Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 023/2014
Þriðjudaginn 23. desember 2014 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dags. 9. júní 2013, til velferðarráðuneytis, kærði […] hrl., fyrir hönd […], kt. […], ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins, dags. 15. mars 2013, um frávísun á kröfu um breytingu eigendaskráningar vinnuvéla með skráningarnúmerin EB 0516 og GB 0078.
Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins, dags. 15. mars 2013, um að vísa frá kröfu kæranda um breytingu á eigendaskráningu vinnuvélanna EB 0516 og GB 0078 til samræmis við dóm héraðsdóms Suðurlands frá 16. janúar 2013 í máli E-277/2011 þar sem afhending þrotabús Slitlags ehf., kt. 511286-1319, á framangreindum vinnuvélum til Efri Ása ehf., kt. 660109-2180, var dæmd ógild. Í ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins kemur fram að stofnunin hafi breytt eigendaskráningu vinnuvélarinnar IS 0091 yfir á þrotabú Slitlags ehf. en hafnað umskráningu vinnuvélanna EB 0516 og GB 0078 þar sem núverandi skráður eigandi þeirra véla, Fjárfestingarfélagið Spotti ehf., kt. 500209-0700, hafi ekki verið aðili að framangreindu dómsmáli. Í ákvörðuninni kemur fram að hlutverk Vinnueftirlits ríkisins sé meðal annars að skrá vinnuvélar í vinnuvélaskrá, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. reglur nr. 388/1989, um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla. Slík skráning fari fram á grundvelli nýskráningar vinnuvéla, skriflegrar, staðlaðrar tilkynningar um eigendaskipti sem undirrituð sé af fyrri og nýjum eiganda vinnuvélarinnar í votta viðurvist eða annarra skýrra eignarheimilda. Hvorki sé mælt fyrir um heimildir Vinnueftirlits ríkisins til að úrskurða um eignarhald vinnuvéla í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, né reglum nr. 388/1989, um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla. Því geti Vinnueftirlit ríkisins ekki tekið efnislega afstöðu til erindis kæranda. Af framangreindum ástæðum var kröfunni vísað frá Vinnueftirliti ríkisins.
Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins með bréfi, dags. 9. júní 2013, þar sem þess er krafist að ákvörðun Vinnueftirlitsins verði felld úr gildi og stofnuninni gert að skrá umræddar vinnuvélar yfir á þrotabú Slitlags ehf. í samræmi við framangreindan dóm héraðsdóms. Bú Slitlags ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 2. desember 2010. Í bréfi kæranda til Vinnueftirlitsins, dags. 4. febrúar 2013, sem fylgdi stjórnsýslukæru kæranda, kemur meðal annars fram að í aðdraganda gjaldþrotaskipta þrotabús Slitlags ehf. hafi fyrirsvarsmenn þrotabús Slitlags ehf., fært vinnuvélarnar IS 0091, EB 0516 og GB 0078 yfir í félagið Efri Ása ehf. án þess að greiðslur hafi komið fyrir en sömu menn séu í fyrirsvari fyrir bæði félögin. Afleiðingar þessara ráðstafana hafi verið þær að kröfuhafar þrotabús Slitlags ehf. hafi ekki fengið greitt upp í kröfur sínar. Stærsti forgangskröfuhafinn, kærandi, hafi því höfðað mál á hendur Efri Ásum ehf., til hagsbóta fyrir þrotabú Slitlags ehf., um ógildingu framangreindra ráðstafana og um afhendingu vinnuvélanna. Málið hafi verið höfðað með birtingu stefnu þann 18. ágúst 2011 og þingfest í héraðsdómi Suðurlands þann 21. september 2011. Jafnframt kemur fram að bú Efri Ása ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 28. september 2012. Áður en til gjaldþrotaskipta kom hafi þrotabú Efri Ása ehf. ráðstafað framangreindum vinnuvélum til tveggja annarra fyrirtækja, Flutninga og jarðvinnu ehf. og Fjárfestingafélagsins Spotta ehf., án þess að greiðslur kæmu fyrir. Enn fremur kemur fram að skiptastjóri þrotabús Efri Ása ehf. hafi ákveðið að halda ekki uppi vörnum fyrir þrotabúið og dómur hafi verið kveðinn upp í málinu þann 16. janúar 2013. Samkvæmt dómnum hafi framangreindar ráðstafanir verið dæmdar ógildar og þrotabúi Efri Ása ehf. verið gert að afhenda þrotabúi Slitlags ehf. framangreindar vinnuvélar. Þá kemur fram að skiptastjóri þrotabús Efri Ása ehf. uni dómnum og muni ekki áfrýja honum til Hæstaréttar.
Í umræddu bréfi kæranda kemur loks fram að skv. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem að lögum koma í þeirra stað um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Enn fremur sé mælt fyrir um í 23. gr. sömu laga að afhendi varnaraðili hlut eða réttindi, sem hann er sóttur til að láta af hendi eftir að mál er höfðað, megi sóknaraðili allt að einu halda málinu áfram gegn upphaflegum varnaraðila. Verði sá sem leiðir rétt sinn frá varnaraðila þá bundinn af dómi í málinu nema hann hafi eignast hlut eða réttindi með þeim hætti að réttur annarra glatist gagnvart honum. Þá er í bréfinu farið fram á að á grundvelli dómsins verði eigendaskráningu framangreindra vinnuvéla breytt þannig að þrotabú Slitlags ehf. verði skráð sem eigandi þeirra.
Erindi kæranda var sent Vinnueftirliti ríkisins til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. júlí 2013, og var frestur til að veita umsögn veittur til 12. ágúst sama ár. Í umsögn Vinnueftirlitsins, dags. 8. ágúst 2013, kemur fram að vinnuvélin EB 0516 hafi verið skráð á Slitlag ehf. þann 3. desember 2001 en 5. ágúst 2009 hafi Efri Ásar ehf. verið skráð sem nýr eigandi vélarinnar. Þann 19. júní 2012 hafi vélin síðan verið skráð á núverandi skráðan eiganda, Fjárfestingarfélagið Spotta ehf., en 17. desember 2012 hafi vélin verið tímabundið afskráð. Enn fremur kemur fram að vinnuvélin GB 078 hafi verið skráð á Slitlag ehf. þann 18. ágúst 1997. Efri Ásar ehf. hafi verið skráð sem nýr eigandi 5. ágúst 2009 en svo hafi vélin verið skráð á núverandi skráðan eiganda, Fjárfestingarfélagið Spotta ehf., 19. júní 2012. Þann 17. desember 2012 hafi vélin verið tímabundið afskráð. Þá kemur fram í umsögninni að Vinnueftirlit ríkisins telji sig ekki hafa heimild samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða reglum um skráningu og skoðun vinnuvéla til að skrá eignarhald vinnuvéla í vinnuvélaskrá nema á grundvelli skýrra eignarheimilda. Vinnueftirlitið telji framangreindan dóm héraðsdóms Suðurlands ekki vera fullnægjandi heimild um eignarhald þrotabús Slitlags ehf. á umræddum vinnuvélum. Enn fremur telji Vinnueftirlitið sig ekki hafa lagaheimild til að taka afstöðu til eignarhalds vinnuvélanna á grundvelli framangreindra ákvæða laga um meðferð einkamála.
Með bréfi, dags. 1. ágúst 2013, sem sent var velferðarráðuneytinu til upplýsingar, tilkynnti Vinnueftirlitið Fjárfestingarfélagið Spotta ehf. um ákvörðun stofnunarinnar um að vísa frá kröfu kæranda um breytingu á skráningu eignarhalds á vinnuvélunum EB 0516 og GB 0078. Í bréfinu kemur jafnframt fram að þar sem kæran leiði til óvissu um eignarhald á umræddum vinnuvélum sé ekki unnt að breyta skráningu eignarhalds vélanna þar til að ráðuneytið hafi úrskurðað í málinu.
Í umsögn Vinnueftirlitsins er að öðru leyti vísað til framlagðra gagna kæranda en að auki lagði Vinnueftirlitið fram bréf frá Fjárfestingarfélaginu Spotta ehf., ódags. en móttekið þann 13. mars 2013, þar sem kröfu kæranda er harðlega mótmælt. Í bréfinu kemur fram að Fjárfestingarfélagið Spotti ehf. hafi keypt vinnuvélar með skráningarnúmeri EB 0516 og GB 0078 af Efri Ásum ehf. og greitt fyrir þau umsamið verð. Hugsanlegt deilumál Efri Ása ehf. og annarra aðila komi félaginu ekki við og geti í engu breytt eignarhaldi umræddra vinnuvéla. Þá kemur fram að lögmaður kæranda hafi gert sams konar kröfur um breytingu á skráningu hjá Umferðarstofu vegna tækja sem félagið hafi keypt af Efri Ásum ehf. Kröfunum hafi verið hafnað enda sé ekki unnt að svipta félagið eignum sem það er löglega komið að. Auk þess hafi Umferðarstofa og Vinnueftirlitið ekki heimildir til slíkra ráðstafana að lögum og án undangengins dóms á hendur Fjárfestingarfélaginu Spotta ehf. Því eigi að vísa slíkum erindum frá.
Með bréfi, dags. 13. ágúst 2013, sem var ítrekað með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Vinnueftirlitsins. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, þar sem fram kemur að vísað sé til fyrri bréfaskrifta til ráðuneytisins og Vinnueftirlitsins og ítrekað að dómur héraðsdóms Suðurlands frá 16. janúar 2012 í máli nr. 277/2011 sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað. Þá kemur fram að núverandi eigendur, sem séu aðilar sem komu í stað aðila dómsmálsins, séu bundnir af dómnum og beri að skila umræddum vinnuvélum til réttra aðila, þrotabús Slitlags ehf., líkt og fram kemur í dómsorði.
Niðurstaða.
Samkvæmt 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, er heimilt að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli sömu laga til velferðarráðuneytisins.
Með lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er leitast við að „tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu“, sbr. 1. gr. laganna. Enn fremur er tekið fram að tryggja skuli „skilyrði fyrir því, að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál“, sbr. sama ákvæði. Lögin gilda um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn en þó eru siglingar, fiskveiðar og loftferðir undanskildar gildissviði laganna, sbr. 2. gr. laganna.
Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum fjalla sérstaklega um skráningu og skoðun vinnuvéla en samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laganna skal skrá og skoða hvers konar vélar, tæki og búnað, sem getið er um í 46. gr. sömu laga, nema bifreiðar og vélar, sem lúta öðrum lögum, samkvæmt nánari fyrirmælum í reglum, sem ráðherra setur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, og í samráði við forstjóra. Í athugasemdum við 49. gr. frumvarps þess er varð að lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kemur ekki fram hver sé tilgangur skráningar vinnuvéla hjá Vinnueftirliti ríkisins heldur er eingöngu fjallað um tíðni skoðana stofnunarinnar á vinnuvélum. Fram kemur að fyrri reglur hafi um of bundið hendur Öryggiseftirlits ríkisins, sem var forveri Vinnueftirlitsins, þar sem tíðni skoðana var fastbundin minnst einu sinni á ári samkvæmt eldri reglum. Hafi því ekki verið fyrir hendi nægjanlegt svigrúm til að líta til mismunandi þarfa í þeim efnum. Gerði frumvarpið því ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins hefði um það frjálsari hendur að setja reglur í samræmi við raunverulegar þarfir, auk þess sem gert var ráð fyrir mun víðtækara starfssviði þess, svo sem varðandi farandvélar, farandvinnuvélar og búvélar. Að mati ráðuneytisins verður því að ætla að megintilgangur skráningar véla, tækja og búnaðar hjá Vinnueftirliti ríkisins sé að tryggja að unnt sé að hafa með þeim eftirlit og stuðla þannig að öryggi á þeim vinnustöðum þar sem slík tæki eru notuð í samræmi við markmið laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Er skráning hvers konar véla, tækja og búnaðar þannig forsenda þess að unnt sé að hafa eftirlit með þeim í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og framfylgja reglum sem gilda um skoðun Vinnueftirlits ríkisins á þeim.
Ráðherra hefur nýtt sér heimild 1. mgr. 49. gr. laganna um að setja nánari reglur um skráningu og skoðun véla, tækja og búnaðar, sbr. reglur nr. 388/1989, um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla. Í 8. gr. reglnanna er mælt fyrir um að verði eigendaskipti að skráðri farandvinnuvél eða vinnuvél skuli bæði hinn fyrri og hinn nýi eigandi tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins. Í 1. mgr. 9. gr. reglnanna er kveðið á um að farandvinnuvélar og vinnuvélar skuli skoða árlega. Auk þess skuli þær skoðaðar fyrir og eftir verulegar viðgerðir og breytingar á burðarvirkjum. Í 5. mgr. 9. gr. reglnanna kemur fram að heimilt sé að afskrá vinnuvél tímabundið sé hún ekki í notkun um lengri tíma.
Í máli þessu liggur fyrir að vinnuvél með skráningarnúmer EB 0516 var skráð á Slitlag ehf. 3. desember 2001. Efri Ásar ehf. var skráð sem nýr eigandi vélarinnar 5. ágúst 2009 en 19. júní 2012 var vélin skráð á Fjárfestingarfélagið Spotta ehf. Vinnuvélin var tímabundið afskráð þann 17. desember 2012. Vinnuvél með skráningarnúmer GB 0078 var skráð á Slitlag ehf. 18. ágúst 1997. Efri Ásar ehf. var skráð sem nýr eigandi vélarinnar 5. ágúst 2009 en 19. júní 2012 var vélin skráð á Fjárfestingarfélagið Spotta ehf. Vinnuvélin var tímabundið afskráð þann 17. desember 2012. Þannig er ljóst að frá 19. júní 2012 hefur Fjárfestingafélagið Spotti ehf. verið skráður eigandi beggja vinnuvélanna hjá Vinnueftirliti ríkisins.
Enn fremur liggur fyrir dómur héraðsdóms Suðurlands frá 16. janúar 2013 í máli nr. 277/2011 þar sem meðal annars kemur fram að ráðstafanir þrotabús Slitlags ehf. á tveimur vinnuvélum, með skráningarnúmerin EB 0516 og GB 0078, til Efri Ása ehf. séu ógildar og þeim beri að skila til þrotabúsins. Dómsmálið var höfðað gegn Efri Ásum ehf. í ágúst 2011 en áður en dómur var kveðinn upp í málinu var umræddum vinnuvélum ráðstafað til Fjárfestingafélagsins Spotta ehf. og bú Efri Ása ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í september 2012. Kærandi byggir jafnframt á því að það leiði af 23. og 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að Fjárfestingarfélagið Spotti ehf. sé bundinn af framangreindum dómi og því beri félaginu að afhenda vélarnar þrotabúi Slitlags ehf. Á þeim grundvelli fer kærandi fram á að velferðarráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um að vísa frá kröfu kæranda um breytingu á eigendaskráningu og stofnuninni verði gert að skrá þrotabú Slitlags ehf. sem eiganda umræddra vinnuvéla.
Samkvæmt 8. gr. reglna um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla skal tilkynna um breytingar á eignarhaldi vinnuvélar með skriflegri tilkynningu sem bæði fyrri eigandi og nýr eigandi undirrita. Þannig er miðað við að fyrir liggi staðfesting hins fyrri eiganda ásamt nýjum eiganda á því að viðkomandi vinnuvél hafi skipt um eigendur og þar með báðir samþykkir þeirri tilhögun áður en til breytingar á eigendaskráningu kemur af hálfu Vinnueftirlits ríkisins. Að mati ráðuneytisins er það því skilyrði breytinga á eigendaskráningu vinnuvéla hjá Vinnueftirliti ríkisins að eignarhald þeirra sé óumdeilt.
Þegar Vinnueftirliti ríkisins barst í máli þessu krafa um breytingu á eigendaskráningu umræddra vinnuvéla. sendi stofnunin erindið til Fjárfestingarfélagsins Spotta ehf. í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem félagið var skráður eigandi vélanna og samþykki forsvarmanna þess nauðsynlegt skilyrði þess að breyting á eigendaskráningu gæti farið fram á grundvelli 1. mgr. 49. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr einnig 8. gr. reglna um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla. Fjárfestingarfélagið Spotti ehf. mótmælti hins vegar þeirri staðhæfingu kæranda að þrotabú Slitlags ehf. væri réttur eigandi vinnuvélanna á grundvelli framangreinds dóms og kvað Vinnueftirlit ríkisins ekki hafa heimild til að breyta eigendaskráningu að lögum og án undangengins dóms á hendur félaginu. Þar af leiðandi liggur fyrir að ágreiningur er milli aðila um eignarhald á umræddum vinnuvélum og fullnægjandi tilkynning um breytingar á eignarhaldi liggur því ekki fyrir.
Að mati ráðuneytisins verður að gera þá kröfu að sé stjórnvöldum ætlað það hlutverk að skera úr um réttmæti eignarheimilda á lausafé verði að kveða á um slíkar heimildir með skýrum hætti í settum lögum, sbr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Hins vegar verður það hvorki ráðið af 1. mgr. 49. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum né ákvæðum reglna um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla að Vinnueftirlit ríkisins hafi til þess heimildir að breyta eigendaskráningu vinnuvéla þegar ágreiningur er um eignarhald á vélum eða það liggur að öðru leyti ekki ljóst fyrir. Í máli þessu liggur fyrir að skráður eigandi umræddra vinnuvéla var ekki aðili að framangreindu dómsmáli sem kærandi vísar til í máli þessu og þykir það að mati ráðuneytisins leiða af framangreindu að Vinnueftirlit ríkisins er ekki til þess bær aðili að skera úr um eignarhald umræddra vinnuvéla með vísan til 23. og 116. gr. laga um meðferð einkamála. Að sama skapi skortir velferðarráðuneytið heimild að lögum til að skera úr um hvort Fjárfestingarfélagið Spotti ehf. sé bundið af dómi héraðsdóms Suðurlands á grundvelli tilvitnaðra ákvæða laga um meðferð einkamála eða hvort þrotabú Slitlags ehf. geti á annan hátt talist réttmætur eigandi umræddra vinnuvéla. Verður ekki annað ráðið en að leita verði með það ágreiningsefni til almennra dómstóla.
Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að Vinnueftirliti ríkisins hafi borið að vísa frá beiðni kæranda um breytingu eigendaskráningu umræddra vinnuvéla þar sem ágreiningur er um eignarhald þeirra.
Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna anna í ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins, dags. 15. mars 2013, um frávísun á kröfu […], kt. […], um breytingu eigendaskráningar vinnuvéla með skráningarnúmerin EB 0516 og GB 0078 er staðfest.