Málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli kærð
Ú R S K U R Ð U R
Með kæru, dags. 14. október 2011, kærði A, (hér eftir nefnd kærandi), til velferðarráðuneytisins málsmeðferð Embættis landlæknis vegna álitsgerðar dags. 25. júlí 2011, í kvörtunarmáli vegna greiningar, meðferðar og framkomu starfsfólks í tengslum við innlögn á taugalækningadeild Landspítalans og á Grensásdeild í maí 2010.
Kröfur
Kærandi kvartar yfir málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar sinnar, dags. 30. júní 2010, varðandi það að ekki hafi verið nægilega vel staðið að greiningu og meðferð og að framkomu starfsfólks í tengslum við innlögn á taugalækningadeild Landspítala og á Grensásdeild hafi verið ábótavant. Gerð er krafa um að ráðuneytið endurskoði málsmeðferð Embættis landlæknis í máli kæranda. Álitsgerð landlæknis er dags. 25. júlí 2011.
Málsmeðferð ráðuneytisins
Embætti landlæknis var með bréfi, dags. 20. október 2011, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna kærunnar. Greinargerð og gögn landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. nóvember 2011. Greinargerð embættisins ásamt gögnum var send kæranda með bréfi, dags. 15. nóvember 2011, og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda, bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 29. nóvember 2011, og var Embætti landlæknis með bréfi ráðuneytisins dags. 2, desember 2011, gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi dags. 5. desember 2011, tilkynnti Embætti landlæknis að það myndi ekki leggja fram frekari athugasemdir í máli kæranda.
Málavextir
Með bréfi, dags. 30. júní 2010, barst Embætti landlæknis kvörtun kæranda, þar sem óskað var eftir skýringum á greiningu og meðferð á taugalækningadeild Landspítalans á tímabilinu 5. til 20. maí 2010 í kjölfar heilablóðfalls þann 4. maí 2010. Þá var einnig kvartað yfir endurhæfingu sem fór fram á Grensásdeild en kærandi var þar til meðferðar frá 20. maí til 16. júlí 2010. Í kvörtun er óskað eftir því að Embætti landlæknis fari yfir sjúkrasögu kæranda í framangreindri legu og fái metið af óháðum aðila hvort allar greiningar og meðferð hafi verið í eðlilegu samhengi.
Embætti landlæknis óskaði með bréfi dags. 2. júlí 2010, eftir sjónarmiðum Landspítala svo og gögnum málsins. Gögn málsins bárust embættinu í lok september 2010 og við yfirferð landlæknis á gögnum málsins þótti kæruefnið ekki nægilega ljóst og var því óskað eftir frekari rökstuðningi frá kæranda með bréfi dags 9. nóvember 2010, varðandi hvaða vanræksla eða mistök hefðu átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu. Kærandi mun hafa óskað símleiðis eftir aðstoð embættisins varðandi rökstuðning, en telur að þeirri beiðni hafi verið hafnað.
Embætti landlæknis óskaði með bréfi, dags. 10. janúar 2011, eftir áliti B, læknis á Reykjalundi. Bréf kæranda til Embættis landlæknis dags. 8. febrúar 2011, var ennfremur sent til B. Með bréfi Embættis landlæknis til Landspítala, dags. 14. febrúar 2011, var óskað eftir hjúkrunargögnum svo að málið yrði sem best upplýst og bárust gögnin embættinu þann 21. febrúar 2011.Voru gögnin send B. Sérfræðiálit B, læknis barst Embætti landlæknis með bréfi dags. 23.mars 2011. Embætti landlæknis lauk málinu með áliti dags. 25. júlí 2011, sem sent var kæranda með bréfi dags. 26. júlí 2011.
Málsástæður og rök kæranda
Í kæru til ráðuneytisins, dags. 14. október 2011, kvartar kærandi yfir málsmeðferð Embættis landlæknis vegna kvörtunar dags. 30. júní 2010. Kvörtunin var vegna veittrar heilbrigðisþjónustu og taldi kærandi að ekki hefði verið nægilega vel staðið að greiningu og meðferð og að framkomu starfsfólks hafi verið ábótavant.
Umkvörtunarefni samkvæmt kæru dags. 14. október 2011, til ráðuneytisins eru eftirfarandi:
„A. Tíminn sem málið tók í heildina tel ég óeðlilega langan.
B. Engin aðstoð var veitt varðandi málið né viðtal á neinu stigi þess.
C. Tíminn frá því álit B, berst þar til embættið klárar málið er rúmlega 4 mánuðir.
D. Í áliti embættisins er vitnað í bréf A, og stendur: „Almenna reglan er að blóðþynning (eins og Heparín og Kóvar) er ekki gefin fólki eftir heilablóðfall nema fundist hafi segalind. Samkvæmt þekkingu í dag þá má ætla að blóðþynn(?)ing með Heparíni hefði ekki komið í veg fyrir endurtekið/útaukið heilablóðfall“. Þessi setning inniheldur engar upplýsingar en engu að síður er álit embættisins byggt á þessari setningu. Í mínum augum hefði hver sem er, jafnvel 9 ára barn, getað ritað þetta. Hvaða almenna regla og þekking er þetta sem álitið er byggt á? Ég get því miður ekki tekið svona rök sem sannleika í málinu án gagnrýni. Ég fer því fram á að embættinu verði gert skylt að gera grein fyrir hvaða þekking þetta er svo ég geti tekið afstöðu um framhald málsins. Athygli er vakin á því að ekki er verið að kvarta undan niðurstöðu heldur hvernig hún er fengin að hún er án rökstuðnings.
E. Þar sem málinu er lokið af hálfu embættisins áður en LSH hefur gert þær úrbætur sem lagt er til, er óskað eftir við ráðuneytið að það tryggi að málinu sé fylgt eftir með viðunandi hætti þar til LSH hefur svarað og klárað málið.
F. Það er alveg ljóst af minni hálfu að á mér var brotið. Landlæknisembættið leggur ekki neina kröfu á LSH að leiðrétta málið gagnvart mér né leiðbeinir mér um möguleika mína varðandi framhaldið. Enn og aftur tek ég fram að vegna veikinda minna er erfitt að standa í þessum málarekstri án aðstoðar og fjárhagur leyfir ekki útgjöld í þeim efnum.“
Athugasemdir kæranda við greinargerð landlæknis dags, 9. nóvember 2011, bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2011.
Í framangreindu bréfi kæranda er í fyrsta lagi gerðar athugasemdir við greinargerð Embættis landlæknis dags. 9. nóvember 2011 vegna óskar kæranda um aðstoð við rökstuðning. Samkvæmt landlækni liggi ekki fyrir upplýsingar í málsgögnum um slíka beiðni. Telur kærandi óeðlilegt að einungis sé unnt að hafa samskipti við embættið skriflega til að sanna mál sitt. Kæranda hafi aldrei verið bent á 7. gr. stjórnsýslulaga.
Í öðru lagi gerir kærandi athugasemdir við að landlæknir hafi óskað eftir afriti af hjúkrunargögnum til að málið yrði sem best upplýst, en ekki frá aðstandendum kæranda sem hafi gert hvað þeir gátu til að gæta hagsmuna kæranda.
Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemdir hvað varðar tímalengd málsins hjá landlækni. Í greinargerð landlæknis séu taldar upp nokkrar afsakanir sem kærandi telur að ráðuneytið þurfi að taka afstöðu til.
Í fjórða lagi hafi landlæknir fullyrt að kærandi hafi ekki viljað koma að efnislegum athugasemdum við sérfræðiálitið og því sé að mati landlæknis ekki ástæða til að endurupptaka mál kæranda. Kærandi bendir á að hún hafi ekki fengið sérfræðiálitið, það hafi ekki fylgt áliti landlæknis, en eingöngu sé vísað í það þar.
Þá segir í andmælabréfi kæranda:
„Ég fer fram á það við ráðuneytið að embætti landlæknis verði gert skylt að endurupptaka málið, sendi mér sérfræðiálitið og tryggja mér viðeigandi aðstoð til að meta hvort og hvaða athugsemdir ég þarf að gera varðandi það.“
Í fimmta lagi komi fram í greinargerð landlæknis að embættið biðjist velvirðingar á því að kærandi hafi ekki fengið sérfræðiálitið sent og kæranda gefið tækifæri til að kynna sér það.
Þá veltir kærandi því fyrir sér „hvort stofnanir ríkisins stundi það að biðjast afsökunar sín á milli í stað þess að horfast í augu við þann sem brotið er á og biðjast afsökunar þannig.“
Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis
Í greinargerð landlæknis dags. 9. nóvember 2011, er umfjöllunarefni kæru rakið, svo og umfjöllun embættisins um kvörtun kæranda, dags. 30. júní 2010. Vísast til greinargerðarinnar hvað þetta varðar.
Í greinargerð landlæknis kemur fram að í kæru til ráðuneytisins segi að óskað hafi verið eftir aðstoð landlæknis símleiðis við gerð rökstuðnings, en því hafi verið hafnað og kæranda synjað um viðtal varðandi málið. Þá segir í greinargerðinni að ekki liggi fyrir í gögnum landlæknis beiðni um slíka hjálp og því telji landlæknir ekki unnt að fjalla um það atriði. Aftur á móti muni kærandi hafa talað nokkrum sinnum við yfirlækni í síma svo og ritara landlæknis um sitt mál. Reynt sé að leiðbeina fólki sem leiti til landlæknis eftir aðstoð vegna kvartana skv. 7. gr. stjórnsýslulaga. Aftur á móti sé þeim sem hyggjast kvarta bent á að reyna að átta sig á hvort átt hafi sér stað mistök, vanræksla eða ótilhlýðileg framkoma starfsfólks og í hverju slíkt hafi falist.
Landlæknir hafi óskað eftir áliti B, læknis á Reykjalundi. Þá hafi verið óskað eftir afriti af gögnum hjúkrunar til að málið yrði sem best upplýst. Sérfræðiálit B, sé ítarlegt, alls 16 síður.
Af hálfu Embættis landlæknis sé bent á að í kæru komi ennfremur fram að langur tími hafi liðið frá því að sérfræðiálitið hafi borist landlækni og þar til embættið lauk málinu eða fjórir mánuðir. Æskilegt hefði verið að tíminn hefði verið styttri, en landlæknir bendir á að til meðferðar hjá embættinu sé fjöldi kvörtunarmála, sum hver viðamikil. Afgreiðsla slíkra mála sé því oft seinleg og taki lengri tíma en æskilegt sé og leita þurfi umsagnar utanaðkomandi aðila, til að mál séu vel upplýst áður en afgreiðslu þeirra lýkur. Þá tekur landlæknir undir með kæranda varðandi það að rétt hefði verið að senda kæranda sérfræðiálitið til kynningar, en það hafi því miður ekki verið gert fyrr en með áliti landlæknis, en í áliti landlæknis dags, 25. júlí 2011 sé ítarlega fjallað um kvörtun kæranda. Álitsgerðin hafið verið send kæranda og Landspítala með bréfi dags. 26. júlí 2011.
Niðurstaða
Kæran lýtur að málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar til embættisins, dags. 30. júní 2010. Kvörtunin beindist að Landspítala, deild B-2 taugalækningadeild, vegna greiningar og meðferðar sem kærandi hlaut á tímabilinu 5. til 20. maí 2010 í kjölfar heilablóðfalls þann 4. maí 2010. Þá var einnig kvartað yfir endurhæfingu sem fór fram á Grensásdeild frá 20. maí til 16. júlí 2010.
Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu , og segir þar í 5. og 6. mgr.:
„Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.
Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.“
Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga og 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu við meðferð málsins, en ekki er fjallað efnislega um kvartanir.
Ráðuneytið hefur farið yfir öll fyrirliggjandi gögn málsins svo og málsmeðferð Embættis landlæknis.
Í kæru dags. 14. október 2011, og bréfi kæranda dags. 29. nóvember 2011, kemur fram að Embætti landlæknis hafi ekki veitt kæranda aðstoð við rökstuðning kvörtunar.
Í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997 er kveðið á um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda. Samkvæmt ákvæðinu er stjórnvaldi skylt að leiðbeina og aðstoða þá sem til þess leita um þau málefni sem eru á starfssviði þess. Kærandi kvartar í kæru yfir því að engin aðstoð hafi verið veitt af hálfu landlæknis, en af bréfi kæranda, dags. 29. nóvember 2011, má ætla að óskað hafi verið símleiðis eftir aðstoð embættisins varðandi rökstuðning í kvörtunarmáli kæranda, en landlæknir hafi óskað með bréfi dags. 9. nóvember 2010, eftir rökstuðningi frá kæranda varðandi hvaða vanræksla eða mistök hefðu átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu á Landspítalanum í tilviki kæranda. Samkvæmt “Stjórnsýslulögin – Skýringarrit“ útgefnu 1994 kemur fram á bls. 92: „Veita ber aðila þær leiðbeiningar sem honum eru nauðsynlegar svo að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt.“
Í bréfi kæranda til landlæknis dags. 8. febrúar 2011 kemur fram rökstuðningur varðandi hvaða vanræksla eða mistök hefðu átt sér stað á Landspítalanum.
Í kæru og framangreindu bréfi kæranda, dags. 29. nóvember 2011, kemur fram að kærandi telur að tíminn sem málið tók hjá landlækni í heild hafi verið óeðlilega langur.
Í 9. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um málshraða. Þar kemur fram að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þar kemur og fram að stjórnvaldi beri að skýra málsaðila frá því ef fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast umfram það sem venjulega tekur að afgreiða sambærileg mál. Í slíkum tilfellum ætti að upplýsa eftir því sem kostur er hvenær úrlausnar er að vænta. Ljóst er að mörg mál eru þess eðlis að þau taka nokkurn tíma hjá stjórnvöldum, einkum mál þar sem afla þarf umsagna. Í máli kæranda verður ekki talið að úrlausn og álit landlæknis hafi tekið óeðlilega langan tíma, en eins og í ákvæðinu kemur fram skal það gert eins fljótt og kostur er. Í greinargerð Embættis landlæknis er gefin skýring á þeim töfum sem urðu á afgreiðslu máls kæranda. Ráðuneytið telur þó að landlæknir hefði átt að tilkynna kæranda um tafir við afgreiðslu málsins og upplýsa hvenær kærandi hefði mátt vænta niðurstöðu í málinu.
Þá koma fram í kæru og í bréfi kæranda til velferðarráðuneytisins, dags. 29. nóvember 2011, athugasemdir varðandi gagnaöflun Embættis landlæknis. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Eftir að hafa leitað umsagnar hjá Landspítala og aflað afrita af hjúkrunargögnum fór landlæknir þess á leit við óháðan sérfræðing að veita álit á meðferðinni sem kærandi hlaut á Landspítalanum og kvartað var yfir. Ráðuneytið gerir ekki athugasemdir við þann þátt málsins. Landlæknir gaf síðan út álitsgerð embættisins í máli kæranda dags. 25. júlí 2011.
Þá andmælir kærandi í bréfi, dags. 29. nóvember 2011, því sem fram kemur í greinargerð landlæknis, dags. 9. nóvember 2011, um að ekki komi fram í kæru að kærandi hefði viljað koma á framfæri efnislegum athugasemdum við sérfræðiálitið og því sé að mati Embættis landlæknis ekki ástæða til að endurupptaka málið. Í bréfi kæranda kemur og fram að sérfræðiálitið hafi aldrei borist kæranda til andmæla og að það hafi ekki fylgt álitsgerð landlæknis.
Í 13. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um andmælarétt aðila. Samkvæmt ákvæðinu á aðili máls rétt á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun. Með vísan til framanritaðs er ljóst að kæranda var ekki gefinn kostur á að koma að andmælum varðandi álit landlæknis áður en endanlegt álit var gefið út þann 25. júlí 2011.
Í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt skriflega skuli veita upplýsingar um kæruheimild, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Landlæknir upplýsti kæranda í bréfi, dags. 26. júlí 2011, um kæruheimild til ráðherra og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að aðila var tilkynnt um niðurstöðu máls.
Í kæru kemur fram að kærandi sé ekki að kvarta yfir niðurstöðu í álitsgerð Embættis landlæknis heldur hvernig hún sé fengin og telur að hún sé án rökstuðnings.
Í 4.- 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu eru gerðar ákveðnar formkröfur til álits landlæknis. Það skal vera skriflegt og skal embættið í áliti sínu tilgreina efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.
Í álitsgerð Embættis landlæknis er efni kvörtunar tilgreint svo og málsatvik. Þá telur ráðuneytið að Embætti landlæknis hafi fært rök fyrir niðurstöðu sinni einkum með vísan til sérfræðiálits B, læknis.
Endanlegt álit Embættis landlæknis dags. 25. júlí 2011 var tilkynnt með svohljóðandi bréfi til kæranda, dags. 26. júlí 2011:
„Í framhaldi af bréf þínu, dags, 30.06.2010, þar sem þú kvartar undan þjónustu sem þú fékkst á Landspítala-háskólasjúkrahúsi (LSH), hefur Landlæknisembættið haft mál þitt til skoðunar. Meðfylgjandi er álitsgerð Landlæknisembættisins.
Landlæknisembættið mun í framhaldi þessa máls senda álitsgerðina til faglegra yfirmanna LSH með ósk um að það verði skoðað hvaða lærdóm megi draga af þessu máli og verkferlar endurskoðaðir þar sem við á.“
Í niðurstöðu álitsgerðar landlæknis kom fram að ekki hafi átt sér stað mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu er kærandi var til meðferðar á Landspítalanum, en ýmislegt bendi þó til að margt hefði mátt betur fara í samskiptum starfsfólks Landspítalans og kæranda. Landlæknir hafi því talið rétt að beina til faglegra stjórnenda Landspítalans að endurskoða viðkomandi verkferla og starfsreglur.
Að mati ráðuneytisins eru ákvæði 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, um að tilgreina skuli efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu, og að aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits, uppfyllt í áliti landlæknis sem fram kemur í fyrrgreindum bréfum. Verður að telja að með lagaákvæðinu hafi ætlunin verið að mæla skýrt fyrir um málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum. Kæranda var aftur á móti ekki veittur andmælaréttur og gefinn kostur á að koma að athugasemdum varðandi álit landlæknis.
Þá telur velferðarráðuneytið að sá tími sem leið frá því að kvörtun barst landlækni með bréfi kæranda dags. 30. júní 2010 og þar til álit Embættis landlæknis barst kæranda með bréfi dags. 26. júlí 2011 hafi ekki verið of langur. Ráðuneytið telur þó að Embætti landlæknis hafi borið að veita kæranda andmælarétt og tilkynna kæranda um tafir og hvenær ætla hefði mátt að málinu lyki.
Þrátt fyrir framangreindar athugasemdir telur ráðuneytið að meinbugir á málsmeðferð Embættis landlæknis hafi ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins og því ekki ástæða til að vísa málinu til nýrrar meðferðar hjá Embætti landlæknis.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu kæranda, A, um endurskoðun máls hennar, er hafnað.