Synjun Vinnumálastofnunar frá 16. febrúar 2006. Frávísun.
Miðvikudaginn 22. nóvember 2006 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 18. júlí 2006, sem barst ráðuneytinu 19. júlí 2006, kærði A ehf., synjun Vinnumálastofnunar, dags. 16. febrúar 2006, á veitingu atvinnuleyfis fyrir B, sem er taílenskur ríkisborgari.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu atvinnuleyfis til handa A ehf. í því skyni að ráða til starfa B, sem er taílenskur ríkisborgari. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Fram kemur að kærandi sé stöðugt með atvinnuauglýsingar í gangi, bæði hjá svæðisvinnumiðlun og í dagblöðum. Þrátt fyrir það sé sífelldur skortur á vinnuafli en núverandi staða sé sú að kæranda vanti sárlega starfsfólk. Enn fremur kemur fram að systir umrædds útlendings starfi hjá kæranda og að hún sé mjög góður starfsmaður.
Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 21. júlí sl., þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 16. mars sl. en samkvæmt 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Því teldist viðkomandi kæra hafa borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti.
Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ráðuneytið óskaði því eftir að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 4. ágúst sl.
Þann 11. ágúst sl. barst ráðuneytinu tölvubréf frá kæranda þar sem fram kemur að starfsmannastjóri fyrirtækisins hafi verið í sumarleyfi og því hafi ekki verið unnt að svara bréfi ráðuneytisins fyrr. Enn fremur kemur fram að systir umrædds útlendings og maki hennar hafi ekki fengið svar við bréfi sem þau hafi sent Vinnumálastofnun eftir að synjun stofnunarinnar lá fyrir. Þá ítrekar kærandi áður fram komin sjónarmið sín í málinu. Leggur kærandi áherslu á að starfsemi fyrirtækisins, ræstingar, séu í auknum mæli að færast yfir í það að vera dagvinnustörf og því sé nauðsynlegt að starfsfólk þess sé enskumælandi til að auðvelda samskipti þess við viðskiptavini fyrirtækisins. Ráða má af fyrrnefndu tölvubréfi kæranda til ráðuneytisins að kærandi telji umræddan útlending vera vel enskumælandi.
Þar sem fram kom í fyrrnefndu svarbréfi kæranda að einhver samskipti hefðu átt sér stað milli ættingja umrædds útlendings og Vinnumálastofnunar eftir að synjun stofnunarinnar lá fyrir sendi ráðuneytið stofnuninni bréf, dags. 16. ágúst sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvenær stofnunin lauk afskiptum sínum af umræddu máli.
Svarbréf Vinnumálastofnunar barst ráðuneytinu 24. ágúst sl. þar sem fram kemur að stofnunin hafi lokið afskiptum sínum af umræddu máli þann 16. febrúar sl. þegar kæranda var sent bréf þar sem fram kom ákvörðun stofnunarinnar um synjun á veitingu atvinnuleyfis til handa kæranda fyrir umræddan útlending. Enn fremur kemur fram að stofnunin hafi haft samskipti við ættingja umrædds útlendings eftir að synjun stofnunarinnar lá fyrir en þau samskipti hafi ekki verið í umboði kæranda.
Þann 29. ágúst sl. sendi ráðuneytið bréf til kæranda þar sem fram kemur að í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komi í fyrrnefndu svarbréfi Vinnumálastofnun til ráðuneytisins líti ráðuneytið svo á að lögbundinn kærufrestur í umræddu máli hafi runnið út þann 16. mars sl. Enn fremur ítrekaði ráðuneytið fyrri beiðni sínar þess efnis að kærandi veitti ráðuneytinu upplýsingar um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti. Þá tók ráðuneytið fram að ef umbeðnar upplýsingar bærust ekki ráðuneytinu fyrir 12. september sl. myndi ráðuneytið líta svo á að kærandi sæi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um þennan þátt málsins og myndi því taka afstöðu á grundvelli þegar framkominna gagna hvort afsakanlegt yrði talið að umrædd stjórnsýslukæra barst ekki fyrr til ráðuneytisins eða hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þann 12. september sl. barst ráðuneytinu tölvubréf frá kæranda þar sem kærandi ítrekar að ættingjar umrædds útlendings hafi ekki fengið svar við bréfi sínu til Vinnumálastofnunar auk þess sem kærandi ítrekar enn fremur beiðni sína þess efnis að ráðuneytið endurskoði ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á veitingu atvinnuleyfis fyrir umræddan útlending.
II. Niðurstaða
Í gögnum málsins kemur fram að Vinnumálastofnun lauk afskiptum sínum af máli þessu þann 16. febrúar sl. þegar ákvörðun stofnunarinnar um synjun á veitingu umrædds atvinnuleyfis var tilkynnt bréflega til kæranda. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er umsækjanda um atvinnuleyfi heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfa til félagsmálaráðuneytisins og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í máli því sem hér um ræðir rann því lögbundinn kærufrestur út þann 16. mars sl. Að mati ráðuneytisins geta samskipti Vinnumálastofnunar við aðra aðila en kæranda sjálfan eða þá sem fara með mál kæranda hjá stofnuninni samkvæmt umboði hans ekki haft áhrif á þann lögbundna kærufrest sem fram kemur í fyrrnefndri 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
Þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga fer um stjórnsýslukæru að öðru leyti skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Þar sem umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu tæpum átján vikum eftir að lögbundnum kærufresti lauk óskaði ráðuneytið ítrekað eftir nánari upplýsingum um ástæður þess að kæran barst ekki til ráðuneytisins innan kærufrestsins. Í svarbréfum kæranda er þó ekki að finna neinar upplýsingar frá kæranda hvað varðar ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu ekki fyrr en að liðnum lögbundnum kærufresti. Er því óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að kærandi hafi ekki sýnt fram á afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Þá verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum í málinu að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds er erindi kæranda vísað frá ráðuneytinu, sbr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stjórnsýslukæru A ehf., dags. 18. júlí 2006, sem barst ráðuneytinu 19. júlí 2006, vegna synjunar Vinnumálastofnunar, dags. 16. febrúar 2006, á veitingu atvinnuleyfis fyrir B, sem er taílenskur ríkisborgari, er vísað frá félagsmálaráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Sesselja Árnadóttir
Bjarnheiður Gautadóttir