Synjun Vinnumálastofnunar frá 22. maí 2006. Frávísun.
Mánudaginn 6. nóvember 2006 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 21. júlí 2006, sem barst ráðuneytinu 25. júlí 2006, kærði A, f.h. B hf., synjanir Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2006, á veitingu atvinnuleyfa fyrir C og D, sem eru kólumbískir ríkisborgarar.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar synjanir Vinnumálastofnunar á veitingu atvinnuleyfa til handa B hf. í því skyni að ráða til starfa C og D, sem eru kólumbískir ríkisborgarar. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfanna með vísan til a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Fram kemur að vegna mistaka og að hluta til vegna sumarleyfa starfsmanna hafi ekki verið unnt að senda umrædda stjórnsýslukæru til ráðuneytisins innan kærufrestsins. Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 28. júlí sl., þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 19. júní sl. en samkvæmt 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Því teldist viðkomandi kæra hafa borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti.
Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Að mati ráðuneytisins kom ekki nægilega skýrt fram í gögnum málsins í hverju áðurnefnd mistök fólust sem urðu til þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Í fyrrnefndu bréfi óskaði ráðuneytið því eftir frekari skýringum á ástæðum þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti og var frestur veittur til 12. ágúst sl.
Ráðuneytinu barst svarbréf kæranda þann 11. ágúst sl., þar sem fram kemur að ástæða þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti hafi verið að rekstrarstjóri B hf. á E, F, hafi verið í sumarleyfi frá 7. júní sl., þegar A hafi fengið þær upplýsingar í félagsmálaráðuneytinu að það falli í hlut atvinnurekanda að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar skv. lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og þar til kæran barst ráðuneytinu þann 25. júlí sl. Þeir sem hafi leyst F af hafi hins vegar ekki vitað hvernig taka ætti á málinu.
Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 15. ágúst sl., þar sem fram kemur að skýrt sé kveðið á um í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Að mati ráðuneytisins þyki því ekki nægjanlegt að tilgreina í bréfi ákveðnar ástæður þess að viðkomandi stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti án þess að styðja þær skýringar frekari gögnum. Í ljósi þess að lögbundinn kærufrestur í máli þessu hafi runnið út 19. júní sl., teldi ráðuneytið nauðsynlegt að ástæður þess að B hf. sá sér ekki fært að kæra umrædda ákvörðun Vinnumálastofnunar fyrr en að liðnum lögbundnum kærufresti yrðu studdar frekari gögnum og var frestur veittur til 28. ágúst sl.
Með svarbréfi kæranda, sem barst ráðuneytinu 28. ágúst sl., fylgdi yfirlýsing B hf. þar sem fram kemur að rekstrarstjóri B hf. á E, F, hafi verið í leyfi dagana 6. júní 2006 til 17. júlí 2006. Enn fremur fylgdi yfirlýsing frá F sama efnis.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfa til félagsmálaráðuneytisins. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar en að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um stjórnsýslukæru. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Í gögnum málsins kemur fram að ástæða þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti sé að rekstrarstjóri B hf. á E, F, hafi verið í leyfi dagana 6. júní 2006 til 17. júlí 2006 og að þeir sem gegnt hafi starfi hans á meðan hafi ekki vitað hvernig standa ætti að málinu fyrir hönd B hf. Hins vegar kemur fram í gögnum málsins að umboð það er A fékk til að kæra umræddar synjanir Vinnumálastofnunar til félagsmálaráðuneytisins f.h. B hf. var undirritað af G, f.h. B hf., þann 14. júlí 2006 eða tæpum fjórum vikum eftir að lögbundinn kærufrestur rann út. Í gögnum málsins er þó ekki að finna skýringar á þeim drætti.
Það er því mat ráðuneytisins, miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu, að ekki hafi verið sýnt nægjanlega fram á að ástæður þess að A var ekki veitt umboð B hf. til að kæra umræddar synjanir Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins fyrr en að liðnum lögbundnum kærufresti séu þess eðlis að afsakanlegt verði talið í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki ráðið af málsatvikum að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið skortir því heimildir að lögum til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar og ber af þeim ástæðum að vísa erindi kæranda frá ráðuneytinu, sbr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stjórnsýslukæru A, f.h. B hf., dags. 21. júlí 2006, sem barst ráðuneytinu 25. júlí 2006, vegna synjana Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2006, á veitingu atvinnuleyfa fyrir C og D, sem eru kólumbískir ríkisborgarar, er vísað frá félagsmálaráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Sesselja Árnadóttir
Bjarnheiður Gautadóttir