Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Málsmeðferð Landlæknisembættisins kærð

Mánudaginn 8. ágúst 2011 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

                               

Með bréfi dags. 28. janúar 2011 kærði, A (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins málsmeðferð Landlæknisembættisins vegna kvörtunar kæranda dags. 18. desember 2008, vegna meintra mistaka í tengslum við aðgerð á B sem kærandi gekkst undir þann 17. janúar 2005. Gögn vegna framangreindrar kæru bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 26. apríl 2011.

 

Kröfur.

Kærandi kvartar yfir því að landlæknir sé ófús að viðurkenna að athugasemdir kæranda séu varðandi málsmeðferð embættisins, en ekki ósætti vegna efnislegrar niðurstöðu vegna kvörtunar sinnar dags. 18. desember 2009, sem varða meint mistök í tengslum við aðgerð á B.  Gerð er krafa um að ráðuneytið skoði mál kæranda þar sem landlæknir hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Í andsvari kæranda dags. 16. júní 2011 er framangreind krafa ítrekuð þar sem „Landlæknisembættið hafi ekki fullnægt málsmeðferðarskyldu sinni, viðeigandi gagna verið aflað og málið tekið aftur upp hjá Landlæknisembættinu.“

 

Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði með bréfi dags. 28. apríl 2011 eftir greinargerð landlæknis og gögnum vegna kærunnar.  Greinargerð barst með bréfi dags. 17. maí 2011. Greinargerð landlæknis ásamt gögnum var send kæranda með bréfi dags. 30. maí 2011 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan þriggja vikna. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 16. júní 2011.  Landlækni var með bréfi dags.  23. júní 2011 sendar athugsemdir kæranda og óskað eftir athugasemdum embættisins innan þriggja vikna.  Með bréfi dags. 5. júlí 2011 tilkynnti landlæknir að hann myndi ekki skila frekari athugasemdum eða gögnum í málinu.

 

Málavextir.

Þann 28. desember 2009 kærði kærandi til heilbrigðisráðuneytisins málsmeðferð landlæknis vegna sama máls og hér er til meðferðar.  Ráðuneytið kvað upp úrskurð í því máli þann 9. júlí 2010.  Í þeim úrskurði  var kröfu kæranda um viðurkenningu á að mistök hafi orðið í tengslum við aðgerð á B sem kærandi gekkst undir þann 17. janúar 2005 og borið skaða af, vísað frá, þar sem ráðuneytið hefur ekki lagaheimildir til að fjalla efnislega um kvartanir.  Málinu var að öðru leyti vísað aftur til landlæknis til útgáfu á rökstuddu nýju áliti í samræmi við formkröfur stjórnsýslulaga og laga um landlækni.

Þann 29. október 2010 gaf landlæknir út nýja álitsgerð í máli kæranda þar sem tekið var tillit til athugasemda sem fram komu í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins, dags. 9. júlí 2010.

 

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru til ráðuneytisins dags. 28. janúar 2011, nánari rökstuðningi og gögnum með kæru dags.  26. apríl 2011 og andmælum dags. 16. júní 2011, óskar kærandi  eftir því að ákvörðun landlæknis verði ógild og að ráðuneytið leggi fyrir Landlæknisembættið að rannsaka málið frekar. Telur kærandi að  landlæknir sé ófús að viðurkenna að athugasemdir kæranda séu varðandi málsmeðferð embættisins, en ekki ósætti vegna efnislegrar niðurstöðu vegna kvörtunar sinnar dags. 18. desember 2009. Telur kærandi að Landlæknisembættið hafi ekki aflað nægilegra gagna til að úrskurða í málinu.

 

Málsástæður og lagarök landlæknis.

Í bréfi landlæknis dags. 17. maí 2011, kemur fram að í kjölfar úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins, dags. 9. júlí 2010, þar sem málinu var heimvísað vegna formgalla við álitsgerð, hafi ný álitsgerð Landlæknisembættisins,  dags. 9. júlí 2010, verið send kæranda. Í hinu nýja álit hafi Landlæknisembættið bætt úr þeim ágöllum sem tilgreindir hafi verið í úrskurði ráðuneytisins frá 9. júlí 2010.

 

Niðurstaða ráðuneytisins.

Stjórnsýslukæra í máli þessu barst velferðarráðuneytinu þann 28. janúar 2011. 

Kæran lýtur að  málsmeðferð landlæknis vegna  kvörtunar til embættisins dags. 18. desember 2008.  Kvörtunin beinist að störfum C lækni, vegna meintra mistaka í tengslum við aðgerð á B sem kærandi gekkst undir þann 17. janúar 2005.

Í kærunni kemur fram að kærandi telur landlækni ekki hafa haft nægileg gögn né rök til að úrskurða í málinu.

Þar sem ráðuneytið hefur þegar úrskurðað um málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar kæranda  dags. 18. desember 2008, og engin ný gögn hafa verið lögð fram sem gefa tilefni til endurupptöku, er hér einungis horft til þeirrar málsmeðferðar sem átt hefur sér stað eftir úrskurð ráðuneytisins dags. 9. júlí 2010.  Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og segir í 5. og 6. mgr.:

„Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda  að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.“

Sé málsmeðferð kærð skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni, skal  ráðuneytið taka til skoðunar málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum þ.e. hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt að reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð máls. Ráðuneytið hefur ekki heimild til að fjalla efnislega um kvörtunina. Kærandi krefst  þess að ráðuneytið endurskoði mál kæranda þar sem landlæknir hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Að mati ráðuneytisins telst rétt málsmeðferð sú málsmeðferð sem uppfyllir skilyrði 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og stjórnsýslulaga eftir því sem við á.

Í úrskurði ráðuneytisins dags. 9. júlí 2010 kemur fram að ráðuneytið telur að landlæknir hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni og að rannsókn málsins hafi verið í samræmi við 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og ákvæði rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið telur eins og áður segir ekki ástæðu til að endurupptaka fyrri úrskurð ráðuneytisins og vísar því til hans varðandi þá málsástæðu kæranda að landlæknir hafi ekki haft nægileg gögn né rök til þess að hafa getað úrskurðað í málinu. 

Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 9. júlí 2010, var málinu vísað til landlæknis á ný til útgáfu á rökstuddu áliti í samræmi við formkröfur laga um landlækni og stjórnsýslulaga.  Landlæknir gaf út nýja álitsgerð þann 29. október 2010 þar sem embættið fylgdi eftir því sem fram kom í úrskurði ráðuneytisins dags. 9. júlí 2010. 

Í ljósi framanritaðs telur ráðuneytið, eins og máli þessu er háttað, ekki tilefni til að vísa málinu til baka til nýrrar málsmeðferðar. Að mati ráðuneytisins eru formkröfur hinnar nýju álitsgerðar uppfylltar og staðfestir ráðuneytið því málsmeðferð Landlæknisembættisins.  

          

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málsmeðferð landlæknis er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta