Tafir Landlæknisembættisins í kvörtunarmáli vegna læknamistaka
Mánudaginn 27. desember 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Með bréfi, dags. 28. september 2010, kærði A, (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins aðgerðarleysi/tafir landlæknisembættisins, í kvörtunarmáli vegna læknamistaka sem kærandi telur sig hafa orðið fyrir 13. febrúar 2006.
Kröfur
Kærandi krefst þess að landlæknir skýri tafir og upplýsi hvenær megi vænta niðurstöðu í málinu.
Málsmeðferð ráðuneytisins
Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 4. október 2010, skýringa landlæknis á þeim drætti sem orðið hefði á afgreiðslu málsins og upplýsinga um hvenær vænta mætti niðurstöðu. Þess var óskað að upplýsingarnar bærust ráðuneytinu fyrir 12. október 2010. Vegna fjarveru starfsmanns sem með málið hafði að gera hjá landlækni var frestur lengdur til októberloka. Svar landlæknisembættisins er dags. 1. nóvember 2010. Lögmanni kæranda var sent svarið með bréfi, dags. 5. nóvember 2010 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort ætlunin væri, með vísan til fyrirliggjandi málsgagna, að halda kærumáli áfram. Svars var óskað fyrir 30. nóvember sl. Svar hefur ekki borist.
Málavextir
Lögmaður kæranda kvartaði til landlæknis með bréfi, dags. 26. maí 2009, vegna meintra læknamistaka B. Landlæknir staðfesti móttöku kvörtunar með bréfi, dags. 29. maí 2009, þar sem hann gerði einnig grein fyrir gangi kvörtunarmáls. Í lok bréfsins sagði: ,,Búast má við því að athugun embættisins geti tekið nokkurn tíma.“ Þann 19. júní 2009 bárust landlækni gögn frá bæklunarlækninum og 2. júlí 2009 óskaði landlæknir eftir sérfræðiáliti C. Kærandi sendi landlækni viðbótargögn með bréfi, dags. 2. desember 2009. Landlæknir staðfesti móttöku gagnanna með bréfi, dags. 9. desember 2009 og upplýsti jafnframt kæranda um hver væri sérfræðiálitsgjafi embættisins í málinu. Þann 25. febrúar 2010 spurðist lögmaður kæranda fyrir um gang málsins. Svar landlæknis er dags. 19. mars 2010. Aftur barst fyrirspurn lögmanns 6. apríl 2010 og var henni svarað 8. apríl 2010. Frekari fyrirspurnir lögmannsins eru dags. 8., 21. og 29. júní 2010. Landlæknisembættið svaraði fyrirspurnunum 11. ágúst 2010 eða að loknum sumarleyfum. Samkvæmt símaupplýsingum starfsmanns landlæknisembættisins þann 29. október 2010 hafði C upplýst aðspurður í tölvupósti þann sama dag að sérfræðiálitið væri tilbúið og yrði afhent 1. nóvember. Þann 1. nóvember 2010 barst landlæknisembættinu álitsgerð C, dags. 28. október 2010, og var hún send lögmanni kæranda samdægurs.
Málsástæður og lagarök kæranda
Í kæru segir að í bréfi til lögmanns kæranda þar sem landlæknir staðfestir móttöku kvörtunar hafi verið kveðið á um ákveðnar aðgerðir landlæknis í málinu. Lögmaðurinn kveðst nokkrum sinnum hafa forvitnast um gang málsins en lítið hafa verið upplýstur fyrir utan það að honum hafi verið sagt að beðið væri eftir álitsgerð frá utanaðkomandi sérfræðingi. Kærandi kunni að eiga rétt til bóta hjá tryggingafélagi læknisins samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu og fyrningarfrestur sé fjögur ár. Því sé verið að ýta á eftir málinu.
Málsástæður og lagarök landlæknis
Í bréfi landlæknisembættisins, dags. 1. nóvember 2010, segir að dráttur á afgreiðslu málsins hjá landlækni sé til kominn vegna þess hve dregist hafi hjá utanaðkomandi sérfræðingi að skila álitsgerð. Álitsgerðin hafi hins vegar borist 1. nóvember 2010 og þegar verið sent lögmanni kæranda. Þá megi vænta niðurstöðu landlæknis í málinu í nóvember eða desember.
Niðurstaða ráðuneytisins
Kæran lýtur að drætti á afgreiðslu landlæknis á kvörtunarmáli vegna meintra læknamistaka. Kvörtunin barst embættinu 26. maí 2009. Kærandi óskar skýringa á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu málsins og upplýsinga um hvenær vænta megi niðurstöðu.
Í 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni, segir að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Ákvæði um málshraða eru í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir:
,,Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.
Þar sem leitað er umsagnar skal það gert við fyrstu hentugleika. Ef leita þarf eftir fleiri en einni umsögn skal það gert samtímis þar sem því verður við komið. Stjórnvald skal tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína.
Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.“
Álitsumleitan tekur jafnan töluverðan tíma og verður oft til þess að draga afgreiðslu máls verulega á langinn. Því segir í tilvitnaðri grein að stjórnvald skuli tiltaka fyrir hvaða tíma umsagnaraðili láti umsögn sína í té. Ekki liggur fyrir að utanaðkomandi sérfræðingi í þessu máli hafi verið sett tímamörk. Upplýsa ber málsaðila um ástæður tafa og hvenær megi vænta niðurstöðu/ákvörðunar í máli þegar fyrir liggur að afgreiðsla muni dragast á langinn. Við upphaf máls þessa var upplýst að afgreiðsla þess gæti tekið nokkurn tíma. Þegar óhóflegur dráttur á afgreiðslu máls er kærður til æðra stjórnvalds ber því að úrskurða hvort um ónauðsynlega töf hafi verið að ræða. Í svari landlæknis til ráðuneytisins, dags. 1. nóvember 2010 segir að drátturinn stafi af langri bið eftir sérfræðiáliti frá utanaðkomandi sérfræðingi. Álitið hafi borist landlækni 1. nóvember 2010 og verið sent lögmanni kæranda samdægurs. Þá er upplýst að niðurstöðu máls sé að vænta í nóvember eða desember. Kæranda var með bréfi ráðuneytisins, dags. 5. nóvember 2010, gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum við svar landlæknis. Engar athugasemdir hafa borist. Kærandi hefur með bréfi landlæknis fengið svar við þeim spurningum sem fram voru settar í kröfugerð. Forsendur kæru eru þar af leiðandi ekki lengur fyrir hendi og er kæru vísað frá.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Stjórnsýslukæru A er vísað frá.