Synjun landlæknis um afhendingu upplýsinga úr sjúkraskrá kærð
Þriðjudaginn 30. nóvember 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með kæru, dags. 27. september 2010, sem móttekin var af ráðuneytinu 28. október 2010, kærðu A og B þá ákvörðun Landlæknisembættisins, dags. 29. júní 2010, að synja um afhendingu upplýsinga úr sjúkraskrá C, sem lést þann 15. apríl 2010.
Kröfur
Í kæru er þess krafist að ákvörðun landlæknis frá 29. júní 2010 verði tekin til endurskoðunar. Jafnframt er þess krafist að ákvörðun landlæknis verði breytt og kærendum veitt heimild til öflunar umbeðinna gagna úr sjúkraskrá C, á tímabilinu 1. september 1991 til 30. september 1996, til að uppfylla upplýsingaskyldu gagnvart X við mat félagsins á greiðsluskyldu þess gagnvart kærendum.
Málsmeðferð ráðuneytisins
Kæran var send landlækni með bréfi, dags. 30. september 2010, þar sem óskað var eftir greinargerð embættisins vegna kærunnar svo og öllum málsgögnum. Greinargerð landlæknisembættisins, dags. 22. október 2010, og málsgögn bárust ráðuneytinu þann 27. október 2010. Greinargerðin og málsgögn voru send lögmanni kærenda með bréfi, dags. 28. október 2010 og var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og viðbótargögnum fyrir 18. nóvember 2010. Hvorki hafa borist athugasemdir né viðbótargögn.
Málsatvik
Málavöxtum er þannig lýst í kæru að þann 9. október 1996 var gefin út líftrygging á nafni C, hjá Z. Tilnefndir rétthafar samkvæmt hinu útgefna skírteini eru kærendur, synir C, þeir A og B.
C lést þann 15. apríl sl. Þegar kærendur hugðust gera tilkall til greiðslu frá tryggingafélaginu, nú X, sem rétthafar bótagreiðslu, fengust þau svör frá starfsmanni tryggingafélagsins að félaginu væri ekki unnt að meta bótaskyldu þess gagnvart kærendum nema með því að fá upplýsingar úr sjúkraskrá hinnar látnu fimm ár fyrir töku tryggingarinnar.
Til að verða við ósk tryggingafélagsins sendu kærendur beiðni um upplýsingar úr sjúkraskrá til Landlæknisembættisins þann 20. maí 2010. Með bréfi Landlæknisembættisins, dags. 3. júní 2010, var kærendum veitt færi á að rökstyðja beiðni um afhendingu sjúkraskrárinnar áður en málið yrði endanlega afgreitt.
Haft var samband við tryggingafélagið sem áréttaði kröfu sína um nauðsyn upplýsinga svo hægt væri að meta bótaskyldu.
Með bréfi til landlæknis, dags. 14. júní 2010, var beiðni um afhendingu sjúkraskrár ítrekuð og nánar útskýrð. Landlæknisembættið synjaði með bréfi, dags. 29. júní 2010, beiðni kærenda um afrit af sjúkraskrám hinnar látnu.
Tryggingafélagið ítrekaði í bréfi til lögmanns kærenda, dags. 12. júlí 2010, þá afstöðu félagsins að nauðsynlegt væri að fá afrit sjúkraskrár hinnar látnu svo hægt væri að meta bótaskyldu.
Málsástæður og lagarök kærenda
Um málsástæður og lagarök vísa kærendur til 12. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, sem kveður á um þagnarskyldu starfsmanna í heilbrigðisþjónustu sem helst þó að sjúklingur andist. Í greininni segir að mæli ríkar ástæður með því geti starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Þá vísa kærendur til 15. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, þar sem segir að mæli ríkar ástæður með því sé umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings aðgang að sjúkraskrá hins látna með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi.
Þá segir í rökstuðningi kærenda:
,,Rökstuðningi ákvörðunar Landlæknis er að mati kærenda áfátt, þar sem eingöngu er vísað í ofangreind lagaákvæði í lögum um réttindi sjúklinga og lögum um sjúkraskrá, en sérrregla er í 1. sbr. 4. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga(pupl.). Í 9. gr. laganna er að finna upptalningu þeirra tilvika þar sem heimilt er að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar skv. 8. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. má vinna með viðkvæmar upplýsingar hafi hinn skráði samþykkt vinnsluna fyrir sitt leyti, en fyrir liggur að hin látna gaf samþykki sitt fyrir vinnslunni með undirritun sinni á umsókn um líftryggingu dags. 9. 10. 1996. Í ákvörðun Landlæknisembættisins frá 29. 6. sl. hefði því þurft að koma fram hvort embættið telji skilyrði þessarar greinar uppfyllt. Æskilegt hefði verið, að mati kærenda, að landlæknir hefði haft samráð við Persónuvernd um afgreiðslu þess.
Sem að framan er rakið hefur tryggingafélagið neitað umbj. okkar um greiðslu úr líftryggingu C verði þau gögn sem krafist er ekki lögð fram. Umbj. okkar eru gögn þessi því nauðsynleg til þess að fallist verði á greiðslu úr tryggingu C. Ljóst má vera að um mikilsverða fjárhagslega hagsmuni þeirra, sem rétthafa skv. tryggingunni er að tefla, sem ella eru fyrir borð bornir sbr. bréf tryggingfélagsins frá 12. 7. sl. Jafnframt fer synjun í bága við vilja C heitinnar sem hafði sem fyrr segir veitt samþykki sitt til upplýsingaöflunar.“
Málsástæður og lagarök landlæknis
Niðurstaða Landlæknisembættisins er að afhending umbeðinna gagna samræmist ekki 12. gr. laga um réttindi sjúklinga og 15. gr. laga um sjúkraskrár. Þá segir í greinargerð:
„Það er meginregla að aðrir en sjúklingur sjálfur og umboðsmaður hans eiga ekki rétt á upplýsingum úr sjúkraskrám. Sú regla gildir áfram eftir andlát sjúklings. Við mat á því hvort upplýsingar í sjúkraskrá látins manns verða afhentar öðrum verður að hafa í huga að þagnarskylda um upplýsingar úr sjúkraskrá er mjög rík og það þarf sterk rök til að víkja frá henni, enda segir í 15. gr. laga nr. 55/2009 ,,mæli ríkar ástæður með“. Við mat á því hvers konar ástæður eða hagsmunir geta leitt til afhendingar upplýsinga úr sjúkraskrám látins fólks hefur Landlæknisembættið fyrst og fremst litið til þess ef náinn ættingi vill vita dánarorsök eða heilsufarsupplýsingar um hinn látna geta tengst heilsufari þess sem óskar upplýsinga og slíkar upplýsingar geta skipt máli varðandi heilsu afkomenda hins látna, þó fjárhagslegir hagsmunir séu ekki útilokaðir. Eru þá veittar tilteknar upplýsingar úr tilgreindum sjúkraskrám, en ekki sjúkraskrár í heilu lagi fyrir tiltekinn árafjölda.
Ástæða beiðni um sjúkraskrárupplýsingar í þessu tilviki er í raun ekki sú að náinn aðstandandi óski upplýsinganna, eins og gert er að skilyrði í 15. gr. laga nr. 55/2009, heldur hefur tryggingafélag óskað eftir því að fá sjúkraskrárupplýsingar um tryggingataka sem gerði samning við félagið um líftryggingu árið 1996 og er óskað eftir upplýsingum um heilsufar tryggingartaka fimm árum fyrir þann tíma. Tryggingafélagið hefði getað áður en samningur var gerður óskað eftir því að umsækjandi legði fram umræddar upplýsingar eða aflað þeirra sjálft, sbr. áritun á umsókn. Tryggingafélagið hefur ekki fært fram neinar sérstakar ástæður þess að upplýsinganna er óskað í þessu tilviki, aðeins að tryggingfélagið geti ekki metið bótaskyldu sína vegna andláts tryggingataka nema með því að fá gögn úr sjúkraskrá fyrir töku tryggingarinnar í þeim tilgangi að staðfesta að þær upplýsingar sem tryggingataki gaf á umsókn hafi verið réttar og sannleikanum samkvæmt. Það getur að mati Landlæknisembættisins ekki orðið almenn framkvæmd að tryggingafélag óski eftir og fái afhent sjúkraskrárgögn, þegar tryggingataki er látinn, gögn er varða heilsufar áður en samningur um tryggingu var gerður.
Á umsóknareyðublaði sem umsækjandi undirritaði árið 1996 er prentuð setning þar sem segir: ,,Ég heimila hér með félaginu að fá upplýsingar frá læknum, stofnunum og sjúkrahúsum um heilsufar mitt og um læknismeðferð sem ég hef fengið og frá þeim líftryggingafélögum sem ég hef sótt um líftryggingu hjá.“ Landlæknir fær ekki séð að túlka skuli þetta svo víðtækt að heimild liggi fyrir um að afla upplýsinga eftir andlát tryggingartaka, nærri 15 árum síðar. Ef upplýsinga er aflað þegar tryggingataki er á lífi getur hann komið að athugasemdum og skýringum, þegar um slíkt er að ræða þegar óskað er upplýsinga eftir andlát hans.
Það er því mat Landlæknisembættisins að skilyrði 15. gr. laga nr. 55/2009 væru ekki uppfyllt þar sem ekki er í raun um að ræða að nánir ættingjar óski upplýsinganna. Ekki hafa verið færð rök fyrir sérstökum hagsmunum umfram almenna hagsmuni og ekki liggur fyrir hver vilji hinnar látnu hefði verið í þessum efnum.“
Niðurstaða ráðuneytisins.
Kærendur óskuðu eftir því við landlækni að fá afhent gögn úr sjúkraskrá látinnar móður vegna tímabilsins 1. september 1991 til 30. september 1996. Landlæknir synjaði þeirri beiðni.
Í rökstuðningi sínum vísa kærendur til 12. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, og 15. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Ennfremur vísa kærendur til 1. sbr. 4. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Kærendur segja umbeðna sjúkraskrá þeim nauðsynlega til þess að fallist verði á greiðslu þeim til handa úr líftryggingu hinnar látnu. Ljóst megi vera að um mikilsverða fjárhagslega hagsmuni þeirra sé að tefla sem rétthafa samkvæmt tryggingunni. Þá fari synjun í bága við vilja hinnar látnu sem hafði veitt samþykki sitt til upplýsingaöflunar tryggingafélags.
Í rökstuðningi landlæknis segir að afhending umbeðinna gagna samræmist ekki 12. gr. laga um réttindi sjúklinga og 15. gr. laga um sjúkraskrár. Ástæða beiðni um sjúkraskrárupplýsingar séu í raun ekki sú að náinn aðstandandi óski upplýsinganna heldur tryggingafélag sem gerði samning um líftryggingu við hina látnu árið 1996. Tryggingafélagið hefði á þeim tíma getað óskað upplýsinga um heilsufar tryggingataka. Þá hafi ekki verið færð rök fyrir sérstökum hagsmunum umfram almenna hagsmuni og ekki liggi fyrir hver hafi verið vilji hinnar látnu í þessum efnum.
Grundvallarreglan um þagnarskyldu starfsfólks í heilbrigðisþjónustu er orðuð svo í 1. málsl. 12. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga:
„Starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skal gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum.“
Í 1. mgr. 15. gr. læknalaga nr. 53/1988 er að finna hliðstætt ákvæði um þagnarskyldu lækna og er það svohljóðandi:
„Lækni ber að gæta fyllstu þagmælsku og hindra það að óviðkomandi fái upplýsingar um sjúkdóma og önnur einkamál er hann kann að komast að sem læknir.“
Í 2. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga segir:
„Þagnarskyldan helst þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum.“
Hliðstætt ákvæði er í 1. málsl. 7. gr. læknalaga, svohljóðandi:
„Þagnarskylda fellur ekki niður við lát sjúklings.“
Ljóst er að frá meginreglunni um þagnarskyldu lækna og starfsmanna í heilbrigðisþjónustu verður ekki vikið nema lög heimili og á það, eins og að framan greinir, einnig við eftir lát sjúklings. Í 3. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga er að finna ákvæði þar sem mælt er fyrir um undantekningu frá meginreglunni um þagnarskyldu þegar um er að ræða upplýsingar um látna en þar segir:
„Mæli ríkar ástæður með því getur starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sé starfsmaður í vafa getur hann borið málið undir landlækni.“
Hliðstætt ákvæði er í 2. málsl. 7. mgr. 15. gr. læknalaga svohljóðandi:
„Mæli ríkar ástæður með því getur læknir látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum viðkomandi. Sé læknir í vafa getur hann borið málið undir landlækni.“
Þá segir í 15. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár:
„Mæli ríkar ástæður með því er umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandenda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Telji umsjónaraðili sjúkraskrár vafa leika á réttmæti þess að veita slíkan aðgang skal hann án tafar framsenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar til ákvörðunar um hvort aðgangur að sjúkraskránni skuli veittur.“
Með framangreindum ákvæðum 12. gr. laga um réttindi sjúklinga, 15. gr. læknalaga og 15. gr. laga um sjúkraskrár hefur löggjafinn falið viðkomandi lækni eða starfsmanni í heilbrigðisþjónustu að meta í hverju tilviki hvort skilyrði laganna til þess að láta í té upplýsingar um látinn sjúkling séu uppfyllt. Komi fram beiðni um upplýsingar um látinn sjúkling ber starfsmanni því að meta hvort ríkar ástæður séu til að verða við beiðninni, með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum þess sem óskar eftir upplýsingunum. Sé starfsmaður í vafa getur hann borið málið undir landlækni.
Komi erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum, skv. 3. málsl. 12. gr. laga um réttindi sjúklinga og 15. gr. laga um sjúkraskrár, til úrlausnar landlæknis verður að telja landlækni skylt að leggja mat á það hvort lagaskilyrði til að verða við erindinu sé uppfyllt eða ekki. Landlækni ber að meta hvort nægilega ríkar ástæður séu til að láta í té upplýsingar, með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sé óskað eftir heilsufarsupplýsingum um látinn mann þarf að tilgreina þær ríku ástæður og hagsmuni sem liggja til grundvallar beiðni, þannig að unnt sé að meta hvort lagaskilyrði til að fallast á hana séu uppfyllt. Við mat á því hvort veita beri barni aðgang að upplýsingum um látið foreldri telur ráðuneytið að m.a. beri að líta til hins nána sambands og hagsmunatengsla, sem að jafnaði eru á milli foreldra og barna.
Ætla má að það sé afar sjaldgæft að í sjúkraskrá sé að finna skýrar upplýsingar um vilja viðkomandi sjúklings varðandi það hvort veittar verði upplýsingar úr sjúkraskránni að honum látnum, þó ekki sé það útilokað. Ráðuneytið telur því að ekki sé heimilt að byggja synjun á því að ekki liggi fyrir upplýsingar um vilja sjúklings heldur beri að byggja á hagsmunamati. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að hagsmunir hins látna af því að upplýsingar verði ekki veittar og hagsmunir þess sem upplýsinganna óskar, séu vegnir og metnir í hverju tilviki og tillit tekið til aðstæðna í hverju máli.
Í máli þessu liggur fyrir að hin látna tók líftryggingu þar sem synir hennar, þ.e. kærendur eru nafngreindir sem rétthafar. Sá gerningur bendir til náins sambands móður og sona og hagsmunatengsla þeirra. Hin látna heimilaði, með undirritun sinni á líftryggingarumsókn hjá líftryggingafélaginu þann 9. september 1996, félaginu að afla upplýsinga frá læknum, stofnunum og sjúkrahúsum um heilsufar sitt og um læknismeðferð sem hún hafði fengið. Fjórtán ára gömul skrifleg heimild hinnar látnu fyrir aðgangi tryggingafélags að sjúkraskrárgögnum gefur vísbendingu um afstöðu hennar til umbeðinna gagna. Heimildin er einungis vísbending um vilja og jafngildir ekki upplýsingum um vilja við andlát. Óskað er afhendingar gagna úr sjúkraskrá fyrir tímabilið 1. september 1991 til 30. september 1996. Ráðuneytið telur, með vísan til þess að hin látna heimilaði tryggingafélagi aðgang að sjúkraskrá árið 1996, að synjun um aðgang að umbeðnum gögnum sé ekki í samræmi við vilja hinnar látnu.
Kærendur vísa í rökstuðningi sínum fyrir beiðni um aðgang að sjúkraskrá til fjárhagslegra hagsmuna. Hin látna nafngreinir syni sína, þ.e. kærendur, sem rétthafa að bótafjárhæð líftryggingar við andlát. Hin látna tók trygginguna til hagsbóta fyrir syni sína. Synir hinnar látnu hafa því eins og mál þetta er vaxið fjárhagslega hagsmuni af því að fá aðgang að sjúkraskrá móðurinnar.
Séu hagsmunir hinnar látnu og kærenda vegnir og metnir er það mat ráðuneytisins að hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að sjúkraskrárgögnum vegi þyngra en hagsmunir hinnar látnu af því að gögn séu ekki afhent. Þá telur ráðuneytið með hliðsjón af málavöxtum að fjárhagslegir hagsmunir kærenda séu nægilega rík ástæða til aðgangs að umbeðnum gögnum. Það er því niðurstaða ráðuneytisins að heimila kærendum aðgang að sjúkraskrárgögnum hinnar látnu vegna tímabilsins 1. september 1991 til 30. september 1996.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Krafa kærenda um aðgang að sjúkraskrárgögnum C fyrir tímabilið 1. september 1991 til 30. september 1996 er samþykkt.