Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Synjun um endurupptöku máls um viðbótarframlag vegna tannréttinga

Fimmtudaginn 31. desember 2007, var í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

 

Með kæru, dags. 21. maí 2007, til Úrskurðarnefndar almannatrygginga kærði A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. mars 2007, um synjun á beiðni um endurupptöku á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins dags. 7. september 2005.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga framsendi erindið til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins með bréfi, dags. 11. júní 2007, í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. A var tilkynnt með bréfi, dags. 16. ágúst 2007, að ráðuneytinu hefði borist erindið og að málið yrði tekið til úrskurðar.

Kærða, Tryggingastofnun ríkisins, var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna stjórnsýslukæru kæranda, A, með bréfi dags. 16. ágúst 2007. Athugasemdir kærða voru sendar kæranda til umsagnar með bréfi, dags. 17. september 2007. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda vegna athugasemda kærða.

 

Málsatvik.

Málsatvik, eins og þau koma fram í gögnum málsins, eru þau að þann 7. september 2005 samþykkti kærði beiðni B um milligöngu greiðslu viðbótarframlags vegna tannréttinga að upphæð kr. 80.910 með dóttur hennar og kærða á grundvelli úrskurðar sýslumannsins í Reykjavík, dags. 9. ágúst 2005, þar sem kæranda var gert að greiða B framlag vegna tannréttinga dóttur þeirra. Kæranda var tilkynnt um ákvörðun kærða með bréfi, dags. 7. september 2005. Þann 21. júní 2006 greiddi kærandi B kr. 80.910,00 í samræmi við úrskurð sýslumannsins í Reykjavík, dags. 9. ágúst 2005. Með bréfi, dags. 23. febrúar 2007, barst kæranda tilkynning frá Innheimtustofnun sveitarfélaga um að hann skuldaði meðlagsskuld að upphæð kr. 80.910. Þann 16. mars 2007 tók kærði við greiðslukvittun frá kæranda, þar sem fram kemur að kærandi hafi greitt B kr. 80.910,00 þann 21. júní 2006. Í bréfi kærða til kæranda, dags. 29. mars 2007, kemur fram að kærða sé óheimilt að taka tillit til greiðslukvittunar kærða við ákvörðun um milligöngu um greiðslu viðbótarframlags vegna tannréttinga dóttur kærða og því standi ákvörðun kærða dags. 7. september 2005 óhögguð.

 

Málsástæður kæranda.

Í kæru til Úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 21. maí 2007, kemur fram að kærandi hafi greitt B þá fjárhæð sem honum var gert að greiða skv. úrskurði sýslumannsins í Reykjavík, dags. 9. ágúst 2005. Því til staðfestingar er lögð fram greiðslukvittun, dags. 21. júní 2006. Kærandi kveðst hafa greitt B fjárhæðina beint þar sem hann hafi aldrei fengið tilkynningu um að kærði hafi samþykkt að greiða B viðbótarframlag vegna tannréttinga dóttur þeirra og því hafi hann ekki vitað að skuld hefði stofnast við Innheimtustofnun sveitarfélaga.

  

Málsástæður kærða og lagarök.

Í umsögn kærða, dags. 11. september 2007, kemur fram að kærði telji sig ekki hafa heimild til þess að taka til greina greiðslukvittun frá kæranda, dags. 21. júní 2006, við ákvörðun um milligöngu um greiðslu viðbótaframlags. Í umsögn kærða segir ennfremur:

„Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur fjallað um þessar greinar [1. mgr. 59. gr. þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993 og 37. gr. barnalaga nr. 76/2003] í úrskurðum sínum vegna stjórnsýslukæra er vörðuðu milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur...

Í þeim öllum segir að hlutverk Tryggingastofnunar sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hefur verið tekin með lögmætum hætti um meðlag og ef foreldri leggur fram samkomulag um greiðslu meðlags sem staðfest er af sýslumanni beri stofnuninni að hafa milligöngu um greiðslu meðlagsins samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin eru upp í þeim lagaákvæðum til greina við ákvörðun um milligöngu um greiðslu meðlags.

Í málinu liggur fyrir umsókn B um milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga dóttur hennar og kæranda ásamt úrskurði sýslumanns um að kæranda sé gert að greiða B kr. 80.910 vegna kostnaðar við tannréttinga dótturinnar. Einnig liggur fyrir afrit af bréfum sem send voru til B og kæranda um afgreiðslu málsins og ekkert sem sýnir að þau hafi ekki borist þeim, t.d. að þau hafi verið endursend Tryggingastofnun. Þá liggur fyrir greiðslukvittun frá kæranda sem sýnir að hann hafi greitt B kr. 80.910 21. júní 2006 samkvæmt úrskurði sýslumannsins í Reykjavík.”

 

Niðurstaða ráðuneytisins.

Í ljósi atvika máls ber efni erindis kærða til kæranda, dags. 21. júní 2006, með sér að kærandi hafi óskað eftir nýrri efnislegri umfjöllun um ákvörðun kærða, dags. 7. september 2005, og þar með endurupptöku á ákvörðuninni. Verður þá litið svo á að í ákvörðun kærða, dags. 7. september 2007, felist synjun á beiðni um endurupptöku málsins og er sú ákvörðun hér til umfjöllunar.

Með hliðsjón af atvikum máls lýtur ágreiningur aðila að því hvort kærða sé skylt eða eftir atvikum heimilt að taka mál kæranda til meðferðar á ný, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi er ósáttur við að þurfa að greiða meðlagsskuld að upphæð kr. 80.910,00 í samræmi við úrskurð sýslumannsins í Reykjavík, dags. 9. ágúst 2005, þar sem hann greiddi skuldina beint til barnsmóður sinnar þann 21. júní 2006. Því til staðfestingar hefur kærandi lagt fram greiðslukvittun, dags. 21. júní 2006.

Skal þá tekinn til skoðunar sá þáttur er varðar skilyrði endurupptöku máls. Um endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð og bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Samkvæmt 2. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum [nú 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar], annast kærði framkvæmd almannatrygginga. Í almannatryggingalögum er kærða jafnframt falin ýmis önnur verkefni en að greiða bætur almannatrygginga, meðal annars að hafa milligöngu um greiðslu framfærsluframlags.

Í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um greiðsluskyldu kærða. Þar segir:

Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

1. mgr. 59. gr. þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993 [nú 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar] er svohljóðandi:

Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 14. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.

Hlutverk kærða er eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hefur verið tekin með lögmætum hætti um framfærsluskyldu foreldris. Ef foreldri leggur fram úrskurð sýslumanns þar sem kveðið er á um framfærslugreiðslu ber kærða, sbr. þágildandi 1. mgr. 59. gr laga nr. 117/1993 um almannatryggingar [nú 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar] og 67. gr barnalaga, að hafa milligöngu um greiðslu framfærslu. Lög veita kærða ekki heimild til að taka önnur gögn en talin eru upp í framangreindum lagaákvæðum til greina við ákvörðun um milligöngu um framfærslugreiðslu. Með hliðsjón af því að ný gögn í málinu þykja ekki breyta niðurstöðu ákvörðunar kærða, dags. 7. september 2005, og hve langur tími er liðinn síðan kæranda var tilkynnt ákvörðun kærða, dags. 7. september 2005, ber að líta svo á að skilyrði endurupptöku skv. 1. og 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu ekki fyrir hendi.

Með vísan til framanritaðs er kröfu kæranda, um að ákvörðun kærða um synjun endurupptöku á ákvörðun kærða dags. 7. september 2005, verði felld úr gildi hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu kæranda, A, um að ákvörðun kærða um synjun endurupptöku á ákvörðun kærða, dags. 7. september 2005, verði felld úr gildi, er hafnað.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta