Synjun Vinnumálastofnunar frá 23. mars 2007 staðfest
Þriðjudaginn 10. júlí 2007 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 30. mars 2007, kærðu A og B ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2007, um synjun á veitingu atvinnuleyfis vegna vistráðningar til handa A og B fyrir C, sem er eþíópískur ríkisborgari.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu atvinnuleyfis vegna vistráðningar til handa A og B í því skyni að ráða í vist á heimili sitt C, sem er eþíópískur ríkisborgari. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu leyfisins með vísan til þess að aldursskilyrði 13. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, væri ekki uppfyllt.
Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu hana til ráðuneytisins. Í erindi kærenda kemur fram að þeir hafi ákveðið að sækja um leyfi til þess að ráða umræddan útlending í vist á heimili sitt til að aðstoða þá við umönnun barna sinna og við heimilisstörf þar sem A hafi orðið fyrir lömun á öðrum fæti við fæðingu yngra barns þeirra. Hún þurfi því að stunda stöðuga þjálfun til þess að ná fullum bata en hafi hins vegar ekki haft tök á að stunda slíka þjálfun vegna umönnunar barnanna og annarra heimilisstarfa. Þá kemur fram að í tengslum við umsóknina hafi kærendur orðið fyrir óþægindum þar sem ekkert í umsóknarferlinu hafi bent til þess að veiting slíks atvinnuleyfis væri háð aldurstakmörkunum hvað varðar þann einstakling sem sótt er um leyfi fyrir. Engar upplýsingar þess efnis hafi verið að finna á leiðbeiningar- og umsóknareyðublöðum né heldur hafi þeim verið bent á umrætt aldursskilyrði 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga vegna umsóknar sinnar, hvorki í samskiptum sínum við Útlendingastofnun né við Vinnumálastofnun.
Erindi kærenda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. apríl 2007, og barst svarbréf stofnunarinnar þann 18. apríl sama ár. Í umsögn sinni ítrekar Vinnumálastofnun afstöðu sína til málsins þess efnis að aldursskilyrði 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sé skilyrði sem engin heimild sé til að víkja frá. Í umsögn sinni tekur Vinnumálastofnun einnig fram að stofnunin harmi þau óþægindi og angur sem meðferð stofnunarinnar á umsókn kærenda hafi valdið þeim og fjölskyldu þeirra. Jafnframt tilgreinir stofnunin til hvaða aðgerða hún hafi gripið og komi til með að grípa svo tryggt sé að umrætt skilyrði 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga komi fram þegar sótt er um atvinnuleyfi vegna vistráðningar til stofnunarinnar.
Með bréfi, dags. 18. apríl 2007, var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Vinnumálastofnunar og var frestur veittur til 4. maí sama ár. Einstaklingur tengdur kærendum, íslenskur ríkisborgari sem hefur aðstoðað kærendur í samskiptum þeirra við ráðuneytið, ítrekaði við starfsmann ráðuneytisins þann 24. apríl 2007 áður fram komin sjónarmið kærenda í málinu og tók jafnframt fram að kærendur hefðu ekki í hyggju að leggja fram frekari gögn í málinu.
II. Niðurstaða.
Ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, eru kæranlegar til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 24. gr. laganna.
Í ákvæði 13. gr. laga, um atvinnuréttindi útlendinga, kemur fram að heimilt sé að veita leyfi til að ráða útlending á aldrinum 18–26 ára í vist á íslenskt heimili. Umræddur útlendingur er fæddur á árinu 1979 og var því á 28. aldursári þegar umsókn um atvinnuleyfi vegna vistráðningar hans hér á landi barst Vinnumálastofnun þann 14. mars 2007. Á þeim tímapunkti var umræddur útlendingur því eldri en ákvæði 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga gerir að skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis vegna vistráðningar. Engin heimild er í lögunum til að veita undanþágu frá því aldursskilyrði.
Með vísan til framangreinds er það því niðurstaða ráðuneytisins að skilyrðum laga um atvinnuréttindi útlendinga um veitingu atvinnuleyfis vegna vistráðningar sé ekki fullnægt í máli þessu.
Í gögnum málsins kemur fram að í tengslum við umsókn kærenda um umrætt atvinnuleyfi vegna vistráðningar hafi kærendur orðið fyrir óþægindum þar sem þeir hafi ekki fengið upplýsingar um aldursskilyrði 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga í samskiptum sínum við Vinnumálastofnun. Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að samkvæmt ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er stjórnvaldi skylt að leiðbeina og aðstoða þá sem til þess leita um þau málefni sem eru á starfssviði þess. Að mati ráðuneytisins er mikilvægt að Vinnumálastofnun veiti upplýsingar um umrætt aldursskilyrði 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga þegar sótt er um atvinnuleyfi vegna vistráðningar. Mun ráðuneytið fylgja því eftir að Vinnumálastofnun grípi til viðeigandi aðgerða þannig að tryggt sé að leiðbeiningaskyldu stofnunarinnar skv. 7. gr. stjórnsýslulaga sé fullnægt hvað varðar upplýsingar um umrætt aldursskilyrði. Skortur á upplýsingum um aldursskilyrði laganna getur þó ekki leitt til þess að litið verði framhjá skilyrðinu enda skýrt kveðið á um það í 13. gr. laganna og engar heimildir til að víkja frá því við afgreiðslu umsóknar um atvinnuleyfi vegna vistráðningar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2007, um synjun á veitingu atvinnuleyfis vegna vistráðningar til handa A og B í því skyni að ráða í vist á heimili sitt C, sem er eþíópískur ríkisborgari, skal standa.
Fyrir hönd ráðherra
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir
Bjarnheiður Gautadóttir