Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði frestað 

Þriðjudaginn 8. nóvember 2011 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dags. 7. október 2011, sem barst ráðuneytinu með tölvupósti sama dag, kærði A,  (hér eftir nefndur kærandi) til velferðarráðuneytisins afturköllun embættis landlæknis dags. 27. september 2011 á sérfræðileyfi í B sem útgefið var þann  21. janúar 2011.

 

Kröfur

Í kæru dags. 7. október 2011 vegna afturköllunar landlæknis dags. 27. september 2011 á sérfræðileyfi til handa kæranda er einnig krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar um afturköllun embættis landlæknis á starfsleyfi til handa kæranda útgefnu þann 21. janúar 2011 verði frestað þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir.  Er sá hluti málsins einungis til umfjöllunar hér.

 

Málsmeðferð ráðuneytisins

Kæran var send embætti landlæknis til umsagnar með bréfi dags 10. október 2011, með afriti til kæranda. Svar landlæknis er lýtur að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, barst ráðuneytinu með bréfi dags. 13. október 2011. Bréf landlæknis var sent kæranda með bréfi dags. 14. október 2011. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málavextir

Málavextir eru hér einungis raktir eins og þeir koma fram í kæru og einungis að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar um þá ósk kæranda að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Í kæru segir m.a.:

„Mér barst fyrir nokkrum dögum bréf frá landlækni þar sem hann afturkallar sérfræðileyfi sem hann gaf út mér til handa fyrr á þessu ári í B.  Eins og gögn málsins bera með sér mælti sérfræðinefnd ekki með því að ég fengi sérfræðileyfið með þeim rökum að sérnámi [sic] mitt hafi verið stundað á Íslandi.  Þrátt fyrir umsögn sérfræðinefndar veitti embætti landlæknis mér leyfið.  Eru það mistök embættisins, sem ég á enga sök á og ég tel að ég eigi ekki að vera látinn gjalda fyrir.  Þá tel ég að rök sérfræðinefndarinnar standist ekki þannig að ef málið hefði verið rétt afgreitt hefði ég engu að síður fengið sérfræðileyfið.  Um þetta mun ég fjalla nánar í rökstuðningi mínum fyrir kærunni sem ég mun senda ráðuneytinu fljótlega.“

Þar sem  í úrskurði þessum verður ekki tekin afstaða til kæru á afturköllun starfsleyfis til handa kæranda heldur eingöngu fjallað um hvort fresta beri réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar landlæknis, verða málsatvik ekki rakin frekar. 

 

Málsástæður og lagarök kæranda vegna kröfu um frestun réttaráhrifa

Kærandi færir í kæru fram m.a. þau rök fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa að vegna mistaka embættis landlæknis, sem hann eigi enga sök á, sé hann látinn gjalda  fyrir það með afturköllun sérfræðileyfis sem hann hlaut þann 21. janúar 2011. 

Kærandi telur rétt að benda á að áður en hann hlaut sérfræðileyfi í B hafi hann gengið sérfræðingsvaktir frá því í október 2010.  Það sé því enginn sem dragi í efa hæfni hans til að starfa sem sérfræðingur, þó sérfræðinám kæranda hafi eingöngu verið stundað hér á landi.  Það er skoðun kæranda að umsögn sérfræðinefndarinnar byggi á formi en ekki efni.

Kærandi telur að rök  sérfræðinefndarinnar standist ekki.  Hefði málið verið rétt afgreitt hefði kærandi engu að síður fengið sérfræðileyfi. Um verulega íþyngjandi ákvörðun sé að ræða að svipta hann starfsleyfi sem  hann hefur starfað eftir í tæpt ár.  Landlæknir fjalli ekkert um það í afturköllun sinni hvort hún taki tafarlaust gildi eða hvort kærandi geti starfað sem sérfræðingur þar til úrskurðað verði um kæruna.  Óvissan sé mjög bagaleg fyrir kæranda og yfirmenn hans.  Kærandi telur því brýnt að fá úr því skorið hver staða hans sé meðan kæran sé til efnismeðferðar í ráðuneytinu. Þá kemur ennfremur fram í kæru að Læknafélag Íslands hafi skrifað embætti landlæknis tvö bréf þar sem tekið hafi verið undir þau sjónarmið að  kærandi haldi sérfræðileyfinu þar til úrskurðað hafi verið í málinu.

 

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í bréfi landlæknis til ráðuneytisins  dags. 13. október sl.  mælti embætti landlæknis ekki með  því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað.

Í bréfi landlæknis kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Embætti landlæknis afturkallaði sérfræðileyfi B, með bréfi dags. 27. september 2011, vegna þess að það taldi að ekki yrði hjá því komist. Landlæknir var sammála mati sérfræðinefndar um að B, hefði ekki uppfyllt skilyrði sérfræðileyfis er hann sótti um það, hvorki að því er varðar tímalengd né námsstað. Það var mat landlæknis að sú stjórnvaldsákvörðun að veita honum sérfræðileyfi í B hefði verið ólögmæt að efni til þar sem ekki hefðu verið uppfyllt skilyrði 5. gr. læknalaga nr. 53/1988 og reglugerðar nr. 305/1997.  Afturköllun sérfræðileyfis er íþyngjandi ákvörðun, en  að mati landlæknis vógu þyngra hagsmunir þeirra sem leita til starfandi sérfræðinga að geta treyst því að þeir hafi uppfyllt skilyrði þess að hljóta sérfræðiviðurkenningu.

Landlæknir taldi því að ekki yrði hjá því komist að afturkalla sérfræðileyfi B, skv. 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Embættið getur því  ekki mælt með því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.“

Þá kemur fram í bréfi landlæknis að í kæru komi fram að landlæknir hafi ekki „fjallað um það í afturköllunarbréfi sínu hvort afturköllunin tæki tafarlaust gildi.“  Það sé  mat embætti landlæknis að skýrt komi fram í áðurnefndu afturköllunarbréfi að sérfræðileyfið hafi verið afturkallað frá og með dagsetningu bréfsins.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Með vísan til 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það meginregla að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Undantekningu frá þeirri meginreglu er að finna í 2. mgr. þar sem segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því.  Tilgangur  þessarar heimildar er fyrst og fremst að koma í veg fyrir að aðili kærumáls verið fyrir réttarspjöllum eða tjóni meðan kæra er til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi.

Ákvörðun æðra stjórnvalds um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar byggir ávallt á heildstæðu mati á aðstæðum og þeim hagsmunum sem um er að ræða hverju sinni.  Hagsmunir kæranda af úrlausn málsins verða ekki dregnir í efa. Ráðuneytið telur þó að hagsmunir þeirra sem leita til lækna sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu vegi þyngra að geta treyst  því að  þeir sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu uppfylli skilyrði laga og reglugerða sem um það gilda. Ráðuneytið getur því ekki fallist á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa  á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ráðuneytið telur því með vísan til framanritaðs ekki réttlætanlegt í tilfelli kæranda að fresta réttaráhrifum afturköllunar landlæknis frá 27. september 2011 á sérfræðileyfi kæranda í B.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar embættis landlæknis frá 27. september 2011 er hafnað.

 

 

 

                                  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta