Stjórnsýslukæra vegna málsmeðferðar Embættis landlæknis
Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 016/2015
Mánudaginn 30. september 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með bréfi, dags. 22. nóvember 2014, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), málsmeðferð Embættis landlæknis vegna kvörtunar hans, dags. 15. júní 2009, vegna veittrar heilbrigðisþjónustu.
I. Kröfur.
Kærandi kærir málsmeðferð Embættis landlæknis í kvörtunarmáli hans frá árinu 2009, sem lauk með áliti, dags. 30. september 2014, á kvörtun hans vegna meintra mistaka, annars vegar við krossbandaaðgerð á vinstra hné sem framkvæmd var 31. október 2007 í X af B og C bæklunarlæknum og hins vegar í eftirmeðferð hjá D, sjúkraþjálfara í X.
Kærandi telur að um brot á 3. og 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sé að ræða, sbr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Kærandi krefst þess að E og F verði úrskurðaðir vanhæfir á grundvelli 6. mgr. 3. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Þá krefst kærandi þess að málinu verði vísað á ný til Embættis landlæknis og því gert að fá nýja umsagnaraðila fyrir sjúkraþjálfunarmeðferðina og gefa út nýtt álit. Þá fer kærandi fram á að F fái ámæli fyrir brot í starfi.
II. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytisins.
Ráðuneytið óskaði með bréfi dags. 27. nóvember 2014, eftir umsögn um kæru, dags. 22. nóvember 2014, og barst hún með bréfi, dags. 12. desember 2014. Kæranda var með bréfi, dags. 16. desember 2014, gefinn kostur á að koma að athugasemdum varðandi umsögn embættisins og barst ráðuneytinu bréf kæranda, dags. 31. janúar 2015, þar sem fram kemur að hann hafi ekki komið að frekari athugasemdum, ekki heyrt frá ráðuneytinu um framhald málsins og óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins og hvenær niðurstöðu sé að vænta. Ráðuneytið svaraði kæranda með tölvupósti, dags. 4. febrúar 2015, þar sem kærandi var upplýstur um að málið væri í vinnslu en ekki væri unnt að upplýsa hvenær niðurstöðu væri að vænta, en muni senda upplýsingar um það eins fljótt og kostur er. Með tölvupósti, dags. 6. mars 2015, ítrekaði kærandi fyrirspurn sína um stöðu málsins og með svari ráðuneytisins, dags. 10. mars 2015, var kærandi upplýstur um að málið væri tilbúið til úrskurðar í ljósi þess að kærandi hefði upplýst að hann hefði ekki í hyggju að koma að frekari athugasemdum.
Upphaflegu kvörtunarmáli kæranda til Embættis landlæknis, frá 12. febrúar 2009, á meintum mistökum í krossbandaaðgerð í X árið 2007, var lokið með álitsgerð, dags. 22. nóvember 2011, en málsmeðferð embættisins var kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 19. janúar 2012. Samkvæmt úrskurði velferðarráðuneytisins frá 30. ágúst 2012, var kvörtunarmálinu vísað aftur til embættisins til útgáfu nýs álits í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í úrskurðinum. Embætti landlæknis lauk málinu með nýju áliti, dags. 30. september 2014. Kærandi kærði með bréfi, dags. 22. nóvember 2014, þá seinni málsmeðferð Embættis landlæknis.
III. Málsástæður kæranda.
Í kæru er forsaga málsins rakin ítarlega og er vísað til þess sem fram kemur þar.
Kærandi telji að Embætti landlæknis hafi við meðferð málsins brotið 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um vanhæfisástæður. Taki kærandi fram að efast megi sterklega um hlutleysi E, sbr. eftirfarandi sem fram kemur í kæru:
1. Hann ályktar augljóslega ranglega frá sex æfingarprógrömum að æfingar byrji almennt 4 vikum eftir aðgerð. Það, ásamt því hann svarar ekki athugasemdum mínum við það, sýnir meiriháttar óhlutleysi.
2. Hann ályktar að ég hafi fundið upp á því sjálfur að byrja á æfingunum aðeins 8 dögum eftir aðgerð, þó að greinargerð meðferðarferðaraðilans [svo], fyrirlestrarglærur og tölvupóstar sjúklinga sýni að æfingarnar voru að ráði sjúkraþjálfarans.
3. Hann tekur orðum meðferðaraðila um góðan árangur eigin aðgerða trúanlegum [svo] og notar sem rökstuðning um að meðferðin hafi verið rétt.
4. Hann segir að „vandséð er hversu mikið vit er í því“ að fylgja langtímaprógrami á sama tíma og hann vitnar í mörg slík og skrifa upp slíkt prógram á bls. 5-6.
5. Hann segir að þar sem ég var í íþróttum þá hafi mér verið treyst að gera æfingarnar sjálfur, á sama tíma og G telji það ámælisvert að sjúkraþjálfunin hafi einfaldlega hætt án þess að öruggt væri um áframhald.
6. Hann hunsar fjölda fræðigreina og kennslubóka sem ég hef lagt fram og gefa sérlega til kynna að meðferðin hafi verið röng.
Athugið að gagnrýni mín hefur ekkert með sjúkraþjálfun að gera heldur almenna skynsemi.“
Þá telji kærandi að F sé vanhæfur og að eftirfarandi sýni sterklega að efast megi um hlutleysi hans, sbr. það sem fram komi í kæru:
1. F lítur framhjá sérfræðingsáliti G og byggir niðurstöðurnar á fullyrðingum læknis sem kvartanir mínar beinast gegn. F er augljóslega að fela harða gagnrýni G á meðferðina í niðurstöðunum, þ.á.m.
a. að ámælisvert hafi verið að reyna ekki meðhöndlun án skurðaðgerðar
b. lýsingar á hvernig krossbandið var rangt staðsett vantar svo að „mekaníkin verður ekki rétt“ og „þjálfun verður ekki möguleg“
c. að mikilvægt hefði verið að fylgja sjúklingi nokkuð betur eftir, og „ábótavant hvað varðar að fylgja sjúklingi eftir, bæði stuttu eftir aðgerð og einnig fleiri mánuði eftir aðgerð“
d. að ekki var hugað að því hvers vegna árangur lét á sér sanda
e. að ámælisvert hafi verið að „sjúkraþjálfun hafi einfaldlega hætt, án þess að öruggt væri um framhald“
f. í bréfi G á sænsku kemur fram að hann skilji athugasemdir mínar mjög vel varðandi æfingarnar og leggur til að mjög fær sjúkraþjálfari verið fenginn til að dæma um það.“
Jafnframt telji kærandi að F hafi hvorki sýnt viðleitni til að upplýsa málið né fá svör við athugasemdum kæranda. Í fyrri úrskurði ráðuneytisins hafi verið tekið undir fullyrðingar kæranda um fjölda rangfærslna, órökstuddra fullyrðinga og óhlutleysi í umsögnunum. Þá hafi F ekki minnst á mikilvægar staðreyndir sem fram komi í samantekt og fylgiskjölum kæranda.
Þá telji kærandi að um brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sé að ræða. Í bréfi G, dags. 29. ágúst 2013, sé lagt til að fenginn verði fær sjúkraþjálfari til að gefa álit sitt, sem G hafi talið að benti til að umfjöllun um kvartanir kæranda um sjúkraþjálfunina hafi verið ófullnægjandi og að þar með sé um að ræða brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
Loks telji kærandi að um sé að ræða brot á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, en í áliti Embættis landlæknis komi ekki fram kvörtunarefni kæranda. Þá séu málsatvik ekki tilgreind í álitinu og ekki komi heldur fram nafn aðalaðgerðarlæknis sem kvartað sé yfir. Í álitinu sé ekki heldur fjallað um flestar kvartanir kæranda og vanti því rökstuðning fyrir niðurstöðu um þær. Einnig vanti mikilvægar niðurstöður í sérfræðiálit G í umfjöllun og niðurstöðu álits embættisins.
IV. Málsástæður Embættis landlæknis.
Í umsögn Embættis landlæknis um kæru kemur meðal annars fram að í kvörtunarmálinu hafi verið gerð ítarleg grein fyrir málsmeðferð embættisins í áliti, dags. 30. september 2014, og sé vísað til þeirrar umfjöllunar.
Í framangreindu áliti kemur fram að með bréfi kæranda til embættisins, dags. 5. nóvember 2012, hafi verið lögð fram ítarleg samantekt vegna krossbandaaðgerðarinnar í X í október 2007. Þar koma fram athugasemdir við aðdraganda aðgerðarinnar, framkvæmd hennar af hálfu B og sjúkraþjálfun sem kærandi hlaut í kjölfarið. Kærandi hafi talið að rangfærslur séu í sjúkraskrá B, meðal annars hvað varði stöðugleika í hné fyrir aðgerð og bólgu og ráðleggingar sem kærandi hafi fengi hjá B. Þá hafi fylgt myndir og annað efni til útskýringa.
Embættið hafi aflað nýrra umsagna tveggja óháðra sérfræðinga í samræmi við úrskurð ráðuneytisins. Þá hafi G, yfirlæknir við bæklunardeild Z sjúkrahússins og prófessor í bæklunarlækningum við Háskólann í Y, verið beðinn með bréfi, dags. 12. desember 2012, um umsögn vegna kvörtunarinnar og er greinargerð G dagsett 30. júní 2013. Þar komi meðal annars fram að í stað aðgerðar árið 2007, sem ekki hafi verið sterk ábending fyrir hefði átt að reyna frekar sjúkraþjálfun. Krossbandaaðgerðin hafi verið framkvæmd með þeim hætti er tíðkaðist árið 2007. Staðsetning krossbandsins í aðgerð árið 2007 hafi ekki verið sem best og líklega meginvandi kæranda. Hvað varði sjúkraþjálfun eftir aðgerð hafi árangur látið á sér standa og mikilvægt að hugað hefði verið að hvers vegna svo var. Hefðu læknir og sjúkraþjálfari þurft að funda og óska eftir hjálp reyndari lækna og sjúkraþjálfara. Hafi G talið að þetta hefði mátt betur fara og að samskipti hefðu mátt vera betri og örari. Ferlinu eftir aðgerð hafi verið ábótavant hvað eftirfylgni varði, bæði stuttu eftir aðgerð svo og þegar lengra var liðið frá aðgerð.
Fylgikvillar og frekari aðgerðir séu afleiðingar þess að sinar hafi verið teknar fá aftanverðu læri til að framkvæma krossbandaaðgerðina árið 2007. Slíkir fylgikvillar séu þó mjög óvenjulegir. G komist að þeirri niðurstöðu að meginvandi kæranda liggi í staðsetningu krossbandsins í aðgerðinni árið 2007.
Þá hafi E, B.Sc., M.Sc., sérfræðingur í bæklunarsjúkraþjálfun og starfandi sjúkraþjálfari við Þ í Reykjavík, verið beðinn um umsögn í málinu með bréfi embættisins, dags. 10. janúar 2013, sem barst embættinu með bréfi, dags. 2. febrúar 2013.
Í niðurstöðu E komi meðal annars fram að ekki sé unnt að segja að aðferðir D, sjúkraþjálfara í X, við endurhæfingu kæranda hafi verið byggðar á mistökum eða vanrækslu. Um hafi verið að ræða aðferðir er hún hafi beitt í fjölda ára með góðum árangri. Erfitt sé að benda á eða tímasetja hugsanlegan skaða við æfingarnar hjá henni. Hún hafi varað við því að mótstöðuæfingar væru gerðar of snemma. Ekki sé um að ræða eina rétta aðferð sem allir séu algjörlega sammála um. Að mati E sé því ekki unnt að kenna D um að kærandi hafi byrjað að gera mótstöðuæfingar of snemma, Þar standi orð gegn orði. Þó megi gagnrýna sambandsleysi meðferðaraðila og takmarkaðar upplýsingar frá lækni um hugsanlega fylgikvilla eftir aðgerð. Að öllu virtu telji hann að fagmannlega hafi verið staðið að sjúkraþjálfuninni og endurhæfingaráætlunin hafi verið í samræmi við það sem almennt tíðkast. Ekki sé að hans mati unnt að sýna fram á að ætlað ofálag hafi orsakað skaða á vefjum þegar kærandi hafi verið undir handleiðslu D, en verulegar grunsemdir vakni hins vegar um að mistök hafi orðið í aðgerðinni árið 2007.
Umsögn E var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, og bárust athugasemdir hans til embættisins með bréfi, dags. 12. ágúst 2013. Þá var umsögn G send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. júlí 2013, og honum gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og athugasemdum. Bárust embættinu athugasemdir hans með bréfum, dags. 12. ágúst og 20. ágúst 2013. Athugasemdir kæranda voru sendar G sem svaraði með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, þar sem fram kom að hann teldi athugasemdir kæranda ekki breyta umsögn sinni.
Framangreindar umsagnir óháðu sérfræðinganna voru einnig sendar B og D með bréfum, dags. 20. desember 2013, og þeim gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og athugasemdum við umsagnirnar og bárust svör með bréfi, dags. 6. janúar 2014, frá B og bréfi, dags. 22. janúar 2014, frá D og voru þau kynnt fyrir óháðu sérfræðingunum með bréfum embættisins, dags. 31. janúar 2014. Engar athugasemdir bárust og standa því umsagnir hinna óháðu sérfræðinga óbreyttar. Kæranda voru send framangreind bréfasamskipti til kynningar.
Í ljósi umsagna óháðu sérfræðinganna sé það mat Embættis landlæknis vandséð að B hafi orðið á mistök í aðgerð sem hann framkvæmdi 31. október 2007 á kæranda.
Þá telji Embætti landlæknis ekki á sínu færi að skera úr um réttmæti fullyrðinga kæranda um rangfærslur í gögnum málsins. Að mati embættisins hafi kærandi fengið á sínum tíma, þ.e. árið 2007, þá heilbrigðisþjónustu sem hafi verið í samræmi við viðurkennda læknisfræði og sjúkraþjálfun. Þá sé það niðurstaða embættisins að hvorki mistök né vanræksla hafi orðið við veitingu heilbrigðisþjónustu í máli kæranda í aðgerðinni þann 31. október 2007 og sjúkraþjálfun í kjölfarið.
V. Niðurstaða velferðarráðuneytisins.
Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.
Í 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er fjallað um kvörtun til landlæknis. Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.
Í ákvæðinu er sérstaklega tekið fram að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá kemur og fram að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir síðan út skriflegt álit þar sem tilgreina skal efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu hans og draga saman aðalniðurstöðu í lok álits. Þá er sérstaklega tekið fram í lok ákvæðisins að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðherra. Í ákvæðinu eru settar fram sérreglur um meðferð kvartana til landlæknis. Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga og 12. gr. laga um landlækni við meðferð málsins, en ekki er fjallað efnislega um kvartanir.
Í úrskurði sínum, dags. 30. ágúst 2012, taldi ráðuneytið að 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu kvæði skýrt á um að aflað skuli umsagnar frá „óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð“.
Það var því mat ráðuneytisins með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram komu í úrskurðinum að líta yrði eftir atvikum til þeirra sjónarmiða sem leiða af óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um hæfi starfsmanna í stjórnsýslu við beitingu hinnar lögbundnu skyldu landlæknis skv. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu við val á óháðum sérfræðingi.
Þá var það enn fremur mat ráðuneytisins að líta yrði svo á að H hefði, á þeim tíma þegar beiðni landlæknis um umsögn í máli kæranda hafi borist til hans, haft þau tengsl við X sem valdið gæti vanhæfi hans, en hann hafði sagt upp leigusamningi sínum þann 11. september 2009 og flutt úr starfsaðstöðu sinni í október 2009. Beiðni landlæknis um umsögn í máli kæranda var dagsett þann 27. ágúst 2009.
Ráðuneytið gat því fallist á að um mögulegt vanhæfi H læknis, á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga gæti verið að ræða. Þá taldi ráðuneytið í ljósi ásakana kæranda um „fjölda rangfærslna, órökstuddra fullyrðinga, og sýnt óhlutleysi í umsögnum þeirra um mál“ nauðsynlegt að embættið aflaði nýrra umsagna frá óháðum sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum og umsagnar frá óháðum sjúkraþjálfara sem hefur hlotið sérfræðileyfi í bæklunarsjúkraþjálfun. Þá taldi ráðuneytið mikilvægt að öll fyrirliggjandi gögn málsins yrðu send þeim sérfræðingi og sjúkraþjálfara sem fengnir yrðu til að vinna nýjar umsagnir.
Með hliðsjón af framangreindum athugasemdum og sjónarmiðum beindi ráðuneytið því til Embættis landlæknis að gefa yrði út rökstutt álit í máli kæranda þar sem gætt yrði að formkröfum 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Jafnframt að málið yrði rannsakað frekar og tekið á málsástæðum kæranda í áliti. Þá yrði jafnframt gætt að ákvæðum 3., 7. og 10. gr., 2. mgr. 20. gr., 22., og 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Embætti landlæknis gaf út nýja álitsgerð þann 30. september 2014.
Kærandi telur Embætti landlæknis hafa við meðferð málsins brotið 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um vanhæfisástæður og að efast megi sterklega um hlutleysi E eins og fram kemur í kafla III hér að framan.
Að mati ráðuneytisins skal við beitingu hinnar matskenndu hæfisreglu 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. gera þá kröfu að viðkomandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta við úrlausn máls. Má þar nefna ágóða, tap eða óhagræði. Þá þurfi að skoða hagsmuni venslamanna og annarra sem eru í nánum tengslum við starfsmann og telja verði líklegt að það geti haft áhrif á hann. Þá verði að meta hvort hagsmunir séu verulegir eða einstaklegir og hvernig þeir tengist starfsmanninum.
Umsögn E er faglegt mat óháðs sérfræðings sem embættið aflaði. Ekki verður af umsögn hans ráðið að hann hafi haft einstaklegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins og getur ráðuneytið því með hliðsjón af gögnum málsins ekki fallist á að E sé vanhæfur á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga til að gefa álit óháðs sérfræðings.
Þá telur kærandi að F sé vanhæfur; að hann hafi litið framhjá sérfræðingsáliti G og byggt niðurstöðurnar á fullyrðingum læknis sem kvartanir kæranda beinast gegn. F sé augljóslega að fela harða gagnrýni G á meðferðina í niðurstöðunum.
Ráðuneytið getur ekki fallist á að þær ástæður sem kærandi telur að valdi vanhæfi F uppfylli skilyrði 3. gr. stjórnsýslulaga um vanhæfi og séu því ekki til staðar ástæður sem leiða eigi til að F fái ámæli fyrir brot í starfi.
Þá telur kærandi að F hafi hvorki sýnt viðleitni til að upplýsa málið né fá svör við athugasemdum kæranda.
Ráðuneytið telur að Embætti landlæknis hafi við meðferð málsins gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Aflað hafi verið umsagna óháðra sérfræðinga bæði sérfræðings í bæklunarsjúkraþjálfun svo og sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, en fyrir liggur í málinu mikill fjöldi gagna. Rakin eru í áliti landlæknis niðurstöður framangreindra óháðra sérfræðinga.
Í umsögn G kemur fram að aðgerðin sem framkvæmd var árið 2007 hafi verið framkvæmd með þeim hætti er þá tíðkaðist, en aðferðir miðað við árið 2013 hafi breyst nokkuð. Ráðuneytið telur því að embættið hafi upplýst málið hvað það varðar og fengið svör við athugasemdum kæranda.
Að mati ráðuneytisins verði ekki séð að kærandi hafi ekki á árinu 2007 fengið heilbrigðisþjónustu í samræmi við viðurkennda læknisfræði og sjúkraþjálfun er þá tíðkaðist. Ekki er að mati ráðuneytisins unnt að bera saman heilbrigðisþjónustu sem veitt var árið 2007 saman við þá þjónustu sem veitt sé í dag.
Ráðuneytið getur því ekki fallist á að F hafi litið framhjá niðurstöðum í sérfræðiálitum sem aflað var við vinnslu álits Embættis landlæknis.
Þá telur kærandi að um brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sé að ræða. Í bréfi G, dags. 29. ágúst 2013, hafi verið lagt til að fenginn yrði fær sjúkraþjálfari til að gefa álit sitt, sem G hafi talið að benti til að umfjöllun um kvartanir kæranda um sjúkraþjálfunina hafi verið ófullnægjandi og að þar með sé um að ræða brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
Ráðuneytið telur að embættið hafi farið að ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga við rannsókn málsins. Aflað hafi verið umsagnar bærs sjúkraþjálfara sem sé sérfræðingur í bæklunarsjúkraþjálfun.
Loks telji kærandi að um sé að ræða brot á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, en í áliti Embættis landlæknis komi ekki fram kvörtunarefni kæranda. Þá séu málsatvik ekki tilgreind í álitinu og ekki komi heldur fram nafn aðalaðgerðarlæknis sem kvartað sé yfir. Í álitinu sé ekki heldur fjallað um flestar kvartanir kæranda og vanti því rökstuðning fyrir niðurstöðu um þær. Einnig vanti mikilvægar niðurstöður í sérfræðiálit G í umfjöllun og niðurstöðu álits embættisins.
Eins og fram kemur í niðurstöðu fyrri úrskurðar ráðuneytisins, var lagt fyrir embættið að gefa yrði út rökstutt álit í máli kæranda þar sem gætt yrði að formkröfum 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og að málið yrði rannsakað frekar og tekið á málsástæðum kæranda í nýju áliti. Þá yrði jafnframt gætt að ákvæðum 3., 7. og 10. gr., 2. mgr. 20. gr., 22., og 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Í áliti landlæknis er efni kvörtunar kæranda og málsmeðferð rakin og hefur ráðuneytið ekkert við það að athuga. Kvörtunarefni kæranda koma hins vegar hvorki fram né er fjallað sérstaklega um þau og vantar því að mati ráðuneytisins að niðurstaða álitsins sé nægilega rökstudd. Þá eru málsatvik ekki sérstaklega tilgreind og auk þess vantar að geta um aðalaðgerðarlækni sem kvartað er yfir.
Eins og vikið er að hér að framan er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meðal annars meintrar vanrækslu eða mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit, sbr. 5. mgr. 12. gr. laganna. Þótt álit landlæknis sé úrlausn stjórnvalds í ákveðnu og fyrirliggjandi máli sem kann að hafa verulega þýðingu fyrir þann sem eftir því leitar, og eftir atvikum viðkomandi heilbrigðisstarfsmann sem álitið lýtur að, er ekki um að ræða stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ber þá einkum að hafa í huga að niðurstaða landlæknis í kvörtunarmáli kveður ekki með bindandi hætti á um rétt og skyldur manna. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 fer þó um meðferð kvartana að öðru leyti en tilgreint er í þeirri grein eftir ákvæðum stjórnsýslulaga „eftir því sem við getur átt“. Þar að auki gilda óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar við meðferð kvartana skv. 12. gr. laga nr. 41/2007.
Með tilvísun til stjórnsýslulaga í 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 er gert ráð fyrir að ákvæði þeirra laga skuli gilda um málsmeðferð kvörtunarmála til landlæknis þar sem sérstökum ákvæðum 12. gr. laganna sleppir. Verður því að mati ráðuneytisins almennt að ganga út frá því að málsmeðferðar- og efnisreglur laganna gildi að jafnaði um þessi mál. Má þar nefna ákvæði II. kafla um sérstakt hæfi, III. kafla um almennar reglur og IV. kafla um andmælarétt. Er hér um að ræða ákvæði 3.–19. gr. stjórnsýslulaganna eftir því sem við getur átt. Af 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 verður á hinn bóginn ráðið að ekki er sjálfgefið að þetta eigi við um öll ákvæði stjórnsýslulaga. Verður hér að hafa í huga að álit landlæknis hefur ekki bindandi réttaráhrif fyrir aðila máls um rétt þeirra og skyldur.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að Embætti landlæknis hafi við meðferð málsins ekki farið að öllum framangreindum tilmælum ráðuneytisins og þeim sjónarmiðum sem fram komu í úrskurði, dags. 30 ágúst 2012. Má þar einkum nefna ákvæði 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu varðandi rök fyrir niðurstöðu, tilgreiningu kæruefnis og málsatvik.
Ráðuneytið telur því með vísan til framanritaðs ástæðu til að vísa málinu til nýrrar meðferðar hjá Embætti landlæknis.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli A er vísað til nýrrar meðferðar hjá Embætti landlæknis.