Málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli vegna læknismeðferðar
Miðvikudaginn 4. mars 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 30. október 2008, kærði A, hér eftir kærandi, málsmeðferð landlæknis, í kvörtunarmáli kæranda dags. 19. október 2008, vegna læknismeðferðar B á kæranda á árinu 1995. Landlæknir komst að þeirri niðurstöðu með vísan til 12. gr. laga um landlækni nr. 41/2007, að rétt væri að vísa kvörtun frá þar sem meira en tíu ár væru liðin frá því að þau atvik gerðust sem voru tilefni kvörtunar.
1. Málsmeðferð ráðuneytisins
Kæran var send landlækni til umsagnar þann 5. nóvember 2008. Umsögn landlæknis dags. 17. nóvember 2008 var send kæranda til umsagnar 8. desember 2008. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 20. desember 2008. Landlækni voru sendar athugasemdir kæranda 6. janúar 2009 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Í bréfi landlæknis dags. 9. janúar sl. kemur fram að hann telur ekki ástæðu til að koma að athugasemdum varðandi andsvar kæranda.
2. Málavextir
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru málsatvik þau að kærandi kvartaði til landlæknis með bréfi dags. 19. október 2008. Kvörtunin laut að læknisaðgerð sem B framkvæmdi á brjóstum kæranda árið 1995 þar sem m.a. silikonpúðar voru settir inn. Ekki liggja fyrir nein gögn um aðgerðina frá lækninum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvar aðgerðin var framkvæmd, þ.e. hvort það var á einkastofu læknisins eða á stofnun sem rekin var af hinu opinbera.
Í ársbyrjun 2008 tók kærandi eftir breytingu á brjóstunum. Nefndi kærandi það við skurðlækni sinn þegar hún leitaði til hans af öðru tilefni. Skurðlæknirinn sendi kæranda í brjóstamyndatöku hjá Krabbameinsfélaginu. Í ljós kom rof á silikonpúðum sem settir höfðu verið inn árið 1995 og hafði efni lekið úr þeim og var aðgerð til lagfæringar fyrirhuguð.
Kærandi kvartaði með, bréfi dags. 19. október 2008, til landlæknis yfir brjóstaaðgerðinni sem hún gekkst undir árið 1995.
Með bréfi dags. 28. október 2008 vísaði landlæknir kvörtuninni frá, þar sem meira en tíu ár væru liðin frá því að þau atvik gerðust sem voru tilefni kvörtunar, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni.
3. Málsástæður og lagarök kæranda
Í kvörtun kæranda til landlæknis dags. 19. október 2008, segir m.a:
„Á grundvelli 12. greinar læknalaga [laga um landlækni], er hér með kvartað yfir læknisaðgerð B, á brjóstum ofangreindrar árið 1995“ rökin fyrir seint fram kominni kvörtun eru þau að kærandi hafi ekki fyrr en í byrjun árs 2008, farið að finna fyrir verulegum óþægindum í handarkrika og við skoðun það ár, m.a. hjá Krabbameinsfélaginu, hafi komið í ljós að efni úr svokölluðum sílikonpúðum hafi lekið út í líkama kæranda.
Kærandi byggir kæru á því að frávísun landlæknis fari í bága við allar meginreglur um fyrningu krafna og allar meginreglur líkamstjónsréttar, en samkvæmt þeim sé það tíminn þegar tjónþoli gerir sér grein fyrir líkamsáverkum sínum, sem sé upphaf fyrningafrests. Bendir hann máli sínu til stuðnings á ákvæði 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda og 52. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga.
4. Málsástæður og lagarök landlæknis
Í bréfi landlæknis dags. 28. október 2008 er kvörtun kæranda vísað frá með vísan til 12. gr. laga um landlækni nr. 41/2007. Telur landlæknir rétt að vísa kvörtuninni frá þar sem meira en tíu ár eru liðin frá veitingu þeirrar heilbrigðisþjónustu sem er tilefni kvörtunarinnar. Í umsögn landlæknis til ráðuneytisins 17. nóvember 2008 er bent á að í kvörtun kæranda dags. 19. október 2008 sé verið að kvarta yfir læknisaðgerð B á brjóstum kæranda árið 1995. Hinn almenni tíu ára frestur hafi því verið liðinn og að mati landlæknis mæltu sérstakar ástæður ekki með því að vikið væri frá þeim fresti.
5. Niðurstaða
Kæran varðar frávísun landlæknis á kvörtun kæranda vegna brjóstaaðgerðar á árinu 1995, þar sem meira en tíu ár voru liðin frá því að aðgerðin var framkvæmd og þar til kvörtun barst í október 2008, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni.
Kærandi vísar til þess að það hafi ekki verið fyrr en í byrjun árs 2008, sem hún tók eftir breytingu á brjóstum og í ljós hafi komið að breytingarnar stöfuðu af rofi á silikonpúðum sem settir höfðu verið í brjóst hennar með skurðaðgerð árið 1995. Samkvæmt meginreglum um fyrningu krafna og meginreglum líkamstjónsréttar sé það tíminn þegar sjúklingur/tjónþoli gerir sér grein fyrir líkamsáverkum sínum, sem sé upphaf fyrningarfrests. Ófært sé að miða við það hvenær brjóstaaðgerð hafi verið gerð, heldur beri að miða við hvenær í ljós kom að aðgerðin hafði ákveðnar afleiðingar sem komu fram löngu síðar.
Í umsögn landlæknis dags. 17. nóvember 2008 segir: „Lögmaðurinn segir sjálfur að aðgerðin sem kærandi gekkst undir árið 1995 eða þrettán árum áður en kvörtun barst sé það atvik sem er tilefni kvörtunar. Hinn almenni tíu ára frestur var því liðinn og að mati landlæknis mæltu ekki sérstakar ástæður með því að vikið væri frá þeirri meginreglu.“ Þessi niðurstaða sé byggð á 12. gr. laga um landlækni nr. 41/2007.
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007, er landlækni skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í 4. mgr. 12. gr. segir að kvörtun skuli borin fram við landlækni án ástæðulauss dráttar. Séu meira en tíu ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar er landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar. Í 5. mgr. 12. gr. segir að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni er hægt að kæra málsmeðferð landlæknis á kvörtunarmálum til ráðuneytisins.
Hlutverk ráðuneytis er því að endurskoða stjórnsýslulega málsmeðferð landlæknis á kvörtunum en það fjallar ekki efnislega um kvartanirnar.
Við afgreiðslu landlæknis á kvörtunum ber honum að fara eftir lögum um landlækni og stjórnsýslulögum eftir því sem við á. Kærandi byggir á því að frávísun landlæknis fari í bága við meginreglur um fyrningu krafna og meginreglur líkamstjónsréttar. Landlæknir synjar um að taka kvörtun samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007 til efnismeðferðar og gefa skriflegt álit á læknisverki sem unnið var á kæranda þrettán árum áður. Í þessari ákvörðun landlæknis felst engin afstaða til þess hvort hugsanlegar skaðabótakröfur kæranda séu fyrndar eður ei heldur einungis hvort lögákveðinn frestur kæranda til að bera læknisverk undir álit landlæknis sé runninn út. Um þá málsmeðferð landlæknis á kvörtunum gilda hvorki almennar meginreglur fyrningar né meginreglur líkamstjónsréttar.
Taki landlæknir kvartanir til efnismeðferðar, samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007, þá lýkur hann máli með því að gefa skriflegt álit en ekki með stjórnvaldsákvörðun. Þeir sem notið hafa heilbrigðisþjónustu og telja sig hafa orðið fyrir mistökum eða vanrækslu við veitingu þjónustunnar geta með því að bera fram kvörtun til landlæknis farið fram á álit hans á tilefni kvörtunar í allt að tíu ár frá veitingu þjónustunnar. Eldri málum ber landlækni ekki að sinna nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati. Notendur heilbrigðisþjónustu eiga því að jafnaði ekki rétt á að fá skriflegt álit landlæknis á meintri vanrækslu eða mistökum sé lengra en tíu ár frá veitingu heilbrigðisþjónustu. Óumdeilt er að verk það sem kærandi kvartaði yfir til landlæknis var unnið árið 1995. Lögbundinn kvörtunarfrestur til landlæknis samkvæmt 12. gr. var því runninn út þegar kvörtun barst landlækni í október 2008. Landlækni var því rétt að synja um efnislega meðferð kvörtunar, svo framarlega sem engar sérstakar ástæður, að hans mati, mæltu með því að kvörtun yrði tekin til meðferðar. Landlæknir taldi engar ástæður til að víkja frá fyrningarfresti.
Synjun landlæknis á að taka kvörtun til efnismeðferðar, þar sem kvörtunarfrestur var liðinn, er stjórnvaldsákvörðun sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 taka til. Við þá ákvörðun ber að gæta m.a. rannsóknarreglu. Kvörtun barst þrettán árum eftir aðgerð þ.e. að liðnum kvörtunarfresti. Engin gögn hafa verið lögð fram sem styðja að meint vanræksla eða mistök hafi orðið við aðgerðina 1995 eða í kjölfar hennar. Kærandi lagði hins vegar fram bréf Krabbameinsfélagsins dags. 5. mars 2008 þar sem fram kemur að ellefu árum eftir aðgerð eða 2. október 2006 hafi myndatökur sýnt eðlilega útlítandi brjóst með sílikonpúða bak við brjóstvöðvann. Að virtum fyrirliggjandi gögnum sem kæranda eru kunn var, að mati ráðuneytisins, mál nægjanlega upplýst til þess að landlæknir gæti tekið ákvörðun um að synja efnismeðferðar á þrettán ára gömlu máli þar sem engar sérstakar ástæður mæltu að hans mati með því að víkja frá 10 ára kvörtunarfresti.
Málsmeðferð landlæknis er staðfest.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Málsmeðferð landlæknis er staðfest.