Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 013/2017

Þriðjudaginn 3. október 2017 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til velferðarráðuneytis, dags. 13. október 2016, kærði  […], sem er íranskur ríkisborgari, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2016, um að hafna því að taka til efnislegrar meðferðar umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi honum til handa vegna áframhaldandi starfa hans fyrir Alfacom General Trading ehf., kt. 700710-1570.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna því að taka til efnislegrar meðferðar umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa  […], sem er íranskur ríkisborgari, vegna áframhaldandi starfa hans fyrir Alfacom General Trading ehf. Vinnumálastofnun hafnaði því að taka til efnislegrar meðferðar umrædda umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að kærandi telji ákvörðun Vinnumálastofnunar ranga enda hafi hún ekki verið byggð á staðreyndum og gögnum málsins auk þess sem ekki hafi verið farið að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, við meðferð málsins hjá stofnuninni. Í fyrrnefndu erindi kæranda áskildi kærandi sér jafnframt rétt til þess að koma að frekari gögnum í málinu. Erindi kæranda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 16. nóvember 2016, og var stofnuninni veittur frestur til 1. desember sama ár til að veita ráðuneytinu umsögn sína.

Í umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 30. nóvember 2016, kemur meðal annars fram að skv. 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, skulu atvinnurekandi og útlendingur báðir undirrita umsókn um atvinnuleyfi. Jafnframt komi fram í ákvæðinu að með umsókn skuli fylgja ráðningarsamningur undirritaður af báðum aðilum. Fram kemur í umsögn stofnunarinnar að kærandi hafi sjálfur, fyrir hönd þess félags sem um ræðir, undirritað umrædda umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi honum til handa sem og ráðningarsamning sem fylgdi með umsókninni. Enn fremur kemur fram að samkvæmt skráningu hlutaðeigandi félags í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra frá 12. apríl 2016 sé kærandi ekki framkvæmdastjóri félagsins. Þá kemur fram í umsögninni að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá félaginu en í því sambandi vísar Vinnumálastofnun til bréfs þess efnis frá 4. mars 2016 sem undirritað hafi verið af eiganda félagsins og til tölvubréfs frá lögmanni eiganda félagsins til kæranda og lögmanns hans, dags. 14. mars 2016.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi ekki haft umboð til að undirrita fyrir hönd þess félags sem um ræðir umrædda umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi honum til handa sem og ráðningarsamninginn, sem fylgdi með umsókninni. Því telji stofnunin að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga hafi ekki verið uppfyllt í málinu.

Um frekari málavexti og rökstuðning fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar vísar stofnunin í umsögn sinni til gagna málsins, þar með talið til bréfs stofnunarinnar, dags. 12. október 2016, þar sem kærandi hafi verið upplýstur um ákvörðun stofnunarinnar. Í fyrrnefndu bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 12. október 2016, kemur fram að Vinnumálastofnun hafi 25. maí 2016 borist tölvubréf frá Útlendingastofnun þar sem meðal annars hafi komið fram upplýsingar um að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá umræddu félagi og hafi Útlendingastofnun vísað í því sambandi til tölvubréfs þess efnis, dags. 14. mars 2016. Fram kemur í bréfi Vinnumálastofnunar að í kjölfarið hafi stofnunin kannað hvort skilyrði hafi verið fyrir því að afturkalla þágildandi tímabundið atvinnuleyfi sem kæranda hafði þegar verið veitt til að gegna tilteknu starfi fyrir það félag sem um ræðir. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið að afturkalla ekki fyrrnefnt atvinnuleyfi í ljósi þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi þá haft til meðferðar stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um breytingu á skráningu umrædds félags í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hvað varðar skráða stjórnarmenn í félaginu sem og skráðan framkvæmdastjóra þess.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 12. október 2016, kemur enn fremur fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi kveðið upp úrskurð í fyrrnefndu máli 5. október 2016 þar sem staðfest hafi verið ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 12. apríl 2016 um breytingu á skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hvað varðar skráða stjórnarmenn í félaginu sem og skráðan framkvæmdastjóra þess. Að mati Vinnumálastofnunar sé því ljóst af skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að stjórn þess skipi  […] og  […] auk þess sem  […] sé varamaður í stjórninni. Þá sé  […] einnig skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins og hafi hann verið það frá og með 12. apríl 2016 miðað við skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig kemur fram í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 12. október 2016, að umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa kæranda hafi borist Útlendingastofnun 1. júní 2016 sem og Vinnumálastofnun 4. ágúst sama ár. Fram kemur að kærandi hafi undirritað umrædda umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi honum til handa sem og ráðningarsamninginn sem fylgdi með umsókninni, bæði fyrir sína hönd og fyrir hönd félagsins. Jafnframt kemur fram að umsóknin um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi hafi verið ódagsett en ráðningarsamningurinn sem fylgdi með umsókninni hafi hins vegar verið dagsettur 1. júní 2016. Þá kemur fram í bréfinu að samkvæmt fyrrnefndum úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, hvað varðar skráningu umrædds félags í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, sé ljóst að kærandi hafi hvorki verið stjórnarmaður í félaginu né verið framkvæmdastjóri eða prókúruhafi þess eftir að skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi verið breytt 12. apríl 2016. Kærandi hafi því undirritað umsóknina um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi honum til handa og ráðningarsamning sem fylgdi með umsókninni eftir að honum hafi verið sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri félagsins og á þeim tíma þar sem hann hafi hvorki verið skráður stjórnarmaður né prókúruhafi í félaginu í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Hann hafi því að mati Vinnumálastofnunar hvorki haft umboð til þess að undirrita fyrir hönd félagsins umsóknina né ráðningarsamninginn sem fylgdi með umsókninni. Að mati Vinnumálastofnunar séu skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, því ekki uppfyllt og með vísan til þess hafni stofnunin því að taka til efnislegrar meðferðar umrædda umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi til handa kæranda.

Þann 28. nóvember 2016 lagði kærandi fram frekari gögn í málinu þar sem meðal annars kemur fram að kærandi telji að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn ákvæðum 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga þar sem stofnunin hafi meðal annars ekki veitt honum færi á að leggja fram nauðsynleg gögn í málinu og koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en stofnunin hafi tekið endanlega ákvörðun í málinu. Í því sambandi lagði kærandi fram nýtt eintak af ráðningarsamningi sem hann segir að hafi verið undirritaður af sér sem og af sitjandi stjórnarformanni umrædds félags,  […], þann 6. nóvember 2016 en samningnum sé ætlað að gilda til 7. október 2017. Þá tekur kærandi fram að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna því að taka til efnislegrar meðferðar umsóknina um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi honum til handa vegna áframhaldandi starfa hans fyrir umrætt félag hafi valdið félaginu tjóni auk þess sem ákvörðunin hafi haft mikil áhrif á umsókn hans og nánustu ættingja hans um dvalarleyfi þeim til handa hér á landi.

Með bréfi, dags. 7. desember 2016, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Vinnumálastofnunar um framangreind gögn sem kærandi lagði fram 28. nóvember 2016 og var stofnuninni veittur frestur til 21. desember sama ár til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Með tölvubréfi, dags. 19. desember 2016, óskaði Vinnumálastofnun eftir að ráðuneytið veitti stofnuninni viðbótarfrest til að bregðast við erindi ráðuneytisins vegna mikilla anna og jólaleyfa hjá stofnuninni. Óskað var eftir fresti til 13. janúar 2017 og með bréfi ráðuneytisins, dags. 22. desember 2016, var Vinnumálastofnun veittur umbeðinn viðbótarfrestur.

Ráðuneytinu barst umsögn Vinnumálastofnunar 17. janúar 2017 en í umsögn sinni ítrekar stofnunin áður fram komin sjónarmið sín í málinu. Jafnframt kemur fram að stofnunin telji sig við meðferð málsins hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt stjórnsýslulögum, meðal annars með því að hafa veitt bæði kæranda og umræddu félagi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en í því sambandi rekur stofnunin nánar samskipti sín við framangreinda aðila við meðferð málsins hjá stofnuninni.

Enn fremur kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar að meðal nýrra gagna sem kærandi hafi lagt fram í málinu 28. nóvember 2016 hafi verið ráðningarsamningur þar sem undirritun  […] hafi verið bætt við fyrri undirritun samningsins með viðbótarprentun frá 6. nóvember 2016. Að mati Vinnumálastofnunar hafi verið um að ræða ráðningarsamning sem hafi verið lagður fram hjá Vinnumálastofnun 5. nóvember 2015 vegna fyrstu umsóknar umrædds félags um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi til handa kæranda. Samningurinn hafi verið undirritaður 7. september 2015 en hins vegar hafi, líkt og áður segir, undirritun  […], fyrir hönd félagsins, frá 6. nóvember 2016 verið bætt við samninginn.

Fram kemur í umsögninni að í ljósi framangreinds hafi Vinnumálastofnun sent lögmanni félagsins bréf, dags. 19. desember 2016, þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu félagsins, meðal annars til þeirra gagna sem kærandi hafi lagt fram í málinu 28. nóvember 2016. Í því sambandi hafi meðal annars verið óskað eftir svörum við nánar tilgreindum spurningum, svo sem um hvort ráðningarsamningurinn sem kærandi hafi lagt fram í málinu 28. nóvember 2016 væri gildur þannig að ætlunin væri að ráða kæranda sem framkvæmdastjóra félagsins. Enn fremur hafi verið spurt hvort uppsögn kæranda vegna starfa hans fyrir félagið væri enn í gildi. Þá hafi verið óskað eftir svörum við því hvort hlutaðeigandi atvinnurekandi stæði að umræddri umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi til handa kæranda vegna áframhaldandi starfa hans fyrir félagið, sem hafi borist stofnuninni 4. ágúst 2016, sem og hvort ráðningarsamningurinn sem fylgdi með umsókninni væri í gildi. Var félaginu veittur frestur til 6. janúar 2017 til að bregðast við bréfi stofnunarinnar.

Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur jafnframt fram að 4. janúar 2017 hafi  […], eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í umræddu félagi, sbr. úrskurð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 5. október 2016, mætt til fundar hjá stofnuninni ásamt túlki sem jafnframt hafi verið aðstoðarmaður hans. Í því skyni að staðfesta persónu sína hafi  […] framvísað á fundinum greiðslukorti, útgefnu af Landsbankanum, með mynd af honum auk þess sem kennitala hans hafi verið skráð á kortið. Fram kemur í umsögn Vinnumálastofnunar að á fundinum hafi verið farið yfir gögn málsins auk þess sem  […] hafi svarað þeim spurningum sem Vinnumálastofnun hafi beint til umrædds félags í fyrrnefndu bréfi, dags. 19. desember 2016. Í máli hans hafi meðal annars komið fram að hann teldi að um væri að ræða falsaða undirritun  […] á ráðningarsamning sem kærandi hafi lagt fram sem viðbótargögn í málinu 28. nóvember 2016. Jafnframt hafi komið fram í máli  […] að kærandi gegni ekki starfi framkvæmdastjóra félagsins og að hann starfi ekki lengur fyrir félagið þar sem uppsögn hans sé enn í gildi. Þá hafi komið fram í máli  […] á fundinum að umrætt félag standi ekki að þeirri umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa kæranda sem hér um ræðir og hafi umsóknin því verið send til Vinnumálastofnunar án samþykkis félagsins.

Þá kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar, sem barst ráðuneytinu 17. janúar 2017, að með hliðsjón af framangreindum svörum og upplýsingum frá  […], eiganda, framkvæmdastjóra og stjórnarmanni í umræddu félagi sé það mat stofnunarinnar að þau gögn sem kærandi hafi lagt fram í málinu 28. nóvember 2016 hafi ekki áhrif á fyrri ákvörðun stofnunarinnar. Það sé álit Vinnumálastofnunar að þau svör sem stofnuninni hafi verið veitt á fyrrnefndum fundi 4. janúar 2017 hafi staðfest að kærandi hafi hvorki verið til þess bær að rita fyrir hönd félagsins undir umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi honum til handa vegna áframhaldandi starfa hans fyrir félagið né undir ráðningarsamninginn sem fylgdi með umsókninni. Enn fremur hafi á fundinum verið staðfest að félagið hafi ekki staðið að umsókninni um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa kæranda vegna áframhaldandi starfa hans fyrir félagið og að umsóknin hafi verið send til Vinnumálastofnunar án samþykkis félagsins. Það hafi því áfram verið mat Vinnumálastofnunar að skilyrði 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu þar sem félagið stæði ekki að umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa kæranda. Það sé því jafnframt mat Vinnumálastofnunar að staðið hafi verið með réttum hætti að ákvörðun stofnunarinnar frá 12. október 2016, um að hafna því að taka til efnislegrar meðferðar umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa kæranda vegna áframhaldandi starfa hans fyrir það félag sem um ræðir í máli þessu.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2017, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsagnir Vinnumálastofnunar og var óskað eftir að umbeðnar athugasemdir bærust ráðuneytinu fyrir 6. febrúar sama ár. Með tölvubréfi, dags. 9. febrúar 2017, óskaði kærandi eftir viðbótarfresti til 20. febrúar 2017 til að bregðast við erindi ráðuneytisins. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. febrúar 2017, var kæranda veittur umbeðinn frestur. Hinn 21. febrúar 2017 bárust ráðuneytinu frekari gögn í málinu frá kæranda auk þess sem kærandi óskaði eftir tveggja vikna viðbótarfresti til þess að koma til ráðuneytisins athugasemdum við umsagnir Vinnumálastofnunar sem og frekari gögnum í málinu. Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. sama dag, var kæranda veittur umbeðinn frestur.

Þann 8. mars 2017 bárust ráðuneytinu athugasemdir frá kæranda við umsagnir Vinnumálastofnunar sem og frekari gögn. Í athugasemdum kæranda kemur meðal annars fram að kærandi telji að  […] hafi farið með rangt mál á fyrrnefndum fundi sínum með Vinnumálastofnun 4. janúar 2017 hvað varðar undurritun  […] á ráðningarsamning sem kærandi hafi lagt fram sem viðbótargögn í málinu 28. nóvember 2016. Að mati kæranda hafi Vinnumálastofnun byggt niðurstöðu sína í málinu eingöngu á svörum  […] á fundinum en hafi ekki leitast við að sýna fram á sannleiksgildi þeirra. Í athugasemdum sínum tekur kærandi fram að ráðningarsamningur, dags. 6. nóvember 2016, sem kærandi lagði fram í málinu 28. nóvember 2016, hafi verið undirritaður af stjórnarmanni umrædds félags,  […], og sé samningurinn því lögmætur og í fullu gildi að mati kæranda. Að mati kæranda sé undirritun eins stjórnarmanns nægjanleg til þess að skuldbinda umrætt félag en í því sambandi vísar kærandi meðal annars til 49. og 52. gr. laga, nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum. Þá vísar kærandi til skýrslu rithandarsérfræðings, sem hann hafi áður lagt fram í málinu, en fram kemur að kærandi telji þá skýrslu sanna að ráðningarsamningurinn hafi sannanlega verið undirritaður af  […]. Því hafi ekki verið um falsaða undirritun að ræða líkt og  […] hafi haldið fram á fundi sínum með Vinnumálastofnun 4. janúar 2017.

Í athugasemdum sínum vísar kærandi einnig til þess að samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög skuli ákvörðun um uppsögn framkvæmdastjóra félags tekin á fundi stjórnar hlutaðeigandi félags en það hafi ekki verið gert í máli því sem hér um ræðir. Þá vekur kærandi athygli á að með umsögn Vinnumálastofnunar, sem barst ráðuneytinu 17. janúar 2017, hafi stofnunin lagt fram gögn sem tengist málinu ekki að mati kæranda og ættu þau því ekki að hafa áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar í málinu. Enn fremur vísar kærandi til þess að Vinnumálastofnun hafi ekki útskýrt hvers vegna stofnunin hafi ekki fallist á beiðni um viðbótarfrest þegar lögmaður hans hafi óskað eftir slíkum fresti á fyrri stigum málsins. Jafnframt kemur fram að kærandi telji að ágreiningur hluthafa og stjórnarmanna í félagi skuli borinn undir dómstóla eða leyst úr honum með samkomulagi en slíkur ágreiningur megi hins vegar ekki hafa áhrif á veitingu atvinnuleyfa vegna starfa starfsmanna fyrir hlutaðeigandi félag. Auk þess vísar kærandi til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-108/2014 þar sem meðal annars hafi komið fram að mati kæranda að atvinnuleyfi hans skuli framlengt svo lengi sem í gildi sé ráðningarsamningur milli hans og félagsins sem hér um ræðir. Þá hafi verið sýnt fram á með gögnum að rekstur þess félags sem um ræðir hafi gengið vel á árinu 2016.

Með tölvubréfi, dags. 16. mars 2017, ítrekaði kærandi áður framkomin sjónarmið sín í málinu auk þess sem hann vakti athygli á að vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um synjun á framlengingu tímabundins atvinnuleyfis honum til handa vegna áframhaldi starfa hans fyrir það félag sem hér um ræðir hafi móðir hans ekki fengið framlengt dvalarleyfi sínu hér á landi.

Ráðuneytið sendi lögmanni umrædds félags tölvubréf, dags. 29. júní 2017, þar sem óskað var eftir staðfestingu á að félagið stæði að umræddu erindi til ráðuneytisins, dags. 13. október 2016, eða gögnum sem sýndu fram á að það hafi veitt öðrum umboð sitt til að fara með málið fyrir sína hönd. Sama dag bárust ráðuneytinu tvö tölvubréf frá lögmanni félagsins þar sem fram kemur að félagið standi ekki að fyrrnefndu erindi til ráðuneytisins og að lögmaður félagsins hafi einn umboð til að undirrita skjöl fyrir hönd eigenda og hluthafa félagsins. Þá kemur fram að kærandi hafi ekkert með umrætt félag að gera, hann starfi ekki fyrir umrætt félag og verði ekki starfsmaður þess sé litið til framtíðar.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er heimilt að kæra til velferðarráðuneytis ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundins atvinnuleyfis. Í máli því sem hér um ræðir er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2016, um að hafna því að taka til efnislegrar meðferðar umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa kæranda vegna áframhaldandi starfa hans fyrir tiltekið félag. Sótt hafði verið um fyrrnefnt atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga þar sem kveðið er á um skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þess sem því gegnir.

Þar sem um er að ræða ákvörðun Vinnumálastofnunar sem ekki fellur undir fyrrnefnda kæruheimild 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga lítur ráðuneytið svo á að umrædd ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar er kveðið á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga á innlendum vinnumarkaði eru veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum og stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga þeirra. Hefur það ekki þótt brjóta gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar að takmarka með lögum rétt erlendra ríkisborgara til að starfa á innlendum vinnumarkaði enda almennt viðurkennt að ríki hafi heimildir til að takmarka aðgengi útlendinga að lausum störfum á innlendum vinnumörkuðum.

Atvinnurekendum hér á landi eru því takmörk sett með lögum um atvinnuréttindi útlendinga varðandi það frá hvaða ríkjum þeim er heimilt að ráða útlendinga til starfa án tiltekinna atvinnuleyfa til handa hlutaðeigandi útlendingum enda þótt almennt verði að ætla atvinnurekendum ákveðið svigrúm hvað varðar þær kröfur sem þeir gera til þeirra sem þeir ráða til starfa. Verður því ávallt við veitingu tímabundinna atvinnuleyfa á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga, að meta hvort skilyrði laganna séu uppfyllt.

Það mál sem hér um ræðir lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2016, um að hafna því að taka til efnislegrar meðferðar umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa kæranda vegna áframhaldandi starfa hans fyrir tiltekið félag á grundvelli þess að kærandi hafi að mati stofnunarinnar hvorki haft umboð til að undirrita fyrir hönd þess félags sem um ræðir umrædda umsókn né ráðningarsamninginn sem fylgdi með umsókninni. Hafi skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga því ekki verið uppfyllt.

Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga er gert ráð fyrir að atvinnuleyfi séu veitt til handa viðkomandi útlendingi hverju sinni til að gegna tilteknu starfi hjá tilteknum atvinnurekanda. Þannig er í 1. mgr. 19. gr. laganna kveðið á um að atvinnurekandi sem óskar eftir að ráða útlending tímabundið til starfa skuli sækja um tímabundið atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar fyrir hönd útlendingsins. Þá er í ákvæðinu jafnframt gert ráð fyrir að hlutaðeigandi atvinnurekandi undirriti umsókn um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi til handa tilteknum útlendingi. Fram kemur í athugasemdum með 10. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, að gert sé ráð fyrir að atvinnurekandi sem vilji ráða útlending til starfa leggi inn umsókn um tímabundið atvinnuleyfi fyrir hönd útlendingsins. Jafnframt kemur fram að leyfið verði „síðan veitt útlendingnum en skilyrt við starf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda. Útlendingurinn getur því ekki skipt um starf án þess að nýr atvinnurekandi sæki um leyfi fyrir hans hönd. Er lagt til að útlendingurinn undirriti umsóknina ásamt atvinnurekanda.

Í 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga kemur fram að atvinnurekandi sem óskar eftir að framlengja ráðningu útlendings skuli sækja um framlengingu tímabundins atvinnuleyfis fyrir hönd útlendingsins eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra leyfi fellur úr gildi. Jafnframt er tekið fram í ákvæðinu að umsóknin skuli vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og skulu atvinnurekandi og útlendingur undirrita hana. Þá er tekið fram að umsókninni skuli fylgja öll þau gögn og vottorð sem Vinnumálastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að uppfyllt séu þau skilyrði sem lög og reglugerðir kveða á um, þar á meðal skriflegur ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda sem báðir aðilar hafa undirritað.

Að mati ráðuneytisins verður því að ætla að ávallt verði að liggja fyrir vilji hlutaðeigandi atvinnurekanda til að ráða tiltekinn útlending til að gegna tilteknu starfi áður en tímabundið atvinnuleyfi er veitt eða framlengt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga. Í því sambandi þykir jafnframt mikilvægt að umsókn um atvinnuleyfi berist Útlendingastofnun sem og Vinnumálastofnun fyrir tilstilli atvinnurekandans sjálfs og að umsóknin sé undirrituð af atvinnurekandanum sjálfum eða öðrum þeim aðila sem er til þess bær að undirrita slíka umsókn fyrir hönd þess félags sem um ræðir hverju sinni þannig að vilji atvinnurekandans til að ráða útlendinginn til starfa sé skýr, samanber framangreint.

Í því sambandi bendir ráðuneytið jafnframt á að samkvæmt 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundins atvinnuleyfis og skulu þeir báðir undirrita stjórnsýslukæruna. Þeir geta þó veitt öðrum umboð til að fara með málið fyrir sína hönd. Að mati ráðuneytisins má ráða af framangreindu að mikilvægt þyki að ljóst sé hver afstaða hlutaðeigandi atvinnurekanda sé til þess að kæra til ráðuneytisins ákvörðun Vinnumálastofnunar, um synjun eða afturköllun tímabundins atvinnuleyfis eftir því sem við á, þannig að ljóst sé hver afstaða atvinnurekandans er til þess að ráða viðkomandi útlending til að gegna tilteknu starfi komist ráðuneytið að þeirri niðurstöðu við meðferð máls að sú ákvörðun Vinnumálastofnunar sem um ræðir hverju sinni hafi ekki verið lögum samkvæmt.

Ágreiningurinn í máli þessu lýtur að því hvort kærandi hafi verið til þess bær að undirrita fyrir hönd þess félags sem hér um ræðir umsókn um framlengingu tímabundins atvinnuleyfis honum til handa. Umsóknin barst Útlendingastofnun 1. júní 2016 og Vinnumálastofnun 4. ágúst sama ár. Áður, eða í maí 2016, höfðu þær upplýsingar borist til Vinnumálastofnunar frá Útlendingastofnun að kæranda hefði í mars 2016 verið sagt upp störfum hjá félaginu. Við nánari eftirgrennslan fékk stofnunin jafnframt upplýsingar um að ágreiningur væri um skráningu félagsins hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, sem er samheiti yfir þær skrár sem haldnar eru um atvinnurekstur hér á landi, þar með talið hlutafélagaskrá, og að ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um breytingu á skráningu stjórnar og framkvæmdastjóra umrædds félags frá 12. apríl 2016 hefði verið kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Samkvæmt XVII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, skráir ríkisskattstjóri íslensk einkahlutfélög og starfrækir hlutafélagaskrá í því skyni. Í lögunum er að finna nánari reglur um skráningu einkahlutafélaga en þar skulu meðal annars koma fram nöfn stjórnarmanna og varamanna þeirra, framkvæmdastjóra og allra þeirra sem hafa heimild til að rita félagið. Þann 5. október 2016 var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti kveðinn upp úrskurður í fyrrnefndu máli er varðaði skráningu umrædds félags í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra en skráningin hafði varið kærð til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Í úrskurði sínum staðfestir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra frá 12. apríl 2016 en áður hafði ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að réttaráhrifum skráningarinnar yrði ekki frestað þrátt fyrir stjórnsýslukæruna.

Ráða má af gögnum málsins að ágreiningur sé um eignarhald á því félagi sem um ræðir sem og um innri málefni þess en kærandi heldur því fram að fyrrnefndur ágreiningur hafi haft áhrif á meðferð Vinnumálastofnunar í málinu. Að mati ráðuneytisins fellur það hvorki í hlut velferðarráðuneytis né Vinnumálastofnunar að skera úr slíkum ágreiningi enda öðrum stjórnvöldum falið það hlutverk samkvæmt lögum. Í ljósi þess er það mat ráðuneytisins að þegar metið er á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga hverjir eru til þess bærir að koma fram fyrir hönd atvinnurekanda sem sækja um tímabundið atvinnuleyfi vegna fyrirhugaðra starfa útlendinga hér á landi verði að byggja á opinberri skráningu í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Ágreiningur í tengslum við skráningu félaga í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hefur því að mati ráðuneytisins ekki áhrif á meðferð umsókna um veitingu tímabundinna atvinnuleyfa hér á landi að öðru leyti en því að fara verður eftir opinberri skráningu hverju sinni við mat á því hverjir eru til þess bærir að undirrita slíkar umsóknir og koma fram fyrir hönd félaga við meðferð slíkra umsókna hjá stjórnvöldum.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í fyrrnefndum úrskurði, dags. 5. október 2016, verður því í máli þessu byggt á því að 1. júní 2016 hafi skráning félagsins í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra verið með þeim hætti að stjórn félagsins hafi skipað  […] og  […] auk þess sem  […] hafi verið skráður sem varamaður. Enn fremur verður byggt á því að  […] hafi verið skráður sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra frá og með 12. apríl 2016.

Samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög fer félagsstjórn með málefni félagsins og skal hún annast um að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur félagsins og skal hann í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið.

Þannig er það jafnframt mat ráðuneytisins að þegar um er að ræða einkahlutafélög séu það stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar viðkomandi félaga sem eru þess bærir að standa að umsókn um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga fyrir hönd viðkomandi útlendings hverju sinni, svo sem með því að undirrita umsóknina, þannig að ljóst sé að vilji hlutaðeigandi atvinnurekanda standi til þess að ráða þann útlending sem sótt er um leyfi fyrir til að gegna tilteknu starfi. Verður þó að líta svo á að fyrrnefndir aðilar geti veitt öðrum umboð til að undirrita fyrir þeirra hönd umsókn um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi.

Að mati ráðuneytisins liggur fyrir í máli þessu að kærandi hafi hvorki verið skráður sem stjórnarmaður í því félagi sem hér um ræðir né framkvæmdastjóri þess samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra þegar umrædd umsókn um atvinnuleyfi barst Útlendingastofnun 1. júní 2016 sem og Vinnumálastofnun 4. ágúst sama ár. Enn fremur liggur ekki fyrir umboð félagsins þess efnis að kæranda hafi verið heimilt að koma fram fyrir hönd félagsins með þeim hætti sem hann gerði er hann undirritaði umsókn um framlengingu tímabundins atvinnuleyfisins hér á landi honum til handa sem og eigin ráðningarsamning við félagið.

Við meðferð málsins hjá ráðuneytinu lagði kærandi fram nýjan ráðningarsamning hans við félagið með ætlaðri undirritun  […], kt.  […], frá 6. nóvember 2016, sbr. viðbótarprentun á samninginn, en  […] er skráður stjórnarmaður í félaginu samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Ráðuneytið óskaði eftir afstöðu Vinnumálastofnunar vegna þessara viðbótargagna sem leiddi til þess að stofnunin óskaði með bréfi, dags 19. desember 2016, eftir afstöðu félagsins til þeirra. Í kjölfarið mætti  […], skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, fyrir hönd félagsins á fund hjá Vinnumálastofnun í janúar 2017. Á fundinum var farið yfir málið og þar staðfest af  […] að ekki stæði til að ráða kæranda til starfa hjá félaginu, að félagið stæði ekki að umsókninni um framlengingu tímabundins atvinnuleyfis til handa kæranda og hafi umsóknin því verið send til Vinnumálastofnunar án samþykkis félagsins.

Á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga óskaði ráðuneytið við meðferð málsins eftir staðfestingu félagsins á því að það stæði að því erindi til ráðuneytisins sem hér um ræðir og þar með að umræddri umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi til handa kæranda vegna áframhaldandi starfa hans fyrir félagið. Í kjölfarið bárust ráðuneytinu tölvubréf frá lögmanni félagsins, dags. 29. júní 2017, þar sem fram kom að kærandi hefði ekkert með umrætt félag að gera, hann starfaði ekki fyrir umrætt félag og yrði ekki starfsmaður þess væri litið til framtíðar og því stæði félagið ekki að umræddu erindi til ráðuneytisins. Þykir það staðfesta það sem áður hafði komið fram af hálfu skráðs framkvæmdastjóra félagsins samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra,  […], á fundi með Vinnumálastofnun í janúar 2017 um að kærandi starfi ekki lengur fyrir félagið og að ekki standi til að ráða hann til áframhaldandi starfa auk þess sem umrædd umsókn hafi verið send til Vinnumálastofnunar án samþykkis félagsins. Jafnframt þykir það staðfesta að kærandi hafi ekki haft umboð frá félaginu þess efnis að honum hafi verið heimilt að koma fram fyrir hönd félagsins með þeim hætti sem hann gerði er hann undirritaði fyrir hönd félagsins umsókn um framlengingu tímabundins atvinnuleyfis hér á landi honum til handa sem og eigin ráðningarsamning við félagið.

Í þessu sambandi ber jafnframt að taka fram að það fellur hvorki í hlut Vinnumálastofnunar né ráðuneytisins að sýna fram á að gögn sem lögð eru fram í málum séu fölsuð enda öðrum stjórnvöldum falið að rannsaka slík mál á grundvelli laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, með síðari breytingum, en skjalafals getur falið í sér brot á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Í gögnum málsins heldur kærandi því fram að Vinnumálastofnun hafi ekki gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins hjá stofnuninni. Með vísan til þess sem fram kemur í gögnum málsins, meðal annars varðandi málsmeðferð Vinnumálastofnunar, getur ráðuneytið ekki fallist á þær málsástæður kæranda.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki verið til þess bær að standa, meðal annars með undirritun sinni fyrir hönd þess félags sem um ræðir í máli þessu, að umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi hér á landi honum til handa vegna áframhaldandi starfa hans fyrir félagið og að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga séu því ekki uppfyllt í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2016, um að hafna því að taka til efnislegrar meðferðar umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa  […], sem er íranskur ríkisborgari, vegna áframhaldandi starfa hans fyrir Alfacom General Trading ehf., skal standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta