Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 010/2015
Þriðjudaginn 14. júlí 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 26. ágúst 2014, til velferðarráðuneytisins kærði […] hdl., fyrir hönd […], kt. […], ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 7. maí 2014, og síðar leiðrétt með bréfi sjóðsins, dags. 11. júlí 2014, um ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda á hendur þrotabúi Orkuvarðar ehf., kt. 650406-2060.
I. Málavextir og málsástæður
Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Orkuvarðar ehf. um greiðslu bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, og um greiðslu innheimtukostnaðar, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga.
Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. maí 2014, þar sem fram kom að sjóðurinn samþykkti ábyrgð á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Orkuvarðar ehf. um greiðslu vinnulauna fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans með vísan til a-liðar 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, að fjárhæð 1.122.000 kr., auk vaxta að fjárhæð 337.276 kr., sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga, eða samtals 1.459.276 kr.
Kærandi óskaði rökstuðnings framangreindrar ákvörðunar Ábyrgðasjóðs launa með bréfi, dags. 24. júní 2014. Rökstuðningur Ábyrgðasjóðs launa barst kæranda með bréfi, dags. 7. júlí 2014. Í bréfi sjóðsins kemur fram að greidd hafi verið laun vegna þriggja síðustu starfsmánaða kæranda samkvæmt a-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa í samræmi við hámarksábyrgð sjóðsins samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 1208/2008, um hámark ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa, eða samtals 1.122.000 kr. Í umsögn skiptastjóra þrotabús Orkuvarðar ehf. til Ábyrgðasjóðs launa, dags. 6. mars 2014, hafi samþykkt krafa verið að fjárhæð 2.551.101 kr. samkvæmt sátt sem náðst hafði í málinu. Samþykkt krafa hafi verið sundurliðuð í bréfi, dags. 6. maí 2014, og næði hún til tímabilsins desember 2009 til janúar 2011 að teknu tilliti til innborganna. Ekki hafi komið fram að krafa um laun í uppsagnarfresti vegna febrúar til apríl 2011 hafi verið tekin til greina og hafi Ábyrgðasjóður launa því einungis greitt laun fram að uppsögn. Í bréfi sjóðsins er greint frá því að ákvörðun um innheimtukostnað verði tekin til endurskoðunar.
Með bréfi Ábyrgðasjóðs launa til kæranda, dags. 11. júlí 2014, tilkynnti Ábyrgðasjóður launa að kostnaður samkvæmt 9. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa yrði greiddur gegn framvísun reiknings að fjárhæð 93.540 kr. í samræmi við reglur nr. 644/2003, um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði.
Kærandi vildi ekki una ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa og kærði hana til velferðarráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 26. ágúst 2014. Í kærunni kemur meðal annars fram að vinnuveitandi kæranda, félagið Orkuvörður ehf., hafi verið úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra þann 17. janúar 2011. Kærandi hafi átt vangoldin laun hjá félaginu við úrskurðinn en skiptastjóri hafi í fyrstu ekki viðkennt kröfu kæranda sem forgangskröfu. Kærandi hafi því höfðað mál á hendur þrotabúinu sem hafi lokið með sátt, dags. 5. mars 2014. Skiptafundur hafi síðan verið haldinn 6. mars 2014 og var sáttartillaga skiptastjóra þá formlega samþykkt. Dómsmálið var jafnframt fellt niður sama dag.
Í kjölfar sáttarinnar hafi kærandi sent kröfu til Ábyrgðasjóðs launa þar sem krafist var ábyrgðar á kröfum kæranda á hendur þrotabúinu um vangoldin laun að fjárhæð 2.060.975 kr., bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti að fjárhæð 1.236.477 kr. og innheimtukostnað að fjárhæð 708.134 kr. Sjóðurinn hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. maí 2014, að sjóðurinn hefði ákveðið að ábyrgjast greiðslu að fjárhæð 1.122.000 kr. auk vaxta. Kærandi hafi þá með bréfi, dags. 24. júní 2014, óskað eftir rökstuðningi sjóðsins fyrir ákvörðun sinni og þá sérstaklega því hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til krafna um bætur vegna launamissis, sbr. b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, og um innheimtukostnað, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Ábyrgðasjóður launa hafi sent rökstuðning sinn með bréfi, dags. 7. júlí 2014, þar sem að sjóðurinn hafi borið fyrir sig að sátt sem gerð hafi verið í málinu hafi ekki náð til launa í uppsagnarfresti og þar af leiðandi hafi sjóðurinn einungis greitt hámarkslaun samkvæmt reglum sjóðsins fram að uppsögn.
Að mati kæranda hafi Ábyrgðasjóði launa hins vegar borið að greiða bætur vegna launamissis, samkvæmt b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, eftir kröfu hans þar um. Krafan hafi verið sett fram samhliða kröfu til sjóðsins um vinnulaun, dags. 6. mars 2014, en bætur vegna launamissis séu hluti af kjarasamningsbundnum rétti kæranda. Telur kærandi því ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um að greiða ekki bætur vegna launamissis ranga.
Enn fremur kemur fram í erindi kæranda að Ábyrgðasjóður launa hafi í bréfi, dags. 11. júlí 2014, leiðrétt ákvörðun sína er varðar innheimtukostnað kæranda þar sem fram kom að kostnaður samkvæmt 9. gr. laga um Ábyrgðsjóð launa yrði greiddur gegn framvísun reiknings að fjárhæð 93.540 kr. með virðisaukaskatti. Þessari ákvörðun vilji kærandi ekki una en hann hafi krafist þess að Ábyrgðasjóður launa greiddi innheimtukostnað hans að fjárhæð 708.134 kr. samkvæmt tímaskýrslu lögmanns hans. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir verulegum kostnaði af því að halda uppi kröfu sinni um vangoldin laun úr þrotabúi Orkuvarðar ehf. Hann hafi verið tilneyddur til að höfða dómsmál gegn þrotabúinu þar sem krafa hans hafi upphaflega ekki fengist samþykkt. Þá hafi fjölmargir skiptafundir verið haldnir vegna málsins auk annarrar vinnu vegna þess. Kærandi telur að ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um innheimtukostnað vera í hæsta máta óeðlileg og ekki í samræmi við umfang málsins. Kærandi krefjist þess því að fá innheimtukostnað að fullu bættan.
Erindi kæranda var sent Ábyrgðasjóði launa til umsagnar með bréfi velferðarráðuneytisins, dags. 28. ágúst 2014, og var sjóðnum veittur frestur til 12. september sama ár til að veita umsögn. Umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 10. september 2014.
Í umsögn sjóðsins kemur fram að Ábyrgðasjóði launa hafi borist krafa kæranda vegna gjaldþrots félagsins Orkuvarðar ehf. en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 17. janúar 2011. Krafa kæranda hafi verið vegna launa á tímabilinu september 2010 til janúar 2011 og launa í uppsagnarfresti vegna febrúar til apríl 2011. Þann 6. mars 2014 hafi sjóðnum borist umsögn skiptastjóra vegna kröfulýsingar kæranda í þrotabúið. Í umsögninni hafi komið fram að skiptastjóri hafi samþykkt kröfu kæranda sem forgangskröfu með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 2.551.101 kr. Enn fremur kom fram að skiptastjóri hafi tekið fram að upphafleg krafa kæranda hafi verið að fjárhæð 10.423.253 kr. og að henni hafi allri verið hafnað. Í kjölfar sáttar við kæranda hefði skiptastjóri samþykkt kröfu að fjárhæð 2.551.101 kr.
Þann 6. maí 2014 hafi starfsmaður Ábyrgðasjóðs launa óskað eftir nánari sundurliðun á kröfu kæranda sem skiptastjóri hafði áður samþykkt. Sama dag barst sjóðnum með tölvubréfi sundurliðun á kröfu kæranda frá skiptastjóra. Hafi þar komið fram að krafan væri vegna launa frá 2009 til janúar 2011 samtals að fjárhæð 5.956.645 kr. en að teknu tilliti til innborganna að fjárhæð 3.405.544 kr. hafi eftirstöðvar kröfu kæranda verið 2.551.101 kr.
Krafa kæranda til sjóðsins hafi hins vegar verið samtals 3.296.682 kr. sem hafi annars vegar verið vegna launa fram að uppsögn fyrir tímabilið september 2010 til janúar 2011 að fjárhæð 2.060.195 kr. og vegna launa í uppsagnarfresti fyrir febrúar til apríl 2011 að fjárhæð 1.236.477 kr. Jafnframt hefði kærandi krafist þess að sjóðurinn greiddi innheimtukostnað sinn að fjárhæð 708.134 kr.
Ábyrgðasjóður launa hafi síðan tilkynnt kæranda ákvörðun sína með bréfi, dags. 7. maí 2014, um að sjóðurinn hefði samþykkt að greiða honum 1.122.000 kr. vegna launa fyrir nóvember til desember 2010 sem og janúar 2011, meðal annars með vísan til þágildandi reglugerðar um hámark ábyrgðar Ábyrgðsjóðs launa. Hins vegar hafi sjóðurinn synjað um ábyrgð á kröfu vegna launa í uppsagnarfresti í ljósi þess að skiptastjóri hafi hafnað þeim sem forgangskröfu og þar með væru ekki almenn skilyrði laga um Ábyrgðasjóð launa uppfyllt, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.
Efni 2. mgr. 2. gr. laganna er rakið í bréfi Ábyrgðasjóðs launa til ráðuneytisins sem og vísað til athugasemda við frumvarp það er varð að lögunum um hvað átt er við með orðinu „frávik“ í skilningi ákvæðisins. Þar sé tekið fram að með orðinu „frávik“ sé vísað fyrst og fremst til þess að kröfur sem ekki njóti forgangsréttar skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. geti notið ábyrgðar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Sé þar tekið fram í dæmaskyni ábyrgð á viðbótarlífeyrissparnaði, sbr. d-lið 5. gr. laganna um Ábyrgðasjóð launa, sem og innheimtukostnað og skiptatryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga.
Það sé því mat Ábyrgðasjóðs launa að synjun skiptastjóra á kröfu um laun í uppsagnarfresti geti ekki fallið undir frávik í skilningi ákvæðisins þar sem kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi teljast sem forgangskröfur skv. 2. tölul. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hafi það því verið niðurstaða Ábyrgðasjóðs launa að synja um ábyrgð á kröfu kæranda vegna launa í uppsagnarfresti.
Að því er varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 11. júlí 2014, um greiðslu kostnaðar samkvæmt 9. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa og reglna nr. 644/2003, um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði vegna krafna sem njóta ábyrgðar sjóðsins, vísar sjóðurinn til þess að í 2. gr. reglnanna sé tiltekið hvað teljist til innheimtukostnaðar í skilningi laganna. Í f-lið 2. mgr. 2. gr. reglnanna er tekið fram að til innheimtukostnaðar teljist innheimtuþóknun í þeim tilvikum þegar ekki hefur gengið dómur um kröfu á hendur vinnuveitanda eða þrotabúi.
Enn fremur er tekið fram í umsögn sjóðsins að í 5. gr. reglnanna séu settar takmarkanir á hámark ábyrgðar á innheimtukostnaði, sbr. einnig 3. mgr. 9. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Þar sé tiltekið að hámarksábyrgð á innheimtuþóknun sé 10% af höfuðstólsfjárhæð allt að 500.000 kr. en allt að 7% af höfuðstólsfjárhæð þar umfram. Höfuðstóll samþykktrar kröfu kæranda hafi verið að fjárhæð 1.122.000 kr. Af fyrstu 500.000 kr. ábyrgist sjóðurinn 10% eða 50.000 kr. en af höfuðstólsfjárhæð þar umfram eða 622.000 kr. ábyrgist sjóðurinn 7% eða 43.540 kr., samtals fjárhæð 93.540 kr.
Við endurskoðun á afgreiðslu Ábyrgðasjóðs launa á kröfu um innheimtukostnað kveðst sjóðurinn hafa gert þau mistök að greiða kæranda ekki kröfulýsingarkostnað, sbr. a-lið 2. mgr. 2. gr. reglna um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði vegna krafna sem njóta ábyrgðar sjóðsins, sem og kostnað vegna mætinga lögmanns á skiptafund fyrir hönd kæranda, sbr. e-lið 2. mgr. 2. gr. sömu reglna. Með vísan til framangreinds telji Ábyrgðasjóður launa að kærandi hafi átt rétt á að sjóðurinn ábyrgðist til viðbótar 21.000 kr. Samtals hafi sjóðurinn því átt að ábyrgjast 114.530 kr. vegna innheimtukostnaðar kæranda.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. september 2014, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 3. október sama ár. Þar sem ekki hafði borist svarbréf frá kæranda sendi ráðuneytið bréf, dags. 10. nóvember 2014, þar sem frekari frestur til að koma fram með athugasemdir var veittur til 17. nóvember sama ár en að öðrum kosti yrði litið svo á að kærandi sæi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um málið og ráðuneytið tæki málið til efnislegrar afgreiðslu.
Þar sem engar athugasemdir bárust ráðuneytinu er mál þetta tekið til efnislegrar meðferðar
II. Niðurstaða
Samkvæmt 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er heimilt að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa til velferðarráðuneytis. Mál þetta lýtur að ágreiningi um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda vegna bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi, sbr. b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, og um greiðslu innheimtukostnaðar, sbr. 9. gr. sömu laga.
Samkvæmt 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er það markmið laganna að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslu vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda. Kröfur þær sem njóta ábyrgðar sjóðsins eru taldar upp í 1. mgr. 2. gr. laganna en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna er ábyrgð sjóðsins háð því skilyrði að kröfur skv. 1. mgr. hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.–IV. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa. Kröfurnar eru síðan nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna en í 6. gr. laganna er kveðið á um hámark ábyrgðar sjóðsins.
Enn fremur á kröfuhafi rétt á greiðslu eðlilegs kostnaðar vegna innheimtu hennar, þ.m.t. dæmds innheimtukostnaðar, njóti krafa hans ábyrgðar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna, en kveðið er á um hámark á greiðslu kostnaðar og önnur skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á kröfum skv. 9. gr. í reglum nr. 644/2003, um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði vegna krafna sem njóta ábyrgðar sjóðsins, sbr. einnig 3. mgr. 9. gr. laganna.
Samkvæmt gögnum málsins lýsti lögmaður kæranda þann 24. febrúar 2011 forgangskröfu í þrotabú Orkuvarðar ehf. með vísan til 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna vangoldinna launa að fjárhæð 9.252.819 kr. fyrir tímabilið 2009 til og með janúar 2011 að frádregnum innborgunum að fjárhæð 2.419.459 kr., vegna vangoldinna launa í uppsagnarfresti að fjárhæð 2.097.900 kr. fyrir febrúar 2011 til og með apríl 2011, vegna vangoldins orlofs við starfslok að fjárhæð 822.237 kr. og orlofs í uppsagnarfresti að fjárhæð 175.560 kr. Samtals var krafa kæranda að fjárhæð 10.432.415 kr. að meðtöldum dráttarvöxtum og kröfulýsingarkostnaði og er það í samræmi við skrá yfir lýstar kröfur í þrotabú Orkuvarðar ehf, sem einnig liggur fyrir í málinu.
Skiptastjóri hafnaði kröfu kæranda sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. í þrotabúið sem varð til þess að kærandi höfðaði mál til viðurkenningar kröfu sinnar fyrir héraðsdómi Norðurlands eystra. Sátt náðist í málinu og var haldinn skiptafundur í málinu 6. mars 2014. Í endurriti fundargerðar þess fundar kemur fram að skiptastjóri búsins kveðst viðurkenna að launakrafa kæranda nr. 14 í kröfuskrá nyti stöðu forgangskröfu við skiptin samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 2.551.101 kr. Lögmaður kæranda samþykkti þessa niðurstöðu um kröfuna fyrir hönd kæranda.
Í umsögn skiptastjóra um forgangskröfu kæranda í þrotabú Orkuvarðar ehf., dags. 6. mars 2014, til Ábyrgðasjóðs launa kemur fram að hann hafi í fyrstu hafnað kröfunni sem forgangskröfu með vísan til 3. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti að teknu tilliti til stjórnunarstöðu kæranda. Jafnframt er tekið fram að skiptastjóri telji að 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa um undanþágu ábyrgðar vegna framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota félags eiga ekki við um kröfur kæranda. Kemur jafnframt fram að náðst hafi sátt í málinu um að krafa kæranda að fjárhæð 2.551.101 kr., sem væri höfuðstóll kröfunnar, hefði verið samþykkt sem forgangskrafa í þrotabúið með vísan til 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Skiptastjóri sendi að beiðni Ábyrgðasjóðs launa nánari sundurliðun á kröfu kæranda eins og hún hafði verið samþykkt við skiptin þar sem fram kom að sáttin næði einungis til launakrafna kæranda en ekki bætur vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi eða annarra krafna samkvæmt kröfulýsingu, dags. 24. febrúar 2011.
Samkvæmt b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa tekur ábyrgð sjóðsins til kröfu um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi enda hafi kröfuhafi ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða hafið sjálfstæðan rekstur á því tímabili. Hins vegar er sú krafa háð því skilyrði að hafa verið viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.-IV. kafla laganna um Ábyrgðasjóð launa, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.
Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, er tekið fram að það sé meginskilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins að kröfur launamanna hafi verið samþykktar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þessi krafa er þó með fyrirvara um þau takmörk og frávik sem nánar er fjallað um í lögunum þar sem að ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum endurspeglar ekki í einu og öllu ákvæði 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Áskilnaðurinn um viðurkenningu skiptastjóra á forgangsrétti kröfu gefi kröfunni, í þeim tilvikum sem það á við, engu að síður ákveðið vægi við mat Ábyrgðasjóðs launa á því hvort skilyrði séu til greiðslu hennar. Jafnframt er tekið fram að viðurkenning skiptastjóra á kröfu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. bindi hins vegar ekki hendur sjóðsins enda ráð fyrir því gert að sjóðurinn taki ávallt sjálfstæða afstöðu til þess hvort krafa njóti ábyrgðar samkvæmt þeim sérstöku reglum sem kveðið er á um í lögunum.
Enn fremur kemur fram í 13. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa að skiptastjóri í þrotabúi vinnuveitanda skuli svo fljótt sem verða má láta Ábyrgðasjóði í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt lögunum. Umsögn skiptastjóra skuli fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps þess er varð að gildandi lögum kemur fram að við afgreiðslu þeirra mála sem berast Ábyrgðasjóði launa sé í meiri hluta tilvika byggt á mati skiptastjóra þrotabús um réttmæti kröfu og forgangsréttar hennar en jafnframt tekið fram að sjóðurinn sé engu að síður ekki bundinn af umsögn skiptastjóra. Stjórn sjóðsins hafi sjálfstætt úrskurðarvald á grundvelli þeirra laga sem hann starfi eftir. Séu þess allmörg dæmi að sjóðurinn hafni ábyrgð kröfu þótt skiptastjóri hafi viðurkennt forgangsrétt hennar en einnig hefur stjórn sjóðsins samþykkt að krafa njóti ábyrgðar þegar kröfuhafi hafi getað lagt fram gögn sem sýni fram á að lagaskilyrðum sé fullnægt enda þótt fyrir liggi neikvæð afstaða skiptastjóra.
Virðist því sem að lögin um Ábyrgðasjóð launa geri ráð fyrir að sjóðurinn meti sjálfstætt hvort kröfur launafólks í þrotabú vinnuveitanda þess skuli njóta ábyrgðar sjóðsins enda þótt að sjóðurinn skuli hafa umsögn skiptastjóra þrotabúsins um afstöðu hans til réttmætis kröfunnar og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins til hliðsjónar.
Það liggur fyrir að samkvæmt b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa tekur ábyrgð sjóðsins almennt til ábyrgðar á kröfum um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi enda hafi kröfuhafi ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum vinnuveitanda eða hafið sjálfstæðan rekstur á því tímabili. Enn fremur liggur fyrir í máli þessu að ágreiningur hafi verið um stöðu kröfunnar innan þrotabúsins en þegar litið er til efnis umsagnar skiptastjóra má leiða að því líkum að sá ágreiningur hafi aðallega lotið að ætluðum tengslum kæranda við umrætt félag enda þar bæði vísað til 3. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem og 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Það er jafnframt mat ráðuneytisins að hvorki megi ráða af umræddri sátt í málinu, umsögn skiptastjóra né ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa hvaða sjónarmið hafi ráðið því að krafa kæranda um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans hjá hinu gjaldþrota félagi hafi eingöngu verið viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabú félagsins og síðar að nyti ábyrgðar sjóðsins, sbr. a-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, en ekki krafa hans um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi, sbr. b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Til þess verður einnig að líta að samkvæmt ráðningarsamningi milli hins gjaldþrota félags og kæranda sem sendur var Ábyrgðasjóði launa er sérstaklega kveðið á um að uppsagnarfrestur væri einn mánuður eftir þriggja mánaða starf en eftir sex mánuði í starfi væri uppsagnarfresturinn þrír mánuðir. Liggur því ekki fyrir sjálfstætt mat Ábyrgðasjóðs launa um á hvaða forsendum synjun sjóðsins um ábyrgð á kröfu kæranda um bætur fyrir launamissi vegna slita á ráðningarsamningi byggðist enda eingöngu vísað til umsagnar skiptastjóra og umræddrar sáttar.
Kærandi krefst þess einnig að Ábyrgðasjóður launa greiði innheimtukostnað að fjárhæð 708.134 kr. samkvæmt tímaskýrslu lögmanns hans og í samræmi við umfang málsins.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa á kröfuhafi rétt á greiðslu eðlilegs kostnaðar vegna innheimtu hennar, þ.m.t. dæmds innheimtukostnaðar, njóti krafan ábyrgðar samkvæmt 5. gr. laganna. Enn fremur hafa verið settar reglur á grundvelli heimildar 3. mgr. 9. gr. laganna um hámark á greiðslu kostnaðar og önnur skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á kröfum skv. 9. gr.
Samkvæmt 2. gr. reglna nr. 644/2003, um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði vegna krafna sem njóta ábyrgðar sjóðsins, ábyrgist Ábyrgðasjóður launa þann kostnað sem hlýst af innheimtu kröfu á hendur þrotabúi vinnuveitanda að því leyti sem hann hefur ekki fengist endurgreiddur úr þrotabúinu. Nánar er skilgreint hvað felist í innheimtukostnaði en samkvæmt f-lið 2. mgr. 2. gr. reglnanna telst innheimtuþóknun í þeim tilvikum sem ekki hefur gengið dómur um kröfu á hendur vinnuveitanda eða þrotabúi til innheimtukostnaðar. Samkvæmt 1. málsl. 4. mgr. 2. gr. reglnanna skal við uppgjör krafna samkvæmt f-lið 2. mgr. reikna ábyrgð á innheimtuþóknun í hlutfalli við þá höfuðstólsfjárhæð sem nýtur ábyrgðar sjóðsins samkvæmt ákvæðum laganna. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. reglnanna takmarkast síðan ábyrgð sjóðsins vegna innheimtuaðgerða á innheimtuþóknun samkvæmt f-lið 2. mgr. 2. gr. reglnanna við 10% af höfuðstólsfjárhæð allt að 500.000 kr. en allt að 7% af höfuðstólsfjárhæð þar umfram, sbr. d-lið 3. mgr. 5. gr. reglnanna.
Þá er kveðið á um í 3. málsl. 4. mgr. 2. gr. reglnanna að Ábyrgðasjóði launa sé heimilt að hækka hlutfall innheimtuþóknunar ef kröfuhafi sýnir fram á að innheimtuaðgerðir hafi að umfangi verið verulega umfram sem venjulega er í sambærilegum málum.
Fyrir liggur í málinu að Ábyrgðasjóður launa hefur þegar samþykkt að greiða 114.530 kr. með vísun til a-, f- og e-liða 2. mgr. 2. gr. reglna um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði vegna krafna sem njóta ábyrgðar sjóðsins, sbr. einnig 9. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Virðist hins vegar sem að sjóðurinn hafi ekki fjallað sérstaklega um hvort sú heimild hans um að hækka hlutfall innheimtuþóknunar samkvæmt 3. málsl. 4. mgr. 2. gr. reglnanna ætti við í málinu.
Í ljósi framangreinds er það því niðurstaða ráðuneytisins að Ábyrgðasjóður launa hafi með vísan til 2. mgr. 2. gr. og 13. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa borið að meta sjálfstætt hvort umrædd krafa kæranda um að bætur til hans vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi nyti ábyrgðar sjóðsins á grundvelli b-liðar 5. gr. laganna. Í ljósi þess að það var ekki gert heldur eingöngu vísað til umsagnar skiptastjóra er byggðist á sátt sem hafði verið gerð í málinu í meðförum þrotabúsins á kröfum kæranda er það jafnframt niðurstaða ráðuneytisins að slíkir annmarkar séu á málsmeðferð Ábyrgðasjóðs launa að leiði til ógildingar ákvörðunar hans. Beri sjóðnum því að taka þann hluta málsins til efnislegrar meðferðar að nýju á grundvelli laga um Ábyrgðasjóð launa, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er það niðurstaða ráðuneytisins að Ábyrgðasjóði launa beri að taka ákvörðun um endurgreiðslu innheimtukostnaðar til efnislegrar meðferðar að nýju meðal annars með tilliti til efnis 3. málsl. 4. mgr. 2. gr. reglna um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa á innheimtukostnaði vegna krafna sem njóta ábyrgðar sjóðsins.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 7. maí 2014, sem leiðrétt var með bréfi, dags. 11. júlí 2014, um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu […], kt. […], um bætur vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi, sbr. b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, og um greiðslu innheimtukostnaðar, sbr. 9. gr. laganna, á hendur þrotabúi Orkuvarðar ehf., kt. 650406-2060, er felld úr gildi.