Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

04090001

Hinn 20. janúar 2005, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu barst þann 27. september 2004 kæra Hitaveitu Suðurnesja vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar, frá 26. ágúst 2004, um að sú breyting á 220 kV háspennulínu, Reykjanes-Rauðimelur, í Reykjanesbæ og Grindavík, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum.

I. Málsatvik.

1. Forsaga málsins.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrirhugaðrar breytingar kemur fram að fyrstu upplýsingar um fyrirhugaða háspennulínu komu fram í matsskýrslu um jarðhitanýtingu á Reykjanesi frá 14. júní 2002. Matsskýrsla vegna fyrirhugaðrar háspennulínu Reykjanes-Svartsengi, 220 kV lá fyrir 10. janúar 2003.

Þann 10. janúar 2004 tilkynnti framkvæmdaraðili um breytingu á jarðhitanýtingu á Reykjanesi til ákvörðunar um matsskyldu. Breytingin fól í sér að ákveða staðsetningu stöðvarhúss jarðhitavirkjunar á Reykjanesi. Þann 12. maí 2004 sendi framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun fyrirspurn um tilkynningarskyldu vegna breytingar á staðsetningu stöðvarhúss og sjótöku. Breytingin fól í sér færslu á staðsetningu stöðvarhúss virkjunarinnar, frá því að standa milli fiskþurrkunar og Sjóefnavinnslunnar, á nýja iðnaðarlóð við norðvesturjaðar hins skipulagða iðnaðarsvæðis. Einnig var kynnt breyting á staðsetningu sjótökuhola. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. febrúar 2004 var sú breyting ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Með úrskurði Skipulagsstofnunar 26. mars 2003, skv. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, var fallist á lagningu 220 kV háspennulínu frá fyrirhuguðu raforkuveri Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi að fyrirhugaðri aðveitustöð við 132 kV háspennulínu Svartsengi – Fitjar. Var þá gert ráð fyrir að um 1 km kafli línunnar frá fyrirhuguðu raforkuveri og að mörkum hins skipulagða iðnaðarsvæðis yrði jarðstrengur.

2. Hin kærða ákvörðun og málsmeðferð ráðuneytisins.

Þann 13. júlí 2004 tilkynnti Hitaveita Suðurnesja breytingu á fyrirhugaðri línulögn sbr. a. lið 13. tl. í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Gerð var grein fyrir breyttri legu línunnar næst orkuverinu, lýst aðstæðum á línuleið og fjallað um helstu umhverfisáhrif breytinganna. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var að breyting á 220 kV háspennulínu, Reykjanes-Rauðimelur, í Reykjanesbæ og Grindavík, kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til viðmiða í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kemur fram að til ákvörðunar voru lagðir fram tveir kostir á legu raflínu, kostur 1 sem gerði ráð fyrir rúmlega 3 km loftlínu vestan Sýrfells og kostur 2 sem gerði ráð fyrir um 3,4 km loftlínu sem færi fyrst austan Sýrfells, en síðan til vesturs milli Sýrfells og Sýrfellsdraga. Miðað við áður samþykkta línuleið feli kostur 1 í sér nýja um 3 km loftlínu, en kostur 2 um 1,4 nýja loftlínu, þar sem kostur 2 fylgi áður samþykktri leið um 2 km.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Reykjanesbæjar, Grindavíkurbæjar og iðnaðarráðuneytisins um framangreinda kæru. Umsögn Skipulagsstofnunar barst þann 26. október 2004, umsögn Umhverfisstofnunar barst þann 9. nóvember 2004, umsögn Grindavíkurbæjar barst þann 11. október 2004 og umsögn Reykjanesbæjar barst þann 8. október 2004. Með bréfi frá 10. nóvember 2004 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komnar umsagnir. Athugasemdir kæranda bárust þann 30. nóvember 2004.

Við undirbúning náttúruverndaráætlunar 2004-2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var svæðið Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg skoðað af fulltrúum ráðuneytisins. Sú breyting sem fjallað er um í máli þessu er á suð- vesturhluta þess svæðis. Þann 3. janúar 2005 funduðu fulltrúar ráðuneytisins með fulltrúum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands um verndargildi svæðisins með hliðsjón af máli þessu.

II. Kröfur kæranda.

Kærandi krefst þess að umhverfisráðherra felli ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi og úrskurði að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli þar með ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í kæru segir að á undirbúningstíma jarðhitanýtingar á Reykjanesi hafi framkvæmdaraðili að verulegu leiti tekið tillit til einkenna og verndargildis Reykjaness og þýðingu þess fyrir ferðamennsku og ferðaþjónustu. Í kjölfar þess að ákvörðun var tekin um endanlega staðsetningu orkuvers og kæliaðferða hafi áætlanir um raforkuflutning verið endurskoðaðar. Megin forsendur fyrir breyttri legu háspennulínu snúi að rekstraröryggi og verlega lægri stofnkostnaði. Þar muni 175 milljónum. Framkvæmdaraðili hafi stuðlað að hverfisvernd einstaka jarðmyndana í samráði við Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ. Við ákvörðun um að byggja 100 MW orkuver hafi þessi sveitarfélög lagt fram tillögu um að skerða verulega stærð iðnaðarsvæðisins á Reykjanesi, m.a. í þeim tilgangi að koma til móts við umhverfissjónarmið og stuðla að því að svæðið væri fyrst og fremst ætlað til orkuvinnslu. Ekki verði þó framhjá því litið að breytt lega háspennulínunnar liggi að stærstum hluta innan þess svæðis sem áður hafi verið skilgreint sem iðnaðarsvæði og um svæði þar sem áður hafi verið gert ráð fyrir háspennulínu samkvæmt eldri skipulagsáætlunum. Það svæði sem áður hafi verið skilgreint sem iðnaðarsvæði hafði fram til þess ekki hlotið sérstaka athygli. Ákvarðanir um tækni og lokaútfærslu virkjunarinnar hafi leitt til þess að ákveðið var að færa stöðvarhúsið sem aftur leiðir til þess að færa þarf tengd mannvirki. Framkvæmdaraðili hafi lagt fram viðbótargögn um sjónræn áhrif framkvæmdarinnar. Með framlagningu þeirra sé unnt að gera grein fyrir áhrifum og leggja mat á umfang þeirra. Með því sé dregið verulega úr óvissu um mat á hugsanlegum áhrifum vegna framkvæmda. Framkvæmdaraðili telji að mat á umhverfisáhrifum komi ekki til með að bæta við umfjöllun um sjónræn áhrif framkvæmdarinnar eða leggja til önnur gögn en þegar liggja fyrir. Með kæru fylgdi greinargerð framkvæmdaraðila um samskipti hans við umhverfis- og skipulagsyfirvöld. Þar kemur fram að samkvæmt samningi milli framkvæmdaraðila og Norðuráls eigi afhending rafmagns frá fyrirhugaðri virkjun að hefjast eigi síðar en 1. maí 2006. Framkvæmdaraðili hafi tekið fullt tillit til niðurstöðu umhverfis- og skipulagsyfirvalda með því að velja staðsetningu orkuversins. Í athugasemdum framkvæmdaraðila um fram komnar umsagnir eru auk þess tilgreindir ýmsir ókostir sem framkvæmdaraðili telur felast í jarðstrengslögn.

III. Umsagnir.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til. a. liðar 13. tl. í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/20000 um tilkynningaskyldu fyrirhugaðrar breytingar. Í umsögninni kemur fram að stofnunin byggði ákvörðun sína um matsskyldu breytingarinnar einkum á viðmiðum 3. viðauka laganna um eðli framkvæmdar, staðsetningu m.a. landnotkunar sem fyrir er og er fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlunum, að svæðið nýtur verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, álagsþols, einkum með tilliti til; sérstæðra jarðmyndana, náttúruverndarsvæða og landslagsheilda. Einnig er vísað til eiginleika hugsanlegra áhrifa. Í umsögninni er bent á að allar loftlínur utan þéttbýlis til flutnings á raforku með 66 kV spennu eða hærri eru matsskyldar, sbr. 22. tl. 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Svo segir:

„Varðandi áhrif af staðsetningu framkvæmdar á landnotkun, verndarsvæði og álagsþol náttúrunnar minnir Skipulagsstofnun á gildi svæðisins sem ferðamannasvæðis vegna landslags og náttúrufars. Svæðið er á náttúruminjaskrá og njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd. Einnig er svæðið eitt af fjórtán svæðum á náttúruverndaráætlun sem Alþingi hefur samþykkt að vinna skuli friðlýsingu fyrir á tímabilinu 2004-2008.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. ágúst sl. var byggð á því að leggja þyrfti mat á sjónræn áhrif þeirrar háspennulínu (kostir 1 og 2) sem Hitaveita Suðurnesja lagði til að ráðist yrði í stað þeirrar línu sem fallist var á með úrskurði Skipulagsstofnunar þann 26. mars 2003, þar sem línan kynni að hafa veruleg áhrif á landslag og upplifun ferðamanna á svæði sem hefur mikið náttúruverndargildi og hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Loftlínan myndi liggja nær fjölsóttum ferðamannastöðum en áður var gert ráð fyrir og kynni að auka enn á áhrif iðnaðarmannvirkja á ásýnd náttúruverndarsvæðisins á utanverðu Reykjanesi, auk þess að hafa í för með sér rask á svæði sem Alþingi hefur samþykkt að unnið skuli að friðlýsingu á skv. náttúruverndaráætlun. Ennfremur vísaði Skipulagsstofnun í ákvörðun sinni til einstakra breytinga sem þegar höfðu verið gerðar á fyrirhuguðum framkvæmdum við jarðhitavirkjun á Reykjanesi. Ekki hefði verið lögð fram heildstæð áætlun um fyrirhugaðar breytingar á framkvæmdunum, en ljóst væri að fyrirhugaðar breytingar á framkvæmdunum hefðu samlegðaráhrif á jarðmyndanir og landslag sem ekki hefði verið unnt að taka afstöðu til þegar eingöngu væri kynnt stök breyting hverju sinni án þess að upplýsingar væru lagðar fram um aðrar áformaðar breytingar. Stofnunin taldi í þessu sambandi þörf á að gera sérstaka grein fyrir samlegðaráhrifum breyttrar staðsetningar stöðvarhúss og loftlínu."

Í umsögninni er vísað til greinargerðar með breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar sem staðfest var af umhverfisráðherra þann 4. mars 2004 þar sem segir:

...Forsendur þessarar breytingar eru að skapa rými fyrir jarðhitanýtingu, en um leið að taka fullt tillit til þeirra sérstöku jarðmyndana sem eru á Reykjanesinu... Breytingin verður til þess að iðnaðarsvæðið falli að framkvæmdum um jarðhitanýtingu og styrkja frekar verndun sérstakra jarðmyndana...Megin áhrif jarðhitanýtingar eru á landslag...Þá ber jafnframt að geta þess að samhliða hliðfærslu á iðnaðarsvæði verður talsverð minnkun á stærð þess og þar með komið í veg fyrir möguleg áhrif uppbyggingar og iðnaðar á umhverfið og landslag á því svæði" "

Svo segir í umsögninni:

„Af ofangreindu má ráða að skipulagsyfirvöldum á svæðinu hefur þótt ástæða til að takmarka enn frekar það svæði sem muni fara undir mannvirki tengd orkuvinnslu til að styrkja verndun sérstakra jarðmyndana og draga úr áhrifum á landslag á svæði sem jafnframt er hluti þess svæðis sem Alþingi hefur samþykkt að skuli unnið að friðlýsingu á skv. náttúruverndaráætlun.

Skipulagsstofnun vill einnig vekja athygli á hve miklar breytingar hafa orðið á framkvæmdinni eins og kærandi undirstrikar, þar sem hann segir: "Þá hafa forsendur, sem gengið var út frá í hönnun tengdra mannvirkja gjörbreyst frá fyrstu hugmyndum um staðsetningu orkuversins og sem settar voru fram í mati á umhverfisáhrifum." Þrátt fyrir að í erindi Hitaveitu Suðurnesja frá því í maí sl. (vegna ákvörðunar um breytta staðsetningu stöðvarhússins) hafi komið fram að fyrirliggjandi upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdanna væru í gildi og að ekki væru líkur á að umhverfisáhrif yrðu önnur en afstaða hafði verið tekin til í úrskurðum um mat á umhverfisáhrifum og ákvörðunum um matsskyldu, þá hefur komið upp síðan að forsendur hafa breyst talsvert. Bæði varðar það mál sem hér er til umfjöllunar, þ.e. breytta legu raflínu og breytingu úr jarðstreng að hluta í loftlínu, og aðrar breytingar á framkvæmdum við jarðhitavirkjunina sem ráðgjafar Hitaveitu Suðurnesja kynntu óformlega fyrir Skipulagsstofnun í september sl. Þetta telur Skipulagsstofnun undirstrika mikilvægi vandaðrar umfjöllunar og mats á áhrifum fyrirhugaðra mannvirkja á umhverfið."

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir:

„Umhverfisstofnun bendir á að Reykjanes, þ.m.t. fyrirhugað framkvæmdasvæði, hefur lengi verið á Náttúruminjaskrá eða allt frá árinu 1981. Frá þeim tíma hafa mörk svæðisins breyst og hefur svæðið stækkað, fyrst með útgáfu Náttúruminjaskrár árið 1991 og síðar með útgáfu skrárinnar árið 1995. Núverandi lýsing á svæðinu er eftirfarandi:

Reykjanes, Eldvörp og Hafnaberg, Grindavík, Reykjanesbæ, (áður Hafnahreppur), Gullbringusýslu. (1) Mörk liggja úr Mölvík, um 2 km austan við Háleyjabungu, í Þorbjarnarfell og um Lágar og Vörðugjá í Stapafell. Þaðan bein lína í vestur að eyðibýlinu Eyrarbæ við norðurenda Hafnabergs. (2) Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna. Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn. Hafnaberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar."

Mikilvægi ofangreinds svæðis var staðfest við samþykkt náttúruverndaráætlunar 2004-2008 sem samþykkt var á vorþingi Alþingis 2004, en samkvæmt áætluninni er svæðið Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg eitt þeirra svæða sem unnið skal að því að friðlýsa á næstu fimm árum. Um svæðið segir m.a. í náttúruverndaráætlun:

„Það svæði sem lagt er til að vernda yst á Reykjanesskaga er um 113 km2 að stærð og er innan marka sveitarfélaganna Grindavíkur og Reykjanesbæjar. Svæðið hefur verið á Náttúruminjaskrá nokkuð lengi (svæði 106) vegna jarðfræðilegs mikilvægis svæðisins en einnig vegna lífríkis. Mjög mikilvægt er talið að vernda svæðið á grundvelli jarðfræði og eldvirkni svæðisins, m.a. vegna Atlantshafshryggjarins. Lagt er til að svæðið verði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis en ekki síður vegna lífríkis, einkum fuglalífs og gróðurfars."

Um lykiltegundir og forsendur fyrir verndun segir:

„Alþjóðlegt verndargildi svæðisins er einkum hátt sakir þess að þetta er eini staðurinn í heiminum sem úthafshryggurinn gengur á land og er sýnilegur. Svæðið er einstakt til jarðfræðirannsókna og fræðslugildi þess er hátt. Þá eykur það gildi svæðisins að um 2-4% af kríustofninum verpir á svæðinu og að fjöldi sjaldgæfra jarðhitaplantna er mikill."

Í lýsingu á svæðinu kemur fram að iðnaðarsvæðið á Reykjanesi telst ekki til verndarsvæðis. Með því er verið að koma til móts við fyrirhugaða nýtingu jarðhita."

Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar kemur fram að hraun á svæðinu njóti sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. náttúruverndaralaga. Í umsögn til ráðuneytisins segir síðan að á fáum stöðum á landinu sé að finna jafn fjölbreyttar gosmyndanir. Nýting jarðhita á Reykjanesi og afmörkun framkvæmdasvæðisins verði því að mati Umhverfisstofnunar að taka sérstakt tillit til þess að um er að ræða svæði sem hefur mikið verndargildi. Umhverfisstofnun hafi því lagt áherslu á að framkvæmdir takmarkist sem mest við það svæði sem nú þegar hefur verið raskað eða tekið frá til iðnaðar samkvæmt staðfestu aðalskipulagi. Breytt lega háspennulínunnar sé að mestum hluta innan svæðis sem nú er skilgreint sem óbyggt svæði, eftir breytingu á skilgreindu iðnaðarsvæði í aðalskipulagi sem staðfest var í mars 2004. Líta verði svo á að með því hafi viðkomandi sveitarfélög tekið undir þau sjónarmið að takmarka umfang framkvæmda á svæðinu. Umhverfisstofnun telji það ekki draga úr þörf á að umhverfisáhrif breytingarinnar séu metin þó breytt lega háspennulínu liggi að stærstum hluta innan svæðis sem áður var skilgreint sem iðnaðarsvæði. Einnig verði að taka mið af því að umhverfisáhrif línunnar nái út fyrir það svæði sem verður fyrir beinum áhrifum af framkvæmdinni þar sem háspennulínan mun hafa töluverð sjónræn áhrif í för með sér. Með þessari breytingu færist öll mannvirkjagerð nær Stampagígaröðinni og því enn brýnna að jarðraski sé haldið í lágmarki, athafnasvæði skilgreind þröngt og að vandað til verka við frágang svæðisins. Ennfremur sé mikilvægt að mati Umhverfisstofnunar að öll mannvirki falli vel að landslagi. Umhverfisstofnun hafi lagt á það áherslu að vernda eigi gígaröðina sem eina heild og halda allri mannvirkjagerð við gígaröðina í lágmarki. Umhverfisstofnun hafi einnig bent á að staðsetning stöðvarhúss norðan fiskþurrkunar (og þar með núverandi staðsetning) væri síðri en staðsetning milli fiskþurrkunar og sjóefnavinnslunnar þar sem ljóst er að hljóðstig utan iðnaðarsvæðis fari yfir 50 dB(A) sem er viðmiðunargildi fyrir hávaða frá iðnaðarstarfsemi í byggð og útivistarsvæði í þéttbýli. Að mati Umhverfisstofnunar sé lagning loftlínu eins og hún er kynnt í tilkynningu framkvæmdaraðila líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á landslag og sjónræna þætti, útivist og verndargildi svæðisins, óháð því hvor kosturinn, sem framkvæmdaraðili leggur fram, er valinn. Umhverfisstofnun hafi bent á að með breytingum á háspennulínunni muni loftlína liggja í mikilli nálægð við fjóra af fimm vinsælustu áningarstöðum ferðamanna á svæðinu, þ.e. Gunnuhver og útsýnisstaði á Stampagígnum, Valahnúki og Bæjarfelli og skerða útsýni frá þessum stöðum. Frá þessum stöðum megi glögglega virða fyrir sér hið virka eldstöðvabelti sem liggur eftir Reykjanesinu og eru gígaraðir og sigdældir áberandi í landslaginu. Framkvæmdaraðili hafi bent á að háspennulínan verði ekki eina mannvirkið sem vegfarendur muni sjá á svæðinu. Umhverfisstofnun bendi á að þrátt fyrir það mun línan verða áberandi í landi og valda töluverðum sjónrænum áhrifum. Lega línunnar mun ekki liggja samsíða brotalínum í landi, sem geri hana meira áberandi en ella. Jafnframt muni línan liggja hærra í landi en flest önnur mannvirki á svæðinu, sbr. umfjöllun í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Önnur mannvirki á svæðinu dragi þar með ekki úr umhverfisáhrifum háspennulínunnar sjálfrar. Umhverfisstofnun telur að sú tillaga sem lögð var fram í matsskýrslu um lagningu háspennulínu frá Reykjanesi að Svartsengi að leggja jarðstreng frá sunnanverðum Sýrfellsdrögum innan iðnaðarsvæðisins að stöðvarhúsi sé betri kostur út frá umhverfisforsendum. Stofnunin fái heldur ekki séð að minniháttar færsla á staðsetningu stöðvarhúss innan iðnaðarsvæðisins kalli á lagningu loftlínu. Færsla í þá átt sem nú hafi verið ákveðin á stöðvarhúsi, þ.e. nær Stampagígaröðinni og þar með nær jarðfræðiminjum sem hafa mikið verndargildi, geri það að verkum að nú sé enn brýnna en fyrr út frá umhverfis- og útivistarsjónarmiðum að leggja jarðstreng. Það sé mat Umhverfisstofnunar að nauðsynlegt sé að kanna frekar umhverfisáhrif af þeirri breytingu á framkvæmdinni sem hér hefur verið fjallað um og bera hana saman við lagningu jarðstrengs frá suðvesturenda Sýrfellsdraga að stöðvarhúsi, eins og kynnt var í mati á umhverfisáhrifum af lagningu háspennulínu frá Reykjanesi að Svartsengi. Umhverfisstofnun bendi ennfremur á að sú breyting sem hér er lögð til á framkvæmdinni mun hafa áhrif á ferðamennsku á svæðinu og snerti því marga hagsmunaaðila sem ekki hafa aðkomu að umfjöllun um matsskyldu framkvæmdarinnar. Stofnunin telur að m.t.t. til þeirra verulegu breytinga sem kynntar eru á framkvæmdinni hljóti slík málsmeðferð að vera nauðsynleg. Framkvæmdaraðili bendi á það í svörum við umsögn Umhverfisstofnunar að öllum hagsmunaaðilum gefist kostur á að kynna sér málið og koma að athugasemdum þegar breyting á skipulagi verði auglýst. Umhverfisstofnun bendi á að í skipulagsáætlunum er ekki fjallað um umhverfisáhrif einstakra framkvæmda. Að mati Umhverfisstofnunar sé nauðsynlegt að gera hagsmunaaðilum betur grein fyrir áhrifum breytingar á háspennulínunni en með afmörkun framkvæmdasvæðis á skipulagsuppdrætti. Í því sambandi megi t.d. benda á að ekki er gerð grein fyrir sjónrænum áhrifum einstakra framkvæmda við gerð skipulagsáætlana.

IV. Niðurstaða.

Samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 eru framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar.

Fyrirhuguð breyting felst í því að framkvæmdaraðili áformar að leggja loftlínu á spöl þar sem áður var gert ráð fyrir um 1 km jarðstreng. Miðað við áður samþykkta línuleið felur kostur 1 í sér nýja um 3 km loftlínu, en kostur 2 um 1,4 nýja loftlínu, þar sem kostur 2 fylgir áður samþykktri leið um 2 km.

Fyrirhuguð framkvæmd er á svæði sem verið hefur á náttúruminjaskrá frá 1981, sbr. 67. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 og nýtur hraun á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. sömu laga. Svæðið er jafnframt eitt af þeim 14 svæðum sem áformað er að friðlýsa á næstu árum samkvæmt náttúruverndaráætlun 2004-2008, sem samþykkt var Alþingi 28. maí 2004. Svæðið er talið hafa hátt verndargildi m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði, allmikils hverasvæðis og fjölskrúðugs jarðhitagróðurs. Alþjóðlegt verndargildi svæðisins er einkum hátt sakir þess að um er að ræða eina staðinn í heiminum sem úthafshryggurinn gengur á land og er sýnilegur. Svæðið er talið einstakt til jarðfræði-rannsókna og fræðslugildi þess hátt. Eins og fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar í máli þessu mun loftlína samkvæmt fyrirhuguðum breytingum liggja í mikilli nálægð við fjóra af fimm vinsælustu áningarstöðum ferðamanna á svæðinu, þ.e. Gunnuhver og útsýnisstaði á Stampagígnum, Valahnúki og Bæjarfelli og skerða útsýni frá þessum stöðum. Með fyrirhugaðri breytingu færist öll mannvirkjagerð nær Stampagígaröðinni og því enn brýnna að jarðraski sé haldið í lágmarki, athafnasvæði skilgreind þröngt og að vandað til verka við frágang svæðisins. Ennfremur sé mikilvægt að mati Umhverfisstofnunar að öll mannvirki falli vel að landslagi. Umhverfisstofnun hafi lagt á það áherslu að vernda eigi gígaröðina sem eina heild og halda allri mannvirkjagerð við gígaröðina í lágmarki. Fyrirhuguð breyting felst í færslu háspennulínunnar í loft á suðvestur-kafla línunnar. Það er samdóma álit Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að verndargildi svæðisins sé einna mest á suður- og vesturhluta svæðisins. Gera má ráð fyrir að loftlína samkvæmt valkosti 1 muni verða vel sýnileg frá akstursleið úr norðri til suðurs á móti Sýrfelli og að loftlína samkvæmt valkosti 2 muni hins vegar verða vel sýnileg úr suðri.

Að mati ráðuneytisins nýtur svæðið þar sem umræddar framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, sbr. stafliður a., iii liðar, og stafliður d., iv. liðar 2. tl. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Á svæðinu eru sérstæðar jarðmyndanir. Þá hefur svæðið mikla sérstöðu eins og framan er rakið og eins útivistargildi og því hafa sjónræn áhrif framkvæmdarinnar verulega þýðingu í máli þessu, sbr. stafliður c., iv. liðar 2. tl. og i. liður 3. tl. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Í mati á umhverfisáhrifum eiga almenningur og umsagnaraðilar kost á því að koma að athugasemdum sínum og ábendingum en markmið laga um mat á umhverfisáhrifum er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp.

Í kafla I.1 í úrskurði þessum er gerð grein fyrir fyrri tilkynningum framkvæmdaraðila og ákvörðunum Skipulagsstofnunar tengdum máli þessu. Þar er m.a. vísað til þess að þann 12. maí 2004 sendi framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun fyrirspurn um tilkynningarskyldu vegna breytingar á staðsetningu stöðvarhúss og sjótöku. Breytingin fól í sér færslu á staðsetningu stöðvarhúss virkjunarinnar, frá því að standa milli fiskþurrkunar og Sjóefnavinnslunnar, á nýja iðnaðarlóð við norðvesturjaðar hins skipulagða iðnaðarsvæðis. Einnig var kynnt breyting á staðsetningu sjótökuhola. Við þessa umfjöllun málsins kom ekki fram að það væri æskilegt eða fyrirhugað að breyta legu háspennulínunnar frá stöðvarhúsinu, né að leggja fremur loftlínu heldur en jarðstreng á kaflanum næst stöðvarhúsinu. Í framangreindu erindi Hitaveitu Suðurnesja frá því í maí sl. kom fram að fyrirliggjandi upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar væru í gildi og að ekki væru líkur á að umhverfisáhrif yrðu önnur en afstaða hafði verið tekin til í úrskurðum um mat á umhverfisáhrifum og ákvörðunum um matsskyldu framkvæmdarinnar. Á grundvelli framlagðra gagna Hitaveitu Suðurnesja var við afgreiðslu málsins gengið út frá því að lagður yrði jarðstrengur frá tengivirki við stöðvarhús að mörkum iðnaðarsvæðisins að austan, sem myndi þá lengjast sem næmi færslu stöðvarhússins til norðvesturs. Samkvæmt gögnum þessa máls hefur færsla stöðvarhússins hins vegar þau áhrif að færa þarf tengd mannvirki og telur framkvæmdaraðili jarðstreng ekki lengur æskilegan kost. Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til óformlegar kynningar frá því í september 2004 á öðrum breytingum á fyrirhuguðum framkvæmdum við jarðhitavirkjunina. Með vísun til þess sem að framan segir telur ráðuneytið rétt að í mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar breytingar verði m.a. litið til sammögnunaráhrifum með þeirri breytingu sem fólst í færslu stöðvarhúss og eftir atvikum öðrum fyrirhuguðum breytingum á framkvæmdum við jarðhitavirkjunina, sbr. ii. lið 1. tl. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.

Að mati ráðuneytisins eru umhverfisáhrif breytingarinnar fyrst og fremst sjónræns eðlis enda um að ræða eina staðinn í heiminum þar sem úthafshryggurinn er sýnilegur á landi og því er alþjóðlegt verndargildi svæðisins hátt. Svæðið hefur einnig verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1981 eins og áður er getið. Með nýsamþykktri náttúruverndaráætlun hefur verndargildi svæðisins verið undirstrikað ennfrekar. Iðnaðarsvæði innan svæðisins hefur verið minnkað með breytingu á aðalskipulagi sem staðfest var af umhverfisráðherra þann 4. mars 2004.

Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu rétt einkum með hliðsjón af eðli framkvæmdarinnar sbr. ii lið 1. tl., staðsetningu framkvæmdar, sbr. staflið a., iii liðar og stafliði c. og d., iv liðar, 2. tl. svo og eiginleika áhrifa, sbr. i lið 3. tl. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar breytingar á háspennulínunni Reykjanes-Svartsengi , 220 kV.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. ágúst 2004, um að sú breyting á 220 kV háspennulínu, Reykjanes-Rauðimelur, í Reykjanesbæ og Grindavík, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til 3. viðauka með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta