Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Stjórnsýslukæra vegna málsmeðferðar og álits Embættis landlæknis

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 001/2018

Fimmtudaginn 3. janúar 2018 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með tölvubréfi, dags. 29. september 2017, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins málsmeðferð Embættis landlæknis í kvörtunarmáli, en málinu lauk með útgáfu álits landlæknis dags. 19. september 2017.

I. Kröfur

Kærandi gerir þær kröfur að mál hans verði tekið til meðferðar að nýju.

 

II. Málsmeðferð ráðuneytisins

Kæran var send með bréfi ráðuneytisins, dags. 4. október 2017, til Embættis landlæknis og óskað umsagnar embættisins. Umsögnin barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 24. október 2017, ásamt gögnum. Kæranda var með bréfi, dags. 27. október 2017, send umsögn landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma með athugasemdir sem bárust með tölvubréfi, dags. 2. nóvember 2017.

III. Málavextir

Málavextir eru þeir að kærandi sendi kvörtun til landlæknis, dags. 29. júlí 2016, vegna skertrar eða engrar heilbrigðisþjónustu á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Að mati kæranda hafi starfsfólk deildarinnar sýnt kæranda mikinn hroka og ótilhlýðilega framkomu þegar hann leitaði þangað og svarað honum með skætingi og leiðindum. Kærandi sendi velferðarráðuneytinu kæru með tölvubréfi, dags. 3. september 2016, vegna frávísunar landlæknis, dags. 30. ágúst 2016 á kvörtun hans varðandi meðferð sem hann hlaut á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Í úrskurði ráðuneytisins nr. 015/2016, dags. 16. desember 2016, kemur fram það mat ráðuneytisins að um formlega kvörtun skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, hafi verið að ræða og hafi Embætti landlæknis því borið að taka erindi kæranda fyrir sem kvörtun en ekki sem athugasemd við veitingu heilbrigðisþjónustu skv. 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Var lagt fyrir embættið að taka kvörtun kæranda fyrir að nýju. Embætti landlæknis lauk málinu með áliti sem er dags. 19. september 2017.

 

IV. Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru kemur meðal annars fram að verið sé að kæra málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli kæranda sem lauk með útgáfu álits, dags. 19. september 2017. Hann sé búinn að bíða eftir álitinu frá því í janúar 2017 sem sé allt of langur tími. Þá krefjist kærandi þess að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar að nýju.

Embættið geti þess í áliti sínu að læknisfræðileg nálgun í málinu sé ekki kæranleg til ráðuneytisins; kærandi skilji ekki af hverju og velti fyrir sér hvert hann geti þá kært efnislega niðurstöðu.

Þá kvartar kærandi einnig undan starfsháttum læknanna B og C.

Einnig bendi kærandi á að hann sé ekki að fá neina heilbrigðisþjónustu á Landspítalanum í dag og finnist það sárt. Fram til ársins 2008 hafi hann fengið góða aðstoð og hjálp en eftir að B og C tóku við honum hafi öll meðferð hans breyst til hins verra.

Taka þurfi málið fyrir í heild sinni því að það hafi að mati kæranda ekki verið gert. Hann hafi verið að berjast fyrir því að fá hjálp á geðsviði Landspítala og slysa- og bráðamóttöku. Í áliti landlæknis sé slysa- og bráðamóttakan og viðmót starfsfólks einungis tekið til efnislegrar meðferðar.

Í andmælum kæranda, sem bárust ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 2. nóvember 2017, kemur fram að hann telji mál sitt þríþætt. Í fyrsta lagi sé engin aðstoð veitt á geðsviði Landspítala. Í öðru lagi mæti hann hroka, leiðindum og lítilsvirðingu þegar hann leiti eftir meðferð á bráðamóttöku í Fossvogi og að lokum snúist málið um margvísleg brot lækna á geðsviði Landspítala. Kærandi mótmæli því að einungis sá hluti máls hans er snúi að slysa- og bráðamóttöku spítalans sé tekið fyrir en ekki allt málið í heild. Þá telur kærandi að allt kerfið hafi sýnt sér mjög mikla lítilsvirðingu.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis

Í bréfi Embættis landlæknis, dags. 24. október 2017, vegna kærunnar kemur fram að óskað hafi verð eftir umsögn embættisins en ekki sé talið tilefni til frekari umsagnar vegna hennar. Embættið sendi gögn vegna málsmeðferðar í málinu. Í bréfi landlæknis, dags. 20. janúar 2017, var kæranda tilkynnt um nýja málsmeðferð í kjölfar úrskurðar ráðuneytisins, dags. 16. desember 2016, um að kvörtun kæranda félli undir 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Í áliti landlæknis, dags. 19. september 2017, er efni kvörtunar og aðdragandi rakinn svo og málsmeðferð landlæknis.

Í ljósi niðurstöðu úrskurðar ráðuneytisins, dags 16. desember 2016, var óskað eftir greinargerð Landspítala með bréfi, dags. 20. janúar 2017, og gefinn frestur til að skila henni til 31. mars sama ár. Beiðni embættisins var ítrekuð með bréfi dags. 25. apríl 2017. Þá var kærandi upplýstur um að þegar öll gögn lægju fyrir sem landlæknir teldi nauðsynleg yrði farið yfir þau. Þá yrðu öll gögn málsins send málsaðilum og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum áður en landlæknir gæfi út álit í málinu.

Kærandi hafi með tölvubréfi til ráðuneytisins, dags. 21. apríl 2017, óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins. Hafi ráðuneytið með bréfi til Embættis landlæknis, dags. 24. apríl 2017, farið fram á, með vísan til óska kæranda, að embættið upplýsti hann um stöðu málsins.

Með bréfi Landspítalans, dags, 9. maí 2017, barst greinargerð spítalans. Með greinargerðinni fylgdu ýmis gögn. Kom þar fram að vegna annríkis hafi dregist að svara erindi landlæknis og beðist velvirðingar á því. Þar sem mál kæranda hafi með úrskurði verið fært í farveg formlegs kvörtunarmáls sé fjallað um það í greinargerðinni sem slíkt. Embættinu hafi verið sent afrit sjúkraskrár kæranda er mál þetta varðar.

Greinargerð Landspítala ásamt gögnum var send kæranda með bréfi embættisins, dags. 15. maí 2017, til kynningar ásamt sjúkragögnum og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Bárust landlækni athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 8. júní 2017. Þar rekur kærandi meðal annars erfið samskipti sín við starfsfólk Landspítala. Honum sé sýnd vanvirðing og hroki. Hann fái enga hjálp þar eins og lög mæli fyrir um. Kærandi kvartar yfir meintu harðræði við innlagnir á geðdeild á árunum 2008 og 2009 og síðan ófullnægjandi þjónustu á slysa- og bráðadeild.

Andmæli kæranda voru send Landspítala með bréfi, dags. 28. júní 2017, en frekari athugasemdir bárust ekki frá Landspítala.

Í rökum landlæknis fyrir niðurstöðu sinni kemur meðal annars fram að skv. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, sé heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá sé notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

Landlæknir hafi upplýst kæranda um að það sé ekki á forræði hans að hlutast til um meðferð sjúklinga. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að málið varði kvörtun, dags. 29. júlí 2016, þar sem kvartað sé undan slysadeild Landspítala en ekki geðsviði. Sé í því sambandi vísað til úrskurðar velferðarráðuneytisins, dags. 16. desember 2016.

Leggja þurfi mat á hvort vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu þegar kærandi hafi leitað til slysadeildar Landspítala 28. júlí 2016. Þá hafi kvörtunin einnig beinst að meintri ótilhlýðilegri framkomu starfsfólks Landspítala. Niðurstaða landlæknis eftir skoðun gagna málsins hafi verið sú að móttaka og skoðun á kæranda á bráðamóttöku Landspítala 28. júlí 2016 hafi verið eðlileg og innan ramma góðrar læknisfræði. Ekki verði séð að um vanrækslu hafi verið að ræða. Hvað varði meinta ótilhlýðilega framkomu starfsfólks geti landlæknir ekki um það dæmt þar sem ekki liggi fyrir myndbandsupptökur; ávirðingar kæranda verði því ekki staðfestar.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins

Í 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, er tilgreint hvenær heimilt sé að beina formlegri kvörtun til landlæknis. Ef um athugasemdir vegna þjónustu sé að ræða skuli beina þeim til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar skv. 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997. Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð geti hann beint kvörtun til landlæknis skv. 2. mgr. 28. gr. laganna.

Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni. Í 6. mgr. 12. gr. er kveðið á um kæruheimild en þar segir: Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra. Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við á og ákvæðum 12. gr. laga um landlækni við meðferð málsins en ekki er fjallað efnislega um kvartanir.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

Í 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, segir:

  • Athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun skal beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar.

  • Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun til landlæknis.

  • Starfsmönnum heilbrigðisstofnunar er skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun. Enn fremur er stjórn heilbrigðisstofnunar skylt að taka til athugunar ábendingar starfsmanna sem telja að réttur sjúklinga sé brotinn.

  • Sjúklingur skal fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum eins fljótt og auðið er.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kvörtun kæranda til landlæknis, dags. 29. júlí 2016, varðar meinta vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu sem og meinta ótilhlýðilega framkomu við veitingu heilbrigðisþjónustu á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og er hún sett fram á eyðublaði sem ber yfirskriftina „Kvörtun til landlæknis“.

Embætti landlæknis tók kvörtunina til nýrrar meðferðar í ljósi úrskurðar velferðarráðuneytisins, nr. 015/2016, dags. 16. desember 2016, en álit landlæknis er dags. 19. september 2017.

Ráðuneytið hefur farið yfir öll gögn málsins og málsmeðferð Embættis landlæknis. Kærandi gerir athugasemd við málshraða skv. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bréf landlæknis þar sem óskað er eftir greinargerð Landspítala er dags. 20. janúar 2017. Með bréfi Embættis landlæknis, dags. 25. apríl 2017, til framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala er beiðni embættisins um greinargerð ítrekuð. Greinargerð Landspítala er dags. 9. maí. 2017, en samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar eins fljótt og kostur er. Ekki verður af gögnum málsins ráðið að um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu málsins hafi verið að ræða af hálfu Embættis landlæknis. Í málinu liggur fyrir að Landspítali skilaði greinargerð rúmum þremur mánuðum eftir að ósk um það barst frá landlækni. Í greinargerð spítalans er beðist velvirðingar á þeim drætti sem varð sem hafi verið vegna anna og telur ráðuneytið að Landspítali hafi gefið viðhlítandi skýringu.

Í bréfi landlæknis til kæranda, dags. 15. maí 2017, kemur fram að embættið hafi upplýst kæranda ítrekað um stöðu málsins. Að mati ráðuneytisins verður ekki séð að sá dráttur sem varð á afgreiðslu embættisins og spítalans geti talist brot á 9. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til fyrirliggjandi gagna og upplýsinga telur ráðuneytið að málsmeðferð Embættis landlæknis hafi verið í samræmi við  ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt og ákvæði 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á kröfu A um að taka málið til meðferðar að nýju. Málsmeðferð Embættis landlæknis við útgáfu álits, dags. 19. september 2017, vegna kvörtunar kæranda er því staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta