Krafa um að álitsgerð landlæknis verði felld úr gildi
Ú R S K U R Ð U R
Með bréfi dags. 28. mars 2011, kærði A hrl. f.h. B (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins málsmeðferð embættis landlæknis á kvörtunarmáli hans vegna læknismeðferðar sem kærandi hlaut þann 12. mars 2010.
Kröfur
Kærandi krefst þess að álitsgerð embættis landlæknis dags. 12. janúar 2011 verði felld úr gildi og málinu vísað til landlæknis á ný til frekari meðferðar, og að landlæknir sinni rannsóknarskyldu sinni.
Málsmeðferð ráðuneytisins
Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 5. apríl 2011, eftir umsögn embættis landlæknis ásamt öllum gögnum er málið kynni að varða. Landlæknir sendi ráðuneytinu umsögn með bréfi, dags. 13. apríl 2011 ásamt gögnum. Ráðuneytið sendi kæranda með bréfi dags. 18. apríl 2011, bréf landlæknis, dags. 13. apríl 2011 ásamt gögnum og gaf honum kost á að koma að athugasemdum innan þriggja vikna. Engar athugasemdir bárust og var kæranda því sent bréf dags. 5. júlí 2011 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort vænta mætti að gerðar yrðu athugsemdir varðandi umsögn landlæknis dags. 13. apríl 2011. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir 2. ágúst 2011, en að þeim tíma liðnum yrði úrskurðað í málinu. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málavextir
Kærandi kvartaði til landlæknis með bréfi, dags. 6. júlí 2010, þar sem kærandi telur að læknamistök hafi átt sér stað þegar kærandi leitaði á bráða- og slysadeild Landspítala þann 12. mars 2010. Kærandi telur sig ekki hafa fengið rétta meðhöndlun, en gera hefði átt á kæranda aðgerð „sem kæmu rifbeinum hennar í viðunandi ástand, þannig að þau héldu innyflum hennar á þeim stað sem innyfli eigi að vera“.
Kærandi fór fram á að málið yrði rannsakað af landlækni og að kærandi yrði skoðuð af læknum embættisins.
Landlæknir óskaði eftir gögnum og greinargerð frá Landspítala með bréfi dags. 19. júlí 2010. Bréf Landspítala dags. 16. september 2010 barst landlækni ásamt greinargerð C yfirlæknis, dags. 26. september 2010 og afriti af sjúkraskrárgögnum.
Landlæknir sendi með bréfi dags. 21. október 2010 gögn málsins til kæranda og óskaði eftir rökstuðningi fyrir meinta vanrækslu eða mistök. Í svarbréfi kæranda dags. 1. nóvember 2010 kom m.a. fram að kærandi telur sig ekki hafa verið rannsakaða nægilega vel. Stór hluti líffæra í kvið hafi þrengst út hægra megin og „minnir útlit [...] á fílamanninn“. Kærandi hafi „afmyndast þannig að hryllilegt sé að horfa“.
Vegna framangreindrar lýsingar var kærandi boðuð þann 8. desember 2010 til skoðunar á Heilsugæsluna á D og skoðuð af E, lækni. Viðstaddir voru F og G. Í greinargerð læknisins dags. 20. desember 2010 segir m.a. að kærandi hafi oft komið á Landspítala fyrri hluta árs 2010. Rakin er sjúkdómssagan svo og rannsóknir. Við skoðun þann 8. desember 2010 „hafi ekkert markvert komið í ljós utan tvö stór ör á kvið, eitt eftir gamla aðgerð og eitt eftir aðgerð sem gerð var sl. haust til að lagfæra kviðslit. Þá kemur fram í greinargerð heilsugæslulæknis að með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og eftir að hafa tekið sögu og skoðað sjúkling, þá sé það hans álit að Landspítalinn „hafi gert sitt til að greina sjúkling og ekki hafi verið ástæða til frekari rannsókna á sjúklingi á þessum tímapunkti.“ Niðurstaða E, var því sú að sjúklingur hafi verið rétt greindur og ekki komið til greina að gera aðgerð vegna rifbeinsbrots þann 12. mars 2010.
Málsástæður og lagarök kæranda
Í kæru dags. 28. mars 2011 kemur fram krafa um að álit landlæknis verið fellt úr gildi og að embætti landlæknis verði á nýjan leik gert að rannsaka mál kæranda.
Í kærunni er vísað til kvörtunar kæranda til landlæknis dags. 6. júlí 2010 varðandi atvik. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi komið á bráða- og slysadeild þann 12. mars 2010 vegna brotinna rifbeina. Kærandi hafi haft áverka á svipuðum stað vegna fyrri rifbeinsbrota og vegna gallblöðrutöku. Kærandi telur sig ekki hafa fengið rétta meðhöndlun á Landspítalanum þann 12. mars 2010 og „nú sé svo komið að innyfli hennar hangi öll út á hlið og engin rifbein séu fyrir hendi til að halda innyflunum á sínum stað.“ Kærandi telji „að gera hefði átt á henni aðgerð sem kæm[i] rifbeinum hennar í viðunandi ástand, þannig að þau héldu innyflum hennar á þeim stað sem innyfli eigi að vera.“
Í kæru til ráðuneytisins kemur fram að samkvæmt sjúkraskrá sem fylgdi kvörtun til landlæknis hafi kærandi leitað til bráða- og slysadeildar Landspítalans tvisvar þann 12. mars 2010, síðan aftur tvisvar þann 17. apríl 2010. Samkvæmt sjúkrasskrám hafi ekkert verið gert í lækningaskyni, en við seinni komu þann 17. apríl sé skráð: ... Í samráði við H vakthafandi kirug er þetta ekki skurðtækt.“
Þá kemur fram í kæru að ástand kæranda á þessum tíma hafi verið þannig að hún „virtist bera þungan poka á hlið sér.“
Kærandi leitaði aftur til bráða- og slysadeildar Landspítalans þann 17. maí 2010, en í sjúkraskrá segir m.a.: „vökvasöfnun í hægri síðu eftir rifbrot. Vaxandi fyrirferð og er nú farið að valda bakverkjum og skekkju á hrygg.“
Í kærunni segir ennfremur að framangreind atvik séu ekki rakin í áliti landlæknis og það metið hvort sú læknisþjónusta sem kærandi hlaut hafi verið í samræmi við ákvæði 3. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.
Kærandi gekkst síðan undir aðgerð í júlí 2010, þar sem í ljós hafi komið að drep hafi verið í smágirni og bilun í kviðvegg. Ekkert sé um þetta í áliti landlæknis. Því sé ekki svarað í áliti landlæknis að kviðveggurinn gaf sig eða hvort ástæða hafi verið til „læknisaðgerðar“fyrr né hvaða afleiðingar þetta hafi haft í för með sér fyrir kæranda.
Kærandi telur að málið hafi ekki verið rannsakað til hlítar. Í áliti landlæknis sé eingöngu stuðst við skýrslu læknis á Landspítala og rannsókn heimilislæknis, sem ekki hafi þekkingu á þeim áverkum sem kærandi hlaut vegna þeirrar læknisþjónustu sem kvartað var yfir. Landlæknir hafi að mati kæranda ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni.
Að lokum áskilur kærandi sér rétt til að skila greinargerð til ráðherra í málinu.
Málsástæður og lagarök landlæknis
Landlæknir lauk málinu með áliti dags. 12. janúar 2011 með þeirri niðurstöðu að ekki verði séð að um vanrækslu eða mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið að ræða í máli kæranda.
Í umsögn landlæknis til velferðarráðuneytisins, dags. 13. apríl 2011, kemur m.a. fram að landlækni sé ekki ljóst hvað í málsmeðferð embættis landlæknis verið sé að kæra, þar sem í bréfi kæranda séu fyrst og fremst tilvitnanir úr sjúkraskrám, en ekki tiltekið hvað í málsmeðferð landlæknis sé ábótavant.
Niðurstaða ráðuneytisins
Kæran lýtur að málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar til embættisins, dags. 6. júlí 2010. Kvörtunin beindist að því að kærandi telur landlækni ekki hafa fullnægt rannsóknarskyldu sinni.
Í kæru er gerð krafa um að ráðuneytið hnekki áliti landlæknis og að málinu verði vísað til landlæknis á ný til frekari meðferðar þar sem landlæknir hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni til fullnustu.
Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni, og segir þar í 2. mgr.:
„Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.“
Í 5.- 6. mgr. sömu greinar segir:
„Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.
Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.“
Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum um landlækni og gætt reglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins, en ráðuneytið hefur ekki heimild til að fjalla efnislega um kvörtunina. Að mati ráðuneytisins telst rétt málsmeðferð sú málsmeðferð sem uppyllir skilyrði 5. mgr. 12. laga um landlækni og stjórnsýslulaga eftir því sem við á.
Ráðuneytið hefur farið yfir málsmeðferð landlæknis og öll fyrirliggjandi gögn málsins. Samkvæmt kvörtun til embættis landlæknis dags. 6. júlí 2010 og kæru til ráðuneytisins dags. 28. mars 2011 á áliti landlæknis dags. 12. janúar 2011, varðar málið læknamistök sem kærandi telur að átt hafi sér stað við móttöku á bráða- og slysadeild Landspítala þann 12. mars 2010.
Landlæknir aflaði gagna, og boðaði kæranda til skoðunar á Heilsugæslu D. Kærandi var skoðuð af E lækni. Landlæknir fór yfir fyrirliggjandi málsgögn og gaf að lokum út álitsgerð embættisins í máli kæranda þar sem aðalniðurstaða er dregin saman í lok álits. Að auki kemur fram í álitsgerðinni að málsmeðferð landlæknis sé kæranleg til ráðherra skv. 6. mgr.12. gr. laga um landlækni og upplýsingar gefnar um kærufrest.
Það er álit ráðuneytisins að landlæknir hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni og að rannsókn málsins hafi verið í samræmi við 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og ákvæði rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að afla nauðsynlegra málsgagna og boða kæranda til skoðunar hjá óháðum sérfræðingi þannig að mál væri nægilega upplýst. Kröfu kæranda um að álit landlæknis, dags. 12. janúar 2011, verði fellt úr gildi og málinu vísað til landlæknis á ný til frekari meðferðar er því hafnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu kæranda um að álit landlæknis, dags. 12. janúar 2011, verði fellt úr gildi og málinu vísað til landlæknis á ný til frekari meðferðar er hafnað.