

 

Að mati ráðuneytisins hefur Orkustofnun það hlutverk sem stjórnvald að meta þau gögn og mælingar sem stofnunin leggur til grundvallar við sérhverja umsögn sína eða úrlausnarefni, sbr. einkum 1. og 2. gr. laga  um Orkustofnun nr. 80/2003. Með vísan til framangreinds og þess breytta faglega mats stofnunarinnar á gæðum vatnsauðlindarinnar og vatnafars á svæðinu, sbr. umsagnir stofnunarinnar frá 12. júní 19. júní og 6. ágúst s.l., þykir ekki fært að véfengja gildi hinnar breyttu afstöðu Orkustofnunar vegna málsins eða þau gögn sem stofnunin ákvað að byggja á í því sambandi. Af hálfu ráðuneytisins er því litið svo á að forsendur fyrir mati á umhverfisáhrifum umræddrar framkvæmdar, og  þar með meginforsendur úrskurðarins frá 9. maí s.l., séu brostnar í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið.

 

4. Um hljóðvistaráhrif, sjónræn áhrif og þætti þeim tengdum.

Kærendur gera þá kröfu að sett verði skilyrði um mótvægisaðgerðir. Í 2. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um að Skipulagstofnun geti í áliti sínu sett tiltekin skilyrði um mótvægisaðgerðir fyrir framkvæmd sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum. Í 5. og 6. gr. laganna er hins vegar ekki gert ráð fyrir að umhverfisráðherra sé heimilt að skilorðsbinda með einhverjum hætti ákvörðun gagnvart framkvæmd sem úrskurðað er um ekki skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum.  Að mati ráðuneytisins skortir því lagaforsendur til að verða við kröfu þessari.

 

Að mati ráðuneytisins þykja framkomin gögn og upplýsingar ekki bera með sér að vegna sjónrænna áhrifa framkvæmdarinnar að Hlíðarenda geti þau áhrif talist umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. einkum 1. mgr. 6. gr. laganna.

 

5. Niðurstaða.

Meginforsendur hins endurupptekna úrskurðar frá 9. maí s.l. voru sem fyrr greinir þær að Orkustofnun taldi að með tilliti til vatnafarsþátta gæti framkvæmdin haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, með tilliti til vatnsgæða og vatnafarsþátta með hliðsjón af aðveituhlutverki vatnsbóls þess sem um er að ræða svo og líkindum á rennslismagnsbreytingum lækjarvatns á aðliggjandi einkaeignarlandi kærenda. Þannig var sú afstaða sem birtist í umsögn Orkustofnunar frá 4. febrúar s.l. meginforsenda ráðuneytisins við ákvörðun þess að umrædd framkvæmd skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum eftir lögum nr. 106/2000.

 

Í lögum um Orkustofnun er svo fyrir mælt að stofnunin heyri undir yfirstjórn iðnaðarráðherra sbr. 1. gr. laganna. Í 2. gr. laganna er hlutverk stofnunarinnar svo rakið, og þar á meðal er það hlutverk stofnunarinnar að veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um auðlinda- og orkumál, en ráðuneytið leitaði til Orkustofnunar sem sérfróðs stjórnvalds á sviði vatnafars. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum og í ljósi atvika og forsendna þessa máls að öðru leyti, telur ráðuneytið líkt og fyrr greinir ekki fært að véfengja umrædda umsögn og afstöðubreytingu Orkustofnunar vegna framangreindrar framkvæmdar við vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi. Með vísan til þessara atriða svo og þess sem að framan hefur verið rakið er það og afstaða ráðuneytisins að forsendur fyrir mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 séu brostnar.

 

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að framkvæmd vegna vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi sé ekki líkleg til að geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000. Ber því að fella niðurstöðu úrskurðar frá 9. maí 2008 um mat á umhverfisáhrifum umræddrar framkvæmdar úr gildi.

 

Úrskurðarorð:

 

Framkvæmd vegna vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi skal ekki sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Úrskurður ráðuneytisins frá 9. maí 2008 um mat á umhverfisáhrifum vegna vatnsátöppunarverksmiðju að Hlíðarenda í Ölfusi er felldur úr gildi.

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta