Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Málsmeðferð landlæknis kærð

Föstudaginn 9. júlí 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 28. desember 2009, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli vegna meintra mistaka í tengslum við aðgerð á hné sem kærandi gekkst undir þann 17. janúar 2005.

Kröfur

Kærandi kvartar yfir málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar sinnar, dags. 18. desember 2008, sem varðar meint mistök í tengslum við aðgerð á hné. Gerð er krafa um að ráðuneytið endurskoði mál kæranda. Í athugasemdum kæranda, dags. 15. febrúar 2010, er óskað eftir því að ráðuneytið ógildi ákvörðun landlæknis og leggi fyrir embættið að rannsaka málið frekar.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 4. janúar 2010, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna kærunnar. Gögn landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 12. janúar 2010, og greinargerð barst með bréfi, dags. 25. janúar 2010. Greinargerð landlæknis ásamt gögnum var send kæranda með bréfi, dags. 2. febrúar 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda, dags. 15. febrúar 2010, bárust ráðuneytinu þann 17. febrúar 2010, ásamt viðbótargögnum.

Málavextir

Með bréfi, dags. 18. desember 2008, barst landlækni kvörtun lögmanns kæranda, vegna meintra mistaka í tengslum við aðgerð á hné sem kærandi gekkst undir þann 17. janúar 2005. Aðgerðin var framkvæmd af B. Í bréfinu er óskað eftir því að rannsakaðar verði afleiðingar aðgerðarinnar með tilliti til þess hvort um mistök hafi verið að ræða. Landlæknir sendi C, og B bréf, dags. 7. janúar 2009, þar sem óskað var eftir greinargerð þessara aðila ásamt afriti af færslum í sjúkraskrá, niðurstöðum rannsókna, aðgerðarlýsingu og læknabréfum er varða atvik máls. Svar B, dags. 16. janúar 2009, barst landlækni 21. janúar 2009 ásamt afriti af sjúkraskrárgögnum. Svar barst frá C með bréfi, dags. 2. mars 2009, ásamt greinargerð D, dags. 27. febrúar 2009, og læknabréfi, dags. 26. janúar 2005.

Þann 19. mars 2009 óskaði landlæknir eftir sérfræðiáliti E í máli kæranda. Sérfræðiálit E, dags. 20. maí 2009, barst embættinu 26. maí 2009. Niðurstaða hans var sú að umrædd aðgerð hafi verið rétt framkvæmd og eftirfylgd aðgerðarlæknis hafi ekki verið ábótavant og því ekki rétt að meta uppákomuna og afleiðingar hennar sem læknamistök.

Landlæknir sendi lögmanni kæranda, B og C álitsgerð embættisins með bréfi, dags. 29. maí 2009. Í álitsgerðinni kemur m.a. fram að embættið geri greinargerð E að sinni og að landlæknir telji að ekki sé ástæða til frekari aðgerða. Málinu væri því lokið nema til kæmu andmæli frá málsaðilum innan fjögurra vikna frá dagsetningu álitsgerðar. Eftir að veittir höfðu verið viðbótarfrestir bárust landlæknisembættinu athugasemdir við álitsgerð embættisins með bréfi, dags. 24. júlí 2009, ásamt greinargerð kæranda, dags. 22. júní 2009, og viðbótargreinargerð vegna læknisvottorða. Í athugasemdum frá lögmanni kæranda er þess óskað að landlæknir endurskoði afstöðu sína, eftir atvikum að undangenginni frekari rannsókn á málinu, enda sé ljóst að mistök hafi átt sér stað í tilviki kæranda.

Með bréfi, dags. 26. ágúst 2009, óskaði landlæknir eftir áliti E á því hvort nýjar upplýsingar og gögn í málinu breyttu efnislega niðurstöðu hans frá 20. maí 2009. Auk þess óskaði landlæknir eftir mati á því hvort nauðsyn væri á frekari rannsókn til að upplýsa málið frekar. Greinargerð E er dags. 22. nóvember 2009. Í greinargerðinni kemur fram að E telur segamyndun í bláæðum kálfa vera afleiðingu aðgerðar og óheppilegan fylgikvilla sem er þekktur en ekki sé um að ræða mistök aðgerðalæknis eða að öðru leyti skaðabótaskylt tjónstilvik. Landlæknir tilkynnti lögmanni kæranda um þessa niðurstöðu með bréfi, dags. 30. nóvember 2009, þar sem m.a. kom fram að niðurstaða fyrri álitsgerðar væri efnislega óbreytt.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru til ráðuneytisins, dags. 28. desember 2009, kemur fram að kærandi sjái sér ekki annað fært en að leita til heilbrigðisráðuneytisins vegna kæru sinnar til landlæknisembættisins og niðurstöðu embættisins sem sér þyki með furðulegasta móti þar sem sjúklingur, ómenntaður í læknisfræðum, sé gerður að sérfræðingi. Kærandi segist líta það alvarlegum augum að aðstoðarlandlæknir skuli skila slíku áliti frá sér þar sem gefið sé í skyn að sjúklingur eigi að hafa vitneskju um að bakverkur tilheyri uppskurði á hné. Í kæru kemur einnig fram að ekki hafi verið tekið mark á athugasemdum kæranda né þeim svarað. Telur kærandi að embættismaður hjá landlækni og sá sérfræðingur sem leitað var til hafi gert mjög alvarleg mistök.

Athugasemdir kæranda við greinargerð landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 15. febrúar 2010, ásamt öðrum gögnum. Þar kemur fram að það sé skilningur kæranda að Kristján Oddsson, yfirlæknir kvörtunar- og kærumála hjá landlækni, sé vanhæfur til að svara fyrir hönd embættisins sökum þess að sá hinn sami fór þar með mál kæranda, þá sem settur aðstoðarlandlæknir. Kærandi bendir á að landlæknisembættið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, t.d. hafi tímasetningar á aðgerðardegi ekki verið kannaðar og sá asi sem orsakaðist af tímaþröng aðgerðarlæknis þar með staðreyndur. Þá hafi hvorki landlæknir né sérfræðingar tekið mark á athugasemdum kæranda um frágang umbúða aðgerðarlæknis. Þá segir enn fremur í athugasemdum kæranda:

„Vanræksla embættisins í að rannsaka aðstæður á aðgerðardegi og staðhæfingar þeirra og bjargföst trú að aðgerðarlæknirinn B væri of reyndur til að gera mistök (eins og kemur ítrekað fram í svörum embættisins, sem eru vægast sagt ómálefnaleg rök í sjálfu sér) eru óumdeilanlega þess verðar að gera verði athugasemd við málsmeðferðina, en ekki aðeins efnislega niðurstöðu embættisins. Efnisleg niðurstaða getur aldrei orðið betri en málsmeðferðin leyfir og eru því engin rök til þess að vísa kærunni frá eins og landlæknir krefst. Óskað er eftir því að ráðuneytið ógildi ákvörðun landlæknis og leggi fyrir embættið að rannsaka málið frekar en gert var.“

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í greinargerð landlæknis, dags. 25. janúar 2010, kemur fram að það sé skilningur embættisins að kæran beinist gegn efnislegri niðurstöðu í álitsgerð landlæknisembættisins, dags. 29. maí 2009, en ekki málsmeðferðinni sem slíkri. Að mati landlæknis beri því að vísa kærunni frá.

Niðurstaða

Kæran lýtur að málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar til embættisins, dags. 18. desember 2008. Kvörtunin beindist að B, en kærandi gekkst undir aðgerð hjá honum þann 17. janúar 2005. Í kæru er gerð krafa um að ráðuneytið endurskoði mál kæranda. Í athugasemdum kæranda, dags. 15. febrúar 2010, er þess krafist að ráðuneytið ógildi álit landlæknis frá 29. maí 2009 og leggi fyrir embættið að rannsaka málið frekar en gert var.

Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni, og segir þar í 5.-6. mgr.:

Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.
Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga og 12. gr. laga um landlækni við meðferð málsins, en ekki er fjallað efnislega um kvartanir. Kærandi krefst þess að ráðuneytið endurskoði mál hans, en ekki er unnt að verða við þeirri kröfu nema að því er varðar málsmeðferð.

Ráðuneytið hefur farið yfir öll fyrirliggjandi gögn málsins svo og málsmeðferð landlæknis. Í 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni er mælt svo fyrir um að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Eftir að hafa leitað umsagnar hjá Landspítala og lækni þeim er kvörtunin laut að, fór landlæknir þess á leit við óháðan sérfræðing að veita álit á meðferðinni sem kvartað var yfir. Landlæknir gaf síðan út álitsgerð embættisins í máli kæranda. Í álitsgerðinni kom fram að málinu væri lokið nema andmæli málsaðila myndu berast embættinu innan fjögurra vikna frá dagsetningu álitsgerðar. Athugasemdir kæranda bárust embættinu og í kjölfar þess óskaði landlæknir öðru sinni eftir áliti sérfræðings á því hvort nýjar upplýsingar í málinu breyttu efnislegri niðurstöðu hans í fyrri álitsgerð. Auk þess innti landlæknir eftir því hvort nauðsyn væri á frekari rannsókn. Í svörum sérfræðingsins segir að fyrri niðurstaða hans sé óbreytt. Það er mat ráðuneytisins að landlæknir hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni við meðferð þessa máls.

Í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt skriflega skuli veita upplýsingar kæruheimild, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Landlæknir upplýsti lögmann kæranda í upphafi máls, eða í bréfi, dags. 7. janúar 2009, þar sem tilkynnt er um móttöku kvörtunarinnar, um kæruheimild til ráðherra og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að aðila var tilkynnt um niðurstöðu máls. Í bréfi landlæknis frá 30. nóvember 2009, þar sem lögmanni kæranda er tilkynnt um lok málsins, er ekki að finna slíkar leiðbeiningar. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga ber að veita upplýsingar um kæruheimild og kærufrest þegar ákvörðun er tilkynnt og getur tilkynning í upphafi málsmeðferðar ekki komið í stað slíkrar tilkynningar. Kæra barst þó ráðuneytinu innan þriggja mánaða, eða með bréfi kæranda, dags. 28. desember 2009, og því ljóst að þessi ágalli á málsmeðferð embættisins hefur ekki valdið kæranda réttarspjöllum. Ráðuneytið beinir því til landlæknis að veita framvegis leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest þegar tilkynnt er um niðurstöðu máls.

Í 4.-6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni eru gerðar ákveðnar formkröfur til álits landlæknis. Það skal vera skriflegt og landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Endanlegt álit landlæknis var tilkynnt með svohljóðandi bréfi til lögmanns kæranda, dags. 30. nóvember 2009:

„Í framhaldi af því að Landlæknisembættinu barst bréf F, dags. 24.07.2009 ásamt andsvari A, dags. 22.06.2009 og bréfi sem er viðbót vegna læknisvottorða ásamt tölvupósti G hjá Tryggingafélaginu Sjóvá, dags. 03.07.2009 og tölvupósti frá B, dags. 02.07.2009 leitaði Landlæknisembættið til sérfræðiálitsgjafa embættisins í málinu.

Landlæknisembættið óskaði eftir áliti sérfræðiálitsgjafans á því hvort nýjar upplýsingar í málinu breyti efnislega niðurstöðu hans frá 20.05.2009. Einnig óskaði Landlæknisembættið eftir áliti hans á því hvort frekari rannsóknir [bæri] að gera til að upplýsa málið frekar.

Greinargerð sérfræðiálitsgjafa Landlæknisembættisins vegna athugasemd[a] við sérfræðiálit hans vegna liðspeglunaraðgerðar á hné hjá A, dags. 22.11.2009 barst embættinu þann 25.11.2009. Greinargerð, dags. 22.11.2009 er hjálögð en samkvæmt henni er niðurstaðan samkvæmt álitsgerð, dags. 20.05.2009 efnislega óbreytt.“

Áður hafði landlæknir sent kæranda álitsgerð, dags. 29. maí 2009, þar sem efni kvörtunarinnar er tiltekið og síðan eru gögn málsins talin upp. Niðurlag álitsgerðarinnar er eftirfarandi:

„Landlæknisembættið hefur lokið athugun á kvörtun H., fyrir hönd A í tengslum við liðspeglun á hné í janúar 2005.

Í kjölfar þess að embættinu barst bréf lögmannsins var leitað eftir sjónarmiðum B og C.

Einnig óskaði Landlæknisembættið eftir greinargerð sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, sem barst embættinu 26.05.2009 og embættið gerir að sinni.

Landlæknisembættið telur ekki ástæðu til frekari aðgerða og er málinu lokið nema til komi andmæl[i] frá málsaðilum innan fjögurra vikna frá dagsetningu þessarar álitsgerðar.“

Að mati ráðuneytisins eru ákvæði 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni, um að tilgreina skuli efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu, og að aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits, ekki uppfyllt í áliti landlæknis sem fram kemur í fyrrgreindum bréfum. Verður að telja að með lagaákvæðinu hafi ætlunin verið að mæla skýrt fyrir um málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum. Verður ekki séð að fyrirmælum þessum hafi verið fylgt í máli kæranda. Þrátt fyrir þessar athugasemdir telur ráðuneytið að meinbugir á málsmeðferð hafi ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins og því ekki ástæða til að vísa málinu í heild sinni til nýrrar meðferðar hjá landlækni, heldur eingöngu að því er varðar útgáfu rökstudds álits.

Með hliðsjón af ofangreindum athugasemdum beinir ráðuneytið því til landlæknis að gefa út rökstutt álit í máli kæranda þar sem gætt verði að formkröfum 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni. Þá verði jafnframt gætt að ákvæðum 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Vegna athugasemda kæranda um meint vanhæfi yfirlæknis kvörtunar- og kærumála hjá landlækni, er rétt að taka fram að það veldur ekki vanhæfi þótt starfsmaður, sem tekið hefur þátt í meðferð máls á lægra stjórnsýslustigi, riti um það greinargerð til ráðuneytis vegna stjórnsýslukæru, heldur er það eðlilegur gangur máls.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda, A, um endurskoðun máls hans, er vísað frá að því er varðar efnisþátt málsins. Málinu er vísað til landlæknis á ný til útgáfu á rökstuddu áliti í samræmi við formkröfur laga um landlækni og stjórnsýslulaga.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta