Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins

Þriðjudaginn 20. desember 2011 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 16. nóvember 2010, til félags- og tryggingamálaráðuneytis, síðar velferðarráðuneytis, sbr. lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum, kærði  […], kt.  […], ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa sem tekin var á fundi 16. september 2010, um synjun á ábyrgð á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Atlantsskipa-Evrópu ehf., kt. 580602-3710.  

I.    Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Atlantsskipa-Evrópu ehf. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 3. desember 2009. Umrædd ákvörðun Ábyrgðasjóðs var tekin á fundi 16. september 2010 en tilkynnt kæranda með bréfi dags. 27. september 2010. 

Krafan er tilkomin vegna launa fyrir tímabilið mars til maí 2009 samtals að fjárhæð 3.000.000 kr., bifreiðarstyrks að fjárhæð 446.412 kr., lífeyrisiðgjalda að fjárhæð 240.000 kr. og séreignalífeyrisiðgjalda að fjárhæð 60.000 kr. Krafa kæranda var samtals að fjárhæð 3.746.412 kr. Í bréfi Ábyrgðasjóðs launa kemur fram að með vísan til 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa hafi Ábyrgðasjóður launa ákveðið að hafna kröfu kæranda sökum tengsla kæranda við stjórnarmann og framkvæmdastjóra Atlantsskipa-Evrópu ehf. 

Með bréfi, dags. 11. október 2010, fór kærandi fram á rökstuðning á höfnun kröfunnar. Kæranda barst rökstuðningur stjórnar Ábyrgðasjóðs launa með bréfi, dags. 11. nóvember 2010. Í bréfinu kemur meðal annars fram að krafa kæranda falli undir 2. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa sem kveði á um að heimilt sé að hafna kröfum skyldmenna þeirra sem taldir eru upp í 1. mgr. sömu greinar. Um sé að ræða framkvæmdastjóra, stjórnarmenn og eigendur að verulegum hlut í hinu gjaldþrota félagi, ef sýnt er fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til framangreindra tengsla. Jafnframt kemur fram að kærandi hafi verið fjármálastjóri Atlantsskipa-Evrópu ehf., faðir stjórnarmanns og framkvæmdastjóra auk þess sem hann hafi átt sæti í varastjórn félagsins. Þá er í bréfinu bent á að launakjör kæranda hjá félaginu séu talin styðja það að um hafi verið að ræða ábyrgðarmikið starf hjá hinu gjaldþrota félagi. Við ákvörðun um greiðsluskyldu sjóðsins vegna krafna þar sem um sé að ræða náin skyldmenni forsvarsmanna félaga hafi verið litið til þess hvort kröfuhafi hafi þegið laun sem hafi verið álíka og hjá almennum starfsmönnum félagsins. Í tilviki kæranda hafi umsamin laun verið töluvert hærri en hjá öðrum starfsmönnum. Í ljósi þess að um hafi verið að ræða starf sem fól í sér mikla fjármálalega ábyrgð og náið samstarf með forsvarsmönnum félagsins auk framangreinda tengsla hafi stjórn sjóðsins ákveðið að synja kröfunni með vísan til 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.

Kærandi vildi ekki una ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa og kærði hana til ráðuneytisins með bréfi, dags. 16. nóvember 2010. Með tölvupósti, dags. 26. nóvember 2010, óskaði  […] hrl., fyrir hönd kæranda, eftir fresti til að koma að rökstuðningi fyrir kærunni. Í svarbréfi ráðuneytisins til lögmanns kæranda var veittur frestur til 22. desember 2010 til að koma að rökstuðningi vegna kærunnar.

Rökstuðningur kæranda barst ráðuneytinu með bréfi, dags 21. desember 2010. Þar kemur meðal annars fram að ekkert liggi fyrir um að krafa kæranda sé óréttmæt með tilliti til tengsla hans við eigendur félagsins, sbr. orðalag 2. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Kærandi hafi tekið að sér að sjá um uppgjör ásamt öðru þegar rekstur félagsins hafi verið kominn í þrot og ljóst að það væri einungis spurning um hvenær en ekki hvort félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Því verði að telja að vinna kæranda hafi orðið til hagsbóta fyrir kröfuhafa í búið, þar sem hann hafi reynt að lágmarka tjón þeirra. Í ljósi þessa telur kærandi ekkert benda til þess að krafa hans sé óréttmæt með tilliti til framangreindra tengsla. Enn fremur hafi skiptastjóri þrotabúsins samþykkt kröfuna fyrir sitt leyti.

Erindi kæranda var sent stjórn Ábyrgðasjóðs launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags 4. janúar 2011, og var sjóðnum veittur frestur til 17. janúar sama ár til að skila umsögn sinni. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2011, ítrekaði ráðuneytið beiðni sína til stjórnar Ábyrgðasjóðs launa um umsögn stjórnarinnar vegna umræddrar stjórnsýslukæru.

Í umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 1. mars 2011, kemur meðal annars fram að afstaða sjóðsins hafi verið sú að synja bæri kröfu kæranda með vísan til 2. mgr. 10. laga um Ábyrgðasjóða launa. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um Ábyrgðasjóð launa segi að undanþágan taki til annarra skyldmenna þeirra sem getið er um í 1. mgr. og einkum sé átt við „börn, systkini eða foreldri“. Jafnframt kemur fram að fyrir liggi að kærandi sé faðir  […], kt.  […], sem hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og stofnandi hins gjaldþrota félags. Kærandi hafi starfað sjálfur sem fjármálastjóri hins gjaldþrota félags og því borið mikla fjármálalega ábyrgð á starfsemi félagsins auk þess sem hann hafi átt sæti í varastjórn félagsins. Upplýsingar um launakjör hans styddu það að um ábyrgðarmikið starf hafi verið að ræða hjá félaginu en við mat stjórnarinnar á því hvort 2. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, ætti við um kröfur einstakra starfsmanna hafi verið litið til þess hvort um væri að ræða störf þar sem launakjör væru svipuð og hjá almennum starfsmönnum hlutaðeigandi félagsins. Þá kemur fram að því sé ekki fallist á að störf kæranda í þágu félagsins hafi verið almenns eðlis og ótengd fjármálastjórnun þess enda hafi verið um að ræða ábyrgðarstarf sem tengdist náið rekstri félagsins.

Með bréfi, dags 8. mars 2011, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa og var frestur til að koma með athugasemdir veittur til 22. mars 2011.

Svarbréf kæranda barst ráðuneytinu 23. mars 2011. Kærandi ítrekaði að ekkert hefði komið fram við meðferð málsins sem gæfi til kynna að kröfur hans væru óréttmætar í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með tilliti til tengsla kæranda við þá aðila sem taldir væru upp í 1. mgr. sömu greinar. Í bréfi kæranda er bent á að í 2. mgr. 10. gr. laganna sé enga heimild að finna sem feli í sér heimild til að hafna kröfu um vangoldin laun á grundvelli starfsheitis launamanns eða launakjara hans, leiki ekki vafi á því að hann hafi sannarlega gengt störfum fyrir félagið. Samkvæmt þessu taldi kærandi að skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2003 til að hafna kröfu hans væri ekki uppfyllt. Enn fremur kemur í bréfinu fram að í 10. gr. laganna séu tæmandi taldar þær undanþágur á ábyrgð sjóðsins á vangoldnum kröfum launamanna. Í 3. mgr. 10. gr. sé síðan heimild fyrir sjóðinn til að lækka greiðslu úr sjóðnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í ákvæðinu felist því lækkunarheimild, en ekki heimild til að hafna kröfum, enda hafi sjóðurinn ekki vísað í 3. mgr. 10. gr. laganna í rökstuðningi sínum. Enn fremur ítrekaði kærandi að hann hefði átt að njóta sambærilegra kjara og forveri hans í starfi,  […]. Þá bæri einnig að líta til þess að skiptastjóri þrotabúsins hefði samþykkt kröfuna fyrir sitt leyti. Þar af leiðandi teldi kærandi að krafa hans ætti ekki að sæta lækkun samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.

Á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, óskaði ráðuneytið með símtali 16. september 2011, eftir gögnum frá Ábyrgðasjóði er snertu kröfugerð kæranda til sjóðsins. Ráðuneytinu bárust umbeðnar upplýsingar frá Ábyrgðasjóði launa með tölvupósti 5. október 2011.

II.  Niðurstaða.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, var heimilt að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa til félags- og tryggingamálaráðuneytisins, síðar velferðarráðuneytisins, sbr. lög nr. 162/2010, um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta, sbr. einnig lög nr. 121/2010, um breytingu á ýmsum lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er það markmið laganna að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslu vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda. Kröfur þær sem njóta ábyrgðar sjóðsins eru síðan nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna. Ábyrgð sjóðsins er þó takmörkuð í 10. gr. laganna en samkvæmt 1. mgr. þess ákvæðis njóta kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota félags ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum. Ábyrgðasjóði launa er einnig heimilt að hafna kröfum maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr., annarra skyldmenna þeirra eða þeirra sem nákomnir eru þeim að öðru leyti ef sýnt er fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til framangreindra tengsla.

Mál þetta lítur meðal annars að ágreiningi um hvort krafa kæranda um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa sé óréttmæt vegna fjölskyldutengsla hans við þáverandi framkvæmdastjóra sem jafnframt var stjórnarmaður hins gjaldþrota félags.

Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, er tekið fram að með skyldmennum í skilningi 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins sé sérstaklega átt við börn, systkini eða foreldri. Jafnframt er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu fyrir synjun á greiðsluábyrgð sjóðsins geti meðal annars skipt máli hvort umræddir einstaklingar eigi einhverra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, til að mynda í formi eignarhluta í félaginu hvort sem hlutaðeigandi eigi þann eignarhluta einn eða í sameign með þeim aðilum sem nefndir eru í 1. eða 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Enda þótt ekki sé að finna frekari leiðbeiningar í lögskýringargögnum þykir að mati ráðuneytisins þó ljóst af orðalagi athugasemda við ákvæðið að ekki sé um að ræða tæmandi talningu þeirra atriða sem geta skipt máli við mat á því hvort kröfur maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr. 10. gr. laganna, annarra skyldmenna eða þeirra sem nákomnir eru verði taldar óréttmætar sem leiði til þess að synja skuli um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa.

Ágreiningslaust er í málinu að þáverandi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og annar af tveimur aðaleigendum hins gjaldþrota félags er sonur kæranda. Enn fremur liggur fyrir að kærandi átti 1% eignarhlut í félaginu en samtals áttu feðgarnir 46,5% eignarhlut í félaginu. Þá sat kærandi í varastjórn félagsins og kom fram sem slíkur í samskiptum við skiptastjóra félagsins en aðrir stjórnarmenn voru ekki tiltækir þar sem þeir voru búsettir erlendis. 

Í kröfu kæranda í þrotabú félagsins kemur fram að hann hafi starfað fyrir félagið frá því í mars 2009 samkvæmt samningi við stjórn þess. Samið hafi verið um þriggja mánaða laun fyrrverandi fjármálastjóra auk bifreiðastyrks og framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Enn fremur kemur fram í erindi kæranda að þegar hann hafi hafið störf hjá félaginu hafi rekstur þess verið kominn í þrot og að ekki hafi verið spurning um hvort heldur hvenær félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Að mati ráðuneytisins verður því að ætla að kærandi hafi í ljósi tengsla hans við framkvæmdastjóra félagsins tekið að sér starfið í þeirri viðleitni að störf hans yrðu til hagsbóta fyrir kröfuhafa þess enda þótt honum virðist hafa verið ljós fjárhagstaða þess. Í því sambandi verður jafnframt að líta til þess að þegar kærandi hóf störf fyrir hið gjaldþrota félag hefði honum og framkvæmdastjóra félagsins, syni hans, sem jafnframt var stjórnarmaður í félaginu, mátt vera það ljóst að félagið gæti ekki staðið undir þeirri skuldbindingu sem samningur hans við stjórn félagsins kvað á um. Virðist það hafa verið reyndin þar sem félagið greiddi honum engin laun en krafa hans í Ábyrgðasjóð launa svarar til umsamdra kjara hans samkvæmt framangreindum samningi. Þá liggur fyrir samkvæmt skýrslu fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins hjá skiptastjóra þrotabús félagsins að laun annarra starfsmanna en kæranda hafi verið greidd.

Þá er rétt að benda á að samkvæmt 13. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa skal skiptastjóri í búi vinnuveitanda láta Ábyrgðasjóði launa í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar sjóðsins á grundvelli laganna. Umsögn skiptastjóra skal fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar án tillits til eignarstöðu búsins. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps þess er varð að gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að Ábyrgðasjóður launa sé ekki bundinn af umsögn skiptastjóra enda hafi stjórn sjóðsins sjálfsætt úrskurðarvald á grundvelli þeirra laga er sjóðurinn starfar eftir. Er meðal annars tekið fram að þess séu allmörg dæmi að sjóðurinn hafi hafnað ábyrgð á kröfu þótt skiptastjóri hafi viðurkennt forgangsrétt hennar. Verður því ekki fallist á að Ábyrgðasjóði launa hafi borið að samþykkja kröfu kæranda á þeirri forsendu að skiptastjóri hafi samþykkt kröfuna. 

Í ljósi framangreinds er það mat ráðuneytisins að krafa kæranda verði að teljast óréttmæt með tilliti til tengsla hans við framkvæmdastjóra félagsins í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa. Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er það því niðurstaða ráðuneytisins að synja beri um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Atlantsskipa-Evrópu ehf.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 16. september 2010, um synjun á ábyrgð á kröfu  […], kt.  […], á hendur þrotabúi Atlantsskipa-Evrópu ehf., kt. 580602-3710, skal standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta