Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar

Föstudaginn 18. júní 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2009, A (hér eftir nefnd kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar varðandi störf B.

 

Kröfur

Kærð er málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar kæranda, dags. 25. september 2008, varðandi störf B. Í kærunni kemur fram að í áliti landlæknis, dags. 24. ágúst 2009, hafi hvorki komið fram leiðbeiningar um kæruleið til ráðherra skv. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, né kærufrest. Þá krefst kærandi viðurkenningar á að B hafi gert mistök við tannlæknismeðferð sem hann veitti kæranda.

 

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 25. nóvember 2009, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna kærunnar. Greinargerð landlæknis barst með bréfi, dags. 30. nóvember 2009, og öll fyrirliggjandi gögn bárust með bréfi, dags. 4. desember 2009. Kæranda var með bréfi, dags. 10. desember 2009, send greinargerð landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir 4. janúar 2010, en óskað var eftir frekari fresti til 10. janúar 2010. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 6. janúar 2010.

Landlækni voru sendar athugasemdir kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. janúar 2010. Athugasemdir embættisins bárust með bréfi, dags. 14. janúar 2010. Þann 21. apríl 2010 óskaði ráðuneytið eftir skýringum landlæknis á því hvaða sérstöku ástæður skv. 4. mgr. 12. gr. laga um landlækni nr. 41/2007 voru uppi í máli kæranda sem gerðu það að verkum að landlæknir tók mál kæranda til meðferðar þrátt fyrir að liðin væru meira en tíu ár frá því meðferð var veitt. Svar landlæknis barst með bréfi, dags. 3. maí 2010.

 

Málavextir

Kærandi beindi kvörtun til landlæknis vegna starfa B með bréfi dagsettu þann 25. september 2008. Með kvörtun kæranda fylgdu umsagnir tveggja tannlækna. Sú fyrri, dags. 21. maí 2008, er undirrituð af C. Þar er kæranda vísað til sérfræðings í krónu- og brúargerð. Síðara álitið kemur frá D og er dags. 10. september 2008. Í niðurstöðu hans segir að „meðferð sú sem [kærandi] fór í hjá B hefur orðið til þess að lífsgæði [kæranda] hafa versnað frekar en að aukast við meðferð hans og [kærandi] frekar skaðast af meðferðinni.“ Í bréfi landlæknis til kæranda, dags. 1. október 2008, er tilkynnt um móttöku kvörtunarinnar og m.a. gerð grein fyrir því að kæranda sé heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis til heilbrigðisráðherra og að kærufrestur sé þrír mánuðir frá því að aðila er tilkynnt um niðurstöðu máls.

Með bréfi, dags. 1. október 2008, var B tilkynnt um kvörtunina og óskað eftir greinargerð ásamt færslum í sjúkraskrá, niðurstöðum rannsókna, aðgerðarlýsingu og læknabréfum er vörðuðu málið. Í greinargerð B til landlæknis, dags. 27. október 2008, kemur fram að kærandi hafi fyrst komið til hans 30. janúar 1998 og í framhaldi af því hafi hann smíðað sex krónur á tennur í efri góm en tvær krónur og smellupart, til að sporna gegn sliti og álagi á kjálkaliði, í neðri góm. Með þessari meðferð hafi bitstuðningur kæranda átt að verða betri en kæranda hafi verið bent á að nauðsynlegt væri að skipta um smellur í partinum eftir eitt til tvö ár, auk þess sem nauðsynlegt væri að hafa eftirlit með smíðinni. B kveðst í greinargerð sinni hafa boðað kæranda í eftirlit í nokkur skipti eftir þetta en kærandi afþakkað. Með bréfi landlæknis til B, dags. 29. október 2008, var óskað eftir gögnum, þar sem þau fylgdu ekki greinargerð. Þau gögn bárust síðan landlækni 4. nóvember 2008 og bera þau með sér að kærandi hafi verið í tannlæknismeðferð hjá B frá janúar fram í marsmánuð 1998.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2008, óskaði landlæknir eftir sérfræðiáliti Tannlæknastofnunar Háskóla Íslands varðandi tannlæknastörf B og smíði á parti og krónum fyrir kæranda. Álitsgerð Tannlæknastofnunar, þar sem komist var að eftirfarandi niðurstöðu, barst landlækni með bréfi, dags. 15. febrúar 2009: „Við álítum að tannlæknirinn hafi staðið faglega að sínu verki og verði ekki kennt um vandamál [kæranda] nú. Hvort hann útskýrði aðrar leiðir nægilega eða lýsti líklegri þróun á biti og tönnum verður ekki rakið með vissu.“ Álitsgerð landlæknis, þar sem embættið gerir greinargerð Tannlæknastofnunar að sinni, var send kæranda með bréfi, dags. 3. mars 2009, og kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan fjögurra vikna.

Kærandi sendi landlækni andmæli með tveimur bréfum dagsettum 8. maí 2009 ásamt bréfi frá D, dags. 15. maí 2009, og afriti heyrnarmælingar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, dags. 7. desember 1999. Í andmælum kæranda segir m.a. að B hafi aldrei minnst á það við kæranda að hafa þyrfti eftirlit með smíði partsins og að hann hafi ekki vísað kæranda til sérfræðings. Kærandi tekur fram að upphafleg ástæða fyrir heimsókn sinni til B hafi verið sprunga í annarri framtönn en B hafði ráðlagt sér að fá part og krónur. Kærandi lýsir því að eftir meðferðina hjá tannlækninum hafi kærandi farið að fá verki og bólgur í kjálkaliðina sem leiddu út í eyrað. Kærandi tekur fram að fyrir meðferðina hjá B hafi kærandi ekki fundið fyrir neinum verkjum. Að auki hafi kærandi farið í heyrnarmælingu í desember 1999 og mælst þá með skerðingu á heyrn á vinstra eyra. Ennfremur lýsir kærandi sig ósáttan við álitsgerð Tannlæknastofnunar og dregur í efa hlutleysi þeirra tannlækna sem skoðuðu kæranda þar. Í áliti D frá 15. maí 2009 segir að partur kæranda sé „greinilega ranglega útbúinn og hefur orðið til þess að auka bitskekkjuna.“ D undrast einnig að kæranda hafi ekki verið vísað til sérfræðings.

Landlæknir sendi Tannlæknastofnun Háskóla Íslands andmæli kæranda ásamt bréfi D og fór fram á álit stofnunarinnar um það hvort viðbótargögnin hefðu efnisleg áhrif á fyrri niðurstöðu hennar. Í bréfi Tannlæknastofnunar til landlæknis, dags. 28. júní 2009, kemur fram að stofnunin telji ekki ástæðu til að breyta álitsgerðinni með hliðsjón af viðbótargögnum. Kæranda var með bréfi, dags. 24. ágúst 2009, tilkynnt framangreind niðurstaða og að málinu væri þar með lokið af hálfu Landlæknisembættisins.

 

Málsástæður kæranda

Í kæru til ráðuneytisins, dags. 24. nóvember 2009, segir m.a.: „Með vísan til 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/200[7], um landlækni, kæri ég til heilbrigðisráðherra málsmeðferð landlæknisembættisins í máli vegna kvörtunar minnar þangað sem beindist að B.“ Kærandi vekur „athygli á því að í bréfi aðstoðarlandlæknis komi ekki fram leiðbeiningar um kæruleið til ráðherra skv. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, né kærufrest. Loks krefst kærandi viðurkenningar á að B hafi gert mistök við tannlæknismeðferð sem hann veitti kæranda.

Andmæli kæranda við greinargerð landlæknis, dags. 30. nóvember 2009, bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 6. janúar 2010. Þar eru m.a. rakin samskipti við aðstoðarlandlækni og kemur fram að kærandi hafi rætt oft við aðstoðarlandlækni á meðan málið var til meðferðar hjá embættinu. Hafi kæranda tvisvar verið bent á að leita til lögfræðings til að kanna hugsanlegan rétt til bóta. Þá vísar kærandi til bréfs síns til landlæknis, dags. 8. maí 2009, og bréfs D, dags. 15. maí 2009, en efni þeirra hefur þegar verið rakið.

 

Málsástæður og lagarök landlæknis

Ráðuneytið óskaði eftir greinargerð landlæknis með bréfi, dags. 25. nóvember 2009. Í greinargerð landlæknis, dags. 30. nóvember 2009, er ferill málsins rakinn og segir m.a.:

„Það er mat Landlæknisembættisins að kæra A sé á misskilningi byggð og ekki er rétt sem fram kemur í bréfi [kæranda] frá 24.11.2009 að ekki hafi komið fram leiðbeiningar um kæruleið til ráðherra samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 né kærufrest. Upplýsingar um kæruleið og kærufrest komu fram í bréfi Landlæknisembættisins til A, dags. 01.10.2008.“

Í athugasemdum landlæknis, dags. 14. janúar 2010, við andmæli kæranda kemur einnig fram að yfirlæknir kvörtunar- og kærumála hafi átt ítarleg samtöl við kæranda þar sem útskýrt hafi verið hvernig mál sem þessi væru meðhöndluð samkvæmt lögum og reglum sem stjórnsýslunni bæri að fara eftir.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar til embættisins, dags. 25. september 2008. Kvörtunin beindist að B, en kærandi hafði verið til meðferðar hjá honum fyrri hluta árs 1998. Í kærunni kemur fram að í áliti landlæknis, dags. 24. ágúst 2009, hafi ekki komið fram leiðbeiningar um kæruleið til ráðherra skv. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, né kærufrest. Þá krefst kærandi viðurkenningar á að B hafi gert mistök við meðferð kæranda.

Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007 og segir þar í 4.-6. mgr.:

        Kvörtun skal borin fram við landlækni án ástæðulauss dráttar. Séu meira en tíu ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar er landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar.

        Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

        Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

Með bréfi, dags. 21. apríl 2010, óskaði ráðuneytið eftir skýringum landlæknis á því hvaða sérstöku ástæður hafi verið uppi í máli kæranda sem mæltu með því að kvörtun kæranda var tekin til meðferðar þrátt fyrir að meira en tíu ár væru liðin frá því að kærandi gekkst undir þá meðferð sem kvartað var yfir, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga um landlækni. Svar landlæknis barst með bréfi, dags. 3. maí 2010. Þar kom fram að kvörtunin hafi verið tekin til meðferðar vegna umsagnar D, frá 10. september 2008, þar sem kom fram að umræddar tannlækningar hefðu aukið á vanda kæranda og beitt hefði verið rangri meðferð. Ráðuneytið gerir ekki athugasemdir við þessar skýringar landlæknis.

Skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni er heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðuneytisins. Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga og 12. gr. laga um landlækni við meðferð málsins. Er því ekki unnt að taka til skoðunar þann hluta kæru er varðar viðurkenningu á að B, hafi gert mistök við meðferð kæranda.

Um málsmeðferð landlæknis fer samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni. Þar kemur m.a. fram að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Þá segir í 5. mgr. að um meðferð kvartana fari að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Eins og rakið hefur verið óskaði landlæknir eftir sérfræðiáliti Tannlæknastofnunar Háskóla Íslands og kölluðu tannlæknar stofnunarinnar kæranda til skoðunar. Þá sendi landlæknir stofnuninni andmæli kæranda ásamt bréfi D frá 15. maí 2009 og óskaði eftir áliti á því hvort þessi gögn hefðu efnisleg áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar. Ráðuneytið telur að öflun umsagnar og rannsókn málsins hafi verið í samræmi við fyrrgreint ákvæði og ákvæði rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt skriflega skuli veita upplýsingar um kæruheimild, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Fram er komið í málinu að landlæknir upplýsti kæranda í upphafi máls, eða í bréfi dags. 1. október 2008, um kæruheimild til ráðherra og kærufrest. Í bréfi landlæknis frá 24. ágúst 2009, þar sem kæranda er tilkynnt um lok málsins, er hins vegar ekki að finna leiðbeiningar í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga ber að veita upplýsingar um kæruheimild og kærufrest þegar ákvörðun er tilkynnt og getur tilkynning í upphafi málsmeðferðar ekki komið í stað slíkrar tilkynningar. Kæra barst þó ráðuneytinu innan þriggja mánaða, eða með bréfi kæranda, dags. 24. nóvember 2009, og því ljóst að þessi ágalli á málsmeðferð embættisins hefur ekki valdið kæranda réttarspjöllum. Ráðuneytið beinir því til landlæknis að veita framvegis leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest þegar tilkynnt er um niðurstöðu máls.

Í 4.-6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni eru gerðar ákveðnar formkröfur til álits landlæknis. Það skal vera skriflegt og landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Endanlegt álit landlæknis var tilkynnt með svohljóðandi bréfi til kæranda dags. 24. ágúst 2009:

„Í framhaldi af því að Landlæknisembættinu bárust bréf þín, dags. 08.05.2009 og bréf D, dags. 15.05.2009 ritaði Landlæknisembættið Tannlækningastofnun Háskóla Íslands bréf þar sem embættið óskaði eftir mati Tannlækningastofnunar á því hvort viðbótargögn í málinu hefðu efnisleg áhrif á niðurstöðu Tannlæknastofnunar í málinu.

Í svarbréfi Tannlækningastofnunar Háskóla Íslands, dags. 28.06.2009 segir meðal annars:

„Vísað er til bréfs yðar dags. 25.05.2009 þar sem óskað er eftir mati á nýjum gögnum í málinu; bréfi D, dags. 15.05.2009 og tveimur bréfum A, dags. 08.08.2009.“

„Við undirrituð teljum ekki ástæðu til að breyta álitsgerð okkar í ljósi ofangreindra bréfa. Virðingarfyllst, Ellen Flosadóttir, dósent, Teitur Jónsson, lektor.“

Telst þar með málinu lokið af hálfu Landlæknisembættisins.“


Áður hafði landlæknir sent kæranda álitsgerð með svohljóðandi bréfi, dags. 3. mars 2009:

„Álitsgerð Landlæknisembættisins í máli A

Þann 25.09.2008 ritaði A Landlæknisembættinu bréf og kvartaði yfir B.
Landlæknisembættið hefur lokið athugun á kvörtun A varðandi starf B.
Einnig óskaði Landlæknisembættið eftir greinargerð Tannlækningastofnun[ar] Háskóla Íslands, dags. 15.02.2009 og embættið gerir að sinni. Landlæknisembættið telur ekki ástæðu [til] frekari aðgerða og er málinu lokið nema til komi andmæli frá málsaðilum.“

Að mati ráðuneytisins eru ákvæði 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12 .gr. laga um landlækni, um að tilgreina skuli efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu, og að aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits, ekki uppfyllt í áliti landlæknis sem fram kemur í fyrrgreindum bréfum. Verður að telja með lagaákvæðinu hafi ætlunin verið að mæla skýrt fyrir um málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum. Verður ekki séð að fyrirmælum þess hafi verið fylgt í máli kæranda. Þrátt fyrir þessar athugasemdir telur ráðuneytið að meinbugir á málsmeðferð hafi ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins og því ekki ástæða til að vísa málinu í heild sinni til nýrrar meðferðar hjá landlækni, heldur eingöngu að því er varðar útgáfu rökstudds álits.

Með hliðsjón af ofangreindum athugasemdum beinir ráðuneytið því til landlæknis að gefa út rökstutt álit í máli kæranda þar sem gætt verði að formkröfum 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni. Þá verði jafnframt gætt að ákvæðum 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda, A, um viðurkenningu á því að mistök hafi orðið við tannlæknismeðferð sem kærandi gekkst undir, og borið skaða af, er vísað frá. Málinu er vísað til landlæknis á ný til útgáfu á rökstuddu áliti í samræmi við formkröfur laga um landlækni og stjórnsýslulaga.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta