Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Stjórnsýslukæra vegna óeðlilegra tafa á afgreiðslu máls

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 003/2015

Fimmtudaginn 9. apríl 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með tölvubréfi, dags. 15. janúar 2015, kærði A, (hér eftir nefnd kærandi), til velferðarráðuneytisins óeðlilega töf á afgreiðslu kvörtunar máls hennar hjá Embætti landlæknis, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum,

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar kæru á óeðlilegri töf á afgreiðslu kvörtunar kæranda hjá Embætti landlæknis, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. febrúar sl., var óskað eftir upplýsingum frá Embætti landlæknis um stöðu málsins og hvenær vænta mætti að málinu myndi ljúka hjá embættinu. Upplýsingar um málið hjá Embætti landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 6. mars sl. Kæranda var með bréfi, dags. 10. mars sl., sendar athugasemdir embættisins ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 13. mars sl. Ráðuneytið óskaði eftir nánari útlistun á afgreiðslu málsins hjá embættinu og barst tölvubréf frá embættinu, dags. 26. mars sl., sem kærandi fékk sent til kynningar sama dag. Ráðuneytið óskaði ennfremur eftir afriti af öllum gögnum málsins frá embættinu með tölvubréfi, dags. 26. mars sl., sem bárust ráðuneytinu 31. mars sl.

Kvörtun kæranda barst Embætti landlæknis þann 3. febrúar 2014. Embættið óskaði eftir greinargerð Landspítala með bréfi, dags. 11. febrúar s.á., greinargerð og gögn frá Landspítala bárust embættinu 27. febrúar 2014. Embættið sendi greinargerð og gögn Landspítala til kæranda með bréfi, dags. 11. mars s.á., kærandi sendi inn athugasemdir 26. mars s.á. Athugasemdir kæranda voru sendar Landspítala með bréfi, dags. 28. mars 2014.

Kærandi sendi embættinu bréf, dags. 14. apríl 2014, þar sem kærandi fór fram á að álit landlæknis ætti að liggi fyrir, fyrir 1. maí 2014. Embættið svaraði kröfu kæranda svarað með bréfi, dags. 15. apríl 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust embættinu 16. apríl 2014. Embættið sendi bréf til óháðs sérfræðings og óskaði umsagnar, dags. 2. maí 2014. Embættið ítrekaði beðni um umsögn óháðs sérfræðings m.a. með bréfi, dags. 27. júní 2014. Embættið átti símtal við umræddan óháðan sérfræðing þann 12. september 2014, þar sem fram komu skýringar hans á töfinni við að veita umsögn. Umsögn óháðs sérfræðings barst embættinu 15. janúar 2015. Kærandi fékk umsögnina afhenta þann 16. janúar sl. og fékk kærandi frest til 2. febrúar sl., til að koma með athugasemdir eða gögn vegna umsagnarinnar. Með tölvupósti, dags. 27. janúar sl., hafi kærandi óskað eftir vikufresti til að koma á framfæri athugasemdir við umsögn óháðs sérfræðings. Var sá frestur veittur með tölvubréfi, dags. 11. febrúar sl., enn fremur hafi kærandi óskað eftir fresti til 21. febrúar sem var veittur. Að lokum hafi síðan símtal við lögmann kæranda leitt í ljós að umsögn kæranda væri væntanleg 9. mars og barst umsögnin embættinu 10. mars 2015.

Í bréfi embættisins til ráðuneytisins, dags. 6. mars 2015, kemur fram að þegar andmæli kæranda muni berast verði þau send óháða sérfræðingnum til kynningar og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum, ef tilefni er til. Berist andmæli frá sérfræðingnum verði þau send kæranda til kynningar og henni gefin kostur á að koma á framfæri athugasemdum, eftir atvikum. Þegar rannsókn embættisins verði lokið mun landlæknir gefa álit sitt, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum.

Í tölvubréfi, dags. 13. mars sl., bendir kærandi á að 22. og 23. febrúar sl. hafi lögmaður kæranda sent embættinu athugasemdir við greinargerð óháðs sérfræðings, þannig að mati kæranda sé ljóst að það sé ekki rétt sem komi fram í bréfi embættisins, dags. 6. mars sl., að athugasemdir kæranda séu ekki fram komnar. Ennfremur kemur fram að kærandi telji það óásættanlega niðurstöðu að embættið geti ekki upplýst um hvenær máli henni verði lokið.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. sjórnsýslulaga nr. 34/1993, með síðari breytingum, er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Í 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum til ráðherra, skv. forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 71/2013 tilheyrir umræddur málaflokkur heilbrigðisráðherra.

Málshraðareglan í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, felur í sér að stjórnvöldum ber að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Stjórnvöldum ber að afgreiða máls án ástæðulausra tafa. Reglunni er ætlað að stuðla að skilvirkri og greiðri stjórnsýslu í þágu borgaranna og því að stjórnvöld taki ekki lengri tíma en nauðsyn krefur í að ljúka afgreiðslu á málum þeirra, enda geta tafir á meðferð og afgreiðslu máls innan stjórnsýslunnar valdið aðila réttarspjöllum. Málshraði má þó ekki bitna á gæðum stjórnsýslunnar.

Í 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að þar sem leita þurfi umsagnar skuli það gert við fyrsta hentugleika og er stjórnvaldi gert að tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína. Fram kemur í gögnum málsins að Embætti landlæknis hafi leitað umsagnar og álita innan eðlilegra tímafresta, að mati ráðuneytisins hafi umsagnarleitan embættisins ekki tafið málið. Aftur á móti hafi tekið um átta mánuði að fá umsögn óháðs sérfræðings, sem telja verður helst til of langan tíma, en þar er ekki við embættið að sakast enda ítrekaði embættið umsagnarbeiðnina þrisvar sinnum.

Í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að stjórnvöld skuli tilkynna aðilum máls um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu máls, upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í fyrrgreindu bréfi embættisins kemur fram að beiðni um umsögn óháðs sérfræðings hafi verið send með bréfi, dags. 2. maí 2014 og að embættið hafi móttekið umbeðna umsögn 15. janúar 2015. Beiðnin hafi verið ítrekuð þrisvar sinnum á tímabilinu. Embættið fékk vitneskju um ástæðu tafa á greinargerðarskilum óháðs sérfræðings með símtali 12. september 2014, af gögnum málsins sést að kæranda var hvorki tilkynnt um þær tafir né ástæður þeirra, sem ráðuneytið telur að embættið hefði betur gert til að framfylgja góðum stjórnsýsluháttum. Ráðuneytið mælist til þess að embættið hugi að tilkynningaskyldu sinni, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, við afgreiðslu kvörtunarmála.

Kærandi fékk umsögn óháðs sérfræðings til umsagnar 16. janúar og fékk kærandi frest til að skila inn athugasemdum. Embættið og óháði sérfræðingurinn fengu tölvubréf frá lögmanni kæranda þann 23. febrúar sl., sem innihélt ekki greinargerð en þann 10. mars sl., barst embættinu umsögn kæranda ásamt gögnum. Embættið sendi umsögn kæranda til Landspítala og óháða sérfræðingsins til umsagnar með ósk um að umsögn yrði skilað sem fyrst til embættisins en í síðasta lagi 27. mars sl.

Þar sem niðurstaða landlæknis í kvörtunarmáli kæranda byggir m.a. á umsögn óháðs sérfræðings sem kæranda er boðið að koma með athugasemdir við, er eðlilegt að það sé vandkvæðum bundið fyrir embættið að upplýsa um hvenær afgreiðslu málsins muni ljúka.

Með vísan til framanritaðs, fyrirliggjandi upplýsinga og gagna málsins verður ekki annað séð en að kvörtunarmál kæranda sé í virkri vinnslu hjá Embætti landlæknis og fellst ráðuneytið ekki á að afgreiðsla málsins hafi dregist óhæfilega.

Ráðuneytið ítrekar þó fyrrgreindar leiðbeiningar til Embættis landlæknis, við afgreiðslu kvörtunarmála, um að tilkynna aðilum máls fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu máls ef upplýsingar um slíkt liggja fyrir hjá embættinu, upplýsa um ástæður tafanna og ef mögulegt er að greina frá því hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, varðandi óeðlilega töf á afgreiðslu kvörtunar hennar, er hér með hafnað.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta