Kæra vegna synjunar Embættis landlæknis um veitingu starfsleyfis sem tannsmiður
Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 002/2015
Fimmtudaginn 9. apríl 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með bréfi, dags. 4. júní 2014, kærði A, fyrir hönd B (hér eftir nefnd kærandi), til velferðarráðuneytisins ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 11. mars 2014, um að synja kæranda um starfsleyfi sem tannsmiður.
I. Kröfur.
Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 11. mars 2014, verði felld úr gildi og kæranda verði veitt starfsleyfi sem tannsmiður.
II. Málsmeðferð ráðuneytisins.
Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 11. júní 2014, eftir umsögn Embættis landlæknis og öllum gögnum varðandi málið. Embættið óskað eftir viðbótarfresti til 15. ágúst 2014 til að skila umsögn í málinu og var orðið við þeirri ósk. Umsögn embættisins ásamt gögnum barst velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 15. ágúst 2014, og var kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 2014, send umsögn Embættis landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kærandi óskaði með tölvupósti, dags. 1. september 2014, eftir viðbótarfresti til 9. september 2014, til að koma að athugasemdum og var orðið við þeirri ósk. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 8. september 2014.
III. Málavextir.
Samkvæmt kæru eru málsatvik þau að kærandi lauk námi sem basistandtekniker frá Köbenhavns Tekniske Skole. Kærandi lauk síðan námi laboratorietandtekniker frá sama skóla. Kærandi sendi Embætti landlæknis umsókn um starfsleyfi sem tannsmiður þann 10. september 2013 ásamt gögnum. Embætti landlæknis sendi umsóknina til umsagnar til tannlæknadeildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands með bréfi, dags. 31. október 2013, og barst umsögn tannlæknadeildar með bréfi, dags. 28. nóvember 2013. Umsögnin var send kæranda með bréfi embættisins, dags. 17. desember 2013, og henni gefinn kostur á að koma að frekari upplýsingum. Óskaði kærandi eftir frekari fresti til 15. janúar 2014. Kærandi sendi með bréfi, dags. 30. janúar 2014, „staðfestingu á starfsleyfi umsækjanda í Danmörku“ og óskaði kærandi eftir nýrri umsögn tannlæknadeildar, en ekki var orðið við þeirri beiðni.
Umsókn kæranda um starfsleyfi sem tannsmiður var synjað með bréfi Embættis landlæknis, dags. 11. mars 2014.
IV. Málsástæður og lagarök kæranda.
Í kæru, dags. 4. júní 2014, kemur meðal annars fram að kærandi telji að um kæruna gildi auk stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, reglugerð um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, nr. 1123/2012, svo og tilskipun 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Í bréfi Embættis landlæknis, dags. 11. mars 2014, komi fram að samkvæmt mati tannlæknadeildar uppfylli kærandi hvorki skilyrði laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, né reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, nr. 1123/2012.
Þá kemur og fram að kærandi telji að töluverðs misskilnings gæti við túlkun tilskipunar 2005/36/EB þar sem kærandi hafi „starfsleyfi“ frá Köbenhavns Tekniske Skole og hafi frumrit framangreinds starfsleyfis verið sent til embættisins með bréfi, dags. 30. janúar 2014. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1123/2012 og 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 461/2011.
Kærandi telur ljóst að laboratorietandtekniker sé lögverndað starfsheiti í Danmörku og að námið uppfylli kröfur og því verði ekki séð á hvaða ákvæðum embættið hafi byggt synjun sína um útgáfu starfsleyfis.
Embættið hafi vísað til 8. gr. Norðurlandasamnings um sameiginlegan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir, sem birtur var með auglýsingu nr. 36/1993, sbr. breytingu sem birt var með auglýsingu nr. 6/2001. Embættið hafi talið að þar sem ekki sé vísað til Íslands í greininni sé ekki til staðar heimild til að veita starfsleyfi. Rök embættisins séu undarleg þar sem ekki verði séð hvernig gagnályktun við lögskýringu á greininni, vegna þess að ekki sé minnst á Ísland í greininni, þá sé ekki heimilt að veita starfsleyfi.
Þá telur kærandi að ákvæði reglugerðar nr. 461/2011 víki ekki fyrir ákvæðum Norðurlandasamningsins og ekki beri að túlka þannig að með honum sé verið að taka rétt af ríkisborgurum EES-ríkjanna. Embættið hafi því brotið ákvæði reglugerðarinnar með því að synja kæranda um starfsleyfi sem tannsmiður. Kærandi telur mikilvægt að líta til þess að hún hafi fullgild réttindi til að starfa sem tannsmiður í Danmörku og því sé eðlilegt að nám kæranda í Danmörku sé borið saman við það nám sem boðið sé upp á í tannlæknadeild Háskóla Íslands. Kærandi hafi starfað hér á landi við tannsmíði í umboði annars tannsmiðs, en töluverður fjöldi tannsmiða hér á landi sé með menntun frá sama skóla og kærandi.
Í andmælum kæranda, dags. 8. september 2014, kemur meðal annars fram að kærandi telur að embættið hafi misskilið umsókn um starfsleyfi. Kærandi hafi sótt um starfsleyfi sem tannsmiður, en ekki sem klínískur tannsmiður. Munur sé á þessum starfsheitum, en klínískur tannsmiður sé háskólamenntun. Þeir hafi heimild til að vinna í munnholi, en tannsmiður (laboratorietandtekniker) ekki, en þeir smíði laus og föst tanngervi í samstarfi við tannlækna. Á hinum Norðurlöndunum sé nám laboratorietandtekniker frá Danmörku viðurkennt þótt menntunin hafi verið færð upp í BS-gráðu á hinum Norðurlöndunum. EES-samningurinn gildi á öllum Norðurlöndunum og því beri „að beita reglunni um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda hér á landi eins og í öðrum EES-ríkjum“.
Þá bendir kærandi á máli sínu til stuðnings á að hún hafi verið á námslánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna allan námstímann í Danmörku, en til að svo sé þurfi nám að vera viðurkennt af íslenskum stjórnvöldum. Fjöldi tannsmiða með starfsleyfi hér á landi hafi stundað sams konar nám og kærandi og því sé afar óeðlilegt að kæranda sé synjað um starfsleyfi sem tannsmiður.
Þá telur kærandi að eins og bent hafi verið á sé ljóst að EES-ríki geti ekki „meinað aðila um viðurkenningu á starfsréttindum sem aflað hefur verið í öðru EES-ríki. Hið rétta er að viðurkenna réttindin, benda á leiðir til að ná fullri viðurkenningu með viðbótar í námi/kúrsum eða óska eftir því að viðkomandi aðili starfi hjá öðrum tannsmiði í ákveðinn tíma.“ Kærandi hafi starfað hjá öðrum tannsmið frá september til desember 2013, eins og fram komi í vottorði, dags. 10. júní 2014.
V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.
Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 15. ágúst 2014, er málsmeðferð embættisins rakin. Kærandi hafi með bréfi, dags. 11. september 2013, sótt um starfsleyfi sem tannsmiður og umsóknin verið send til umsagnar til tannlæknadeildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands með bréfi, dags. 31. október 2013. Umsögn tannlæknadeildar, dags. 28. nóvember 2013, hafi verið send kæranda með bréfi, dags. 17. desember 2013, og gefinn kostur á að koma að frekari upplýsingum. Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 30. janúar 2014, hafi fylgt staðfesting á starfsleyfi umsækjanda í Danmörku, og óskað eftir því að tannlæknadeild gæfi nýja umsögn, en embættið hafi ekki orðið við þeirri ósk kæranda.
Þá eru í umsögn Embættis landlæknis rakin skilyrðin fyrir veitingu starfsleyfis sem tannsmiður. Vísað er til 6. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og 2. og 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, nr. 1123/2012.
Fram komi í umsögn tannlæknadeildar, dags. 28. nóvember 2013, meðal annars:
Að mati Tannlæknadeildar uppfyllir umsóknin ekki kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 og reglugerð nr. 1123/2012 um starfsleyfi fyrir tannsmiði á Íslandi.
[…]
Í Danmörku eru a) „Basi[k]s tandtekniker“, b)„Laboratorietandtekniker“ og c) „Klinisk tandtekniker“. Þeir tveir fyrrnefndu flokkast sem faglærðir og útskrifast sem slíkir án sérstaks starfsleyfis. Hins vegar eru „Klinisk tandtekniker“ starfsleyfisskyldir og skráðir hjá danska heilbrigðisráðuneytinu.
Niðurstaða tannlæknadeildar var sú að umsækjandi uppfyllti ekki kröfur sem gerðar væru til að öðlast starfsleyfi sem tannsmiður á Íslandi.
Þá telji embættið að samkvæmt gögnum málsins sé laboratorietandtekniker frá Københavns Tekniske Skole ekki það sama og klinisk tandtekniker. Starfsleyfi til að starfa sem klinisk tandtekniker í Danmörku sé veitt af Sundhedsstyrelsen en kærandi hafi ekki lagt fram slíkt leyfi, þótt kærandi hafi haldið öðru fram í kæru. Embættið telji kæranda ekki hafa lokið námi sem klinisk tandtekniker, í Danmörku. Af námslýsingu og inntökuskilyrðum fyrir annars vegar klinisk tandtekniker og hins vegar laboratorietandtekniker megi ráða að um sé að ræða hvort námið um sig á mismunandi námsstigum sem leiði ekki til sama starfsheitis. Til að fá inngöngu í nám sem klinisk tandtekniker þurfi umsækjandi að hafa reynslu sem laboratorietandtekniker eða samsvarandi reynslu. Í bréfi Københavns Tekniske Skole, dags. 13. janúar 2014, segi að umsækjandi hafi lokið námi „som Tandtekniker indenfor fast og aftagelig protetik“. Þá komi fram í framangreindu bréfi að kærandi geti starfað sem slík án starfsleyfis frá Sundhedsstyrelsen. Að mati landlæknis geta klinisk tandtekniker, ekki starfað sem slíkir í Danmörku nema með leyfi frá Sundhedsstyrelsen.
Loks er í umsögn embættisins bent á að í kæru komi fram að kærandi hafi starfsleyfi frá Københavns Tekniske Skole og er vísað til framangreinds bréfs, dags. 13. janúar 2014. Ekki verði þó séð að bréfið feli í sér starfsleyfi, með vísan til þess að það sé Sundhedsstyrelsen sem sé bært stjórnvald í Danmörku til að gefa út starfsleyfi til handa tannsmiðum (klinisk tandtekniker).
Embættið vísar um frekari rökstuðning til bréfs embættisins, dags. 11. mars 2014.
VI. Niðurstaða ráðuneytisins.
Kæran lýtur að synjun Embættis landlæknis á útgáfu starfsleyfis sem tannsmiður til handa kæranda. Kærandi fer fram á að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Embættis landlæknis og úrskurði að kæranda verði veitt starfsleyfi sem tannsmiður hér á landi.
Kærandi lauk námi frá Köbenhavns Tekniske Skolesem basistandtekniker samkvæmt prófskírteini, (Diplom) dags. 14. desember 2011, og sem laboratorietandtekniker samkvæmt prófskírteini, (Diplom) dags. 8. febrúar 2013, sbr. einnig vottorð frá skólanum, dags. 17. mars 2013. Þá er í gögnum málsins bréf frá Köbenhavns Tekniske Skole, dags. 13. janúar 2014, þar sem staðfest er að kærandi hafi lokið námi sem tandtekniker og sé hæf til að vinna sem slík án frekari heimilda frá Sundhedsstyrelsen.
Samkvæmt upplýsingum frá Sundhedsstyrelsen eru kliniske tandteknikere löggiltir í Danmörku. Menntun laboratorietandtekniker (Erhvervsuddannels) er fjögur ár, tvö og hálft ár sem basistandtekniker og eitt og hálft ár til viðbótar til að verða laboratorietandtekniker. Námið fer fram í starfsmenntaskóla. Laboratorietandtekniker er ekki löggilt starfsgrein í Danmörku og hafa þeir ekki rétt til löggildingar sem kliniske tandteknikere, en klinisk tandtekniker
(Erhvervsakademiuddannelse) er tveggja ára nám (120 ECTS-einingar) til viðbótar við laboratorietandtekniker nám.
Með vísan til rökstuðnings í kæru, andmælum kæranda, dags. 8. september 2014, og umsögn Embættis landlæknis telur ráðuneytið rétt að upplýsa um eftirfarandi:
Fagstéttin tannsmiður var löggilt sem heilbrigðisstétt skv. 31. tölul. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012. Þá voru með reglugerð um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, nr. 1123/2012, sem sett er með stoð í lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, sett ákvæði meðal annars um skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta leyfi til að nota heiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi.
Tannsmíði var áður löggilt iðngrein og heyrði undir iðnaðarráðuneytið, sbr. lög um starfsréttindi tannsmiða, nr. 109/2000, sbr. og reglugerð um starfsréttindi tannsmiða, nr. 904/2000. Þá voru tannsmiðir taldir upp í 1. gr. reglugerðar nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar. Í framhaldi af ósk Tannsmiðafélags Íslands og að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Háskóla Íslands, Tannlæknafélag Íslands o.fl. aðila var ákveðið að leggja til að tannsmiðir yrðu heilbrigðisstétt. Þeir tannsmiðir sem öðlast höfðu starfsréttindi fyrir gildistöku laga nr. 34/2012 og reglugerðar nr. 1123/2012 héldu öllum sínum réttindum. Tannsmiðum sem lokið höfðu sveinsprófi í tannsmíði gafst, eftir löggildingu stéttarinnar sem heilbrigðisstétt, tækifæri á að ljúka 60 ECTS-eininga viðbótarnámi við tannlæknadeild til BS-prófs í tannsmíði, en námsleiðin er ekki lengur í boði hjá tannlæknadeild.
Umsækjendur um nám í tannsmíði við tannlæknadeild Háskóla Íslands þurfa að uppfylla inntökuskilyrði deildarinnar og undirgangast inntökupróf, en skólavist takmarkast við fimm nemendur á ári. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 1123/2012 er skilyrði til að mega kalla sig tannsmið og starfa sem slíkur hér á landi skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að lokið hafi verið BS-prófi frá tannlæknadeild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er enn fremur heimilt að veita starfsleyfi á grundvelli menntunar í EES-ríki eða Sviss, en um það fer samkvæmt tilskipun 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sbr. reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, sem innleiðir framangreinda tilskipun, eða samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna, nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001. Þá er að lokum heimilt skv. 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar nr. 1123/2012 að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss. Síðan er kveðið á um frekari skilyrði í 13. gr. reglugerðarinnar.
Norðurlandasamningurinn um sameiginlegan vinnumarkað fyrir nokkrar heilbrigðisstéttir og dýralækna, sem birtur var með auglýsingu nr. 36/1993, sbr. og breytingu sem birt var með auglýsingu nr. 6/2001, gildir um starfsmenn sem eru ríkisborgarar í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, og sem tilheyra einhverri þeirra starfsgreina sem tilgreindar eru í viðauka I með samningnum. Enn fremur kemur meðal annars fram í inngangi samningsins að ríkisstjórnir ríkjanna telji að samningurinn hafi fyrir tilgreindar starfsgreinar reynst mikilvægur við að tryggja aðgang norrænna ríkisborgara að norrænum vinnumarkaði og að í samningsríkjunum sé menntun löggiltra starfsgreina í stórum dráttum jafngild. Um er að ræða gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa innan löggiltra starfsgreina í framangreindum ríkjum. Eins og viðauki I ber með sér falla ekki allar starfsgreinar undir samninginn þar sem þær voru ekki löggiltar sem heilbrigðisstéttir í öllum ríkjunum. Í 8. gr. samningsins, eins og honum var breytt árið 2001, var tannsmiðum bætt við. Ísland er ekki talið upp í greininni þar sem stéttin var ekki löggilt á Íslandi sem heilbrigðisstétt á þeim tíma. Laboratorietandtekniker er ekki heldur löggilt starfsgrein í Danmörku samkvæmt samningnum, en sérstaklega er kveðið á um að viðurkenna skuli sem tandtekniker í Finnlandi og Svíþjóð þá sem lokið hafi fjögurra til fimm ára námi laboratorietandtekniker við starfsmenntaskóla eða eldra námi í Danmörku sem sé viðurkennt af þess til bærum yfirvöldum fyrir laboratorietandtekniker. Þá er enn fremur kveðið á um að viðurkenna skuli í framangreindum ríkjum, þá sem fengið hafi sveinsbréf í Noregi í tannsmíði. Með vísan til framanritaðs er ljóst að ákvæðum Norðurlandasamningsins um gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa verður ekki beitt um tannsmiði hér á landi.
Þar sem nám kæranda fór fram utan Íslands ber við mat á umsókn að beita ákvæðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, nr. 1123/2012, en þar er vísað til reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, og tilskipun 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
Í II. kafla reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðru EES-ríki, nr. 461/2011, er fjallað um sjálfkrafa viðurkenningu og útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna um menntun. Reglugerðin innleiðir III. kafla tilskipunar 2005/36/EB sem fjallar um viðurkenningu á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna menntunar, sbr. 21. gr. varðandi meginregluna um sjálfkrafa viðurkenningu. Löggiltar heilbrigðisstéttir sem hér falla undir eru læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, tannlæknar og lyfjafræðingar. Aðrar löggiltar heilbrigðisstéttir falla undir III. kafla reglugerðarinnar, hið svokallaða almenna kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám, útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa þegar lágmarkskröfur um menntun eru ekki samræmdar, sbr. I. kafla III. bálks tilskipunar 2005/36/EB um staðfesturétt.
Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011, sem innleiðir 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 2005/36/EB, eru taldar upp löggiltar heilbrigðisstéttir hér á landi, aðrar en þær fimm sem falla undir sjálfkrafa viðurkenningu. Tannsmiðir eru ekki taldir upp í greininni þar sem stéttin hafði ekki verð löggilt sem heilbrigðisstétt þegar reglugerðin var birt, en stéttin var löggilt með lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, sbr. og reglugerð nr. 1123/2012. Verður því að telja að ákvæði reglugerðar nr. 461/2011 taki til tannsmiða.
Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar kemur meðal annars fram að umsækjandi eigi rétt á starfsleyfi ef hann leggur fram hæfisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist sé í öðru EES-ríki til að geta starfað þar innan löggiltra heilbrigðisstétta.
Í 2. mgr. 14. gr. kemur fram að umsækjandi um starfsleyfi með nám sem er meira en einu þrepi neðar í þrepaskiptingu menntunar og hæfis skv. 11. gr. tilskipunar 2005/36/EB, en samsvarandi menntun á Íslandi, eigi ekki rétt á starfsleyfi skv. 1. mgr. 14. reglugerðar nr. 461/2011.
Í 11. gr. tilskipunarinnar er fjallað um þrepaskiptingu menntunar og hæfis, sbr. fylgiskjal II með reglugerð 461/2011. Í 1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar segir meðal annars að við beitingu 13. gr., sem ber yfirskriftina „Skilyrði fyrir viðurkenningu“, sé fagleg menntun og hæfi flokkuð í mismunandi stig. Eru stigin fimm talsins og tilgreindir í a−e-lið greinarinnar.
Löggilta heilbrigðisstéttin kliniske tandteknikere í Danmörku er flokkuð í c-lið 11. gr. tilskipunar 2005/36/EB og þar segir:
prófskírteini sem vottar að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt
i. annaðhvort eins árs námi eftir framhaldsskólastigið, öðru en því sem getur í d- og e-lið eða samsvarandi námi í hlutanámi, þar sem eitt inntökuskilyrði er, sem almenn regla, að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun eða að lokið hafi verið samsvarandi námi á öðru stigi í framhaldsskóla auk faglega námsins sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið.“
Tannsmiðir á Íslandi sem lokið hafa BS-prófi í tannsmíði frá tannlæknadeild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands eru flokkaðir samkvæmt tilskipun 2005/36/EB undir d-lið 11. gr.m þar segir:
„prófskírteini sem vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið a.m.k. þriggja en mest fjögurra ára námi eftir framhaldsskólastigið eða samsvarandi tíma í hlutanámi við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama skólastigi og hafi, eftir atvikum lokið því faglega námi sem krafist er til viðbótar eftir framhaldsskólastigið.“
Laboratorietandtekniker í Danmörku sem eru með styttra nám en kliniske tandteknikere sem eru flokkaðir í c lið, samanber framanritað yrðu því að öllum líkindum flokkaðir í lægra þrep 11. gr. tilskipunarinnar en kliniske tandteknikere í Danmörku.
Er því ljóst að það munar meira en einu þrepi í þrepaskiptingu menntunar og hæfis skv. 11. gr. tilskipunarinnar.
Í 15. gr. reglugerðar nr. 461/2011, sbr. 2. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar, segir: „Umsækjandi sem starfað hefur í öðru EES-ríki innan starfsgreinar sem nefnd er í 1. mgr. 13. gr., þar sem starfsgreinin er ekki lögvernduð, á rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi hafi umsækjandi starfað innan starfsgreinarinnar í öðru EES-ríki í minnst tvö ár í fullu starfi eða samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum, að því tilskildu að hann leggi fram eitt eða fleiri hæfnisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi til að inna starfið af hendi. Það sama gildir um nám skv. 2. mgr. 14. gr.“
Í gögnum málsins liggur ekki fyrir að kærandi uppfylli skilyrði ákvæðisins um að hafa starfað í tvö ár innan starfsgreinarinnar.
Rétt er að geta þess að 16. gr. reglugerðar nr. 461/2011 þar sem fjallað er um uppbótarráðstafanir, sbr. 14. gr. tilskipunar 2005/36/EB, á ekki við í þessu tilviki þar sem kærandi á ekki rétt á starfsleyfi sem tannsmiður, sbr. 2. mgr. 14. gr.
Ráðuneytið telur því með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011 rétt að synja kæranda um starfsleyfi sem tannsmiður.
Fyrir löggildingu tannsmiða sem heilbrigðisstarfsmenn var þeim heimilt að starfa sem slíkir samkvæmt lögum um starfsréttindi tannsmiða, nr. 109/2000, og reglugerð um starfsréttindi tannsmiða, nr. 904/2000, sem sett var með stoð í lögum nr. 109/2000. Hér á landi eru starfandi tannsmiðir sem hafa öðlast starfsréttindi sín á grundvelli framangreindra laga og reglugerðar, bæði með menntun hér á landi og í Danmörku. Tannsmiðir sem öðlast höfðu starfsréttindi fyrir gildistöku reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, nr. 1123/2012, héldu þeim réttindum óskertum.
Lánshæfi náms hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna segir ekki til um það hvort nám viðkomandi sé ávísun á starfsréttindi innan löggiltra heilbrigðisstarfsstétta hér á landi. Í 1. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, eru heilbrigðisstéttir tilgreindar. Tannsmiðir eru löggilt stétt skv. 31. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.
Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 15. ágúst 2014, er um frekari rökstuðning vísað til ákvörðunar embættisins um synjun á útgáfu starfsleyfis frá 11. mars 2014. Þar er vísað til 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, nr. 1123/2012. Hvorki eru færð frekari rök fyrir því með hvaða hætti umsókn kæranda fellur að tilskipun 2005/36/EB né að reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstétta frá öðrum EES-ríkjum nr. 461/2011. Rökstuðningi embættisins er að mati ráðuneytisins ábótavant hvað þetta varðar en telur þó annmarkana ekki það verulega að þeir valdi ógildingu ákvörðunar Embættis landlæknis.
Með vísan til framanritaðs er synjun landlæknis frá 11. mars 2014 um útgáfu starfsleyfis til handa kæranda sem tannsmiður hér með staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu starfsleyfis sem tannsmiður til handa B er hér með staðfest.