Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 11110108 Útgáfa starfsleyfis, Félagsbúið Miðhruni 2 sf.

Þann 25. apríl 2014 var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

 

Með stjórnsýslukæru Gísla Guðna Hall hrl., f.h. Valgerðar Hrefnu Birkisdóttur og Eyjólfs Gísla Garðarssonar, Vegamótum, Borgarnesi, Kristjáns Þórs Sigurvinssonar, Gunnars Kristjánssonar og Sigursteins Sigurvinssonar, Fáskrúðarbakka, Borgarnesi, Sigurodds Péturssonar og Ásdísar O. Sigurðardóttur, Eiðshúsum, Borgarnesi, Ingunnar Hrefnu Albertsdóttur og Þorsteins V. Sigurðssonar, Holti, Borgarnesi, Sigurbjörns Guðlaugs Magnússonar og Katrínar Gísladóttur, Minni-Borg, Borgarnesi, Gísla Guðmundssonar og Helgu Steinu Narfadóttur, Hömluholti, Borgarnesi, Viðars Péturssonar, Borgarholti, Borgarnesi, Inga Ólafssonar, Borg, Borgarnesi, Kristins G. Kristinssonar, Borgarlandi, Borgarnesi, Jóhanns Kristjánssonar, Sigríðar Hjálmarsdóttur og Ingólfs Narfasonar, Hörgsholti, Borgarnesi, Ástþórs Jóhannssonar og Katrínar Ævarsdóttur, Dal, Borgarnesi, Gunnars Sturlusonar, Hrísdal, Borgarnesi, Ingibjargar Kristjánsdóttur og Ólafs Ólafssonar, Miðhrauni 1, Borgarnesi og Högna Gunnarssonar og Báru Katrínar Finnbogadóttur, Hvammi, Borgarnesi, dags. 16. nóvember 2011, til ráðuneytisins var kærð útgáfa Heilbrigðisnefndar Vesturlands á starfsleyfi til Félagsbúsins Miðhrauns 2 sf., dags. 3. nóvember 2011 til endurvinnslu fiskúrgangs. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

I. Málavextir.

 

Heilbrigðisnefnd Vesturlands gaf út þann 15. desember 2006 starfsleyfi til handa Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf. fyrir fiskvinnslu. Hinn 5. apríl 2011 veitti Heilbrigðisnefnd Vesturlands Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf. endurnýjað starfsleyfi til handa Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf., fyrir fiskvinnslu. Í fylgiskjali með starfsleyfinu segir að það nái til reksturs vinnslu og þurrkunar á fiskhausum og hryggjum, hökkunar, frystingar og pökkun á fiski. Í bréfi Heilbrigðisnefndar Vesturlands til Félagsbúsins Miðhrauni 2 sf., dags. 5. apríl 2011, kemur fram að athugasemdir hafi verið gerðar við dreifingu á fiskúrgangi frá fyrirtækinu og hafi heilbrigðisnefndin af þeim sökum ákvarðað að fyrirtækið þyrfti að sækja um sérstakt leyfi til dreifingar á úrgangi.

Þann 3. nóvember 2011 gaf Heilbrigðisnefnd Vesturlands út starfsleyfi til handa Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf. að Miðhrauni 2 í Eyja- og Miklaholtshreppi til endurvinnslu fiskúrgangs, áætlað um 600 tonn. Gildistími starfsleyfisins er til 3. nóvember 2023. Hefur því Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf. verið veitt tvö starfsleyfi af Heilbrigðisnefnd Vesturlands, annars vegar vegna fiskvinnslu og hins vegar vegna endurvinnslu fiskúrgangs. Tekur kærumál það sem hér er til úrskurðar til síðara starfsleyfisins eins og áður segir.

 

Í tilefni af framangreindri stjórnsýslukæru var af hálfu ráðuneytisins óskað umsagna frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands, Umhverfisstofnun og Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf. með bréfum dags. 21. desember 2011. Bárust ráðuneytinu umsagnir með bréfum dags. 4. janúar 2012 frá Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf., 16. janúar 2012 frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands og 17. febrúar 2012 frá Umhverfisstofnun.

Kærendum voru sendar umræddar umsagnir til athugasemda með bréfi dags. 14. mars. 2012. Ráðuneytinu bárust athugasemdir frá kærendum með bréfi dags. 13. apríl 2012.

Ráðuneytið óskaði með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 12. júlí 2012, eftir afstöðu stofnunarinnar hvort starfsemi Félagsbúsins Miðhrauni 2 sf., er varðaði endurvinnslu fiskúrgangs, félli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Afstaða Skipulagsstofnunar barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 19. júlí 2012. Jafnframt óskaði ráðuneytið með bréfi til Matvælastofnunar, dags. 12. júlí 2012, eftir afstöðu stofnunarinnar til þeirra reglna er gilda um meðhöndlun og ráðstöfun þess úrgangs sem fellur til við fiskvinnslu Félagsbúsins Miðhrauni 2 sf. sem síðan er endurunninn á vegum Félagsbúsins Miðhrauni 2 sf. og dreift sem áburði á nærliggjandi svæði. Afstaða Matvælastofnunar barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 7. ágúst 2012.

Með bréfi dags. 30. janúar 2013 voru umsagnir Skipulagsstofnunar og Matvælastofnunar sendar kærendum. Ráðuneytinu bárust athugasemdir frá kærendum vegna þeirra með bréfi dags. 4. febrúar 2013.

Í framlagðri kæru er þess krafist að hið kærða starfsleyfi verði fellt úr gildi.

Ráðuneytið tekur fram að sökum anna hefur afgreiðsla máls þessa dregist og er beðist velvirðingar á því.

II. Málsástæður kærenda og umsagnir um einstök kæruatriði.

1.   Starfsleyfi Félagsbúsins Miðhrauni 2 sf. fyrir endurvinnslu fiskúrgangs.

Kærendur telja að Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi ekki verið bær til þess að gefa út starfsleyfi til handa Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf. fyrir endurvinnslu fiskúrgangs. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir förgunarstaði fyrir úrgang og annan sambærilegan rekstur, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 12. tölul. í fylgiskjali 1 með lögunum, og af þeim sökum hefði Umhverfisstofnun átt að gefa út umrætt starfsleyfi. Kærendur telja að starfsemi kærða feli frekar í sér förgun úrgangs í atvinnuskyni en áburðardreifingu þar sem auk förgunar á úrgangi frá eigin fiskvinnslu sé tekið við úrgangi frá öðrum fiskvinnslum. Starfsemi fyrirtækisins feli hvorttveggja í sér losun á úrgangi og áburðarframleiðslu, starfsemi sem Umhverfisstofnun gefi út leyfi fyrir.

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Vesturlands kemur fram að heilbrigðisnefndin geti ekki fallist á að hún hafi ekki verið þess bær að gefa út umrætt starfsleyfi. Heilbrigðisnefndin telur að starfsemin teljist vera endurnýting og þar af leiðandi sé það hlutverk nefndarinnar að gefa út starfsleyfi fyrir starfseminni.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin taki ekki undir sjónarmið kærenda um að umrædd starfsemi teljist förgun úrgangs í skilningi laga nr. 7/1998. Fram kemur að stofnunin hafi skilgreint áburðardreifingu sem þessa sem endurvinnslu úrgangs en ekki sem förgun. Þá bendir Umhverfisstofnun á að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 gefi heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun og er ekki talin upp í fylgiskjali með lögunum eftir því sem mælt er fyrir um í reglugerð og samkvæmt tölul. 8.5 í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, skuli heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir endurvinnslu úrgangs. Umhverfisstofnun telji samkvæmt framansögðu að heilbrigðisnefndin hafi verið bær til þess að gefa út umrætt starfsleyfi.

Í umsögn starfsleyfishafa, kærða kemur fram að hann telji sig ekki reka förgunarstað fyrir úrgang. Að mati kærða er ekki um förgun að ræða þar sem hann myndi afla sér fiskúrgangs frá öðrum til að bera á land sitt ef ekki félli til fiskúrgangur hjá honum. Jafnframt er tekið fram að kærði taki ekki við fiskúrgangi frá öðrum fiskvinnslum heldur vinni aðeins úr þeim fiskúrgangi sem falli til í starfsemi hans. Hins vegar fái kærði hráefni, fiskhausa og –bein, frá öðrum fiskvinnslum sem kærði noti í fiskvinnslu sinni.

Í athugasemdum kærenda frá 13. apríl 2012 er gerð athugasemd við að Umhverfisstofnun líti svo á að dreifing á fiskúrgangi teljist ekki vera förgun úrgangs og að stofnunin kjósi að kalla umrædda starfsemi áburðardreifingu eða endurvinnslu. Í þessu samhengi telja kærendur að það skipti verulegu máli að ekki hafi verið sýnt fram á samhengi milli magnsins sem sé dreiftog meintrar áburðarþarfar. Þess vegna sé ekki unnt að líta á umrædda starfsemi örðuvísi en sem förgun á úrgangi að mati kærenda. Enn fremur bendir kærendur á að framangreind túlkun Umhverfisstofnunar myndi skapa einfalda leið fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að losa sig við úrgang. Að lokum kemur fram að veiting starfsleyfis fyrir starfsemi kærða, þ.e. að dreifa fiskúrgangi á jörð sína undir yfirskyni áburðardreifingar, sé forkastanleg af mörgum ástæðum að mati kærenda auk þess sem ekki séu fordæmi fyrir því að slíkt sé leyft annars staðar á landinu.

Í umsögn Matvælastofnunar, dags. 7. ágúst 2012, kemur fram að stofnunin hafi á grundvelli laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, eftirlit með framleiðslu á áburði sem sett er á markað svo og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga. Þá kemur fram að kærði sé ekki skráð áburðarfyrirtæki hjá Matvælastofnun enda selji kærði ekki áburð. Að mati Matvælastofnunar á efnisinntak laga nr. 22/1994 og reglugerða settra á grundvelli þeirra eftir atvikum við um starfsemi kærða. Í umsögn Matvælastofnunar er rakið að lög nr. 22/1994 taki m.a. til fiskúrgangs sem notaður sé til áburðar og ber framleiðendum áburðar að skrá sig og áburðartegundir hjá Matvælastofnun sé fyrirhugað að setja áburð á markað. Þá er rakið að óheimilt sé að skrá áburðarfyrirtæki sem ekki sýni fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem tilkynnt sé um. Enn fremur er rakið að með reglugerð nr. 108/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis hafi verið innleidd hér á landi reglugerð (EB) nr. 1774/2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis og fjallar reglugerðin um söfnun, flutning, geymslu, meðhöndlun, vinnslu, notkun eða förgun aukaafurða úr dýrum svo og setningu þeirra á markað. Að mati Matvælastofnunar fellur endurvinnsla fiskúrgangs undir gildissvið reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 þar sem um er að ræða fiskúrgangs sem er í reynd aukaafurð úr fiski. Þá er rakið í umsögn Matvælastofnunar að aukaafurðum dýra sé skipt í þrjá flokka. 1. flokkur innihaldi efni sem farga skuli með brennslu í brennslustöð eða urðun á urðunarstað. Í 2. flokki séu efni sem í vissum tilvikum megi nota til áburðar en annars skuli þeim fargað með brennslu. Undir 3. flokk  m.a. ferskar aukaafurðir úr fiski frá stöðvum sem framleiði fiskafurðir til manneldis. Þær afurðir megi bæði nota í fóður og áburð. Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að vinnslustöðvar fyrir efni í 3. flokki skuli hafa samþykki Matvælastofnunar og vera undir eftirliti stofnunarinnar. Jafnframt kemur fram að aðeins sé heimilt að setja á markað efni sem hafi verið framleidd á vinnslustöð fyrir efni í 3. flokki, efnin hafi eingöngu verið framleidd úr efni í 3. flokki og hafi verið meðhöndluð, unnin, geymd og flutt í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

 

2.   Mat á áhrifum starfsemi á umhverfið.

Kærendur byggja á því að óheimilt hafi verið að veita umrætt starfsleyfi án þess að fram hefði farið mat á umhverfisáhrifum vegna starfseminnar, samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Vísar kærendur þar til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 12. tölul. 1. viðauka með lögunum um framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum. Þar kemur fram að förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð og aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Kærendur vísa til vara til þess að mat á umhverfisáhrifum hefði átt að fara fram á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. b-lið 11. tölul. 2. viðauka með lögunum um framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metin eru í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum. Þar kemur fram að förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður séu framkvæmdir sem metnar eru í hverju tilviki fyrir sig hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Kærendur telja að starfsemi kærða hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mengun vegna umgangs, eðli og staðsetningar og því hafi verið sérstök ástæða til að láta mat á umhverfisáhrifum fara fram áður en leyfi yrði veitt.

Í umsögn Heilbrigðisnefndar Vesturlands kemur fram að heilbrigðisnefndin líti svo á að starfsemi kærða falli ekki undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum þar sem ekki sé um að ræða urðun úrgangs.

Í umsögn Umhverfisstofnunar vísar stofnunin til umfjöllunar sinnar um að starfsemi kærða teljist vera endurvinnsla úrgangs en ekki förgun úrgangs. Að mati stofnunarinnar eigi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem kærendur vísa til ekki við þar sem um sé að ræða endurvinnslu úrgangs. Þá segir Umhverfisstofnun um vísun kærenda til b-liðar 11. tölul. 2. viðauka við lög nr. 106/2000 að ákvæðið fjalli um förgunarstöðvar og eigi ekki við um endurvinnslu úrgangs. Enn fremur segir í umsögn Umhverfisstofnunar að í j-lið 11. tölul. sé hins vegar talað um endurvinnslustöðvar og komi því til álita hvort starfsemi kærða falli undir það ákvæði. Að mati Umhverfisstofnunar er almennur málskilningur á orðinu „endurvinnslustöð“ talinn fela í sér að um sér að ræða einhvers konar fasta starfsstöð þar sem endurvinnsla á sér stað og stofnunin telji að ekki sé unnt að slá því föstu að áburðardreifing kærða, þar sem ekki sé um eiginlega starfsstöð að ræða, geti fallið undir framangreint ákvæði. Þá tekur Umhverfisstofnun fram að ef heilbrigðisnefndin hafi talið starfsemina ekki vera endurvinnslustöð hafi stofnunin  ekki forsendur til að bera brigður á það mat heilbrigðisnefndarinnar. Jafnframt bendir stofnunin á að samkvæmt lögum nr. 106/2000 sé það á hendi Skipulagsstofnunar að úrskurða um matsskyldu.

Í athugasemdum kærða kemur fram að ekki hafi verið ætlun hans að sækja um leyfi fyrir förgunarstöð.

Í athugasemdum kærenda frá 13. apríl 2012 er gerð athugasemd við túlkun Umhverfisstofnunar í umsögn stofnunarinnar og segir að stofnunin sé í hreinni mótsögn við sjálfa sig þar sem hún telji að ákvæðin um endurvinnslu eigi ekki við, þar sem ekki sé um að ræða eiginlega endurvinnslustöð, þó stofnunin hafi áður skilgreint áburðardreifinguna sem endurvinnslu. Kærendur halda því fram að lagatúlkanir Umhverfisstofnunar fáist ekki staðist og undarlegt að mati kærenda að stofnunin leggi ofuráherslu á hæpnar hugtakaskilgreiningar í stað þess að beita viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum eins og að líta til tilgangs og markmiða laganna.

Í umsögn Skipulagsstofnunar frá 19. júlí 2012 kemur fram að samkvæmt j-lið 11. tölul. í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum teljast endurvinnslustöðvar tilkynningarskyldar skv. 6. gr. laganna. Þá kemur fram að vegna sambærilegra mála hafi Skipulagsstofnun óskað eftir skilningi Umhverfisstofnunar á hugtakinu „endurvinnslustöð“ og að Umhverfisstofnun hafi vísað til skilgreiningar á hugtökunum „endurnotkun“ og „endurnýting“ í 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt þessum skilgreiningum telst öll endurnýting sem felur í sér umbreytingu úrgangs endurvinnsla að mati Skipulagsstofnunar. Þá kemur fram að á grundvelli þessa skilnings hafi Skipulagsstofnun talið að tilkynna þurfi til stofnunarinnar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 sambærilega starfsemi og kærði starfrækir. Að mati Skipulagsstofnunar felst starfsemi kærða umbreyting á fiskúrgangi (fiskislógi) í áburð, sem telst til endurvinnslu, óháð því hvar nýta eigi afurðina.

Í athugasemdum kærenda frá 4. febrúar 2013 er tekið undir sjónarmið Skipulagsstofnunar um að tilkynna hefði átt um framkvæmda, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 þar sem um endurvinnslu væri að ræða.

3.   Áhrif vegna mengunar.

Kærendur byggja á því að ekki hafi átt að veita starfsleyfi fyrir starfsemi kærða vegna mengunaráhrifa, sem dreifing fiskúrgangsins (slógdreifing) hafi í för með sér. Kærendur benda sérstaklega á að það hefði þurft að vanda undirbúning að ákvörðun um útgáfu starfsleyfis kærða miklu betur en gert hafi verið með tilliti til grunnreglna eignarréttar um nábýlisrétt og með tilliti til áhrifa fyrir umhverfið og mannlíf í víðara samhengi. Að mati kærenda hafi ekki verið gerðar rannsóknir á framangreindum atriðum og nægar upplýsingar um þau hafi ekki legið fyrir þegar starfsleyfi kærða hafi verið gefið út. Þannig benda kærendur á að ekki hafi farið fram könnun á hve rík þörfin hafi verið fyrir hina meintu áburðardreifingu með tilliti til landsræktunar og eftir atvikum hvort aðrar aðferðir hafi verið mögulegar í því augnamiði einkum með hliðsjón af því að nágrannajarðir hafi komist af án slíkrar áburðardreifingar. Enn fremur benda kærendur á 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og þá sérstaklega 2. og 3. mgr. 9. gr. hvað varðar umsagnarbeiðnir heilbrigðisnefndar um starfsleyfistillögu og álit heilbrigðisnefndar á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið. Kærendur draga í efa að þessum ákvæðum hafi verið fylgt við útgáfu starfsleyfis kærða. Þá segjast kærendur telja það með ólíkindum að Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi gefið út hið kærða starfsleyfi miðað við samskipti hennar við forsvarsmenn kærða skömmu áður en leyfið hafi verið veitt en kærendur eru með því að vísa til bréfs Heilbrigðisnefndar Vesturlands til kærða, dags. 16. september 2011, þar sem heilbrigðisnefndin gerir athugasemd við hvernig dreifingu fiskúrgangs er háttað af hálfu kærða.

Í umsögn heilbrigðisnefndar kemur fram að tillaga að starfsleyfi kærða hafi verið auglýst í samræmi við 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og IV. og XI. kafla reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í umsögninni kemur fram að tillaga að starfsleyfi kærða hafi verið auglýst á tímabilinu frá 22. júlí til 15. september 2011 og að ein athugasemd varðandi starfsleyfistillöguna hafi borist heilbrigðisnefndinni. Heilbrigðisnefndin tekur jafnframt fram að farið hafi verið eftir 26. gr. reglugerðar nr. 785/1999 við útgáfu starfsleyfisins. Að mati heilbrigðisnefndar orki tvímælis að aðilar sem ekki hafi gert athugasemdir við tillögu að starfsleyfi, sem auglýst hafi verið, leggi fram stjórnsýslukæru þegar starfsleyfið hafi verið gefið út. Heilbrigðisnefndin tekur fram að við útgáfu starfsleyfa skuli hún taka mið af því að mengun sé í lágmarki við reksturinn og skv. starfsleyfi kærða sé t.d. skylt að fella niður allan fiskúrgang og sé dreifing óheimil um helgar, þ.e. frá kl. 12:00 á föstudögum til miðnættis á sunnudögum, auk þess sem hún sé óheimil á almennum frídögum. Heilbrigðisnefndin hafnar því að ekki liggi fyrir upplýsingar um rannsóknir vegna notkunar fiskúrgangs (slóg) í landbúnaði og vísar í því samhengi til umræðu fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, og Umhverfisstofnunar þó ekki liggi fyrir uppgjör um þá vinnu. Vísar nefndin í þessu sambandi einnig til skýrslu MATÍS frá árinu 2007. Að lokum kveðst heilbrigðisnefndin telja að hún hafi farið að lögum og reglum við útgáfu starfsleyfis kærða.

Umhverfisstofnun bendir í umsögn sinni á að ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 vísi til þess að umsagna um tillögu að starfsleyfi þurfi að afla eftir því sem við eigi hverju sinni. Umhverfisstofnun telur með vísan til bréfs heilbrigðisnefndar, dags. 3. nóvember, að umsagna hafi ekki verið aflað en að brugðist hafi verið við athugasemdum sem fram komi við auglýsingu á tillögu að starfsleyfi kærða. Að mati Umhverfisstofnunar kann að hafa komið til greina að leita umsagna, annars vegar hjá Matvælastofnun í ljósi þess að um dreifingu dýraafurða hafi verið að ræða og hins vegar hjá Skipulagsstofnun með vísan til hugsanlegrar matsskyldu skv. lögum nr. 106/2000. Umhverfisstofnun kveðst ekki taka beina afstöðu til þess mats heilbrigðisnefndar að ekki hafi verið þörf á slíkum umsögnum. Enn fremur telur stofnunin ekki tilefni til þess fyrir starfsleyfisveitanda að leggja til annarskonar áburðardreifingu en þá sem um hafi verið sótt. Að mati Umhverfisstofnunar sé rétt við veitingu starfsleyfa að setja starfsemi skilyrði um varnir gegn mengun, þ.m.t. lyktarmengun. Í umsögn stofnunarinnar er rakið að ýmis skilyrði séu sett í starfsleyfi hins kærða, m.a. um niðurfellingu áburðar í svörð og tíma áburðardreifingar auk þess sem vísað sé til starfsreglna um góða búskaparhætti en þar sé að finna ýmis tilmæli um framkvæmd áburðardreifingar. Umhverfisstofnun bendi þó á að stofnunin hafi við eigin starfsleyfisútgáfu talið ástæðu til að tilgreina sum þeirra tilmæla sem fram komi í framangreindum starfsreglum í starfsleyfum stofnunarinnar til að árétta þau enn frekar. Að mati stofnunarinnar hefði farið vel á því að tilgreina í starfsleyfi kærða viðmið um næringarefnainnihald í jarðvegi og gera ráð fyrir eftirliti með því. Þó telji Umhverfisstofnun ekki ástæðu til að bera brigður á það mat heilbrigðisnefndar að með skilyrðum í starfsleyfi kærða sé nægjanlega unnið gegn mengun frá starfsemi kærða.

Í umsögn kærða er bent á að aðrar jarðir í sveitinni séu ekki lífrænt vottaðar og geti því notað hvaða áburð og eiturefni sem völ sé á. Bendir hann í því samhengi á innfluttan áburð sem hafi verið seldur hér á landi en reynst innihalda kadmíum umfram leyfileg mörk. Kærði telur það vel kunna vera að bændur í nágrenni hans geti notað annan áburð en fiskúrgang en því beri að halda til haga að margir bændur hafi fengið fiskúrgang hjá kærða og dreift á land sitt og færri fengið en hafi viljað. Kærði bendir jafnframt á að fiskúrgangur hans hafi verið efnagreindur oftar en einu sinni og hafi kærði fengið jarðræktarráðunauta til þess að taka sýni úr þeim túnum hans sem fiskúrgangi hafi verið dreift á og hafi þeir verið ánægðir með útkomuna. Auk þess sendi hann heysýni árlega til rannsókna.

Í umsögn kærenda frá 13. apríl 2012 kemur fram að þeir líti á önnur sjónarmið í umsögn Umhverfisstofnunar sem almennar ályktanir sem kærendur eru ekki sammála og vísar í því samhengi til gagnstæðra sjónarmiða í athugasemdum sínum og kæru. Kærendur benda á að ekki hafi verið færð nein rök fyrir því að dreifing fiskúrgangsins sé nauðsynleg með tilliti til ræktunarþarfar á jörð kærða einkum með tilliti til þess magns sem um ræðir. Þá taka kærendur fram að ekki sé rétt að þeir hafi ekki gert athugasemd við hið fyrirhugaða starfsleyfi kærða enda hafi þeir um lengri tíma verið í miklu sambandi við fulltrúa heilbrigðisnefndarinnar vegna dreifingu fiskúrgangs og krafist þess að henni yrði hætt en þeir hafi hins vegar ekki gert skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillöguna. Auk þess taka kærendur fram að ónægjan hafi verið slík að lögregla hafi verið kölluð til og formlegar kærur til lögreglu lagðar fram. Hafi fulltrúi nefndarinnar verið kallaður til af lögreglu vegna þessa og hafi kærendur einnig mótmælt fyrirhuguðu starfsleyfi í símtölum við fulltrúa heilbrigðisnefndarinnar. Að mati kærenda gat fulltrúa heilbrigðisnefndarinnar ekki dulist andstæða kærenda við starfsemi kærða. Kærendur árétta jafnframt að lögmæti ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis af þessu tagi geti ekki ráðist af því hvort skriflegar athugasemdir hafi borist viðkomandi yfirvaldi. Enn fremur árétta kærendur að heilbrigðisnefnd hafi einnig borist formleg athugasemd við tillögu að starfsleyfi kærða. Þá réttlæti ekkert starfsleyfisveitinguna án sérstakrar könnunar á mengunaráhrifum sem hefði einnig átt að taka tillit til við ákvörðunartökuna að mati kærenda og því hafi borið að synja umsókninni um starfsleyfi eins og málið hefði legið fyrir. Kærendur telja að tilvitnaðar „rannsóknir“ í umsögn heilbrigðisnefndar geti alls ekki skoðast sem fullnægjandi þannig að unnt hafi verið að veita starfsleyfi kærða án frekari skoðunar. Að mati kærenda eru tilvitnaðar rannsóknir í besta falli einhvers konar frumvísbendingar sem hafi átt eftir að vinna úr frekar, m.a. með tilliti til áhrifa dreifingu fiskúrgangs á umhverfi, hversu mikið magn geti talist æskilegt o.s.frv. Þá benda kærendur á að reynsla sé komin á að allt eftirlit með skilyrðum í starfsleyfi kærða sé vandasamt og yrði mjög kostnaðarsamt ef það ætti að vera virkt. Að lokum bendir kærendur á að niðurfellingarbúnaður á fiskúrganginum, sem kærði hafi verið uppvís að nota ekki, breyti ekki miklu um mengunaráhrif dreifingar á fiskúrgangnum.

4.   Ýmiss önnur sjónarmið.

Kærendur rekja að lokum í kærunni nokkur sjónarmið sem þeir telja að leiði til þess að starfleyfisumsókninni hefði átt að vera hafnað. Kærendur telja að dreifing á fiskúrganginum hafi áhrif á nærliggjandi vatnasvæði, þ.e. Fáskrúð, Grímsá og Straumfjarðará. Þá telja kærendur að dreifing á fiskúrganginum fari þvert gegn markmiðum og reglum sem sveitarfélögin á svæðinu hafi skuldbundið sig til að starfa eftir, þ.e. Green Globe vottun og að vistvæna samfélagið. Enn fremur telja kærendur að starfsemi kærða dragi úr möguleikum á áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, svo sem á Breiðabliki, Hjarðarfelli, Vegamótum og í Dal. Kærendur leggja áherslu á grunnreglur um nábýlisrétt og segja að starfsemi kærða sé úr öllum takti við umhverfið og þá starfsemi sem fari fram í nágrenninu. Nágrannar eigi ekki að þurfa að þola verulega og viðvarandi mengun að mati kærenda. Þá fylgi dreifingu fiskúrgangsins vargfuglar, óþrif og smithætta og bitni þessi atriði fyrst og fremst á nágrönnunum. Kærendur benda á að reynsla sé komin á starfsemi kærða og að hún sé slæm og er í því samhengi vísað til samskipta Heilbrigðisnefndar Vesturlands við kærða. Að lokum er að mati kærenda ekki eðlilegt að kærði fái leyfi til að keyra út takmarkalaust á land sitt hundruð tonn af úrgangi, sem almennt sé skylt að farga, þegar ekki liggi fyrir neinar niðurstöður rannsókna á áhrifum af slíkri athöfn.

Í umsögn heilbrigðisnefndar bendir nefndin á að í eftirliti nefndarinnar 15. september 2011 hafi vatnsból sem þjónar Miðhrauni 1 verið skoðað. Fram hafi komið að dreifing fiskúrgangs af hálfu kærða hafi verið víðsfjarri vatnsbólinu eða á mel sem sé minnst 400 m frá vatnsbólinu og af þeim sökum ætti ekki að vera hætta á mengun frá þeim stað.

Í umsögn Umhverfisstofnunar vísar stofnunin til þess sem áður hefur verið rakið um að í starfsleyfi sé að finna skilyrði sem séu til þess fallin að draga úr mengun vegna starfsemi kærða og þannig sé gætt að hagsmunum nágranna með tilliti til nábýlisréttar. Þá bendir Umhverfisstofnun á, með vísan til þess að kærendur telji að fyrri reynsla af starfsemi kærða gefi tilefni til vantrausts til þess að farið yrði að settum reglum, að það hafi verið hluti af viðbrögðum heilbrigðisnefndar við áburðardreifingu af þessum toga að gera kröfu um að kærði aflaði sér starfsleyfis. Að mati Umhverfisstofnunar hafi með leyfinu verið komnar fram skýrari reglur um framkvæmd áburðardreifingarinnar og heilbrigðisnefndinni bæri jafnframt að hafa eftirlit með því að skilyrðum í starfsleyfi kærða sé fullnægt. Þá telji stofnunin nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi fyrri samskipta heilbrigðisnefndar við kærða, að eftirlit með starfseminni verði skilvirkt og tryggt sé að kærði fari að öllum skilyrðum starfsleyfisins. Umhverfisstofnun telur hins vegar ekki ástæðu til að bera brigður á það mat heilbrigðisnefndar að með þeim skilyrðum sem séu í starfsleyfi kærða sé nægjanlega unnið gegn mengun frá starfseminni.

Kærði telur að engin sönnun sé fyrir því að dreifing fiskúrgangs hafi áhrif á upptalin vatnasvæði. Aftur á móti bendir kærði á að frárennsli frá rotþróm og frárennsli frá fjósum og fjárhúsum bænda í nágrenni þessa vatnasvæðis renna út í þessar ár. Kærði telur að um einhvern misskilning kærenda sé að ræða varðandi Green Globe en þar sé litið svo á að náttúra og umhverfisvitund sem og endurreisn spilltra náttúrugæða séu forsendur efnahagslegrar og samfélagslegrar velferðar til lengri tíma litið og mikið sé lagt upp úr endurnýtingu og endurvinnslu og þar með talið lífrænna efna. Kærði vísar því alfarið á bug að starfsemi hans hafi áhrif á einn eða annan hátt á ferðaþjónustu á svæðinu, enda hafi ferðaþjónusta á svæðinu alltaf verið lítil og takmörkuð. Kærði telur að endurnýting og dreifing á fiskúrgangi sé algjörlega í takti við umhverfið og framtíðina þar sem ætlast sé til að fólk taki ábyrgð á sínum úrgangsmálum að það sé ekki vandamál komandi kynslóða að leysa. Þá áréttar kærði að nábýlið í Eyja- og Miklaholtshreppi sé ekki svo mikið og langt sé á milli bæja í sveitinni. Kærði telur að vargfugl hafi engan áhuga á fiskúrgangi þegar búið sé að hakka hann því hann sé þá eins og leðja og ekki sé um að ræða óþrif af fiskúrganginum enda sé snyrtimennskan í fyrirrúmi. Þá telur kærði að ekki sé um að ræða smithættu. Þá bendir kærði á að miklar rannsóknir hafi verið gerðar á notkun fiskúrgangs á Suðurlandi, t.d. í Birtingarholti.

Í umsögn kærenda frá 13. apríl 2013 kemur fram að þeir telji ljóst af umsögn heilbrigðisnefndar að ekki hafi verið gerð nein heildarathugun á mögulegum áhrifum af dreifingu fiskúrgangsins fyrir votlendi í nágrenninu.

III. Forsendur ráðuneytisins

1. Starfsleyfi Félagsbúsins Miðhrauni 2 sf. fyrir endurvinnslu fiskúrgangs.

Í máli þessu er deilt um hvernig skilgreina skuli starfsemi kærða hvað varðar meðhöndlun hans á fiskúrgangi og hvaða stjórnvald sé til þess bært að gefa út starfsleyfi fyrir henni. Kærendur telja að Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi ekki verið bær til þess að gefa út starfsleyfi til handa kærða fyrir endurvinnslu fiskúrgangs. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir förgunarstaði fyrir úrgang og annan sambærilegan rekstur, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 12. tölul. í fylgiskjali 1 með lögunum, og af þeim sökum hafi Umhverfisstofnun átt að gefa út umrætt starfsleyfi. Kærendur telja að starfsemi kærða feli frekar í sér förgun úrgangs í atvinnuskyni en áburðardreifingu þar sem auk förgunar á úrgangi frá eigin fiskvinnslu sé tekið við úrgangi frá öðrum fiskvinnslum. Starfsemi fyrirtækisins feli hvort tveggja í sér, losun á úrgangi og áburðarframleiðslu, starfsemi sem Umhverfisstofnun gefi út leyfi fyrir.

Heilbrigðisnefnd Vesturlands hefur gefið út tvö starfsleyfi til handa kærða, annars vegar fyrir fiskvinnslu og hins vegar fyrir endurvinnslu fiskúrgangs. Aðdragandinn að síðara starfsleyfinu var bréf Heilbrigðisnefndar Vesturlands til kærða, dags. 5. apríl 2011, þar sem kærða var tilkynnt um útgáfu starfsleyfis til handa honum fyrir fiskvinnslu. Í bréfinu var jafnframt tilkynnt að gerðar hafi verið athugasemdir við dreifingu fiskúrgangs frá kærða og af því tilefni hafi heilbrigðisnefndin ákvarðað að honum bæri að sækja um leyfi til dreifingar á fiskúrgangi.

Í fylgiskjali með starfsleyfi kærða fyrir fiskvinnslu segir að leyfið nái til reksturs vinnslu og þurrkunar á fiskhausum og hryggjum, hökkunar, frystingar og pökkunar á fiski. Í umsögn kærða kemur fram að talsvert magn af fiskúrgangi (slóg) falli til við fiskvinnslustarfsemi hans sem notað sé til að búa til lífrænan áburð. Af gögnum málsins er ljóst að við fiskvinnslu kærða fellur til efni sem ekki nýtist frekar í þeirri starfsemi heldur er því ráðstafað á tiltekinn hátt af hálfu kærða, þ.e. borið á land sem lífrænn áburður. Kemur þá til álita hvaða reglur skuli gilda um umrædda ráðstöfun.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs gilda lögin um meðhöndlun úrgangs. Í 3. gr. laganna er hugtakið „úrgangur“ skilgreint sem hvers kyns efni eða hlutir sem framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og skráður er á lista í reglugerð um úrgang, sbr. reglugerð nr. 184/2002 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang. Samkvæmt sömu grein er framleiðandi úrgangs sá aðili sem veldur því að úrgangur myndast. Samkvæmt framangreindu þarf að taka afstöðu til í máli þessu hvort um sé að ræða úrgang sem kærði hefur ákveðið að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt skv. lögum nr. 55/2003.

Samkvæmt framangreindri skilgreiningu á hugtakinu „úrgangur“ hefur afstaða þess sem hefur efni eða hluti undir höndum m.a. áhrif á hvort efnið eða hluturinn falli undir skilgreininguna og teljist vera úrgangur í skilningi laga nr. 55/2003. Að mati ráðuneytisins verður almennt að líta svo á að efni eða hlutur verði aðeins skilgreindur sem úrgangur þegar handhafi efnisins eða hlutarins hefur ákveðið að losa sig við efnið eða hlutinn eða er gert að losa sig við hann. Í fyrsta lagi kemur því til álita hvort kærði hafi ákveðið að losa sig við umrætt hráefni. Í máli því sem hér ræðir um ákvað kærði að losa sig ekki við hráefnið heldur að nýta hráefnið frekar, í þessu tilviki með þeim hætti að bera það á landsvæði. Kemur þá til álita hvort handhafa hráefnisins sé gert að losa sig við efnið eða hlutinn á tiltekinn hátt. Í löggjöfinni er að finna ákvæði um að efnum og hlutum skuli ráðstafað í samræmi við lög nr. 55/2003 þegar líftíma þeirra líkur. Samkvæmt 10. gr. laganna skal allur úrgangur færður til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð eða samþykktum sveitarfélaga. Þá skal allur úrgangur fá viðeigandi meðferð áður en til förgunar kemur samkvæmt nánari reglum þar um. Má í þessu samhengi m.a. nefna að skv. 12. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs skal ávallt leita leiða til að endurnota eða endurnýta úrgang og þann hluta sem úrgangshafi nýtir ekki sjálfur skal flytja til söfnunar- eða móttökustöðva sem hafa starfsleyfi. Ráðuneytið telur að í þessu felist að úrgangshafi skuli leita leiða til að nýta hráefni sem fellur til hjá honum við tiltekna framleiðslu í stað þess að losa sig við það. Það hráefni sem úrgangshafi nýtir ekki og losar sig við telst þá vera úrgangur að mati ráðuneytisins. Í lögum nr. 55/2003 er ekki að finna ákvæði sem segja til um með hvaða hætti heimilt er að ráðstafa því hráefni sem hér ræðir um og ber í því sambandi að líta til löggjafar sem hefur að geyma slíkar efnisreglur.

Í umsögn Matvælastofnunar er vísað til laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru sem og reglugerðar nr. 108/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis. Reglugerð nr. 108/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis innleiðir reglugerð (EB) nr. 1774/2002 hér á landi og segir í 1. gr. reglugerðarinnar að umrædd reglugerð nr. 1774/2002 öðlist gildi hér á landi. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 108/2010 tekur hún ekki til aukaafurða dýra er teljast til úrgangs enda gilda þá lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Í reglugerð (EB) nr. 1774/2002, sbr. reglugerð nr. 108/2010, er að finna efnisreglur um lýðheilsu og heilbrigði dýra, m.a. að því er varðar söfnun, flutning, geymslu, meðhöndlun, vinnslu og notkun eða förgun aukaafurða úr dýrum. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar eru aukaafurðir úr dýrum skilgreindar sem heilir skrokkar eða hlutar dýra eða afurðir úr dýraríkinu sem um getur í 4. gr., 5. gr. og 6. gr. reglugerðarinnar og eru ekki ætluð til manneldis, þ.m.t. egg, fósturvísar og sæði. Í h- og i-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að fiskur eða önnur sjávardýr, að undanskildum sjávarspendýrum, sem eru veidd á opnu hafi til framleiðslu fiskmjöls, og ferskar aukaafurðir úr fiski frá stöðvum, sem framleiða fiskafurðir til manneldis, teljast til aukaafurða dýra. Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að efnisinntak laga nr. 22/1994 og reglugerða settra á grundvelli þeirra eigi eftir atvikum við um starfsemi kærða að mati stofnunarinnar. Þá kemur fram í umsögninni að endurvinnsla fiskúrgangs falli að mati stofnunarinnar undir gildissvið reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 þar sem um sé að ræða fiskúrgangs sem sé í reynd aukaafurð úr fiski. 

Ráðuneytið tekur undir þetta mat Matvælastofnunar og telur ljóst að umrætt hráefni falli undir skilgreiningu reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 á aukaafurð dýra, sbr. i-liður 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Reglugerðin gerir ráð fyrir að aukaafurðir dýra, þ.m.t. fiskafurðir (fiskúrgangur), fari m.a. til brennslu í brennslustöð, unnar í vinnslustöð, þeim sé umbreytt í tæknilegri stöð, þær séu notaðar sem hráefni í stöð til framleiðslu gæludýrafóðurs, umbreytt í lífgasstöð eða í myltingarstöð, verkaðar í sílói eða látnar myltast eða sé fargað með öðrum samþykktum aðferðum, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar (EB). Um lífrænan áburð og jarðvegsbæti gilda einnig ákvæði reglugerðar (EB) nr. 181/2006 um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 að því er varðar lífrænan áburð og jarðvegsbæti, annan en húsdýraáburð, og um breytingu á þeirri reglugerð sem hefur öðlast gildi hér á landi samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 108/2010. Vinnslustöðvar fyrir framangreint hráefni þurfa þá að vera samþykktar af lögbæru stjórnvaldi. Í 4. gr. reglugerðar nr. 108/2010 kemur fram að þegar kveðið er á um tiltekið „samþykki“ opinbers eftirlitsaðila fullnægja aðilar sem vinna slíkt hráefni lagaskyldu sinni með útgáfu starfsleyfis Matvælastofnunar skv. 13. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Ráðuneytið telur ljóst af framangreindu að reglugerð (EB) nr. 1774/2002, sbr. reglugerð nr. 108/2010, segi til um með hvaða hætti heimilt sé að ráðstafa aukaafurðum dýra, í þessu tilviki fiskafurðum, en handhafi þeirra hefur skv. reglugerðinni val um nokkrar leiðir við ráðstöfun þeirra. Að mati ráðuneytisins felur ráðstöfun kærða á umræddum afurðum ekki í sér losun á þeim heldur nýtingu eins og kveðið er á um í ákvæðum reglugerðar nr. 108/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sbr. einnig lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Í máli þessu eru umræddar fiskafurðir nýttar sem lífrænn áburður og falla því undir 2. mgr. 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 1774/2002, sbr. einnig reglugerð (EB) nr. 181/2006. Eins og áður segir er það mat ráðuneytisins að sá fiskúrgangur sem kærði meðhöndlar á grundvelli hins kærða starfsleyfis teljist vera aukaafurð dýra en ekki fiskúrgangur, sbr. i-liður 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 1774/2002. Af framangreindu leiðir að efnisreglur reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 og reglugerðar (EB) nr. 181/2006, sbr. reglugerð nr. 108/2010, gilda um meðhöndlun og ráðstöfun þess hráefnis sem fellur til við fiskvinnslu kærða og hið kærða starfsleyfi nær til.

Líkt og framan er rakið þurfa vinnslustöðvar fyrir aukaafurðir dýra að vera samþykktar af lögbæru stjórnvaldi. Í 4. gr. reglugerðar nr. 108/2010 kemur fram að þegar kveðið er á um tiltekið „samþykki“ opinbers eftirlitsaðila fullnægja slíkir aðilar lagaskyldu sinni með útgáfu starfsleyfis Matvælastofnunar skv. 13. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið að sá fiskúrgangur sem kærði meðhöndlar á grundvelli hins kærða starfsleyfis teljist vera aukaafurð dýra en ekki fiskúrgangur þar sem um sé að ræða hráefni sem fellur til við fiskvinnslu kærða og sem kærði hefur ákveðið að nýta sem lífrænan áburð. Jafnframt er að mati ráðuneytisins ekki unnt að skilgreina umrætt hráefni sem úrgang þar sem kærði ákvað að losa sig ekki við það auk þess sem honum er ekki gert að losa sig við það eins og áskilið er í 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Að mati ráðuneytisins felur því umrædd starfsemi ekki í sér endurvinnslu á úrgangi heldur tiltekna nýtingu á aukaafurðum dýra og er Heilbrigðisnefnd Vesturlands því að mati ráðuneytisins ekki lögbært stjórnvald til að veita starfsleyfi vegna umræddrar starfsemi.

Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 5. gr. a laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi. Samkvæmt 6. gr. laganna, sbr. fylgiskjal I, skal Umhverfisstofnun gefa út starfsleyfi fyrir áburðarframleiðslu.

Með vísun til þess sem rakið hefur verið í þessum kafla telur ráðuneytið ekki ástæðu til að taka til efnislegrar umfjöllunar aðrar málsástæður kærenda í máli þessu, sbr. liðir 2 – 4 í II. kafla. Ráðuneytið vill beina þeim tilmælum til Heilbrigðisnefndar Vesturlands að gæta að ákvæðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun við útgáfu starfsleyfa. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 106/2000 er óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir gildissvið laganna fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Samkvæmt 10. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 785/1999 er óheimilt að auglýsa tillögu að starfsleyfi vegna framkvæmdar sem taldar eru upp í viðauka 2 með lögum nr. 106/2000 fyrr en ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmdin er matskyld liggur fyrir og samkvæmt 22. gr. reglugerðarinnar skal niðurstaða mats á umhverfisáhrifum liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi er auglýst ef um er að ræða starfsleyfisskyldan atvinnurekstur sem háður er mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.

IV. Niðurstaða.

Í III. kafla koma fram þær forsendur sem ráðuneytið leggur til grundvallar niðurstöðu í máli þessu. Þar  kemur fram það mat ráðuneytisins að það hráefni sem kærði meðhöndlar á grundvelli hins kærða starfsleyfis teljist vera aukaafurð dýra en ekki úrgangur þar sem um sé að ræða hráefni sem fellur til við fiskvinnslu kærða og sem kærði hefur ákveðið að nýta sem lífrænan áburð. Það er því mat ráðuneytisins að ekki sé unnt að skilgreina umrætt hráefni sem úrgang í skilningi 3. gr. laga nr. 55/2003 þar sem kærði ákveður að losa sig ekki við það eða er gert að losa sig við það eins og áskilið er í umræddu lagaákvæði. Af því leiðir að efnisreglur reglugerðar (EB) nr. 1774/2002, sbr. reglugerð nr. 108/2010, gilda um meðhöndlun og ráðstöfun þeirra aukaafurða sem falla til við fiskvinnslu kærða og hið kærða starfsleyfi nær til.

Með vísan til forsendna ráðuneytisins sem raktar eru í III. kafla er það mat ráðuneytisins að umrædd starfsemi hafi ekki falið í sér endurvinnslu á úrgangi heldur tiltekna nýtingu á aukaafurðum dýra og að Heilbrigðisnefnd Vesturlands sé ekki lögbært stjórnvald til að veita starfsleyfi vegna umræddrar starfsemi.

Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun um starfsleyfi til Félagsbúsins Miðhrauns 2 sf. fyrir endurvinnslu fiskúrgangs.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 3. nóvember 2011 um útgáfu starfsleyfis til Félagsbúsins Miðhrauns 2 sf. fyrir endurvinnslu fiskúrgangs er felld úr gildi.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson                                                       Kjartan Ingvarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta