Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Aðgangur að sjúkraskrám látins aðstandanda

Þriðjudaginn 30. október 2007 var í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með kæru, dags. 11. júlí 2007, sem móttekin var af ráðuneytinu 17. júlí 2007, kærði A (hér eftir nefnd kærandi) synjun landlæknis, (hér eftir nefndur kærði), dags. 26. júní 2007, á afhendingu sjúkraskrár, þ.e. allra gagna sem varða læknismeðferð vegna berklasmits B sem lést í mars 2006 af völdum lifrarbilunar sem talið er að rekja megi til lyfjameðferðar vegna smitsins, um látna móður þeirra, B.

Í kæru er þess krafist „...Að ákvörðun landlæknis verði breytt þannig að sjúkrastofnunum sem hlut eiga að máli verði gert að afhenda kærendum allar sjúkraskrár og gögn varðandi greiningu berklasmits, eftirfarandi lyfjameðferð og B.“

Kæruheimild er byggð á 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 227/1991, um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

1. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Kæran var send kærða til umsagnar þann 31. ágúst 2007. Í framangreindu bréfi vakti ráðuneytið athygli landlæknisembættisins á úrskurðum ráðuneytisins sem hafa fordæmisgildi varðandi sambærileg mál, einkum hvað varðar það hvort nægilega „ríkar ástæður“ í skilningi 18. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga séu fyrir hendi til að láta í té upplýsingar eða afhenda sjúkraskrá, með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Umsögn kærða, dags. 6. september 2007, barst ráðuneytinu 7. september 2007, en þar kemur m.a. fram að „Afstaða landlæknisembættisins varðandi afhendingu sjúkraskráa er í samræmi við 14. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Afstaða Landlæknisembættisins hefur verið sú að sjúkraskrá skal aðeins sýna sjúklingi eða umboðsmanni hans, með umboðsmanni er átt við þann aðila sem hefur vottað umboð sjúklings.“

 

2. Málsatvik.

Málavextir eins og þeim er lýst í kæru eru eftirfarandi:

B hafði verið búsett á Íslandi um árabil er hún var greind með leynda berklasýkingu í apríl 2005. Mun hún hafa notið meðferðar hjá lungna- og berkladeild Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík og var mælt með 9 mánaða ísoníazíð meðferð með 300 mg skömmtum á dag. B mun hafa tekið lyfin reglulega og mætt í allar boðaðar endurkomur nema þá sem fyrirhuguð var 16. febrúar 2006 en þá hafði hún verið lögð inn á Lands[s]pítala hjáskólasjúkrahús vegna truflana á starfssemi lifrar. Fór líðan hennar versnandi og var hún send með sjúkraflugvél til Kaupmannahafnar þar sem hún lést 1. mars 2006 af völdum lifrarbilunar.

Í kjölfar andláts móður sinnar töldu kærendur ýmsum spurningum ósvarað varðandi það hvernig andlát hennar bar að höndum. Höfðu þeir m.a. efasemdir um læknismeðferð þá sem móðir þeirra sætti og óskuðu umræddra gagna í því skyni að sannreyna hvernig háttað var greiningu smits, skráningu sjúkrasögu og undirbúningi ákvörðun um þá lyfjameðferð sem talið er að hafi dregið hana til dauða. Kærendur fóru þess ítrekað á leit við nánar greindar íslenskar sjúkrastofnanir og embætti landlæknis að þeim yrðu afhentar allar sjúkraskrár og gögn varðandi greiningu berklasmits og eftirfarandi lyfjameðferð sem talið er að hafi leitt til andláts móður þeirra á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn hinn 1. mars 2006, sbr. bréf kærenda dags. 31. mars 2006 til Lungna- og berkladeildar Heilsuverndarstöðvarinnar og 16. nóvember 2006, og 29. mars 2007 til embættis landlæknis. Í bréfaskiptum sínum við embætti landlæknis fóru kærendur þess einnig á leit að tilteknum spurningum varðandi læknismeðferð móður þeirra yrði svarað. Voru svörin ekki fullnægjandi að mati kærenda auk þess sem þeir fengu einungis afrit af hluta sjúkraskrám móður sinnar, þ.e. aðallega afrit af gögnum varðandi innlögn hennar á bráðamóttöku í febrúar 2006. Með bréfi, dags. 15. júní sl., fóru kærendur þess á leit við embætti landlæknis að hann tæki rökstudda afstöðu til beiðni þeirra um afhendingu gagna, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 227/1991, um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál. Með bréfi dags. 26. júní sl. synjaði embættið beiðni kærenda um aðgang að umbeðnum sjúkraskrám móður þeirra með þeim röksemdum að sjúkraskrá skyldi einungis sýna sjúklingi eða umboðsmanni hans og að með umboðsmanni væri átt við þann aðila sem hefði vottað umboð sjúklings. Jafnframt lýsti embættið þeirri afstöðu sinni að Heilsuverndarstöðinni væri einungis heimilt að afhenda sjúkraskrá sjúklingi eða umboðsmanni hans.

 

3. Málsástæður og lagarök kæranda.

Um málsástæður og lagarök kærenda er vísað til framangreindrar kæru hans en þar kemur m.a. fram að „Í rökstuddri afstöðu embættis landlæknis, dags. 26. júní sl. segir að það sé „skýr afstaða Landlæknisembættisins að sjúkraskrá [skuli] einungis sýna sjúklingi eða umboðsmanni hans“ og að „með umboðsmanni [sé] átt við þann aðila sem [hafi] vottað umboð sjúklings“.“

Ennfremur kemur fram að „Kærendur telja ofangreinda túlkun Landlæknisembættisins byggja á rangri og of þröngri skýringu á ákvæðum laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Þá hefur landlæknir ekki tekið afstöðu til undanþáguákvæða laganna og er því rökstuðningi ákvörðunar hans áfátt. Stenst ákvörðunin þ.a.l. ekki 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 227/1991, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997, en fyrrgreint reglugerðarákvæði mæli sérstaklega fyrir um að synjun landlæknis um afhendingu afrits sjúkraskrár skuli vera rökstudd.“

Kærendur byggja ennfremur á því „að þeir séu umboðsmenn B í skilningi 14. gr. laga nr. 74/1997 auk þess sem sjónarmið að baki 12. gr. laganna mæli með því að þeir verði lagðir að jöfnu við umboðsmann hennar sem látins sjúklings.

Kærendur telja að skýra beri hugtakið umboðsmaður sjúklings í 14. gr. laganna í ljósi 6. gr. er kveður á um undanþágur frá meginreglunni um að upplýsingar um heilsufar og meðferð skuli einungis veita sjúklingum sjálfum eða þeim sem hann hafi tilnefnt. Þannig segir í 3. mgr. 6. gr. laganna að þegar í hlut eigi sjúklingur sem ekki getur tileinkað sér upplýsingar um heilsufar og meðferð þá skuli slíkar upplýsingar veittar nánum vandamanni eða lögráðamanni hafi sjúklingur verið sviptur lögræði. Er því ljóst að þegar ástand sjúklings er orðið þannig að hann getur ekki tileinkað sér upplýsingar og hefur jafnframt ekki gefist ráðrúm til að tilnefna umboðsmann, t.d. vegna þess að veikindi hans verða þess valdandi að hann verður ófær um slíkt, er aðstandendum eigi að síður veittur réttur til upplýsinga um heilsufar og meðferð sjúklingsins. Kærendur telja augljóst að sömu sjónarmið gildi varðandi afhendingu sjúkraskrár þegar veikindi sjúklings hafa dregið hann til dauða eins og í tilviki B. Telja þeir að af lögunum megi ráða að réttur aðstandenda til upplýsinga sé að jafnaði ríkari en réttur þriðju aðila og sé aðstandendum skipaður sérstakur sess í lögunum sem umboðsmönnum sjúklinga sem ekki hafi gefist ráðrúm til þess að skipa sérstakan umboðsmann eða veita samþykki til aðgangs. Kærendur benda á að eðli málsins samkvæmt hafi þeir ekki vottað umboð móður sinnar til afhendingar gagnanna enda lúti spurningar þeirra að því hvernig andlát hennar bar að höndum. Telja þeir jafnframt að með tilliti til almannahagsmuna geti reynst nauðsynlegt að gefa ættingjum kost á að kanna hvort einhver mistök kunni að hafa átt sér stað við læknismeðferð látins manns. Hin þrönga skýring landlæknisembættisins girði alfarið fyrir slíka möguleika að mati kærenda.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða telja kærendur sig vera umboðsmenn B í skilningi laga nr. 74/1997 sem eigi þar af leiðandi rétt til afhendingar á sjúkraskrám hennar og öðrum gögnum varðandi greiningu berklasmits, skráningu sjúkrasögu, ákvörðun um lyfjameðferð og gögnum um hvernig var háttað eftirliti með heilsufari B við meðferð á umræddu berklasmiti.

Kærendur byggja einnig á 3. málsl. 12. gr. laga nr. 74/1997 er kveður á um að þegar ríkar ástæður mæli með slíku geti starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja látins sjúklings og hagsmunum hlutaðeigandi. Hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekið undir það sjónarmið í úrskurði sínum í málinu nr. A-155/2002 að margt mæli með því að lögerfingjar manns njóti sama réttar og umboðsmenn og vísaði nefndin til 12. gr. laganna því til rökstuðnings. Kærendur benda á að í ákvörðun sinni hafi landlæknir ekki tekið afstöðu til þess hvort þeir kynnu að eiga kost á afhendingu sjúkraskránna með vísan til þessa ákvæðis. Telja þeir ákvörðun landlæknis að þessu leyti áfátt og skorta rökstuðning. Kærendur telja fyrrgreint undanþáguákvæði 3. málsliðar 12. gr. laga nr. 74/1997 endurspegla þau sjónarmið sem fram koma í Evrópustöðlum um trúnað og einkalífsvernd í heilbrigðisþjónustu (sjá lið 3.1.4) að við andlát sjúklings breytist forsendur fyrir ákvarðanatöku í þá átt að heimila upplýsingamiðlun þar sem ekki séu lengur sömu siðferðissjónarmið fyrir hendi þar sem dregið hafi úr hugsanlegu tjóni upplýsingamiðlunar fyrir hinn látna sjúkling. Kærendur benda á að þeir hafi ríkar ástæður til að fá aðgang að umræddum sjúkraskrám móður sinnar. Dauða hennar hafi borið að með óvenjulegum hætti og ekki hafi fengist skýr svör við spurningum kærenda. Þannig hafi embætti landlæknis t.d. einungis fullyrt, sbr. álitsgerð Landlæknisembættisins, dags. 27. apríl 2007, að engar frábendingar hafi komið fram við upphaf lyfjameðferðar, en ekki stutt þá fullyrðingu neinum gögnum eða útskýrt hvernig viðtöl við B við skráningu sjúkrasögu eða ákvörðun um lyfjameðferð hafi farið fram, m.a. hvort viðtölin hafi verið í samræmi við 5. gr. laga nr. 74/1997, einkum 4. mgr. sem kveður á um að þegar sjúklingur talar ekki íslensku skuli honum tryggð þjónusta túlks. Kærendur hafi persónulegra hagsmuna að gæta vegna afhendingu sjúkragagnanna auk þess sem þeir benda á að hugsanlegir almann[a]hagsmunir vegna mistaka er kunni að hafa átt sér stað styðji kröfu þeirra.“

Kærendur benda ennfremur á að „Eins og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun landlæknis byggi hann synjun sína eingöngu á því að kærendur hafi ekki skriflegt umboð sjúklings sbr. 14. gr. laga nr. 74/1997. Kærendur telja ákvörðun landlæknis verulega áfátt þar sem hann hafi ekki tekið afstöðu til ákvæða laganna er kveði á um undanþágur frá kröfu um skriflegt umboð, m.a. sjónarmiða að baki 12. gr. laganna um að við andlát sjúklings kunni forsendur að breytast varðandi afhendingu sjúkraskráa. Þá hafi landlæknir ekki tekið tillit til þeirra sérstöku aðstæðna er kunni að skapast þegar ættingjar óski gagna er varði andlát sjúklings og aðdraganda þess og hafi þ.a.l. ekki skriflegt umboð hins látna. Hin þrönga skýring landlæknis valdi því að ættingjum látins manns verði ávallt meinaður aðgangur að gögnum varðandi sjúkdómsmeðferð hans. Kærendur benda á að samkvæmt framansögðu hafi landlæknir ekki á heildstæðan hátt tekið afstöðu til þeirra helstu lagaákvæða er máli skipta við úrlausn á kröfu kærenda um afhendingu umræddra gagna. Í íslenskum stjórnsýslurétti hefur ekki verið talið að á stjórnvöldum hvíli fortakslaus skylda til að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hafi sett fram til rökstuddrar úrlausnar. Á hinn bóginn verður almennt að gera þær kröfur til stjórnvalda að þau taki að minnsta kosti afstöðu til meginmálsástæðna sem aðilar færa fram og hafa verulega þýðingu fyrir málið. Stuðlar slíkt tvímælalaust að því að aðili geti betur skilið og sætt sig við niðurstöðu máls (sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 4580/2005). Kærendur byggðu sérstaklega á því í bréfi sínu til landlæknis þann 15. júní sl. að sérstök sjónarmið giltu um ættingja látins manns, m.a. með tilliti til 12. gr. laga nr. 74/1997. Í rökstuddri afstöðu sinni tók landlæknir ekki afstöðu til þessarar meginmálsástæðu kærenda. Með vísan til þessa telja kærendur ákvörðun landlæknis ekki standast ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga varðandi efni rökstuðnings.

Eins og að framan er rakið höfðu kærendur m.a. efasemdir um læknismeðferð þá sem móðir þeirra sætti og óskuðu umræddra gagna í því skyni að sannreyna hvernig háttað var greiningu smits, skráningu sjúkrasögu og undirbúningi og ákvörðun um þá lyfjameðferð sem talið er að hafi dregið hana til dauða. Að kærenda mati hafa sjúkrastofnanir og heilbrigðisyfirvöld sem þeir hafa leitað til ekki veitt þeim fullnægjandi upplýsingar um hvernig fyrrgreindum atriðum var háttað. Sú afstaða heilbrigðisyfirvalda að takmarka afhendingu við þá sem hafa skriflegt umboð látins sjúklings hefur torveldað kærendum að gæta þeirra lögvörðu hagsmuna sem þeir telja sig hafa vegna andláts móður sinnar. Taki ráðherra ekki undir réttmæta kröfu þeirra um afhendingu sjúkragagna telja þeir sig knúna til að leita á náðir dómstóla og höfða má til öflunar sönnunargagna á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“ 

Með vísan til framangreinds krefjast kærendur þess að ákvörðun landlæknis verði breytt þannig að sjúkrastofnunum sem hlut eiga að máli verði gert að afhenda kærendum allar sjúkraskrár og gögn varðandi greiningu berklasmits, eftirfarandi lyfjameðferðar og sjúkdómsgreiningu B.

 

4. Málsástæður og lagarök kærða.

Um lagarök kærða er vísað til framangreinds bréfs hans til kæranda dags. 26. júní sl.þar segir m.a.:

„Það er einnig afstaða Landlæknisembættisins að Heilsuverndarstöðinni sé einungis heimilt að afhenda sjúkraskrá sjúklingi eða umboðsmanni hans.“

Einnig er vísað til fyrrgreinds bréfs hans til ráðuneytisins dags, 6. september 2007, en þar kemur afstaða landlæknisembættisins varðandi synjun á afhendingu sjúkraskrár fram og að hún sé í samræmi við 14. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Ennfremur kemur fram að afstaða landlæknisembættisins hafi verið sú að sjúkraskrár skuli aðeins sýna sjúklingi eða umboðsmanni hans, en með umboðsmanni sé átt við þann aðila sem hefur vottað umboð sjúklings.

 

5. Niðurstaða ráðuneytisins.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskuðu kærendur eftir því við kærða að þau fengju afhentar sjúkraskrár látinnar móður sinnar.

Í máli þessu liggur fyrir að kærði hefur hafnað því að afhentar verði sjúkraskrár B með þeim rökum að sjúkraskrá skuli aðeins sýna sjúklingi eða umboðsmanni hans, en að með umboðsmanni sé átt við þann aðila sem hefur vottað umboð sjúklings.

Grundvallarreglan um þagnarskyldu starfsfólks í heilbrigðisþjónustu er orðuð svo í 1. málsl. 12. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga:

„Starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skal gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann   kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum.“

Í 1. mgr. 15. gr. læknalaga nr. 53/1988 er að finna hliðstætt ákvæði um þagnarskyldu lækna og er það svohljóðandi:

„Lækni ber að gæta fyllstu þagmælsku og hindra það að óviðkomandi fái upplýsingar um sjúkdóma og önnur einkamál er hann kann að komast að sem læknir.“

Í 2. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga segir: „Þagnarskyldan helst þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum.“  

Hliðstætt ákvæði er í 1. málsl. 7. mgr. 15. gr. læknalaga, svohljóðandi: „Þagnarskylda fellur ekki niður við lát sjúklings.“ 

Ljóst er að frá meginreglunni um þagnarskyldu lækna/starfsmanna verður ekki vikið nema lög heimili og á það, eins og að framan greinir, einnig við eftir lát sjúklings. Í 3. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga er að finna ákvæði þar sem mælt er fyrir um undantekningu frá meginreglunni um þagnarskyldu þegar um er að ræða upplýsingar um látna en þar segir:

„Mæli ríkar ástæður með því getur starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sé starfsmaður í vafa getur hann borið málið undir landlækni.“

Hliðstætt ákvæði er í 2. málsl. 7. mgr. 15. gr. læknalaga svohljóðandi:

„Mæli ríkar ástæður með því getur læknir látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum viðkomandi. Sé læknir í vafa getur hann borið málið undir landlækni.“

Með framangreindum ákvæðum 12. gr. laga um réttindi sjúklinga og 7. mgr. 15. gr. læknalaga hefur löggjafinn falið viðkomandi lækni/starfsmanni að meta í hverju tilviki hvort skilyrði laganna til þess að láta í té upplýsingar um látinn sjúkling séu uppfyllt. Komi fram beiðni um upplýsingar um látinn sjúkling ber lækni/starfsmanni því að meta hvort ríkar ástæður séu til að verða við beiðninni, með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum þess sem óskar eftir upplýsingunum. Sé starfsmaður í vafa getur hann borið málið undir landlækni.

Komi erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum, skv. 3. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga, til úrlausnar landlæknis, hvort sem það er samkvæmt ósk viðkomandi læknis/starfsmanns eða beint frá þeim sem óskar eftir upplýsingunum, verður að telja að landlækni sé skylt að leggja mat á það hvort lagaskilyrði til að verða við erindinu séu uppfyllt eða ekki. Landlækni ber með öðrum orðum að meta það, með sama hætti og viðkomandi læknir/starfsmaður þegar þannig stendur á, hvort nægilega ríkar ástæður séu til að láta í té upplýsingar, með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sá sem óskar eftir heilsufarsupplýsingum um látinn mann þarf samkvæmt 3. málsl. 12. gr. að tilgreina þær ríku ástæður og hagsmuni sem liggja til grundvallar beiðni hans, þannig að unnt sé að meta hvort lagaskilyrði til að fallast á hana séu uppfyllt. Telji landlæknir upplýsingar um hagsmuni þess er óskar eftir aðgangi óljósar ber honum á grundvelli þeirra sjálfstæðu rannsóknarskyldu sem á honum hvílir að óska eftir frekari upplýsingum eða rökstuðningi. Að öðrum kosti getur landlæknir ekki lagt mat á hagsmuni hlutaðeigandi aðila.

Um aðgang sjúklinga og umboðsmanna þeirra að sjúkraskrá er fjallað í 14. gr. laga um réttindi sjúklinga. Segir þar í 2. mgr. að lækni og öðrum sem færa sjúkraskrá sé skylt að sýna hana sjúklingi eða umboðsmanni hans, í heild eða að hluta, og afhenda þeim afrit skrárinnar sé þess óskað. Ráðuneytið telur rétt að taka fram að almennt verður ekki litið svo á að börn séu umboðsmenn látinna foreldra samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um réttindi sjúklinga og vísar ráðuneytið í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá 27. nóvember 2003 í máli nr. 151/2003. Aðgangur barns að sjúkraskrá látins foreldris verði því ekki byggður á 2. mgr. 14. gr. laga um réttindi sjúklinga, nema ákvæði 3. málsl. 12. gr. laganna eigi jafnframt við.

Sá sem óskar eftir heilsufarsupplýsingum um látinn mann þarf samkvæmt 3. málsl. 12. gr. að tilgreina þær ríku ástæður og hagsmuni sem liggja til grundvallar beiðni hans, þannig að unnt sé að meta hvort lagaskilyrði til að fallast á hana séu uppfyllt. Við mat á því hvort veita beri barni aðgang að upplýsingum um látið foreldri telur ráðuneytið að m.a. beri að líta til hins nána sambands og hagsmunatengsla, sem að jafnaði eru á milli foreldra og barna og hið sama eigi við um aðgang eftirlifandi maka að upplýsingum.

Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar verður ekki séð af gögnum málsins að slíkt mat hafi farið fram af hálfu landlæknis heldur synjaði hann erindinu á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir vottað umboð frá sjúklingi.

Ráðuneytið telur að þessi afstaða kærða sé ekki í samræmi við ákvæði 3. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga, sbr. 7. mgr. 15. gr. læknalaga, þar sem ljóst er að kærði byggði synjun sína eingöngu á skorti á samþykki sjúklings.

Ráðuneytið vill taka fram að ætla verður að það sé afar sjaldgæft að í sjúkraskrá sé að finna skýrar upplýsingar um vilja viðkomandi sjúklings til þess hvort veittar verði upplýsingar úr sjúkraskrá hans að honum látnum, þó ekki sé það útilokað. Ráðuneytið telur því að ekki sé heimilt að byggja synjun á því að ekki liggi fyrir upplýsingar um vilja sjúklinga heldur beri að byggja á hagsmunamati samkvæmt 12. gr. laga um réttindi sjúklinga. Hún gerir ráð fyrir að hagsmunir hins látna af því að upplýsingarnar verði ekki veittar og hagsmunir þess er upplýsinganna óskar, séu vegnir og metnir í hverju tilviki og tillit tekið til aðstæðna í hverju máli. Við mat á hagsmunum hins látna og ætluðum vilja hans, verður að sjálfsögðu að taka mið af eðli þeirra upplýsinga sem fram koma í sjúkraskrá, þ.e. hvort þær eru þess eðlis að þær geti talist mjög persónulegar þannig að gera verði ráð fyrir að hinn látni hefði ekki viljað að aðrir hefðu vitneskju um þær. Hvað varðar mat á hagsmunum þess er upplýsinganna óskar verður að taka tillit til aðstæðna í hverju máli.

Við beitingu 3. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga hvílir sjálfstæð og rík rannsóknarskylda á landlæknisembættinu. Í því máli sem hér er til umfjöllunar telur ráðuneytið ljóst að landlæknisembættið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og látið hjá líða að leggja mat á þá hagsmuni sem um var að ræða í málinu og því ekki tekið efnislega afstöðu til kröfu kæranda.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun kærða, dags. 26. júní 2007, um að synja beiðni kærenda um upplýsingar úr sjúkraskrá látinnar móður hafi verið byggð á röngum lagagrundvelli. Með vísan til þess er óhjákvæmilegt að fella ákvörðunina úr gildi og leggja fyrir kærða að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. Ber landlækni við endurupptöku málsins að leggja mat á það hvort nægilega ríkar ástæður mæli með því að upplýsingar séu veittar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum kæranda. Telji kærði ónógar upplýsingar liggja fyrir ber embættinu í ljósi rannsóknarskyldu sinnar að beina því til kæranda að rökstyðja kröfu sína betur og leggja fram viðbótargögn telji kærði það nauðsynlegt.

   

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun kærða, dags. 26.júní 2007, um synjun afhendingu sjúkraskrár B er felld úr gildi. Lagt er fyrir kærða að taka málið til meðferðar að nýju og leysa úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í úrskurði þessum.

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta