Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli kærð

 Þriðjudaginn 31. janúar 2017, var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 1. desember 2015, sem barst velferðarráðuneytinu 8. desember 2015, kærði A, f.h. B (hér eftir nefnd kærandi), til velferðarráðuneytisins ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 25. september 2015, um að synja kæranda um heimild til að kvarta til embættisins á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

I. Kröfur.

Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 25. september 2015, um að synja kæranda um heimild til að kvarta til embættisins á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, verði endurskoðuð.

II. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 5. janúar 2016, eftir umsögn Embættis landlæknis og öllum gögnum varðandi málið. Embættið óskaði eftir viðbótarfresti til 1. apríl 2016 til að skila umsögn í málinu og varð ráðuneytið við þeirri ósk. Umsögn embættisins, ásamt gögnum, barst velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 12. maí 2016, og var hún send kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. sama mánaðar, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

III. Málavextir.

Hinn 1. ágúst 2014 í kringum hádegi fékk eiginmaður kæranda, C, skyndilega mikla brjóstverki í D. Hringt var eftir sjúkrabíl auk þess sem læknir mætti á staðinn. C var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi um kl. 14.00. Um það bil þremur klukkustundum síðar var C fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann við Hringbraut þar sem hann lést um það bil hálftíma síðar.

Með bréfi, dags. 26. mars 2015, sendi A, f.h. kæranda, kvörtun til Embættis landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu og vegna ótilhlýðilegrar framkomu við veitingu heilbrigðisþjónustu skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007. Með bréfi, dags. 24. apríl 2015, svaraði embættið erindinu á þann veg að það væri einungis á færi sjúklingsins sjálfs en ekki aðstandanda að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintra mistaka, vanrækslu eða ótilhlýðilegrar framkomu við veitingu heilbrigðisþjónustu á grundvelli 2. mgr. 12. gr. framangreindra laga. Af þeim sökum myndi landlæknir ekki taka erindið sem kvörtun heldur sem eftirlitsmál skv. 13. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 27. maí 2015, gerði kærandi athugasemdir við túlkun embættisins á 2. mgr. 12. gr. laganna sem fram komu í bréfi embættisins frá 24. apríl 2015. Hinn 25. september sama ár svaraði Embætti landlæknis athugasemdum kæranda með þeim hætti að stofnað hefði verið svokallað eftirlitsmál á grundvelli III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, annars vegar gagnvart Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna sjúkraflutninganna og hins vegar gagnvart Landspítala vegna heilbrigðisþjónustunnar. Jafnframt ítrekaði embættið afstöðu sína á ákvæði 2. mgr. 12. gr. framangreindra laga. Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins 1. desember 2015.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru er meðal annars vísað til bréfs, dags. 27. maí 2015, þar sem kærandi hafi gert athugasemdir við bréf Embættis landlæknis, dags. 24. apríl 2015. Í bréfinu hafi þess verið óskað að embættið myndi endurskoða þá afstöðu sem látin hafi verið í ljós í fyrrnefndu bréfi og að mál kæranda yrði skoðað af óháðum sérfræðingum eins og fram komi í 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Í bréfinu séu færð ítarleg rök fyrir því hvers vegna taka beri erindi kæranda sem kvörtun í skilningi framangreinds ákvæðis. Fram kemur í kæru að ranglega sé greint frá því í bréfi Embættis landlæknis, dags. 25. september 2015, að löggjafinn hafi ekki ætlað aðstandendum látins einstaklings að kvarta til Embættis landlæknis á grundvelli 2. mgr. 12. gr. framangreindra laga þar sem í því ákvæði sé hvorki minnst á sjúkling né umboðsmann hans.

Jafnframt segir í kæru að í bréfi landlæknis, dags. 25. september 2015, sé að finna bollaleggingar um aðgang að sjúkraskrám og að skilja megi bréf landlæknis á þann hátt að það geti truflað niðurstöðu hans að það sé umboðsmaður sem riti bréfið, f.h. B. Embættið geri réttilega grein fyrir því að í lögum um sjúkraskrár geti eftirlifandi maki látins einstaklings átt rétt til aðgangs að sjúkraskrá hans. Þá segir í kæru að eðli málsins samkvæmt hljóti það að vera hinn eftirlifandi maki, þ.e. sá sem kvarti, sem hafi andmælarétt og upplýsingarétt eftir því sem við geti átt.

Þá kemur meðal annars fram í bréfi kæranda, dags. 27. maí 2015, að hann sé ósáttur við að bréf landlæknis, dags. 24. apríl 2015, hafi verið sent til kæranda en ekki umboðsmanns hans sem skrifaði undir bréfið en Embætti landlæknis hafi talið að ekki hefði legið fyrir skriflegt umboð frá kæranda þess efnis.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Fram kemur í umsögn Embættis landlæknis, dags. 12. maí sl., að erindi sem varði meint mistök og vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu séu tekin fyrir á vikulegum fundum kvartana- og eftirlitsteymis embættisins. Í teymi landlæknis sem sjái um að rannsaka mál af þessu taki séu sviðstjóri (hjúkrunarfræðingur), læknar og lögfræðingar. Þegar embættinu berist erindi frá aðstandendum látins einstaklings, sem varði meint mistök eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu, sé málið ekki tekið til meðferðar sem kvörtun á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Á hinn bóginn geti landlæknir, þegar honum berast slík erindi, ákveðið að rannsaka þau frekar á grundvelli lögbundinnar eftirlitsskyldu sinnar skv. III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu.

Í umsögn Embættis landlæknis sé sérstaklega áréttað að sú skylda embættisins að sinna kvörtunum varðandi heilbrigðisþjónustu feli jafnframt í sér eftirlit með heilbrigðisþjónustunni og sé þannig þáttur í eftirlitshlutverki þess. Tilgangur rannsókna embættisins í kvörtunarmálum og eftirlitsmálum sé meðal annars að styrkja eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustunni og það aðhald sem í því sé fólgið. Áréttað sé því sérstaklega að munurinn á eðli eftirlitsmáls og kvörtunarmáls felist í því hverjir séu aðilar málanna. Á embættinu hvíli jafnrík rannsóknarskylda hvort sem um sé að ræða eftirlitsmál eða kvörtunarmál. Í kvörtunarmálum sé kvartandi, þ.e. sjúklingur eða umboðsmaður hans, aðili að málsmeðferðinni og taki þátt í meðferð máls. Um meðferð kvartana gildi ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Tvær af grundvallarreglum stjórnsýslulaga, sem reyni einkum á við málsmeðferð kvartana, séu reglurnar um andmælarétt og upplýsingarétt. Tæki landlæknir til meðferðar kvörtun skv. 2. mgr. 12. gr. laganna frá öðrum en sjúklingi, þegar sjúklingur er látinn, ætti sá sem hafi kvartað rétt á að kynna sér öll málsgögn, þ. á m. sjúkraskrárgögn um hinn látna sem aflað hafi verið við meðferð málsins. Slíkt færi ekki saman við lagaákvæði sem fjalla um aðgang að sjúkraskrám en löggjöfin geri slíkan greinarmun á meðferð sjúkraskrárupplýsinga eftir því hvort sjúklingur sé lifandi eða látinn.

Fram kemur í umsögn að um aðgang að sjúkraskrám gildi sú ótvíræða meginregla að aðgangur sé óheimill nema til þess standi lagaheimild, sbr. 12. gr. laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Aðgangsheimildir séu afar takmarkaðar og 15. gr. laga um sjúkraskrár, sem fjalli um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings, sé dæmi um lagaheimild sem víki frá meginreglu laganna. Ákvæðið hljóði svo:

Mæli ríkar ástæður með því er umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann. Synji umsjónaraðili sjúkraskrár um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis skv. 15. gr. a.

Þá segir í umsögn embættisins að framangreind 15. gr. laga um sjúkraskrár sé skýr. Heimildin sé þröng, hún sé takmörkuð við nána aðstandendur og setji ófrávíkjanlegt skilyrði um ríkar ástæður.

Í umsögn landlæknis kemur fram að landlæknir þræti ekki um ætlaðan vilja löggjafans, þ.e. hvort það hafi verið vilji löggjafans að aðstandendur látinna gætu kvartað til landlæknis á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Að mati embættisins sé það aftur á móti ófært að samkvæmt orðanna hljóðan í 12. gr., þ.e. að heimilt sé að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu, megi ætla að aðstandendur geti kvartað fyrir hönd látinna. Ákvæði 12. gr. geti ekki, líkt og það hljóði nú með opnu orðalagi sínu, verið lagaheimild sem víki frá framangreindri meginreglu laga um sjúkraskrár. Hvorki í ákvæðinu sjálfu, né í athugasemdum við frumvarp laganna sé fjallað um rétt aðstandenda látinna til þess að kvarta.

Fram kemur í umsögninni að hafa verði í huga að einstaklingar njóti stjórnarskrárvarins réttar um friðhelgi einkalífs. Þessi réttur um friðhelgi haldist eftir andlát einstaklingsins. Í sjúkraskrá séu viðkvæmar upplýsingar sem safnað sé allt lífið. Í sjúkragögnum geti verið ýmsar upplýsingar sem sjúklingur vænti að leynt fari. Taka verði tillit til þess að í sjúkraskrá geti upplýsingar verið þess eðlis að þær geti talist mjög persónulegar þannig að gera verði ráð fyrir þeim möguleika að hinn látni hefði ekki viljað að aðrir hefðu vitneskju um þær, þ.m.t. nánir aðstandendur.

Þá segir að þar sem aðstandendur verði ekki aðilar eftirlitsmáls vegna látins einstaklings sé upplýsingaréttur þeirra eðlilega takmarkaður, þ.e. þeir eigi ekki rétt á sjúkraskrárupplýsingum um hinn látna. Á hinn bóginn fái aðstandendur upplýsingar um lyktir rannsóknarinnar, þ.e. hvort embættið geri athugasemdir við þá heilbrigðisþjónustu sem veitt hafi verið og þá hvernig þeim verði fylgt eftir og hvernig bætt verði úr annmörkunum. Landlæknir árétti einnig sérstaklega að á embættinu hvíli rannsóknarskylda og ef að mati þess sé þörf á að rannsaka mál með frekari hætti, þ.e. fá t.a.m. frekari upplýsingar frá aðstandendum þá felist það í rannsóknarskyldunni sem á embættinu hvíli.

Í umsögn embættisins er eftirfarandi rakið úr bréfi umboðsmanns kæranda, A, til embættisins, dags. 27. maí 2015:

Eingöngu er verið að óska eftir að mál sé skoðað eins ýtarlega [sic] og unnt er lögum samkvæmt, í því skyni að upplýsa hið rétta vegna aðstæðna sem leiddu til þess að sjúkur maður lést, en ekki sé verið að kveða á um mögulegar samningsbundnar skyldur eða ákvaðir.

[…]

Það er ekki ósk B að þurfa að standa í sérstöku málavafstri við heilbrigðisyfirvöld heldur eingöngu verið að óska eftir því að mál C verði skoðað með eins ýtarlegum [sic] hætti og unnt er. M.a. með því að fá skoðun óháðra sérfræðinga á því hvort C heitinn hafi fengið rétta meðferð örlagadaginn 1. ágúst sl.

[…]

 Að mati B stenst ekki sú skoðun embættis landlæknis að eingöngu sjúklingur geti kvartað skv. 12. gr. laga nr. 41/2007. Ef það telst rétt niðurstaða þá er sú einkennilega staða uppi að eigi sér stað meint mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu, og sjúklingur lifir það af, þá getur hann eftir atvikum fengið óháðan aðila til að yfirfara málið. Ef sjúklingur er hins vegar svo óheppinn að láta lífið við þessar aðstæður þá eru þeir sem gerðu hin meintu mistök lausir undan því að óháðir aðilar yfirfari málið en fá þess í stað sjálfir að yfirfara sitt eigið verklag. Þetta er niðurstaða sem er ótæk og ekki í neinu samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og eiga að stuðla að réttaröryggi sjúklinga og auka traust þeirra á heilbrigðiskerfinu.

Jafnframt kemur fram í umsögn embættisins að ákveðið hafi verið í kjölfar umrædds erindis að hefja svokallað eftirlitsmál á grundvelli III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Annars vegar gagnvart Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna sjúkraflutninganna og hins vegar gagnvart Landspítala vegna heilbrigðisþjónustu sem þar fór fram. Óskað hafi verið eftir sjúkraskrárgögnum og tilteknum upplýsingum frá viðkomandi heilbrigðisstofnunum. Tekið sé sérstaklega fram að það sem fram hafi komið í erindinu, er varði andlát C heitins, hafi verið litið mjög alvarlegum augum hjá embættinu og hafi því þótt tilefni til að rannsaka málið frekar eins og fram hafi komið. Embættið telji tilefni til að upplýsa hér með að óskað hafi verið eftir umsögn utanaðkomandi sérfræðings sem liggi fyrir. Embættið muni ljúka rannsókn eftirlitsmálsins innan skamms og verði B upplýst um hvað rannsókn embættisins hafi leitt í ljós. Í ljósi kæruefnisins bendi embættið á ákvæði 10. gr. laga um landlækni og lýðheilsu sem fjalli um tilkynningarskyldu til landlæknis vegna óvæntra atvika, en þar segir:

Heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni án tafar um óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum. Jafnframt skal upplýsa sjúkling um hið óvænta atvik án ástæðulausra tafa og nánustu aðstandendum hans þegar það á við.

Landlæknir skal rannsaka slík mál til að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Veita skal landlækni þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins. Landlæknir skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna í þágu rannsóknar.

Verði óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnun eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms, skal auk tilkynningar til landlæknis skv. 1. mgr. tilkynna það til lögreglu í samræmi við ákvæði laga um dánarvottvorð, krufningar o.fl.

Fram kemur í umsögn embættisins að hér hafi löggjafinn með sérstöku ákvæði lagt þá skyldu á landlækni að rannsaka svokölluð óvænt atvik. Í ákvæðinu segi að þegar það verði óvænt dauðsfall við veitingu heilbrigðisþjónustu, sem rekja megi til mistaka eða vanrækslu við meðferð, skuli landlæknir rannsaka slík mál. Sérstaklega sé vikið að því að upplýsa skuli nánustu aðstandendur sjúklings um hið óvænta atvik án ástæðulausra tafa. Ekki sé gert ráð fyrir því að aðstandendur verði aðilar að slíku máli enda hafi þá verið óþarfi að þeir skyldu hafa verið upplýstir um málið.

Þá kemur jafnframt fram í umsögn að það sé mat embættisins að gera verði breytingu á 10. gr. laganna, þannig að nánustu aðstandendur geti verði aðilar að málum, sé það vilji löggjafans að aðstandendur látinna verði aðilar að málum, þ.e. geti kvartað á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, með tilliti til jafnræðis. Embættið tekur fram að það hafi með sama hætti og í eftirlitsmálum upplýst þá nánu aðstandendur hins látna sem sent hafi embættinu erindi er lúti að hinu óvænta atviki um lyktir rannsóknar á óvæntu atviki.

Enn fremur segir í umsögn landlæknis að embættinu sé mikið í mun að tryggja góð samskipti við aðstandendur sem telji að eitthvað hafi misfarist við veitingu heilbrigðisþjónustu og leggi starfsmenn mikla áherslu á að sýna nærgætni í málum af þessu tagi. Ávallt megi bæta verkferla hvað þetta varði og þyki embættinu mjög miður ef kærandi hafi upplifað afgreiðslu embættisins með neikvæðum hætti og biðjist afsökunar á því.

Þá leyfi embættið sér að minna á að löggjafinn hafi með lögum nr. 6/2014 um breytingu á lögum nr. 55/2009, um sjúkraskrá (aðgangsheimildir), falið embættinu endanlegt úrskurðarvald í málum tengdum sjúkraskrám innan stjórnsýslunnar. Hafi það verið mat velferðarráðuneytisins að meiri fagþekking væri til staðar hjá embættinu til að taka efnislega réttar ákvarðanir í þeim málum en hjá ráðuneytinu. Það sé eindregin afstaða embættisins, ef vilji löggjafans sé að aðstandendur látinna geti kvartað til landlæknis á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, verið aðilar að slíkum málum og þar með fengið aðgang að öllum gögnum málsins, að slíkt verði að vera skýrt í lögum um landlækni og lýðheilsu og kalli því að mati landlæknis á lagabreytingu.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins.

Kæran lýtur að ákvörðun Embættis landlæknis frá 25. september 2015 um að synja kæranda um heimild til að kvarta til embættisins á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

Í 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, er fjallað um kvartanir til landlæknis en fram kemur í 2. mgr. laganna að heimilt sé að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu eða mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá sé notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg. Í 3. mgr. sömu greinar segir að kvörtun skuli vera skrifleg og þar skuli koma skýrt fram hvert tilefni hennar sé. Í 4. mgr. sömu greinar segir jafnframt að kvörtun skuli borin fram við landlækni án ástæðulauss dráttar. Séu meira en tíu ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar sé landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar. Þá kemur fram í 5. mgr. sömu greinar að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lúti að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Sé viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þyki til. Um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skuli í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits. Loks segir í 6. mgr. sömu greinar að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

Þá kemur meðal annars fram í nefndaráliti, um frumvarp það sem varð að lögum nr. 41/2007, að nokkur umræða hafi verið í nefndinni um 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins sem feli í sér heimild notenda heilbrigðisþjónustu og aðstandenda þeirra til að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu og ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna. Í máli umboðsmanns Alþingis nr. 7323/2012 segir enn fremur um 12. gr. framangreindra laga:

Löggjafinn hefur með 12. gr. laga nr. 41/2007 tryggt borgurunum tiltekið úrræði til að fá faglegt álit landlæknis, m.a. á því hvort gætt hafi verið réttra aðferða við veitingu heilbrigðisþjónustu, það getur síðan haft þýðingu í ágreiningsmáli þess einstaklings sem borið hefur fram kvörtun og þeirrar heilbrigðisstofnunar eða heilbrigðisstarfsmanns sem á í hlut.

Að framangreindu virtu og meðal annars m.t.t. framangreinds nefndarálits verður ekki séð að orðalag 2. málsl. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu um notendur heilbrigðisþjónustu sé einungis bundið við notendur heilbrigðisþjónustunnar og takmarki þannig heimild eftirlifandi aðstandenda til að kvarta skv. 1. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna.

Í 15. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, segir að mæli ríkar ástæður með því sé umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar sé þess óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann. Synji umsjónaraðili sjúkraskrár um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis skv. 15. gr. a laganna.

Að mati ráðuneytisins fer um beiðni náins aðstandanda eftir aðgangi að sjúkraskrá látins einstaklings samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Ákvæði laga um aðgang að sjúkraskrám ber að túlka þröngt enda um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða. Sé veittur aðgangur að sjúkraskrá samkvæmt lögum um sjúkraskrár ætti því einungis að veita upplýsingar sem tengjast því einstaka atviki sem um ræðir hverju sinni. Beini náinn aðstandandi á hinn bóginn formlegri kvörtun til landlæknis vegna látins einstaklings skv. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu fer um aðgang að gögnum samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 3. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Rétt er að benda á að skv. 5. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga takmarka lagaákvæði um þagnarskyldu ekki skyldu til að veita aðgang að gögnum skv. 15. gr. stjórnsýslulaga. Þá áréttar ráðuneytið að í 17. gr. stjórnsýslulaga sem fjallar um takmörkun á upplýsingarétti kemur fram að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Fyrir liggur að aðila máls eru tryggð ýmis réttindi með ákvæðum stjórnsýslulaga, svo sem réttur til aðgangs að gögnum máls, andmælaréttur, kæruheimild og réttur til þess að fá skriflegan rökstuðning. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, segir meðal annars:

Hugtakið ,,aðili máls“ kemur fyrir á nokkrum stöðum í frumvarpinu og ber að skýra það rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, svo sem umsækjendur um byggingarleyfi eða opinbert starf, heldur geti einnig fallið undir það þeir sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar eða meðumsækjendur um starf. Ómögulegt er hins vegar að gefa ítarlegar leiðbeiningar um það hvenær maður telst aðili máls og hvenær ekki, heldur ræðst það að málsatvikum hverju sinni. Það sem ræður úrslitum í því efni er það hvort maður teljist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, en það ræðst m.a. af því um hvaða svið stjórnsýslunnar er að ræða.

Aðild að máli skv. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, vegna látins einstaklings, geta einungis nánir aðstandendur átt sem eiga beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af niðurstöðu máls. Hvað varðar aðgang  aðstandanda, sem kvartar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laganna, að gögnum máls, fer því í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar sem meta verður sérstaklega í hverju einstaka máli.

Með vísan til þess sem að framan greinir er hin kærða ákvörðun Embættis landlæknis, um að synja kæranda um heimild til að kvarta til embættisins á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 25. september 2015, um að synja kæranda um heimild til að kvarta til embættisins á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er felld úr gildi.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta