Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Kæra vegna málsmeðferðar Embættis landlæknis varðandi kvörtun vegna meintra mistaka við tannsmíðaþjónustu

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 017/2015

Mánudaginn 28. september 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með kæru, dags. 15. desember 2014, kærðu A tannlæknir og B, klínískur tannsmíðameistari, (hér eftir nefnd kærandi A, kærandi B eða kærendur), til velferðarráðuneytisins málsmeðferð Embættis landlæknis vegna álitsgerðar, dags. 10. september 2014, í kvörtunarmáli C, (hér eftir nefndur kvartandi), vegna meintra mistaka við tannsmíðaþjónustu og veittrar heilbrigðisþjónustu.

I. Kröfur.

Kærendur kvarta yfir málsmeðferð Embættis landlæknis vegna kvörtunar kvartanda, dags. 26. júlí 2013, varðandi val embættisins á óháðum sérfræðingi. Kærendur krefjast þess að embættinu verði falið að taka málið upp að nýju og nýir óháðir sérfræðingar sem samþykktir séu af málsaðilum verði fengnir, til dæmis tannlæknir og klínískur tannsmiður, helst danskir.

II. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Embætti landlæknis var með bréfi, dags. 19. desember 2014, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna kærunnar. Greinargerð og gögn embættisins bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 30. janúar 2015. Greinargerð embættisins ásamt gögnum var send kærendum með bréfi, dags. 19. febrúar 2015, og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með tölvupósti, dags. 6. mars 2015, óskuðu kærendur eftir frekari fresti til að skila inn athugasemdum við umsögn embættisins til 16. mars 2015. Athugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 16. mars 2015.

III. Málavextir.

Með bréfi, dags. 26. júlí 2013, barst Embætti landlæknis kvörtun kvartanda þar sem fram kom að hann hafði leitað til kæranda B vegna brotins stálgrindarparts í neðri gómi, sem þarfnaðist viðgerðar. Þar sem ekki reyndist unnt að gera við stálgrindarpartinn var ákveðið að smíða nýjan sem var afhentur í febrúar 2013. Þá var og smíðaður nýr heilgómur í efri góm. Fljótlega fór stálgrindarparturinn að meiða tannhold kvartanda og komu á það sár og verkir ágerðust og þurfti kvartandi á sýklalyfjagjöf að halda, þrátt fyrir endurtekin meðferðarúrræði kæranda B. Þar sem kærandi B féllst ekki á að endursmíða partinn eða endurgreiða hann leitaði kvartandi til D tannlæknis, en að hans mati var stálgrindarparturinn illa hannaður, ekki samkvæmt vinnureglum um slíka smíði og ekki unnt að lagfæra hann. Taldi tannlæknirinn að kvartandi þyrfti að fá nýjan stálgrindarpart í neðri góm.

Kæranda A var send umsögn óháða sérfræðingsins, dags. 13. mars 2014, með bréfi, dags. 21. mars 2014. Athugasemdir kæranda A við umsögn óháða sérfræðingsins hafi borist embættinu með bréfi, mótt. 22. apríl 2014, en hann hafi óskað eftir frekari fresti til að skila andmælum og hafi hann verið veittur, sbr. bréf embættisins dags. 7. maí 2014. Þá hafi athugasemdir óháða sérfræðingsins við athugasemdir kvartanda borist með bréfi, dags. 28. apríl 2014. Þá liggi fyrir í málinu bréf kæranda A, dags. 23. maí 2014, og bréf kærenda A og B, dags. 13. júní 2014. Embætti landlæknis hafi borist andmæli og athugasemdir kærenda með bréfi, dags. 4. júlí 2014. Embættinu bárust athugasemdir óháða sérfræðingsins með bréfi, dags. 18. ágúst 2014. Frekari athugasemdir hafi ekki borist embættinu frá kærendum.

Í greinargerð kæranda B sem embættið óskaði eftir kom meðal annars fram að stálgrindarparturinn var hannaður af kæranda A. Niðurstaða embættisins var sú að um mistök hefði verið að ræða við veitingu heilbrigðisþjónustu kærenda. Embættið lauk kvörtunarmálinu með áliti, dags. 10. september 2014.

IV. Málsástæður og rök kærenda.

Í kæru er kvartað yfir málsmeðferð Embættis landlæknis vegna kvörtunar kvartanda dags. 26. júlí 2013, einkum varðandi val á óháðum sérfræðingi, E, sem fenginn var af hálfu embættisins til að veita umsögn í málinu. Hinn óháði sérfræðingur vinni við tannlæknadeild Háskóla Íslands og hafi verið fenginn til verksins án samráðs við kærendur og án samþykkis þeirra. Að mati kærenda hafi umsögnin verið mjög ítarleg, óvönduð og ósanngjörn í þeirra garð. Kærendur fari fram á að ráðuneytið feli embættinu að taka málið upp að nýju og afli nýrrar umsagnar óháðs sérfræðings eða fleiri, til dæmis tannsmiðs og tannlæknis, helst frá Danmörku, sem málsaðilar geti samþykkt. Vegna ágreinings hér á landi milli tannlækna og tannsmiða vegna réttinda klínískra tannsmiða geti verið erfitt að finna óháða sérfræðinga. Þá telji kærendur að mikilvægt sé að meðferð málsins verði ekki einungis skrifleg, þar sem fullyrðing standi gegn fullyrðingu, til dæmis um að restar vanti þrátt fyrir að þær séu sýnilegar á ljósmynd svo og um að parturinn hafi aldrei passað þrátt fyrir að hann hafi verið í lagi fyrstu tvo mánuðina.

Í andmælabréfi kærenda til ráðuneytisins, dags. 16. mars 2015, kemur meðal annars fram að ekki sé unnt að fallast á niðurstöðu Embættis landlæknis um val á óháðum sérfræðingi. Ekki sé heldur unnt að fallast á að sá óháði sérfræðingur sem fyrir valinu hafi orðið sé óháður vegna fyrri deilna tannlækna og tannsmiða á síðustu árum, meðal annars vegna löggildingar tannsmiða og klínískra tannsmiða sem heilbrigðisstéttar. Umsögn geti ekki talist vönduð eða heiðarleg þegar hinn óháði sérfræðingur leggi huglægt mat á stálpartinn, en sérfræðingurinn hafi aldrei séð partinn eða kvartanda. Hann hafi fullyrt að parturinn sé framleiddur af vankunnáttu og á hann vanti stopp, enda þótt stoppin sjáist á mynd. Þá sé einkennilegt að hinn óháði sérfræðingur hafi skrifað að parturinn hafi líklega ekki passað frá upphafi, en sannað sé að hann hafi verið í lagi í tvo mánuði eftir afhendingu. Parturinn hafi greinilega bognað og ekki lengur passað, en kvartandi hafi ekki viðurkennt það eða viljað að það yrði sannreynt. Stálgrindin í partinum geti ekki bognað nema beitt sé miklu afli eða hann orðið fyrir miklu hnjaski. Kvartandi hafi kosið að leita til annars tannlæknis vegna stálpartsins í stað þess að leita til kærenda og greiða þeim brot af því sem hann greiddi fyrir nýjan part.

Kærendur telji að af gögnum málsins megi ráða að kvartandi halli réttu máli og segi beinlínis ósatt. Kærendur hafi boðið honum að koma og ræða málin, en hann hafi hafnað því. Kvartandi hafi leitað til lögfræðings sem geti haft mikinn kostnað í för með sér. Embætti landlæknis hafi haft þessar athugasemdir kærenda að engu.

Kærendur telji sig hafa orðið vör við að flestir tannlæknar sætti sig við störf klínískra tannsmiða. Óháði sérfræðingurinn sem embættið hafi valið hafi reynt að rakka niður starfsstétt klínískra tannsmiða og hefði sérfræðingurinn átt að upplýsa embættið um afstöðu sína til stéttarinnar.

Málsmeðferð embættisins sé að mati kærenda ósanngjörn þar sem ekki sé tekið tillit til athugasemda þeirra og einungis sé lögð til grundvallar umsögn óháðs sérfræðings. Verklagsreglur hins óháða sérfræðings séu ekki þær einu sem komi til greina að starfa eftir og megi að mati kærenda leita álits fleiri aðila um verkið, svo sem tryggingayfirlæknis.

Kærendur bendi sérstaklega á að vottorð sem fylgi gögnum málsins sé dagsett 2. júlí 2014, eða tveimur mánuðum eftir að kærendur sáu kvartanda í maí. Hafi honum þá verið gert ljóst að laga þyrfti stálpartinn án tillits til þess hvernig parturinn hefði orði fyrir hnjaski og bognað, ef sárið greri ekki. Honum hefði verið ráðlagt að vera ekki með partinn á meðan sárið væri að gróa. Kærendur eigi bágt með að trúa að kvartandi hafi verið með partinn boginn allan þann tíma. Samkvæmt vottorðinu hafi kvartandi verið kominn í meðferð hjá tannlækni á X í byrjun júní. Kærendur greini frá því að þeim hafi verið bent á að hér geti verið um svokallaðan sjálfskaða að ræða hjá kvartanda. Að lokum bendi kærendur á að þau hafi aldrei verið beðin um að staðfesta að parturinn sé þeirra smíð.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn Embættis landlæknis dags. 30. janúar 2015, er umfjöllunarefni kæru rakið, svo og umfjöllun embættisins um kvörtun kæranda. Þá er málsmeðferð embættisins rakin. Vísast til umsagnarinnar hvað þetta varðar.

Í umsögn Embættis landlæknis kemur fram að embættið hafi óskað eftir umsögn óháðs sérfræðings skv. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Fyrir valinu hafi orðið E, tannlæknir og sérfræðingur í tann- og munngervalækningum. Hafi öll fyrirliggjandi gögn málsins verið send hinum óháða sérfræðingi og hafi umsögnin borist embættinu með bréfi, dags. 13. mars 2014. Hafi kvartandi gert athugasemdir við umsögn hins óháða sérfræðings, en hann hafði greint frá þeim í símtali við starfsmann embættisins, sbr. minnisblað dags. 24. mars 2014. Í samtalinu við kæranda komi fram meðal annars fram að ljósmyndir af partinum hafi verið mjög dökkar, en að embættið hafi fengið frá sérfræðingnum mjög góðar myndir. Þá komi fram hjá hinum óháða sérfræðingi að kvartandi hafi upphaflega hitt kæranda A með brotinn stálpart, en hið rétta sé að hann hafi upphaflega komið til kæranda B. Hann hafi ekki hitt kæranda A fyrr en löngu seinna er hann fjarlægði tönn úr kvartanda. Þá komi fram í umsögn hins óháða sérfræðings að mjög erfitt sé að taka afstöðu til kvörtunarefnisins þar sem ekki hafi verið unnt að skoða stálgrindarpartinn í munni kvartanda fyrir útgáfu umsagnarinnar. Kvartandi vilji koma því á framfæri að hann eigi enn stálpartinn.

Eins og fram komi í kæru geri kærendur athugasemdir við aðkomu óháða sérfræðingsins að málinu. Í kæru segi meðal annars að málið hafi þróast svo í meðförum embættisins að hinn svokallaði óháði sérfræðingur sem vinni við tannlæknadeild Háskóla Íslands, hafi án samráðs við kærendur og án samþykkis þeirra verið fenginn til að skrifa álit um þjónustuna sem hafi reynst mjög ítarlegt en ekki nægilega vandað hvað vinnubrögð snerti og ósanngjarnt í garð kærenda.

Embætti landlæknis bendi á að fram komi í 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu að þegar kvörtun lúti að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð skuli landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum. Í framangreindu ákvæði sé sérstaklega bent á að umsagnaraðili skuli vera óháður og komi því samráð við val á óháðum sérfræðingi í málum vegna kvartana hvorki til greina né að leitað sé samþykkis aðila máls um umsagnaraðila. Slík framkvæmd fengi ekki staðist samkvæmt framangreindu ákvæði um að sérfræðingur skuli vera óháður.

VI. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að málsmeðferð Embættis landlæknis vegna kvörtunar C til embættisins, dags. 26. júlí 2013. Kvörtunin beindist að tannsmíðaþjónustu hjá kærendum vegna mistaka við smíði stálgrindarparts í neðri góm.

Kærendur fara fram á að ráðuneytið feli embættinu að taka málið upp að nýju þar sem nýir óháðir sérfræðingar, helst danskir, verði fengnir til umsagnar og að þeir verði samþykktir af málsaðilum.

Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, en þar segir í 5. og 6. mgr.:

„Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.“

Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu við meðferð málsins, en ekki er fjallað efnislega um kvartanir kærenda. Ráðuneytið hefur farið yfir öll fyrirliggjandi gögn málsins svo og málsmeðferð Embættis landlæknis. Eins og kveðið er á um í framangreindu ákvæði 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum. Rök kærenda um að sá sérfræðingur sem varð fyrir valinu án samþykkis aðila málsins og sem starfar við tannlæknadeild Háskóla Íslands geti ekki talist óvilhallur, í ljósi þess að hinn óháði sérfræðingur hafi reynt að rakka niður starfsstéttina klíníska tannsmiði, þykja ekki nægilega sönnuð.

Með vísan til framanritaðs og 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, er kröfu kærenda, um að málinu verði vísað aftur til Embættis landlæknis og nýir óháðir sérfræðingar fengnir til að veita umsögn í málinu sem aðilar málsins geti samþykkt, hafnað. Ekki verður af gögnum málsins ætlað að sá óháði sérfræðingur sem varð fyrir valinu af hálfu embættisins til að veita umsögn í málinu geti talist hafa verið ósanngjarn í garð kærenda og beinlínís reynt að villa um fyrir embættinu um hug sinn gagnvart klínískum tannsmiðum.

Kröfu kærenda um að fengnir verði nýir sérfræðingar sem þau samþykki er hafnað, enda sé það í ósamræmi við ákvæði 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu um að sérfræðingar séu óháðir. Er því ekki grundvöllur til þess að fallast á að mál þeirra verði endurskoðað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kærenda, A og B, um endurskoðun máls þeirra, er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta