Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Kæra vegna synjunar Embættis landlæknis um veitingu starfsleyfis sem næringarfræðingur

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 011/2015

Fimmtudaginn 15. júlí 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

 

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2015, kærði A, hér eftir nefnd kærandi, til velferðarráðuneytisins ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 28. nóvember 2015, um að synja henni um starfsleyfi sem næringarfræðingur.

 

I. Kröfur.

Kærandi telur sig hæfa til að hljóta starfsleyfi sem næringarfræðingur en landlæknir telur að menntun kæranda uppfylli ekki skilyrði til að hljóta starfsleyfið.

 

II. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 26. febrúar 2015, eftir umsögn Embættis landlæknis og öllum gögnum varðandi málið. Með tölvupósti, dags. 10. mars 2015, óskaði embættið eftir viðbótarfresti til að skila umsögn í málinu og var veittur frestur til 18. mars 2015. Umsögn embættisins ásamt gögnum barst velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 17. mars 2015, og var kæranda með bréfi, dags. 20. mars 2015, send umsögn Embættis landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda en fyrir hennar tilstuðlan barst bréf frá Háskóla Íslands, dags. 30. mars 2015.

 

III. Málavextir.

Kærandi lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið […] og hóf sama ár um haustið meistaranám í næringarfræði við sama skóla. Tveimur árum síðar sótti kærandi um að breyta meistaranámi í doktorsnám og var það samþykkt á deildarfundi matvæla- og næringarfræðideildar. Í mars […] brautskráðist kærandi með doktorspróf í næringarfræði. Með umsókn sinni til Embættis landlæknis, dags. 12. nóvember 2014, sótti kærandi um starfsleyfi sem næringarfræðingur. Með tölvupósti Embættis landlæknis, dags. 25. nóvember 2014, var kæranda bent á 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur næringarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, nr. 1086/2012. Með tölvupósti kæranda, dagsettum sama dag, bendir hún Embætti landlæknis á að hún hafi tekið BS-próf í líffræði og farið beint í doktorsnám og hafi þannig ekki farið í meistaranám. Umsókn kæranda um starfsleyfi sem næringarfræðingur var synjað með bréfi Embættis landlæknis, dags. 28. nóvember 2014.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að landlæknir hafi synjað umsókn hennar um starfsleyfi sem næringarfræðingur á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki menntunarskilyrði um MS-próf í næringarfræði með vísan til 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1086/2012.

Kærandi bendir á að hún hafi lokið BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og hóf þá um haustið sama ár meistaranám í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðideild sama skóla. Haustið […] sótti kærandi um að breyta meistaranámi sínu í doktorsnám vegna þess hve umfangsmikið rannsóknarverkefni hennar var orðið og var það samþykkt á deildarfundi þar sem kærandi var með 8,34 í meðaleinkunn úr BS-námi sínu og hafði lokið þar 186 einingum. Í doktorsnámi sínu hafi kærandi lokið 300 einingum, þar af 240 einingum fyrir rannsóknarverkefni til doktorsprófs í næringarfræði og 60 einingum fyrir námskeið sem uppfyllir þau viðmið sem þarf til að ljúka doktorsprófi án undanfarandi meistaraprófs samkvæmt reglum um doktorsnám matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands. Í mars […] varði kærandi doktorsritgerð sína. Rannsóknarverkefnið til doktorsprófs og skipulagning námskeiða var skipulagt í samráði við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og tekið var tillit til þess sem krafist er til löggildingar starfsheitis sem næringarfræðingur. Þar sem kærandi hefur lokið doktorsnámi í næringarfræði frá Háskóla Íslands, sem er hærri menntagráða en meistaranám, telur hún sig hæfa til að hljóta starfsleyfi sem næringarfræðingur. Á námsferli hennar í rannsóknartengdu námi fór kærandi tvisvar sinnum í barnsburðarleyfi, árið […] og aftur […].

Í kæru sinni bendir kærandi á að ef óskað sé eftir greinargerð frá matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands þá sé vilji deildarinnar fyrir því.

Í framhaldi af bréfi ráðuneytisins dags. 20. mars 2015, þar sem óskað var eftir athugasemdum kæranda varðandi umsögn Embættis landlæknis, bárust ráðuneytinu athugsemdir matvæla- og næringarfræðideildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi lokið því sem jafngildir MS -prófi í næringarfræði frá matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs og að auki hafi kærandi lokið meira námi svo og doktorsprófi. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. 

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Af hálfu Embættis landlæknis er greint frá ferli umsóknar kæranda en hún hafi sótt um starfsleyfi sem næringarfræðingur með umsókn, dags. 12. nóvember 2014. Með umsókninni fylgdi prófskírteini frá Háskóla Íslands sem votti að kærandi sé doktor í næringarfræði frá Háskóla Íslands. Fram hafi komið í tölvupóstum frá kæranda, dags. 25. nóvember 2014, að hún hafi lokið BS-prófi í líffræði og vegna einkunnar úr því námi hafi hún getað farið beint í doktorsnám og því ekki farið í meistaranám. Þar sem doktorsnám sé hærri menntunargráða en MS-próf hljóti það að duga til starfsleyfis. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 28. nóvember 2014.

Embætti landlæknis vísar til 6. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, þar sem fram komi að landlæknir veiti umsækjendum leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn hér á landi að uppfylltum skilyrðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim.

Jafnframt vísar Embætti landlæknis til 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1086/2012 þar sem fram komi að leyfi skv. 2. gr. reglugerðarinnar megi veita þeim sem lokið hafi MS-prófi í næringarfræði frá matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Rökstuðningur Embættis landlæknis fyrir afgreiðslu umsóknarinnar er sú að í framangreindri reglugerð sé nákvæmlega tilgreint hvaða menntun hér á landi skuli liggja til grundvallar starfsleyfi næringarfræðings, þ.e. MS-próf í næringarfræði frá matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Með vísan til framangreinds taldi landlæknir að menntun umsækjanda, þ.e. doktorsgráða í næringarfræði frá Háskóla Íslands uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 1086/2012 til að hljóta starfsleyfi sem næringarfræðingur og synjaði um starfsleyfi sem næringarfræðingur.

Bendir Embætti landlæknis á að í gildandi reglugerð nr. 1086/2012 sé annað orðalag en var í eldri reglugerð um sama efni, nr. 50/2007, en hún féll úr gildi í árslok 2012. Í eldri reglugerðinni var veitt heimild til leyfisveitinga vegna sambærilegs náms. Engin heimild sé veitt í reglugerð nr. 1086/2012 til að meta hvort nám teljist sambærilegt MS-námi í næringarfræði og veita starfsleyfi á þeim grundvelli.

Loks bendir Embætti landlæknis á að í upplýsingum á heimasíðu Háskóla Íslands um næringarfræði segi að næringarfræðinám veiti löggilt starfsheiti næringarfræðings eftir MS-gráðu í greininni, þ.e. fimm ára nám sem samanstandi af þriggja ára BS-námi og tveggja ára MS-námi.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins.

Kæra þessi lýtur að synjun Embættis landlæknis á útgáfu starfsleyfis til handa kæranda sem næringarfræðingur. Kærandi telur sig hæfa til að hljóta starfsleyfi sem næringarfræðingur enda uppfylli hún skilyrði 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur næringarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi nr. 1086/2012. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar má veita leyfi skv. 2. gr. þeim sem lokið hafa MS -prófi í næringarfræði frá matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Kærandi lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið […] og hóf sama ár um haustið meistaranám í næringarfræði við sama skóla. Tveimur árum síðar sótti kærandi um að breyta meistaranámi í doktorsnám og var það samþykkt á deildarfundi matvæla- og næringarfræðideildar. Í mars […] brautskráðist kærandi með doktorspróf í næringarfræði frá Háskóla Íslands þar sem hún lauk 300 einingum, þar af 240 einingum fyrir rannsóknarverkefni til doktorsprófs 60 einingum fyrir námskeið sem uppfyllir þau viðmið sem þarf til að ljúka doktorsprófi án undanfarandi meistaraprófs samkvæmt reglum um doktorsnám matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands.

Í bréfi Embættis landlæknis, dags. 17. mars 2015, er vísað til 6. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og til 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur næringarfræðinga til að hljóta starfsleyfi, nr. 1086/2012. Rök embættisins eru þau að í reglugerðinni sé nákvæmlega tilgreint hvaða menntun hér á landi skuli liggja til grundvallar starfsleyfi næringarfræðings, þ.e. MS-próf í næringarfræði frá matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Þar sem kærandi hafði ekki lokið MS-prófi í næringarfræði hafi menntun hennar ekki uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar til að hljóta starfsleyfi sem næringarfræðingur og var henni því synjað um starfsleyfið. Einnig er af hálfu Embættis landlæknis bent á að í gildandi reglugerð nr. 1086/2012 sé annað orðalag en var í eldri reglugerð um sama efni, nr. 50/2007. Í eldri reglugerðinni var veitt heimild til leyfisveitinga vegna sambærilegs náms en engin heimild sé veitt í gildandi reglugerð til að meta hvort nám teljist sambærilegt MS-námi í næringarfræði og veita starfsleyfi á þeim grundvelli. Auk þess bendir Embætti landlæknis á að í upplýsingum á heimasíðu Háskóla Íslands um næringarfræði segi að næringarfræðinám veiti löggilt starfsheiti næringarfræðings eftir MS-gráðu í greininni.

Ráðuneytinu barst bréf frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, dags. 30. mars 2015, undirrituðu af forseta heilbrigðisvísindasviðs og deildarforseta matvæla- og næringarfræðideild, þar sem komið er á framfæri athugasemdum vegna synjunar kæranda um starfsleyfi. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi lokið því sem jafngildir MS-prófi í næringarfræði frá matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, auk þess sem hún hefur lokið meira námi og doktorsprófi. Svo virðist sem framangreint bréf Háskólans hafi ekki legið fyrir Embætti landlæknis þegar ákvörðun var tekin um synjun starfsleyfis.

Á brautskráningaryfirliti kæranda vegna doktorsprófs er ljóst að hún lauk 60 eininga námi í næringarfræði og 240 eininga rannsóknarverkefni.

Að mati ráðuneytisins er ljóst að í doktorsnámi kæranda felst ekki aðeins sambærilegt og jafngilt nám og meistaranám heldur mun meira nám en liggur til grundvallar MS-prófi í næringarfræði.

Þrátt fyrir að samkvæmt orðanna hljóðan beri að leggja til grundvallar veitingu starfsleyfis MS-próf í næringarfræði telur ráðuneytið brýnt að líta til þess að kærandi hefur lokið meira námi en sem liggur að baki MS-prófi, eins og fram kemur í athugasemdum matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, dags. 30. mars 2015. Það hefði Embætti landlæknis verið ljóst hefði verið óskað umsagnar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið að kærandi uppfyllir skilyrði um veitingu starfsleyfis sem næringarfræðingur og er því synjun landlæknis frá 28. nóvember 2014 um útgáfu starfsleyfis til handa kæranda sem næringarfræðingur hér með felld úr gildi. Lagt er fyrir Embætti landlæknis að taka umsókn kæranda fyrir að nýju, á grundvelli framangreindra sjónarmiða og fyrirliggjandi gagna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu starfsleyfis til handa A, sem næringarfræðingur er hér með felld úr gildi og lagt fyrir Embætti landlæknis að taka umsókn hennar fyrir að nýju, á grundvelli framangreindra sjónarmiða og fyrirliggjandi gagna.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta