Synjun Vinnumálastofnunar frá 6. desember 2005. Frávísun.
Föstudaginn 28. júlí 2006 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 5. janúar 2006, sem barst ráðuneytinu 24. febrúar 2006, kærði A, f.h. B ehf., kt. X, synjun Vinnumálastofnunar, dags. 6. desember 2005, um veitingu atvinnuleyfis fyrir D, sem er frá Kosovo, fd. Y.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar um veitingu atvinnuleyfis til handa B ehf. í því skyni að ráða til starfa D, sem er frá Kosovo. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 27. febrúar sl., þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 3. janúar sl. en samkvæmt 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Því teldist viðkomandi kæra hafa borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti.
Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Því óskaði ráðuneytið eftir að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti og var frestur veittur til 14. mars sl.
Ráðuneytinu barist svarbréf frá E, hrl., 13. mars sl., þar sem fram kemur að kærandi hafi falið honum að svara fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins. Í bréfinu kemur jafnframt fram að ástæða þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti sé að kærandi hafi nýverið gengist undir hjartaskurðaðgerð og hafi því ekki getað gengið frá umræddri stjórnsýslukæru innan kærufrestsins en engin frekari gögn fylgdu því til staðfestingar.
Ráðuneytið taldi ástæðu til að óska frekari staðfestingar á veikindum kæranda og fór því þess á leit við kæranda með bréfi, dags. 14. mars sl., að hann aflaði læknisvottorðs þar sem fram kæmi hvenær umrædd hjartaskurðaðgerð hefði farið fram og á hvaða tímabili kærandi hefði verið frá vinnu vegna veikinda sinna. Frestur var veittur til 21. mars sl. en þann dag óskaði E, hrl., símleiðis eftir lengri fresti til að koma með umbeðið læknisvottorð og var fresturinn veittur af starfsmanni ráðuneytisins. Þar sem engin gögn bárust frá kæranda í kjölfarið ítrekaði ráðuneytið með bréfi, dags. 4. apríl sl., fyrri beiðni sína um frekari gögn sem styddu þá fullyrðingu kæranda að ástæða þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti væri að forsvarsmaður fyrirtækisins hefði átt við veikindi að stríða. Frestur til að koma umbeðnum gögnum til ráðuneytisins var framlengdur til 21. apríl sl. Þar sem umrædd gögn hafa enn ekki borist ráðuneytinu verður byggt á þeim gögnum sem þegar liggja fyrir í málinu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfa til félagsmálaráðuneytisins. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar en að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um stjórnsýslukæru. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Í gögnum málsins kemur fram að ástæða þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti sé að kærandi hafi nýverið gengist undir hjartaskurðaðgerð og hafi því ekki getað sent stjórnsýslukæru til ráðuneytisins innan kærufrestsins. Þessi fullyrðing kæranda hefur ekki verið studd frekari gögnum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir ráðuneytisins þar um. Liggur því ekki fyrir hvenær umrædd aðgerð fór fram og á hvaða tímabili kærandi var frá vinnu vegna veikinda sinna.
Það er því mat ráðuneytisins, miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu, að ekki hafi verið sýnt nægjanlega fram á að ætluð veikindi kæranda hafi haft slík áhrif á getu hans til að kæra synjun Vinnumálastofnunar innan lögbundins kærufrests að afsakanlegt verði talið í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki ráðið af málsatvikum að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið skortir því heimildir að lögum til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar og ber að vísa erindi kæranda frá ráðuneytinu, sbr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stjórnsýslukæru A, f.h. B ehf., dags. 5. janúar 2006, sem barst ráðuneytinu 24. febrúar 2006, vegna synjunar Vinnumálastofnunar, dags. 6. desember 2005, um veitingu atvinnuleyfis fyrir D, sem er frá Kosovo, er hér með vísað frá félagsmálaráðuneytinu.
F.h.r.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir (sign)
Bjarnheiður Gautadóttir (sign)