Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 014/2018

Föstudaginn 23. mars 2018 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi 

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til velferðarráðuneytisins, dags. 11. janúar 2018, kærði Menn í vinnu ehf. (áður Verk1 ehf.), kt. 690598-3379, ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. janúar 2018, sbr. einnig bréf stofnunarinnar, dags. 29. nóvember 2017 og 14. desember 2017, um að ákvæði 7. gr. þjónustusamnings kæranda við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, og sé því marklaust.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. janúar 2018, sbr. einnig bréf stofnunarinnar, dags. 29. nóvember 2017 og 14. desember 2017, um að um að ákvæði 7. gr. þjónustusamnings kæranda við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga nr. 139/2005 um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, og sé því marklaust.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins með vísan til 12. gr. laga um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, með síðari breytingum. Auk þess fór kærandi fram á að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, þar til úrskurður ráðuneytisins lægi fyrir í málinu. Að mati kæranda sé um íþyngjandi ákvörðun að ræða og kærandi telji ljóst að ef fyrirmælum Vinnumálastofnunar sé fylgt sé hætta á að kærandi verði fyrir tjóni í þeim tilvikum þegar notendafyrirtæki misnota sér starfsemi kæranda í þeim tilgangi að nýta hana sem ókeypis atvinnumiðlun. Í erindi kæranda kemur fram að kærandi hafi upplýst Vinnumálastofnun um að hann muni ekki beita umræddu samningsákvæði gagnvart notendafyrirtækjum. Jafnframt byggir kærandi á því að ekki sé fyrirsjáanlegt að það hafi neikvæð áhrif þótt réttaráhrifum verði frestað í málinu. Fallist ráðuneytið hins vegar ekki á frestun réttaráhrifa yrði kæranda skylt að breyta formum sínum að þjónustusamningum í samræmi við kröfur Vinnumálastofnunar og gera nýja samninga við notendafyrirtæki. Færi svo að úrskurður ráðuneytisins yrði kæranda í hag þyrfti að taka slíka samninga upp að nýju og færa þá til fyrra horfs. Af slíkri framkvæmd hlytist bæði umstang og kostnaður sem væri til þess fallið að valda kæranda tjóni. Þar fyrir utan væri alls óvíst hvort notendafyrirtæki myndu fallast á að taka samninga upp að nýju. Kærandi gæti því staðið höllum fæti gagnvart samkeppnisaðilum sínum eftirleiðis enda sé kæranda ekki kunnugt um að Vinnumálastofnun hafi krafið aðra á sama markaði um breytingar á formum að þjónustusamningum.

Erindi kæranda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. janúar 2018, og var frestur veittur til 23. janúar sama ár. Undir lok frestsins barst ráðuneytinu bréf frá Vinnumálastofnun þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi leiðrétt umræddan þjónustusamning að beiðni stofnunarinnar. Auk þess hafi kærandi staðfest að ákvæði 7. gr. eldri þjónustusamninga yrði ekki beitt í framkvæmd. Vinnumálastofnun hafi í kjölfarið upplýst að stofnunin hafi fallið frá ákvörðun sinni um beitingu dagsekta.

Í fyrrnefndri umsögn Vinnumálastofnunar kemur fram að skilyrði séu ekki fyrir því að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Heimild 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, með síðari breytingum, sé undantekningarregla sem beri að túlka þröngt. Að mati Vinnumálastofnunar sé hin kærða ákvörðun ekki þess eðlis að tilteknir lögvarðir hagsmunir kæranda fari forgörðum með þeim hætti að efnisúrlausn málsins hafi í framhaldinu enga þýðingu. Þá er á það bent að kærandi hafi þegar orðið við kröfum stofnunarinnar í málinu og hafi stofnunin fallið frá ákvörðun sinni um álagningu dagsekta og liggi því ekki fyrir ákvörðun sem unnt sé að fresta. 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. janúar 2018, var kærandi upplýstur um nýjar upplýsingar frá Vinnumálastofnun og í ljósi þeirra benti ráðuneytið á að kæranda væri heimilt að draga til baka fyrrnefnt erindi til ráðuneytisins, dags. 11. janúar 2018. Fram kemur í bréfinu að óski kærandi eftir að draga til baka fyrrgreint erindi sitt til ráðuneytisins skuli staðfesting þess efnis liggja fyrir eigi síðar en 31. janúar 2018. Þá kemur fram að hafi ráðuneytinu ekki borist slík staðfesting innan frestsins líti ráðuneytið svo á að kærandi óski ekki eftir að draga erindi sitt til baka og muni því ljúka meðferð málsins.

Í bréfi kæranda til ráðuneytisins, dags. 31. janúar 2018, kemur fram að réttaráhrif ákvarðana Vinnumálastofnunar séu ekki eingöngu bundin við ákvörðun um dagsektir. Í ákvörðun Vinnumálastofnunar felist að umrætt ákvæði verði ekki að finna í nýjum samningum kæranda við notendafyrirtæki. Slíkt leiði til þess að kærandi verði fyrir miklu tjóni. Afstaða Vinnumálastofnunar feli í sér afar íþyngjandi ákvörðun og full ástæða sé til að ráðuneytið fallist á frestun réttaráhrifa í málinu þar til niðurstaða fáist um það hvort hið umdeilda ákvæði standist skoðun að mati ráðuneytisins eða ekki. 

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er æðra stjórnvaldi heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar stjórnvaldsákvörðunar, þar sem ástæður mæla með því, á meðan kæra er til meðferðar. Í athugasemdum við 2. mgr. 29. gr. frumvarps þess er síðar varð að stjórnsýslulögum segir meðal annars að líta beri til réttmætra hagsmuna aðila málsins. Einnig kemur fram í fyrrnefndum athugasemdum að sé hin kærða ákvörðun íþyngjandi fyrir aðila máls mæli slíkt almennt með því að heimila frestun réttaráhrifa. Almennt er litið svo á að til að komast að niðurstöðu um hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði ávallt að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem vegast á í hverju máli.

Af gögnum málsins telur ráðuneytið að ekki séu fyrir hendi sérstök sjónarmið sem leiða skuli til þess að undanþága um frestun réttaráhrifa gildi í málinu. Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið að ákvæði 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, með síðari breytingum, verði ekki beitt í máli þessu og fellst því ekki á að réttaráhrifum umræddrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar verði frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins liggur fyrir í málinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 3. janúar 2018, sbr. einnig bréf stofnunarinnar, dags. 29. nóvember 2017 og 14. desember 2017, er lýtur að því að ákvæði 7. gr. þjónustusamninga kæranda við notendafyrirtæki brjóti gegn 7. gr. laga nr. 139/2005 um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, og sé því marklaust, á meðan viðkomandi kæra er til meðferðar hjá ráðuneytinu.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta