Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Synjun landlæknis um útgáfu sérfræðileyfis

Mánudaginn 15. júní 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 20. mars 2009, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins þá ákvörðun landlæknis frá 17. febrúar 2009 að synja kæranda um sérfræðileyfi í háls-, nef- og eyrnalækningum.

Kröfur

Samkvæmt kæru er krafa kæranda að ákvörðun landlæknis um að synja kæranda um sérfræðileyfi í háls-, nef og eyrnalækningum verði endurskoðuð og sérfræðileyfi verði gefið út til handa kæranda.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 26. mars 2009, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna stjórnsýslukærunnar. Greinargerð landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 6. apríl 2009. Kæranda var með bréfi dags. 16. apríl 2009 send greinargerð landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 22. apríl 2009. Landlæknisembættinu voru sendar athugasemdir kæranda með bréfi dags. 28. apríl 2009.

Málavextir

Kærandi sótti um sérfræðileyfi í háls-, nef- og eyrnalækningum á Íslandi með umsókn til landlæknis þann 14. júlí 2008. Í umsókn kæranda var tiltekið að kærandi hefði starfað í 4 ár við háls-, nef- og eyrnalækningadeild háskólasjúkrahússins í Stafangri í Noregi og sjö og hálfan mánuð við lýtalækninga- og handarskurðlækningadeild sama sjúkrahúss. Umsókn kæranda var send sérfræðinefnd til umsagnar, sbr. 5. gr. læknalaga nr. 53/1988. Í umsögn sinni 13. nóvember 2008, mælti sérfræðinefndin ekki með veitingu sérfræðileyfis þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997 um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa þess efnis að námsstofnun væri viðurkennd til sérnáms í heimalandi. Þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru í Noregi til að mennta sérfræðinga er skipt í tvo flokka („Gruppe I“ og „Gruppe II“) og gerð er sú krafa að minnsta kosti eitt og hálft ár af námstíma í aðalgrein skuli vera á „Gruppe I“ sjúkrahúsdeild. Kærandi hafi eingöngu stundað nám á svokölluðu „Gruppe II“ sjúkrahúsi og uppfylli því ekki framangreind skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997 um að námsstofnun sé viðurkennd til sérnáms í heimalandi.

Umsögn sérfræðinefndar var send kæranda þann 21. nóvember 2008. Athugasemdir kæranda bárust 15. desember 2008 þar sem umsögn sérfræðinefndarinnar var mótmælt. Í fyrsta lagi er þess getið í athugasemdum kæranda að hann hafi hagað námi sínu með þeim hætti að eigi síðar en árið 2008 myndi hann uppfylla skilyrði til að fá sérfræðileyfi á Íslandi. Kærandi hafi meðal annars þurft að afþakka stöðu deildarsérfræðings við sjúkrahúsið í Stafangri þar sem ekki var búið að veita honum íslenska sérfræðileyfið. Í öðru lagi og hvað varðar flokkun norskra námsstofnana í „Gruppe I“ og „Gruppe II“ kemur eftirfarandi fram í athugasemdum kæranda:

„[þ]rátt fyrir að norsk yfirvöld geri Gruppe I deildum hærra undir höfði þá eru bæði Gruppe I og Gruppe II deildir viðurkenndar til sérnáms í Noregi. Leiðir það til þess að sérnám það sem [kærandi] tók á háls-, nef- og eyrnalækningadeild Universitetssjukehus í Stavanger uppfyllir kröfu 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997 um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa þar sem deildin er viðurkennd til slíks sérnáms í heimalandinu. Ákvörðun um hvort deild sé Gruppe I eða Gruppe II ræðst ekki af ákvæðum norskra laga. Skv. upplýsingum frá norska læknasambandinu þá byggist ákvörðun á áliti sérfræðinefndar sem sér um að heimsækja heilbrigðisstofnanir og yfirfara skýrslur þeirra. Sú hætta er fyrir hendi að það álit verði byggt á huglægum atriðum þar sem viðmiðunarreglur eru af skornum skammti. [...] Telur [kærandi] vafasamt að byggja ákvörðun um leyfisveitingu svo mikilsverðra atvinnuréttinda á atriðum sem geta bæði verið huglæg og/eða eru í sífelldri mótun.”

Í athugasemdum kæranda frá 15. desember 2008 kemur í þriðja lagi fram varðandi skilyrði reglugerðar um viðurkenningu heilbrigðisstofnunar að:

„Í reglugerðinni eru ekki gerðar kröfur um að skilyrði erlendra ríkja um veitingu sérfræðileyfis verði hafðar að leiðarljósi við veitingu sérfræðileyfis hér á landi. [...] Skilyrði íslenskra reglna eru þau að námsstofnunin þar sem sérfræðinám fer fram, skal vera viðurkennd til slíks sérnáms í heimalandi. Flokkun erlendra námsstofnana í Gruppe I og Gruppe II deildir er ekki í samræmi við reglugerð nr. 305/1997. Ætli Landlæknisembættið að fylgja norsku flokkunaraðgerðinni í Gruppe I og Gruppe II verður það að koma fram með skýrum hætti í reglugerðinni að veiting sérfræðileyfis hér á landi fari eftir skilyrðum heimalandsins en slíkt hefur ekki verið gert.“

Kærandi tiltekur einnig að hann hafi upplýsingar um að norskum læknum sem stunduðu nám sitt á „Gruppe II“ námsstofnun hafi nýlega verið veitt sérfræðileyfi á Íslandi og sé ætlunin að breyta framkvæmd veitingar sérfræðileyfa sé það brot á jafnræðisreglu. Að lokum átelur kærandi afgreiðslutíma umsóknarinnar með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en umsókn hans var send sérfræðinefndinni 29. ágúst 2008 og niðurstaða nefndarinnar barst kæranda ekki fyrr en 26. nóvember 2008.

Landlæknir taldi rétt að óska eftir frekari umsögn sérfræðinefndarinnar, í ljósi nýrra upplýsinga og athugasemda kæranda. Í umsögn sérfræðinefndarinnar frá 3. febrúar 2009 kemur fram að „Gruppe II“ námsstofnanir séu einungis viðurkenndar til hluta sérnáms en ekki alls sérnámsins í Noregi. Sérnám sem eingöngu hefur verið stundað á „Gruppe II“ sjúkrahúsi dugi því heldur ekki til fulls sérnáms á Íslandi. Nefndin gæti því ekki mælt með veitingu sérfræðileyfis til handa kæranda. Umsögn sérfræðinefndarinnar var send kæranda til kynningar. Kærandi hafði samband við landlækni símleiðis og útskýrði nánar aðstæður sínar.

Landlæknir hafnaði veitingu sérfræðileyfis í háls-, nef- og eyrnalækningum til handa kæranda þann 17. febrúar 2009, með hliðsjón af áliti sérfræðinefndarinnar. Í rökstuðningi fyrir synjun umsóknar kæranda kemur fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði um námsstað þar sem hann hafi stundað nám í Stafangri, sem flokkast sem „Gruppe II“ sjúkrahús og nám sem þar er stundað eingöngu uppfyllir ekki skilyrði til að fá sérfræðileyfi í Noregi. Landlæknir taldi að túlka yrði 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997 svo að nám á námsstað verði að vera viðurkennt í námslandinu svo það hljóti viðurkenningu hér á landi.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru dags. 20. mars 2009 segir m.a.:

„My complaints are in general the same as enclosed in my letter dated 15 December 2008 I would however like to specify the following: [?]

Since 1997, 10 [Scandinavian] doctors [have] been granted a specialist license in Plastic Surgery in Iceland. I personally know [?] at least six of these doctors [?] did not [fulfil] the regulations for a specialist license that I am now being judged after. Only [?] has completed 18 months of training at a "group I" hospital, though he has not done 12 months of [obligatory] general surgery. The other five [have] not completed 18 months [of] training [?] at [a] "group I" hospital. It is therefore not understandable for me why I am not being granted a specialist licence. [?]

I am a registered medical doctor in Iceland since 2007. I registered for this Icelandic licence in the course of my planning to become a specialist [autumn] 2008. This has been part of my educational plan, and the lay-out of my life, and I have had no reason or information, which would indicate that I would not be granted my specialist license, since other Norwegian doctors before me have chosen this course of action, and have not been punished for not having had training at gruppe 1 hospital [?], as mentioned above. The consequences for my own life and family is astronomical, and I hope the Ministry of Health will see fit to reconsider the position taken by the specialist board based on its own judicial practice.“

Eins og að framan getur óskaði ráðuneytið eftir umsögn landlæknisembættisins þann 26. mars 2009. Umsögn landlæknis dags. 6. apríl 2009 var send kæranda til umsagnar. Athugasemdir kæranda vegna umsagnar landlæknisembættisins, dags. 22. apríl 2009 bárust ráðuneytinu þann 27. apríl 2009.

Í athugasemdum kæranda dags. 22. apríl 2009 kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Background information:

The reasons of Norwegian doctors to apply for a specialist licence in Iceland are multiple, but the majority does it because of different rules and regulations in the two countries. For most of them the issue is around the group 1 and 2 classification system in the Norwegian regulation. Others have the issues around the number of years required. [?]

My comments:

I registered as a medical doctor in Iceland in 2007. I registered for this Icelandic licence in the course of my planning to become a specialist in Oto-rhino-laryngology autumn 2008. My reasons include planning of my family life. Finding a group 1 hospital in Oto-rhino-laryngology will have the consequence both economically but also socially moving away for 1 1/2 year. Therefore I planned for the approval in Iceland.

It is now nearly 9 months since I first applied for a specialist licence [in] Iceland and I can assure [you] as [you] probably understand that this process has been both a disaster for my family and economically. I have only had sporadic work since [October] 2008. I had to turn down 3 job offers as a consulting doctor due to the fact that the process on getting my specialist licence has been delayed. [?]

Judicial practice

The decline of my application shows that the Specialist Board has in my case NOT followed its own judicial practice in the granting of specialist licences, as the group 1 and group 2 [issues were] never taken into account in earlier evaluations of other Norwegian doctors [?] applications. The law has not been changed or amended since 1997, and I therefore object to the Specialist [Board’s] decision. Normal judicial practice would be to change the law within a given time limit, should the Specialist Board have wanted to change its policies on granting specialist licences to foreign doctors.

I register that they acknowledge this fact as possible mistakes in the past, however out of all (10 in total) applicants in plastic surgery since 1997 from Norway, 6 of them [have] been granted a licence without having group 1 experience. This is a mistake rate of 60% within one specialist field, and I doubt this would be recognized by any board or judicial system as a mistake. [?]

I would in this case remind about article 12 in the EC treaty.“

Málsástæður og lagarök landlæknis

Ráðuneytið sendi kæruna til landlæknisembættisins til umsagnar með bréfi dags. 26. mars 2009. Í umsögn landlæknis sem er dags. 6 apríl 2009 er ferill málsins rakinn, líkt og gert hefur verið hér að framan. Landlæknir leiðréttir einnig misskilning sem kemur fram í kæru og ítrekar að sérfræðinefndin hafi ekki verið flutt frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknisembættisins – heldur hafi útgáfa starfsleyfa flust frá ráðuneytinu til landlæknisembættisins þann 1. apríl 2008.

Að auki kemur fram í umsögn landlæknis frá 6. apríl 2009:

„Svo sem kemur fram í reglugerð nr. 305/1997 eru þrenns konar skilyrði sem meta þarf fyrir veitingu sérfræðileyfis, í fyrsta lagi tímalengd náms, í öðru lagi á hvaða deildum nám er stundað og loks segir að nám megi einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum, sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms í heimalandinu.

Óumdeilt var að umsækjandi uppfyllti skilyrði um tímalengd náms og deildir sem nám var stundað á, hins vegar segir í áliti sérfræðinefndar að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði um námsstað þar sem hann hafi stundað nám í Stavanger sem sé „Gruppe II“ sjúkrahús og nám sem er stundað eingöngu þar uppfylli ekki skilyrði til að fá sérfræðileyfi í Noregi. Landlæknir staðreyndi þessar upplýsingar.

Það var mat Landlæknisembættisins að túlka yrði 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997 svo að nám á námsstað yrði að vera viðurkennt í námslandinu svo það hljóti viðurkenningu hér á landi. Þar sem fyrir lá að sérfræðinám umsækjanda sem fór fram á Stavanger Universitetssjukehus hefði ekki verið viðurkennt í Noregi var heldur ekki heimilt að viðurkenna það hér á landi.

A hefur haldið því fram að norskir læknar sem stunduðu nám sitt á Gruppe II námsstofnun hafi nýlega fengið sérfræðileyfi hér á landi og því óskaði Landlæknisembættið sérstaklega eftir umsögn sérfræðinefndarinnar um þessi ummæli. Í svari sérfræðinefndarinnar frá 3. febrúar 2009 segist nefndin ekki kannast við það, en erfitt sé að útiloka að slíkt gerist fyrir slysni. Landlæknisembættið taldi ekki þörf á að kanna frekar einstök tilvik sem A hefur tilgreint því hugsanleg mistök við afgreiðslu annarra umsókna geta ekki, að mati embættisins, veitt rétt til starfsleyfis ef lagaskilyrðum er ekki fullnægt.“

Niðurstaða landlæknisembættisins var því sú með vísan til framanritaðs að ekki væri heimilt að veita kæranda sérfræðileyfi sem sérfræðingur í háls,- nef- og eyrnalækningum og því hafi umsókn hans þar að lútandi verið synjað.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að synjun landlæknisembættisins á útgáfu sérfræðileyfis til handa kæranda. Kærandi andmælir mati og synjun á útgáfu sérfræðileyfis.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997 um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa, sem hefur stoð í 2. og 5. gr. læknalaga nr. 53/1988, má sérfræðinám einungis fara fram á heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er til slíks sérnáms í heimalandi. Eins og ráða má af framangreindri umfjöllun hefur kærandi stundað sérnám í Noregi, nánar tiltekið í 4 ár við háls-, nef- og eyrnalækningadeild Háskólasjúkrahússins í Stafangri og sjö og hálfan mánuð við lýtalækninga- og handarskurðdeild sama sjúkrahúss. Samkvæmt upplýsingum frá norska læknafélaginu höfðu reglur um útgáfu sérfræðileyfa (Spesialistregler) verið óbreyttar um langt skeið, en þeim var síðan breytt 1. janúar 2005. Flokkun á viðurkenndum námsstofnunum, þ.e. viðurkenndum sjúkrahúsdeildum, breyttist þó ekki. Þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru í Noregi til að mennta sérfræðinga er skipt í tvo flokka („Gruppe I“ og „Gruppe II“) og gerð er sú krafa að minnsta kosti eitt og hálft ár af námstíma í aðalgrein skuli fara fram á „Gruppe I“ sjúkrahúsdeild. Háls,- nef og eyrnalækningadeildin á Háskólasjúkrahúsinu í Stafangri er flokkuð sem „Gruppe II“ deild, almenna skurðlækningadeildin sem „Gruppe I“ og lýtalækningadeildin sem „Gruppe II.“

Þar sem „Gruppe II“ deildir eru ekki að fullu viðurkenndar til sérfræðináms i Noregi þarf námið einnig að fara fram á „Gruppe I“ deild þ.e. í 18 mánuði í aðalgrein. Nám í háls-, nef- og eyrnalækningum sem ekki hefur verið stundað í 18 mánuði á „Gruppe I“ deild sjúkrahúss í aðalgrein uppfyllir því ekki kröfu reglugerðar nr. 305/1997 um að námið skuli fara fram á stofnun sem er viðurkennd í heimalandi.

Gögn fyrirliggjandi máls bera ekki með sér að kærandi ætli sér að starfa við fag sitt á Íslandi og þar með nýta sér þau réttindi sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið felur í sér. Engu að síður er rétt að víkja að því hvort reglugerð nr. 305/1997 samrýmist þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur gengist undir með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og sem hefur verið fullgiltur með lögum nr. 2/1993. Ráðuneytið vill í upphafi benda á að kærandi getur ekki borið fyrir sig 12. gr. EB-sáttmálans um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis, þar sem hvorki Ísland né Noregur eru aðilar að þeim sáttmála. Ráðuneytið lítur svo á að kærandi sé með þessari athugasemd að bera fyrir sig 4. gr. EES-samningsins um bann við mismunum á grundvelli ríkisfangs, svo og 28. gr. sbr. 30. gr. EES-samningsins. Því er rétt að huga að þeirri samræmingu löggjafar sem hefur átt sér stað á þessu sviði innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ákvæði tilskipunar 93/16/EBE frá 5. september 1993, um að greiða fyrir frjálsum flutningum lækna og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum þeirra, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, hafa verið innleidd í löggjöf á Íslandi. Tilskipun 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi er nú hluti af EES-samningnum, sbr. viðauka nr. 7 við EES-samninginn og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007. Unnið er að innleiðingu síðarnefndu tilskipunarinnar í íslenskan rétt undir stjórn menntamálaráðuneytisins.

Í 24. og 25. gr. tilskipunar 93/16/EBE er fjallað um sérfræðinám lækna. Ákvæði c-liðar 1. mgr. 24. gr. kveður á um að aðildarríkin skuli tryggja að nám sem er undanfari að prófskírteini, vottorði eða öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í greinum læknisfræðinnar fullnægi því skilyrði að vera fullt nám undir umsjón þar til bærra yfirvalda eða stofnana samkvæmt 1. lið I. viðauka. Ákvæði 1. liðar I. viðauka hljóðar svo; „1. Sérnám í fullu námi Slíkt nám skal fara fram á sérstökum stöðum sem eru viðurkenndir af lögbærum yfirvöldum.“ Ákvæði d. liðar 1. mgr. 24. gr. kveður á um að nám í sérgreinum læknisfræðinnar skuli fullnægja því skilyrði að fara fram á háskólastigi, kennslusjúkrahúsi eða, eftir því sem við á, heilbrigðisstofnun sem hefur hlotið viðurkenningu í þessu skyni af þar til bærum yfirvöldum eða stofnunum.

Í 3. mgr. 25. gr. tilskipunar 2005/36/EB frá 7. september 2005, sem mun taka við af framangreindri tilskipun 93/16/EBE segir um sérnám í læknisfræði; „Námið skal vera fullt nám og fara fram við sérstakar stofnanir sem eru viðurkenndar af lögbærum yfirvöldum. Það felur í sér þátttöku í allri læknisfræðilegri starfsemi deildarinnar þar sem námið fer fram, þ.m.t. vaktir, þannig að læknir í sérnámi helgi fræðilega og verklega náminu alla starfskrafta sína starfsvikuna á enda og allan ársins hring í samræmi við þau skilyrði sem lögbær yfirvöld ákveða. Því skal greiða hæfileg laun fyrir þessi störf.“

Ráðuneytið telur ljóst, með vísan til þessarar umfjöllunar, að krafa 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997 um að sérfræðinám fari fram á heilbrigðisstofnunum, sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms í námslandi, er í samræmi við kröfur framangreindra tilskipana.

Kærandi uppfyllir kröfur reglugerðar nr. 305/1997 hvað varðar tímalengd sérnáms og deildir sem nám var stundað á. Þegar kemur að því að meta deildirnar á Háskólasjúkrahúsinu í Stafangri þá eru kröfur um námsstað ekki uppfylltar þar sem námið er eingöngu stundað á háls-, nef- og eyrnalækningadeild sem flokkuð er sem „Gruppe II“ deild. Umsækjandi þarf hins vegar einnig að hafa stundað nám í 18 mánuði á „Gruppe I“ deild í háls-, nef- og eyrnalækningum til að hljóta sérfræðileyfi.

Kærandi nafngreinir í kæru sinni sex lýtalækna sem hann telur að hafi hlotið sérfræðiviðurkenningu hér á landi án þess að uppfylla skilyrði um að hafa starfað í 18 mánuði í aðalgrein á „Gruppe I“ deild. Ráðuneytið hefur, í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, farið gaumgæfilega yfir umsóknir þessara aðila og fyrirliggjandi gögn.

Sérfræðinám þriggja þeirra aðila sem kærandi nafngreinir í kæru fór að hluta til fram utan Noregs á heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru til sérnáms í viðkomandi landi. Tveir til viðbótar uppfylla skilyrði um að námsstaður sé viðurkenndur í Noregi. Í einu tilviki virðist kröfu um 18 mánaða starfsnám í aðalgrein á „Gruppe I“ sjúkrahúsdeild ekki hafa verið fullnægt. Miðað við fyrirliggjandi gögn hjá ráðuneytinu virðist umræddur aðili því ekki hafa uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 305/1997 hvað varðar kröfur um að nám hafi verið stundað við heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er í heimalandi. Ráðuneytið leggur áherslu á að útgáfa sérfræðileyfa til lækna sem kærandi tilgreinir í rökstuðningi sínum byggðist á mati lögbundins umsagnaraðila, sérfræðinefndar sem skipuð er samkvæmt 5. gr. læknalaga nr. 53/1988, um að nám viðkomandi lækna uppfyllti skilyrði reglugerðar 305/1997, m.a. að nám hafi verið stundað á stofnun sem viðurkennd er í heimalandi/námslandi. Kærandi hefur vísað til jafnræðisreglunnar í þessu sambandi. Ráðuneytið bendir á að jafnræðisreglan veitir mönnum almennt ekki tilkall til neins þess sem ekki samrýmist lögum og reglum. Hafi efni ákvörðunar í einu máli verið ólögmætt, getur aðili í öðru stjórnsýslumáli almennt ekki borið fyrir sig þá ákvörðun og krafist sambærilegrar úrlausnar.

Rétt er að benda á með vísan til misskilnings sem fram kemur í andmælum kæranda varðandi „ákvörðun sérfræðinefndar um að synja honum um leyfi á grundvelli eigin ákvörðunar“ að nefndin er lögbundinn umsagnaraðili. Nefndin er skipuð af ráðherra til að fara yfir umsóknir um sérfræðileyfi, samkvæmt 5. gr. læknalaga nr. 53/1988, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 305/1997, með síðari breytingum. Landlæknisembættið óskar því ávallt eftir umsögn sérfræðinefndar um umsóknir um sérfræðileyfi. Nefndin er skipuð einum kennara úr hópi læknadeildar sem er jafnframt formaður nefndarinnar, annar er tilnefndur af Læknafélagi Íslands og þriðji er forstöðumaður kennslu í þeirri grein sem til umfjöllunar er hverju sinni. Landlæknisembættið tekur endanlega ákvörðun um útgáfu sérfræðileyfis með hliðsjón af umsögn sérfræðinefndar. Ákvörðun landlæknisembættisins er síðan kæranleg til ráðuneytisins.

Ráðuneytið telur að reglugerð nr. 305/1997 um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa sé í fullu samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu varðandi kröfu um að sérfræðinám lækna fari fram á stofnunum sem viðurkenndar eru til slíks náms af þar til bærum yfirvöldum í hverju landi. Við setningu reglugerðarinnar var höfð hliðsjón af tilskipun nr. 93/16/EBE frá 5. september 1993 um að greiða fyrir frjálsum flutningum lækna og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum þeirra, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi.

Nám kæranda í háls-, nef- og eyrnalækningum hefur einungis farið fram á Háskólasjúkrahúsinu í Stafangri, en háls-, nef- og eyrnalækningadeildin þar uppfyllir ekki að fullu skilyrði í Noregi til menntunar sérfræðinga á þessu sviði. Kærandi uppfyllir þar af leiðandi ekki skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 305/1997, um að heilbrigðisstofnun skuli vera viðurkennd til slíks sérnáms í heimalandi kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu sérfræðileyfis á Íslandi í háls-, nef- og eyrnalækningum til handa A er hér með staðfest.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta