Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR12110268
Ár 2012, þann 20. nóvember er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR 12110268
Kæra Haraldar Yngva Péturssonar og Ellerts Guðjónssonar
á úrskurði
nefndar, skv. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998
I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Þann 16. nóvember 2012 barst ráðuneytinu kæra Haraldar Yngva Péturssonar, kt. xxxxxx-xxxx, [...] og Ellerts Guðjónssonar, kt. xxxxxx-xxxx, [...], báðum í Garðabæ, þar sem kærður er úrskurður nefndar sem skipuð var skv. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, með síðari breytingum, (hér eftir nefnd kjörnefndin) til að úrskurða um kæru þeirra vegna atkvæðagreiðslu sem fram fór þann 20. október 2012 um sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness.
Kröfur kærenda eru eftirfarandi:
Aðallega að innanríkisráðuneytið taki undir kröfur kærenda í kæru til sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 26. október 2012, þess efnis að atkvæðagreiðsla um sameiningu Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness verði úrskurðuð ógild og að boðað verði til nýrrar atkvæðagreiðslu um sameininguna svo fljótt sem auðið er að undangenginni óhlutdrægri kynningu á kostum og göllum sameiningar Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness.
Til vara að ráðuneytið vísi málinu aftur til kjörnefndar þeirrar er skipuð var af sýslumanninum í Hafnarfirði 30. október 2012 til efnislegrar umfjöllunar.
Til þrautavara, ef ráðuneytið líti svo á að kæruefnið snúi ekki að lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, með síðari breytingum, heldur að sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, með síðari breytingum, að það taki kæruna til umfjöllunar á grundvelli XI. kafla sveitarstjórnarlaga. Kröfugerð er sú sama og í aðalkröfu.
Kært er á grundvelli 3. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998 og barst kæran innan kærufrests samkvæmt því ákvæði.
II. Úrskurður kjörnefndar
Úrskurður kjörnefndar er svohljóðandi:
Ár 2012, föstudaginn 9. nóvember, kom kjörnefnd saman til fundar til þess að fjalla um og úrskurða um kæru tveggja íbúa í Garðabæ vegna kosningar um sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness þann 20. október 2012. Kærð var kosningin í Garðabæ. Nefndin var skipuð af sýslumanninum í Hafnarfirði 30. október 2012 samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórnar nr. 5/1998 og eru nefndarmenn Stefán BJ. Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, sem er formaður nefndarinnar, Berglind Svavarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og Logi Egilsson, héraðsdómslögmaður.
Var nú í málinu upp kveðinn svofelldur
ÚRSKURÐUR
Með bréfi dagsettu þann 26. október 2012, kærðu þeir Haraldur Yngvi Pétursson, kt. xxxxxx-xxxx, [...], 210 Garðabæ og Ellert Guðjónsson, kt. xxxxxx-xxxx, [...], 210 Garðabæ, atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness, þann 20. október 2012.
Kærendur krefjast þess að atkvæðagreiðslan verði úrskurðuð ógild og að boðað verði til nýrrar atkvæðagreiðslu um sameininguna svo fljótt sem auðið er að undangenginni óhlutdrægri kynningu á kostum og göllum sameiningar Garðabæjar og Álftaness.
Málsatvik.
Þann 20. október 2012 fór fram kosning um sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness. Úrslit atkvæðagreiðslunnar voru þau að sameining var samþykkt í báðum sveitarfélögunum. Í Garðabæ sögðu 52,1% kjósenda já eða alls 2.822. Alls sögðu 46% nei eða 2.492. Auðir seðlar og ógildir voru 1,9% eða 103 talsins. Á kjörskrá voru 8.506 en alls greiddu 5.417 atkvæði eða 63,68%.
Á Álftanesi sögðu 87,6% íbúa já við sameiningu eða 1.098. Nei sögðu 11,5% eða 144. Auðir seðlar og ógildir voru 0,9% eða samtals 12. Á kjörskrá voru 1.659 en alls kusu 1.248 eða 75,2%.
Kærendur kærðu kosninguna til sýslumannsins í Hafnarfirði þann 26. október 2012. Þann 30. október 2012 skipaði sýslumaður kjörnefnd með vísan til 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, sem óskaði þann sama dag eftir lögboðinni umsögn yfirkjörstjórnar Garðabæjar. Einnig var óskað umsagnar yfirkjörstjórnar Álftaness. Umsögn yfirkjörstjórnanna beggja barst nefndinni 5. nóvember 2012. Kæra kærenda lýtur eingöngu að sameiningarkosningum í Garðabæ.
Málsástæður kærenda:
Krafa kærenda um að atkvæðagreiðslan verði úrskurðuð ógild byggir á því að ekki hafi verið rétt að málum staðið í opinberri kynningu fyrir kjósendur á kostum og göllum þess að sameina sveitarfélögin. Vísa kærendur til 5. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 93. gr. laga nr. 5/1998. Telja kærendur að kynningarefnið sem og framsetning á upplýsingum sem staðið hafi kjósendum til boða hafi verið til þess fallið að draga fram hlutdrægt mat, sem einkenndist af lýsingum á kostum sameiningarinnar en ekki göllum. Fyrir vikið hafi stór hluti kjósenda gengið til atkvæðagreiðslunnar óupplýstur um ókosti sameiningarinnar. Í ljósi þess að aðeins hefðu 166 atkvæði þurft að falla á annan veg og að kjörsókn hafi einungis verið 63,68% telja kærendur verulegar líkur á að atkvæðagreiðslan hefði farið með öðrum hætti ef kynningarefni á kostum og göllum sameiningarinnar hefði verið útbúið og kynnt með óhlutdrægum hætti.
Kærendur byggja á því að kostirnir hafi byggt á hlutdrægu mati Samstarfsnefndar og gildishlaðnar um ávinning sameiningar. Skautað hafi verið fram hjá því að skuldir ykjust um 25% við sameiningu og sé gert lítið úr þeim þætti í kynningu, sem kærendur telja íþyngjandi. Þá telja kærendur að kynningunni á heimasíðunni www.okkarval.is, hafi verið ábótavant, á sama hátt hafi þar verið kynnt með hlutdrægum hætti kostir sameiningar, sem og í kynningarbæklingi.
Telja kærendur niðurstöðu kosninganna hafa orðið aðra ef óhlutdræg kynning hefði verið uppi höfð. Vísa kærendur um rökstuðning til 3. og 4. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, 94., gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Sjónarmið yfirkjörstjórnar Garðabæjar.
Yfirkjörstjórn Garðabæjar telur að kæruefnið varði álitamál er lúti að stjórnsýslu sveitarfélagsins samkvæmt sveitarstjórnarlögum en ekki formlegum undirbúningi og framkvæmd kosninganna sem sé í verkahring eða á valdsviði kjörstjórnar. Kjörstjórn Garðabæjar telur því að kæran geti ekki að efni til komið til úrskurðar á grundvelli 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna og beri að vísa henni frá.
Komi kæran hins vegar til efnislegrar meðferðar þá telur yfirkjörstjórn Garðabæjar að kærunni beri að hafna og niðurstöður atkvæðagreiðslu um sameiningu Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar standi óhaggaðar. Yfirkjörstjórn bendir á að skilyrðum ákvæðis 119. gr. sveitarstjórnarlaganna um form á kynningu á tillögu um sameiningu Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar og undirbúning atkvæðagreiðslu um tillöguna hafi verið uppfyllt.
Hvað varði efni kynningar þá vísar yfirkjörstjórnin til þess að engin fyrirmæli eða fyrirvara sé að finna í ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Það hvernig staðið sé að slíkri kynningu sé háð frjálsu mati og á ábyrgð sveitarstjórnar og fulltrúa hennar. Styðjist sú túlkun við umfjöllun í athugasemdum við frumvarp til sveitarstjórnarlaga en þar segi meðal annars: „Tillögu þá sem greiða skal atkvæði um skal kynna með góðum fyrirvara sem og helstu forsendur hennar. Hvað teljast helstu forsendur getur verið breytilegt en a.m.k. verður að telja mikilvægt að kynning sameiningartillögu fylgi helstu rök sem búa henni að baki. Þau geta lotið að fjárhagslegri hagræðingu, aukinni fagþekkingu og sjálfstæði sveitarfélagsins, styrkingu byggðar, vinnuálagi á sveitarstjórnarmenn eða einfaldlega byggst á tilteknum pólitískum skoðunum sem ekki hafa neitt með nefnd atriði að gera“.
Þá byggir yfirkjörstjórnin á að kynningarefnið eða framsetning þess sé ekki á verksviði kjörstjórnar enda ekki þáttur í formlegum undirbúningi eða framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Ákvarðanir og aðferðir í þessu sambandi sæti almennu stjórnsýslueftirliti ráðherra samkvæmt 109. gr. sveitarstjórnarlaga en geti ekki komið til álita sem kæruefni á grundvelli 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.
Niðurstaða.
Kæra kærenda lýtur að því að kynning sú sem bæjarbúar í Garðabæ hafi fengið vegna tillögu um sameiningu sveitarfélaganna hafi verið hlutdræg og íbúar hafi verið óupplýstir um galla sameiningar sveitarfélaganna Álftaness og Garðabæjar. Byggja kærendur á 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
Um sameiningu sveitarfélaga er fjallað í 12. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ákvæði er lúta að sameiningarkosningum og undirbúningi þeirra koma fram í 119. gr. sveitarstjórnarlaganna. 4. mgr. 119. gr. kveður á um hvernig skuli standa að kynningu á þeirri tillögu af hálfu sveitarfélaganna en þar kemur fram að kynna skuli íbúum sveitarfélaganna þá tillögu sem greiða skal atkvæði um og helstu forsendur hennar með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara. Samkvæmt 5. mgr. 119. gr. s.l. fer um atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga eftir lögum nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við getur átt.
Lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 taka til undirbúnings og framkvæmd kosninga, m.a. um kjörskrár, framkvæmd kosninga utan kjörfundar og á kjörfundi, hlutverk kjörstjórna og undirbúning kosninga. Um kynningu vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga er fjallað í 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Að mati kjörnefndar hafa kærendur ekki sýnt fram á að um brot á formskilyrðum 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sé að ræða. Þá er ekki vikið að því í kæru að lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 hafi verið brotin.
Með vísan til framangreinds þá telur kjörnefnd að kæruefnið varði ágreining er lýtur að stjórnsýslu sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum en ekki formlegum undirbúningi né framkvæmd kosninganna og fellur þar af leiðandi utan valdsviðs kjörnefndarinnar.
Það er því niðurstaða kjörnefndar að vísa beri máli þessu frá.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá.
Úrskurð þennan má kæra til ráðuneytisins innan viku, samkvæmt 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
III. Sjónarmið kærenda
Kærendur mótmæla þeirri niðurstöðu kjörnefndarinnar að kynning sveitarstjórnar á kostum og göllum sameiningar hafi ekki verið hluti af formlegum undirbúningi né framkvæmd kosninganna og falli því utan valdsviðs kjörnefndarinnar. Benda kærendur á að kynningin sé órjúfanlegur hluti kosninganna og því eigi 5. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga einnig við um kynninguna og ákvæði 5. mgr. vísi til 119. gr. í heild, þ.e. allra málsgreinanna sem á undan koma og þar með talið ákvæðisins um kynningu.
Jafnframt mótmæla kærendur þeirri niðurstöðu kjörnefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að brotið hafi verið gegn formskilyrðum 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Telja þeir óljóst hvað kjörnefndin eigi við með þessu, og að þeirra mati þá sé ekkert sem takmarki hlutverk kjörnefndar við það að kanna einungis brot á formskilyrðum kosninganna. Grunur um efnislegan ágalla á kosningu, þ.m.t. kynningu, sé mun alvarlegri heldur en ef um formgalla væri að ræða. Telja kærendur að verulegar líkur séu á því að galli á kynningarefninu hafi haft áhrif á niðurstöðuna, en meginreglan er sú að gallar leiði ekki til ógildingar nema ætla megi að gallinn hafi haft áhrif á úrslitin, sbr. 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Benda kærendur á að það sé augljóslega til þess fallið að hafa veruleg áhrif á kosningu ef rangt er staðið að kynningu þess sem kjósa á um. Kjörnefndin eigi því að túlka valdsvið sitt með hliðsjón af þessu, þ.e. þeim tilgangi sem býr að baki kæruheimild í stjórnsýslulögum, þ.e. að varna því að stjórnvöld þ.m.t. sveitarfélög taki rangar ákvarðanir.
Kærendur mótmæla þeirri afstöðu kjörnefndar sem kemur fram í hinum kærða úrskurði, að í sveitarstjórnarlögum sé ekki að finna ákvæði um það hvernig staðið skuli að kynningu á sameiningu sveitarfélaga og því sé slík kynning háð frjálsu mati og á ábyrgð sveitarstjórna og fulltrúa hennar. Í því sambandi benda kærendur á 107. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem fjallað er um þær kröfur sem gerðar eru til sveitarstjórna í aðdraganda íbúakosninga, s.s. varðandi kynningu, en þeir telja að kosningar um sameiningu tveggja sveitarfélaga séu íbúakosningar í eðli sínu. Kosningar um sameiningu sveitarfélaga séu mikilvægari og afdrifaríkari í eðli sínu en almennar íbúakosningar, enda verið að sameina tvö sjálfstæð stjórnsýsluumdæmi. Telja kærendur að mikilvægi kosninga um sameiningu sveitarfélaga sé áréttað af hálfu löggjafans. Í fyrsta lagi með því að hafa sérstakan kafla í sveitarstjórnarlögum um sameiningar sveitarfélaga. Í öðru lagi með því að hafa fyrirvara varðandi boðun atkvæðagreiðslu um sameiningu tvöfalt lengri en til annarra íbúakosninga skv. 107. gr. sveitarstjórnarlaga og í þriðja lagi með því að í sveitarstjórnarlögum er sérstaklega tekið fram að sú tillaga sem greiða eigi atkvæði um og forsendur hennar, skuli kynnt íbúum sveitarfélaganna svo sem með kynningarfundum og/eða dreifibréfum.
Þá telja kærendur að vegna mikilvægis kosninga um sameiningu sveitarfélaga séu skyldur sveitarstjórna ríkari er varða kynningu heldur en í almennum íbúakosningum um önnur mál og a.m.k sé ekki hægt að gera minni kröfur til sveitarstjórna um kynningu á tillögu til sameiningar en ef um almenna íbúakosningu væri að ræða.
Kærendur telja að það kynningarefni sem borið hafi verið í hús kjósenda í Garðabæ geti ekki talist fullnægjandi og því hafi kjósendur ekki geta gengið upplýstir til kosninga. Það kunni að vera matsatriði hvenær upplýsingar teljist nægilega upplýsandi, en kærendur telja það lágmarkskröfu að gerð sé grein bæði fyrir kostum og göllum tillögunnar, en í því kynningarefni sem dreift var, var lögð áhersla á kosti sameiningarinnar umfram galla. Kynningarefni var sett á vefsíðuna www.okkarval.is en um mjög einhliða, gildishlaðna og skoðanamyndandi kynningu var að ræða. Þá benda kærendur á að dreifibréf hafi verið sent kjósendum átta dögum fyrir kjördag og því hafi verið lítill fyrirvari til þess að koma andstæðum sjónarmiðum á framfæri.
Kærendur benda einnig á að skv. 4. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga skuli kynna þá tillögu sem greiða skal atkvæði um með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara og telja þeir að dreifing kynningarefnis í Garðabæ hafi ekki verið í samræmi við það ákvæði. Þá var einungis haldinn einn almennur kynningarfundur um sameininguna og var hann haldinn þremur dögum fyrir kjördag.
Telja kærendur að sveitarstjórn hafi brugðist skyldu sinni með því að kynna ekki önnur sjónarmið en samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna og því beri að ógilda kosninguna þar sem kjósendur í Garðabæ hafi gengið til kosninganna óupplýstir um galla sameiningar, kosti þess að sameinast ekki Sveitarfélaginu Álftanesi og mögulega galla þess að sameinast ekki Sveitarfélaginu Álftanesi. Fallast þeir ekki á að gallar sameiningar hafi verið kynntir íbúum Garðabæjar til hlýtar og með óhlutdrægnum hætti og því síður að kostir og gallar þess að sameinast ekki Sveitarfélaginu Álftanesi hafi verið kynntir kjósendum í Garðabæ.
Loks óska kærendur eftir því líkt og þeir gerðu í kæru sinni til sýslumannsins í Hafnarfirði að öll gögn er varði málið verði rannsökuð, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og vekja jafnframt athygli á 13.-15. gr. sömu laga.
Þá vísa kærendur að öðru leyti til kæru þeirra til sýslumannsins í Hafnarfirði hvað varðar atriði sem ekki hafa komið fram í kæru þeirra til ráðuneytisins.
Ráðuneytið óskaði, símleiðs þann 20. nóvember 2012, eftir gögnum frá kjörnefndinni, þ.e. þeim gögnum er nefndin hafi undir höndum er hún kvað upp úrskurð sinn og bárust umbeðin gögn samdægurs.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
Kærendur bera mál þetta undir ráðuneytið og krefjast þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að atkvæðagreiðsla um sameiningu Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness verði úrskurðuð ógild og að boðað verði til nýrrar atkvæðagreiðslu um sameininguna svo fljótt sem auðið er að undangenginni óhlutdrægri kynningu á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Til vara, að ráðuneytið vísi málinu aftur til kjörnefndarinnar til efnislegrar umfjöllunar og til þrautavara, ef ráðuneytið líti svo á að kæruefnið snúi ekki að lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 heldur að sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, að það taki kæruna til umfjöllunar á grundvelli XI. kafla sveitarstjórnarlaga. Kröfugerð í þrautavarakröfu er hin sama og í aðalkröfu.
Í lögum um kosningar til sveitarstjórna er m.a. fjallað um undirbúning og framkvæmd kosninga, m.a. um kosningarétt, kjörgengi, gerð kjörskrár, hlutverk kjörstjórna, kjörgögn og atkvæðagreiðslu bæði utan kjörfundar og á. Í XIV. kafla laganna er kveðið á um kosningakærur vegna sveitarstjórnarkosninga og skv. 1. mgr. 93. gr. laganna skal sá sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu afhenda kæru sína hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga. Skal sýslumaður þá skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið. Þeim úrskurði má skjóta til ráðuneytisins.
Í XII. kafla sveitarstjórnarlaga er fjallað um sameiningar sveitarfélaga og í 119. gr. laganna er lýst þeirri málsmeðferð sem fara þarf fram þegar tvær eða fleiri sveitarstjórnir ákveða að leita afstöðu íbúa sinna um vilja til sameiningar við önnur sveitarfélög. Er þar m.a. kveðið á um hvernig staðið skuli að kynningu á sameiningartillögu. Í 5. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga er m.a. kveðið á um, að um atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga fari eftir ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við getur átt.
Kæran byggist á því að ekki hafi verið farið að ákvæðum 119. gr. sveitarstjórnarlaga við undirbúning kosninganna, að því leyti að ekki hafi verið staðið rétt að kynningu þeirrar tillögu sem kosið var um.
Í 5. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga er vísað til þess að um atkvæðagreiðslu vegna sameiningartillögu skuli farið eftir ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við getur átt. Verður þetta ákvæði ekki skilað á annan veg en þann að vísað sé til þess að lögin um kosningar til sveitarstjórna gildi um framkvæmd kosninganna, þ.e. ef ágreiningur er uppi um atriði sem kveðið er á um í lögum nr. 5/1998, eins og t.d. gerð kjörskrár eða sjálfa atkvæðagreiðsluna. Um slíkt er ekki að ræða í máli þessu heldur er um það að ræða að kærendur telja að stjórnsýslu Garðabæjar við undirbúning að kosningu um sameiningu við Sveitarfélagið Álftanes hafi verið ábótavant, þ.e. það hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem því bar skv. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkur ágreiningur á ekki undir lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
Á grundvelli framangreinds er aðal- og varakröfu kærenda hafnað.
Í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Vísar orðalagið „ákvarðanir um rétt eða skyldu manna“ til 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það eru því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.
Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt að skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Ljóst er að hvorki kynning vegna kosninga um tillögu til sameiningar sveitarfélaganna Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness né atkvæðagreiðsla þar að lútandi, eru stjórnvaldsákvarðanir í framangreindum skilningi. Er því ljóst að ráðuneytið getur ekki fjallað um málið sem stjórnsýslukæru á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga. Ráðuneytið mun hins vegar taka til athugunar hvort ástæða sé til að aðhafast frekar í málinu á grundvelli almennrar eftirlitsskyldu þess skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga.
Með vísan til framangreinds og forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Fyrir hönd ráðherra
Bryndís Helgadóttir Hjördís Stefánsdóttir