Málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli vegna læknismeðferðar
Miðvikudaginn 3. júní 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 23. október 2008, kærði A, hér eftir kærandi, málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli vegna læknismeðferðar á kærða þann 2. október 2002. Gerð er krafa um að álitsgerð landlæknis í málinu frá 20. október 2008 verði felld úr gildi og að landlæknir upplýsi hvaða sérfræðilæknir í bæklunarlækningum hafi gert greinargerð þá sem landlæknir gerir að sinni. Er byggt á því að ekki hafi verið gætt lögmætra sjónarmiða við afgreiðslu málsins og ekki tekið á kvörtun kæranda með málefnalegum hætti. Þannig hafi lögmætisreglan og andmælareglan verið brotnar.
Málsmeðferð ráðuneytisins.
Kæran var send landlækni til umsagnar þann 29. október 2008. Umsögn landlæknis dags. 3. nóvember 2008 var send kæranda til umsagnar 10. desember 2008 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir 22. desember 2008. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu. Ráðuneytið óskaði með bréfi dags. 12. mars 2009 eftir frekari upplýsingum frá landlækni vegna beiðni kæranda í bréfi hans til landlæknisembættisins dags. 12. mars 2008, um að honum yrðu send öll viðbótarvottorð sem embættið hefði aflað. Í bréfi ráðuneytisins frá 12. mars 2009 var óskað eftir að listuð yrðu upp þau gögn sem send voru með bréfi landlæknis til kæranda dags. 17. mars 2008. Afrit var sent kæranda. Í svari landlæknis til ráðuneytisins dags. 27. mars 2009 kemur fram að um sé að ræða sömu gögn og listuð voru í bréfi landlæknis til ráðuneytisins 3. nóvember 2008.
Málavextir.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var gangur málsins eftirfarandi:
Með bréfi dags. 7. janúar 2008 barst landlæknisembættinu kvörtun lögmanns kæranda, vegna meintra mistaka við meðferð er A fékk á slysadeild LSH þann 2. október 2002. Í bréfinu er beðið um að rannsakað verði hvort um læknamistök hafi verið að ræða.
Landlæknir sendi aðstoðarframkvæmdastjóra lækninga Landspítala bréf 15. janúar 2008, þar sem óskað var eftir afriti af sjúkraskrárgögnum A ásamt greinargerð spítalans. Svar barst með bréfi dags. 24. janúar 2008 ásamt sjúkraskrárgögnum og greinargerð B sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss dags. 22. janúar 2008. Með bréfi Landspítala dags. 28. janúar 2008 bárust viðbótar sjúkragögn. Þann 29. janúar 2008 óskaði landlæknisembættið eftir sérfræðiáliti óháðs sérfræðings. Var óskað eftir rökstuddri greinargerð með tilvísan í viðurkennda læknisfræði. Þann 20. febrúar 2008 barst embættinu sérfræðiálit fyrrgreinds sérfræðings dags. 18. febrúar 2008. Niðurstaða sérfræðiálitsins var sú að faglega rétt hefði verið staðið að meðferð kæranda er hann leitaði lækninga á slysadeild LSH 26. september 2002 vegna verkja í öxl. Í álitinu kemur m.a. fram að þó staða kæranda sé verri en fyrir meðferðina sé það ekki að rekja til meðferðarinnar heldur sjúkdómsins sem leiddi til meðferðarinnar.
Landlæknisembættið sendi lögmanni kæranda drög að álitsgerð embættisins með bréfi dags. 22. febrúar 2008, ásamt greinargerð sérfræðings í bæklunarskurðlækningum dags. 18. febrúar 2008. Með bréfi dags. 12. mars 2008 óskaði lögmaður kæranda eftir því að koma frekari gögnum til embættisins einkum vottorði frá C. Ennfremur var óskað eftir að þau viðbótarvottorð sem landlæknir hefði aflað yrðu send lögmanni kæranda. Í bréfi landlæknis til lögmanns kæranda dags. 17. mars 2008 segir m.a.: „Meðfylgjandi eru umbeðin gögn varðandi mál A ...“ Ekki var hins vegar gerð frekari grein fyrir því í bréfinu um hvaða gögn væri að ræða.
Með kæru í máli þessu fylgir afrit bréfs lögmanns kæranda til landlæknisembættisins dags. 17. júní 2008 ásamt læknisvottorði C dags. 9. júní 2008. Í bréfinu var jafnframt óskað eftir að greinargerð B, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala- háskólasjúkrahúsi, dags. 22. janúar 2008 yrði send og að drög að áliti sem kæranda höfðu verið send með bréfi landlæknis dags. 22.febrúar 2009 yrðu endurskoðuð og upplýst til hvaða sérfræðilæknis hafi verið leitað.
Samkvæmt umsögn landlæknis til ráðuneytisins dags. 3. nóvember 2008 barst fyrrgreint vottorð C, sem boðað var í bréfi lögmanns kæranda dags. 12. mars 2008 ekki til landlæknisembættisins. Landlæknisembættið sendi kæranda endanlega álitsgerð sína með bréfi dags. 20. október 2008. Í álitsgerðinni gerir landlæknir fyrrgreint sérfræðiálit frá 18. febrúar 2008 að sínu. Fyrrgreint vottorð C dags. 9. júní 2008 lá ekki fyrir við gerð sérfræðiálitsins og ekki er vikið að því í álitsgerð landlæknis frá 20. október 2008. Samkvæmt upplýsingum frá skjalavörslu landlæknisembættisins barst fyrrgreint bréf lögmanns kæranda dags. 17. júní 2008 ekki til landlæknisembættisins fyrr en ráðuneytið sendi kæru kæranda ásamt meðfylgjandi gögnum til umsagnar landlæknisembættisins hinn 23. október 2008. Fyrrgreint afrit bréfs lögmanns kæranda til landlæknisembættisins dags. 17. júní 2008 ásamt vottorði C var meðal fylgigagna.
Málsástæður og lagarök kæranda.
Í kæru segir m.a:
„Kærandi byggir á að ekki hafi verið gætt lögmætra sjónarmiða við afgreiðslu málsins og ekki tekið á kvörtun kæranda með málefnalegum hætti þannig hafi lögmætisreglan svokallaða verið brotin. Þá hafi andmælareglan einnig verið brotin, en lögmanni kæranda hafi ekki verið send greinargerð B frá 22. janúar 2008. Þá hafi lögmaður kæranda ekki verið upplýstur um til hvaða sérfræðings í bæklunarlækningum landlæknir leitaði. Þá er einnig ljóst að landlæknir leggi ekkert stjórnsýslulegt mat á málið og kvörtun kæranda, enda geri hann mat[s] sérfræðingsins að sínu mati. Því sé og enn haldið leyndu hver hafi gert sérfræðiálitið og meðan svo sé hafi landlæknir ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína. Einnig sé hætta á að jafnræðisreglan hafi verið brotin, þar sem það fæst ekki úr því skorið hvort bæklunarlæknirinn hafi verið hlutlaus, annað hvort í garð þess læknis sem hin umdeildu læknisaðgerð gerði á A eða í garð A eða lögmanns hans.“
Ennfremur kemur fram að landlæknir hafi tekið ákveðna afstöðu til málsins þegar í drögum að áliti og brotið þannig gegn andmælarétti kæranda. Þá vísar kærandi til meginreglu stjórnsýsluréttar um lögmætisreglu, andmælarétt og rannsóknarreglu. Ennfremur vísar kærandi til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um jafnræði, andmælarétt og upplýsingaskyldu.
Málsástæður og lagarök landlæknis.
Í umsögn landlæknis dags. 3. nóvember 2008 kemur fram að landlæknisembættinu hafi borist bréf A, dags. 07. janúar 2008, þann 09. janúar 2008. Í framhaldi af því var Landspítala sent bréf dags. 15. janúar 2008 og óskað eftir afriti af sjúkraskrá ásamt greinargerð Landspítala. Svar ásamt gögnum barst embættinu með bréfi dags. 24. janúar 2008. Var þar meðal annars um að ræða greinargerð B, sérfræðings á slysa- og bráðadeild LSH dags. 22. janúar 2008. Með bréfi aðstoðarframkvæmdastjóra lækninga LSH dags. 28. janúar 2008 bárust m.a. afrit af læknabréfum, dagnóta úr sjúkraskrá og bréf D.
Landlæknir óskaði með bréfi dags. 29. janúar 2008 eftir sérfræðiáliti óháðs sérfræðings. Var óskað eftir rökstuddri greinargerð með tilvísan til viðurkenndrar læknisfræði. Greinargerð dags. 18. febrúar 2008 barst embættinu með bréfi dags. 20. febrúar 2008 og voru lögmanni kæranda send drög að álitsgerðinni með bréfi embættisins dags. 22. febrúar 2008. Með bréfi lögmanns kæranda dags. 14. mars 2008 óskaði kærandi eftir því að koma að frekari gögnum og að viðbótarvottorð sem embættið hefði aflað yrðu send sér og hafi það verið gert með bréfi dags. 17. mars 2008.
Samkvæmt umsögn landlæknis bárust embættinu ekki þau gögn er kærandi hafði óskað að koma að, samkvæmt bréfi kæranda dags. 12. mars 2008. Endanleg álitsgerð landlæknisembættisins hafi því verið send kæranda með bréfi dags. 20. október 2008.
Niðurstaða.
Í kæru er þess krafist að álit landlæknis frá 20. október 2008 vegna læknisaðgerðar á kæranda þann 2. október 2002 verði fellt úr gildi og að landlæknisembættinu verði gert að upplýsa um hvaða sérfræðingur í bæklunarlækningum hafi gert þá „greinargerð sérfræðings“ sem landlæknir gerir að sinni í framangreindu áliti.
Kærandi byggir á að ekki hafi verið gætt lögmætra sjónarmiða við afgreiðslu málsins og landlæknir ekki tekið á kvörtun kæranda með málefnalegum hætti. Þannig hafi bæði lögmætisreglan og andmælareglan verið brotnar, en kæranda hafi ekki verið send greinargerð B frá 22. janúar 2008. Þá hafi kærandi ekki verið upplýstur um til hvaða sérfræðings í bæklunarlækningum landlæknir leitaði. Landlæknir leggi ekkert stjórnsýslulegt mat á málið og kvörtun kæranda og geri mat sérfræðingsins að sínu.
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni er landlækni skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í 5. mgr. 12. gr. segir að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Í 5. mgr. segir ennfremur að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt.
Taki landlæknir kvartanir til efnislegrar meðferðar skv. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni, er málinu lokið með skriflegu áliti en ekki með stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni er hægt að kæra málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum til ráðuneytisins. Hlutverk ráðuneytisins er því að endurskoða stjórnsýslulega meðferð kvartana.
Í bréfi landlæknis til ráðuneytisins, dags. 27. mars 2009 kemur fram að kæranda hafi verið send öll gögn sem listuð eru upp í umsögn embættisins til ráðuneytisins dags. 3. nóvember 2008, með bréfi landlæknis til kæranda dags. 17. mars 2008, þar á meðal greinargerð B. Kærandi hefði því samkvæmt framanrituðu átt kost á að koma að andmælum.
Drög að álitsgerð landlæknis ásamt greinargerð sérfræðilæknis dags. 18. febrúar 2008 voru send kæranda með bréfi landlæknis dags. 22. febrúar 2008. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 12. mars 2008 þar sem óskað var eftir að koma frekari gögnum til landlæknis, svo sem vottorði frá C. Ennfremur var óskað eftir að öll viðbótarvottorð sem landlæknir hefði aflað yrðu send.
Í gögnum málsins sem send voru með kæru kæranda til ráðuneytisins dags. 23. október 2008, var afrit af bréfi dags. 17. júní 2008 ásamt vottorði frá C. Samkvæmt fyrrgreindu bréfi óskaði kærandi eftir að greinargerð B dags. 22. janúar 2008 yrði send og upplýst til hvaða sérfræðings var leitað. Þá var í framangreindu bréfi farið fram á að álit landlæknis yrði endurskoðað.
Samkvæmt umsögn landlæknis til ráðuneytisins dags. 3. nóvember 2008 barst fyrrgreint vottorð C, sem boðað var í bréfi lögmanns kæranda dags. 12. mars 2008 ekki til landlæknisembættisins. Landlæknisembættið sendi kæranda endanlega álitsgerð sína með bréfi dags. 20. október 2008. Í álitsgerðinni gerir landlæknir fyrrgreint sérfræðiálit frá 18. febrúar 2008 að sínu. Fyrrgreint vottorð C dags. 9. júní 2008 lá ekki fyrir við gerð sérfræðiálitsins og ekki er vikið að því í álitsgerð landlæknis frá 20. október 2008. Samkvæmt upplýsingum frá skjalavörslu landlæknisembættisins barst fyrrgreint bréf lögmanns kæranda dags. 17. júní 2008 ásamt vottorði C ekki til landlæknisembættisins fyrr en ráðuneytið sendi kæruna ásamt meðfylgjandi gögnum til umsagnar landlæknisembættisins hinn 29. október 2008. Ekki hafa verið lögð fram önnur gögn um sendingu bréfsins en fyrrgreint ljósrit og er því ekki unnt að fullyrða neitt um ástæður þess að bréfið ásamt vottorðinu barst ekki til landlæknisembættisins.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefur kærandi ekki verið upplýstur um hvaða sérfræðingur í bæklunarlækningum hafi gert greinargerð sem landlæknir gerir að sinni í áliti frá 20. október 2008.
Samkvæmt bréfi landlæknis til ráðuneytisins dags. 27. mars 2009 var greinargerð B send kæranda með bréfi landlæknis dags. 17. mars 2008 ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum. Þar sem ekki fylgir listi yfir fylgiskjöl verður ekki talið sannað gegn andmælum lögmanns kæranda að umrædd greinargerð hafi verið meðal fylgigagna með bréfi landlæknis frá 17. mars 2008.
Með vísan til framanritaðs, fyrirliggjandi upplýsinga og gagna er ljóst að skv. upptalningu landlæknis í áliti dags. 22. október 2008, er vottorð C ekki eitt af gögnum málsins og því verður að telja að ekki hafi verið tekið tillit til þess við gerð sérfræðiálitsins. Þá hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að lögmaður kæranda hafi átt kost á því að koma að andmælum vegna greinargerðar B dags. 22. janúar 2008. Loks liggja ekki fyrir upplýsingar um að kærandi hafi verið upplýstur um til hvaða sérfræðings í bæklunarskurðlækningum hefði verið leitað.
Ráðuneytið beinir því til landlæknisembættisins að það taki kvörtun kæranda til nýrrar meðferðar, m.a. með hliðsjón af vottorði C dags. 9. júní 2008, upplýsi kæranda um til hvaða sérfræðings í bæklunarlækningum var leitað og gefi kæranda kost á að koma að andmælum vegna greinargerðar B.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Landlæknisembættið taki kvörtun kæranda til nýrrar meðferðar og hagi málsmeðferð sinni í samræmi við framanritaðar athugasemdir.