Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 08030064

Þann 22. desember 2008 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

Ráðuneytinu bárust þrjár stjórnsýslukærur þann 13. mars, 14. apríl og 18. apríl sl. vegna ákvörðunar  Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 19. febrúar 2008 um útgáfu starfsleyfis til handa Flugklúbbi Selfoss til reksturs flugvallar með eldsneytisafgreiðslu á Selfossi. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftirtaldir aðilar sendu inn kærur: Guðjón Ármannsson hdl. f.h. Karls Axelssonar hrl. f.h. Hildar Hákonardóttur og Þórs Vigfússonar, Gunnar Friðþjófsson, Helga Jóhannesdóttir og Hannes Stefánsson.

 

I. Málavextir og hin kærða ákvörðun.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands ákvað á fundi sínum 19. febrúar 2008 að gefa út starfsleyfi til handa Flugklúbbi Selfoss, til reksturs flugvallar með eldsneytisafgreiðslu á Selfossi. Var kærendum tilkynnt um ákvörðunina með bréfum dagsettum 26. og 28. febrúar 2008.

 

Kærendur búa allir í námunda við flugvöllinn og telja að af honum stafi óásættanlegt ónæði sem orsakist aðallega af yfirflugi og snertilendingum. Að auki telja kærendur að reglum, sem settar voru í fyrra starfsleyfi, hafi ekki verið fylgt og átelja að takmarkanir sem settar voru í fyrra starfsleyfi hafi nú verið felldar brott. Þar sem kærurnar þrjár lúta í aðalatriðum að sömu atriðum verður fjallað um þær sameiginlega í úrskurði þessum.

 

Ráðuneytið sendi fram komna kæru Guðjóns Ármanssonar hdl. f.h. Karls Axelssonar hrl. f.h. Hildar Hákonardóttur og Þórs Vigfússonar, til umsagnar  Heilbrigðisnefndar Suðurlands, Flugklúbbs Selfoss, Sveitarfélagsins Árborgar, Flugmálastjórnar Íslands og Umhverfisstofnunar með bréfum dags. 30. apríl 2008. Umsögn Heilbrigðisnefndar Suðurlands barst þann 23. apríl sl., umsögn Flugklúbbs Selfoss barst þann 19. maí sl., umsögn Sveitarfélagsins Árborgar barst þann 22. maí sl., umsögn Flugmálastjórnar Íslands barst þann 21. maí sl. og umsögn Umhverfisstofnunar barst þann 18. júlí sl. Fram komnar umsagnir voru sendar kærendum til athugasemda með bréfi þann 8. ágúst 2008 og bárust athugasemdir frá Guðjóni Ármanssyni hdl. f.h. Karls Axelssonar hrl. f.h. Hildar Hákonardóttur og Þórs Vigfússonar, þann 1. september 2008 og frá Helgu Jóhannesdóttur og Hannesi Stefánssyni þann 3. september 2008.

 

II. Kæruatriði og umsagnir um þau.

 

1. Takmarkanir á flugumferð í starfsleyfi.

Kærendur telja óeðlilegt að engar takmarkanir á flugumferð sé að finna í hinu endurnýjaða starfsleyfi. Vísar einn kærenda til þess að slíkar takmarkanir hafi verið að finna í eldra starfsleyfi sem gefið var út til handa Flugklúbbi Selfoss þann 6. febrúar 2007. Þessar takmarkanir hafi meðal annars lotið að banni við flugumferð á ákveðnum tímum sólarhrings sem og á almennum frídögum. Þá hafi í fyrra starfsleyfi einnig verið settar skorður við snertilendingum og fyrirmæli sett um flugtaks- og aðflugsstefnur. Hafi þessi ákvæði átt að tryggja að truflun af flugvellinum yrði í lágmarki fyrir nærliggjandi íbúabyggðir.

 

Í umsögn Flugklúbbs Selfoss segir að í starfsleyfisskilyrðum  Heilbrigðisnefndar Suðurlands komi fram að leyfishafi skuli fara eftir ákvæðum í samþykkt sveitarfélagsins Árborgar um flugtíma og snertilendingar sem komi í stað ákvæða í fyrra starfsleyfi flugklúbbsins.

 

Í umsögn  Heilbrigðisnefndar Suðurlands segir að umrædd skilyrði, sem áður voru í starfsleyfinu, hafi verið sett inn í samþykkt Sveitarfélagsins Árborgar. Nú sé vísað í þau í nýju starfsleyfi flugvallarins og sé þannig komið til móts við kröfur kærenda hvað þetta atriði varðar.

 

Í umsögn Flugmálastjórnar Íslands segir að rétt hafi verið að fella út ákvæði um aðflugsleiðir og flugferla þar sem það hafi ekki verið hlutverk  Heilbrigðisnefndar Suðurlands að birta slíkt í starfsleyfinu heldur sé það hlutverk Flugmálastjórnar Íslands sem gefur slíkar leiðbeiningar út í AIP (upplýsingahandbók flugmanna).

 

Í umsögn Sveitarfélagsins Árborgar segir að sveitarfélagið hafi sett reglur um annars vegar næturtakmarkanir á flugumferð og hins vegar takmarkanir á snertilendingum. Hafi reglurnar þegar verið birtar á heimasíðu sveitarfélagsins. Sé ekki þörf á að starfsleyfi Flugklúbbs Selfoss innihaldi ákvæði af sama tagi enda sé það á hendi sveitarfélags að setja slíkar reglur sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 478/2003 um breytingu á reglugerð nr. 933/1999 um hávaða.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að sú tilhögun að fella ákvæði um næturtakmarkanir og flugferla út úr starfsleyfinu sé eðlileg enda sé þetta í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 478/2003 um breytingu á reglugerð nr. 933/1999 um hávaða og í samræmi ákvæði reglugerðarinnar sé kveðið á um sams konar takmarkanir í samþykkt Sveitarfélagsins Árborgar. Þó telur Umhverfisstofnun að það hefði að sumu leyti verið skýrara að hafa slík ákvæði í sjálfu starfsleyfinu og telur ekkert vera því til fyrirstöðu, en tekur jafnframt fram að sú tilhögun sem viðhöfð er í núgildandi starfsleyfi sé jafngild því að hafa þær takmarkanir sem um ræðir í starfsleyfinu sjálfu.

 

Í athugasemdum kærenda við umsagnir segir að samkvæmt 5. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sé heilbrigðisnefnd beinlínis skylt að mæla fyrir um mengunarvarnir í starfsleyfi. Séu þar að auki meiri líkur á að reglum um aðflugs- og flugtaksleiðir verði framfylgt ef þær koma fram í starfsleyfinu sjálfu. Taki kærendur að þessu leyti undir með Umhverfisstofnun og telja að það sama hljóti að gilda um flugferla og um reglur þær sem eru í samþykkt sveitarfélagsins sem takmarka notkun flugvallarins. Að auki sé meginhlutverk Flugmálastjórnar ekki það sem snýr að umhverfismálum á jörðu niðri, þ.m.t. mengunarmálum, og sé því nauðsynlegt fyrir stofnanir eins og  Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir að koma að málinu með því að binda starfsleyfi ströngum skilyrðum.

 

2. Brot á ákvæðum eldra starfsleyfis og skortur á eftirliti.

Kærendur telja að starfsleyfishafi hafi endurtekið brotið ákvæði eldra starfsleyfis sem vörðuðu takmarkanir á flugumferð sem og flugferla. Að auki hafi ekkert eftirlit verið haft með því að ákvæðunum væri framfylgt, hvorki af starfsleyfishafa né Heilbrigðisnefnd Suðurlands og því hafi skort á að stjórnvöld hafi beitt þeim valdheimildum sem þau höfðu yfir að ráða. Telur einn kærenda að í ljósi þessa sé óeðlilegt að nýtt starfsleyfi hafi verið gefið út.

 

Í umsögn Flugklúbbs Selfoss segir að engin gögn liggi fyrir um hin meintu brot starfsleyfishafa. Samkvæmt flugreglum sé það flugmanns að fylgja reglum um flugferla og flugvallarrekandi hafi ekki á sínu valdi að fylgjast með hverju flugfari sem um flugvöllinn fari. Samkvæmt reglugerð um flugvelli nr. 464/2007 gefi Flugmálastjórn Íslands út starfsleyfi og hafi eftirlit með því að reglur séu haldnar. Kveður starfsleyfishafi að sér hafi ekki borist ábendingar frá Flugmálastjórn Íslands um að reglur hafi verið brotnar, þrátt fyrir að kærendur kveðist hafa kært til lögreglu þær flugvélar sem hafi brotið reglurnar að þeirra mati.

 

Í umsögn  Heilbrigðisnefndar Suðurlands segir að eftirlit með flugumferð sé ekki á sviði heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga enda hafi starfsmönnum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands reynst erfitt að vinna úr þeim kvörtunum sem til þess hafa borist. Eftirliti og kvörtunum verði því að beina til viðeigandi stjórnvalda. Að auki séu ekki rök til að fella úr gildi ákvörðun Heilbrigðisnefndarinnar enda hafi ákvæði sem takmörkuðu flugumferð verið sett inn í samþykkt Sveitarfélagsins Árborgar.

 

Í umsögn Flugmálastjórnar Íslands segir að það sé á ábyrgð hennar að gefa út starfsleyfi fyrir flugvelli, en slíkt starfsleyfi byggi á jákvæðri umsögn heilbrigðisnefndar og sveitarfélags. Brjóti starfsleyfishafi skilyrði starfsleyfis er það viðkomandi stjórnvalds, í þessu tilviki Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að bregðast við.

 

Umhverfisstofnun telur að það sé starfsleyfishafa að fylgja ákvæðum starfsleyfis og sé honum það ekki mögulegt, að breyta þá starfsemi sinni til að svo verði. Framfylgd starfsleyfis sé að auki á ábyrgð eftirlitsaðila skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem hafi tök á margvíslegum þvingunarúrræðum. Telur Umhverfisstofnun að eftirliti hafi verið ábótavant, sé lýsing kærenda rétt, og að þvingunarúrræðum hafi ekki verið beitt. Hins vegar varði það í raun ekki starfsleyfið sjálft og því ekki hægt að fallast á kröfu um að fella það úr gildi af þessum sökum.

 

Í athugasemdum kærenda við umsagnir kemur fram að þeir mótmæla því að Heilbrigðisnefnd Suðurlands hafi ekki valdheimildir til að binda umrætt starfsleyfi skilyrðum. Einnig lýsa þeir furðu sinni á því að starfsleyfishafa hafi ekki enn borist ábendingar um að ákvæði fyrra starfsleyfis hafi verið brotin þar sem kærendur segjast hafa verið í samskiptum við Flugmálastjórn sem og lögreglu vegna þessara brota. Sýni þetta hversu eftirfylgni með reglum hafi verið slæleg. Að auki telja tveir kærenda að samkvæmt lögum séu varnir gegn hávaðamengun á valdsviði heilbrigðisnefndar og vegna hinnar miklu hljóðmengunar sem hljótist af fluginu sé óhjákvæmilegt að hlutverk heilbrigðisnefndar og Flugmálastjórnar skarist þegar tekið er á málum sem þessum. Þar sem Flugmálastjórn hafi ekki tekið á vandanum hljóti það að vera hlutverk Heilbrigðisnefndar Suðurlands að gera slíkt, t.a.m. með því að neita að gefa út starfsleyfið eða binda leyfið strangari skilyrðum en gert var. Að auki telja tveir kærenda óeðlilegt að enginn af umsagnaraðilum virðist vera ábyrgur fyrir eftirliti með flugvellinum og tekur undir það sjónarmið Umhverfisstofnunar að eftirliti hafi verið ábótavant.

 

3. Starfsleyfi veitt til óeðlilega langs tíma.

Einn kærenda telur að hvorki verði ráðið af lögum né reglugerðum að starfsleyfi fyrir þann atvinnurekstur sem um ræðir þurfi að vera til 12 ára. Heilbrigðisnefndir hljóti að hafa svigrúm til að taka mið af aðstæðum við ákvörðun um gildistíma starfsleyfa.

 

Flugklúbbur Selfoss telur að með hliðsjón af því að 12 ár séu samræmdur gildistími starfsleyfa, þá sé sá tími sem starfsleyfið var veitt til, fyllilega eðlilegur.

 

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Suðurlands kemur fram að gildistími starfsleyfa hafi verið samræmdur á landinu öllu árið 2008 og sé nú 12 ár. Gildir sá tími um alla starfsemi sem er starfsleyfisskyld hjá heilbrigðiseftirliti allra sveitarfélaga á landinu. Hafi allar heilbrigðisnefndir samþykkt þessa samræmingu á gildistíma starfsleyfa.

 

Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemdir við gildistíma starfsleyfisins með hliðsjón af því að kveðið er á um endurskoðun þess á 4 ára fresti sbr. 20. gr. reglugerð nr. 785/1999. Jafnframt er útgefanda starfsleyfis gert skylt að endurskoða það ef mengun verður meiri en búast mátti við þegar starfsleyfið var gefið út sbr. 21. gr. sömu reglugerðar.

 

Í athugasemdum kæranda um umsagnir segir að jafnvel þótt starfsleyfistími sé samræmdur leysi það heilbrigðisnefnd Suðurlands ekki undan þeirri skyldu að skoða hvert tilvik sérstaklega.

 

4. Hávaði yfir eðlilegum mörkum.

Kærendur telja sig þurfa að þola ónæði umfram eðlileg mörk sökum mikillar umferðar um Selfossflugvöll og þá sérstaklega vegna snertilendinga sem fara, að sögn kærenda, fram á öllum tímum sólarhrings. Einnig sé flogið í lengri tíma yfir íbúðahverfi, jafnvel að næturlagi og séu með því brotin ákvæði laga og reglugerða um hávaðamengun. Að auki telur einn kærenda að ákvæði um takmörkun á hávaðamengun í starfsleyfi Selfossflugvallar séu of almennt orðað til að koma að gagni.

 

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Suðurlands segir að könnun hafi verið gerð á hljóðstigi við Selfossflugvöll í júní 2005 og hávaðagildi hafi verið reiknað út frá ráðgerðri ársumferð við flugvöllinn. Sé hljóðvist nærliggjandi íbúahverfis að mestu innan marka hávaðareglugerðar nr. 933/1999 með síðari breytingum og staðsetning heimilis eins kæranda sé í mun meiri fjarlægð en nærliggjandi íbúahverfi.

 

Í umsögn Sveitarfélagsins Árborgar segir að í greinargerð með könnun á hljóðstigi við Selfossflugvöll í júní 2005 sé tekið fram að ekki séu til viðmið í reglugerðum fyrir hljóðstig við flugvelli en fyrir bílaumferð sé miðað við að jafngildishljóðstig (Leq) sé innan við 55dB(A) og séu öll íbúðasvæði í Árborg utan þessara marka, hvað flugvöllinn varðar.

 

5. Aðflugsleiðir.

Kærendur telja að æfingaflug það sem stundað er á Selfossflugvelli valdi verulegum óþægindum. Stafi þetta af því að flogið sé yfir íbúabyggð um lengri tíma og á öllum tímum sólarhrings. Eru snertilendingar nefndar sem sérlega truflandi í þessu samhengi. Vill einn kærenda þar að auki að allt æfingaflug verði bannað á Selfossflugvelli og þá sér í lagi snertilendingar og annar að snertilendingar verði bannaðar.

 

Í umsögn Flugklúbbs Selfoss segir að það sé ekki á starfssviði heilbrigðisnefndar að ákveða flugferla við flugvelli heldur Flugmálastjórnar Íslands og þar af leiðandi hafi slík ákvæði ekki verið tekin upp í starfsleyfi flugvallarins. Í AIP handbók séu ákvæði um hvenær snertilendingar séu bannaðar. Sé það á ábyrgð flugmanns að fara eftir skráðum reglum um notkun flugvalla og séu ákvæði um brot á reglum þessum í lögum um loftferðir nr. 60/1998.

 

Í umsögn  Heilbrigðisnefndar Suðurlands segir að sérstakar reglur gildi um flugferla flugvéla við flugvelli. Sé það Flugmálastjórn Íslands sem hafi eftirlit með og stjórni flugumferð á grundvelli laga um loftferðir nr. 60/1998. Í þeim lögum sé einnig að finna ákvæði vegna brota á reglum um flugferla. Telur  Heilbrigðisnefnd Suðurlands af þessum sökum að það sé ekki á valdsviði heilbrigðisnefnda sveitarfélaga að ákveða reglur um flugferla og ganga þannig inn á valdheimildir Flugmálastjórnar Íslands.

 

Í umsögn Sveitarfélagsins Árborgar segir að sveitarfélagið hafi ekki heimildir til að kveða á um aðflugsleiðir eða flugferla við flugvöllinn í samþykktum sínum.

 

Í umsögn Flugmálastjórnar Íslands segir að upplýsingar um flugferla séu birtir í AIP (upplýsingabók flugmanna) ásamt upplýsingum um notkunartíma flugvalla og flughæðir. Það er Flugmálastjórn Íslands sem birtir AIP handbókina þó svo að það séu starfsleyfishafar flugvalla, í þessu tilviki Flugklúbbur Selfoss, sem sjái um að koma viðeigandi upplýsingum um flugtíma og þess háttar til ritstjóra AIP. Samkvæmt þessu séu flugferlar hvorki á hillu Flugklúbbs Selfoss né Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

 

III. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

1. Takmarkanir á flugumferð í starfsleyfi,

Líkt og áður hefur verið rakið telja kærendur óeðlilegt að takmarkanir á flugumferð hafi verið felldar út úr eldra starfsleyfi sem var útgefið 6. febrúar 2007 fyrir Flugklúbb Selfoss. Lutu þessar takmarkanir að því hvenær flugumferð var heimil en einnig voru settar skorður við snertilendingum og fyrirmæli sett um flugtaks- og aðflugsstefnur.

 

Þegar hið kærða starfsleyfi var gefið út var í gildi  eldri reglugerð um hávaða nr. 933/1999 með síðari breytingum en reglugerð nr. 724/2008 um hávaða hefur nú öðlast gildi og eldri reglugerð um hávaða er fallin brott.  Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segir að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun. Í 5. gr. reglugerðar nr. 478/2003 um breytingar á reglugerð 933/1999 um hávaða, segir að sveitastjórn geti, „að fengnum tillögum heilbrigðisnefndar, takmarkað flugtök og lendingar flugvéla við ákveðna tíma sólarhrings á flugvöllum nálægt byggð og bannað alveg lendingar og flugtök þeirra flugvélagerða, sem eru sérstaklega hávaðasamar.“ Í reglum Sveitarfélagsins Árborgar kemur m.a. fram í 1. gr. að flugtök og lendingar séu bannaðar milli 23:00 og 07:00 og í 2. gr. að snertilendingar séu einungis leyfðar virka daga frá 07:00 til 18:00. Er í tölulið 3.7 starfsleyfis því sem hér er til umfjöllunar vísað til þeirra reglna sem Sveitarfélagið Árborg hefur sett um flugumferð um flugvöllinn, en í umræddu skilyrði starfsleyfisins segir m.a.: „Við takmarkanir á aðflugi, flugi á brautum vallarins og aðrar takmarkanir á flugi loftfara við flugvöllinn sem miða að minnkun hávaða skal farið eftir reglum sveitarfélagsins Árborgar.

 

Jafnvel þó fallast megi á það sjónarmið sem fram kemur í kærum aðila að starfsleyfisskilyrði skuli vera sem ítarlegust þá telur ráðuneytið að tilvísun í skilyrði 3.7 í hinu kærða starfsleyfi til reglna sveitarfélagsins Árborgar um takmarkanir við flugumferð um Selfossflugvöll sé nægjanleg til að stuðla að því takmarki sem fram kemur í 1. gr. þágildandi reglugerðar um hávaða, þ.e. að „draga úr og koma í veg fyrir hávaða“. Að mati ráðuneytisins er ekki af þessum sökum tilefni til að fella starfsleyfið úr gildi.

 

Hvað varðar það sjónarmið kærenda að óeðlilegt hafi verið að fella úr hinu kærða starfsleyfi leiðbeiningar um aðflugsleiðir og flugferla þá bendir ráðuneytið á að óumdeilt er að það er hlutverk Flugmálastjórnar Íslands en ekki heilbrigðisnefnda að gefa út leiðbeiningar um aðflugsleiðir og flugferla, sbr. m.a. 76. gr. og 140. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir. Ekkert mæli hins vegar gegn því að vísa til þessara leiðbeininga í starfsleyfisskilyrðum flugvalla og telur ráðuneytið að slíkt væri til þess fallið að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með setningu starfsleyfisskilyrða, m.a. að takmarka mengun eins og best verður á kosið, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 758/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

 

Með hliðsjón af framangreindu er það því mat ráðuneytisins að bæta skuli við umrædd starfsleyfisskilyrði tilvísun til leiðbeininga Flugmálastjórnar Íslands sem varða Selfossflugvöll, sbr. skilyrði 3.7 í úrskurðarorði. 

 

2. Brot á ákvæðum eldra starfsleyfis og skortur á eftirliti.

Kærendur telja starfsleyfishafa ítrekað hafa brotið ákvæði eldra starfsleyfis sem vörðuðu takmarkanir á flugumferð sem og flugferla. Hafi að auki ekkert eftirlit verið haft með því að ákvæðum starfsleyfisins væri framfylgt.

 

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ber heilbrigðisnefnd ábyrgð á að ákvæðum laganna og reglugerða settum með stoð í þeim sé framfylgt. Í 2. ml. 1. mgr. 31. gr. sömu laga segir að ef um ágreining vegna ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæðum 6. gr. laganna sé að ræða, sé slíkur ágreiningur ekki kæranlegur til úrskurðarnefndar. Verður slíkur ágreiningur einungis kærður til umhverfisráðuneytisins. Í 1. ml. 1. mgr. 31. gr. sömu laga segir aftur á móti að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðanefndar. Hvað varðar ágreining um eftirlit með Selfossflugvelli og skort á slíku eftirliti, telur ráðuneytið að um sé að ræða ágreining sem lýtur að framkvæmd laganna en ekki að starfsleyfinu sem slíku. Telur ráðuneytið því að þessu atriði í kærunum  beri að vísa til úrskurðarnefndar, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið mun með bréfi í dag framsenda kæruna hvað þennan hluta varðar til úrskurðarnefndarinnar.

 

3. Starfsleyfi veitt til óeðlilega langs tíma.

Kærandi telur að starfsleyfi Selfossflugvallar hafi verið veitt til óeðlilega langs tíma, 12 ára. Heilbrigðisnefndir hljóti að taka mið af aðstæðum við ákvörðun um tímalengd slíkra leyfisveitinga.

 

Samkvæmt. 2. mgr. 4. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal gefa út starfsleyfi til tiltekins tíma. Í 2. ml. sömu greinar kemur fram að heilbrigðisnefnd sé heimilt að endurskoða starfsleyfi vegna breyttra forsenda. Í 20. gr. reglugerðar nr. 758/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun segir jafnframt að endurskoða skuli starfsleyfi að jafnaði á fjögurra ára fresti. Fram kemur í umsögn  Heilbrigðisnefndar Suðurlands að gildistími allrar starfsemi sem er starfsleyfisskyld hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, hvar sem er á landinu, hafi nú verið samræmdur á landinu öllu og sé nú 12 ár.  Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við þessa tilhögun og telur að með hliðsjón af ákvæðum um endurskoðun starfsleyfisins á 4 ára fresti sem og ákvæði 21. gr. reglugerðar nr. 785/1999 sem kveður á um að endurskoða skuli starfsleyfi verði mengun meiri en búast mætti við, sé ekki ástæða til að gera athugasemdir við lengd þess. Þau ákvæði sem kveða á um reglulega endurskoðun starfsleyfisins eiga að leiða til þess að þeir hagsmunir sem í húfi eru séu tryggðir.

 

4. Hávaði yfir eðlilegum mörkum.

Líkt og fram hefur komið telja kærendur sig þurfa að þola ónæði umfram eðlileg mörk sem stafi af mikilli umferð um Selfossflugvöll og af snertilendingum sem stundaðar séu á öllum tímum sólarhrings.

Í  3.10 gr. reglugerðar nr. 785/1999  um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er mengun skilgreind sem örverur, efni og efnasamband og eðlisfræðilegir þættir sem valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs og lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Það er því ljóst að hávaði telst til mengunar samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar.

Miðað við eldri könnun á hljóðstigi, sem gerð var við Selfossflugvöll í júní 2005, er hávaðamengun innan viðmiðunarmarka þágildandi reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða með síðari breytingum. Hins vegar kemur fram í einni kæru að umferð og ónæði hafi stóraukist síðustu 2 ár, þ.e. eftir að mælingar voru gerðar árið 2005.

Samkvæmt 12. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun skulu í almennum skilyrðum starfsleyfa vera ákvæði sem tryggja að viðkomandi atvinnurekstur sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar, og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint.

Enn fremur segir í 1. tl. 6. gr. reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða, sem var í gildi þegar starfsleyfið var gefið út, að forráðamönnum fyrirtækja og stofnana sé skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða.

Af fram komnum upplýsingum í gögnum málsins má leiða líkur að því að hávaðamengun sú sem kærendur telja sig hafa orðið fyrir geti stafað af því að ekki sé fylgt reglum þeim sem gilda um umferð um flugvöllinn. Því má gera ráð fyrir að yrði bætt úr framkvæmd starfsleyfisskilyrðanna í samræmi við allar viðeigandi reglur myndi draga stórlega úr þeim óþægindum sem kærendur telja sig verða fyrir. Hins vegar hefur verið bent á það að umferð hefur stóraukist frá því að síðustu hljóðmælingar voru gerðar árið 2005. Af þeim sökum telur ráðuneytið rétt að Flugklúbbur Selfoss láti framkvæma nýjar hljóðmælingar við flugvöllinn eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Mælist ráðuneytið til þess að þess verði sérstaklega gætt að mælingar fari m.a. fram við heimili allra kærenda, þar á meðal við húsvegg og inni á heimili kærenda í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

 

Í ljósi framangreinds er það því niðurstaða ráðuneytisins að leiði nýjar hljóðmælingar í ljós að hávaðamengun sé umfram þau mörk sem kveðið er á um í núgildandi reglugerð nr. 724/2008 um hávaða skuli taka starfsleyfi Selfossflugvallar til endurskoðunar sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 758/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

 

5. Aðflugsleiðir.

Kærendur telja að flug það sem stundað er á Selfossflugvelli valdi miklum óþægindum, m.a. vegna þess að flogið sé yfir íbúabyggð á öllum tímum sólarhrings og lengi í einu. Telja kærendur snertilendingar vera sérlega truflandi í þessu samhengi.

 

Eins og fram kemur í umsögnum Flugklúbbs Selfoss, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Flugmálastjórnar Íslands er það Flugmálastjórn Íslands sem hefur eftirlit með og stjórnar flugumferð á grundvelli laga um loftferðir nr. 60/1998, sbr. m.a. 76. og 140. gr. þeirra laga og 1. og 4. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 13/2006. Samkvæmt því heyra flugferlar ekki undir Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Ráðuneytið mun með bréfi í dag framsenda kærurnar hvað þennan hluta kærunnar varðar til samgönguráðuneytis,  sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun  Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 19. febrúar 2008 um útgáfu starfsleyfis til handa Flugklúbbi Selfoss til reksturs flugvallar með eldsneytisafgreiðslu á Selfossi er staðfest með eftirfarandi breytingum:

 

Eftirfarandi málsgrein bætist við skilyrði 3.6 í hinu kærða starfsleyfi: 

Flugklúbbur Selfoss skal, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, láta framkvæma tvær sólarhrings hávaðamælingar í Árbæjarhverfi þar sem fram koma meðaltalsgildi og hávaðatoppar, sbr. töflu II í viðauka við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Skulu mælingarnar framkvæmdar þegar flugumferð er í hámarki. Leiði mælingarnar í ljós að hávaði er umfram viðmiðunarmörk skal endurskoða starfsleyfið sbr. reglugerð 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og skal slíkri endurskoðun vera lokið eigi síðar en 1. mars 2010. Séu mælingar hins vegar undir viðmiðunarmörkum  skal, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, endurtaka mælingar árin 2010-2012 til þess að hægt verði að fylgjast með breytingum á flugumferð.

 

Eftirfarandi málsliður bætist við skilyrði 3.7 í hinu kærða starfsleyfi:

Að auki skal farið eftir reglum flugmálahandbókar AIP um Selfossflugvöll, eins og hún er á hverjum tíma.

 

Við starfsleyfið bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:

Fyrstu mælingar samkvæmt 3. mgr. í skilyrði 3.6. skal framkvæma eigi síðar en 1. júlí 2009.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta